Hæstiréttur íslands

Mál nr. 274/2004


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Tilraun
  • Fíkniefnalagabrot
  • Hegningarauki
  • Skilorðsrof
  • Samverknaður
  • Skilorð


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. desember 2004.

Nr. 274/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Sigurði Inga Jónassyni og

Þorfinni Hilmarssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Þjófnaður. Tilraun til þjófnaðar. Fíkniefnalagabrot. Hegningarauki. Skilorðsrof. Samverknaður. Skilorð.

 

S var sakfelldur fyrir sex þjófnaði, tvær tilraunir til þjófnaðar og tvö fíkniefnalagabrot. Rauf S skilorð eldri dóma. Var refsing S ákveðin sem hegningarauki við fimm mánaða refsingu samkvæmt eldri héraðsdómi. Við ákvörðun refsingarinnar var tekið tillit til ungs aldurs S og þess að hann átti sjálfur frumkvæði að því að upplýsa eitt brotanna og játaði önnur brot sín greiðlega. Hins vegar var litið til þess að fimm brotanna voru framin í félagi við aðra og þess að þjófnaðarbrotin vörðuðu veruleg verðmæti. Var S ákveðin refsing í einu lagi fangelsi í 12 mánuði. Í sama máli var Þ sakfelldur fyrir tvo þjófnaði og eina tilraun til þjófnaðar. Rauf Þ skilorð eldri dóms. Var refsing Þ ákveðin sem hegningarauki við fjögurra mánaða refsingu samkvæmt eldri héraðsdómi. Við ákvörðun refsingarinnar var tekið tillit til ungs aldurs Þ og þess að hann játaði brot sín greiðlega. Hins vegar var litið til þess að brotin voru framin í félagi við aðra og vörðuðu veruleg verðmæti. Var refsing Þ ákveðin í einu lagi 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu ákærðu, en staðfestingar á ákvæðum héraðsdóms um upptöku fíkniefna og greiðslu ákærða Sigurðar á skaðabótum til Tryggingamiðstöðvarinnar hf. að höfuðstól 335.660 krónur.

Ákærði Sigurður Ingi Jónasson krefst þess að refsing hans verði milduð og skilorðsbundin. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. verði vísað frá dómi.

Ákærði Þorfinnur Hilmarsson krefst þess að refsing hans verði skilorðsbundin.

 

 

I.

Ákærði Sigurður Ingi Jónasson á, þrátt fyrir ungan aldur, að baki nokkurn sakaferil. Hann var 26. júní 2002 fundinn sekur um þjófnaði, eignaspjöll, nytjastuld og umferðarlagabrot, sem framin voru frá 17. september 2001 til 17. febrúar 2002. Var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 90 daga, skilorðsbundið í þrjú ár. Þann 21. ágúst 2002 var hann sakfelldur fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot 25. maí 2002 og dæmdur í fangelsi í 90 daga, skilorðsbundið í þrjú ár. Ekki verður af þessum dómi ráðið að dómara hafi verið kunnugt um dóminn 26. júní sama árs, en refsingu hefði með réttu átt að ákveða sem hegningarauka við refsingu samkvæmt þeim dómi. Með dómi 3. febrúar 2003 var Sigurður fundinn sekur um þjófnað, en ekki gerð frekari refsing. Þann 29. október 2003 hlaut hann dóm fyrir tvo þjófnaði, vopnalagabrot og fíkniefnalagabrot, sem framin voru á tímabilinu 22. desember 2002 til 4. apríl 2003. Var hann talinn hafa rofið skilorð dómsins frá 21. ágúst 2002 og dæmd refsing í einu lagi, fangelsi í 105 daga, skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var Sigurður með dómi 28. nóvember 2003 fundinn sekur um þjófnað, umferðarlagabrot og brot á 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þann 21. júní 2003. Var hann talinn hafa rofið skilorð dómsins frá 21. ágúst 2002. Var refsing samkvæmt þeim dómi tekin upp og honum gerð refsing í einu lagi, fangelsi í fimm mánuði, skilorðsbundin í þrjú ár. Virðist sem héraðsdómara hafi ekki verið kunnugt um framangreindan dóm 29. október sama árs, en sem fyrr segir hafði dómurinn 21. ágúst 2002 verið dæmdur upp með þeim dómi. Með réttu hefði átt að ákveða refsingu í þessu máli sem hegningarauka við refsingu samkvæmt dóminum 29. október 2003. Að auki hefur Sigurður gengist undir tvær sáttir og hlotið einn dóm fyrir umferðarlagabrot, sem ekki skiptir máli fyrir úrlausn þessa máls.

Í þessu máli er ákærði Sigurður fundinn sekur um sex þjófnaði, tvær tilraunir til þjófnaðar og tvö fíkniefnalagabrot framin á tímabilinu 24. september 2003 til 29. nóvember sama árs. Þjófnaðir 24. september 2003 og 8. nóvember sama árs, tilraun til þjófnaðar 9. nóvember 2003 og fíkniefnalagabrot sama dag voru framin áður en dómurinn 29. október 2003 var birtur ákærða. Með þessum brotum hefur hann rofið skilorð dómsins 21. ágúst 2002. Önnur brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir voru framin eftir birtingu dómsins 29. október 2003 og hefur Sigurður því með þeim rofið skilorð hans. Með síðasta brotinu, þjófnaði 29. nóvember 2003, rauf hann þó skilorð dómsins 28. nóvember 2003, en hann var viðstaddur uppsögu þess dóms. Verður refsing ákærða fyrir öll brotin, að því síðastnefnda undanskildu, ákveðin sem hegningarauki við refsingu samkvæmt þeim dómi. Verður refsing ákærða tiltekin eftir ákvæðum 60. gr., sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Verður refsing samkvæmt dóminum 29. október 2003 tekin upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi eftir ákvæðum 77. gr. þeirra laga. Við ákvörðun refsingar verður tekið tillit til ungs aldurs ákærða og þess að hann hafði sjálfur frumkvæði að því að upplýsa brotið 24. september 2003 og játaði önnur brot sín greiðlega. Hins vegar verður til þess að líta að fimm brotanna voru framin í félagi við aðra, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og þess að þjófnaðarbrotin vörðuðu veruleg verðmæti. Þegar allt framangreint er virt telst refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Ákærði hefur samkvæmt framansögðu á síðastliðnum tveimur og hálfu ári fjórum sinnum fengið skilorðsbundna dóma en rofið skilorð þeirra allra. Þykir í ljósi þess ekki fært að skilorðsbinda refsingu hans.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna verður staðfest

Fallast verður á það með ákærða að bótakrafa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. sé vanreifuð, enda verður ráðið af gögnum málsins að verulegum hluta þýfisins úr innbrotinu 24. september 2003 hafi verið skilað samdægurs. Verður þessari kröfu því vísað frá héraðsdómi.

II.

Ákærði Þorfinnur Hilmarsson var með dómi 19. júní 2002 fundinn sekur um húsbrot og nytjastuld og gerð 25.000 króna sekt. Með dómi 4. apríl 2003 var hann sakfelldur fyrir fimm þjófnaði og umferðarlagabrot á tímabilinu frá 20. mars 2002 til 2. desember sama árs. Var hann dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðbundið í tvö ár. Þann 19. desember 2003 var hann fundinn sekur um þjófnað 25. febrúar 2003 og tilraun til þjófnaðar 16. júlí sama árs. Jafnframt því að um hegningarauka var að ræða rauf hann skilorð dómsins 4. apríl 2003, sem var dæmdur upp og refsing ákærða ákveðin í einu lagi, fangelsi í fjóra mánuði, skilorðbundið í þrjú ár.

Í þessu máli er Þorfinnur fundinn sekur um þjófnað 8. nóvember 2003, tilraun til þjófnaðar 25. nóvember sama mánaðar og þjófnað 27. sama mánaðar. Brotin eru framin fyrir uppsögu dómsins 19. desember 2003 og verður við ákvörðun refsingar höfð hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga. Með brotum þessum hefur ákærði jafnframt rofið skilorð dómsins 4. apríl 2003. Verður ákærða því ákveðin refsing í einu lagi fyrir þau brot sem hann var þá sakfelldur fyrir og þau brot sem hér eru til meðferðar, sbr. 60 og 77. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður litið til ungs aldurs ákærða og þess að hann játaði brot sín greiðlega. Á hinn bóginn verður að líta til þess að brotin vörðuðu veruleg verðmæti og voru framin í félagi við aðra, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þegar allt framangreint er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Þegar litið er til þess hvernig högum ákærða er nú háttað og ungs aldurs hans þykir mega skilorðbinda refsingu hans og skal hún falla niður að þremur árum liðnum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með síðari breytingum.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Ingi Jónasson, skal sæta fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði, Þorfinnur Hilmarsson, skal sæta fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar hans og fellur hún niður að þremur árum liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna er staðfest.

Bótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. að höfuðstól 335.660 krónur er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er upphaflega höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 27. janúar sl. á hendur Sigurði Inga Jónassyni, [kt.], Stararima 63, Reykjavík, X, [kt. og heimilisfang] og Y, [kt. og heimilisfang.], fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2003:

I.

Ákærða Sigurði Inga:

1.

Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 24. september, brotist inn í söluturninn Videoheima við Gylfaflöt 3, með því að brjóta rúðu og stolið Playstation tölvuleikjum, DVD myndum, römmum og tóbaki, samtals að verðmæti um kr. 350.000.

2.

Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa sunnudaginn 9. nóvember í auðgunarskyni brotist inn í skrifstofuhúsnæði BM Vallá, Bíldshöfða 7, með því að brjóta rúðu en komið var að ákærða á vettvangi.

3.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa á sama tíma, haft í vörslum sínum 0,43 g af tóbaksblönduðu kannabisefni og 1,10 g af amfetamíni.

4.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 27. nóvember, að [...] haft í vörslum sínum 0,26 af amfetamíni.

Eru brot skv. liðum 1 og 2 talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga hvað viðkemur lið 2, og brot skv. liðum 3 og 4 varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 65/1974 og lög nr. 68/2001, að því er varðar brotið í lið 3.

II

Ákærða X fyrir hlutdeild í tilraun til þjófnaðar skv. ákærulið I/2 með því að hafa sunnudaginn 9. nóvember veitt meðákærða aðstoð við brotið með því að veita honum upplýsingar um aðstæður og verðmæti í skrifstofuhúsnæði BM Vallá og fara með honum á vettvang.

Er þetta talið varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr., almennra hegningarlaga.

III

Ákærðu Y og Sigurði Inga fyrir þjófnað með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 27. nóvember, á bifreiðastæði bílaumboðs Ingvars Helgasonar hf., Sævarhöfða 2, stolið dekkjum ásamt felgum undan bifreiðinni [...], samtals að verðmæti um kr. 40.000.

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að upptæk verði gerð framangreind fíkniefni, sem lagt var hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Eftirgreindir aðilar gera kröfu á hendur ákærða Sigurði Inga um skaðabætur:

1.

Tryggingamiðstöðin hf., [kt.], að fjárhæð kr. 335.660 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er dómsmál er höfðað, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

2.

Kór ehf., [kt.], að fjárhæð kr. 34.908.

Hinn 17. mars sl. var sakamálið nr. 340/2004 sameinað þessu máli, en þar er ákærðu Y, Sigurði Inga Jónassyni og Þorfinni Hilmarssyni, [kt.], Kirkjusandi 3, Reykjavík gefið að sök, með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 24. febrúar sl., eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2003:

I

Ákærðu öllum fyrir þjófnað með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 27. nóvember í félagi, brotist inn í Verzlunarskóla Íslands við Ofanleiti 1 með því að spenna upp glugga og stolið 3 ASK-C50 skjávörpum, samtals að verðmæti kr. 615.000.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II

Ákærðu Sigurði Inga og Þorfinni:

1.

Þjófnað með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 25. nóvember í félagi, brotist inn í Verzlunarskóla Íslands með því að spenna upp glugga og stolið 2  ASK-C2 skjávörpum, samtals að verðmæti kr. 410.000.

2.

Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa í ofangreint sinn í Verzlunarskóla Íslands reynt að stela ASK-C2 skjávarpa en ekki tókst að losa hann úr festingum.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr., hvað viðkemur lið II/2.

III

Ákærða Sigurði Inga fyrir þjófnað með því að hafa laugardaginn 29. nóvember 2003, brotist inn í nýbyggingu við [...] með því að brjóta rúðu og stolið verkfærum samtals að verðmæti kr. 38.000.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Í málinu gera eftirgreindir aðilar kröfu um að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta:

1.

Verzlunarskóli Íslands, kt. 690269-1399, á hendur ákærðu Sigurði Inga og Þorfinni, að fjárhæð kr. 50.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi sem var 25. nóvember 2003 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

2.

Sjóvá Almennar, kt. 701288-1739, á hendur ákærðu Sigurði Inga og Þorfinni, að fjárhæð kr. 292.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. vaxtalaga til greiðsludags.

3.

Verzlunarskóli Íslands, kt. 690269-1399, á hendur ákærðu öllum, að fjárhæð kr. 60.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

4.

Sjóvá Almennar, kt. 701288-1739, á hendur ákærðu öllum, að fjárhæð kr. 87.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. vaxtalaga til greiðsludags.

Hinn 17. mars sl. var sakamálið nr. 534/2004 einnig sameinað þessu máli, en þar er ákærðu Sigurði Inga Jónassyni og Þorfinni Hilmarssyni gefinn að sök, með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 15. mars sl., þjófnaður með því að hafa, laugardaginn 8. nóvember 2003, í félagi brotist inn í geymnslu veitingastaðarins Ruby Tuesday, Skipholti 19 í Reykjavík, með því að spenna upp hurð og stolið bjór- og léttvínsflöskum, samtals að verðmæti kr. 320.000.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Verjandi ákærðu X, Sigurðar Inga og Þorfinns krefst þess að ákærði X verði sýknaður af sínum þætti í málinu, ekki gerð sérstök refsing eða gerð vægasta refsing er lög leyfa að öðrum kosti. Að því er ákærðu Sigurð Inga og Þorfinn varðar gerir verjandi kröfu um, að ákærðu verði dæmdir í vægustu refsingu er lög leyfa. Þá krefst verjandinn málsvarnarþóknunar.

Af hálfu ákærða  Y er krafist vægustu refsingar er lög leyfa.

Ákæruvald hefur leiðrétt dagsetningu skv. III. lið ákæru frá 24. febrúar 2004, með því að háttsemin hafi átt sér stað laugardaginn 29. nóvember 2003. Með vísan til þess að ákærði Sigurður Ingi hefur játað sök samkvæmt þessum ákærulið og jafnframt með vísan til 117. gr. laga nr. 19/1991, er ákæruvaldi heimilt að leiðrétta ákæru að þessu leyti. Þá hefur komið fram undir meðferð málsins af hálfu verjanda ákærðu, að verðmæti þýfis skv. ákæru 15. mars 2004 sé ranglega tilgreint. Í þeirri fjárhæð er þar komi fram sé einnig tjón vegna skemmda á húsnæði. Hefur ákæruvald fallist á þessa skýringu. Loks hefur ákæruvald fært heimvísun til refsiákvæða skv. II. kafla ákæru 27. janúar 2004 til 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940, en í upphafi var heimfærsla skv. þeim lið til 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr.

Ákærðu Sigurður Ingi, Y og Þorfinnur hafa allir játað brot sín. Farið var með þátt þeirra samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda, ákærða Y og verjanda ákærðu Sigurðar Inga og Þorfinns hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.  Sannað er með játningu þeirra og öðrum gögnum málsins, að ákærðu eru sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og eru brot þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði X hefur viðurkennt að hafa gert meðákærða Sigurði Inga grein fyrir því, að skjávarpa væri að finna í skrifstofuhúsnæði BM Vallá og að hafa farið með meðákærða á vettvang innbrotsins, án þess þó að hafa sjálfur farið inn í húsnæðið. Verjandi ákærða byggir á því að slík háttsemi fullnægi ekki skilyrðum til að varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940. Hefur ákæruvald og verjandi lýst því yfir, að með þátt ákærða X sé unnt að fara samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991, þar sem um lagaatriði sé að ræða. Verður við það miðað. Ákærði X er í þessum lið ákærður fyrir hlutdeild í tilraun með ákærða Sigurði Inga til brots gegn 244. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði X hefur viðurkennt að hafa vísað ákærða Sigurði Inga á brotastað. Slík háttsemi fellur undir að vera verkleg hlutdeild, sem unnin er í nánun tengslum við brotið. Þó svo brot meðákærða hafi ekki fullframist, er unnt að sakfella ákærða X fyrir hlutdeild í tilraun. Með þessu er ákærði X sekur um þá háttsemi er honum er gefin að sök í ákæru.

Ákærði, Sigurður Ingi, er fæddur í október 1985. Hér á eftir verður gerð grein fyrir öðrum dómum ákærða en vegna brota á umferðarlögum. Ákærði var í júní 2002 í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í 90 daga fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára fyrir brot gegn 244. gr., 1. mgr. 257. gr., 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga og brot gegn umferðarlögum. Þá var hann 21. ágúst sama ár aftur dæmdur í 90 daga fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr. laga nr. 19/1940, auk brota gegn umferðarlögum. Með dómi héraðsdóms í febrúar 2003 var ákærða ekki gerð sérstök refsing vegna brota gegn 244. gr. laga nr. 19/1940, en um hegningarauka var að ræða. Með dómi héraðsdóms 29. október 2003 var ákærði dæmdur til 105 daga fangelsisvistar skilorðsbundið til þriggja ára fyrir brot gegn 244. gr. laga nr. 19/1940, auk brota á fíkniefnalögum. Var skilorðsbundinn hluti refsidómsins frá 21. ágúst 2002 þá dæmdur með. Þá var ákærði í sama dómi 28. nóvember sama ár dæmdur í 5 mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára fyrir brot gegn 244. gr. og 1. mgr. 257. gr. laga nr. 19/1940, auk þess sem um var að ræða  brot gegn umferðarlögum. Svo virðist sem í dómi 28. nóvember 2003 hafi ekki verið tekið tillit til refsidómsins frá 29. október 2003, en endurrit dómsins ber með sér að skilorðsbundinn hluti refsidómsins frá 21. ágúst 2002 hafi aftur verið dæmdur með. Fangelsisrefsing í 105 daga samsvarar um þriggja og hálfs mánaða refsivist. Í fyrrnefndum dómi 21. ágúst 2002 var ákærði dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar. Ef horft er til dóms héraðs­dóms 29. október 2003 má reikna með, að ákærði hafi fengið um einn og hálfan mánuð í refsingu fyrir hið nýja brot í þeim dómi. Ef horft er til dóms héraðsdóms frá 28. nóvember má aftur álykta út frá sömu forsendum, að ákærði hafi hlotið þriggja mánaða fangelsisvist fyrir það brot sem hann var þar sakfelldur fyrir. Að þessu gefnu má reikna með, að refsing ákærða samkvæmt þessum þrem dómum nemi um sex og hálfs mánaða fangelsisvist.  Brot þau er ákærði er hér sakfelldur fyrir taka yfir síðari hluta ársins 2003. Samanlagt verðmæti þýfis nemur um 1.500.000 krónum. Hefur ákærði ýmist einn eða í félagi við aðra brotist inn í fyrirtæki og stofnanir og valdið umtalsverðu tjóni. Brot ákærða eru flest framin fyrir uppsögu refsidómanna frá í október og nóvember 2003 og eru þannig hegningarauki við þá dóma. Tiltekið brot er framið síðar og ákvarðast þá refsing með hliðsjón af 77. gr. laga nr. 19/1940. Verður skilorðshluti fyrri dóma því tekinn upp með vísan til 60. gr. laga nr. 19/1940. Þó svo ákærði sé ungur að árum á hann nokkurn brotaferil að baki og þykir sú háttsemi sem hann er hér sakfelldur fyrir lýsa einbeittum brotavilja. Ákærði hefur í öllum fyrri tilvikum hlotið skilorðsbundna refsidóma. Að mati dómsins er einsýnt að skilorðs­binding kemur ekki að haldi gagnvart ákærða. Ef höfð er hliðsjón af skilorðsbundinni refsivist er nú er tekin upp og brotum samkvæmt ákærum í þessu máli, þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði.

Ákærði, X, er fæddur í maí 1984. Hann hefur hlotið alls 5 refsidóma vegna brota á ákvæðum 244. gr. laga nr. 19/1940. Í einhverjum tilvikum var einnig sakfellt fyrir önnur refsilagabrot. Síðast var ákærði 4. apríl 2003 dæmdur í 30 daga óskilorðs­bundið fangelsi fyrir þjófnað, auk brota gegn umferðarlögum. Ákærði var 30. október 2003 dæmdur í 18 mánaða fangelsisrefsingu fyrir brot gegn 194. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 19/1940. Brot ákærða í þessu máli eru fólgin í hlutdeild í tilraun til þjófnaðar. Ákærði lauk 11. september 2003 afplánun refsingar vegna refsidómsins frá 4 apríl 2003, eða rúmum mánuði áður en hann framdi brot það er hér er til meðferðar. Með hliðsjón af því er refsing ákveðin fangelsi í 2 mánuði.

Ákærði, Y, er fæddur í september 1985. Honum hefur verið veitt ákærufrestun vegna brota gegn 1. mgr. 259. gr. laga nr. 19/1940. Þá var hann í Héraðs­dómi Reykjavíkur 21. nóvember 2002 dæmdur í 45 daga fangelsi skilorðs­bundið til tveggja ára fyrir brot gegn 244. gr., 1. mgr. 259. gr. og 248. gr. laga nr. 19/1940. Að auki hefur ákærði gengist undir sektir fyrir umferðarlagabrot. Með hliðsjón af þætti hans í málinu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Þorfinnur Hilmarsson, er fæddur í desember 1984. Hann var í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. júní 2002 dæmdur til greiðslu sektar vegna brota gegn 231. gr. og 1. mgr. 259. gr. laga nr. 19/1940. Þá var hann með dómi héraðsdóms 4. apríl 2003 dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára fyrir brot gegn 244. gr. laga nr. 19/1940. Loks var hann með dómi héraðsdóms 19. desember 2003 dæmdur í 4 mánaða fangelsisvist fyrir brot gegn 244. gr. og 244. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 19/1940. Þá var skilorðsbundinn dómur héraðsdóms frá 4. apríl dæmdur með. Sakavottorð ákærða ber ekki með sér að refsing hafi verið skilorðsbundin 19. desember 2003. Endurrit héraðsdóms frá 19. desember 2003 ber hins vegar ótvírætt með sér, að refsing ákærða hafi verið ákvörðuð skilorðsbundin. Brot þau er ákærði er hér sakfelldur fyrir eru öll framin fyrir uppsögu héraðsdóms 19. desember. Ber því að ákvarða refsingu sem hegningarauka, sbr. 78. gr. laga nr. 19/1940. Brotin eru umtals­verð og nemur verðmæti þýfi ríflega 1.000.000 króna. Verður að telja, að refsing í dómi héraðsdóms 19. desember 2003 hafi ekki verið skilorðsbundin, ef brot þau er hér eru til meðferðar hafi verið dæmd samhliða. Með hliðsjón af því verður refsing ákveðin fangelsi í 4 mánuði. 

Í samræmi við kröfur ákæruvalds og með vísan til ákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs 1,36 g af amfetamíni og 0,43 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Í málinu liggja frammi skaðabótakröfur. Þykja gögn að baki þeim veita viðhlítandi stoð fyrir að um þær verði dæmt. Verða þær teknar til greina með eftirfarandi hætti:

Ákærði, Sigurður Ingi, greiði Tryggingamiðstöðinni hf., [kt.], 335.660 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verð­tryggingu, nr. 38/2001, frá 24. september 2003 til 27. janúar 2004, en dráttarvöxtum skv. lögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt greiði hann Kór ehf., [kt.], 34.908 krónur í skaðabætur.

Ákærðu Sigurður Ingi og Þorfinnur greiði óskipt Verslunarskóla Íslands, [kt.], 50.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 25. nóvember 2003 til 10. janúar 2004, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu Sigurður Ingi og Þorfinnur greiði óskipt Sjóvá Almennum, [kt.], 292.000 krónur í skaðbætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 25. nóvember 2003, til 11. janúar 2004, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim til greiðsludags.

Ákærðu Y, Sigurður Ingi og Þorfinnur greiði óskipt Verzlunarskóla Íslands, [kt.], 60.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2003 til 10. janúar 2004, en dráttarvöxtum sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu Y, Sigurður Ingi og Þorfinnur greiði óskipt Sjóvá Almennum, [kt.], 87.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2003 til 11. janúar 2004, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu greiði sakarkostnað svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Dagmar Arnardóttir fulltrúi lögreglustjóra.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Sigurður Ingi Jónason, sæti fangelsi í 8 mánuði.

Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 mánuði.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Þorfinnur Hilmarsson, sæti fangelsi í 4 mánuði.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 1,36 g af amfetamíni og 0,43 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði, Sigurður Ingi, greiði Tryggingamiðstöðinni hf., [kt.], 335.660 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verð­tryggingu, nr. 38/2001, frá 24. september 2003 til 27. janúar 2004, en dráttarvöxtum skv. lögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt greiði hann Kór ehf., [kt.], 34.908 krónur í skaðabætur.

Ákærðu Sigurður Ingi og Þorfinnur greiði óskipt Verslunarskóla Íslands, [kt.], 50.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 25. nóvember 2003 til 10. janúar 2004, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu Sigurður Ingi og Þorfinnur greiði óskipt Sjóvá Almennum, [kt.], 292.000 krónur í skaðbætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 25. nóvember 2003, til 11. janúar 2004, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim til greiðsludags.

Ákærðu Y, Sigurður Ingi og Þorfinnur greiði óskipt Verzlunarskóla Íslands, [kt.], 60.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2003 til 10. janúar 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu Y, Sigurður Ingi og Þorfinnur greiði óskipt Sjóvá Almennum, [kt.], 87.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2003 til 11. janúar 2004, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu, Sigurður Ingi, X og Þorfinnur greiði hver um sig þóknun til skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

Ákærði, Sigurður Ingi, greiði annan sakarkostnað.