Hæstiréttur íslands
Mál nr. 53/2017
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Brottrekstur úr starfi
- Trúnaðarskylda
- Málsástæða
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði felldur niður.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsástæða áfrýjanda þess efnis að lækka beri greiðslur til stefndu vegna ætlaðra launa sem hún hafi þegið eftir starfslok sín hjá áfrýjanda frá þriðja aðila var ekki höfð uppi í héraði. Standa skilyrði 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ekki til þess að hún komist að fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu að stefnda hafi ekki í starfi sínu hjá áfrýjanda brotið af sér með þeim hætti gegn trúnaðar- og starfsskyldum sínum að réttlætt hafi fyrirvaralausa riftun á ráðningarsamningi hennar. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest, en ekki er um að ræða tölulegan ágreining milli málsaðila.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Stracta Hótels ehf., greiði stefndu, Súsönnu Rós Westlund, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. nóvember 2016.
Mál þetta var þingfest 10. febrúar 2016 og tekið til dóms 20. október sl. Stefnandi er Súsanna Rós Westlund, Norðurvangi 44, Hafnarfirði, en stefndi er Stracta Hotels ehf., Reykjavíkurvegi 66, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda vangoldin laun að fjárhæð 2.481.962 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 464.400 krónum frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 928.800 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2015, af 1.393.200 krónum frá þeim degi til 1. september 2015, af 1.857.600 krónum þeim degi til 1. október 2015 en af 2.481.962 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. júní 2016 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Krafist er vaxta af málskostnaði samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.
Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að stefnukröfur verið lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.
I
Stefnandi hóf störf hjá stefnda þann 6. janúar 2014 sem bókunarstjóri í fullu starfi. Umsamin mánaðarlaun hennar voru 464.400 krónur samkvæmt fyrirliggjandi launaseðlum og ráðningarsamningi. Þannig starfaði stefnandi til 5. maí 2015 en þá var henni sagt upp stöfum fyrirvaralaust og hún beðin um að yfirgefa vinnustaðinn. Stefnandi leitaði til stéttarfélags síns, Verslunarmannafélags Reykjavíkur, sem sendi bréf, dags. 6. maí 2015, vegna fyrirvaralausrar uppsagnar. Forsvarsmaður stefnda átti í framhaldi fund með starfsmanni félagsins. Verslunarmannafélagið sendi annað bréf 6. júlí 2015 og var krafa stefnanda ítrekuð. Stefndi svaraði með bréfi 15. júlí 2015 þar sem fram kemur að stefnandi hafi gerst brotleg í starfi sem réttlætt hafi fyrirvaralausa uppsögn. Í bréfinu er vísað til ráðningarsamnings stefnanda 14. febrúar 2014 þar sem fram kemur m.a. að stefnanda sé með öllu óheimilt að vera í fyrirsvari fyrir aðra aðila í ferðaþjónustu og megi ekki koma fram hjá samkeppnisaðila undir nafni á meðan stefnandi starfi hjá stefnda. Segir jafnframt í bréfi stefnda að komið hafi í ljós að stefnandi hafi ekki haldið þennan trúnað. Hún hafi nýtt sér aðstöðu sína á vinnustað til þess að vinna í þágu eigin fyrirtækis og nýtt sér upplýsingar úr rekstri stefnda í þágu eigin fyrirtækis.
Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði stefnandi svo frá að í ráðningarviðtali í nóvember 2013 hafi hún skýrt fyrirsvarsmönnum stefnda frá því að hún ætti ásamt eiginmanni sínum, Sigurbergi Árnasyni, einkahlutafélagið Iceland is Hot ehf. og væri hún skráður stjórnarformaður í félaginu. Þetta félag stæði fyrir tveimur til þremur ferðum á ári um Ísland með erlenda áhugamenn um ljósmyndun. Fjöldi ljósmyndara væri sex til tíu í hverri ferð. Eiginmaður hennar sæi alfarið um þessar ferðir en hann ynni sem leiðsögumaður. Hún sagði að eftir að hún fór að vinna hjá stefnda hafi eiginmaður hennar alfarið séð um rekstur fyrirtækisins. Þegar hún skrifaði undir ráðningarsamning 14. febrúar 2014 hafi þetta verið rætt. Hún hafi hætt öllum afskiptum af fyrirtækinu en láðst að afskrá sig hjá fyrirtækjaskrá. Aldrei hafi verið minnst á þetta frekar, ekki fyrr en eftir uppsögn hennar en þá hafi stjórnarseta hennar verið orðin aðalatriðið.
Hreiðar Hermannsson, stjórnarformaður stefnda og framkvæmdastjóri, sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að í ráðningarviðtalinu hafi stefnandi sagt frá því að þau hjónin væru með lítið ferðaskrifstofufyrirtæki í rekstri. Honum og stefnanda hafi í viðtalinu talast þannig til að félagið fengi að lifa en að stefnandi yrði hvergi sýnileg í fyrirtækinu. Það hafi verið áréttað í ráðningarsamningi. Þegar á leið starfstíma stefnanda hjá stefnda hafi vaknað grunsemdir um að hún væri í vinnutíma sínum hjá stefnda að sinna störfum fyrir fyrirtækið Iceland is Hot ehf. Hann kvaðst hafa talað við hana um það í október og desember 2014. Svo þegar hann hafi séð á skrifborði hennar tölvubréf, þar sem fram kom að hún hafði ritað tölvubréfið fyrir hönd Iceland is Hot ehf., hafi hann tekið þá ákvörðun að segja henni upp störfum þegar í stað.
Einnig kom fyrir dóminn Hermann Hreiðarsson, starfsmaður stefnda, Sigurbergur Árnason, eiginmaður stefnanda, og Eiríkur Hilmarsson sem vann fyrir stefnda.
II
Stefnandi mótmælir ásökunum stefnda. Rétt sé að stefnandi sé skráð í stjórn fyrirtækis sem eiginmaður hennar reki en það bjóði upp á ferðir með erlendum ljósmyndurum sem hann sjái einn um. Sú starfsemi sé ekki í neinni samkeppni við stefnda sem reki hótel, auk þess sem stefnandi komi ekki að rekstri fyrirtækisins.
Þá hafi hún ekki fengið áminningu í starfi. Einu gögn málsins sé tölvupóstur sem hún hafi sent rétt eftir að hún hóf störf þar sem netfang hennar komi fram fyrir mistök. Það hafi forsvarsmönnum stefnda verið fullkunnugt um allan starfstíma stefnanda án athugasemda. Þá liggi fyrir í málinu tölvupóstur er snúi að söfnun fyrir gjöf til eins starfsmanns er sendur hafi verið á einkanetfang hennar. Fullyrðingar stefnda um stórfelld brot eigi því ekki við nein rök að styðjast. Stefnandi kveðst hafa sinnt störfum sínum af kostgæfni og aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við störf hennar. Fullyrðingum um að stefnandi hafi fengið áminningar frá forsvarmanni stefnda sé harðlega mótmælt. Ásakanir um brot í starfi eigi ekki við rök að styðjast. Þótt hún sé skráð í stjórn í einkafyrirtæki eiginmanns hennar, sem fari í tvær til þrjár ferðir á ári með ljósmyndara, feli það ekki í sér nein brot í starfi. Meginreglur vinnuréttar kveði á um að ekki sé hægt að víkja starfsmanni úr starfi fyrirvaralaust án undangenginnar áminningar nema brot sé stórfellt. Hér sé hvorki um brot að ræða sem réttlætt geti uppsögn, né hafi verið gefin áminning áður en til fyrirvaralausrar uppsagnar kom.
Stefnandi eigi rétt til launa í uppsagnarfresti sem teljist frá næstu mánaðamótum eftir að uppsögn fer fram en stefnandi hafði áunnið sér þriggja mánaða uppsagnarfrest sem bundinn sé við mánaðamót samkvæmt grein 12.1 í kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins.
Stefndi hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðji fullyrðingar hans um brot stefnanda í starfi eða að gefin hafi verið áminning og sé mál þetta því höfðað til innheimtu á vangreiddum launum, launum í uppsagnarfresti, vangreiddu orlofi, sem reiknast sem 10,17% af launum á starfstímanum, ásamt orlofsuppbót og desemberuppbót sem reiknast í hlutfalli við starfstíma.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig:
Vangoldin laun í maí 2015 464.400 krónur
Vangoldin laun júní 2015 464.400 krónur
Vangoldin laun í júlí 2015 464.400 krónur
Vangoldin laun í ágúst 2015 464.400 krónur
Vangoldið orlof 1 maí 2014-30. apríl 2015 306.885 krónur
Vangoldið orlof 1. maí 2015-30. sept. 2015 199.733 krónur
Orlofsuppbót 2015 42.000 krónur
Orlofsuppbót 2016 16.811 krónur
Desemberuppbót 2015 58.933 krónur
Samtals 2.481.962 krónur
Kröfur sínar styður stefnandi við lög nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lög um orlof nr. 30/1987, meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins og bókanir sem teljast hluti kjarasamninga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.
III
Af hálfu stefnda eru athugasemdir gerðar við málavaxtalýsingu stefnu. Ráðningarsamningur hafi verið undirritaður af stefnanda og stefnda þann 14. febrúar 2014. Ráðningarviðtal hafi farið fram í nóvember 2013. Í því, sbr. einnig ferilskrá stefnanda, hafi komið fram að stefnandi stæði að rekstri ferðaþjónustufyrirtækis og hefði gert í nokkur ár. Af hálfu stefnda hafi stefnanda í viðtalinu verið gerð grein fyrir því að skilyrði fyrir ráðningu stefnanda í starfið væri það að stefnandi hefði engin afskipti af öðrum rekstri í ferðaþjónustu. Ef til ráðningar ætti að koma yrði stefnandi að láta alfarið af hvers kyns aðkomu að rekstri umrædds ferðaþjónustufyrirtækis stefnanda og eiginmanns hennar, beinni eða óbeinni, þannig að hún gæti helgað sig eingöngu því starfi sem hún yrði ráðin til að sinna. Stefnandi féllst á þessi skilyrði og mun hafa lofað í umræddu ráðningarviðtali að hún myndi láta af allri aðkomu eigin ferðaþjónustureksturs.
Í tilefni af því sem fram kom í ráðningarviðtali hafi svofellt trúnaðarákvæði verið sett inn í ráðningarsamning aðila:
„Launþegi hefur aðgang að tengslum og viðskiptatrúnaðarmálum við störf sín og lýsir því hér með yfir með undirritun samnings þessa að hann muni ekki undir neinum kringumstæðum gefa þriðja aðila neinar þær upplýsingar um starfsemi vinnuveitanda, aðrar en þær sem nauðsynlegt er að gefa samstarfsaðilum og viðskiptavinum vinnuveitanda. Þá lýsir launþegi því jafnframt yfir að hann mun ekki á nokkurn hátt hagnýta sér persónulega framangreindar upplýsingar, enda er það með öllu óheimilt. Launþega er með öllu óheimilt að vera í forsvari fyrir aðra aðila sem starfa að ferðaþjónustu, ennfremur að koma ekki fram hjá samkeppnisaðila undir nafni á nokkurn hátt, á meðan launþegi starfar fyrir SH. Allt framangreint samþykkir launþegi að viðlagðri ábyrgð og skaðabótakröfu“.
Stefnandi beri því við í stefnu að hafa sinnt störfum sínum af kostgæfni og að aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við störf hennar. Stefndi bendir á að hér sé ekki rétt farið með staðreyndir. Af hálfu stefnda hafi stefnanda verið veittar munnlegar áminningar í nokkur skipti í tilefni af því að hún sinnti ekki starfi sínu sem skyldi og einnig þar sem grunur var um að hún væri að sinna öðrum störfum á sama tíma og hún átti að vera að sinna starfi sínu fyrir stefnda. Stefnandi hafi m.a. borið ábyrgð á utanumhaldi á samfélagsmiðlum og hafi það verið eitt af verkefnum stefnanda að svara umsögnum um hótel stefnda. Þegar í ljós kom í febrúar 2015 að stefnandi hafði ekki svarað slíkum umsögnum í allt að 7-8 mánuði hafi stefnanda verið veitt tiltal af hálfu stefnda. Þrátt fyrir tiltal mun stefnandi ekki hafa veitt svör við umsögnum fyrr en mánuði síðar. Fyrirsvarsmönnum stefnda hafi borist upplýsingar frá samstarfsfólki stefnanda um að grunur væri um að stefnandi væri ekki að sinna starfi sínu á starfstíma hjá stefnda. Af þessu tilefni hafi stefnanda verið veittar áminningar munnlega í október 2014, í mars 2015 og aftur í apríl s.á. Stefnandi hafi lofað í öll skiptin að standa við ákvæði ráðningarsamnings þess er hún hafði undirritað.
Rétt áður en gripið var til uppsagnar á ráðningarsamningi hafi komið í ljós með skjalfestum hætti að stefnandi hafði farið með alvarlegum hætti á svig við framangreint trúnaðarákvæði í ráðningarsamningi. Stefndi hafi á þeim tíma fengið ítrekaðar upplýsingar frá samstarfsfólki stefnanda um rökstuddan grun um að stefnandi væri að sinna eigin ferðaþjónusturekstri samhliða starfi sínu fyrir stefnda. Einnig hafi komið í ljós útprentanir tölvuskeyta sem staðfestu ótvírætt þann grun þar sem stefnandi hafði m.a. notað tölvupóstfang stefnda og ritað tölvuskeyti í nafni stefnda vegna erinda er vörðuðu eigin ferðaþjónustufyrirtæki stefnanda, Iceland is Hot ehf. Við eftirgrennslan stefnda á sama tíma hafi komið í ljós að netfang stefnanda hafi verið skráð sem tengiliður fyrir það ferðaþjónustufyrirtæki á netinu. Að mati stefnda hafi því enginn vafi leikið á því að stefnandi hafði misnotað aðstöðu sína, síma og tölvu stefnda, í þágu eigin ferðaþjónustufyrirtækis, sem stóð í samkeppni við stefnda, þrátt fyrir loforð stefnanda um að láta af þeirri starfsemi sinni. Stefndi hafi talið athæfi stefnanda það alvarlegt brot á trúnaðarskyldum hennar gagnvart vinnuveitanda, og um leið alvarlegt brot gegn trúnaðarákvæði ráðningarsamnings, að ekki væri hjá því komist að víkja stefnanda fyrirvaralaust úr starfi.
Af hálfu stefnda er því alfarið hafnað að stefnandi eigi rétt til launa og annarra launatengdra greiðslna samkvæmt stefnukröfum, þ.m.t. laun í uppsagnarfresti, sökum þess að stefnandi hafi þverbrotið ráðningarsamning þann er hún skrifaði undir þann 14. febrúar 2014. Uppsögn stefnda hafi verið fullkomlega réttmæt og lögmæt.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi brotið ráðningarsamning þann er hún skrifaði undir þann 14. febrúar 2014.
Af hálfu stefnda hafi stefnanda verið gerð grein fyrir því í starfsviðtali að skilyrði ráðningar stefnanda í starfið væri að stefnandi hefði engin afskipti af öðrum rekstri í ferðaþjónustu. Ef til ráðningar ætti að koma yrði stefnandi að láta alfarið af hvers kyns aðkomu að rekstri umrædds fyrirtækis hennar, beinni eða óbeinni, þannig að hún gæti helgað sig eingöngu því starfi sem hún yrði ráðin í. Stefnandi hafi fallist á þessi skilyrði og lofað í umræddu ráðningarviðtali að hún myndi láta af allri aðkomu að eigin ferðaþjónusturekstri. Allt framangreint hafi stefnandi samþykkt að viðlagðri ábyrgð og skaðabótakröfu með undirritun sinni á ráðningarsamning. Stefnandi hafi engu að síður haldið áfram að sinna ferðaþjónustufyrirtæki sínu í trássi við veitt loforð og ráðningarsamning. Ferðaþjónustufyrirtæki þetta, Iceland is Hot, hafi verið í beinni samkeppni við stefnda, m.a. við það að útvega gistingu og annað sem ferðamenn leiti eftir af ferðaþjónustuaðila. Stefndi byggir á því að gögn málsins sýni fram á að enginn vafi sé á því að stefnandi hafi misnotað starfsaðstöðu sína hjá stefnda til þess að vinna fyrir eigin ferðaþjónustufyrirtæki í samkeppni við stefnda. Hún hafi m.a. nýtt sér viðskiptasambönd stefnda og hafi þar með bakað stefnda tjón. Stefnanda hafi sömuleiðis fullkomlega verið ljóst að trúnaðar- og samkeppnisbrot hennar í starfi fælu í sér tjón fyrir rekstur stefnda eða hið minnsta gætu skaðað stefnda verulega. Með þessum rökum sé vísað á bug því sem fram kemur í stefnu að rekstur Iceland is Hot sé ekki í samkeppni við stefnda á sviði ferðaþjónustu. Iceland is Hot sé rekið sem ferðaskrifstofa, sbr. einnig lýsingar stefnanda sjálfrar á ferðaskrifstofurekstri í ferilskrá.
Með því að halda áfram ferðaþjónusturekstri, þrátt fyrir samkeppnisbann trúnaðarákvæðis ráðningarsamnings, liggi að mati stefnda ljóst fyrir að stefnandi braut einnig gegn þeim hluta umrædds ákvæðis að miðla ekki neinum upplýsingum um starfsemi stefnda til þriðja aðila. Svo sem gögn málsins sýna fram á sé engum vafa undirorpið að ferðaþjónustufyrirtæki stefnanda hafi fengið upplýsingar um starfsemi stefnda. Hagnýting stefnanda á þeim upplýsingum hafi sömuleiðis verið bönnuð samkvæmt trúnaðarákvæði ráðningarsamnings.
Í ljós hafi komið með sannanlegum hætti að stefnandi hafi misnotað tölvupóstfang stefnda og ritað tölvuskeyti í nafni stefnda vegna erinda er vörðuðu eigin ferðaþjónustufyrirtæki, Iceland is Hot. Við eftirgrennslan stefnanda hafi komið í ljós að netfang stefnanda var skráð sem tengiliður fyrir ferðaþjónustufyrirtæki stefnanda.
Sá útprentaði tölvupóstur sem stefndi fékk í hendur í aðdraganda uppsagnar hafi með óyggjandi hætti borið með sér að stefnandi hafði nýtt starfstíma sinn og starfsaðstöðu til þess að sinna störfum fyrir eigið ferðaþjónustufyrirtæki en ennfremur hafi stefnandi gerst sek um gróf brot á starfsskyldum sínum er hún sendi tölvuskeyti er vörðuðu samkeppnisreksturinn með haus og í nafni stefnda en á sama tíma með undirritun af hálfu eigin fyrirtækis stefnanda. Hinn útprentaði tölvupóstur hafi borið með sér að hinn 2. mars 2015 hafði stefnandi nýtt tölvupóstfang sitt hjá stefnda til þess að svara erindi sem beint var til Iceland is Hot. Til fyrirtækisins hafi leitað í febrúar 2015 með tölvuskeyti Daina nokkur Dalmane en 2. mars hafi stefnandi svarað henni og ritað undir skeytið sem framkvæmdastjóri Iceland is Hot. Í gögnum málsins sé einnig að finna tölvuskeyti, dags. 3. febrúar 2014, sem stefnandi hafi sent í nafni stefnda og í vinnutíma hennar hjá stefnda, þar sem stefnandi riti undir skeytið, sem sent sé til annars ferðaþjónustuaðila, með heitinu Iceland is Hot. Upplýsingar á vefsíðu Iceland is hot um mánaðamótin apríl/maí 2015 hafi borið með sér að stefnandi væri tengiliður þeirra sem hefðu samband við fyrirtækið. Stefndi vekur sömuleiðis athygli á því að í tölvuskeytum, sem stefnandi leggi sjálf fram afrit af, dags. 21. apríl 2015, komi fram að stefnandi sé einnig með sérstakt netfang virkt hjá fyrirtækinu Iceland is Hot. Sé þetta á sama tíma og hún sinni störfum fyrir stefnda. Dómskjöl þessi veiti lögfulla sönnun fyrir brotum stefnanda á trúnaðar- og samkeppnisákvæði ráðningarsamnings.
Í starfi sínu fyrir stefnda hafi stefnandi m.a. borið ábyrgð á því sem fram kom af hálfu stefnda á samfélagsmiðlum og hafi það verið eitt af verkefnum stefnanda að svara umsögnum um hótel stefnda sem birtust á þeim vettvangi, m.a. á vefmiðlinum tripadvisor.com. Ýmsar umsagnir hafi birst um hótel stefnda á tímabilinu júlí 2014 og fram til janúar 2015 sem hafi ekki verið svarað af hálfu stefnanda fyrr en á tímabilinu mars til maí 2015 eða allt að átta mánuðum eftir að umsagnirnar höfðu verið skrifaðar. Stefnanda hafi mátt vera ljóst að það skaðaði ímynd stefnda að svara ekki í svo langan tíma. Afar mikilvægt sé fyrir ferðaþjónustuaðila eins og stefnda að umsögnum, sem séu opinberar á bókunarvef, sé svarað jafnharðan.
Af hálfu stefnda er á því byggt að honum hafi verið fullkomlega heimilt að lögum að segja stefnanda upp störfum fyrirvaralaust. Samræmist það einnig dómaframkvæmd. Sökum alvarlegra brota stefnanda í starfi, sem hafi verið rót uppsagnar, beri stefnda ekki að greiða henni laun eftir uppsögn. Í stefnu sé því haldið fram að meginreglur vinnuréttar kveði á um að ekki sé hægt að víkja starfsmanni úr starfi fyrirvaralaust án undangenginnar áminningar, nema brot sé stórfellt. Stefnandi telji jafnframt að hér hafi ekki verið um brot að ræða sem réttlæti fyrirvaralausa uppsögn. Af hálfu stefnda sé þessu alfarið hafnað. Ljóst megi vera að brot stefnanda í starfi hafi verið mjög alvarleg og stórfelld. Með þeim hafi stefnandi brotið verulega gegn trúnaðarskyldum gagnvart vinnuveitanda. Dómafordæmi leiði í ljós að vinnuveitanda sé heimilt undir þeim kringumstæðum að víkja starfsmanni fyrirvaralaust úr starfi og sé ekki gert að skilyrði að áminning hafi áður verið veitt. Stefnanda hafi í þrígang verið veitt munnleg áminning í starfi. Ástæðan hafi verið sú að stefnda bárust ítrekað upplýsingar frá samstarfsfólki stefnanda um að hún væri á starfstíma sínum fyrir stefnda að sinna störfum fyrir eigið ferðaþjónustufyrirtæki. Stefnanda hafi því sannanlega verið veitt ítrekað færi á því að bæta úr misgjörðum sínum.
Komist dómurinn svo ólíklega að þeirri niðurstöðu að stefnanda beri réttur til launa eftir að henni var tilkynnt um fyrirvaralausa uppsögn gerir stefndi kröfu um að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Byggist sú krafan á sama málatilbúnaði og aðalkrafa stefnda, það er að stefnandi hafi brotið í verulegu ráðningarsamning sinn og ekki sinnt starfi sínu sem skyldi. Telur stefndi eðlilegt og sanngjarnt að teknu tilliti til mjög ámælisverðrar háttsemi stefnanda að stefnukröfur verði lækkaðar verulega að mati dómsins.
Auk framangreindra lagaraka vísar stefndi til almennra reglna vinnuréttar og kröfuréttar, þ.m.t. samningaréttar. Vísað er til kjarasamnings milli Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins. Málskostnaðarkrafa er byggð á 130., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Svo sem að framan greinir hóf stefnandi störf hjá stefnda 6. janúar 2014 sem bókunarstjóri. Ráðningarsamningur var gerður við hana 14. febrúar 2014. Henni var sagt upp störfum fyrirvaralaust 5. maí 2015 og ekki greidd laun í uppsagnarfresti. Í málinu krefst hún bóta vegna uppsagnarinnar. Stefndi telur aftur á móti að stefnanda beri ekki laun í uppsagnarfresti vegna brota hennar í starfi.
Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki, þrátt fyrir skýr ákvæði í ráðningarsamningi, skráð sig úr stjórn í einkahlutafélagi þeirra hjóna, Iceland is Hot ehf., sem sé félag í samkeppni við stefnda. Í ráðningarsamningi stefnanda segir að launþega sé með öllu óheimilt að vera í forsvari fyrir aðra aðila sem starfa að ferðaþjónustu eða koma fram hjá samkeppnisaðila undir nafni á nokkurn hátt.
Fram hefur komið í málinu að í ráðningarviðtali upplýsti stefnandi fyrirsvarsmenn stefnda um að hún sæti í stjórn í félagi þeirra hjóna. Hún viðurkennir að hún hafi í viðtalinu lofað að segja sig úr stjórninni og jafnframt lofað að koma ekki að rekstri félagsins. Hún segist hafa staðið við að sinna ekki félaginu eftir að hún hóf störf hjá stefnda en hins vegar hafi farist fyrir í dagsins önn að skrá sig úr stjórn félagsins. Ekki hafi verið minnst á stjórnarsetu hennar fyrr en eftir að henni hafði verið sagt upp störfum.
Iceland is Hot ehf. er lítil ferðaskrifstofa sem tekur á móti sex til tíu erlendum ljósmyndurum tvisvar til þrisvar sinnum á ári og skipuleggur ferðir þeirra um landið. Velta fyrirtækisins var 2.483.000 krónur 2014 og 5.245.000 krónur 2015 samkvæmt gögnum málsins. Af því má sjá að rekstur félagsins var ekki umfangsmikill á þessum tíma. Í málinu hefur stefndi ekki sýnt fram á eða gert líklegt að fyrirtæki stefnanda og eiginmanns hennar stundi samkeppni við stefnda. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefndi hafi orðið fyrir tjóni vegna starfsemi Iceland is Hot ehf. Stefndi hefur ekki heldur sýnt fram á að stefnandi hafi nýtt sér viðskiptasambönd stefnda eða valdið tjóni með öðrum hætti. Er því ekki unnt að fallast á með stefnda að það hafi verið stórfellt brot á starfssamningi að stefnandi skyldi láta farast fyrir að skrá sig úr stjórn félagsins.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að stefnandi hafi misnotað tölvupóstfang stefnda og ritað tölvuskeyti í nafni stefnda vegna erinda er vörðuðu eigin ferðaþjónustu. Þessu til sönnunar hafa verið lögð fram þrjú tölvubréf þar sem félagið Iceland is Hot ehf. kemur við sögu.
Það fyrsta er dagsett 3. febrúar 2014 en þar er stefnandi að staðfesta pöntun á hótelherbergi hjá stefnda en undir nafni hennar í tölvuskeytinu stendur tölvupóstfangið icelandishot.com. Segir stefnandi að þarna hafi hún verið nýbyrjuð í vinnunni og mikið verið að gera. Í asanum hafi hún gert þessi mistök. Annað tölvubréf er dagsett 2. mars 2015 kl. 1:01 eftir miðnætti en þar er stefnandi að svara erindi stúlku sem var að falast eftir vinnu hjá Iceland is Hot ehf. Stefnandi kveðst hafa svarað stúlkunni að heiman frá sér í nafni Iceland is Hot ehf. Þegar hún svaraði hafi hún verið með tölvupóstforritið opið hjá sér en þá sé unnt að hafa mörg tölvupóstföng opin í einu. Fyrir misgáning hafi hún svarað stúkunni í gegnum tölvupóstfang stefnda. Þriðja tölvubréfið, sem stefndi hefur lagt fram, er dagsett 21. apríl 2015 og er sent af starfsmanni stefnda til stefnanda á netfangið susanna@icelandishot.com þar sem fram kemur að verið var að safna fyrir afmælisgjöf handa samstarfsmanni. Stefnandi bendir réttilega á að hún hafi ekki ráðið því að samstarfsmaður hennar hjá stefnda skyldi senda henni tölvubréf á þetta netfang.
Ekkert af framangreindum tölvubréfum gefur til kynna að stefnandi hafi stórlega brotið af sér í starfi, enda verður ekki séð að þessi bréf hafi getað skaðað hagsmuni stefnda og stefndi hefur ekki skýrt út eða leitast við í málinu að sýna fram á hvernig svo megi vera. Verður því ekki fallist á með stefnda að þessi tölvubréf gefi til kynna að stefnandi hafi brotið trúnað við stefnda og að hún hafi brotið starfsskyldur sínar verulega eins og stefndi heldur fram.
Í þriðja lagi byggir stefndi á að stefnandi hafi ekki sinnt því verkefni að svara umsögnum um hótel stefnda sem birst hafi á vefmiðlinum tripadvisor.com fyrr en löngu eftir að umsagnir birtust á vefnum. Þetta eitt og sér þykir ekki réttlæta brottrekstur stefnanda úr starfi fyrirvaralaust.
Gegn andmælum stefnanda telst ósannað að stefndi hafi áminnt stefnanda meðan hún starfaði í þágu stefnda.
Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á með stefnda að hann hafi fært sönnur fyrir því að stefnandi hafi gerst brotleg við trúnaðarskyldur gagnvart stefnda. Verður að leggja til grundvallar að stefnda hafi borið að veita stefnanda áminningu vegna brota á starfsskyldum áður en til brottvikningar úr starfi gæti komið. Það gerði stefndi hins vegar ekki, heldur vék stefnanda úr starfi án fyrirvara. Ber því að fallast á með stefnanda að hún eigi rétt til bóta vegna hinnar fyrirvaralausu uppsagnar sem nemi fjárhæð þeirra launa sem hún hefði haft á uppsagnartíma ráðningarsamningsins. Krafa stefnanda er á því reist og hefur útreikningur stefnanda á kröfunni ekki sætt andmælum. Verður krafan því tekin til greina að fullu eins og í dómsorði greinir.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 870.000 krónur.
Krafa stefnanda um að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti á sér stoð í 12. gr. laga nr. 38/2001 og er því ekki þörf á að kveða sérstaklega á um það í dómsorði. Krafa stefnanda um dráttarvexti á málskostnað á sér stoð í 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 og er því ekki heldur þörf á að kveða sérstaklega á um það í dómsorði.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Stracta Hotels ehf., greiði stefnanda, Súsönnu Rós Westlund, 2.481.962 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 464.400 krónum frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 928.800 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2015, af 1.393.200 krónum frá þeim degi til 1. september 2015, af 1.857.600 krónum þeim degi til 1. október 2015 en af 2.481.962 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 870.000 krónur í málskostnað.