Hæstiréttur íslands
Mál nr. 212/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 4. maí 2009. |
|
Nr. 212/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 19. maí 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 19. maí nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að að kvöldi laugardagsins 25. apríl sl. hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um að tveir menn, vopnaðir hnífum, hafi ruðst inn í einbýlishúsið að Y í Garðabæ og haldið þar eldri hjónum föngnum og farið ránshendi um heimilið.
Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi A skýrt frá því að hún hafi verið heima að fylgjast með kosningasjónvarpinu, ásamt eiginmanni sínum B, þegar barið hafi verið á útidyrahurð, hún hafi opnað hurðina og þá hafi tveir menn ruðst inn. Annar aðilinn hafi tekið um vit hennar og snúið hana niður í gólfið, þar sem henni hafi verið skipað að liggja kyrr ella færi illa fyrir henni. Hún hafi hrópað af hræðslu og þá hafi maðurinn sagt; “Ég bara rota hana” og í framhaldi hafi hún fengið þrjú þung högg í höfuðið. Maðurinn hafi skipað henni að losa hringa af fingrum sér og hún hafi ekki þorað annað en að hlýða. Sagði hún þau hjónin hafa verið undir stöðugum hótunum um líflát á meðan ráninu stóð, þ.e. að þau yrðu stungin ef þau ekki hlýddu.
B hafi skýrt frá því að A eiginkona hans hafi farið fram þar sem bankað hafi verið á útidyrahurðina. Hann hafi heyrt tvö óp og stuttu síðar hafi komið maður vopnaður flökunarhníf með um 18 cm löngu hnífsblaði. Maðurinn hafi hulið hluta andlit síns og sagt: “Við viljum peningaskápinn, við erum komnir til að taka peningana þína. Persónulega hef ég engu að tapa og ef þú gerir ekki allt sem ég segi þá sting ég þig.” Maðurinn hafi lagt hnífinn að brjóstkassa B og fylgt honum þannig upp á jarðhæð, þar sem honum hafi verið skipað að leggjast niður við hlið konu sinnar. Hafi annar mannanna gætt þeirra, þar sem þau lágu, á meðan hinn fór ránshendi um heimilið.
Er mennirnir hafi lokið verki sínum hafi hjónunum verið skipað að liggja áfram niðri í um 10 mínútur, jafnframt sem símalínur á heimilinu hafi verið skornar í sundur. Í ráninu hafi verið tekið seðlaveski með um 50.000 krónum, gsm símar, tölva og skartgripir.
Í gær hafi kærði verið handtekinn grunaður um aðild að ráninu. Í skýrslutöku hjá lögreglu í gærkvöld hafi hann viðurkennt aðild sína. Hann hafi komið þarna að húsinu með kærðu C, D og E. Stúlkurnar hafi beðið úti í bíl en þeir tveir farið að húsinu. C hafi bankað upp á og um leið tekið upp hníf og klætt sig í hanska. Kona hafi komið til dyra og C þá tekið um vit hennar og snúið hana í gólfið. Sjálfur hafi hann farið og sótt manninn. Þá hafi C lagt hníf að bringu mannsins og hótað að stinga hann og drepa ef hann benti honum ekki á peningana. Kærði X hafi staðið yfir fólkinu á meðan C hafi leitað verðmæta í húsinu. Þeir hafi svo yfirgefið húsið og skipt verðmætunum á milli sín.
Brot það sem hér um ræði sé mjög alvarlegt. Brotið sé framið með skipulögðum hætti, þar sem hættulegu vopni sé beitt og á mjög ruddafenginn og ógnandi hátt. Brotið hafi verið til þess fallið að vekja mikinn ótta hjá þeim sem fyrir því urðu og skapað mikla hættu. Þá hafi brotið verið framið inni á einkaheimili fólks, sem hafi átt sér einskis ills von, þar sem þau hafi verið að fylgjast með alþingiskosningum í sjónvarpi. Árásarþolarnir, sem séu á áttræðis og níræðis aldri, hafi verið beittir miklu ofbeldi á heimili sínu. Telja verði að umrætt brot sé í eðli sínu svo svívirðileg að gangi kærði frjáls ferða sinna myndi það valda hneykslan í samfélaginu og særa mjög réttarvitund almennings.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem varðað geti að lögum allt að 16 ára fangelsi og sé þess eðlis að almennahagsmunir krefjist gæsluvarðhalds. Rannsókn málsins sé vel á veg komin og verði málið sent ríkissaksóknara á næstu dögum til ákvörðunar um saksókn.
Kröfunni til stuðnings megi hér benda á dóm Hæstaréttar Íslands 1. júní 2004, nr. 223/2004, þar sem sakborningi hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi, m.t.t. almannahagsmuna, vegna vopnaðs ráns með öxi í banka.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr.. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga
Kærði hefur viðurkennt aðild að ránsbroti með því að hafa, í félagi við annan mann sem var vopnaður hnífi, ruðst inn í íbúðarhús, haldið húsráðendum, eldri hjónum, nauðugum og haft ýmis verðmæti á brott með sér. Sterkur grunur er um að kærði hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að rannsókn málsins sé vel á veg komin og verði málið sent ríkissaksóknara á næstu dögum til ákvörðunar um saksókn. Með tilliti til almannahagsmuna verður á það fallist með lögreglustjóra að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður því orðið við kröfunni eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 19. maí nk. kl. 16.00.