Hæstiréttur íslands

Mál nr. 179/2004


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Miski
  • Meðdómsmaður
  • Dómur
  • Dómsuppkvaðning
  • Ómerking héraðsdóms
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004.

Nr. 179/2004.

Bryndís Heimisdóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf. og

Ásdísi Björk Kristinsdóttur

(Hákon Árnason hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Miski. Meðdómendur. Dómar. Dómsuppkvaðning. Ómerking héraðsdóms. Gjafsókn.

 

Deilt var um hvort uppfyllt væru skilyrði 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku ákvörðunar um bætur til B, vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á heilsu hennar, en B slasaðist í umferðarslysi árið 1995. Megin deiluefnið laut því að samanburði á álitsgerð örorkunefndar frá 1997 og mati dómkvaddra matsmanna frá 2002. Var talið að héraðsdómari hefði með réttu átt að kveðja til sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um meðferð einkamála. Vegna þessara annmarka, auk annarra sem vörðuðu samningu dómsins og meðferð málsins, var talið óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. maí 2004 og krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér 2.894.457 krónur með 2% ársvöxtum frá 10. maí 1995 til 6. febrúar 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hún krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins slasaðist áfrýjandi í umferðarslysi 10. maí 1995 þegar ekið var harkalega aftan á bifreið sem hún ók. Í álitsgerð örorkunefndar 15. júlí 1997 voru bæði varanlegur miski hennar og varanleg örorka talin 10%. Gengið var til uppgjörs vegna tjóns áfrýjanda á grundvelli þessarar álitsgerðar og greiddi hið stefnda vátryggingafélag bætur til hennar 25. ágúst 1997. Lýtur ágreiningur málsaðila að því hvort síðar hafi orðið ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu áfrýjanda þannig að ætla megi að miskastig og örorkustig sé verulega hærra en áður var talið og þar með uppfyllt skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að taka upp að nýju ákvörðun um bætur til hennar.

Áfrýjandi kveður heilsu sinni hafa hrakað mjög eftir að álitsgerð örorkunefndar var fengin og hafi afleiðingar slyssins reynst miklu meiri en þá hafi verið ljóst. Hún reisir kröfu sína á mati dómkvaddra manna 20. desember 2002, þar sem varanleg örorka vegna slyssins er metin 25% en varanlegur miski 20%. Megin deiluefnið lýtur því að samanburði á álitsgerð örorkunefndar og mati hinna dómkvöddu manna. Þar reynir á sérkunnáttu til úrlausnar og hefði héraðsdómari því með réttu átt að kveðja til sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum. Þar að auki er lagt til grundvallar í forsendum héraðsdóms, að hinir dómkvöddu menn hafi metið áfrýjanda eins og hún var þegar þeir sáu hana en ekki lagt mat á hvort heilsufar hennar hefði breyst eftir að örorkunefnd hafi metið örorku hennar og miska. Er þetta andstætt því, sem matsmenn báru fyrir héraðsdómi. Þegar við þetta bætist, að málið var í héraði upphaflega tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi 20. nóvember 2003 en tekið fyrir aftur á dómþingi 23. febrúar 2004 og sagt hafa verið flutt munnlega á ný, þar á meðal af hálfu áfrýjanda af öðrum lögmanni en áður, dómtekið og í því þegar í stað kveðinn upp dómur sá, sem hér er til endurskoðunar, eru slíkir annmarkar á honum og meðferð málsins að ómerkja verður hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að hver aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda á báðum dómstigum greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Bryndísar Heimisdóttur, í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar á báðum dómstigum, samtals 550.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2004.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi þann 30. nóvember sl. er höfðað með stefnu útgefinni 14. apríl 2003 og var málið þingfest þann 8. maí 2003.

 

 Stefnandi málsins er Bryndís Heimisdóttir, kt. 160565-3149, til heimilis að Túngötu 19a, Keflavík.

 

Stefndu eru Vátryggingafélag Íslands hf. kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík og Ásdís Björk Kristinsdóttir, kt. 040874-5189, Njarðvíkurbraut 28, Njarðvík.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.894.457.- með 2% ársvöxtum frá 10. maí 1995 til 6. febrúar 2003, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/201 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál og taki tildæmdur málskostnaður mið af því, að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

 

Dómkröfur stefndu eru aðallega að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Til vara gera stefndu þær dómkröfur að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.

 

Málavextir:

Stefnandi slasaðist í umferðarslysi þann 10. maí 1995. Slysið mun hafa orðið með þeim hætti, að ekið var aftan á bifreið, sem stefnandi var ökumaður í og var áreksturinn harður.

Læknir, sem skoðaði stefnanda eftir slysið, taldi hana vera með dæmigerðan svipuólaráverka, þ.e. tognunaráverka á hálsi með einkenni upp í hnakka og niður í axlir, niður á milli herðablaða.

Þann 2. desember 1996 mat Jónas Hallgrímsson, læknir, afleiðingar slyssins. Var niðurstaða hans, að varanlegur miski af völdum slyssins væri 10%, en varanleg örorka 15%. Óskað var eftir áliti örorkunefndar og er niðurstaða hennar dagsett 15. júlí 1997 og var hún sú, að varanlegur miski af völdum slyssins teldist 10% og varanleg örorka 10%.

Með því að málið snýst að mestu um samanburð á mati örorkunefndar og mati dómkvaddra matsmanna, þykir nauðsynlegt að taka upp í málavaxtalýsingu kafla úr báðum gerðunum.

Í álitsgerð örorkunefndar frá 15. júlí 1997 er ástandi stefnanda svo lýst eftir skoðun þann 4. júní s.á.: „Limaburður eðlilegur og gengur Bryndís án erfiðleika á tám og hælum. Hægri öxl stendur svolítið hærra en sú vinstri en ekki er að sjá neinar vöðvarýrnanir. Aftan frá séð eru háls og bak bein og séð frá hlið eru sveigjur hryggjar eðlilegar. Hreyfigeta í hálsi er eðlileg, en hreyfingar eru allar hægar og varkárar og framkalla eymsli og verki við enda hreyfiferils sérstaklega við réttu og snúningshreyfingar. Hreyfigeta í baki er eðlileg og eymslalaus. Það eru þreyfieymsli og bankeymsli yfir hryggtindum í hálshrygg og efri hluta brjósthryggjar. Það eru þreifieymsli yfir vöðvafestum í hnakka, yfir hálsvöðvum að aftanverðu og yfir sjalvöðva (m. trapezius), yfir ofankambsvöðva (m. supraspinatus), herðablaðslétti (m. levator scapulae) og einnig yfir langlægum bakvöðvum meðfram hrygg í efri hluta brjósthryggjar. Hreyfigeta í öxlum og olnbogum er eðlileg svo og hreyfigeta í mjöðmum og hnjám. Hreyfingar í þessum liðum eru eymslalausar. Við taugaskoðun er jafnvægispróf (Romberg) eðlilegt og taugaþanspróf (Laseque) sömuleiðis eðlilegt. Sinaviðbrögð í efri og neðri útlimum eru eðlileg og samhverf. Kraftar virðast almennt svolítið minnkaðir í hægri efri útlim en eru að öðru leyti eðlilegir. Snertiskyn er eðlilegt í útlimum nema það virðist vægt minnkað í hægri litlafingri. Þar er þó tveggja punkta aðgreining eðlileg eins og í öðrum fingurgómum og svitamyndun og litarháttur eðlilegur.

Niðurstöður: Bryndís lenti í umferðarslysi 10. maí 1995 er ekið var aftan á kyrrstæða bifreið sem hún ók. Hlaut hún við þetta hálshnykk með tognunaráverka á háls og hefur verið með eftir það óþægindi í hálsi, höfði niður í efri hluta brjósthryggjar og undir hægra herðablaði. Hún hefur einnig fundið fyrir dofatilfinningu í hægra litlafingri. Reyndar hafa verið ýmsar tegundir meðferðar svo sem sjúkraþjálfun, sprautumeðferð svo og önnur lyfjameðferð. Þá var hún í tæplega fjórar vikur til æfinga á heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði í árslok 1995. Röntgenrannsókn af hálshrygg á slysdegi sýndi ekki fram á nein áverkamerki, röntgenrannsókn af hálshrygg og brjósthrygg liðlega ári eftir slys sýndi heldur ekki fram á nein áverkamerki né heldur segulómrannsókn sem var þá einnig framkvæmd. Bryndís hefur ekki getað stundað fulla vinnu vegna óþæginda sem hún er með en þau eru aðallega verkir í höfði, hálsi og niður í herðar, niður í hægra herðablað og undir því og einnig dofatilfinning út í hægri litla fingur. Hefur hún getað stundað íhlaupavinnu frá því í janúar síðastliðnum en henni versna einkennin við öll átök og áreynslu. Örorkunefnd telur að eftir 1. maí 1996 hafi Bryndís ekki getað vænst frekari bata sem máli skiptir af afleiðingum umferðarslyssins 10. maí 1995. Að öllum gögnum virtum þykir varanlegur miski hennar vegna afleiðinga slyssins hæfilega metinn 10%-tíu af hundraði-. Örorkunefnd telur að afleiðingar slyssins hafi nokkur áhrif til skerðingar á getu Bryndísar til öflunar vinnutekna í framtíðinni, einkum við störf sem teljast líkamlega erfið. Er varanleg örorka hennar vegna afleiðinga slyssins metin 10%-tíu af hundraði-."

Greiddi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., stefnanda bætur þann 25. ágúst 1997 í samræmi við niðurstöðu örorkunefndar.

Á uppgjör skaðabóta til stefnanda vegna slyssins, dagsett 25. ágúst 1997 er áritun undirrituð af þáverandi lögmanni hennar, Vilhjálmi Þórhallssyni, hrl., á þessa leið: „Samþykki ofangreint uppgjör með fyrirvara um frádrátt sjúkradagpeninga frá VSFS kr. 100.040 og ennfremur vegna þjáningabóta, en ég tel að tímabil þeirra eigi að miðast við hvenær ástand Bryndísar sé orðið stöðugt, m.ö.o. að ekki megi vænta frekari bata."

 

Í stefnu segir, að eftir að mat örorkunefndar hafi legið fyrir, hafi heilsu stefnanda hrakað mjög. Hafi afleiðingar slyssins frá 10. maí 1995 reynst til muna alvarlegri en ljóst hafi verið þegar matið hafi farið fram.

Stefnandi hefur lagt fram nokkur læknisvottorð, eldri en álitsgerð örorkunefndar, þ.á m. frá Bjarna Hannessyni, yfirlækni Heila- og taugaskurðlækningadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur, dags. 13.12. 1996, þar sem segir m.a.: „Saga sjúklings og skoðun benda til að sjúklingur hafi fengið tognun í hálsinn með eymslum yfir vöðvafestum hægra megin í hnakka og hún er með dofa yfir baugfingri og litlafingri hægri handar, sem bendir á að strekkst hafi á hálstaugum. Á hinn bóginn eru segulómunarmyndir eðlilegar þannig að sjúklingur hefur ekki merki um liðhlaup eða hálsbrot né brjósklos. Þar sem sjúklingur rekur einkenni sín til hálsáverkans sem hún varð fyrir þ. 10.05.95 finnst mér eðlilegt að álykta að orsakasamband sé þar á milli.”

Stefnandi hefur lagt fram þrjú nýleg læknisvottorð, sem hún telur, að sýni fram á, að heilsu  hennar hafi hrakað mjög frá því mat örorkunefndar fór fram.

Í vottorði Jósefs Ó. Blöndal, læknis, sem dagsett er 21. 12. 2001, segir m.a.: „Bryndís leitaði til undirritaðs haustið 1998 vegna verkja í hálsi og ofarlega í baki eftir bílslys 1995. … Engin verkjasaga af neinu tagi þar til í maí 1995, var þá að aka í bíl, í belti, var að taka vi. beygju, er keyrt var aftan á bíl hennar á talsverðri ferð, þannig að bílstjórasætið brotnaði. Fékk fljótlega verki bæði í höfuð og háls hæ. megin og á milli herðablaða. Allar götur síðan haft verki í hálsi og út í öxl og handlegg, allt fram í IV og V fingur hæ. megin. Dofi í sömu fingrum og jafnvel einnig í næstu tveimur. Einnig verkur á milli herðablaða, sem er meira eða minna stöðugur, en versnar við álag og snúningshreyfingar. Bryndís leitaði á Heilsugæslustöðina í Keflavík, þar sem teknar voru röntgen myndir, hún sett í hálskraga og sett á verkjalyf og bólgueyðandi. Var óvinnufær eftir slysið. Notaði kragann lítið. Vorið 1997 hóf hún aftur vinnu. Síðan verið nokkrum sinnum í sjúkraþjálfun, dvalist á Heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði, farið í nálarstungur og heilun. Segist vera betri en í upphafi, en ástandið óbreytt í 1-2 ár fyrir heimsóknina haustið 1998. Aldrei verkjalaus, sefur illa.” Ennfremur í sama vottorði: „Samantekt: Fyrr um frísk kona, engin verkjasaga. Aftan á keyrsla 1995 og í beinu framhaldi af því verkir hæ. megin í háls og milli herðablaða. Dæmigerður svokallaður whip-lash-áverki með einkennum frá bogaliðum hálsins og einnig frá brjósthrygg. Myndatökur leiddu ekkert athugavert í ljós. Ýmis konar íhaldsöm meðhöndlun hefur engan árangur borið. Meðhöndluð á Bak- og hálsdeild SFS með góðum árangri. Gera má ráð fyrir að hún fái áfram álagsbundna verki bæði í háls og brjósthrygg, en horfurnar almennt séð ættu að vera þokkalega góðar. Beint samhengi er á milli árekstursins og einkenna Bryndísar.”

Í vottorði Gunnars B. Gunnarssonar, bæklunarlæknis, dags. 6.12. 2001, er rakin sjúkrasaga stefnanda frá því að hún kom á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í framhaldi af umferðarslysinu 10. maí 1995. Vottorðinu lýkur með eftirfarandi kafla: „Samantekt og horfur. Kona sem lendir í slæmri aftanákeyrslu 10.05.95, er lengi slæm af verkjum í hálsi og baki sem fara mjög hægt skánandi og er í langvinnri sjúkraþjálfun og verkjalyfja meðferð og gengur illa að komast aftur í vinnu þar sem hún versnar fljótt við það. Byrjar síðan að vinna 21.01.97 og getur unnið að einhverju leyti en með vandkvæðum þó áfram þar til hún verður þunguð og á seinni hluta þeirrar meðgöngu og verður hún slæm af grindargliðnun og bakverkjum sem síðan gengur illa að ná tökum á. Einnig þjökuð af þunglyndi yfir ástandi sínu eftir þetta. Hún hefur farið eitthvað hægt skánandi í seinni tíð sérstaklega grindargliðnunin. Það sem háir henni að því er virðist mest nú er bakóþægindin og minnkuð hreyfigeta og að hún hefur verið alveg frá vinnu. Meðferðarúrræði eru fyrst og fremst bólguverkjastillandi lyf ásamt sjúkraþjálfun og styrkjandi æfingum og sýnir hún einhverja framför, hefur allavega góðan vilja en enn langt í land að hún sé orðin vinnufær og óljóst hvort hún verði það yfirleitt. Óþægindi hennar eru að einhverju leyti vefjagigtarleg og er nokkuð erfitt að fullyrða um orsakir þess þó nokkuð greinilegt er að stoðkerfiseinkenni hennar tengjast greinilega umræddu slysi, Þá er ljóst að eitthvað af einkennum hennar í seinni tíð tengjast einnig grindarlosuninni sem hún þjáðist af á meðgöngunni, Þó er líklegt að hún hefði ekki orðið eins slæm af því ef hún hefði ekki verið svo viðkvæm fyrir af afleiðingum slyssins.  Varðandi framtíðina er hún mjög óljós, ljóst er að þessi kona verður aldrei fær til erfiðari vinni en hugsanlegt er og æskilegt að hún komist til léttari starfa a.m.k. að hluta til einhvern tímann í framtíðinni en getur það tekið einhver ár og ekki víst að það gangi yfirleitt.”

Í læknisvottorði vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri, dagsettu 14.09. 2001, ritað Gunnar B. Gunnarsson, bæklunarlæknir: „Ekið var aftan á bifreið Bryndísar 09.05.95, eftir það slæm í hálsi og herðum. Frá slysinu hafði hún smám saman skánað, farið í meðferð í Hveragerði og í Stykkishólmi og fengið einhvern bata af, en alltaf slæm í hálsi og út í herðar, geislar að einhverju leyti út í handlim hæ. megin. Dofatilfinning verið þá áður rannsökuð með Rgt. og segulómun sem sýndi ekkert óeðlil. Var komin aftur til vinnu við verslunarstörf og gat lifað með óþægindum sínum með því að beita sér rétt. Verður síðan þunguð og upp úr því verður hún mjög slæm af grindargliðnun og magnaðist grindargliðnunin í meðgöngunni, þannig að hún varð að ganga með hjólagrind og fæddi síðan með keisaraskurði 05.01.2000. Mun hafa verið alveg óvinnufær alla meðgönguna og gengið illa að skána upp úr því. Eftir fæðingu hefur hún átt erfitt með gang vegna verkja í grindinni og upp í bak auk eldri verkja frá hálsi og herðasvæði sem mögnuðust einnig. Þrátt fyrir sjúkraþjálfun og bólgustillandi lyf og belti hefur þetta gengið illa.”

 

Í stefnu segir, að stefnandi hafi verið algerlega óvinnufær síðastliðin þrjú ár. Vegna þessara auknu og alvarlegu afleiðinga slyssins hafi verið dómkvaddir matsmenn til að meta tímabundnar og varanlegar afleiðingar umferðarslyssins að nýju. Þeir hafi skilað matsgerð þann 20. desember 2002

Í beiðni um dómkvaðningu matsmanna er lýst ferli málsins, þ.e. mati Jónasar Hallgrímssonar, læknis og álitsgerð örorkunefndar. Síðan segir: „Bryndís taldi afar óréttlátt að afleiðingar slyssins væru ekki metnar meiri en að ofan greinir, en féllst þó á að ganga til samninga við tryggingafélagið á grundvelli mats Jónasar Hallgrímssonar á þeim forsendum að afleiðingar slyssins yrðu ekki alvarlegri en þær voru er matið fór fram. Því miður hafi komið á daginn að þær forsendur væru brostnar." 

Í matsbeiðni stefnanda frá 23. október 2002 er beðið um að dómkvaddir verði matsmenn „til að meta tímabundna óvinnufærni, veikindi, varanlegt miskastig og örorku  stefnanda samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 vegna afleiðinga umferðarslyss hennar þann 10. maí 1995...", og var því nánar lýst svo: „...er þess óskað að matsmenn láti í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi:

 

1) Hversu lengi var Bryndís Heimisdóttir óvinnufær vegna afleiðinga umferðarslyss hennar þann 10. maí 1995, sbr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?

2) Hversu lengi var Bryndís Heimisdóttir veik, með og án rúmlegu, vegna afleiðinga umferðarslyss hennar þann 10. maí 1995, sbr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?

3) Hver er varanlegur miski Bryndísar Heimisdóttur vegna umferðarslyss hennar þann 10. maí 1995, sbr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?

4) Hver er varanleg örorka Bryndísar Heimisdóttur vegna umferðarslyss hennar þann 10. maí 1995, sbr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?"

 

Enda þótt í beiðninni sé rakinn gangur málsins og skýrt frá þeim mötum, sem áður höfðu farið fram, var ekki beðið um að metið yrði hvort breytingar hefðu orðið á heilsu stefnanda, frá því mat örorkunefndar var gert, eða að öðru leyti skírskotað til þess, að verið væri að biðja um mat á viðbótarörorku og viðbótarmiska samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga.

Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, Páls Sigurðssonar, prófessors og Sigurjóns Sigurðssonar, bæklunarskurðlæknis, geta þeir fyrri matsgerða í málinu, þeirra Jónasar Hallgrímssonar, læknis, og örorkunefndar og niðurstaðna þeirra. Lýkur þessum kafla í matsgerðinni á þeim orðum, að fram komi í málsskjölum, „að málið hafi á sínum tíma verið gert upp milli matsbeiðanda og matsþola á grundvelli matsgerðar Jónasar Hallgrímssonar læknis, en matsbeiðandi sættir sig ekki lengur við þá niðurstöðu vegna breyttra heilsufarslegra forsendna eins og nánar er lýst í matsbeiðni og fer því nú fram á mat dómkvaddra matsmanna."

Hinir dómkvöddu matsmenn unnu síðan matsgerð, eins og um er beðið í matsbeiðni,  sem  frummat á örorku án samanburðar við fyrri möt í málinu. 

 

Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna segir:

„Almennt hreyfir matsbeiðandi sig nokkuð varfærnislega og stirðlega, virðist snúa öllum skrokknum við þegar hún horfir til hliðanna, hún getur gengið varlega á á tám og hælum, getur kropið á hækjur sér en ekki gengið þannig og á erfitt með að reisa sig upp. Líkamsstaða er þannig, að vinstri öxl er töluvert lægri en hægri og munar u.þ.b. 8 cm hvað hægri öxl stefndur hærra en vinstri. Hún á greinilega erfitt með að klæða sig úr peysu þegar skoðun fer fram. Ekki er að sjá neina hryggskekkju en þó virðist vera smá vinstri sveigja á mótum brjósthryggjar og hálshryggjar. Við skoðun á hálsi kemur fram að hreyfingar eru skertar og eru sem hér segir: hún snýr höfði 45° til vinstri, 60° til hægri, hún hallar höfði 20° til vinstri og 30° til hægri, hún hallar höfði 30° aftur á bak og þegar hún hallar höfði fram á við vantar rúma fingurbreidd upp á að haka nemi við bringu. Matsbeiðandi segir, að allar þessar hreyfingar séu stirðar og stífar og valdi sársauka, sérstaklega að halla og snúa höfði yfir til vinstri því að þá fær hún sáran streng frá hálsinum og niður í hægra herðasvæðið alveg út á öxl. Það eru þreifieymsli í hálsi í hnakkafestum og niður eftir hálsvöðvum beggja vegna hryggsúlu og út á báða sjalvöðva en vöðvar hægra megin eru aumari viðkomu og harðari. Ennfremur eru þreifieymsli í levator scapulae beggja vegna, yfir rhomboidvöðvum við herðablöð og meðfram brjósthryggjarsúlunni alveg niður undir Th.8. Hreyfingar í öxlum eru innan eðlilegra marka en allar sárar og aumar og henni finnst erfitt að lyfta höndunum fyrir ofan höfuð. Við skoðun á baki kemur fram, að hreyfing í baki er mjög skert og þegar hún beygir sig fram á við vantar 25 cm upp á að hún komist með fingurgóma í gólf, segir að hún komist ekki lengra vegna þess að þá fari að taka svo í hálsinn og hún fari að finna fyrir jafnvægisleysi. Hliðarsveigjur, baksveigjur og bolvinda í hrygg eru nokkuð skertar vegna sársauka alveg frá hálsi og niður í mjóbak. Við taugaskoðun handlima kemur í ljós að hún gefur upp brenglað húðskyn, aðallega í fjórða og fimmta fingri og upp á handarbakið en einnig í öllum hinum fingrunum. Reflexar eru eðlilegir í handlimum, ekki er að sjá rýrnanir og kraftur virðist vera heldur minn9I í hægri hendi þegar hún kreistir fingur skoðanda og einnig virðist kraftur vera minnkaður í hægri handlim aðallega vegna sársauka upp í háls og út í hægra herðasvæði. Taugaskoðun ganglima er innan eðlilegra marka."

 

Þá segir í matsgerðinni.

„Afstaða til matsefna

1. Almennt

Matsbeiðandi var fyrir umrætt slys þann 10.05.1995 frísk með enga verkjasögu. Matsmenn telja, að afleiðingar umrædds slyss séu alvarleg tognun í hálsi með tognun á taugum til hægri handlims ásamt tognun í brjósthrygg sem nær frá þriðja til áttunda brjósthryggjar. matsmenn telja einnig að afleiðingar slyssins hafi jafnframt haft töluverð áhrif á lífsgæði hennar og þrek og miða mat sitt við það.

...

...Varanlegur miski matsbeiðanda.

Samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er varanlegur miski metinn út frá læknisfræðilegu sjónarmiði og til þess litið, hversu miklum erfiðleikum tiltekið tjón veldur í lífi tjónþolans. Miða á við heilsufar tjónþola þegar það er orðið stöðugt.

Um er að ræða almennt mat í þeim skilningi að sambærileg ,meiðsl eiga almennt að leiða til sama miskastigs hjá tveimur eða fleiri einstaklingum, enda þótt svigrúm sé til frávika þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Hefur örorkunefnd samið töflur, þar sem miskastig vegna ýmiss konar líkamstjóns er metið með almennum hætti. Hafa töflur þessar verulegt gildi til leiðbeiningar við mat á varanlegum miska einstakra tjónþola, þótt ekki séu þær bindandi og heldur ekki tæmandi. Er byggt á töflum þessum að því marki sem unnt er, en ella reynt að draga af þeim ályktanir um meginstefnu. Sé það ekki hægt er leitast við að haga mati þannig, að samræmi sé í því og miskastigum samkvæmt töflunum.

Við mat á miska er í matsgerð þessari tekið mið af tognun í brjósthrygg frá þriðja til áttunda brjósthryggjarliðar og ennfremur eftirfarandi áhrifum á geðheilsu hennar og minni lífsgæðum. Með vísun til þess, sem hér hefur verið rakið, telja matsmenn að miski matsbeiðanda af völdum umferðarslyssins 10. maí 1995 sé réttilega metinn 20%-tuttugu stig.

 

 

Varanleg örorka matsbeiðanda.

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku sökum líkamstjóns, eftir að heilsufar hans er orðið stöðugt, valdi tjónið varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna.

Við mat á tjóni vegna þeirrar örorku skal líta til þeirra kosta, sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu, sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við Um er að ræða svokallaða fjárhagslegt örorkumat en ekki læknisfræðilegt mat og er þetta örorkumat að öllu leyti einstaklingsbundið. Niðurstöður læknisfræðilegra athugana og ályktana skipta þó engu að síður verulegu máli í þessu efni þar sem nauðsynlegt er að staðreyna læknisfræðilegt tjón tjónþolans og síðan áhrif þess á tekjumöguleika hans í framtíðinni. Matið snýst um það að áætla á grundvelli fyrirliggjandi gagna og rökstuddrar spár um framtíð tjónþolans, hver sé hin varanlega skerðing á getu hans til að afla launatekna í framtíðinni vegna hlutaðeigandi líkamstjóns- eða að öðrum kosti að staðreyna að ekki sé um þess háttar skerðingu að ræða. Sú spá, sem hér um ræðir, snýr annars vegar að því að áætla, hver orðið hefði framvinda í lífi tjónþolans ef líkamstjónið hefði ekki orðið, og hins vegar að ályktun um hvernig líklegt sé að framtíða hans verði að þeirri staðreynd gefinni að hann varð fyrir líkamstjóninu. Við þetta mat ber m.a. að taka hæfilegt tillit til félagslegrar stöðu tjónþolans, aldurs hans, atvinnu- og tekjusögu, andlegs og líkamlegs atgervis, menntunar, heilsufars, eðlis líkamstjónsins og hinna varanlegu áhrifa þess. Þá skulu metnir þeir kostir, sem tjónþola bjóðast eða kunna hugsanlega að standa til boða varðandi það að halda fyrra starfi sínu eða finna sér nýtt starf við sitt hæfi. Jafnframt ber að gæta þess, að samkvæmt grunnreglum skaðabótaréttar hvílir sú skylda á tjónþola að takmarka tjón sitt eins og unnt er að ætlast til af honum miðað við aðstæður.

Í 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga er gefið til kynna, að verðmæti vinnu við heimilisstörf skulu lagt að jöfnu við launatekjur varðandi bætur fyrir örorkutjón, sem lögin ná til, og verður að telja að við mat á örorkustigum skv. lögunum sé rétt að hafa m.a. mið af þessu eftir því sem við getur átt.

Í ljósi þessara viðmiðunaratriða verður, eftir því sem við getur átt, að leggja mat á það, hvort matsbeiðandi í máli þessu hafi beðið varanlega örorku í kjölfar þess slyss, sem hún varð fyrir 10. maí 1995.

Eins og fram hefur komið fyrr í matsgerð þessari hefur matsbeiðandi leitað til lækna vegna heilsufars síns eftir umrætt umferðarslyss og jafnframt gengið sjúkraþjálfun eftir slysið. Að því leyti hefur hún leitast við, með eðlilegum hætti að takmarka tjón sitt í skilningi skaðabótaréttar. Auk þess leitaðist hún við að vinna árum saman eftir slysið, þótt ekki væri um fulla vinnu að ræða né heldur alveg samfellda, allt fram til þess að hún varð fyrir verulegum heilsubresti (til viðbótar afleiðingum slyssins) í tengslum við meðgönguna að yngsta barni sínu á síðari hluta árs 1999. Afleiðingar þessara tveggja sjúkdómsþátta, sem hér um ræðir, þ.e. vegna slyssins annars vegar og vegna grindarvíkkunar hins vegar, hafa, með samlegðaráhrifum orðið með þeim hætti, að þess mátti ekki vænta að matsbeiðandi gæti hafið störf að nýju um nokkurra missira skeið eftir fæðingu yngsta barnsins.

Matsmenn eru þeirrar skoðunar, að hefði matsbeiðandi ekki orðið fyrir umferðarslysi því, sem mál þetta snýst um, hefði hún getað stundað allerfið störf, svo sem fiskvinnu og/eða afgreiðslustörf, enn um nokkurra ára skeið, eða allt til þess að fyrrnefndar afleiðingar meðgöngu að yngsta barninu sögðu til sín, en þær eru með öllu óháðar og afleiðingum þess. Afleiðingar meðgöngunnar hefðu hins vegar, einar saman, komið í veg fyrir störf, sem krefjast verulegs líkamlegs þreks, til frambúðar. Ljóst er, að matsbeiðandi hefur ekki nú eða í fyrirsjáanlegri framtíð nægjanlega heilsu eða þrek til þess að hverfa aftur til þess háttar starfa, sem hún stundaði allt fram á síðari hluta árs 1999, eða annarra sambærilegra starfa. Hins vegar telja matsmenn, að heilsa hennar ætti að geta leyft létt starf, sem ekki krefst mikillar líkamlegrar áreynslu eða langrar samfelldrar setu, en ekki er víst að þess háttar störf liggi á lausu í heimabyggð matsbeiðanda eða þar í grennd og ekki hægt að ætlast til þess, að hún flytji ásamt fjölskyldu sinni til annarra byggðarlaga af þeim sökum, miðað vil allar aðstæður hennar og fjölskyldunnar. Líklegt má þó telja, að starf við hæfi muni fást á heimaslóðum, innan mjög langs tíma, ef vel er eftir leitað. Matsmenn telja að vart komi þá til greina nema hálft starf eða rúmlega það, að jafnaði, sé haft mið af heilsufari matsbeiðanda, og einnig verður að hafa hugfast, að starf af því tagi- þ.e. létt starf sem ekki krefst neinnar sérstakrar menntunar eða formlegrar starfsþjálfunar- er væntanlega ekki eins tekjugæft og ýmis störf geta hugsanlega verið, sem krefjast meira úthalds og líkamsþreks.

Þá er og ljóst, að heilsubrestur matsbeiðanda bitnar m.a. á getu hennar til heimilisstarfa, eins og rakið hefur verið fyrr í matsgerð þessar.

Þegar allt það er virt, sem hér hefur verið rakið, er það niðurstaða matsmanna, að þá skerðingu á starfshæfni og þar með tekjuhæfni matsbeiðanda (einnig að teknu tilliti til heimilisstarfa), sem hún nú býr við og mun búa við um ófyrirsjáanlega framtíð, megi rekja að hálfu til afleiðinga umferðarslyssins 10. maí 1995 og að hálfu til sjúkdómsvandamála, sem tengjast meðgöngu að yngsta barni matsbeiðanda. Telst sú örorka matsbeiðanda er rekja má ótvírætt til slyssins, vera réttilega metin 25%-tuttugu og fimm stig."

Hinir dómkvöddu matsmenn komu fyrir dóm. Kom fram hjá þeim, að þeir hefðu talið, að stefnandi hefði einkenni, sem telja mætti að ekki hefði mátt sjá fyrir, þegar mat örorkunefndar var gert og að eftir það hefðu orðið breytingar á heilsu hennar til hins verra. Þeim hafði einnig verið ljóst, að ætlun stefnanda var að gera kröfur um hærri bætur á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga. Þess hefði hins vegar ekki verið getið í matsbeiðni, heldur hefði verið beðið um venjulegt örorkumat frá grunni og það hefðu þeir gert. Hefði því ekki verið lögð nein áhersla á, að greina frá því sérstaklega, hverjar breytingar hefðu orðið á heilsu stefnanda frá þessum tíma, eða að aðgreina sérstaklega hver hækkun á miskastigi eða varanlegri örorku stefnanda.

 

Málsástæður stefnanda:

Ekki er ágreiningur um að stefndu beri bótaábyrgð eftir reglum umferðarlaga. Ágreiningur aðila málsins stendur um það, hvort skilyrði séu til endurupptöku málsins.

Kröfu sína um endurupptöku málsins reisir stefnandi á 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en samkvæmt henni er skilyrði endurupptöku, að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.

Stefnandi telur, að skilja beri lagaákvæði þetta svo, að það teljist ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsufari, sem leiði til hærra örorku- og eða miskastigs, en áður var talið.

Örorkunefnd finnur ekki margt óeðlilegt við heilsufar stefnanda annað en þreifieymsli yfir vöðvafestum í hnakka, hálsvöðvum, axlavöðvum, bakvöðvum og hryggvöðvum, sbr. álitsgerð bls. 5. 

Orðið þreifieymsli lýsi ekki miklum verkjum eða verulegum heilsubresti og er niðurstaða örorkunefndar um miska og framtíðarvinnugetu stefnanda í samræmi við það.

Spá örorkunefndar um framtíðarheilsufar stefnanda hafi ekki gengið eftir og hafi henni hrakað mjög frá örorkumatinu 15. júlí 1997. Frá þeim tíma hafi orðið gjörbreyting á heilsufari hennar, sem örorkunefnd hafi greinilega ekki séð fyrir. Sé nú svo komið fyrir stefnanda, að hún sé óvinnufær með öllu og hafi verið sl. þrjú ár.

Því sé ljóst, að uppfyllt eru skilyrði 11. gr. skbl. um að aukning örorku stafi eingöngu af ófyrirsjáanlegum breytingum sem orðið hafa á heilsufari stefnanda.

Ófyrirséðar breytingar á heilsufari stefnanda hafi leitt til hækkunar á örorku- og miskastigi hennar vegna afleiðinga umferðarslyssins. Sú hækkun sé veruleg. Örorkunefnd hafi talið varanlegan miska hennar 10%, en dómkvaddir matsmenn telja nú miskastig hennar vera 20%. Örorkunefnd taldi varanlega örorku hennar vera 10%, en dómkvaddir matsmenn mátu örorkuna 25%. Sé því um að ræða 150% hækkun á varanlegri örorku og sé slík hækkun veruleg.

Í málflutningi byggði stefnandi einnig heimild til endurupptöku almennum reglum kröfuréttarins  um brostnar forsendur og vísaði um rökstuðning til 36. gr. laga nr. 7/1936.  

Við ákvörðun bótafjárhæðar byggir stefnandi á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 með hliðsjón af matsgerð.

Byggt er á sömu forsendum og uppgjörið 25. ágúst 1997. Er stuðst við sömu árslaun og þá, uppreiknuð samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands frá því tjón varð, þar til bótafjárhæð var ákveðin í kröfubréfi til stefnda dags. 6. janúar 2003. Þau árslaun námu kr. 1.395.740. Launavísitala á slysdegi var 138,8 stig, en 237,0 stigí janúar 2003. Viðmiðunartekjur nema því kr. 2.093.610. Stuðst er við mismun á metinn varanlegri örorku Bryndísar frá því örorkunefnd mat hana þar til dómkvaddir matsmenn gerðu það, 25%-10%=15%. Bótakrafa vegna varanlegrar örorku nemur því kr. 2.355.311.

Fullar bætur fyrir varanlegan miska námu í janúar 2003 kr. 5.391.463. Miskastig er byggt á mismun á mati örorkunefndar og matsmanna, 20%-10%=10%. Bótakrafa vegna varanlegs miska nemur því  kr  539.146.

Samtals nemur dómkrafan því kr. 2.894.457.

 

Málsástæður stefnda:

Sýknukrafa stefnda er á því byggð, að ekki séu skilyrði til þess að lögum að taka upp að nýju þá ákvörðun um varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda. sem byggt var á í bótauppgjöri þann 25. ágúst 1997, og dæma stefnanda viðbótarbætur líkt og krafist er.

Krafa stefnanda um endurupptöku og greiðslu frakari bóta sé reist á 11. gr. skbl., en þar er að finna tvenn skilyrði endurupptöku og þarf þeim  báðum að vera fullnægt. Annars vegar þurfi að hafa orðið ófyrirsjáanleg breyting á heilsu tjónþola frá fyrr  örorkumatsgerðarinnar verði ekki ráðið, að neinar ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda og rekja megi til slyssins, frá því mat örorkunefndar var gert. Í matsgerðinni sé lýst sömu einkennum sem afleiðingum slyssins eins og í álitsgerð örorkunefndar og sömu áhrifum þeirra á heilsu stefnanda. Hins vegar hafi heilsa stefnanda skerst verulega vegna sjúkdómsþátta tengdra meðgöngu , en þá hafi stefnandi fengið mikla grindargliðnun. Hafi stefnandi síðan þjáðst af verkjum í baki og grind. Séu sjúkdómsþættir  þessir án efa meginástæða þess að stefnandi hefur eki snúið aftur til vinnu. Sé þetta staðfest í vottorði Gunnars B. Gunnarssonar, læknis, sem segir, að stefnandi hafi leitað til hans þann 14.09. 2000, þar sem hún hafi ekki treyst sér til vinnu vegna bak- og grindarverkja. Óvinnufærni hennar þá hafi einvörðungu verið afleiðing meðgöngutengdra sjúkdóma, en ekki umferðslyssins, enda afleiðingar þess bundnar við háls- og herðavöðva. 

Jafnframt sé staðfest í matsgerðinni, að afleiðingar meðgöngunnar hefðu einar saman til frambúðar komið í veg fyrir að stefnandi gæti stundað störf, sem krefjast verulegs líkamlegs þreks, svo sem fiskvinnslu eða afgreiðslustörf. Stefnandi geti því ekki í fyrirsjáanlegri framtíð snúið aftur til þeirra starfa sem hún stundaði allt fram á síðari hluta árs 1999, þ.e. þar til hinir meðgöngutengdu sjúkdómsþættir komu fram.

Í greinargerð með 11. gr. skbl. komi fram, að ekki sé heimilt að beita ákvæðinu þótt örorkustig reynist hærra en áður var gert ráð fyrir ef ástæðan er ekki breytingar á heilsu tjónþola. Kæmi því m.a. ekki til greina að heimila endurupptöku máls þó að matsmenn meti sömu afleiðingar slyss til hærri  en gert hefði verið í fyrra mati. Ólíkar skoðanir matsmanna á því til hversu margra örorkustiga beri að meta afleiðingar slyss á heilsu stefnanda, heimila ekki endurupptöku bótauppgjörs.

Í matsgerð virðast matsmenn leggja meira vægi á einstaklingsbundna þætti eins og vinnuframboð í heimabyggð stefnanda.

Í stefnu telji stefnandi, fyrirliggjandi læknisvottorð sýni, að verulegar og ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda af völdum slyssins frá því mat örorkunefndar var gert í júlí 1997. Þessu sé alfarið mótmælt. Stefndu telji að þau læknisvottorð sem aflað hefur verið eftir að mat örorkunefndar lá fyrir, sýni að slíkar breytingar hafi ekki orðið á heilsu stefnanda af völdum umferðarslyssins, heldur hafi heilsu hennar hrakað af öðrum orsökum.

Eftir breytingu á kröfugerð stefnanda er ekki um að ræða tölulegan ágreining um dómkröfur stefnanda að öðru leyti en að kröfu um dráttarvexti er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Þá er vöxtum eldri en 4 ára mótmælt sem fyrndum skv. lögum nr. 14/1905.

 

Niðurstaða:

Í stefnu reisir stefnandi kröfu sína um endurupptöku ákvörðunar bóta til stefnanda eingöngu á 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Í munnlegum málflutningi krafðist stefnandi endurupptöku málsins á grundvelli almennum reglum kröfuréttarins  um brostnar forsendur og vísaði um rökstuðning til 36. gr. laga nr. 7/1936.  

Gegn mótmælum stefndu telst málsástæða þessi of seint fram komin og verður ekki fjallað frekar um hana.

Skilyrði endurupptöku samkvæmt 11. gr. laga nr. 50/1993  er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola, þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Þá segir í lagagrein þessari, að sé mál endurupptekið, sé heimilt að skjóta ákvörðun um miskastig eða örorkustig aftur til úrlausnar örorkunefndar.

Ekki mun vera ágreiningur um það með málsaðilum, að bótauppgjör það, sem fram fór þann 25. ágúst 1997, hafi verið byggt á mati örorkunefndar, en ekki á mati Jónasar Hallgrímssonar, eins og látið er að liggja á nokkrum stöðum í málinu.

Við athugun á þeim læknisfræðilegu gögnum, sem stefnandi hefur lagt fram til stuðnings kröfu sinni um að málið verði tekið upp að nýju, kemur ekki fram bein fullyrðing þeirra lækna, sem vottorðin hafa gefið um að heilsu stefnanda hafi hrakað. Hefur stefnandi byggt staðhæfingu sína um þetta á samanburði á lýsingum í vottorðum þessum og í álitsgerð örorkunefndar. 

Af einhverjum ástæðum hefur stefnandi ekki farið þá leið, sem bent er á í 11. gr., að skjóta ákvörðun um miskastig eða örorkustig aftur til úrlausnar örorkunefndar, heldur beðið um dómkvaðningu matsmanna til þess að þeir framkvæmdu nýtt örorkumat.

Stefnandi hefur að endingu byggt kröfu sína um endurupptöku bótaákvörðunar, á því, að með örorkumati hinna dómkvöddu matsmanna, sem mátu varanlegan miska stefnanda 20%, þar sem örorkunefnd hafi metið hann 10%, og varanlega örorku 25%, þar sem örorkunefnd hafi metið hana 10%, hafi verið sýnt fram á að orðið hafi ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu stefnanda og að þessi breyting sé veruleg.

Að sögn hinna dómkvöddu matsmanna mátu þeir stefnanda eins og hún var þegar þeir sáu hana, en lögðu ekkert mat á, hvort heilsufar hennar hefði breyst eftir að örorkunefnd mat hana. Er í matinu ekki gerð tilraun til að skýra mismun á niðurstöðu matsmanna og niðurstöðu örorkunefndar að öðru leyti en því, að skírskota til taflna um miskastig, sem nefndin hafi samið og að byggt sé á þessum töflum að því marki sem unnt er, en ella reynt að draga af þeim ályktanir um meginstefnu. Sé það ekki hægt sé leitast við að haga mati þannig að samræmi sé í því og miskastigum samkvæmt töflunum.

Þegar athugað skal, hvort varanleg örorka hefur breyst, liggur það í orðalagi 11. gr., að einungis komi til álita breytingar á heilsu tjónþola, en ekki breytingar á öðrum atriðum, sem ráðið geta niðurstöðu um örorkustigið. Í örorkumatinu er örorkustigið metið á venjulegan hátt með vísunar til heilsufars, félagslegra hátta og möguleika stefnanda á að fá atvinnu við sitt hæfi í heimabyggð hennar eða þar í grennd. Er engin skýring gefin á því, hvert er vægi hinna einstöku matsþátta varðandi niðurstöðu matsmanna um að varanleg örorka stefnanda sé 25%.

Eins og matsgjörðinni er háttað verður hún ekki talin nothæf sem sönnunargagn um að stefnandi hafi, eftir 15. júlí 1997, orðið fyrir verulegum ófyrirsjáanlegum heilsufarsbreytingum sem rekja mætti til slyss þess, sem hún varð fyrir 10. maí 1995.

Með vísun til þessa, verður ekki talið, að stefnandi hafi sýnt fram á, að skilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993 um endurupptöku ofangreindrar bótaákvörðunar, sé fullnægt. 

Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú, að sýkna beri stefndu af kröfum stefnanda.

Rétt þykir, að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 707.930 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar 300.000 krónur.            

Dóm þennan kveður upp Logi Guðbrandsson, héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Ásdís Björk Kristinsdóttir, skulu vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Bryndísar Heimisdóttur í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður:

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 707.930 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn laun lögmanns hennar 300.000 krónur.