Hæstiréttur íslands

Mál nr. 456/2004

Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)
gegn
X (Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð

Reifun

X var dæmdur í sex mánaða fangelsi vegna brots á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en með hliðsjón af persónulegum högum hans og atvikum öllum þótti rétt að skilorðsbinda refsinguna að fullu.

Fimmtudaginn 14

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess að refsing sú, sem honum var gerð í héraðsdómi, verði milduð og hún öll skilorðsbundin.

Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann dæmdur til greiðslu sektar á árinu 2000 fyrir brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en það brot var framið áður en ákærði náði 18 ára aldri og hefur því ekki ítrekunaráhrif sbr. 1. mgr. 71. gr. þeirra laga. Þá gekkst ákærði á árinu 2001 undir dómsátt fyrir umferðarlagabrot.

Máli þessu er einvörðungu áfrýjað um ákvörðun viðurlaga, en eins og sönnunarfærslu var háttað við aðalmeðferð málsins í héraði ber að leggja til grundvallar framburð ákærða um málsatvik. Verður því við það miðað að brotaþoli hafi ýtt við ákærða áður en ákærði veitti honum það högg sem í ákæru greinir. Á það er fallist með héraðsdómi að ákærði hafi ekki haft neitt tilefni til að ráðast á brotaþola og að árásin hafi verið hrottafengin, en tilviljun ein ráðið því að brotaþoli varð ekki fyrir alvarlegra líkamstjóni en raun ber vitni. Einnig er fallist á þau sjónarmið sem rakin eru í héraðsdómi ákærða til hagsbóta við ákvörðun refsingar. Að auki er komið fram að ákærði, sem er 23 ára gamall, hefur nýlega stofnað heimili, lokið námi í iðn sinni og hyggur á frekara nám. Þegar litið er til þessa þykir rétt að staðfesta refsiákvörðun héraðsdóms, þó þannig að fresta skal fullnustu refsingarinnar að öllu leyti og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð.

Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.

Eftir þessum úrslitum skal ákærði greiða 2/3 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði 2/3 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins sem að öðru leyti greiðist úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, eru ákveðin 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. september sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 29. júlí 2004, á hendur ákærða, X, [kt.], [...], Hafnarfirði, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 8. febrúar 2004 á skemmtistaðnum Stapa, Hjallavegi 2, Njarðvík, slegið A í höfuðið með glerglasi sem við það brotnaði, með þeim afleiðingum að hann hlaut djúpt skurðsár aftan- og neðantil við höku hægra megin og um 1 cm framanvert frá hálsslagæð auk margra minni sára í andlit.

Í ákæru er þessi ætlaða háttsemi ákærða talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmddur til refsingar.

Í málinu krafðist A bóta úr hendi ákærða að fjárhæð krónur 626.382 auk vaxta. Bótakrafan var afturkölluð eftir að ákærði greiddi A samtals um 480.000 krónur í bætur samkvæmt samkomulagi. Þar af námu umsasmdar miskabætur 300.000 krónum.

Ákærði krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að tildæmd refsing verði að öllu leyti skilorðsbundin. Verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna.

I.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Keflavík barst henni tilkynning um kl. 03:23 aðfaranótt sunnudagsins 8. febúar 2004 um að maður væri skorinn eftir að hafa verið sleginn með glasi inni á skemmtistaðnum Stapa í Njarðvík. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var þeim skýrt frá því að X, ákærði í máli þessu, hefði slegið A í höfuðið með bjórglasi. Komu lögreglumenn að A þar sem hann lá á gangi skammt frá anddyri og blæddi mikið úr honum. Skömmu síðar var hann fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.

Samkvæmt vottorði Jacek Kantorsky læknis, dagsettu 26. febrúar 2004, kom A á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja umrædda nótt. Í vottorðinu kemur m. a. fram að við skoðun hafi sést töluvert blóð í andliti hægra megin og í hársverði. Mörg skurðsár hafi verið í andliti. Í áliti læknisins segir: “[A] fékk mjög alvarlegan áverka í andlit. Eitt skurðsár sem var djúpt aftan- og neðantil við hökuna hæ megin og um 1 cm framanvert frá stóru mikilvægu halsslagæð. Auk þess fékk hann mörg minni sár sem með tilliti til staðsetningar í andliti gætu haft varanleg áhrif á útlit sjúklings. Það var einnig mikið andlegt áfall fyrir [A] að sjá svo mikið sár í andlitinu. Þremur dögum eftir áverkann kom [A] aftur í eftirlit til mín og var hann þá ennþá með höfuðverk hæ. megin í höfði. Hann átti að fara í eftirlit hjá sínum heimilislækni og síðan til lýtalæknis eftir þörfum. Að öðru leyti var [A] almennt hraustur og stundar körfubolta. Horfur í sambandi við að sárin grói vel eru mjög góðar.”

A var skoðaður af Rafni A. Ragnarssyni lýtaækni þann 9. mars sl. Í vottorði læknisins segir m. a.: “Við skoðun er sjúklingur með allmörg ör í gróanda. Þetta eru allt saman áberandi ör án sýkinga. Í þeim er veruleg herslismyndun og við nánari skoðun er erfitt að útiloka hvort undir geti leynst glerbrot en það kemur í ljós þegar lengra líður frá. Tvö sáranna hægra megin eru á neðra kjálkabarði sem samkvæmt lýsingu læknis í Keflavík hafa verið mjög djúp og eins og orðað er ná inn í vöðvalag. Þetta skýrir væntanlega þá staðreynd að sjúklingur hefur orðið fyrir taugaskemmd með þeim afleiðingum að munnvik hægra megin er lamað að einhverju leyti.”

Lögreglan handtók ákærða á vettvangi og var hann blóðugur á báðum höndum með nokkra djúpa skurði. Hann játaði verknað sinn.

II.

Vitnið A skýrði svo frá hjá lögreglu að umrædda nótt hefði ákærði verið með stæla gagnvart sér og verið til leiðinda. Hann hefði ýtt við ákærða og spurt hvort hann væri ekki til í að hætta þessum stælum. Þá hefði ákærði slegið hann fyrirvaralaust á hægri kinn með bjórglasi sem brotnaði framan í hann. Hann minntist þess að hafa farið í ákærða eftir þetta en mundi ekki hvað nánar gekk á eftir það. Hann hefði fljótlega misst meðvitund eftir þetta.

Vitnið B var dyravörður í Stapanum umrætt kvöld. Hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Hann kvaðst umrædda nótt hafa gengið fram á A á tali við annan mannog svo framhjá ákærða þar sem hann stóð við dyrnar að aðalsalnum. Vitnið kvaðst hafa gengið upp stiga, en litið um öxl og hefði hann þá séð ákærða vera kominn upp að A með bjórglas í vinstri hendi og sveifla höndinni upp á við og slá glasinu hægra megin í andlitið á A. Hann hafi séð að blóð spýttist úr andliti A. Hann hefði þá hringt í neyðarlínuna og síðan hlaupið til aðstoðar og skilið A og ákærða í sundu, en A hrfði verið búinn að taka ákærða taki á hnakka. Vitnið kvað A síðan hafa fallið í yfirlið og hefði mikið blætt úr honum.

Vitnið C gaf skýrslu hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa heyrt ákærða og A rífast og A segja við ákærða að hann væri búinn að fá nóg af þessu og beðið hann um að láta sig í friði. Í sömu andrá hefði A ýtt ákærða nokkuð rösklega frá sér. Þá hefði ákærði ætlað að koma til baka til A en D gengið á milli þeirra til að hindra ákærða í að fara í A. Þá hefði ákærði svona teygt sig yfir D og slegið A í andlitið með glasi sem hann hélt á í vinstri hendi. Glasið hefði brotnað í andlitinu á A. A hefði reynt að kýla ákærða til baka en vitnið kvaðst ekki vita hvort það hafi tekist. A hefði síðan dottið niður og blóð spýst úr sárum hans.

Vitnið D gaf skýrslu hjá lögreglu. Hann kvað A hafa sagt sér að ákærði hefði verið að angra hann allt kvöldið. Í þeim orðum hefði A snúið sér að ákærða og spurt hvort hann gæti ekki látið hann í friði og um leið ýtt honum frá sér. Í því hefði hann stigið á milli ákærða og A og ætlað að fá ákærða til að hætta þessu rugli. A hefði reynt að komast að ákærða og hefði vitnið þá forðað sér frá, gengið að barnum og lagt hendur á barborðið og ætlað að fylgjast með framvindu mála.. Hann hefði þá séð að hægri hönd hans var alblóðug. Hann hefði farið á salerni til að athuga þetta og hefði þá komið í ljós að hann var ekki með sár á hendi. Er hann hefði komið af salerninu hefði hann séð A liggjandi á gólfinu meðvitundarlausan að sjá og allt í blóði.

Vitnið E kvaðst hafa staðið við hliðina á A að ræða við vitnin C og D. Ákærði hafi komið þar að og eitthvað verið að abbast upp á A. Honum hafi sýnst A vilja losna við ákærða þar sem hann hefði séð hann ýta við ákærða eins og hann vildi reka hann í burtu. Þá hefði hann allt í einu séð ákærða slá A með vinstri hendi og hefði höggið komið á andlit hans. Hann kvaðst hafa fengið glerbrot yfir sig við þetta högg og þá áttað sig á því að ákærði hefði slegið A með glasi eða flösku er hann hélt á. Eftir höggið hefði strax komið mikið blóð úr andliti A.

Vitnið F var dyravörður í Stapanum umrætt sinn. Hann greindi svo frá hjá lögreglu að hann hefði séð er A ýtti manni er reyndist vera ákærði frá sér og hefði hann síðan séð ákærða kýla A í andlitið en ákærði hefði haldið á glasi eða glerflösku sem hefði brotnað framan í A. Hann kvaðst hafa rokið að þeim ásamt öðrum dyraverði farið í bakið á ákærða og séð að A hélt í hárið á honum. Þeim hefði tekist að losa ákærða frá A og hefðu þeir þá farið fram með ákærða.

Vitnið G skýrði svo frá hjá lögreglu að hann hefði séð ákærða koma aftan að A og hnippa eitthvað í hann. A hefði snúið sér við og sagt eitthvað á þá leið að ákærði ætti að hætta með þessa stæla og ýtt honum frá sér. Ákærði hefði verið með glas í vinstri hendi og litið niður, en allt í einu hefði hann slegið A með vinstri hendi með ofboðslegu afli þannig að glasið brotnaði í litla mola á andliti A og dreifðist út um allt. Eftir þetta hefði A tekið í hárið á ákærða en dyraverðir komið strax að og hefði A þá sagt að ákærði hefði slegið sig með glasi í andlitið og að hann ætlaði að halda ákærða þar til lögreglan kæmi. Vitnið kvað A ekkert hafa gert á hlut ákærða aðeins haldið honum. síðan hefði A fallið í gólfið og hefði hann þá séð að hann var alblóðugur í framan.

Vitnið H vann við dyravörslu í Stapanum umrætt sinn. Hann skýrði svo frá hjá lögreglu að hann hefði ekki séð upptökin að því sem gerðist en heyrt brothljóð og séð glerbrotum rigna yfir fólkið sem var við barinn. Hann hefði hlaupið að þessu og séð stóran strák, sem reyndist vera A, sem var slasaður og skorinn í andliti halda í hárið á öðrum minni, sem reyndist vera ákærði, sem var bersýnilega sá sem hafði gert þetta. A hefði sagt að hann hefði verið sleginn með glasi í andlitið af ákærða. Hann hefði síðan ásamt öðrum náð að losa um tök A á ákærða en síðan hefði A dottið niður og misst meðvitund og blóð sprautast úr honum.

Vitnið I skýrði svo frá hjá lögreglu að hann hefði umrædda nótt séð A ýta ákærða frá sér eins og honum líkaði ekki hvað ákærði væri að gera eða segja. Þá hefði ákærði lamið A í höfuðið með glasi sem hefði brotna andliti A.

III.

Við þingfestingu málsins játaði ákærði skýlaust að hafa slegið A í höfuðið með glerglasi sem við það brotnaði, með þeim afleiðingum að hann hlaut djúpt skurðsár aftan- og neðantil við höku hægra megin og um 1 cm framanvert frá hálsslagæð auk margra minni sára í andlit.

Í skýrslu er ákærði gaf við aðalmeðferð málsins kvaðst hann hafa fundið til skyndilegrar hræðslu er A stjakaði við honum og hefði hann þá slegið til hans með bjórglasinu. Aðra skýringu gat ákærði ekki gefið á háttsemi sinni. Ákærði kvaðst strax hafa iðrast gjörða sinna og hefði hann leitað sér aðstoðar til þess að vinna úr þessu, m. a. rætt við prest. Ákærði kvaðst strax hafa talið sér rétt og skylt að greiða A bætur og það hefði hann þegar gert með 480.000 krónum. Ákærði kvaðst hafa numið pípulagnir og útskrifast sem slíkur um síðustu jól. Hann kvaðst hann ljúka iðnsamningi sínum í marsmánuði nk. Hann kvaðst nýlega hafa fest kaup á íbúð og bifreið og þá hefði hann nýlega stofnað eigið heimili með unnustu sinni.

III.

Með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi, sem samrýmist öðrum gögnum svo sem framburði vitna hjá lögreglu, sem ekki hafa verið bornar brigður á, telst sannað að ákærði hafi aðfaranótt sunnudagsins 8. febrúar 2004 á skemmtistaðnum Stapa, Hjallavegi 2, Njarðvík, slegið A í höfuðið með glerglasi eins og í ákæru greinir.

Með vottorðum læknanna Jacek Kantorsky og Rafns A. Ragnarssonar og framlögðum ljósmyndum, sem allt samrýmist framburði vitna hjá lögreglu, telst og sannað að árás ákærða hafi valdið þeim skaða og haft þær afleiðingar er í ákæru greinir. Telst ákærði því hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Ákærði var þann 16. ebrúar 2000 dæmdur í 60.000 króna sekt fyrir brot gegn

106. gr. almennra hegningarlaga og þann 15. febrúar 2000 gekkst hann undir lögreglustjórasátt vegna ölvunaraksturs.

Ákærði hafði ekkert tilefni til að ráðast  á A. Árásin var einkar hrottafengin og réð tilviljun ein að hún olli A ekki alvarlegra líkamstjóni en raun bar vitni.

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Í ljósi þess hversu stórhættuleg árás ákærða var skortir skilyrði til að skilorðsbinda megi alla refsingu ákærða. Á hinn bóginn þykir, í ljósi sakarferils ákærða, iðrunar hans, skýlausrar og undanbragðalausrar játningar og eindregins vilja hans til að bæta tjón árásarþola, sem ákærði hefur þegar gert, rétt að skilorðsbinda þrjá mánuði af tildæmdri refsingu ákærða eins og nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað,þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.

Finnbogi Hólmsteinn Alexandersson héraðsdómari kvað dóm þennan upp.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði. Fresta skal fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.