Hæstiréttur íslands
Mál nr. 451/2009
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Riftun
|
|
Fimmtudaginn 20. maí 2010. |
|
Nr. 451/2009.
|
Byggingafélag námsmanna ses (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Sigurði Guðmundssyni (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Ráðningarsamningur. Riftun.
Síðla árs 2007 hóf stjórn B athugun á ýmsum ráðstöfunum S, sem gegndi á þeim tíma starfi sviðsstjóra rekstrarsviðs félagsins, og tveggja annarra aðila. Í framhaldinu var endurskoðunarfirma fengið til að gera úttekt á rekstri og fjárhag félagsins. Með tilkynningu stjórnar B 21. desember 2007 var F tímabundið leystur frá störfum. Í kjölfarið eða þann 9. apríl 2008 lýsti B yfir riftun á ráðningarsamningi S vegna ætlaðra alvarlegra trúnaðarbrota og brota á starfsskyldum. Í málinu var deilt um réttmæti riftunarinnar. B hafði greitt S laun til loka febrúar 2008, en S krafðist þess meðal annars að B greiddi sér laun til 31. desember 2008, í samræmi við ráðningarsamning aðila sem kvað á um 12 mánaða uppsagnarfrest. Talið var að ráðningarsamningi S hefði ekki verið slitið er S var leystur tímabundið undan störfum þann 21. desember 2007. Það hefði ekki gerst fyrr en með yfirlýsingu um riftun 9. apríl 2008 og ætti hann þegar af þeirri ástæðu rétt til óskertra launa fyrir tímabilið 1. mars til 9. apríl 2008. Við mat á því hvort B bæri að greiða S laun frá því að ráðningarsamningi var rift til 31. desember 2008 yrði að leggja mat á lögmæti riftunarinnar og hvort hún hefði falið í sér verulega vanefnd af hálfu S. Talið var að S hefði með tiltekinni háttsemi brotið svo gegn starfsskyldum sínum hjá B að hann hefði verulega vanefnt ráðningarsamning aðila. Var B því sýknað af kröfu S um greiðslu launa, og viðurkenningarkröfu um laun og launatengdar greiðslur, eftir að ráðningarsamningi félagsins við S hafði verið rift.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2009. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnda en til vara að hann verði sýknaður að svo stöddu af viðurkenningarkröfu stefnda og að krafa stefnda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndi var ráðinn til starfa sem rekstrarstjóri Byggingafélags námsmanna frá 1. janúar 2004 og gegndi samfellt starfi hjá áfrýjanda þar til ráðningarsamningi hans var slitið af áfrýjanda, en deilt er um þau ráðningarslit í málinu. Byggingafélagi námsmanna, sem upphaflega var almennt félag, var breytt 28. febrúar 2007 í sjálfseignarstofnun samkvæmt lögum nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Starfar áfrýjandi á grundvelli þeirra laga. Starfssviði stefnda sem rekstrarstjóra var í 3. gr. ráðningarsamnings hans lýst svo: ,,Starf rekstrarstjóra heyrir undir stjórn Byggingafélags námsmanna (BN) og framkvæmdastjóra BN. Rekstarstjóri skal vera framkvæmdastjóra til aðstoðar við daglegan rekstur félagsins, við áætlanagerð, uppgjör nýbyggingaframkvæmda, útreikninga leiguverðs og tilfallandi sérverkefni, ásamt því að hafa umsjón með stýringu og áætlanagerð viðhaldsverkefna fasteigna. Rekstrarstjóri skal hafa yfirumsjón með innra tölvukerfi BN og gagnagrunnskerfinu Starfanda, stuðla að uppfærslu kerfis með endurbótum, virku viðhaldi og vinnslu kerfis gagnvart umsóknum og úthlutun leigueininga. Rekstarstjóri er ábyrgur fyrir úttektum á leigueiningum BN og samskiptum við leigutaka og húsverði sem og að vera tengiliður BN gagnvart internetþjónustu BN við leigutaka og tengilið Símans. Allt gert í samráði við framkvæmdastjóra BN og samkvæmt samþykktum stjórnar Byggingafélags námsmanna.“
Að frumkvæði stefnda var gerður nýr ráðningarsamningur við hann, sem gilti frá 1. október 2006. Starfsheiti hans samkvæmt þeim samningi var sviðsstjóri rekstrarsviðs og jafnframt tekið fram að hann væri staðgengill framkvæmdastjóra. Fól þessi samningur í sér nokkuð betri starfskjör stefnda til handa. Starfssviði stefnda er lýst í 2. gr. samningsins og er sú lýsing að mestu í samræmi við framangreinda lýsingu í fyrri ráðningarsamningi, en nokkrar breytingar eru þó gerðar. Meðal þeirra var að mælt er fyrir um að stefndi skyldi sinna daglegum rekstri félagsins og umsjón með rekstrarsviði og hafa ,,3. Umsjón með bókhaldi í samvinnu við framkvæmdastjóra, bókara og endurskoðanda.“ Í 8. gr. samningsins er ákvæði um starfslok, en greinin hljóðar svo: ,,Sviðsstjóri rekstrarsviðs skal halda fullum launum og hlunnindum í 12 mánuði eftir starfslok komi til uppsagnar af hálfu BN. Segi sviðsstjóri rekstrarsviðs starfi sínu lausu skal hann halda fullum launum og hlunnindum í þann tíma sem hér er tilgreindur: ... Uppsögn eftir 1. september 2007 12 mánuðir. Réttindi þau sem hér greinir eru óháð því hvort hann ræðst til annarra starfa á því tímabili sem réttindi ná til.“ Í 9. gr. segir að um starfskjör sviðsstjóra rekstrarsviðs að öðru leyti fari ,,eftir landslögum.“
Af gögnum málsins kemur fram að meiri hluti stjórnar áfrýjanda hóf athugun á ýmsum ráðstöfunum stefnda, formanns stjórnar áfrýjanda og framkvæmdastjóra félagsins síðla árs 2007. Var lögmannsstofa fengin til aðstoðar við þá athugun. Reikningur vegna starfa lögmannsstofunnar mun hafa borist skrifstofu áfrýjanda fyrir mistök í desember 2007. Í framhaldi af því sagði formaður stjórnar af sér og var skrifleg tilkynning hans um það lögð fram á stjórnarfundi 21. desember 2007. Á þessum stjórnarfundi var samþykkt tillaga um að fá endurskoðunarfirmað KPMG hf. til þess að gera úttekt á rekstri og fjárhag áfrýjanda. Jafnframt var samþykkt tillaga um að framkvæmdastjóri áfrýjanda, sem er bróðir stefnda, yrði ,,tímabundið leystur frá störfum í ljósi úttektar KPMG“ og að stefndi yrði ,,tímabundið leystur frá stöfum í ljósi skyldleika hans við framkvæmdastjóra BN og þeirrar úttektar sem KPMG hefur verið ætlað að gera ...“. Stefnda var sama dag afhent skrifleg tilkynning stjórnar um að hún hefði samþykkt að fela KPMG hf. að framkvæma innri endurskoðun á rekstri áfrýjanda. Í tilkynningunni segir einnig: ,,Meðan sú endurskoðun fer fram var einnig einróma samþykkt af stjórn BN að veita Friðriki Guðmundssyni, ... framkvæmdastjóra BN, tímabundna lausn frá störfum. Varðandi þig, ... var jafnframt samþykkt einróma af stjórn BN að veita þér sömuleiðis lausn frá störfum, sökum skyldleika við framkvæmdastjórann, sem er bróðir þinn. Ekki er því óskað starfskrafta þinna meðan að ofangreind rannsókn stendur yfir ... Ákvörðun stjórnar tekur gildi samstundis og mun standa þar til frekari ákvörðun varðandi málefni félagsins og stöðu þína innan félagsins verður tekin.“ Stefnda var gert að afhenda áfrýjanda lykla að skrifstofu félagsins svo og greiðslu- og kreditkort sem hann hafði starfs síns vegna.
Stefndi ritaði bréf til áfrýjanda 11. janúar 2008 og lýsti þeirri skoðun sinni að honum hefði verið sagt upp með framangreindri tilkynningu.
Áfrýjandi sendi stefnda bréf 9. apríl 2008 og lýsti yfir riftun á ráðningarsamningi hans vegna ætlaðra alvarlegra trúnaðarbrota og brota á starfsskyldum. Riftunin skyldi taka gildi þá þegar. Riftunarástæður voru tilgreindar í bréfi til lögmanns stefnda sama dag, sem fylgdi bréfinu til hans.
Óumdeilt er að áfrýjandi greiddi stefnda laun til loka febrúar 2008, en hann hefur ekki fengið frekari launagreiðslur. Í máli þessu er deilt um réttmæti framangreindrar riftunar og miðar stefndi kröfu sína við að áfrýjanda beri að efna sínar skyldur samkvæmt ráðningarsamningnum til 31. desember 2008, en þá hafi verið liðnir tólf mánuðir frá næstu mánaðarmótum eftir þau slit á ráðningarsamningi, sem stefndi telur að hafi orðið 21. desember 2007.
II
Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að ráðningarsamningur stefnda, sem tók gildi 1. október 2006, hafi ekki verið gildur þar sem hann hafi ekki verið lagður fyrir stjórn til samþykktar. Ákvæði hans séu um margt sérstök meðal annars um lengd uppsagnarfrests og réttindi stefnda í uppsagnarfresti. Hafi stefnda mátt vera ljóst að samningurinn væri svo óvenjulegur að hann ætti að leggja fyrir stjórn til samþykktar.
Ráðningarsamningurinn er undirritaður af formanni stjórnar fyrir hönd áfrýjanda. Í ljósi þess var það ekki hlutverk stefnda að leggja hann fyrir stjórn til samþykktar. Verður málsástæðu þessari því hafnað.
III
Tilkynning sú, sem reist var á samþykkt stjórnar áfrýjanda, og hann sendi stefnda 21. desember 2007, fól í sér að stefndi var leystur undan vinnuskyldu á meðan svonefnd innri endurskoðun færi fram á rekstri áfrýjanda, en með henni var ráðningarsamningi hans ekki slitið, hvorki með uppsögn né riftun. Það var fyrst gert með yfirlýsingu um riftun 9. apríl 2008. Ákvæði 8. gr. ráðningarsamnings stefnda, sem tekið er upp að framan, á samkvæmt orðum sínum og efni aðeins við ef ráðningarsamningi er slitið með uppsögn. Réttindi þau, sem stefndi krefst í máli þessu, ráðast, að öðru leyti en því sem lýtur að tímabilinu frá 1. mars til 9. apríl 2008 af því, hvort riftun áfrýjanda á ráðningarsamningnum við hann var lögmæt eða ekki. Við mat á því verður að taka til úrlausnar, hvort riftunarástæðurnar feli í sér verulega vanefnd stefnda á ráðningarsamningnum. Þar sem ráðningarsamningi stefnda var slitið 9. apríl 2008 á hann þegar af þeirri ástæðu rétt til óskertra launa, að þeim fjárhæðum sem síðar greinir, til þess dags.
Stefndi var sviðsstjóri rekstrarsviðs áfrýjanda. Auk ákvæða í framangreindum ráðningarsamningi hans giltu um réttindi hans og skyldur almennar reglur vinnuréttar.
IV
Eins og áður greinir tiltók áfrýjandi í bréfi til lögmanns stefnda 9. apríl 2008, sem fylgdi riftunaryfirlýsingu áfrýjanda sama dag, ástæður sem yfirlýsingin var reist á. Hann hefur í öðrum gögnum málsins leitast við að renna frekari stoðum undir riftunarástæðurnar. Við mat á lögmæti riftunarinnar verður að miða við hvort í þeim ástæðum, sem hún var reist á, hafi falist veruleg vanefnd af hálfu stefnda, þannig að réttlætt hafi riftun. Verður, eins og málið liggur fyrir, við mat á því ekki litið til ástæðna, sem áfrýjandi hefur síðar vísað til um meintar vanefndir stefnda. Óumdeilt er að stefnda var ekki veitt viðvörun og að honum var ekki gefinn kostur á því að tjá sig um riftunarástæður, áður en ráðningarsamningnum var rift. Er slík aðvörun ekki skilyrði riftunar.
Í bréfinu kemur fram að stjórnin reisir riftun á því að stefndi hafi verið eigandi einkahlutafélagsins FH Ráðgjöf ásamt bróður sínum, framkvæmdastjóra áfrýjanda. Hafi þetta félag unnið fyrir Þverás ehf. og Þórtak ehf. sem bæði hafi unnið að stórum verkum fyrir áfrýjanda síðustu ár án útboða. Segir í bréfinu að áfrýjandi telji að eignaraðild stefnda að félaginu og vinna hans í þágu þess samrýmist ekki ,,starfs- og trúnaðarskyldum“ hans sem sviðsstjóra rekstrarsviðs áfrýjanda enda megi með réttu draga í efa að hagsmuna áfrýjanda hafi verið nægilega gætt í viðskiptum við fyrrgreind félög. ,,Verður ekki annað ráðið en að [stefndi] hafi haft fjárhagslega hagsmuni af samningum [áfrýjanda] við Þórtak ehf. og Þverás ehf. Þá samrýmist það ekki starfsskyldum [stefnda] sem rekstrarstjóra [áfrýjanda] að starfa á sama tíma hjá FH Ráðgjöf ehf. við ráðgjöf á sviði húsbygginga og rekstur fasteignar.“ Hafi starf stefnda hjá áfrýjanda verið fullt starf og hann ekki heimilað stefnda að sinna jafnframt öðrum störfum.
Stefndi kveðst ekki vera stofnandi FH Ráðgjafar ehf. heldur hafi hann í mars eða apríl 2006 keypt helmingshlut í félaginu af syni bróður síns, Friðriks Guðmundssonar framkvæmdastjóra áfrýjanda. Hann kveðst hafa sinnt störfum við bókhald hjá félaginu samhliða starfi sínu hjá áfrýjanda. Hann kveður félagið ekki hafa sinnt verkefnum fyrir áfrýjanda. Hann segir í skýrslu fyrir dómi að félagið hafi sinnt störfum fyrir Þverás ehf., en ekki í tengslum við verkefni, sem það félag hafi unnið fyrir áfrýjanda. Hann áætlar í skýrslunni að félagið hafi unnið fyrir Þverás ehf. fyrir ,,svona tíu, fimmtán milljónir, eitthvað svoleiðis“ á árunum 2006 og 2007. Stefndi hefur ekki orðið við áskorun áfrýjanda sem lögð var fram í þinghaldi 25. ágúst 2008 um að leggja fram upplýsingar og gögn um þessi viðskipti. Spurður hvort hann hafi upplýst stjórn áfrýjanda um að hann ynni samhliða starfi sínu hjá áfrýjanda fyrir þetta einkahlutafélag sitt, svaraði stefndi svo: ,,Ég talaði við stjórnarformann.“ Í skýrslu Benedikts Magnússonar, þáverandi stjórnarformanns, fyrir dómi staðfesti hann að stefndi hefði upplýst sig um eignaraðild sína að FH Ráðgjöf ehf. og að hann sinnti störfum fyrir það. Benedikt sagði jafnframt: ,, ... mér var sagt að það myndi ekki skarast við rekstur [áfrýjanda], mér var ekki sagt við hverja þetta félag ætlaði að eiga viðskipti og ég hafði ekki neitt við þetta að athuga ...“. Í skýrslu fyrirsvarsmanns Þveráss ehf. og Þórtaks ehf. fyrir dómi kom fram að FH Ráðgjöf ehf. hefði unnið fyrir bæði félögin.
Sannað er samkvæmt framansögðu að stefndi upplýsti formann stjórnar um eignaraðild sína að FH Ráðgjöf ehf. og að hann myndi sinna störfum fyrir það félag, jafnhliða starfinu hjá áfrýjanda. Verður eignaraðild stefnda að félaginu og störf í þágu þess því ekki ein og sér talin fela í sér vanefnd af hans hálfu á ráðningarsamningnum við áfrýjanda. Á hinn bóginn hefur stefndi ekki sýnt fram á að hann hafi gert stjórn áfrýjanda eða formanni hennar grein fyrir því að félagið sinnti störfum fyrir Þverás ehf. og Þórtak ehf. sem voru tveir stærstu viðskiptavinir áfrýjanda. Með þessu braut stefndi trúnaðarskyldu sem hann hafði við áfrýjanda sem sviðsstjóri rekstrarsviðs og staðgengill framkvæmdastjóra. Ein af starfsskyldum stefnda var samkvæmt fyrri ráðningarsamningi hans, sem gilti til 1. október 2006, að vera framkvæmdastjóra til aðstoðar við uppgjör nýbyggingarframkvæmda. Sem sviðsstjóri rekstrarsviðs þurfti hann að hafa mikil samskipti við báða þessa viðskiptavini áfrýjanda og gæta hagsmuna hans gagnvart þeim. Með þessari háttsemi telst stefndi hafa brotið svo starfsskyldur sínar hjá áfrýjanda að til verulegrar vanefndar teljist á ráðningarsamningnum, sem réttlætti riftun hans.
V
Þá var riftun áfrýjanda reist á því að stefndi hefði brotið starfsskyldur sínar með því að hafa í nóvember 2007 farið til Noregs með bróður sínum, framkvæmdastjóra áfrýjanda, og látið félagið greiða fyrir. Um hafi verið að ræða ,,persónulega ferð“ sem farin hafi verið án vitundar stjórnar áfrýjanda og ekki í þágu hagsmuna félagsins.
Stefndi kveður ferðina hafa verið farna af starfsnauðsynjum og framkvæmdastjóri áfrýjanda hafi tekið ákvörðun um að hún skyldi farin.
Verður ekki talið að það hafi verið hlutverk stefnda að leita samþykkis stjórnar fyrir þátttöku í slíkri ferð. Er ekki sýnt fram á að stefndi hafi með þátttöku í ferðinni brotið starfsskyldur sínar.
Riftun áfrýjanda var einnig reist á því að stefndi hefði brotið starfsskyldur sínar með því að hafa ekki upplýst stjórn áfrýjanda um ýmis brot framkvæmdastjóra í starfi, sem stefnda hafi verið kunnugt um. Nefnir áfrýjandi sérstaklega í þessu sambandi eignaraðild framkvæmdastjórans að einkahlutafélaginu GG Innflutningi, sem hafi átt viðskipti við Þórtak ehf. og Þverás ehf.
Stefndi neitar því að sér hafi verið kunnugt um að framkvæmdastjórinn hafi átt hlut í þessu félagi. Er þessi ásökun áfrýjanda ósönnuð.
VI
Samkvæmt framansögðu var vanefnd stefnda á ráðningarsamningi hans við áfrýjanda, sem lýst er í kafla IV, veruleg. Ómótmælt er að stjórn áfrýjanda hafi fyrst verið kunnugt um þessa vanefnd í lok árs 2007. Var riftun áfrýjanda á ráðningarsamningnum því lögmæt. Verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda sem miðar við rétt hans til launa eftir riftunina 9. apríl 2008 og viðurkenningarkröfu um laun og launatengdar greiðslur eftir það tímamark.
Eins og greinir í kafla III á stefndi rétt til óskertra launa frá 1. mars til 9. apríl 2008. Er fjárhæð launa miðuð við ákvæði ráðningarsamnings stefnda. Verður áfrýjandi dæmdur til að greiða honum laun fyrir mars 2008. Stefndi krefst 699.128 króna í mánaðarlaun og er sú fjárhæð innan þess sem umsaminn mánaðarlaun eru í ráðningarsamningi hans. Verður sú fjárhæð og krafa hans um yfirvinnu lögð til grundvallar. Samkvæmt því verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda fyrir þennan mánuð mánaðarlaun 699.128 krónur, fasta yfirvinnu 161.345 krónur og orlof 12,07% 103.859 krónur eða samtals 964.335 krónur. Hafnað er kröfu stefnda um bifreiðahlunnindi, enda var hann leystur undan starfsskyldum hjá áfrýjanda á þessum tíma og þurfti því ekki að nota bifreið í þágu starfs síns. Fyrir tímabilið 1. til 9. apríl 2008 verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 289.301 krónu (209.738 + 48.404 + 31.158). Stefndi hefur ekki forræði á kröfu um lífeyrisframlag vinnuveitanda og framlag hans í séreignarlífeyrissjóð og er þeim kröfuliðum hafnað. Áfrýjandi verður samkvæmt framansögðu dæmdur til að greiða stefnda 1.253.636 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.
Áfrýjandi greiði stefnda hluta málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Byggingafélag námsmanna ses, greiði stefnda, Sigurði Guðmundssyni, 1.253.636 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 964.335 krónum frá 1. apríl 2008 til 9. apríl sama ár, en af 1.253.636 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2009.
Mál þetta var höfðað 19. maí 2008 og dómtekið 6. þ.m.
Stefnandi er Sigurður Guðmundsson, Skólagerði 63, Kópavogi.
Stefndi er Byggingafélag námsmanna ses., Laugavegi 66-68, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.160.118 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.080.055 krónum frá 1. mars 2008 til 1. apríl s.á. og af 2.160.118 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
2. Að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða stefnanda laun, orlofslaun og bifreiðahlunnindi svo og bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, allt samkvæmt ráðningarsamningi hans við stefnda frá 1. maí 2008 til 31. desember 2008 að viðbættum dráttarvöxtum frá gjalddaga hverrar greiðslu til greiðsludags.
3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 króna í miskabætur og beri sú fjárhæð dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. maí 2008 til greiðsludags.
4. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður að svo stöddu af viðurkenningarkröfu stefnanda, að kröfur hans verði lækkaðar verulega og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
1
Í stefnu greinir frá málavöxtum í grundvallaratriðum.
Stefndi er sjálfseignarstofnun og starfar á grundvelli laga nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Stefnandi réðst í þjónustu forvera stefnda, Byggingafélags námsmanna, með starfssamningi 12. desember 2003 og hóf störf 1. janúar 2004. Starfsheiti hans var rekstrarstjóri. Nýr starfssamningur var gerður við stefnanda 1. október 2006. Rekstrarformi félagsins var breytt í sjálfseignarstofnun 28. febrúar 2007 og yfirtók hún öll réttindi og skyldur eldra félagsins gagnvart stefnanda og öðrum.
Hinn 21. desember 2007 var stefnanda afhent svohljóðandi tilkynning stjórnar Byggingafélags námsmanna um tímabundna lausn frá störfum:
„Á stjórnarfundi BN, þann 21. desember 2007, sem haldinn var á skrifstofu BN að Laugavegi 66, Reykjavík, var einróma samþykkt tillaga um að fela KPMG endurskoðunarskrifstofu að framkvæma innri endurskoðun á rekstri BN. Meðan að sú endurskoðun fer fram var einnig einróma samþykkt af stjórn BN að veita Friðriki Guðmundssyni, kt. 040455-2139, framkvæmdastjóra BN, tímabundna lausn frá störfum. Varðandi þig, Sigurð Guðmundsson, kt. 131060-4089, rekstrarstjóra BN, var jafnframt samþykkt einróma af stjórn BN að veita þér sömuleiðis lausn frá störfum, sökum skyldleika við framkvæmdastjórann, sem er bróðir þinn. Ekki er því óskað starfskrafta þinna meðan að ofangreind rannsókn stendur yfir og ber þér að afhenda stjórn félagsins lykla að skrifstofu, kredit- og debetkort og önnur gögn sem þú kannt að hafa í fórum þínum. Jafnframt mun stjórn félagsins tilkynna lánastofnunum, hlutafélagaskrá og öðrum nauðsynlegum stofnunum að heimildir þínar til þess að ráðstafa hagsmunum félagsins eru ekki lengur tímabundið í gildi og er þér óheimilt að koma fram í nafni félagsins.
Ákvörðun stjórnar tekur gildi samstundis og mun standa þar til frekari ákvörðun varðandi málefni félagsins og stöðu þína innan félagsins verður tekin.“
Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf 11. janúar 2008 þar sem segir að stefnandi telji uppsögnina tilefnislausa og að hún vegi gróflega að starfsheiðri hans.
Með bréfi, dagsettu 9. apríl 2008, tilkynnti lögmaður stefnda stefnanda að stjórn stefnda hefði ákveðið að rifta ráðningarsamningi við hann. Þar segir: „Riftun samningsins tekur þegar gildi og er riftunin fyrirvaralaus. Umbj. minn mun því ekki greiða þér frekari laun. Ástæður riftunar samningsins eru alvarleg trúnaðarbrot og brot á starfsskyldum þínum. Nánar um ástæður riftunar vísast til meðfylgjandi afrits bréfs sem ég hef í dag ritað lögmanni þínum, Ragnari Halldóri Hall hrl. Umbj. minn krefst þess að þú skilir þegar til félagsins bifreið, fartölvu og farsíma sem félagið hefur veitt þér afnot af.“ Meginatriði, sem vikið er að í því bréfi, eru sem hér segir: Þann dag, 21. desember 2007, er stefnandi hafi verið veitt tímabundin lausn frá störfum, hafi stjórn stefnda falið KPMG endurskoðunarskrifstofu að framkvæm innri endurskoðun á rekstri BN. Sú athugun hafi farið fram og leitt í ljós alvarleg brot stefnanda á skyldum sínum gagnvart stefnda eins og nánar er rakið: 1. Í ljós hafi komið að stefnandi sé, ásamt bróður sínum, Friðrik Guðmundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra BN, eigandi fyrirtækisins FH ráðgjafar ehf. sem hafi unnið fyrir Þórtak ehf. og Þverás ehf. en þau fyrirtæki hafi unnið stór verk fyrir BN síðustu ár án útboða. Eignarhald stefnanda í fyrrgreindu félagi og vinna í þágu þess samrýmist ekki starfs- og trúnaðarskyldum stefnanda sem rekstrarstjóra BN. Með réttu megi draga í efa að hagsmuna BN hafi verið nægjanlega gætt í viðskiptum við fyrrgreinda verktaka og stjórn BN hafi ekki heimilað stefnanda að sinna jafnframt öðrum störfum samhliða starfi rekstrarstjóra BN. 2. Stjórn stefnda telji að stefnandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stefnda með því að fara á kostnað hans ásamt bróður sínum til Noregs í nóvember 2007. 3. Stjórn stefnda telji að stefnanda hafi verið ljós ýmis brot framkvæmdastjórans í starfi og að hann hafi ekki sinnt sem skyldi starfsskyldum sínum að því er tekur til umsjónar með bókhaldi stefnda. 4. Svokallaður starfssamningur við stefnanda, dags. 1. október 2006, hafi verið undirritaður af formanni stjórnar stefnda án vitneskju og samþykkis stjórnarinnar og sé hann því óskuldbindandi. 5. Stjórn stefnda telji brot stefnanda á skyldum gagnvart honum vera vítaverð og alvarleg og hafi því ákveðið að rifta án fyrirvara ráðningarsamningi við hann.
Stefndi greiddi stefnanda laun fram til loka febrúar 2008. Í stefnu segir að hann hafi 3. apríl 2008 kannað hjá starfsmanni stefnda, sem annist uppgjör launa, hverju það sætti að hann hefði ekki fengið greidd laun fyrir mars þá um mánaðamótin og fengið þau svör að stjórnarformaður stefnda hefði gefið þau fyrirmæli að stefnandi skyldi ekki fá frekari laun greidd hjá stefnda. Í stefnu segir að stefnandi höfði samhliða þessu máli annað mál á hendur stefnda til heimtu orlofslauna fyrir tímabilið fram til 1. mars 2008. Fram er komið að uppgjöri vegna þessa sé lokið.
Með tveimur bréfum í maí 2008 kærði stjórn stefnda fjóra menn, þ.á m. stefnanda og Friðrik bróður hans, til ríkislögreglustjóra vegna ætlaðs fjármálamisferlis í tenglum við rekstur félagsins.
2
Kröfugerð stefnanda er reist á 8. gr. starfssamnings stefnanda frá 1. október 2006 um starfslok þar sem segir: „Sviðsstjóri rekstrarsviðs skal halda fullum launum og hlunnindum í 12 mánuði eftir starfslok komi til uppsagnar af hálfu BN.“ Þar er einnig kveðið á um eftirfarandi: „Segi sviðsstjóri rekstarsviðs starfi sínu lausu skal hann halda fullum launum og hlunnindum í þann tíma sem hér er tilgreindur: Uppsögn eftir undirritun samnings 4 mánuðir. Uppsögn eftir 1. mars 2007 8 mánuðir. Uppsögn eftir 1. sept. 2007 12 mánuðir. Réttindi þau sem hér greinir um eru óháð því hvort hann ræðst til annarra starfa á því tímabili sem réttindi ná til.“ Stefnandi vísar til þess að hann hafi verið leystur frá störfum í desember 2007 og eigi því rétt til launa og annarra hlunninda, sem ráðningarsamningnum fylgi, til 31. desember 2008.
Í 1. dómkröfu kveðst stefnandi gera kröfu um laun og önnur hlunnindi sem hafi verið gjaldfallin á þingfestingardegi málsins. Svofelld grein er gerð fyrir kröfufjárhæð: „Mánaðarlaun stefnanda voru 699.128 krónur. Samkvæmt ráðningarsamningi hans fékk hann fastar greiðslur vegna yfirvinnu, án tillits til vinnuframlags, 161.348 krónur á mánuði. Föst laun hans voru samkvæmt því 860.476 krónur á mánuði. Til viðbótar gerir stefnandi kröfu um 12,07% orlof á þau laun. Sá kröfuliður er 103.859 krónur. Að auki krefst stefnandi bóta vegna tapaðra lífeyrisréttinda, samtals 12% af samanlagðri fjárhæð launa og orlofslauna, þ.e. 6% mótframlags til lífeyrissjóðs og 6% mótframlags til séreignarlífeyrissjóðs, og nemur þessi kröfuliður 115.720 krónum á mánuði. Samtals nema þessir liðir 1.080.055 krónum á mánuði. Launin fyrir mars 2008 áttu að greiðast 1. apríl 2008 og launin fyrir apríl 2008 áttu að greiðast 1. maí 2008 og tekur dráttarvaxtakrafa stefnanda mið af því. Um orlofslaun vísar stefnandi til starfssamnings síns við stefnda þar sem orlofsprósenta hans er tilgreind 12,07% sem svarar til 28 virkra orlofsdaga. Stefnandi vísar einnig um orlofslaunakröfu sín til ákvæða orlofslaga nr. 30/1987. Samkvæmt 8. gr. þeirra laga skal greiða starfsmanni áunnin orlofslaun ef ráðningarsambandi er slitið.“
Stefnandi tekur fram að hann telji málatilbúnað stefnda varðandi ávirðingar sínar sem rökstuðning fyrir riftun ráðningarsamnings gersamlega haldlausan. Honum hafi ekki verið kynnt neitt af efni skjala sem séu sögð hafa verið tekin saman um málefni félagsins eftir að hann lét þar af störfum og ekki hafi verið óskað eftir skýringum hans.
Stefnandi kveður kröfuliði, sem varða 2. dómkröfu sína, vera hina sömu og tilgreindir séu í 1. dómkröfu, þó með þeirri viðbót að krafist sé 112.450 króna greiðslu fyrir hvern mánuði frá 1. maí 2008 vegna bifreiðahlunninda en stefndi hafi krafist þess af stefnanda að hann skilaði bifreið, sem hann hafði til einkanota og nota í starfi sínu sem rekstrarstjóri stefnda, og hafi stefnandi orðið við þeirri kröfu. Þessar kröfur séu ekki gjaldfallnar (við útgáfu stefnu) en í ljósi afstöðu stefnda sé ljóst að hann muni ekki greiða þær án undangengins dóms. Um heimild til öflunar viðurkenningardóms vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Um lagagrundvöll fyrir 3. dómkröfu sinni vísar stefnandi til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Á því er byggt að uppsögnin hafi verið framkvæmd með afar meiðandi hætti og án þess að stefnandi fengi á nokkurn hátt að tjá sig um ástæður hennar áður en hún var látin koma til framkvæmdar. Hún hafi verið framkvæmd síðdegis á föstudegi, á síðasta vinnudegi fyrir jól. Jafnframt hafi þess verið getið að hún yrði tilkynnt lánastofnunum, hlutafélagaskrá og öðrum „nauðsynlegum“ stofnunum. Allt þetta hafi að mati stefnanda verið algerlega ástæðulaust og eingöngu gert til að lítillækka hann í augum fjölskyldu hans, samstarfsmanna og annarra sem málið varðaði.
3
Sýknukrafa stefnda byggist á því að honum hafi verið heimilt að lögum að segja stefnanda fyrirvaralaust upp störfum og án bóta vegna grófra brota hans á skyldum gagnvart stefnda. Þess vegna beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Í þessu efni bendi stefndi á eftirfarandi:
Stefnandi og bróðir hans, Friðrik, hafi verið eigendur að RH ráðgjöf ehf. sem hafi sinnt störfum fyrir Þórtak ehf. og Þverás ehf. en þau félög hafi sinnt stórum verkefnum fyrir stefnda. Stefndi leggur áherslu á að FH ráðgjöf ehf. hafi m.a. sinnt störfum fyrir Þverás ehf. og Þórtak ehf. í verkefnum sem þeir aðilar unnu fyrir stefnda. Stefnandi hafi því haft persónulegra hagsmuna að gæta af samningum stefnda við þessa aðila. Þá hafi það ekki samrýmst starfsskyldum stefnanda að starfa á sama tíma hjá FH ráðgjöf ehf. við ráðgjöf á sviði húsbygginga og reksturs fasteigna.
Bróðir stefnanda, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda, hafi látið greiða úr sjóðum stefnda fargjöld og uppihald vegna ferðar hans og stefnanda til Osló í nóvember 2007 og hafi sú ferð ekki verið á vegum stefnda. Með þeirri háttsemi hafi þeir bræður brotið gegn skyldum sínum gagnvart stefnda.
Stefnandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stjórn félagsins með því að semja við bróður sinn og fyrrverandi formann stjórnar stefnda um breytingu á ráðningarkjörum en með samningnum 1. október 2006, sem hafi verið gerður án heimildar stjórnar, hafi kjör stefnanda verið stórbætt.
Vegna stöðu sinnar sem rekstarstjóra stefnda og staðgengils framkvæmdastjóra og vegna tengsla við fyrrverandi framkvæmdastjóra hafi honum verið ljós ýmis alvarleg brot framkvæmdastjórans. Hluti starfsskyldna stefnanda hafi verið að hafa umsjón með bókhaldi stefnda og hann hafi brotið gegn þeim með því m.a. að upplýsa stjórn stefnda ekki um greiðslur úr sjóðum félagsins á nuddi og líkamsrækt fyrir bróður stefnanda, um fyrirframgreiðslu launa til sonar bróður stefnanda, um greiðslur til verktaka löngu fyrir eindaga reiknings, um viðskipti GG Innflutnings ehf. við stefnda og um óreiðu í tengslum við samninga um Einholt og Þverholt og Bjarkavelli þar sem samningsverð hækkuðu frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir og hafi stefnandi mátt gera sér grein fyrir því sem umsjónarmaður bókhalds.
Sýknukrafa stefnda er einnig byggð á því að starfssamningur við hann, dags. 1. október 2006, sé óskuldbindandi fyrir stefnda þar sem formaður stjórnar hafi ekki haft umboð stjórnar til gerðar hans sem hafi verið nauðsynlegt þar sem hann hafi verið mjög óvenjulegur um aukin réttindi stefnanda. Stefnandi hafi verið í vondri trú við gerð hans. Verði ekki fallist á að samningurinn sé óskuldbindandi fyrir stefnda er þess krafist að honum verði vikið til hliðar og stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda sem byggist á honum. Því til stuðnings vísar stefndi til ákvæða laga nr. 7/1936, einkum 33. gr. og 36. gr.
Þá styðst krafa stefnda um sýknu á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna riftunar ráðningarsamningsins.
Verði ekki fallist á sýknukröfu er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega með vísan til fyrrgreindra röksemda, sbr. meginreglu 24. gr. laga nr. 50/1993, reglur vinnu- og skaðabótaréttar og ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 33. gr. og 36. gr.
Stefndi vísar til sömu röksemda og fyrr greinir um sýknukröfu af viðurkenningarkröfu stefnanda.
Stefndi mótmælir fjárhæð dómkröfu 1 og bendir á að mánaðarlaun stefnanda ásamt bifreiðahlunnindum hafi verið 679.148 krónur en ekki 699.128 krónur. Þá er mótmælt kröfu um bifreiðahlunnindi og orlof í uppsagnarfresti. Kröfu vegna tapaðra lífeyrisréttinda í uppsagnarfresti og um 12% framlag til lífeyrissjóðs er mótmælt. Enn fremur kröfu um upphafstíma dráttarvaxta og er þess krafist, verði fallist á kröfur stefnanda að einhverju leyti, að dráttarvextir reiknist frá dómsuppsögudegi.
Sýknukrafa af miskabótakröfu stefnanda byggist á því að ekki sé lagastoð fyrir þeirri kröfu. Uppsögn stefnanda hafi verið réttmæt og stefnandi eigi sjálfur alla sök á ætlaðri vanlíðan sinni. Varakrafa um lækkun miskabótakröfu byggist á því að fjárhæð hennar sé í engu samræmi við ætlað tilefni.
4
Starfslok stefnanda hjá stefnda urðu vegna fyrirvaralausrar uppsagnar,-riftunar ráðningarsamnings-, af hálfu stjórnar stefnda. Hér að framan, í 2. kafla dómsins, er tilgreint orðrétt efni 8. greinar samningsins sem kröfugerð stefnanda er reist á. Fram kom við aðalmeðferð málsins að tildrög samningsgerðarinnar 1. október 2006, sem fól í sér endurskoðun og endurnýjun ráðningarsamnings stefnanda, hafi verið að framkvæmdastjóri stefnda gerði að ósk stefnanda tillögu að starfssamningnum til þáverandi formanns stjórnar stefnda, Benedikts Magnússonar, sem gekk frá endanlegri gerð hans og undirritaði hann ásamt stefnanda. Benedikt bar að framkvæmdastjórinn hafi haft vald til samningsgerða við starfsfólk en vegna tengsla hans við stefnanda hafi hann gert þennan samning. Hann kvað samninginn hafa verið í samræmi við tiltölulega nýgerðan samning við framkvæmdastjórann sem stjórnin hafi samþykkt.
Ekki er sýnt fram á að samningurinn bindi ekki stefnda þar sem formaður stjórnar hafi ekki haft umboð stjórnar til gerðar hans og hann sé því óskuldbindandi fyrir stefnda. Enda þótt umrætt samningsákvæði sé stefnanda hagstætt er ekki fallist á að sýnt sé fram á nein þau atvik sem eigi að leiða til þess að víkja beri því til hliðar með vísan til ákvæða laga nr. 7/1936, einkum 33. gr. og 36. gr. Verður því eigi fallist á sýknukröfu stefnda sem reist er á framangreindu. Með sömu rökum er ekki fallist á varakröfu stefnda um lækkun með vísun til „meginreglu 24. gr. laga nr. 50/1993, til reglna vinnu- og skaðabótaréttar og til ákvæða III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 33. gr. og 36. gr. laganna.“
Framangreint samningsákvæði veitir stefnanda skýlausan rétt vegna starfsloka. Án nokkurs fyrirvara að því er tekur til ástæðna þess að til uppsagnar komi af hálfu stjórnar stefnda eða greiðslna frá öðrum aðilum skal stefnandi halda fullum launum og hlunnindum í 12 mánuði eftir starfslok. Samkvæmt þessu er ekki efni til þess að í dóminum verði tekin afstaða til þeirra ávirðinga sem stefnandi er borinn af hálfu stefnda og ekki verður fallist á sýknukröfu stefnda sem byggist á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna riftunar ráðningarsamningsins.
Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að fallast beri að meginefni á 1. kröfu stefnanda, að því athuguðu sem hér verður greint, og verður þá tekin afstaða til einstakra liða kröfugerðarinnar og þar með varakröfu stefnda um lækkun af öðrum ástæðum en þeim sem þegar hefur verið tekin afstaða til. Framlagðir launaseðlar bera með sér að stefnandi fékk eftirágreidd laun fyrir hvern mánuð. Hann hefur fengi greidd laun fyrir janúar og febrúar 2008 en á rétt til launa og hlunninda út árið. Gjalddagi vegna marsmánaðar ákveðst 1. apríl 2008 í stað 1. mars eins og kröfugerð stefnanda byggist á og gjalddagi vegna aprílmánaðar ákveðst 1. maí 2008. Krafa um mánaðarlaun að upphæð 699.128 krónur er réttilega reiknuð sem meðaltal þeirra mánaðarlauna sem stefnandi fékk fyrir mánuðina janúar og febrúar 2008 og krafa um greiðslu fastrar yfirvinnu, að upphæð 161.348 krónur, er í samræmi við greiðslu til hans fyrir febrúar 2008. Einnig fékk hann greitt 12,07% orlof framangreinda mánuði og ber samkvæmt 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987 að fallast á þennan lið kröfunnar, 103.348 krónur. Stefnandi krefst 115.720 króna á mánuði vegna 6% mótframlags til lífeyrissjóðs og 6% mótframlags til séreignarlífeyrissjóðs, í báðum tilvikum af samanlagðri fjárhæð launa og orlofslauna. Á launaseðlum sést að mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð stefnanda nam 8% og mótframlag hans til séreignarlífeyrissjóðs stefnanda nam 2% af framangreindum stofni. Ekki verður dæmt umfram umkrafinna 6% til lífeyrissjóðs og ákveðst þessi liður því 8% af 964.335 (860.476+103.859) krónum eða 77.147 krónur. Samtals nema þessir liðir 1.041.482 krónum.
Samkvæmt þessu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 2.082.964 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.041.482 krónum frá 1. apríl 2008 til 1. maí s.á. og af 2.082.964 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Hin sömu rök og hér að framan voru tilgreind fyrir greiðsluskyldu stefnda leiða til þeirrar niðurstöðu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að fallast beri á 2. dómkröfu stefnanda sem felur í sér að stefnandi haldi áfram þeim launum og hlunnindum fyrir mánuðina maí desember 2008 (a.b.m.) sem hann hafði notið af hálfu stefnda það ár fyrir mánuðina janúar og febrúar og nýtur fyrir mánuðina mars og apríl samkvæmt niðurstöðu dómsins um 1. dómkröfu stefnanda. Þetta gildir jafnt um orlof og bifreiðahlunnindi sem aðra liði en um bifreiðahlunnindin skal tekið fram að stefnandi var sviptur umráðum bifreiðar í apríl 2008 og samkvæmt launaseðlum voru þau hlunnindi metin til 112.450 króna á mánuði.
Ekki er fallist á að fyrir hendi séu skilyrði til að dæma stefnanda miskabætur úr hendi stefnda, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna þess hvernig staðið var að uppsögn hans af hálfu stefnda. Samkvæmt því ber að sýkna stefnda af 3. dómkröfu stefnanda.
Dæma ber stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem er ákveðinn 500.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Byggingafélag námsmanna ses., greiði stefnanda, Sigurði Guðmundssyni, 2.082.964 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.041.482 krónum frá 1. apríl 2008 til 1. maí s.á. og af 2.082.964 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Viðurkennd er skylda stefnda til að greiða stefnanda laun, orlofslaun og bifreiðahlunnindi, svo og bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, allt samkvæmt ráðningarsamningi hans við stefnda, frá 1. maí 2008 til 31. desember 2008 að viðbættum dráttarvöxtum frá gjalddaga hverrar greiðslu til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.