Hæstiréttur íslands

Mál nr. 609/2008


Lykilorð

  • Ökuréttarsvipting


Miðvikudaginn 6

 

Miðvikudaginn 6. maí 2009.

Nr. 609/2008.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

Thomas Ragmat Mayubay

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Ökuréttarsvipting.

X var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var brot X talið varða við 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt álitsgerð rannsóknastofu HÍ fannst tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi X en hið virka efni í kannabis, tetrahýdrókannabínól, fannst ekki í blóði hans. Þessi niðurstaða benti til þess að X hefði ekki verið undir áhrifum fíkniefna við akstur í umrætt sinn. Þá bar X því við hjá lögreglu að hann hefði ekki neytt fíkniefna í nokkrar vikur áður en hann var stöðvaður af lögreglu. Í héraðsdómi var X sakfelldur og dæmdur til greiðslu sektar en tilefni þótti til að beita undanþáguheimild í 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga og svipta hann ekki ökurétti. Í dómi Hæstaréttar sagði að í 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga væri undantekningarákvæði þar sem fram kæmi að sleppa mætti sviptingu ökuréttar vegna brota á ákvæðum 1. mgr. 45. gr., sbr. 2. mgr. þeirrar greinar, og 45. gr. a ef sérstakar málsbætur væru og ökumaður hefði ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður. Var ágreiningsefnið fyrir Hæstarétti hvernig túlka ætti framangreint undanþáguákvæði og hvort það gæti átt við í tilviki X. Taldi Hæstiréttur að túlka yrði orðalagið „sérstakar málsbætur“ í greindu ákvæði þannig að undir þær gætu fallið þau atvik þegar ökumanni er refsað á grundvelli 45. gr. a en efni sem finnst eingöngu í þvagi hefur sannanlega ekki haft áhrif á hæfni til aksturs, langt var síðan fíkniefna var neytt og ekkert var athugavert við akstur ákærða. Þá var uppfyllt í málinu það skilyrði 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga að X hafði ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður. Staðfesti Hæstiréttur hinn áfrýjaða dóm.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. september 2008 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess að ákvörðun héraðsdóms um sakfellingu og refsingu verði staðfest, en að ákærði verði dæmdur til að sæta sviptingu ökuréttar og greiðslu sakarkostnaðar.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms og greiðslu málsvarnarlauna.

I

Með lögum nr. 66/2006 um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987 var meðal annarra breytinga bætt við lögin nýrri grein, 45. gr. a, þar sem tekin voru af öll tvímæli um að algert bann væri við því að stjórna eða reyna að stjórna ökutæki ef ólögleg ávana- og fíkniefni mældust í blóði eða þvagi viðkomandi. Til samræmis var gerð breyting á 102. gr. umferðarlaga sem lýtur að sviptingu ökuréttar. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að sömu reglur eigi að meginstefnu við um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og gildi um akstur undir áhrifum áfengis. Í 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga er svohljóðandi undantekningarákvæði: „Ef sérstakar málsbætur eru og ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður má sleppa sviptingu ökuréttar vegna brota á ákvæðum 1. mgr. 45. gr., sbr. 2. mgr. þeirrar greinar, eða 45. gr. a.“ Í athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögunum kemur fram að líta beri til alvarleika brots og magns vínanda eða ávana- og fíkniefna í blóði og þvagi við ákvörðun sviptingartíma. „Er með þessum hætti gefið ákveðið svigrúm til viðurlagaákvörðunar með tilliti til þessa þátta svo sanngjarnt sé og eðlilegt með hliðsjón af atvikum máls í hvert sinn.“

Í máli þessu er ágreiningsefnið hvernig túlka eigi framangreint undanþáguákvæði og hvort það geti átt við í tilviki ákærða. Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að um undanþáguheimild sé að ræða sem beri að skýra þröngt. Markmið breytingarlaganna hafi verið að lögbinda sönnunarreglu í því skyni að auka umferðaröryggi. Er vísað til dómaframkvæmdar og þess að almenn og sérstök varnaðaráhrif styðji að ákærði verði sviptur ökurétti. Af hálfu ákærða er á því byggt að með því að efnið hafi aðeins mælst í þvagi og margar vikur hafi verið liðnar frá neyslu þess, þá hafi hann verið allsgáður og því í raun ekki verið ófær um að aka bifreið og hann hafi ekki vitað að efnið mældist enn í líkama hans. Líta beri til 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár í þessu samhengi. Ekkert hafi verið athugavert við aksturinn. Falli það undir sérstakar málsbætur að ökumaður hafi í raun verið hæfur til aksturs og vegna þess langa tíma sem liðinn var frá neyslu efnisins hafi hann verið grunlaus um að rannsókn á þvagi myndi leiða til þess að ólöglegt efni væri í líkama hans. Þá hafi hann ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður.

II

Í 1. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 45. gr. a umferðarlaga er lagt bann við því að stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki undir áhrifum annars vegar áfengis og hins vegar ávana- og fíkniefna. Í 2. og 3. mgr. 45. gr. er það skilgreint með vísan til magns áfengis í blóði eða í lofti sem hann andar frá sér hvenær ökumaður er ekki talinn geta stjórnað ökutæki örugglega og hvenær hann telst óhæfur til að stjórna ökutæki. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. a telst ökumaður hins vegar vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega ef ávana- og fíkniefni sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði mælast í blóði eða þvagi. Af athugasemdum með áðurgreindu frumvarpi er ljóst að það var ákvörðun löggjafans að skilgreint mæligildi í blóði eða þvagi ökumanns væri 0 (núll) og sakfelling skyldi því óháð því hvort ökumaður væri í raun undir áhrifum vímuefna við akstur.

Það efni sem mældist í þvagi ákærða var tetrahýdrókannabínólsýra. Í dómi Hæstaréttar 19. júní 2008 í máli nr. 254/2008 er því slegið föstu að efni þetta sé óvirkt umbrotsefni tetrahýdrókannabínóls en meðferð og vörslur allra „isomer þess og afleiður“ séu samkvæmt 2. mgr. 2. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni óheimil á íslensku yfirráðasvæði. Að slíkt efni finnist í blóði eða þvagi ökumanns sé, samkvæmt ákvörðun löggjafans, nægilegt til sakfellingar óháð því hvort efnið hafi í raun áhrif á hæfni hans til aksturs, og feli ákvæði 45. gr. a umferðarlaga því ekki í sér sakarlíkindareglu í andstöðu við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskráinnar. Samhljóða er niðurstaða í dómi Hæstaréttar í máli nr. 260/2008 uppkveðnum sama dag, sbr. einnig hæstaréttardóm í máli nr. 490/2007 sem kveðinn var upp 31. janúar 2008.

Í tilvitnuðum hæstaréttarmálum var ekki fjallað um framangreinda undantekningarheimild í 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sem eingöngu lýtur að ákvörðun um sviptingu ökuréttar. Dómar í málum er varða akstur undir áhrifum áfengis eru ekki skýrt fordæmi vegna þess mikilvæga munar sem er á viðmiði refsinæmis verknaðar.

Löggjafinn hefur metið það svo að rétt sé í þágu umferðaröryggis að leggja algert bann við akstri ef efni sem ólögleg eru á íslensku yfirráðasvæði finnast í blóði eða þvagi manns. Er bann þetta óháð því hvort efnið sjálft veldur áhrifum á ökuhæfni eða er undir því magni að slík áhrif séu líkleg til að vera til staðar. Eins og að framan er rakið er svigrúm gefið til að ákvarða viðurlög með hliðsjón af atvikum og alvarleika brots þannig að sanngjarnt sé og eðlilegt. Í ljósi þessa verður að túlka orðalagið „sérstakar málsbætur“ í greindu undanþáguákvæði þannig að undir þær geti fallið þau atvik þegar ökumanni er refsað á grundvelli 45. gr. a en efni sem finnst eingöngu í þvagi hefur sannanlega ekki haft áhrif á hæfni til aksturs, langt er síðan fíkniefna var neytt og ekkert var athugavert við akstur ákærða. Þá er uppfyllt í máli þessu það skilyrði 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga að ákærði hafi ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður. Með þessum rökum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjunarkostnað skal greiða úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. júlí 2008.

Þetta mál, sem var dómtekið 2. júlí sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 31. mars sl., á hendur Thomas Ragmat Mayubay, kt. 060191-3449, Smáratúni 43, Reykjanesbæ, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 14. febrúar 2008 ekið bifreiðinni PUP39 undir áhrifum ávana- og fíkniefna (í þvagi tetra­hýdró­kannabínólsýra) og án ökuréttar um götur í Reykjanesbæ, uns lögreglan stöðvaði akstur ákærða á Skólavegi.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

Í ákærunni er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006.

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og boðaði ekki forföll. Er dómur nú lagður á málið samkvæmt heimild í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, enda var þess getið í fyrirkalli, sem var birt ákærða sjálfum lögum samkvæmt, að svo mætti fara með málið.

Í frumskýrslu lögreglunnar segir að á ofangreindum tíma hafi lögreglan veitt athygli bifreiðinni PUP39 sem hafi verið ekið vestur Skólaveg í Reykjanesbæ. Ökumanni hafi verið gefið merki um að stöðva bifreiðina svo kanna mætti ökuréttindi hans. Í ljós hafi komið að hann hafði ekki öðlast ökuréttindi. Þar sem hann hefði verið rauðeygður hefði vaknað grunur um að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Ökumaður hafi verið færður á lögreglustöðina þar sem hann hafi gefið þvagsýni kl. 23.00 og hafi fíkniefna­prófun á þvagsýninu gefið jákvæða svörun um notkun kannabisefna. Blóðsýni hafi jafnframt verið tekið úr ökumanni kl. 23.27.

Framburðarskýrsla var tekin af ökumanni þetta kvöld og kvaðst hann ekki hafa neytt fíkniefna á þessu ári en hann hefði reykt eitthvað á síðasta ári sem vinur hans hefði gefið honum en hann vissi ekki hvað það hefði verið.

Í beiðni lögreglunnar um lyfjarannsókn, dagsettri sama dag, segir að ökumaður hafi verið nokkuð rólegur og ekki sýnilega undir neinum áhrifum fíkniefna. Málfar sé skýrt og augasteinar eðlilegir.

Í matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 25. febrúar sl., segir: „Í þvaginu fannst tetrahýdrókanna­bínól­sýra. Tetrahýdrókannabínól var ekki í mælanlegu magni í blóðinu.“

Í 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 segir að mælist ávana- og fíkniefni, sem eru bönnuð á íslensku yfirráðasvæði, í blóði eða þvagi ökumanns teljist hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Vegna þessa orðalags lagaákvæðisins og þess að tetrahýdrókannabínólsýra fannst í þvagi ákærða verður að sakfella hann fyrir að hafa verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki. Jafnframt verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreiðinni án þess að hafa til þess tilskilin ökuréttindi.

Ákærði hefur með þessu unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ákærði er fæddur í janúar 1991 og var því nýlega orðinn 17 ára þegar brotið var framið. Í desember 2007 var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Þetta brot hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar fyrir það brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir. Refsing ákærða samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrir brot gegn 45. gr. a þykir hæfilega ákveðin 70.000 króna sekt til ríkissjóðs og fyrir brot gegn 48. gr. laganna 10.000 króna sekt. Verði samanlögð sektarfjárhæðin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms komi fangelsi í sex daga í stað sektarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga skal svipta ökurétti stjórnanda vélknúins ökutækis, sem hefur meðal annars brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 45. gr. eða 45. gr. a. Ef sérstakar málsbætur eru og ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður má sleppa sviptingu ökuréttar, meðal annars vegna brots gegn þessum ákvæðum.

Eins og að framan er getið hefur ákærði ekki áður brotið gegn umferðarlögum. Samkvæmt framburði hans hjá lögreglu, sem engin ástæða er til að véfengja, hafði hann ekki neytt fíkniefna í að minnsta kosti sex vikur áður en hann var stöðvaður af lögreglu. Af því sem fram kemur um ástand ökumanns í beiðni um lyfjarannsókn og matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði fæst ekki séð að ákærði hafi verið undir virkum áhrifum fíkniefna við akstur í umrætt sinn, enda er alkunna að einungis það efni sem finnst í blóði manns hefur áhrif á aksturshæfni hans. Þegar litið er til þessa fæst ekki séð að vilji ákærða til að brjóta gegn 45. gr. a umferðarlaga í umrætt sinn hafi verið einbeittur. Eins og þetta mál er vaxið og þar sem þetta er fyrsta brot ákærða gegn umferðarlögum þykir vera tilefni til að nýta þá heimild ofangreinds ákvæðis að svipta ákærða ekki ökurétti vegna þess brots sem hann er nú sakfelldur fyrir.

Með vísan til 165. gr. laga nr. 19/1991 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, samtals 48.200 krónur, sem hlaust af rannsókn á fíkniefnum í blóði og þvagi ákærða.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Ákærði, Thomas Ragmat Mayubay, greiði 80.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu en sæti ella sex daga fangelsi.

Ákærði greiði 48.200 krónur í sakarkostnað.