Hæstiréttur íslands
Mál nr. 579/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Fimmtudaginn 30. október 2008. |
|
Nr. 579/2008. |
Ríkissaksóknari(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari) gegn X (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr., 106. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni, nú þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 19. desember 2008 kl. 17. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðili 12. mars 2008 fundinn sekur í Héraðsdómi Reykjavíkur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar í 60 daga. Sóknaraðili hefur áfrýjað dóminum til Hæstaréttar til sakfellingar samkvæmt ákæru og refsiþyngingar. Í greinargerð sóknaraðila í héraði nú er ekki að finna annan rökstuðning fyrir kröfu um farbann en að hann hafi áfrýjað til Hæstaréttar og verði málið flutt þar 9. desember næstkomandi. Miðist tímalengd farbannskröfu við að dómur verði fallinn í Hæstarétti áður en farbannið renni út. Í hinum kærða úrskurði er aðeins tekið fram til efnislegs rökstuðnings fyrir farbanni að varnaraðili sé „af erlendu bergi brotinn“ og þyki „því rétt að heimila að för hans frá landinu sé heft þar til fullnaðardómur er genginn í máli hans.“ Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti er látið við það sitja að krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar með vísan til forsendna hans.
Farbanni samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991 verður ekki beitt með vísan til þess eins að sakborningur sé af erlendu bergi brotinn. Með þarf að fylgja rökstuðningur sem varðar sérstaklega hagi þess sakbornings sem krafa beinist að. Í kröfu sóknaraðila í héraði er ekki að finna slíkan rökstuðning en látið við það sitja að skírskota til b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Hæstiréttur hefur í dómi sínum 5. febrúar 2008, í málinu nr. 63/2008, fallist á að ekki verði séð að varnaraðili hafi mikil tengsl við landið. Af þeim sökum mætti ætla að hann myndi reyna að komast úr landi. Þrátt fyrir annmarka á rökstuðningi í hinum kærða úrskurði þykir með framangreindum hætti nægilega fram komið að skilyrði farbanns séu fyrir hendi og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2008.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess, með vísan til 110. gr., sbr. 106. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að X verði bönnuð för frá Íslandi allt þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 19. desember 2008 kl. 17.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram, að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-128/2008 hafi X verið dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás, sbr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en sýknaður af brotum gegn valdsstjórninni, sbr. 1. mgr. 106. gr. s.l. Ríkissaksóknari hafi áfrýjað dóminum til Hæstaréttar Íslands og verði málið flutt fyrir dóminum 9. desember nk.
Dómfelldi hafi sætt farbanni frá 18. janúar s.l., nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-323/2008 sem upp hafi verið kveðinn 20. júní s.l. Í úrskurðarorði segi að X sé bönnuð för frá Íslandi allt þar til dómur falli í máli hans í Hæstarétti Íslands en þó eigi lengur en til föstudagsins 24. október kl. 17.00. Tímalengd farbannskröfunnar nú miðist við að dómur verði fallinn í Hæstarétti áður en farbannið renni út.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í framangreindu máli var dómfelldi sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga en sýknaður af broti gegn valdstjórninni og dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi. Ríkissaksóknari hefur áfrýjað dóminum til Hæstaréttar Íslands og verður málið flutt þar 9. desember nk. Dómfelldi er af erlendu bergi brotinn og þykir því rétt að heimila að för hans frá landinu sé heft þar til fullnaðardómur er genginn í máli hans. Með vísan til þessa og samkvæmt heimild í 110. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 verður fallist á kröfu ríkissaksóknara um að dómfelldi sæti áfram farbanni.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
úrskurðarorð
Dómfellda, X er bönnuð för frá Íslandi allt þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 19. desember 2008 kl. 17.00.