Hæstiréttur íslands

Mál nr. 428/2017

A (Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Ebba Schram hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í tólf mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2017 þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tólf mánuði.  Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og verður hún ákveðin með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 15. júní 2017

Með kröfu, sem barst dóminum 2. júní sl., hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...], [...] í Reykjavík, verði, með vísan til a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, svipt sjálfræði í eitt ár. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá er og gerð krafa um að skipuðum verjanda verði ákveðin hæfileg þóknun úr ríkissjóði með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

                                                                                              I

                Sóknaraðili byggir kröfu um sviptingu sjálfræðis til eins árs á a-lið 4. gr., sbr. 5. gr., lögræðislaga nr. 71/1997. Krafan er reist á því að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm að stríða og sé af þeim sökum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð.

                Sóknaraðili bendir á að velferðarsvið Reykjavíkurborgar sé sóknaraðili í málinu, sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Á grundvelli mats læknis og með hliðsjón af aðstæðum í máli varnaraðila standi sóknaraðili að beiðni um sjálfræðissviptingu. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum sé varnaraðili ekki í tengslum við fjölskyldu sína og fjölskyldunni hafi því ekki verið gert kunnugt um fyrirliggjandi beiðni um sjálfræðissviptingu.

                Með beiðni sóknaraðila fylgdi m.a. læknisvottorð B, yfirlæknis, frá 30. maí 2017, og læknisvottorð C, geðlæknis, dags. 14. maí 2017, sem og beiðni um fyrirsvar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur varðandi kröfu um sjálfræðissviptingu varnaraðila, dags. 1. júní 2017.

                Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé 37 ára gömul, þriggja barna móðir. Hún sé öryrki vegna bílslyss 2011 en einnig vegna geðrænna eiginleika. Varnaraðili hafi byrjað áfengis- og vímuefnaneyslu ung að árum en hafi að eigin sögn ekki neytt vímuefna frá 2012-2013. Þá hafi hún þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg frá því að hún hafi hætt að fá örorkulífeyri í mars 2017. Varnaraðili neiti að sækja um áframhaldandi örorkulífeyri þar sem hún telji að kerfið njósni um sig og misnoti upplýsingar, ásamt því sem hún telji að Tryggingastofnun ríkisins vinni gegn sér. Varnaraðili hafi verið heimilislaus í langan tíma og dvalið í Konukoti síðan í nóvember 2015. Einnig komi fram í málsgögnum að varnaraðili hafi ekki unnið um hríð. Hún hafi unnið í tvær til þrjár vikur á hjúkrunarheimili en mætt seint og verið óstöðug í samstarfi og þar af leiðandi ekki fengið áframhaldandi vinnu. Ekki hafi verið sótt um búsetu fyrir varnaraðila en hún neiti að skrifa undir umsókn þar sem hún telji kerfið vera að njósna um sig.

                Í gögnum málsins komi jafnframt fram að fyrir fjórum árum hafi sjúkdómsmynd varnaraðila breyst. Í ljós hafi komið alvarleg geðrofseinkenni, aðsóknarkennd og hugvilluröskun. Hún sé með aðsóknarhugmyndir sem tengist margvíslegum aðilum í samfélaginu, fjölskyldu hennar og „kerfinu“. Sjúkdómseinkenni varnaraðila séu mjög hamlandi fyrir hana. Hún sé hrædd og kvíðin þar sem hún telji að einstaklingar séu á eftir henni eða séu að njósna og stela upplýsingum um hana. Þá komi fram að varnaraðili hafi samtals í sex skipti frá árinu 2013 komið til innlagnar á geðdeild Landspítalans vegna geðrofseinkenna. Hún hafi ekki getað unnið eða stundað nám vegna veikinda sinna og ekki verið til samvinnu um að þiggja ráðlagða meðferð. Varnaraðili hafi einnig verið nauðungarvistuð í 21 sólarhring 4. mars 2016. Við innlögn á móttökugeðdeild hafi ástand hennar lýst sér þannig að því mætti jafna til alvarlegs geðsjúkdóms í skilningi lögræðislaga nr. 71/1997. Í mati sérfræðings hafi komið fram að nauðsyn hafi verið á sjálfræðissviptingu þar sem varnaraðili væri innsæislaus í sjúkdóm sinn en ekkert hafi orðið úr þeirri sjálfræðissviptingu. Ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar til að fá varnaraðila til samvinnu um lyfjameðferð, eftirlit og félagslega þjónustu en án árangurs.

                Varnaraðili hafi komið til innlagnar á móttökugeðdeild 32A á Landspítalanum 12. maí sl. og hafi verið nauðungarvistuð í 72 klukkustundir, sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Í kjölfarið hafi sóknaraðili staðið að nauðungarvistun í 21 sólarhring, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. sömu laga með beiðni, dags. 15. maí sl., sem hafi verið samþykkt samdægurs með bréfi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Aðdragandi núverandi innlagnar sé að varnaraðili hafi verið með ranghugmyndir um að fólk í samfélaginu væri að njósna um hana og stela gögnum um hana. Varnaraðili hafi verið metin í alvarlegu geðrofi og í þörf fyrir meðferð. Það sé mat meðferðarlæknis að óhjákvæmilegt sé að varnaraðili dvelji áfram á geðdeild 32A þar sem það tryggi að hún fái þá meðferð og félagslegu aðstoð sem hún sé í þörf fyrir.

                Beiðni varnaraðila fylgdi læknisvottorð B, yfirlæknis á móttökudeild 32A, dags. 30. maí 2017. Samkvæmt vottorðinu ræður varnaraðili illa við að sinna persónulegum högum sínum. Það er mat læknisins að réttlætanlegt sé og í þágu varnaraðila að svipta hana sjálfræði til að koma megi við nauðsynlegri læknishjálp og félagslegum stuðningi. Sjúkdómsinnsæi varnaraðila sé skert og dómgreind hennar trufluð vegna hugvilluröskunar. Ljóst sé að ef ekkert verður að gert fari allt í sama horfið eins og reynslan sýni. Þá segi orðrétt í vottorðinu: „Það er mat meðferðaraðila, að A þurfi mun lengri tíma til að ná betri heilsu, færni og auka innsæi sitt. Á sama tíma þarf að vinna að félagslegum málum, sérhæfðri búsetu og virkni. Hún getur ekki búið ein eða séð um sig sjálf á þessum tíma eins og reynslan sýnir. Hún er í brýnni þörf fyrir áframhaldandi meðferð, vera í öruggu umhverfi, eftirliti og sérhæfðri lyfjameðferð. Það eru því verulega líkur ef A útskrifast nú að heilsa og félagsleg staða verði óbreytt og hætti hún á lyfjum á ný þegar núverandi nauðungarvistun lýkur verði yfirgnæfandi líkur á því að geðrofseinkenni og hegðunarröskun versni. Ég styð því eindregið framkomna beiðni um áframhaldandi sjálfræðisviptingu í allt að 12 mánuði.“

                Með hliðsjón af framanrituðu, gögnum málsins og aðstæðum öllum að öðru leyti verði að telja að tímabundin sjálfræðissvipting til eins árs sé nauðsynleg til að vernda líf og heilsu varnaraðila. Ljóst sé að nauðsynlegri læknishjálp og meðferðarúrræðum verði ekki komið við með öðrum hætti. Krafan byggist á því að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm að stríða og sé af þeim sökum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð.

                Undir meðferð málsins fór verjandi varnaraðila þess á leit, með vísan til 2. mgr. 11. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, að dómari málsins aflaði annars læknisvottorðs frá lækni um andlegt ástand varnaraðila og hæfi hennar til að fara með sjálfræði sitt. Þann 7. júní sl. óskaði dómurinn þess, með vísan til 2. mgr. 11. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, að D, sérfræðingur í geð- og embættislækningum, ritaði vottorð um andlega heilsu varnaraðila. Var þess óskað að í vottorðinu kæmi fram álit læknisins á því hvort brýn þörf stæði til þess að varnaraðili yrði svipt sjálfræði á þeim grunni að hún væri ekki fær um að taka ákvarðanir sem leiða af sjálfræði hennar vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða annars heilsubrests, sbr. a-lið 4. gr. lögræðislaga. Var læknirinn beðinn um að láta í té skriflegt og rökstutt álit á því hvort ástand varnaraðila væri slíkt að þörf væri á tímabundinni sjálfræðissviptingu og ef svo væri hvort nauðsynlegt væri að tímalengd hennar væri eitt ár.

                Í ítarlegu læknisvottorði D kemur fram að við gerð þess hafi verið rætt við varnaraðila auk þess sem öll sjúkraskrá hennar hafi verið yfirfarin. Að áliti læknisins sé varnaraðili haldin langvinnum geðrofssjúkdómi og hún eigi sögu um fjölfíkn. Hún hafi þróað með sér geðrofssjúkdóm með aðsóknarhugmyndum sl. allmörg ár. Þetta sé samtvinnað flókinni og mikilli áfallasögu frá barnsaldri og síðar í barneignum og samskiptum við barnsfeður. Hugmyndir hennar feli í sér mikla ógn gagnvart henni og að aðilar sitji um hana. Þá sé hún með hugmyndir er lúti að tengslum og samskiptum gagnvart fjölskyldum sem hafi á sér skýrt ranghugmyndayfirbragð. Varnaraðili hafi engan veginn náð að koma sér fyrir félagslega, hún hafi verið á hrakhólum og sé ljóst að heilsa hennar sé þar ráðandi. Ljóst sé að heilsa varnaraðila sé á þann veg að fái hún ekki viðeigandi meðferð sé heilsu hennar og getu til þess að ráða högum sínum stefnt í áframhaldandi uppnám. Hún sé ekki fær um sjálfstæða búsetu þangað til bati hennar sé tryggður. Tryggja þurfi að hún fái viðeigandi geðrofsmeðferð til lengri tíma til að ná þeim árangri að hún sé fær um að ráða málum sínum. Varnaraðili hafi ekkert innsæi í stöðu sína. Það sé því álit læknisins að brýn þörf standi til þess að hún verði svipt sjálfræði á grunni þess að hún sé ófær um að taka ákvarðanir sem leiði af sjálfræði hennar á grundvelli a-liðar 4. gr. lögræðislaga.

                Við aðalmeðferð málsins gaf áðurnefndur geðlæknir, B, símaskýrslu. Hann staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Hann sagði varnaraðila hafa verið metna á móttökugeðdeild undanfarnar rúmlega þrjár vikur. Hún væri haldin hugvilluröskun og þurfi á langtímameðferð að halda sem í felist lyf, læknisaðstoð, hjúkrun, sálfræðiþjónusta og félagsleg aðstoð. Varnaraðili hefði mjög skert sjúkdómsinnsæi og meðferðarheldni hennar væri engin. Þá treysti hún ekki „kerfinu“, þar sem töldu heilbrigðis- og dómskerfinu, sem gæti skýrt það að hún vildi ekki koma fyrir dóminn. Í ljósi sögu hennar væri eins árs svipting sjálfræðis nauðsynleg og betra að hún væri lengri.

                D, sérfræðingur í geð- og embættislækningum, gaf einnig skýrslu fyrir dóminum. Hann staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Hann lýsti því að nauðsynlegt væri að varnaraðili væri sjálfræðissvipt vegna geðrofssjúkdóms síns. Hann teldi eitt ár lágmarkstíma, en færa mætti rök fyrir lengri sviptingu. Varnaraðili væri langveik, en hún hefði langa og flókna sögu um geðsjúkdóm. Hún hefði átt við mikla erfiðleika, álag og áföll að stríða og hefði nánast verið komin á götuna. Hún væri haldin geðrofssjúkdómi sem hamlaði henni í einkalífi og starfi og hefði líklega verið haldin honum frá því um 2012. Hún væri stödd í vítahring sem nauðsynlegt væri að brjóta upp með viðeigandi geðrofslyfjameðferð. Hann lýsti því að varnaraðili kæmi vel fyrir í upphafi en þegar rætt væri við hana kæmu veikindi hennar fljótlega í ljós.

                Varnaraðili kom ekki fyrir dóminn. Skipaður verjandi hennar lýsti því að hún hefði ekki treyst sér til þess. Hún hefði rætt um þann möguleika við hana að dómarinn kæmi til hennar en hún hefði verið því mótfallin. Verjandinn taldi með hliðsjón af samtölum sínum við varnaraðila og lækna hennar að það hefði ekki þýðingu fyrir úrslit málsins að dómari hitti hana.

                Skipaður verjandi varnaraðila hafnaði því að uppfyllt væru lagaskilyrði til að verða við kröfu sóknaraðila. Varnaraðili ætti ekki við veikindi að stríða, heldur hefði hún glímt við mikla erfiðleika og lent í áföllum sem hefðu leitt til áfallastreituröskunar. Fjallað væri um áföll hennar í vottorði D geðlæknis. Til vara krafðist hún þess að sjálfræðissviptingu yrði markaður skemmri tími. Ekki væri þörf á svo langri sviptingu. Ekkert plan hefði verið sett upp um meðferð hennar, en sex mánuðir ættu að vera fullnægjandi til að ljúka meðferð.

                                                                                              II

                Með vísan til vættis tveggja geðlækna, B og D, fyrir dómi, og með hliðsjón af öðrum fyrirliggjandi gögnum málsins, þykir sýnt að varnaraðili glímir við alvarlegan vanda sem felst í langvinnum geðrofssjúkdómi. Það er mat geðlækna að varnaraðili þurfi langtímameðferð til að takast á við sjúkdómsástand sitt og félagslega stöðu. Fái hún ekki viðeigandi meðferð stofni hún heilsu sinni og möguleikum á bata í voða. Ljóst er að hana skortir algerlega innsæi í þarfir sínar og stöðu og vill ekki þiggja aðstoð. Það er forsenda þess að árangur geti náðst við meðhöndlun varnaraðila að hún fái lyfjameðferð, læknis- og sálfræðiþjónustu og félagslega aðstoð. Telur dómurinn því brýna þörf á því að varnaraðili verði tímabundið svipt sjálfræði með hliðsjón af hennar eigin hagsmunum. Eru skilyrði a-liðar 4. gr., sbr. og 1. mgr. 5. gr., lögræðislaga nr. 71/1997 því uppfyllt til að verða við kröfu sóknaraðila um tímabundna sjálfræðissviptingu varnaraðila í eitt ár. Með hliðsjón af læknisvottorðum og framburði geðlæknanna eru ekki efni til þess að marka sviptingunni skemmri tíma.

                Samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 71/1997 getur varnaraðili, þegar liðnir eru sex mánuðir frá upphafi sviptingar, borið fram kröfu við héraðsdómara um að sjálfræðissvipting þessi verði felld úr gildi að nokkru eða öllu leyti telji hann skilyrði hennar ekki lengur fyrir hendi.

                Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað af rekstri málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 160.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Varnaraðili, A, kt. [...], er svipt sjálfræði í 12 mánuði.

                Allur kostnaður af málinu, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.