Hæstiréttur íslands

Mál nr. 297/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar


Föstudaginn 1

 

Föstudaginn 1. júní 2007.

Nr. 297/2007:

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bergsteinn Georgsson hdl.)

 

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn, skyldi á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga afplána 135 daga eftirstöðvar refsingar, sem hann hafði hlotið með fjórum dómum héraðsdóms.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2007, þar sem varnaraðila var gert að afplána 135 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann fékk reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 6. apríl 2007. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar þannig að kærða verði gert að afplána samtals 135 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt fjórum nánar tilgreindum dómum. 

Varnaraðila var veitt reynslulausn 6. apríl 2007 en þá hafði hann afplánað helming fangelsisrefsingar er hann hlaut með þremur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur og einum dómi Héraðsdóms Vesturlands. Fallist er á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi aðfararnótt 27. maí 2007 framið brot er varðað geti við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að ráðast á mann á sjötugsaldri, veita honum áverka og taka af honum veski, sem í voru peningar og greiðslukort. Eru skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 uppfyllt og verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili afpláni eftirstöðvar áðurnefndrar fangelsisrefsingar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, afpláni 135 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2005, 24. janúar 2006 og 12. apríl 2006 og Héraðsdóms Vesturlands 18. desember 2006.

         

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að X, [kt.], verði gert að afplána 135 daga eftirstöðvar dóma Héraðsdóms Vesturlands frá 18. desember 2006, Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. apríl 2006, Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. janúar 2006 og Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. nóvember 2005, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 6. apríl sl.

Af hálfu kærða er þess aðallega krafist að kröfunni verði hafnað.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar mál þar sem kærði er grunaður um rán, það að hafa yfirgefið mann í neyð og umboðssvik.

 Málsatvik sé á þá leið að óskað hafi verið eftir lögreglu að Frakkastíg í Reykjavík aðfararnótt 27. maí sl. kl. 03:59, þar sem maður hafi verið barinn og rændur.  Hafi lögregla komið að A (brotaþola) sem var alblóðugur í framan.  Hafi brotaþoli greint svo frá að hann hafi verið á Laugavegi og hafi þar hitt fyrir unga stúlku og byrjað að ræða við hana.  Hafi hún boðið honum að hafa samfarir við sig.  Hafi hann þá innt hana eftir því hvert þau ættu að fara og hafi hún bent á húsasund þar skammt frá og leitt hann inn í húsasundið.  Hafi hann spurt hvað þetta myndi kosta, en hann héldi að hann hefði meðferðis um 5000-6000.  Hafi hann ekki vitað fyrr en ráðist hafi verið aftan að honum svo hann féll í jörðina.  Hafi hann verið kýldur í andlit og sparkað í bakið á honum á meðan hann lá í jörðinni, farið fram á að hann afklæddist jakkanum og afhent hann, því næst leitað í vasa hans og tekið þaðan veski og farsíma.  Hafi verið tekið af honum um 6000-7000 í seðlum, eitt debetkort og kreditkort.  Stúlkan sem um ræðir  hafi gefið sig fram við lögreglu og kvaðst hafa hitt brotaþola á Laugavegi, hann hafi beðið um að hafa við hana kynmök og hún kvaðst hafa tekið því gegn greiðslu.  Hafi þau í kjölfarið farið í hraðbanka og tekið út fyrirhugaða greiðslu og þaðan að húsi við Laugaveg [...].  Er þau hafi verið þar fyrir utan hafi hún krafist greiðslu en ætlaður brotaþoli aðeins látið hana hafa hluta greiðslunnar.  Hafi þá kærði komið út úr húsinu og krafist þess að brotaþoli léti stúlkuna hafa restina af greiðslunni.  Hafi kærði ráðist að brotaþola, m.a. kýlt hann niður og sparkað í hann.  Hafi kærði tekið veski brotaþola.  Hafi hún margsinnis beðið kærða að hætta, en hann ekki orðið við því.  Hafi hún svo yfirgefið vettvang.  Hafi kærði borið um hjá lögreglu að hann hefði komið að þar sem að stúlkan og brotaþoli hafi verið í átökum og hún beðið hann að hjálpa sér þar sem brotaþoli hafi ætlað að nauðga henni.  Hafi hann talið sig vera að hjálpa stúlkunni í neyð.   Hann hafi reynt að stoppa brotaþola af með því að rífa í hann, en þá hafi brotaþoli ráðist á sig.  Hafi kærði ekki kannast við að hafa tekið neitt af brotaþola. 

Á myndum úr eftirlitskerfi Landsbanka Íslands við Laugaveg 77 sást kærði ásamt stúlkunni í málinu á myndbrotum aðfararnótt 27. maí sl. kl. 04:13:13 til 04:15:54.  Samkvæmt upplýsingum lögreglu var á greindum tíma reynt að taka út af korti brotaþola í málinu.  Stúlkan greindi svo frá í skýrslutöku hjá lögreglu að hún hefði ásamt kærða farið í hraðbanka, þar sem kærði hefði ætlað að taka út peninga til að kaupa spítt.  Kærði hefur borið kennsl á sig á myndunum, en viti ekkert um tilraun til úttektar af greiðslukorti brotaþola. 

Sé litið svo á að kærði hafi rofið skilyrði reynslulausnar gróflega og á þann hátt að tilefni gefi til að honum verði gert að afplána eftirstöðvar refsingar.  Sterkur rökstuddur grunur sé þess efnis að kærði hafi framið rán, það að hafa yfirgefið brotaþola í neyð og umboðssvik á reynslulausnartíma.  Um er að ræða ætluð brot gegn 252. gr., 1. mgr. 220. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga en rán getur varðað að lögum allt að 16 ára fangelsi.

Með vísun til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005, er fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, X, skal afplána 135 daga eftirstöðvar reynslulausnar sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 6. apríl 2007.