Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-55
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ráðningarsamningur
- Riftun
- Skaðabætur
- Miskabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 11. apríl 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. mars sama ár í máli nr. 186/2023: A gegn B ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur málsins lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu launa í uppsagnarfresti auk miskabóta. Í málinu er deilt um hvort gagnaðila hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningi við leyfisbeiðanda í desember 2021 á þeim grundvelli að hún hafi neitað að undirgangast hraðpróf vegna Covid-19 þegar hún mætti til vinnu hjá gagnaðila.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sannað væri að leyfisbeiðandi hefði eigi síðar en í upphafi vinnudags 20. desember 2021 fengið vitneskju um að starfsfólk gagnaðila ætti að fara í hraðpróf. Leyfisbeiðanda hefði á fundi eftir hádegi sama dag verið gerð grein fyrir því að henni yrði vikið fyrirvaralaust úr starfi ef hún samþykkti ekki fyrirmæli um að fara í prófið. Þá hefði hún þegar verið búin að neita að fara í hraðpróf þegar hún fékk bréf gagnaðila 21. desember 2021 með útskýringum á ákvörðun um riftun ráðningarsamnings. Landsréttur tók einnig fram að leyfisbeiðandi hefði ekki brugðist við fullyrðingum í bréfi gagnaðila fyrr en mánuði síðar. Fullt tilefni hefði þó verið fyrir leyfisbeiðanda að bregðast strax við. Þá yrði ekki annað ráðið af þeirri ákvörðun leyfisbeiðanda að mæta ekki til vinnu 21. desember en að hún hafi þá vitað að ráðningarsamningnum hefði verið rift. Einnig leit Landsréttur til þess að við þær aðstæður sem upp voru komnar gæti leyfisbeiðandi ekki innt af hendi vinnu sína. Í því hafi ótvírætt falist veruleg vanefnd hennar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaðan hafi verulega almenna þýðingu fyrir réttarstöðu launþega á vinnumarkaði og hvort vinnuveitanda sé heimilt að rifta ráðningarsambandi fyrirvaralaust án formlegrar tilkynningar og undangenginnar viðvörunar. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda þar sem hún fékk ekki greidd laun í uppsagnarfresti. Að lokum telur leyfisbeiðandi að málsmeðferð í héraði og Landsrétti hafi verið ábótavant að því leyti að engin afstaða hafi verið tekin til þess hvaða þýðingu það hefði við mat á framburði vitna, sem öll voru starfsmenn og/eða eigendur gagnaðila, að lögmaður gagnaðila hélt sameiginlegan fund með þeim áður en þau gáfu skýrslu í héraði.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.