Hæstiréttur íslands

Mál nr. 144/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Riftun
  • Vanreifun


                                     

Mánudaginn 9. mars 2015.

Nr. 144/2015.

Þrotabú HK húseigna ehf.

(Benedikt Ólafsson hrl.)

gegn

VBS eignasafni hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Vanreifun.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu sem þrotabú H ehf. lýsti við slit V hf. á þeim grundvelli að málið væri ekki tækt til efnismeðferðar vegna vanreifunar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2015, þar sem hafnað var kröfu sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að málinu verði „á ný vísað til héraðsdóms sem taki það til efnislegrar meðferðar um kröfu sóknaraðila“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú HK húseigna ehf., greiði varnaraðila, VBS eignasafni hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2015.

                Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 22. febrúar 2013 og var það þingfest 15. mars sama ár. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar mánudaginn 8. desember sl.

                Sóknaraðili er þrotabú HK húseigna ehf., Ránargötu 18, Reykjavík, en varnaraðili er VBS eignasafn hf., í slitameðferð, Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.

                Sóknaraðili gerir eftirfarandi dómkröfur:

                Að rift verði með dómi skuldskeytingu, sem átti sér stað á milli sóknaraðila og varnaraðila með ráðstöfun þar sem sóknaraðili afhenti og afsalaði TM fé ehf. 15 íbúðum í húsinu nr. 12 við Tjarnarbraut í Reykjanesbæ og fékk andvirðið, samtals 182.322.501 krónu greitt með skuldajöfnuði við kröfu TM fjár ehf. á hendur varnaraðila að sömu fjárhæð, 82.322.501 króna hinn 5. júní 2009 og 100.000.000 krónur hinn 9. nóvember 2009, en meint krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila var lækkuð um sömu fjárhæð. Að varnaraðili verði dæmdur til að endurgreiða sóknaraðila eða til að greiða sóknaraðila bætur að fjárhæð 182.322.501 króna ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 82.322501 krónu frá 5. júní 2009 til 9. nóvember 2009 en af 182.322.501 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

I

                Mál þetta á uppruna sinn í því að varnaraðili skuldaði Tryggingamiðstöðinni hf. fjármuni. Sem hluta af uppgjöri þeirrar skuldar afsalaði sóknaraðili, sem var dótturfélag í fullri eigu varnaraðila, 15. íbúðum við Tjarnarbraut í Reykjanesbæ til TM fjár ehf. sem var dótturfélag Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Tók sóknaraðili af þessu tilefni við skuldum varnaraðila að tilgreindri fjárhæð og var jafnframt samið um að greiðsla umræddra skulda skyldi innt af hendi með afsali umræddra íbúða. Samið var um yfirtöku nánar greindra veðskulda og auk þess skuldajöfnuð að fjárhæð samtals 182.322.501 króna sem framkvæma skyldi í tveimur hlutum. Skyldi skuldajöfnuður að fjárhæð 82.322.501 króna fara fram við undirritun samnings 5. júní 2009, en 100.000.000 krónur fara fram við afhendingu í september sama ár. Með dómi Hæstaréttar 4. desember 2014 í máli nr. 376/2014 milli Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og varnaraðila var tekin til greina riftunarkrafa varnaraðila, m.a. vegna þeirra íbúða sem hér um ræðir, og Tryggingamiðstöðinni hf. gert að greiða honum andvirði þeirra til baka.

                Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009 skipaði Fjármálaeftirlitið 3. mars 2010 bráðabirgðastjórn yfir varnaraðila, sem þá hét VBS fjárfestingarbanki hf. Varnaraðili var tekinn til slitameðferðar 9. apríl 2010 og skipuð slitastjórn skv. heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt lögum nr. 161/2002 gilda að meginstefnu reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferðina. Frestdagur er 3. mars 2010. Kröfulýsingarfresti lauk 12. nóvember 2010.

                Sóknaraðili er þrotabú dótturfélags varnaraðila og var félagið tekið til gjaldþrotaskipta 18. mars 2011. Lýsti sóknaraðili kröfu við slitameðferð varnaraðila 15. desember 2011. Kom fram í kröfulýsingunni að kröfunni væri lýst með heimild í 6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Um rétthæð kröfunnar var vísað til 7. tl. 1. mgr. 112. gr. sömu laga.

                Sóknaraðili beindi einnig riftunarkröfu að TM fé ehf. vegna sömu lögskipta og hér er fjallað um og höfðaði í því skyni mál 20. desember 2011 sem fékk númerið E-30/2012. Dómur féll í því máli 28. mars 2014 og var TM fé ehf. sýknað og einkum vísað til þess að félagið væri ekki réttur aðili þess, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Dóminum var ekki áfrýjað.

                Kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila var hafnað með bréfi slitastjórnar 20. nóvember 2012. Var þar vísað til þess í fyrsta lagi að slitastjórn teldi kröfunni ekki beint að réttum aðila, að kröfuhafi teldist ekki hafa orðið fyrir tjóni vegna ráðstöfunarinnar og þá var einnig vísað til þess að slitastjórn teldi að almennum skilyrðum riftunar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 væri ekki fullnægt. Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu slitastjórnar. Fundur var haldinn til að jafna ágreining en án árangurs og var málinu í kjölfarið vísað til úrlausnar héraðsdóms.

                Ekki er um það deilt í máli þessu að sóknaraðili er dótturfélag í fullri eigu varnaraðila. Kemur fram í greinargerð sóknaraðila að varnaraðili hafi keypt félagið 10. júní 2008. Samþykktum félagsins hafi í kjölfarið verið breytt og tilgangur þess verið skráður: Fasteignaþróun, sala fasteigna, byggingastarfsemi, lánastarfsemi og önnur fjármálastarfsemi og skyldur rekstur.

                Þá er heldur ekki um það deilt að hlutverk félagsins hafi verið að taka við fasteignum sem varnaraðili hafi keypt af viðskiptavinum sínum til lækkunar á skuldum þeirra og að taka við eignum sem varnaraðili hafði leyst til sín vegna fullnustu veðkrafna. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að hlutafé félagsins hafi upphaflega verið 500.000 krónur en hafi verið aukið í 765.000.000 krónur 28. desember 2009. Samkvæmt ársreikningi hans hafi félagið tapað 213.000.000 krónum árið 2008 og 1.264.000.000 krónum árið 2009. Við upphaf gjaldþrotaskipta hafi eignir þrotabús sóknaraðila nær eingöngu verið fasteignir sem taldar hafi verið að markaðsverðmæti samtals 1.200.000.000 krónur. Veðkröfur sem lýst hafi verið í þrotabú sóknaraðila hafi verið samtals 1.578.000.000 krónur og almennar kröfur þess utan 3.787.000.000 krónur.

                Í greinargerð varnaraðila er því lýst að allt frá því að hann hafi verið tekinn til slitameðferðar hafi markvisst verið unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu sóknaraðila og m.a. kannaðir möguleikar á nauðasamningum, allt í samráði við stærstu kröfuhafa sóknaraðila. Hins vegar hafi samningar við kröfuhafa ekki tekist og félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota.

                Fyrir liggur að sóknaraðili sótti um greiðslustöðvun 1. desember 2010. Var orðið við þeirri beiðni og hún framlengd einu sinni. Greiðslustöðvun rann út 15. febrúar 2012. Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti var móttekin 15. mars 2012. Liggur því fyrir að 1. desember 2010 er frestdagur við gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila, sbr. 2. gr. laga nr. 21/1991.  

II

                Í greinargerð sóknaraðila greinir að hann telji að hér sé um óeðlilega ráðstöfun að ræða. Hann telji að reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. leiði til þess að ráðstöfun þessari beri að rifta og andvirði umræddra 15 íbúða eigi að renna til sóknaraðila til réttlátra skipta á fjármunum á milli kröfuhafa í samræmi við skiptareglur laga um gjaldþrotaskipti.

                Sóknaraðili hafi aldrei átt í neinum viðskiptum við TM fé ehf. utan þess sem fjallað sé um í þessu máli. Telji sóknaraðili að með skuldskeytingunni og afhendingu greindra íbúða sé um óeðlilega og riftanlega ráðstöfun að ræða og lýsi yfir riftun hennar og krefjist endurgreiðslu og/eða bóta að jafnri fjárhæð og skuldskeytingunni hafi numið ásamt dráttarvöxtum.

                Sóknaraðili hafi verið dótturfélag varnaraðila og hafi alfarið verið í eigu hans. Félagið hafi verið rekið í aðalstöðvum varnaraðila og undir handarjaðri hans og hafi í raun lotið stjórn varnaraðila. Varnaraðili hafi verið fyllilega ljós fjárhagsstaða sóknaraðila og á þessum tíma hafi mátt vera ljóst að sóknaraðili stefndi í gjaldþrot. Skuldskeytingin og bein ráðstöfun eigna sóknaraðila í framhaldinu hafi orðið þess valdandi að eignir sóknaraðila séu nú ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Telji sóknaraðili að ráðstöfunin sé riftanleg samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991. Sé nánar tiltekið vísað til 2. mgr. 134. gr., 136. gr. og 141. gr. laganna um riftun, til 1. mgr. 142. gr. um endurgreiðslu og til 3. mgr. sömu lagagreinar um bætur.

                Hér sé um óvenjulegan greiðslueyri að ræða. Á þeim tíma sem ráðstöfun þessi hafi verið gerð hafi sóknaraðili verið ógjaldfær og hagur hans hafi versnað til muna við ráðstöfunina. Þetta hafi varnaraðila verið ljóst. Sóknaraðili telji að ráðstöfun þessi hafi verið ótilhlýðileg og verið varnaraðila til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa sóknaraðila og hafi leitt til þess að eignir sóknaraðila að þessu leyti hafi ekki verið öðrum kröfuhöfum til reiðu til fullnustu krafna þeirra. Þannig hafi þessi ráðstöfun verið öðrum kröfuhöfum til tjóns og meðal annars einnig leitt til þess að sóknaraðili hafi orðið ógjaldfær. Ljóst sé að möguleikar annarra kröfuhafa til að fá fullnustu krafna aukist ef riftun nái fram að ganga.

                Til stuðnings kröfu um riftun vísar sóknaraðili til 2. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kröfu um endurgreiðslu styður hann við 1. mgr. 142. gr. sömu laga og kröfu um skaðabætur við 3. mgr. sömu lagagreinar. Kröfu um vexti kveðst hann styðja við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en kröfu um málskostnað við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

                Varnaraðili byggir á því í greinargerð sinni að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila.

                Varnaraðili kveðst byggja á því að málatilbúnaður sóknaraðila sé verulega vanreifaður og að það komi niður á vörnum varnaraðila. Í kröfulýsingu sé engin grein gerð fyrir því hvers vegna umrædd ráðstöfun sé riftanleg eða tilraun gerð til að heimfæra hana undir tilvitnuð ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991. Sé rökstuðningi þar að auki mjög ábótavant, t.a.m. hvað varði með hvaða hætti skilyrðum umræddra lagaákvæða sé fullnægt. Eingöngu sé um að ræða einhliða fullyrðingar sóknaraðila án haldbærs rökstuðnings. Byggir varnaraðili á því að greinargerð sóknaraðila sé sama marki brennd. Varnaraðili telji því málatilbúnaði sóknaraðila svo ábótavant að slíkt myndi leiða til frávísunar ef um einkamál væri að ræða, enda fullnægi málatilbúnaðurinn ekki áskilnaði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilviki sem hér um ræði leiði umræddur ágalli til þess að hafna beri kröfum sóknaraðila. Kveðst varnaraðili vísa í þessu sambandi til 2. mgr. 117. gr. 1. og 3. mgr. 177. gr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

                Varnaraðili byggir og á því að litis pendens áhrif, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991, leiði og til þess að kröfum sóknaraðila beri að hafna, þar sem hann hafi í einkamáli gert sömu kröfur gegn TM fé ehf. og hann hafi uppi í máli þessu gagnvart varnaraðila.

                Þá byggir varnaraðili á því að almenn skilyrði riftunar séu ekki fyrir hendi í málinu. Telur varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki í greinargerð sinni gert tilraun til þess að sýna fram á tjón sitt vegna hinnar umdeildu skuldskeytingar. Sé sá þáttur með öllu vanreifaður af hálfu sóknaraðila.

                Varnaraðili telur að hafna beri kröfum sóknaraðila vegna þess að þeim sé beint að röngum aðila, en varnaraðili sé ekki sá sem notið hafi hags af umræddri ráðstöfun. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

                Varnaraðili kveðst telja að beiting 134. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki tæk í málinu þar sem um sé að ræða kröfu um riftun á skuldskeytingu. Vísar hann til þess að telji sóknaraðili að skuldskeytingin hafi verið með þeim hætti að ekki hafi komið samhliða henni lækkun að sömu fjárhæð á skuld sóknaraðila við varnaraðila, þá geti slík ráðstöfun ekki fallið undir 134. gr. laga nr. 21/1991. Atvikum hafi þó verið háttað þannig að samhliða yfirtöku sóknaraðila á skuldum varnaraðila við TM fé ehf. þá hafi verið lækkuð skuld sóknaraðila við varnaraðila að sömu fjárhæð og í ljósi þess geti ekki verið um riftanlega ráðstöfun að ræða í skilningi laga nr. 21/1991. Varnaraðili mótmæli því einnig að einstökum skilyrðum 134. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt. Um sé að ræða einföld skuldaraskipti sem ekki hafi leitt til tjóns fyrir sóknaraðila.

                Varnaraðili telji ennfremur að 136. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við en um hafi verið að ræða skuldaraskipti milli sóknaraðila og varnaraðila en skuldajöfnun hafi átt sér stað milli TM fjár ehf. og sóknaraðila.         

                Þá sé því einnig mótmælt að byggja megi riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Sé í því sambandi um frekari rök m.a. vísað til þess sem að ofan greini, en varnaraðili mótmæli því sérstaklega að ráðstöfun þessi hafi verið ótilhlýðileg. Byggi varnaraðili á því að hann hafi hagað sér í alla staði tilhlýðilega gagnvart sóknaraðila.

                Varnaraðili kveðst telja það ósannað að ráðstöfunin hafi verið honum til hagsbóta og að ósannað sé að skuldskeytingin sem slík hafi leitt til tjóns fyrir sóknaraðila, enda um að ræða hrein skuldaraskipti þar sem sóknaraðili hafi yfirtekið skuldir varnaraðila gagnvart TM fé ehf. gegn því að varnaraðili lækkaði skuldastöðu sóknaraðila gagnvart sér um sömu fjárhæð.

                Þá telji varnaraðili að það sé rangt sem sóknaraðili haldi fram að sóknaraðili hafi verið orðinn ógjaldfær í júní 2009 eða síðar á því ári, enda beri sóknaraðili sönnunarbyrði þar um. Slíkar sönnur hafi hann ekki fært fram.

                Með vísan til framangreinds verði að hafna kröfu um riftun, endurgreiðslu eða greiðslu skaðabóta.

                Verði fallist á riftunarkröfur sóknaraðila þá kveðst varnaraðili telja að eins og kröfum sé háttað í greinargerð sóknaraðila að þá beri að skipa henni í réttindaröð skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi sóknaraðili þar ekki gert grein fyrir sjónarmiðum sem leiða ættu til þess að kröfunni yrði skipað framar.

                Varnaraðili kveðst loks byggja á því að hann reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og verði við ákvörðun málskostnaðar honum til handa að taka tillit til þess.

                Varnaraðili vísar til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og þá sérstaklega 2. mgr. 117. gr., 1. og 2. mgr. 137. gr., 141. gr., 3. mgr. 177. gr. og 2. mgr. 178. gr. laganna. Einnig vísar hann til 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess kveðst hann vísa til almennu skaðabótareglunnar og að málskostnaðarkrafa eigi sér stoð í 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt byggi á lögum nr. 50/1988.

IV

                Af hálfu varnaraðila hefur ekki verið á því byggt að kröfu sóknaraðila kunni að vera vanlýst, en fyrir liggur að kröfunni var lýst eftir lok kröfulýsingarfrests og um heimild til þess að hafa kröfuna uppi vísað til 6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 án þess að sú tilvísun væri sérstaklega rökstudd. Í ljósi reglna um málsforræði aðila verður á hinn bóginn ekki tekið til skoðunar hér hvort krafan gæti talist fallin niður fyrir vanlýsingu.

                Um málatilbúnað aðila í málum af því tagi sem hér er til meðferðar gilda ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, þegar sérreglum síðarnefndu laganna sleppir. Felst í því meðal annars að kröfugerð skal vera skýr sem og röksemdir fyrir henni. Þá skal hafa uppi helstu málsástæður í kröfulýsingu og til fullnaðar í greinargerð sem málsaðila er gefið færi á að skila undir rekstri máls. Verði misbrestur á því að málatilbúnaður sé reifaður með fullnægjandi hætti verður ekki úr bætt við munnlegan flutning málsins án samþykkis gagnaðila.

                Málatilbúnaður sóknaraðila, eins og hann birtist í greinargerð hans, er ítarlega rakinn hér að framan. Verður að fallast á með varnaraðila að nokkuð skorti á að kröfugerð og málsástæður séu sett þar fram með fullnægjandi hætti. Er ekki nema að litlu leyti gerð grein fyrir því hvernig skilyrðum tilvitnaðra ákvæða laga nr. 21/1991, sem heimila riftun, geti talist fullnægt og er tilvísunum í greinargerð til gagna málsins og staðreynda sem liggja fyrir í því ábótavant. Er því fallist á með varnaraðila að málið í því horfi sem sóknaraðili hefur búið því sé ekki tækt til efnismeðferðar vegna vanreifunar. Verður kröfum sóknaraðila hafnað þegar af þeirri ástæðu.

                Með hliðsjón af málsúrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur með hliðsjón af umfangi málsins og að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Af hálfu sóknaraðila flutti málið Benedikt Ólafsson hrl. skiptastjóri við gjaldþrotaskipti sóknaraðila.

                Af hálfu varnaraðila flutti málið Jón Ingi Þorsteinsson vegna Hróbjarts Jónatanssonar hrl., sem situr í slitastjórn varnaraðila.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómara.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Framangreindri kröfu sóknaraðila, þrotabús HK húseigna ehf., sem hann lýsti við slitameðferð varnaraðila, VBS eignasafns ehf., er hafnað.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað.