Hæstiréttur íslands

Mál nr. 332/2006


Lykilorð

  • Samningur


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. nóvember 2006.

Nr. 332/2006.

Óttar Guðlaugsson

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Reinhold Kristjánsson hrl.)

 

Samningur.

Ó gerði samning við L um að mánaðarlega yrðu millifærðar 140.000 krónur af bankareikningi hans yfir á annan tilgreindan reikning. Samningurinn var gerður á eyðublað með yfirskriftinni „Reglubundinn sparnaður”. Sá reikningur sem Ó tilgreindi í eyðublaðinu var þó ekki sparnaðarreikningur heldur greiðsluþjónustureikningur þáverandi sambúðarkonu hans sem jafnframt var útibússtjóri í því útibúi sem reikningurinn var stofnaður við. Ó hélt því fram að hann hefði ætlað að láta millifæra mánaðarlegar greiðslur yfir á sinn eigin sparnaðarreikning. L bæri ábyrgð á að hafa millifært greiðslur yfir á reikning annars einstaklings og krafðist Ó því endurgreiðslu þeirra fjárhæðar sem millifærðar höfðu verið. Í málinu var upplýst að greiðslur af reikningi Ó höfðu ávallt verið lagðar inn á reikning á nafni sambúðarkonu hans og að Ó hefði aldrei gert athugasemdir við reikningsyfirlit sem honum voru send vegna millifærslnanna. Þá bar vitni einnig að Ó hefði samþykkt að millifært yrði yfir á reikning sambúðarkonunnar og önnur vitni að hann hefði látið orð falla, er hann afturkallaði heimildina til millifærslna af reikningi sínum við sambúðarlokin, sem bentu til þess að honum hafi verið ljóst að féð hefði gengið til greiðsluþjónustu en ekki sparnaðar. Var L sýknað af kröfu Ó.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 3.220.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 140.000 krónum frá 4. júní 2002 til 1. júlí 2002, af 280.000 krónum frá þeim degi til 6. ágúst 2002, af 420.000 krónum frá þeim degi til 2. september 2002, af 560.000 krónum frá þeim degi til 1. október 2002, af 700.000 krónum frá þeim degi til 3. nóvember 2002, af 840.000 krónum frá þeim degi til 2. desember 2002, af 980.000 krónum frá þeim degi til 3. janúar 2003, af 1.120.000 krónum frá þeim degi til 3. febrúar 2003, af 1.260.000 krónum frá þeim degi til 3. mars 2003, af 1.400.000 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2003, af 1.540.000 krónum frá þeim degi til 2. maí 2003, af 1.680.000 krónum frá þeim degi til 2. júní 2003, af 1.820.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2003, af 1.960.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2003, af 2.100.000 krónum frá þeim degi til 1. september 2003, af 2.240.000 krónum frá þeim degi til 3. nóvember 2003, af 2.380.000 krónum frá þeim degi til 1. desember 2003, af 2.520.000 krónum frá þeim degi til 5. janúar 2004, af 2.660.000 krónum frá þeim degi til 2. febrúar 2004, af 2.800.000 krónum frá þeim degi til 3. mars 2004, af 2.940.000 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2004, af 3.080.000 krónum frá þeim degi til 3. maí 2004, en af 3.220.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Auk þeirra vitna, sem nefnd eru í héraðsdómi, kom fyrir dóminn Hulda Kærnested en hún gegndi starfi þjónustufulltrúa í útibúi stefnda við Höfðabakka í Reykjavík á árinu 2002, þegar samningurinn sem málsaðilar deila um var gerður. Skýrði hún svo frá að áfrýjandi og Kolbrún Stefánsdóttir, þáverandi sambýliskona áfrýjanda og útibússtjóri hjá stefnda, hafi komið til sín af því tilefni að áfrýjandi ætlaði „að greiða ... inn á reikninginn hennar, eða inn á greiðsluþjónustuna hennar.“ Hafi við það tækifæri komið fram skýr vilji áfrýjanda um þetta. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður talið að stefndi hafi fært fram fullnægjandi sönnun í málinu um að áfrýjandi hafi á þessum tíma heimilað að teknar yrðu mánaðarlega 140.000 krónur út af bankareikningi hans við útibú stefnda í Ólafsvík og fluttar á reikning í útibúinu við Höfðabakka í Reykjavík í því skyni að standa undir kostnaði við greiðsluþjónustu bankans vegna útgjalda Kolbrúnar, sameiginlegs heimilis þeirra og að vissu marki sinna eigin. Skiptir ekki máli fyrir úrlausn málsins hvort áfrýjanda hafi verið gert ljóst að reikningurinn yrði aðeins skráður á nafn Kolbrúnar. Verður hinn áfrýjaði dómur samkvæmt þessu staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Óttar Guðlaugsson, greiði stefnda, Landsbanka Íslands hf., 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

                                 Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2006.

Mál þetta var höfðað 3. nóvember 2005 og dómtekið 30. f.m.

Stefnandi er Óttar Guðlaugsson, (heimilisfang er ekki tilgreint í stefnu).

Stefndi er Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.220.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III kafla laga 38/2001. Dráttarvextir reiknist af kr. 140.000 frá 4. júní 2002 til 1. júlí 2002, af kr. 280.000 frá 1. júlí til 6. ágúst 2002, af kr. 420.000 frá 6. ágúst 2002 til 2. september 2002, af kr. 560.000 frá 2. september 2002 til 1. október 2002, af kr. 700.000 frá 1. október 2002 til 3. nóvember 2002, af kr. 840.000 frá 3. nóvember 2002 til 2. desember 2002, af kr. 980.000 frá 2. desember 2002 til 3. janúar 2003, af kr. 1.120.000 frá 3. janúar 2003 til 3. febrúar 2003, af kr. 1.260.000 frá 3. febrúar 2003 til 3. mars 2003, af kr. 1.400.000 frá 3. mars 2003 til 1. apríl 2003, af kr. 1.540.000 frá 1. apríl 2003 til 2. maí 2003, af kr. 1.680.000 frá 2. maí 2003 til 2. júní 2003, af kr. 1.820.000 frá 2. júní til 1. júlí 2003, af kr. 1.960.000 frá 1. júlí 2003 til 1. ágúst 2003, af kr. 2.100.000 frá 1. ágúst 2003 til 1. september 2003, af kr. 2.240.000 frá 1. september 2003 til 3. nóvember 2003, af kr. 2.380.000 frá 3. nóvember 2003 til 1. desember 2003, af kr. 2.520.000 frá 1. desember 2003 til 5. janúar 2004, af kr. 2.660.000 frá 5. janúar 2004 til 2. febrúar 2004, af kr. 2.800.000 frá 2. febrúar 2004 til 3. mars. 2004, af kr. 2.940.000 frá 3. mars 2004 til 1. apríl 2004, af kr. 3.080.000 frá 1. apríl 2004 til 3. maí 2004, af kr. 3.220.000 frá þeim tíma til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að þær verði lækkaðar og að dráttarvextir reiknist frá þingfestingu málsins.  Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Málavextir:

Frá málsatvikum greinir í stefnu á þá leið að stefnandi hafi gert samning við stefnda um reglubundinn mánaðarlegan sparnað í banka stefnda.  Samningurinn  er fram­lagður í formi útfyllts eyðublaðs merkt stefnda með yfirskriftinni “Reglubundinn sparn­­aður”.  Þar er kveðið á um mánaðarlegar innborganir á reikninginn 316700 að upp­hæð 140.000 krónur sem skuldfærðar verði á einkareikning stefnanda 0190-26-14.  Undirskrift stefnanda er með dagsetningunni 1. júní 2002.  Í athugsemdareit þar fyrir neðan undir yfirskriftinni:  “Útfyllist af banka” er ritað:  “Tryggingar v. OG 856”.

Í stefnu segir að stefnandi hafi ekki haft frekari afskipti af skuldfærslum þessum, en séð að tilgreind fjárhæð, 140.000 krónur, væri reglulega millifærð af einkareikningi hans númer 0190-26-14. Frekar en aðrir reikningseigendur hafi stefnandi ekki kannað hvort stefndi hafi greitt inn á réttan sparnaðarreikning heldur gert ráð fyrir að bankinn, stefndi í þessu máli, millifærði í samræmi við samning aðila.  Seinni hluta maí 2005 hafi stefnandi óskað eftir því við starfsmann stefnda við útibú stefnda við Höfðabakka, að fjárhæð, sem hann hefði sparað með reglulegum sparnaði yrði millifærð á veltu­reikning stefnanda. Starfsmaður hafi fullyrt að sparnaðarreikningur númer 316700 væri án innistæðu.

Stefnandi og Kolbrún Stefánsdóttir, sem var útibússtjóri Höfðabakkaútibús stefnda á því árabili sem um ræðir í málinu, voru í óvígðri sambúð að Huldubraut 26, Kópavogi frá því í maí 2002 fram í maí 2004 er þau slitu samvistir.  Einkareikningur Kolbrúnar í bankaútibúinu er númer nr. 0116-26-1 og greiðsluþjónustureikningur á hennar nafni nr. 316700 hafði verið við lýði fyrir upphaf sambúðarinnar.   Stefnandi bar fyrir dóminum að hann hefði útfyllt fyrrgreint samningseyðublað á heimili þeirra Kolbrúnar samkvæmt leiðbeiningum hennar. Hann kvaðst ekki hafa vitað að um greiðslu­þjónustu­reikning Kolbrúnar væri að ræða. Kolbrún bar að við upphaf sambúðarinnar hefði verið ákveðið að skuldir stefnanda færu inn á greiðsludreifingu hennar svo og framlag hans til heimilisins.  Hún kvað stefnanda og þjónustufulltrúann Huldu Kærnested hafa samið um fyrirkomulag þessa.   Vitnið Hulda Kærnested, starfsmaður stefnda sem gegndi starfi þjónustufulltrúa á umræddum tíma, kvaðst hafa vitað að stefnandi og Kolbrún Stefánsdóttir voru í sambúð.  Hún kvað  stefnanda hafa komið til sín í maí 2002 vegna greiðsludreifingarþjónustu; fyrrgreint samningsskjal hafi hins vegar ekki borist sér.  Kerfi bankans hafi á þeim tíma ekki boðið upp á að hægt væri að taka af nema einum reikningi til færslu inn á einn og sama greiðsluþjónustu­reikning og hafi verið afráðið að greiðslur af reikningi stefnanda færu inn á reikning Kolbrúnar. 

Yfirlit framangreindra bankareikninga liggja frammi.  Úttektir af reikningi stefnanda samsvara um dagsetningar og fjárhæðir að öllu leyti því sem fram kemur af kröfugerð í stefnu, m.a. um afmörkun dráttarvaxtatímabila.  Texti fyrstu færslunnar, 4. júní 2002, er “greiðsluþjónusta” en allra hinna “útborgun 011626000001”.  Fyrsta greiðslan millifærðist inn á þjónustureikninginn nr. 316700 sem innborgun stefnanda en allar eftirfarandi greiðslu voru færðar inn á einkareikning Kolbrúnar Stefánsdóttur og samdægurs voru þær fjárhæðir, en í nokkrum tilvikum lítið eitt hærri, millifærðar af þeim reikningi inn á greiðsluþjónustureikninginn.  Í einu tilviki, þ.e. í október 2003, er ekki sýnd útborgun af einkareikningi stefnanda sem samsvari millifærslum á hinum öðrum reikningum sem nefndir hafa verið.  Vitnið Hulda Kærnested kvað þetta skýrast af því að næg innstæða hefði ekki verið á reikningi stefnanda;  hún hefði því hringt í hann og látið hann vita og hann hefði gefið leyfi sitt til að fjárhæðin væri tekin út af öðrum reikningi í eigu hans og var þetta staðfest af stefnanda fyrir dóminum.

Stefnandi bar að þegar slitnaði upp úr sambúð þeirra Kolbrúnar (í maí 2004) hefði hann farið í bankann að skoða sín mál og þegar innstæða sparnaðar hans hefði hvergi verið finnanleg hefði hann tekið fyrir umræddar greiðslur af reikningi sínum.   Vitnin Áslaug Gísladóttir og Guðfinna Ásgeirsdóttir voru starfsmenn Höfðabakkaútibús stefnda á þeim tíma sem um ræðir í málinu.  Áslaug kvað stefnanda hafa átt símtal við hana á árinu 2004 og sagt sig úr greiðsluþjónustu.  Hún hafi vísað erindinu til þjónustufulltrúa þar sem hún hafði ekki aðgang að því kerfi en hefði hann verið að hætta í sparnaði hefði hún getað afgreitt það.  Guðfinna kvað Óttar hafa komið til sín snemma árs 2005 og óskað eftir að fá útprentun af greiðsluþjónustu sem hann hefði haft og greitt 140.000 krónur á mánuði í tvö ár.  Þegar í ljós hafi komið að greiðslur hefðu farið í gegnum reikning Kolbrúnar Stefánsdóttur hafi hann viljað fá útprentun af greiðsluþjónustureikningi hennar sem hafi ekki verið leyfilegt.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 8. júní 2005, til stefnda, útibúsins Höfðabakka, er þess óskað að öll inneign reglubundins sparnaðarreiknings 316700 verði millifærð á ávísanareikning stefnanda hjá Landsbanka Íslands, Ólafsvík, 190-26-14.  Stefnandi sé í þeirri trú að hann sé eigandi sparireiknings 316700 og því sé millifærsla af þeim reikningi óheimil án samþykkis þess sem greiði reglubundinn sparnað.  Í svarbréfi, dags. 11. ágúst 2005, segir að form framangreindrar umsóknar virðist vera rangt þar sem umrætt númer sé ekki númer á sparnaðarreikningi heldur á þjónustureikningi ætluðum til skuldfærslu vegna útgjaldadreifingar reikninga.  Ekki sé unnt að hafa reikning á nema einu nafni og sé reikningurinn á nafni Kolbrúnar Stefánsdóttur.  Mánaðarlega frá 4. júní 2002 til 3. maí 2004 hafi verið færðar 140.000 krónur af reikningi stefnanda nr. 0190-26-14 inn á reikning Kolbrúnar Stefánsdóttur nr. 0116-26-1 og þaðan millifært á þjónustureikninginn til greiðslu reikninga á nafni þeirra beggja.  Heldur meira en 140.00 krónur hafi þó verið millifærðar af reikningi Kolbrúnar inn á útgjaldareikninginn, t.d. hafi 147.000 krónur verið færðar þ. 3. júní 2002, 163.969 krónur þ. 1. júlí 2002 og sama upphæð þ. 1. ágúst 2002. 

Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 25. ágúst 2005, til stefnda segir m.a. að ekki sé unnt að gera kröfu til þess að stefnandi þekki eftir númerum hvort reikningur sé sparnaðar­reikningur eða þjónustureikningur.  Sett er fram krafa um að stefndi, sem vinnu­veitandi útibússtjórans Kolbrúnar Stefánsdóttur  og bankastofnun, sem stefnandi hefði verið í umtalsverðum viðskiptum við allt frá árinu 1974, gangist við ábyrgð sinni.  Þess er síðan krafist að sama fjárhæð og nemi heimildarlausum millifærslum af reikningi stefnanda yfir á reikning starfsmanns stefnda verði færð á reikning stefnanda númer 0190-26-14 ásamt vöxtum sparnaðarreiknings af fjárhæðinni eigi síðar en 2. september s.á.

Í bréfi stefnda, dags. 21. september 2005, til lögmanns stefnanda segir að umræddar millifærslur hafi verið framkvæmdar að beiðni stefnanda sem hafi komið í banka­útibúið í því skyni að stofna greiðsludreifingarreikning en svo óheppileg hafi viljað til að rangt umsóknarform hafi verið útfyllt.  Í tvö ár hafi ýmsir reikningar stefnanda verið greiddir af greiðsludreifingarreikningnum s.s. árgjald í  Golfklúbb Reykjavíkur, bifreiðagjöld vegna OG-856 og tryggingar.  Þá hafi komið fram að stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að hætt yrði að millifæra á greiðsludreifingarreikninginn um það leyti sem sambúð hans og Kolbrúnar Stefánsdóttur hafi lokið.  Það hafi hann gert án nokkurra athugasemda við fyrri framkvæmd sem hafi staðið í 23 mánuði og án kröfu um endurgreiðslu enda hafi honum verið ljóst að þetta hafi verið framkvæmt að beiðni hans.  Einnig hafi komið fram upplýsingar um það á mánaðarlegum reikningsyfirlitum sem honum hafi verið send.  Á yfirlitum bankans sé ábending til viðskiptavina um að þeir geri athugasemdir við yfirlitin innan 10 daga, annars teljist þau rétt.  Stefnanda hafi hins vegar aldrei borist yfirlit yfir sparnaðarreikning frá útibúinu þar sem hann hafi aldrei verið stofnaður.  Væntanlega hafi hann ekki heldur talið þann sparnað fram á skattskýrslum.  Bankinn sendi, auk fyrrnefndra reikningsyfirlita, út heildaryfirlit um áramót til að auðvelda viðskiptavinum sínum gerð skattskýrslna.  Ekki sé vitað til að stefnandi hafi heldur gert neinar athugasemdir við þau yfirlit.  Að lokum er vísað til þess að á þeim tíma, sem millifærslurnar hafi átt sér stað, hafi stefnandi og Kolbrún búið saman og verði að telja það, sem um sé deilt, vera óviðkomandi stefnda.

Málsástæður stefnanda:

Gögn málsins, þ.á m. samningur um reglulegan sparnað, sýna á ótvíræðan hátt að stefnandi var að stofna reikning í banka stefnda.  Reikningurinn átti að vera á nafni stefnanda sjálfs og breyti engu hvort rétt eyðublaðaform hafi verið notað eða ekki.  Ekki komi fram á reikningsyfirlitum hver sé eigandi reiknings 011626000001 og mátti stefnandi gera ráð fyrir, hefði hann skoðað það sérstaklega sem ekki var, að stefndi væri sjálfur eigandi reikningsins.  Skilyrði úttektar af veltureikningi, m.a. reikningi stefnanda nr. 0190-26-14, sé að heimild til úttektarinnar sé fyrir hendi og framvísun fullgilds persónuskilríkis og beri stefndi ábyrgð á óheimilum millifærslum starfs­manna sinna samkvæmt almennum reglum um vinnuveitendaábyrgð.  Stefnandi viti ekki hvaða starfsmenn stefnda millifærðu peninga án heimildar af reikningi sínum og varði það engu þar sem hagsmunir starfsmanna stefnda séu afleiddir af úrslitum í máli þessu og beini stefnandi því kröfu sinni að stefnda.

Málsástæður stefnda:

A.  Aðalkrafa.

Millifærslurnar, sem um ræðir í málinu, voru gerðar með heimild og í samráði við stefnanda og samkvæmt samningi þó að ekki hafi verið notað rétt form.  Á það er bent að stefnandi hafi óskað eftir því að greiddar væru tryggingar ökutækis síns OG 856 .  Á öllum yfirlitum, sem stefnandi fékk sé sérstakur texti þar sem óskað sé eftir að athugasemdir verði gerðar innan tuttugu daga en annars teljist reikningurinn réttur.  Þá sé einungis með fyrstu millifærslunni textinn “Greiðsluþjónusta” en allar aðrar millifærslur séu nefndar “Útborgun”.  Stefnandi hafi aldrei gert athugasemdir við yfir­litin.  Stefnandi, sem sé mjög vanur viðskiptum við bankann, hafi ekki fengið yfirlit yfir ætlaðan sparnað né heldur stofnskírteini.  Stefndi bjóði upp á margar sparnaðar­leiðir og er þeirri spurningu varpað fram hverja þeirra stefnandi hafi talið sig hafa valið.  Þá er skorað á stefnanda að leggja fram skattframtöl fyrir árin 2002-2004.  Stefnandi hafi hvað sem öðru líður samþykkt millifærslurnar með athafnaleysi sínu eftir á og byggist það mat stefnda ekki síst á því að hann hafi ekki krafist endur­greiðslu fyrr en ári eftir að hann hafi tilkynnt að hætta skyldi millifærslunum, í maí 2004, þegar sambúð hans og þáverandi starfsmanns stefnda hafi lokið.

B.  Varakrafa.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi kröfu á endurgreiðslu er þess krafist að fjárhæðin verði lækkuð sem nemur öllum greiðslum vegna ökutækisins OG 856 og öðrum persónulegum útgjöldum stefnanda sem greidd hafi verið af greiðslu­þjónustureikningi hans og sambýliskonu hans.  Þá er þess krafist að dráttarvextir verði ekki tildæmdir nema frá þingfestingu málsins enda hafi krafa stefnanda þá fyrst legið endanlega fyrir, sbr. 4. mgr. 5. gr. vaxtalaga.

Niðurstöður:

Í málsástæðnakafla stefnu segir:  “Stefnandi hefur verið í viðskiptum við stefnda frá árinu 1974.  Stefnandi er með fjölmarga reikninga hjá stefnda, til dæmis veltu­reikninga, gjaldeyrisreikninga og fjárvörslureikning.  Um viðskipti stefnanda og stefnda gilda skilmálar sem viðskiptamönnum stefnda eru kynntir eða eru öllum ljósir sem eru í viðskiptum við banka eða sparisjóði.”  Vegna þessa hefur það, sem hér verður greint, þýðingu fyrir úrslit málsins:   Samningsblaðið, sem stefnandi reisir rétt sinn á, tilgreinir reikningsnúmer sem þegar var fyrir hendi. Tilgreint er á blaðinu að stefnandi heimili sérstaklega úttektir á tryggingaiðgjöldum vegna bifreiðar sinnar.  Stefnandi hefur ekki lagt fram stofnskírteini sparnaðarreiknings eða yfirlit stefnda um inneign á slíkum reikningi.  Stefnandi hefur ekki orðið við áskorun um að leggja fram skattframtöl sín og ekki heldur upplýst hvaða sparnaðarleið hann hafi valið.

Greiðslur af reikningi stefnanda voru lagðar inn á þann reikning, nr. 316700, sem samningurinn tiltók.  Stefnandi gerði aldrei athugasemdir við reikningsyfirlit sem honum voru send en textar vegna millifærslnanna voru til þess fallnar, eins og fram er komið, að vekja grunsemdir um að þær gengju ekki inn á sparnaðarreikning hans hefði sú verið ætlunin.  Stefnandi lét stöðva frekari millifærslur í maí 2004 þegar lauk sambúð hans og Kolbrúnar Stefánsdóttur.  Hér skal vísað til fyrrgreindra vitna­skýrslna; Áslaugar Gísladóttur um að stefnandi hafi sagt sig úr greiðsluþjónustu og Guðfinnu Ásgeirsdóttur um að stefnandi hafi óskað eftir útprentun af greiðsluþjónustu sem hann hafi haft um tveggja ára skeið.  Þá er á það fallist með stefnda að það hafi þýðingu við úrlausn þess hver vilji stefnanda hafi verið að hann setti ekki sannanlega fram við stefnda kvörtun eða greiðslukröfu fyrr en rúmu ári eftir að hann tilkynnti að millifærslunum skyldi hætt.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða dómsins sú að eigi sé sýnt fram á að ætlun stefnanda hafi verið að stofna sparnaðarreikning hjá hinni stefndu bankastofnun heldur hafi honum verið eða mátt vera ljóst að rangt eyðublað væri notað og að tilgreindur reikningur, sem millifærast skyldi á, væri greiðsluþjónustureikningur.  Niðurstaða dómsins er samkvæmt þessu sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.

Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Landsbanki Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Óttars Guðlaugssonar.

Málskostnaður fellur niður.