Hæstiréttur íslands

Mál nr. 510/2016

Atafl ehf. (Marteinn Másson hrl.)
gegn
Isavia ohf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Verksamningur
  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Dómur

Reifun

A ehf. höfðaði mál til heimtu greiðslu fjárkrafna sem hann taldi sig eiga á hendur I ohf. á grundvelli verksamnings 2012 um viðbyggingu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. I ohf. taldi sig eiga gagnkröfu á hendur A ehf. vegna umsaminna tafabóta sem skuldajafnað yrði við kröfur hans að því leyti sem þær yrðu viðurkenndar. Taldi A ehf. m.a. að borið hefði að lengja verktíma hans og stytta þá tímabil umsaminna tafabóta á grundvelli ÍST 30 og orðsendinga A ehf. til I ohf. í maí 2012. Í hinum áfrýjaða dómi hafði verið talið að ákveðin orðsending hefði verið ófullnægjandi tilkynning í skilningi ÍST 30. Í dómi Hæstaréttar var talið að orðsendingin hefði fullnægt kröfum staðalsins og sérstaklega áréttað að fyrrnefnd grein gerði aðeins ráð fyrir rökstuddri tilkynningu þess efnis að verktaki teldi sig eiga rétt á framlengdum verktíma og hvernig ætluð töf tengdust þeim atburðum sem hann bæri fyrir sig. Þar sem í hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, hefði í engu verið fjallað efnislega hvort eitthvert þeirra atriða sem A ehf. byggði á kynni að hafa skapað honum rétt á lengingu verktíma var talið að ekki yrði hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 3. maí 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 15. júní sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 13. júlí 2016. Aðaláfrýjandi krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 40.671.291 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 21. júlí 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 21. september 2016. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að hann verði sýknaður af nánar tilteknum kröfum aðaláfrýjanda vegna aukaverka „sem auðkennd eru með tölustöfunum 16, 60, 83 og 84“ og kröfu vegna verktryggingar, samtals að fjárhæð 4.595.979 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Mál þetta höfðaði aðaláfrýjandi til heimtu greiðslu fjárkrafna sem hann telur sig eiga á hendur gagnáfrýjanda á grundvelli verksamnings 4. apríl 2012 um viðbyggingu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Reisir hann kröfur sínar í fyrsta lagi á fjórum samþykktum „framvindureikningum“ sem aðeins hafi fengist greiddir að hluta, í öðru lagi á tveimur samþykktum aukaverkakröfum, í þriðja lagi á umdeildum kröfum vegna ætlaðra aukaverka og viðbótarkostnaðar og í fjórða lagi gerir hann bótakröfu vegna þess að gagnáfrýjandi hafi ekki lækkað verktryggingu aðaláfrýjanda í samræmi við verksamning þeirra. Gagnáfrýjandi fellst á tvo fyrrnefndu liðina en hafnar kröfum samkvæmt síðari liðunum tveimur. Þá byggir gagnáfrýjandi á því að hann eigi gagnkröfu á hendur aðaláfrýjanda vegna umsaminna tafabóta sem skuldajafnað verði við kröfur hans að því leyti sem þær verði viðurkenndar. Í hinum áfrýjaða dómi var auk óumdeildra reikninga og aukaverka fallist á kröfur aðaláfrýjanda vegna tiltekinna umdeildra aukaverka sem og bætur vegna verktryggingar, samtals að fjárhæð 32.933.216 krónur. Gagnáfrýjandi var hinsvegar sýknaður enda féllst dómurinn á að hann ætti gagnkröfu á hendur aðaláfrýjanda vegna tafabóta að fjárhæð 35.700.000 krónur.

Fyrir Hæstarétti deila aðilar um kröfur aðaláfrýjanda vegna níu aukaverka, bótakröfu vegna verktryggingar og hvort gagnáfrýjandi eigi rétt á tafabótum sem aðaláfrýjandi telur að fella beri niður að öllu leyti eða hluta. Hvað verktíma og tafabætur varðar byggir aðaláfrýjandi aðallega á því að víkja beri til hliðar ákvæðum fyrrgreinds verksamnings á grundvelli reglna kröfuréttar um brostnar forsendur og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, en að því frágengnu að borið hafi að lengja verktíma hans og stytta þá tímabil umsaminna tafabóta á grundvelli 5. kafla ÍST 30:2012, 6. útgáfu. Málatilbúnað sinn reisir aðaláfrýjandi á fjölmörgum atriðum sem vörðuðu framvindu verksins á sínum tíma svo sem að aðilar hefðu gert með sér samkomulag í upphafi verksins um að aðaláfrýjandi tryggði aðgengi komufarþega frá Bandaríkjunum inn í töskumóttöku flugstöðvarinnar þann 1. júní 2012 en öðrum verkþáttum sem tilheyrðu 1. verkáfanga yrði hliðrað til, fjölda breytinga á hönnunargögnum á verktímanum er vörðuðu bæði verkliði í 1. og 2. verkáfanga, verulegs dráttar á því að gagnáfrýjandi legði fram fullnægjandi yfirlýsingu og staðfestingu um burðarþol útveggjar á 1. hæð flugstöðvarinnar og aukavinnu vegna fjölda samþykktra aukaverka.

Með hinum áfrýjaða dómi var því hafnað að aðaláfrýjandi hafi átt rétt til framlengingar verktímans á grundvelli 5. kafla ÍST 30 þar sem hann hafi ekki fullnægt þeirri skyldu samkvæmt staðlinum og útboðsgögnum að senda gagnáfrýjanda rökstudda tilkynningu og kröfu um framlengingu skilafrests fyrr en með ófullnægjandi tilkynningu 24. maí 2012. Krafa um viðbótarverktíma sem aðaláfrýjandi hafi talið sig eiga rétt á hafi fyrst komið fram með orðsendingu 25. ágúst 2012, sem lögð hafi verið fram á verkfundi 27. sama mánaðar. Þegar af þessari ástæðu tók héraðsdómur ekki til efnislegrar úrlausnar þau framangreindu atriði sem aðaláfrýjandi reisti kröfu sína um framlengingu verktímans á.

Í grein 5.2.2 í ÍST 30 er í fjórum stafliðum fjallað um þau tilvik sem verktaki getur byggt á um lengingu verktíma. Í grein 5.2.3 segir síðan: „Ef verktaki telur sig eiga rétt á framlengingu á verktíma skal hann tafarlaust senda verkkaupa rökstudda tilkynningu um það. Í tilkynningu skal rökstutt að töfin hafi hlotist af þeim atvikum sem verktaki ber fyrir sig.“ Þá er mælt fyrir um það í grein 5.2.4 að lengja skuli verktímann sem nemi þeirri töf sem af tálmun hlaust. Í ÍST 30 er  hins vegar ekki að finna, umfram almenn fyrirmæli í grein 6.3, reglur um það hvernig úr skuli leyst sé ágreiningur með aðilum um framkomna kröfu um lengingu verktímans.

Hinn 24. maí 2012 sendi starfsmaður aðaláfrýjanda umsjónarmanni eftirlits með verkinu af hálfu gagnáfrýjanda, orðsendingu þar sem gerð var grein fyrir tíu nánar tilgreindum verkþáttum sem aðaláfrýjandi taldi valda töfum á „verkframkvæmdum við stækkun í austur ...“  Í lok orðsendingarinnar sagði: „Atafl telur rétt að vegna þessara óviðráðanlegu tafa verði áfangaskil sem áætluð eru 1. júní endurskoðuð.“ Í orðsendingu dagsettri þann sama dag fór umsjónarmaðurinn  með rökstuddum hætti yfir þá verkþætti sem aðaláfrýjandi vísaði til að hefðu valdið töfum á verkinu og hafnaði því í átta tilvikum að þeir gætu leitt til endurskoðunar verktímans. Í tveimur tilvikum var óskað frekari rökstuðnings fyrir því hvers vegna þeir verkþættir krefðust aukins verktíma.

Fallist er á með aðaláfrýjanda að tilvitnuð orðsending hans hafi fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt grein 5.2.3 í ÍST 30 og skal þá sérstaklega áréttað að nefnd grein gerir aðeins ráð fyrir rökstuddri tilkynningu þess efnis að verktaki telji sig eiga rétt á framlengdum verktíma og hvernig ætluð töf tengist þeim atriðum sem hann ber fyrir sig. Jafnframt styðst þessi niðurstaða við þá staðreynd að ekki virðist hafa vafist fyrir umsjónarmanninum að svara efnislega þeim atriðum sem tilkynningin um framlengdan verktíma var reist á. Á hinn bóginn er fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að aðaláfrýjandi hafi ekki í öðrum tilvikum fullnægt þeim kröfum sem gera verður til tilkynninga verktaka samkvæmt grein 5.2.3 en ekki kemur til álita, eins og hér stendur á, að tilkynningar sem sendar voru eftir að umsömdum verktíma lauk uppfylli þær kröfur sem þar koma fram.

Með því að niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, varð öndverð um framangreindan áskilnað greinar 5.2.3 í ÍST 30 var þar í engu fjallað um það efnislega hvort að eitthvert þeirra atriða sem aðaláfrýjandi byggir á kunni að hafa skapað honum rétt á lengingu verktíma, sbr. grein 5.2.2 í staðlinum, og þá með samsvarandi lækkun tafabóta úr hendi hans. Verður því ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2016

        Mál þetta, sem dómtekið var 7. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 8. maí 2014 af Atafli ehf., Klettatröð 1, Reykjanesbæ, á hendur Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík.

I.

        Stefnandi gerir þær kröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 41.100.231 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur,

af 3.000.000 króna frá 21. júlí 2012 til 21. október 2012,

af 18.157.816 krónum frá þeim degi til 21. janúar 2013,

af 21.257.816 krónum frá þeim degi til 21. febrúar 2013,

af 25.038.829 krónum frá þeim degi til 1. maí 2013,

af 68.770.644 krónum frá þeim degi til 5. janúar 2014,

en af stefnukröfunni frá þeim degi til greiðsludags.                                                                                                                                                                                               

        Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins, ef til hennar kemur.

        Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda en þess til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Í hvoru tilviki fyrir sig krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

        Í upphaflegri kröfugerð í stefnu var stefnufjárhæð 69.384.985 krónur en með breyttri kröfugerð sem stefnandi lagði fram í upphafi aðalmeðferðar þann 7. janúar sl. lækkaði hann stefnufjárhæð í þá fjárhæð sem að ofan greinir.

II.

Málsatvik

        Vegna mikillar fjölgunar farþega um Flugstöð Leifs Eiríkssonar ákvað stefndi, sem annast rekstur viðhald og viðbætur flugstöðvarinnar, á árinu 2012 að ráðast í stækkun flugstöðvarinnar á austurhlið á 2. hæð og bæta aðstöðu og aðgengi fyrir farþega sem aka skyldi í rútum frá flugvélum að flugstöðvarbyggingunni.

        Stefndi leitaði af þessu tilefni til Ríkiskaupa í byrjun febrúar 2012 eftir aðstoð við að bjóða verkefnið út. Í kjölfar fundar stefnda og Ríkiskaupa þann 3. febrúar 2012 sendi stefndi tæknilýsingu á verkefninu til Ríkiskaupa. Ákveðið var að bjóða verkið út í svonefndu örútboði þar sem talið var að um breytingu á byggingu væri að ræða, sem félli undir rammasamning um þjónustu iðnaðarmanna sem Ríkiskaup gerðu fyrir hönd opinberra stofnana og fyrirtækja við seljendur á markaði.

        Verkið var boðið út 15. febrúar 2012 með tölvupósti verkefnastjóra hjá Ríkiskaupum. Tilgreint var að um lokað örútboð væri að ræða innan rammasamnings ríkisins um „Viðhaldsþjónustu verktaka í iðnaði“, í flokknum „Aðalverktaka“. Skilafrestur tilboða var til 6. mars 2012. Samkvæmt tilkynningunni um örútboðið skyldi upphaf verks vera 15. mars 2012, verklok fyrsta áfanga skyldu vera 1. júní s.á. og verklok annars áfanga skyldu vera 1. ágúst s.á. Skilafrestir tóku mið af þörf á viðbyggingunni.

        Þeim bjóðendum sem þess óskuðu var boðið í vettvangsskoðun en þó fengu þátttakendur ekki að skoða væntanlegt verksvæði í innanverðri flugstöðinni heldur eingöngu að utanverðu.

        Stefndi sótti um útgáfu byggingarleyfis vegna viðbyggingarinnar þann 5. mars 2012. Með umsókninni sendi stefndi aðalteikningar, dags. 5. mars 2012, ásamt byggingarlýsingu og verkteikningum. Tekið var fram í umsókninni að fyrirhugað væri að ljúka framkvæmdum á árinu 2012.

        Tilboð í verkið bárust frá fimm verktökum og voru þau opnuð þann 7. mars 2012. Stefnandi reyndist vera næst lægstbjóðandi en litlu munaði á tilboði hans og lægstbjóðanda. Eftir endurútreikning vegna skekkju í útboðsgögnum var ákveðið að taka tilboði stefnanda.

        Byggingarleyfi var gefið út 4. apríl 2012 og þann sama dag var verksamningur aðila undirritaður. Þrátt fyrir að upphaf framkvæmda hefði dregist miðað við tilgreindan upphafstíma í útboðinu var skilafrestum áfanga 1 og 2 ekki breytt í samningstextanum.

        Varðandi hönnunargögn þá var í tilkynningu Ríkiskaupa um örútboðið, þann 15. febrúar 2012, væntanlegum bjóðendum bent á útboðsgögnin sjálf á vefslóð ríkiskaupa.

        Samkvæmt grein 0.1.1 í útboðslýsingu skyldu bjóðendur, eigi síðar en sjö dögum fyrir opnunardag tilboða 6. eða 7. mars 2012, senda Ríkiskaupum óskir um nánari upplýsingar eða frekari skýringar á útboðsgögnum eða skriflega fyrirspurn yrðu þeir varir við ósamræmi í útboðsgögnum sem gæti haft áhrif á tilboðsfjárhæð. Fyrirspurnarfrestur var til 28. febrúar 2012.

        Teikningaskrá sem fylgdi útboðs- og verklýsingu sýndi alls 145 teikningar, þar af 124 frá 6. og 13. febrúar 2012, en 21 teikning var frá fyrri árum eða 2004-2008. Samkvæmt grein 0.1.2 í útboðslýsingu fylgdu henni flestar þær teikningar sem tilheyrðu verkinu, en þó myndu nokkrar verkteikningar berast á útboðstímanum.Var gert ráð fyrir að þær yrðu bjóðendum aðgengilegar 28. febrúar 2012, þ.e. sama dag og fyrirspurnarfrestur rann út.

         Þann 11. apríl 2012 fékk fulltrúi stefnanda afhenta samþykkta aðal- og séruppdrætti af stækkun flugstöðvarinnar til austurs. Á móttökukvittuninni var tekið fram að uppdrættirnir hefðu verið samþykktir af byggingarfulltrúa á Keflavíkurflugvelli þann 4. apríl 2012.

        Verkið fól í sér viðbót við Flugstöð Leifs Eiríkssonar um 456 fm á 1. og 2. hæð flugstöðvarinnar til austurs. Samkvæmt verksamningi aðila var stefnanda falið að hanna útvegg á 2. hæð flugstöðvarinnar. Við útboð verksins fylgdu ekki gögn um útvegg á 1. hæð flugstöðvarinnar sem hinn nýi veggur átti að byggjast ofan á. Í ljós kom að ekki voru til hjá embætti byggingarfulltrúa staðfestar (stimplaðar) teikningar af veggnum á 1. hæðinni. Á rýnifundi í byrjun maí 2012 kölluðu hönnuðir stefnanda eftir staðfestingu frá stefnda á burðarþoli veggjarins á 1. hæðinni. Sú staðfesting fékkst þann 26. júlí 2012. Hönnunargögn vegna útveggjarins á 2. hæðinni voru samþykkt og stimpluð hjá byggingarfulltrúa þann 14. ágúst 2012.

        Samkvæmt grein 0.0.5 í útboðslýsingu fyrsta verkáfanga verksins átti verktaki þann 1. júní 2012 að skila af sér:

a) farþegagangi tilbúnum til notkunar,

b) biðsvæði 16 flughlaðsmegin, fullbúnu að utan út yfir brú,

c) undirstöðum steyptum og flughlaði steyptu og

d) stigahúsi frágengnu að utan á suðurhlið og vesturhlið út yfir brú.

        Í öðrum verkáfanga, sem skila skyldi 1. ágúst 2012, átti verktakinn að skila af sér fullbúnu verki.

        Samkvæmt verksamningi skyldi verkið unnið samkvæmt útboðs- og verklýsingu, dags. 13. febrúar 2012, verkáætlun, uppdráttum samkvæmt teikningaskrá í útboðslýsingu, gæðakerfi, öryggis- og heilbrigðisáætlun stefnanda og íslenskum staðli ÍST 30:2012.

        Öryggisúttekt á verkinu fór fram þann 8. júní 2012 vegna gönguleiðar fyrir farþega á 1. hæð og út á flughlað. Þann 17. október 2012 fór fram stöðuúttekt vegna skila á vörumóttöku og önnur stöðuúttekt vegna 1. og 2. áfanga fór fram 23. janúar 2013. Þá var stefnanda gefinn tveggja vikna lokafrestur til að skila inn öllum gögnum og klára verkið svo hægt yrði að fara í lokaúttekt á verkinu.

        Aftur fór fram úttekt á verkinu 12. febrúar 2013 og var stefnanda þá gefinn lokafrestur til að bæta úr atriðum sem var ólokið. Þá var bókað að að þeim tíma liðnum yrðu þau verk (lagfæringar) sem eftir yrðu unnin á kostnað verktaka, sbr. gr. 4.4.8 í ÍST30:2012 og frekari nærveru verktaka væri ekki óskað á verkstað.

        Þann 5. mars 2013 sagði byggingastjóri sig af verkinu og stöðuúttekt var gerð 19. mars 2013.

       Ábyrgðarúttekt fór fram 11. apríl 2014.

        Eftir lokaúttekt eða 5. mars 2013 krafði stefnandi stefnda um lækkun verktryggingar og varð stefndi við þeirri kröfu stefnanda 18. nóvember 2013.

        Stefndi greiddi alla framvindureikninga stefnanda samkvæmt verksamningi þeirra nema þá fjóra reikninga sem um er fjallað í máli þessu og taldi sér það heimilt vegna tafabótakröfu á hendur stefnanda þrátt fyrir ítrekuð mótmæli stefnanda.

I.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi vísar til þess að dómkröfur hans skiptist í stórum dráttum í þrennt. Í fyrsta lagi sé um að ræða óumdeildar og samþykktar kröfur stefnanda, annars vegar samkvæmt fjórum framvindureikningum stefnanda í verkinu sem aðeins hafi fengist greiddir að hluta til en hins vegar tvær samþykktar aukaverkakröfur.

        Í öðru lagi sé um kröfur að ræða fyrir aukaverk og viðbótarkostnað sem féll til í framkvæmdinni en stefndi hefur hafnað að samþykkja og greiða.

        Í þriðja lagi sé um að ræða bótakröfu vegna þess fjárhagslega tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir þar sem stefndi hafi ekki fengist til að lækka verktryggingu stefnanda eins og kveðið sé á um í samningi þeirra.

        Stefnandi heldur því fram að hann hafi, þrátt fyrir oft á tíðum mikla erfiðleika, skilað stefnda umsömdu verki af miklum gæðum og þannig staðið við samningsskyldur sínar gagnvart stefnda. Í ábyrgðarúttekt þann 11. apríl 2014 hafi engar athugasemdir verið gerðar við verkið. Hann eigi því rétt á greiðslu umsaminna verklauna fyrir öll þau aukaverk og viðbótarverk sem nauðsynlegt reyndist að framkvæma.

        Stefnandi heldur því fram að vegna atvika sem séu fyrst og fremst á ábyrgð og áhættu stefnda hafi hann átt rétt á að umsaminn verktími yrði lengdur verulega, allar forsendur fyrir ákvörðun verktímans í samningi aðila hafi frá upphafi verið rangar eða  hafi brostið við framkvæmd verksins. Stefnandi heldur því einnig fram að stefndi hafi ekki átt rétt á að krefjast tafabóta vegna seinkunar á verklokum.

        Stefnandi kvaðst hafa gert ráð fyrir því að verkið væri svo vel- og fullhannað að treysta mætti því að allar tímaáætlanir stæðust. Það hafi ekki staðist, fjölda teikninga hafi þurft að breyta á útboðstímanum og ekki síst eftir að framkvæmdir hófust. Fjölmörg ófyrirsjáanleg tilvik hafi komið upp á verktímanum sem stefnandi og hönnuðir stefnda þurftu að bregðast við, ýmist með nýjum teikningum eða breytingum á fyrirliggjandi teikningum, með breytingu í efniskaupum og breytingum á verk- og vinnuskipulagi. Stefnandi byggir á því að af þessu hafi hlotist verulegar tafir á verkinu og viðbótarkostnaður sem stefndi beri ábyrgð á.

        Stefnandi heldur því fram að það að bjóða verkið út sem örútboð hafi hentað afar illa fyrir svo umfangsmikið og að ýmsu leyti flókið verkefni. Í raun hafi verið um nýsmíði að ræða þar sem að hluta til þurfti að skeyta nýjum byggingarhluta við og ofan á eldri byggingarhluta.

        Stefnandi telur að meðal annars hafi hinn skammi tilboðsfrestur verksins, sem þá var hvergi nærri fullhannað og hvorki var búið að sækja um byggingarleyfi fyrir né hafði framkvæmdin verið kynnt skipulags- og byggingaryfirvöldum, valdið því að mjög erfitt hafi verið fyrir bjóðendur að átta sig á verkinu sjálfu, mannaflaþörf, tímarammanum til skila verkáfanga og svo kostnaðarþáttum verksins.

          Stefnandi bendir á að samkvæmt 6. mgr. 34. gr. laga um opinber innkaup, nr. 84/2007, skuli örútboð fara fram milli rammasamningshafa ef skilmálar rammasamnings eru að einhverju leyti óákveðnir. Þá vísar stefnandi til b-liðar 6. mgr. 34. gr. laganna þar sem kveðið er á um að kaupandi skuli ákveða tilboðsfrest sem sé nægilega langur til að rammasamningshafar geti gert tilboð vegna þess samnings sem um er að ræða. Með hliðsjón af því hversu skammt á veg hönnun verksins var komin þegar tilkynnt var um örútboðið telur stefnandi að tilboðsfrestur frá 15. febrúar til 6. mars 2012 hafi verið allt of skammur fyrir bjóðendur til þess að geta metið réttilega öll atriði í fyrirhuguðu verkefni.

       Stefnandi telur sig hafa mátt treysta því að verkið væri fullhannað um annað en útvegg 2. hæðar, og að fáir eða engir hnökrar væru á hönnun þess þar sem að hönnuninni hafi staðið nokkrar af stærstu og virtustu verkfræðistofum landsins. Stefnandi heldur því fram að undirbúningur stefnda að verkinu hafi hins vegar verið svo skammt á veg kominn í byrjun febrúar 2012 að það hafi hvergi nærri verið tilbúið til útboðs. Til marks um það hafi verið allar þær breytingar sem hönnuðir á vegum stefnda þurftu að gera á hönnunargögnum á tilboðsfrestinum, svo og ný hönnunargögn á sama tíma, en hvorutveggja hafi takmarkað yfirsýn bjóðenda yfir verkið. Þannig hafi verið gerðar breytingar á sjö teikningum þann 20. febrúar 2012 og 111 breytingar þann 27. febrúar 2012. Þá hafi níu teikningum verið breytt á fyrstu dögum marsmánaðar fram að opnun tilboða. Á þessum tíma hafi þar af komið fram 15 nýjar teikningar sem ekki voru hluti af upphaflegum hönnunargögnum útboðsins. Einnig hafi hönnuðir stefnda þurft að gera fjölmargar breytingar á hönnunargögnum á framkvæmdatímanum en alls hafi um 106 breyttar teikningar verið sendar til stefnanda eftir að byrjað var á verkinu.  

         Stefnandi bendir á að fyrirspurnarfrestur bjóðenda hafi verið til 28. febrúar 2012. Þann sama dag hafi 111 breytingar á hönnunargögnum verið gerðar aðgengilegar bjóðendum og að auki hafi verið gerðar níu breytingar eftir það fram að opnunardegi tilboða. Samkvæmt formreglum útboðslýsingarinnar hafi bjóðendum þannig í raun verið gert ómögulegt að fara yfir og spyrjast fyrir um og/eða senda athugasemdir um 120 teikningar í verkinu.

        Þá hafi stefndi ákveðið að verktakinn skyldi sjálfur hanna útvegg 2. hæðar á verktímanum þó svo að ekki hafi legið fyrir nauðsynlegar upplýsingar og gögn í útboðsgögnum, svo sem um burðarþol veggjar á 1. hæð en þetta atriði eitt sýni best hversu vanbúið verkið var til útboðs.

        Stefnandi heldur því fram að ákvörðun um verktíma og skilafrest verkáfanga hafi fyrst og fremst miðast við skuldbindingar stefnda við ferðaþjónustuaðila um aðgengi farþega um flugstöðina en ekki þann tíma sem framkvæmd af þessu tagi útheimtir. Stefnandi heldur því fram að strax við útboð verksins eða fyrr hafi stefndi áttað sig á því hversu óraunhæfur verktíminn væri. Starfsmenn stefnda hafi þannig áttað sig á því að verkinu yrði ekki skilað á réttum tíma nema hugsanlega ef það yrði unnið í næturvinnu og vaktavinnu allan verktímann, sbr. verkfundargerð 26, liður 27. Þessa hafi ekki verið getið í útboðsgögnum. Stefnandi telur að bjóðendum í verkið hafi ekki mátt vera þetta ljóst, sérstaklega í ljósi þess að tilboðsfrestur var mjög skammur og að á þeim fresti var hönnunargögnum breytt margoft og ný hönnunargögn komu til sögu.

        Stefnandi bendir einnig á að stefndi sjálfur hafi talið það geta tekið allt að þrjá mánuði fyrir starfsmenn og undirverktaka stefnanda að fá aðgangsleyfi að verkstað vegna strangra öryggisreglna er gildi um för manna um þennan hluta flugvallarsvæðisins. Stefnda hafi því verið eða hafi mátt vera það ljóst að útilokað hafi í raun verið að ljúka verkinu á frestinum.

        Stefnandi telur að val á útboðsaðferð og ákvörðun um lengd verktíma og skilafresta hafi alfarið verið á ábyrgð og áhættu stefnda og því beri að meta öll vafaatriði um verktíma, mannaflaþörf, aukaverk og viðbótarkostnað stefnda í óhag.

        Í ljósi framangreindra atriða telur stefnandi að ákvörðun stefnda um lengd verktímans og skilafrest beggja verkáfanga hafi byggst á vanmati stefnda á þeim verktíma sem þurfti til að ljúka svo umfangsmiklu og flóknu verkefni.

        Stefnandi heldur því fram að svo viðamiklar breytingar hafi orðið á aðstæðum og atvikum eftir undirritun verksamnings aðila, breytingar sem hann gat með engu móti gert sér grein fyrir eða mátti reikna með við samningsgerðina, að honum hafi verið gert ókleift að efna samningsskuldbindingar sínar að því er varðaði verktíma. Stefnandi bendir á að hann rifti sjálfur samningsákvæðinu um verktímann með orðsendingu sinni nr. 23 (dskj. 44), en stefndi hunsaði þá tilkynningu og neitaði að semja um nýjan verktíma er tæki mið af öllum þeim óvæntu töfum sem stefnandi varð fyrir en sem voru á ábyrgð og áhættu stefnda sjálfs.

         Stefnandi telur því, með vísan til almennrar reglu samningaréttar um brostnar forsendur, svo og með vísan til 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, að víkja beri til hliðar þeim ákvæðum verksamnings aðila er varða verktíma og skilafresti, enda sé það ósanngjarnt af hálfu stefnda og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig þau samningsákvæði, sem og ákvæði um tafabætur, í ljósi allra atvika málsins.

        Að sama skapi hafi forsendur fyrir umsömdum verklaunum stefnanda brostið, enda telji hann ljóst að sífelldar breytingar á hönnunargögnum og önnur atvik sem séu á ábyrgð og áhættu stefnda hafi leitt til þess að verkið varð stefnanda umtalsvert dýrara og erfiðara í framkvæmd og þurfti að vinnast á mun lengri tíma en hann mátti með góðu móti gera ráð fyrir þegar hann bauð í það.

        Verði ekki fallist á sjónarmið stefnanda um ógildingu samningsákvæða um verktíma og tafabætur vegna rangra og/eða brostinna forsendna, telur stefnandi að viðurkenna beri rétt sinn til lengingar verktíma vegna sömu sjónarmiða og annarra atvika í málinu.

        Að því er varðar skilafrest vegna 1. verkáfanga bendir stefnandi meðal annars á eftirfarandi atriði.

        Stefnandi bendir á að samkvæmt útboðsgögnum hafi verið gert ráð fyrir því að framkvæmdir hæfust 15. mars 2012. Útilokað hafi hins vegar verið að hefja framkvæmdir þann dag þar sem ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni fyrr en 5. mars 2012, byggingaráformin hafi ekki verið kynnt í skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar fyrr en 16. mars 2012 og byggingarleyfið sjálft ekki gefið út fyrr en 4. apríl 2012. Þann dag hafi verksamningur málsaðila verið undirritaður eða tæpum þremur vikum eftir að framkvæmdir áttu að hefjast. Þá hafi samþykktar og stimplaðar teikningar ekki verið afhentar stefnanda fyrr en 11. apríl 2012 eða 27 dögum frá upphaflega áformaðri verkbyrjun.

        Stefnandi heldur því fram að samkomulag hafi verið með málsaðilum um að hann tryggði aðgengi komufarþega frá Bandaríkjunum frá rútuskýli að töskumóttöku, eigi síðar en 1. júní 2012 en að öðrum verkliðum 1. verkáfanga yrði skilað síðar. Þannig hafi sérstaklega verið bókað, að ósk fulltrúa stefnda, á fyrsta verkfundi þann 26. mars 2012, undir dagskrárlið 12 (Verkáætlun), að 1. áfangi yrði skilgreindur nánar, þ.e.a.s. að aðgengi komufarþega yrði tryggt. Þá hafi fulltrúi stefnda einnig óskað eftir bókun um það undir dagskrárlið 24 að lögð yrði höfuðáhersla á að verktaki tryggði að allri vinnu og frágangi innan flughlaða yrði lokið fyrir 1. júní 2012 og aðgengi komufarþega yrði tryggt gegnum bygginguna að töskumóttöku.

       Stefnandi bendir á að þessar bókanir hafi verið óþarfar með öllu nema vegna þess að framangreint samkomulag hafi verið með aðilum um frestun á skilum annarra verkþátta undir 1. verkáfanga. Stefnandi byggir á því að hann hafi staðið við þetta samkomulag. Þegar af þessari ástæðu hafi skilafrestur 1. verkáfanga framlengst að því er varðaði aðra verkþætti er rúmuðust innan verkáfangans. Stefnandi heldur því fram að fjölmörg önnur atriði hafi skipt máli og haft áhrif á möguleika hans til að ljúka einstaka verkþáttum innan 1. verkáfanga.

        Stefnandi heldur því fram að verulegar tafir hafi hlotist af þeim breytingum á teikningum og/eða nýjum teikningum sem komu fram á verktímanum. Þegar fáar vikur hafi verið liðnar af verktíma, raunar aðeins fáir dagar, hafi stefnanda borist teikningar sem ekki lágu áður fyrir eða vegna breytinga sem gera þurfti á hönnun ýmissa verkþátta. Til dæmis má nefna málsetta teikningu vegna útsetningar á steyptum undirstöðum sem hafi komið 18. apríl eftir fyrirspurn stefnanda og breyttar teikningar vegna brunaslöngu og vatnsúðakerfis sem bárust 24. apríl. Teikningum vegna reyklúgu í stigahúsi hafi verið breytt 14. maí 2012 og jafnframt hafi þá verið óskaði eftir tilboði frá stefnanda í breytingarnar. Breytingar á fráveitulögnum hafi borist 23. maí. Breyttar teikningar vegna stiga- og lyftuhúss hafi fyrst borist 12. apríl og vegna stálhandriðs í stiga- og lyftuhúsi 16. apríl 2012. Þá hafi teikningar vegna breytingar á stál- og timburvirki í stigahúsi/vörumóttöku borist 11. maí 2012. Þann 7. júní 2012 hafi stefnanda borist breytt sniðteikning af stálvirkinu.

        Stefnandi rekur síðan í greinargerð fjölmargar breytingar á teikningum og nýjar teikningar á verktímanum sem orsakað hafi tafir á framkvæmdum.

        Hvað varðar blikkstoðir sérstaklega bendir stefnandi á að samkvæmt lið 7.2.5 í verklýsingu, þar sem fjallað var um vegg milli vörumóttöku og stigahúss/rútubiðskýlis, skyldi veggurinn uppbyggður af stálgrind. Stefnandi hafi aðeins boðið í reisingu stálgrindarinnar en ekki í útvegun efnis eða smíði og við útboð verksins hafi ekkert komið fram á teikningum sem gaf til kynna að honum bæri að útvega blikkstoðir til þess að nota í þessum verklið. Stefnandi bendir á að samkvæmt útboðsteikningu nr. X38-03 hafi verið gert ráð fyrir reisingu 150 x 150 mm RHS stálgrindar sem stefndi hafi, samkvæmt kafla 2.6 í verklýsingu, átt að útvega. Þá hafi í tölvupósti stefnanda til eftirlitsmanns þann 24. maí 2012 (dskj. 183, bls. 17) verið bent á að við skoðun á hinni nýju útgáfu verkteikningar X38-03 hefðu komið í ljós lóðréttar, heitsinkhúðaðar blikkstoðir sem ekki hefðu komið fram áður á teikningum eða í verklýsingu. Jafnframt hafi verið bent á að af þessari breytingu hlytist kostnaðarauki.

        Stefnandi telur að mistök hafi verið gerð í hönnun rútuskýlis en að reynt hafi verið að leiðrétta þau mistök með nýrri útgáfu teikningar nr. X38-03 á tímabilinu 3.-12. maí 2012. Þessi mistök og aukaverkið er fylgdi þeim, þ.e. útvegun blikkstoða og uppsetning þeirra, hafi tafið verkið töluvert. Stefnandi telur stefnda bera ábyrgð á þessum mistökum og því beri að fallast á kröfu um framlengingu verktímans af þessum sökum.

        Stefnandi bendir á að stefndi hafi óskað eftir því með orðsendingu nr. 12, þann 7. maí 2012, að breytingar yrðu gerðar á efnisvali vegna klæðningar á rútuskýli, þ.e. að sett yrði 10 mm plexígler í stað gataplatna. Um þetta aukaverk hafi einnig verið fjallað í verkfundargerðum nr. 6, 7 og 8. Stefnandi hafi þurft að óska eftir frekari málum á plexíglerinu frá stefnda eða hönnuðum hans svo að unnt yrði að gera tilboð í verkið. Nokkrar vikur hafi tekið að sinna þessu aukaverki frá því að ósk um það kom fyrst fram. Hin sí- og margbreytilegu hönnunargögn vegna rútuskýlisins hafi leitt til tveggja aukaverkakrafna stefnanda en ágreiningur standi um aðra þeirra. Þau hafi einnig leitt af sér verulegar tafir við frágang rútuskýlisins sem skiptu þeim mun meira máli vegna hins mjög svo knappa, tilgreinda skilafrests 1. verkáfanga í samningi aðila. Stefnandi hafi þurft að útvega og setja upp blikkstoðir sem hann mátti ekki gera ráð fyrir í tilboði sínu í verkið. Þá þurfti hann að láta smíða og setja upp plexígler í aukaverki sem tók langan tíma þar sem hönnunargögn vegna breytinganna voru ófullnægjandi í upphafi. Stefnandi heldur því fram að einungis vegna þessara breytinga sem varða rútuskýlið hafi hlotist af tafir og verulegt óhagræði í vinnu og verkskipulagi í að minnsta kosti þrjár til fjórar vikur, sem stefndi beri ábyrgð á. Stefnandi bendir sérstaklega á að þessar breytingar hafi verið gerðar á hönnunargögnum á innan við einum mánuði áður en tilgreindur skilafrestur 1. verkáfanga rann út.

        Stefnandi heldur því fram að breytingar í hönnun og í sumum tilvikum nýhönnun verkliða, sérstaklega á tímabilinu apríl-júlí 2012, hafi verið óeðlilega margar og langt umfram það sem búast mátti við í verki af þessu tagi, sérstaklega þegar litið er til hins skamma verktíma. Stefnandi telur þetta undirstrika að verkið hafi ekki verið tilbúið fyrir útboð þar sem verulega hafi skort á að hönnun væri lokið. Stefnandi telur allar þessar sífelldu breytingar og ný hönnunargögn réttlæta verulega framlengingu verktímans um að minnsta kosti tvo til þrjá mánuði.

        Stefnandi kveðst hafa sent orðsendingu nr. 17 til stefnda þann 24. maí 2012 þar sem farið var fram á endurskoðun skilafrests að því er varðaði 1. verkáfanga þann 1. júní 2012. Stefnandi hafði orðið fyrir margvíslegum töfum vegna framkvæmda í jarðvinnu, svo sem nánar sé rakið í orðsendingunni. Þannig hafi framkvæmd við steypu á plötu og sökklum við lyftu- og stigahús tafist þar sem strengir í jörðu þveruðu lyftukjarna en þeir hafi ekki verið tilgreindir í útboðsgögnum. Þá hafi orðið tafir við að fjarlægja brunn sem var í lyftu- og stigahúsi en hann hafi ekki komið fram í útboðsgögnum. Þá hafi eftirlitsmaður verksins óskað eftir því að frárennslislögn frá niðurfalli í plani sem áður var ráðgert að yrði leidd í púkk yrði breytt og hún þess í stað tekin gegnum sökkla og tengd í brunn. Þá hafi þurft að færa raflagnir, vatnslagnir og frárennslislagnir sem lágu í vegi fyrir nýju frárennsli frá niðurfalli í plani.

        Stefnandi vísar síðan til þess að tafir hafi orðið vegna tenginga á streng að aðflugsljósum, fjarlægja hafi þurft súlur og koma nýrri súlu fyrir skv. ósk stefnda, en ekki hafi verið gert ráð fyrir þessu. Loks hafi orðið tafir á jarðvinnu vegna lagna í jörðu.

        Stefnandi telur þessar tafir hafa skipt verulegu máli um framgang verksins, ekki síst í ljósi þess að upphaflega var ráðgert að verktími 1. verkáfanga yrði aðeins 78 dagar en sá tími styttist svo verulega og varð loks 57 dagar miðað við undirritun verksamnings eða 50 dagar miðað við afhendingu samþykktra teikninga. Stefnandi telur sig hafa átt rétt á því að verktíminn yrði endurskoðaður og hann lengdur um að minnsta kosti átta daga vegna þessara jarðvinnuþátta, enda hafi verið um að ræða atriði sem voru á ábyrgð og áhættu stefnda.

        Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt grein 0.3.0 í útboðslýsingu verksins skyldi stefndi leggja til lyftu og stál í burðarvirki. Samkvæmt grein 2.6.3 í verklýsingu skyldu stálbitar og stálsúlur í rútuskýli afhent stefnanda fullsmíðuð 16. apríl 2012. Seinkun hafi orðið á afhendingu stáls í rútuskýli. Samkvæmt verkáætlun átti að byrja reisingu stálsins 21. maí 2012, en stálið hafi hins vegar ekki verið komið á byggingarstað þá. Stefndi beri ábyrgð á þeirri seinkun og verkið hafi tafist af þessum sökum um sex daga.

        Stefndi bendir á að hluti af 1. verkáfanga hafi tengst svo náið hönnun og uppbyggingu útveggjar á 2. hæð undir 2. verkáfanga að ekki varð á milli skilið. Tafir á þeim verkþætti 2. verkáfanga, þar sem verulegar tafir urðu af hálfu stefnda við að útvega staðfestingu á burðarþoli veggja á 1. hæðinni, hafi því haft bein áhrif á möguleika stefnanda til þess að vinna að þessum verkþætti er tilheyrði 1. verkáfanga, en vegna þessara tafa telur stefnandi að stefndi geti ekki krafið sig um tafabætur vegna 1. verkáfanga. Tafirnar hafi að verulegu eða öllu leyti verið á ábyrgð og áhættu stefnda og þess eðlis að útilokað var fyrir stefnanda að ljúka 1. verkáfanga fyrr en einhvern tíma eftir 14. ágúst 2012.

        Að því er varðar skilafrest vegna 2. verkáfanga bendir stefnandi á eftirfarandi atriði. Stefnandi telur að öll þau atvik er ollu töfum á skilum á hluta verkþátta í 1. verkáfanga hafi jafnframt leitt til tafa á verkþáttum í 2. verkáfanga. Því beri að viðurkenna rétt stefnanda til framlengingar á skilafresti 2. verkáfanga og þannig verktímans í heild af þessum sökum..

        Stefnandi bendir á að bráðabirgðaveggur sem verktaki á vegum stefnda reisti innan við eldri útvegg á 2. hæð hafi þurfti að vera svo langt frá útveggnum að hægt yrði með góðu móti að rífa eldri vegginn niður og endurnýta efni úr honum eins og mælt hafi verið fyrir um í verklýsingu varðandi uppbyggingu nýs útveggjar á 2. hæð. Bráðabirgðaveggurinn hafi verið staðsettur í um 5 cm fjarlægð frá útveggnum í stað 33 cm fjarlægðar að lágmarki, eins og fram kom á teikningu 687.5-B-699 frá Almennu verkfræðistofunni. Þetta hafi verið án nokkurs samráðs við stefnanda eða undirverktaka hans þrátt fyrir fyrirmæli þar að lútandi í hönnunargögnum. Reyndar hafi undirverktaki stefnanda við niðurrifið talið að hann hefði gert ráð fyrir að lágmarki 50-70 cm vinnuaðstöðu framan við bráðabirgðavegginn en það bil hafði verið í fyrri, sambærilegum verkum í flugstöðinni, sbr. orðsendingu nr. 11. Þetta hafi valdið því að erfiðara og tímafrekara reyndist að rífa útvegginn niður. Þó hafi þurft að vanda mjög til verka þar sem mælt var fyrir um það í verklýsingu, og ítrekað í orðsendingum stefnda nr. 9 og nr. 11, að endurnýta skyldi efni úr útveggnum við uppsetningu nýs útveggjar. Stefnandi hafi ítrekað bent á óhagræðið er fylgdi staðsetningu veggjarins, t.d. í orðsendingum sínum nr. 11, 12 og 17.

         Stefnandi telur að stefnda hafi borið að sjá til þess að stefnandi hefði greiðan og óheftan aðgang að verkstað almennt og einstaka svæðum á verkstað, sbr. meðal annars ákvæði 4.2.2 í ÍST 30:2012. Þá hafi stefnda borið að sjá til þess að vinna verktaka yrði samræmd, þ.e. vinna stefnanda og þess verktaka á vegum stefnda sem sá um byggingu bráðabirgðaveggjarins, sbr. ákvæði 4.2.7 í ÍST 30:2012. Þessara atriða hafi ekki verið gætt af hálfu stefnda. Stefnandi telur að verkið hafi tafist af þessum sökum og miðar við að töfin hafi numið a.m.k. átta dögum. Því beri að viðurkenna kröfu hans um þann dagafjölda.

        Stefnandi heldur því fram að stefnda hafi borið að hafa öll gögn sem skiptu máli vegna hönnunar á útvegg 2. hæðar tilbúin sem hluta af útboðsgögnum. Að minnsta kosti hafi stefnandi mátt ganga að því sem vísu að nauðsynleg gögn og upplýsingar væru til reiðu þegar burðarþolshönnuður stefnanda hæfi að hanna útvegg 2. hæðar. Á þessu hafi orðið verulegur misbrestur af hálfu stefnda og þessar vanefndir valdið verulegum töfum á hluta af 1. verkáfanga sem og töfum á framkvæmdum á útvegg á 2. hæð í 2. verkáfanga.

        Stefnandi bendir í þessu sambandi á að strax í apríl hafi verið hafist handa við hönnun útveggja 2. hæðar, sbr. verkfundargerð nr. 5, 11. dagskrárlið. Í byrjun maí hafi hann óskað eftir fundi með hönnuðum stefnda hið bráðasta þar sem hann taldi vanta talsvert af upplýsingum til þess að hægt yrði að hanna vegginn. Í samskiptum sínum við eftirlitsaðila og hönnuði stefnda í maí 2012, með tölvuskeytum, orðsendingum og í verkfundargerðum, hafi komið ítrekað fram að burðarþolshönnuður stefnanda teldi það óhjákvæmilegt að fyrir lægi staðfesting um burðarþol veggjarins á 1. hæðinni. Af hálfu burðarþolssérfræðings stefnda hefði því verið borið við að veggurinn á 1. hæðinni hefði verið hannaður af Ístaki og að hann hefði engin gögn í höndunum, hvorki teikningar né útreikninga frá Ístaki, til þess að sannreyna burðargetu samlokueininga. Hann gæti því hvorki staðfest né tekið ábyrgð á því að veggurinn á 1. hæðinni gæti ráðið við álagið frá gluggakerfinu á 2. hæðinni.

        Stefnandi bendir á að í verkfundargerð nr. 8, dags. 21. maí 2012, hafi komið fram að hönnun útveggjar á 2. hæð væri lokið og hún samþykkt af burðarþolshönnuði stefnda, en að burðarþolshönnuður stefnda gæti hins vegar ekki staðfest burð veggjar á 1. hæð aðalbyggingarinnar.

        Stefnandi bendir á að hann hafi ítrekað í júní og júlí tilmæli um að fá staðfestingu á burðarþoli veggjar 1. hæðar og með orðsendingu nr. 23 þann 11. júlí 2012 hafi hann tilkynnt um stöðvun framkvæmda á 2. hæð vegna skorts á staðfestingu á burðarþoli veggjar 1. hæðar. Jafnframt hefði verið tilkynnt að verktíminn í samningi aðila væri ekki lengur í gildi og að semja þyrfti um nýjan verktíma. Bendir stefnandi á í þessu sambandi að byggingarstjóra verksins hafi í raun verið óheimilt að láta verkframkvæmdir halda áfram meðan ekki lágu fyrir fullnægjandi upplýsingar um burðarþol veggja á 1. hæðinni.

        Stefnandi bendir enn fremur á að þann 26. júlí 2012 hafi honum borist tölvupóstur frá burðarþolshönnuði stefnda þar sem staðfest var að burðargeta eininga á 1. hæð flugstöðvarinnar væri fullnægjandi miðað við þær útfærslur sem stefnandi hefði lagt fram. Vegna sumarleyfis byggingarfulltrúa flugvallarsvæðisins, starfsmanns stefnda, hafi teikningarnar af útveggnum á 2. hæðinni ekki fengist samþykktar og stimplaðar fyrr en þann 14. ágúst 2012. Þá fyrst hafi verið heimilt að hefjast handa við reisingu útveggjarins.

        Stefnandi heldur því fram að stefnda hafi við útboð verksins borið að hafa til reiðu öll nauðsynleg gögn og upplýsingar er vörðuðu burðarþol byggingarhluta sem ætlunin var að byggja ofan á, þar á meðal stimplaðar og samþykktar teikningar af burðarvirki eldri byggingarhlutans og staðfestingu á burðarþoli hans. Stefnandi telur að stefnda hafi borið að afhenda sér slík gögn og upplýsingar eigi síðar en í apríl eða byrjun maí 2012 þegar burðarþolshönnuður stefnanda hóf hönnun útveggjar á 2. hæðinni og kallaði eftir gögnum og upplýsingum. Stefnandi telur þann drátt sem varð á afhendingu þessara upplýsinga alfarið á ábyrgð og áhættu stefnda en vegna þess hversu mjög stefndi dróg að bregðast við fyrirspurnum og tilmælum stefnanda hafi orðið gríðarlega miklar tafir á heildarverkinu. Stefnandi telur að miða eigi tafirnar við tímann frá því að hönnun útveggjar á 2. hæðinni lauk og hún var samþykkt af burðarþolshönnuði stefnda sem hafi ekki verið síðar en 21. maí 2012 til 14. ágúst 2012 þegar hönnunargögnin voru samþykkt og stimpluð af byggingarfulltrúa eða um 86-90 daga. Stefnandi telur að nær því þriggja mánaða töf í verkáfanga sem hafi átt að taka um eða innan við fjóra mánuði, miðað við dagsetningu verksamnings, feli í sér brostna forsendu fyrir umsömdum verktíma.

        Stefnandi vísar til þess að í hönnunargögnum hafi ekki komið fram fullnægjandi upplýsingar um staðfest mál lyftuops. Í verklýsingu hafi engar upplýsingar verið um frágang lyftuhússins. Stefnandi hafi vakið athygli á þessum atriðum 10. og 11. ágúst 2012. Í svari frá eftirliti þann 14. ágúst 2012 komi fram að stærðin á lyftuopinu virtist ekki vera á hreinu. Stefnandi heldur því fram að tafir hafi hlotist af þessari vanhönnun sem sé á ábyrgð og áhættu stefnda. Framlengja beri verktímann af þessum sökum um sjö daga.

        Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt grein 2.6.1 í verklýsingu átti stefndi að afhenda stefnanda fullsmíðað stálvirki, þ.e. stálgrindarbita, þakbita og stálsúlur fyrir svonefnda norðurbyggingu þann 15. mars 2012.

        Við uppsetningu stálbita á suðurhlið fyrir vegg á 2. hæðinni hafi komið í ljós að hann var of stuttur til austurs og þurfti því að lengja hann. Um þetta hafi verið bókað í verkfundargerð nr. 21 þann 3. september og svo aftur í verkfundargerð nr. 22 þann 10. september 2012. Þá hafi komið í ljós að stálbiti á austurhlið var einnig of stuttur til suðurs og því þurfti að lengja hann, sbr. verkfundargerðir nr. 23, 24, 25 og 26. Stefnandi telur ljóst að þessi vansmíð á byggingarefni sem stefndi útvegaði hafi tafið framkvæmdir um nokkrar vikur og að lengja eigi verktímann um að minnsta kosti sex vikur af þessum sökum.

        Fyrir miðjan maí 2012 hafi samningsaðilar rætt um hertar glerhurðir í glerveggjum og hvaða búnaður skyldi tengjast þeim. Stefndi hafi ákveðið að hann myndi sjálfur útvega hluta búnaðarins, nánar tiltekið „panic“-slár, segla og aðgangskortalesara. Þann 29. júní 2012 hafi stefnandi kallað eftir upplýsingum frá stefnda um hvort gera ætti ráð fyrir þessum búnaði við smíði hurðanna sem þá var að hefjast, en svar hafi ekki borist stefnanda fyrr en 21. ágúst 2012. Stefnandi telur þessar tafir á ábyrgð stefnda, en þær hafi átt sinn þátt í því að heildarverkið tafðist og rétt sé að miða við að minnsta kosti þriggja vikna töf og samsvarandi lengingu verktímans af þessum sökum.

          Samkvæmt grein 7.2.1 í verklýsingu hafi stefnandi átt að rífa niður austurvegg aðalbyggingar á 2. hæð og reisa nýjan vegg utar, eftir atvikum og eins og kostur var með því að endurnýta efni úr eldri veggnum. Hins vegar hafi hvorki í verklýsingu né magnskrá verið að finna lýsingu á eða fyrirmæli um niðurrif suðurveggjar. Stefnandi hafi talið þetta vera aukaverk og hefur krafist greiðslu fyrir það, sbr. nánar um aukaverk síðar. Stefnandi heldur því jafnframt fram að bæta eigi við verktímann fimm dögum vegna þessa aukaverks en það sé sá tími sem fór í verkið.

        Stefnandi telur að lengja eigi verktímann vegna þess að framkvæmdir færðust yfir á óhagstæðari árstíma vegna atvika sem voru á ábyrgð og áhættu stefnda. Stefnandi bendir í þessu sambandi á að samkvæmt verkfundargerð nr. 21 var ekki hægt á föstudeginum 31. ágúst að vinna að uppsetningu veggja og glugga á 2. hæð vegna vinds. Ekki hafi heldur verið hægt að vinna að þessum verkþáttum mánudaginn 10. september og samkvæmt verkfundargerð nr. 24 urðu tafir í tvo daga við lokun útveggja 2. hæðar vegna roks. Einnig urðu tveggja daga tafir vegna þess sama samkvæmt verkfundargerð nr. 25 og eins dags töf samkvæmt verkfundargerð nr. 26. Samkvæmt verkfundargerð nr. 28 hafði veðrið undanfarið verið erfitt og tafið útivinnu og hið sama var bókað í verkfundargerð nr. 29. Ekki sé getið um dagafjölda í tveimur síðastnefndum verkfundargerðum en stefnandi telur að tafirnar hafi numið alls sex dögum. Alls hafi tafir vegna veðurs verið að minnsta kosti 13 dagar og framlengja beri verktímann sem því nemi.

        Stefnandi vísar til þess að fljótlega eftir opnun tilboða og leiðréttingu þeirra vegna villna í tilboðsskrá hafi umsjónarmaður stefnda í verkinu upplýst að það gæti tekið allt að þremur mánuðum að fá aðgangsheimildir fyrir starfsmenn og undirverktaka. Fram komi í verkfundargerð nr. 2, dags. 2. apríl 2012, að stefnandi var búinn að skila inn umsóknum um aðgang að flugverndarsvæði fyrir alla lykilstarfsmenn og myndi skila inn umsóknum fyrir undirverktaka samdægurs og daginn eftir. Hægt hafi gengið að fá umsóknir afgreiddar, í lok apríl hafi fjórir starfsmenn verið komnir með aðgangsheimild að flugverndarsvæðinu og sex starfsmenn þann 14. maí.

        Stefnandi vísar til þess að í verkfundargerð nr. 17, dags. 30. júlí 2012, geri hann athugasemdir vegna óeðlilega mikils dráttar á því að útvega aðgangsheimildir fyrir tvo rafvirkja og tvo blikksmiði. Athugasemdin sé ítrekuð í verkfundargerð nr. 18. Í verkfundargerð nr. 20, dags. 27. ágúst 2012, komi fram að einhver misskilningur hafi verið við afgreiðslu umsókna sem olli töfum á útgáfu aðgangsheimilda. Upplýst hafi verið að ferlið tæki nú aðeins um 10 daga í stað þriggja mánaða áður. Samkvæmt þessu hafi tekið tæpan mánuð að leiðrétta misskilninginn sem valdið hafði töfum á afgreiðslu aðgangsumsókna þeirra sem þurfti að vinna að verkinu.

        Stefnandi telur að hinn langi afgreiðslufrestur á umsóknum um aðgangsheimildir leiði enn betur í ljós hversu óraunhæfur verktími framkvæmdanna var, þ.e. einungis fjórir og hálfur mánuður samkvæmt upphaflegri áætlun stefnda en tæplega fjórir mánuðir frá undirritun verksamnings. Stefnandi telur að af þessum sökum beri að lengja verktímann um að minnsta kosti þrjá mánuði og þá sé meðal annars haft í huga að það hafi tekið nær sex vikur að afgreiða fyrstu umsóknirnar á upphafsstigum verksins.

         Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt greinum 5.4.1, 7.3.1 og 7.3.2 í verklýsingu áttu klæðningarplötur að vera með tilgreindum lit. Plötur með þessum lit var ekki hægt að kaupa frá efnissölum nema í magni sem var langt umfram það sem þurfti í verkið. Stefndi og arkitektar hans höfnuðu tillögu stefnanda um að notaðar yrðu álplötur í sambærilegum lit, örlítið frábrugðnum hinum tilgreinda lit í verklýsingunni. Stefnandi hafi því ekki átt annan kost en þann að senda álplötur í pólýhúðun til þess að uppfylla litaskilyrðin en slíkt hafði verið gert í fyrri framkvæmdum í flugstöðinni án þess að þeirrar aðferðar hefði verið getið í útboðsgögnum. Af þessu hlaust umtalsverður viðbótarkostnaður og einnig verulegar tafir á þessum verkþætti en flytja hafi þurft plöturnar í mörgum ferðum nokkra leið á verkstæði til húðunar og svo til baka á verkstað. Stefnandi telur að stefndi beri ábyrgð á þessum töfum og að framlengja beri verktímann af þessum sökum um tvær til þrjár vikur.

        Samkvæmt grein 0.3.0 í útboðslýsingu útvegaði stefndi allar gólfflísar í verkið. Stefnandi telur að það hafi hvílt á stefnda að hafa nægar flísar á verkstað þegar á þyrfti að halda. Stefnandi telur að stefnda hafi verið það í lófa lagið að láta hönnuði sína reikna út magn flísa, og viðbótarmagn til öryggis á lager, og tryggja þannig að ekki yrði skortur á þeim. Þetta hafi verið sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að flísarnar í flugstöðinni eru ekki framleiddar nema samkvæmt pöntun hverju sinni og fást ekki afgreiddar frá framleiðanda nema með nokkurra mánaða afgreiðslufresti. Í þessu tilviki hafi flísarnar verið pantaðar í lok nóvember 2012, en að þær hafi ekki verið til afhendingar hjá innflytjandanum, S.Helgasyni, fyrr en 23. mars 2013. Stefnandi heldur því fram að vegna hins langa afgreiðslufrests hafi stefndi þurft að panta nægilegt magn flísa áður en verkið var boðið út. Útilokað hafi verið fyrir hvern þann verktaka sem tæki verkið að sér að skila því á hinum afar skamma verktíma vegna skorts á flísum. Stefnandi telur að þegar af þessari ástæðu hafi brostið forsendur fyrir skilafrestum í verkinu og að fallast beri á kröfur stefnanda um verulega lengingu verktímans vegna flísaskortsins eða að minnsta kosti um 5-6fimm til sex mánuði.

        Stefnandi bendir síðan á að erfitt hafi verið að fá sumt byggingarefni sem hönnuðir gerðu ráð fyrir þar sem það var ekki lagervara hjá seljendum byggingarefnis. Á verktímanum hafi stefnandi lýst áhyggjum sínum vegna afgreiðslu efnismála en þetta tafði efniskaup og framkvæmd verksins.

        Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. verksamnings aðila skyldi fara um greiðslu tafabóta samkvæmt grein 0.4.2 (svo – á væntanlega að vera grein 0.3.2) í útboðs- og verklýsingu, lyki stefnandi ekki verkáföngum á tilskildum tíma. Stefnandi heldur því fram að hvorki í verksamningi aðila né í útboðs- og verklýsingu sé að finna ákvæði er heimilað hafi stefnda að halda eftir greiðslum samkvæmt framvindureikningum. Þvert á móti hafi stefndi sjálfur, samkvæmt grein 0.4.1 í útboðslýsingu verksins, ákveðið að tryggja sér að verktakinn stæði við skuldbindingar sínar, þar á meðal greiðslu tafabóta samkvæmt grein 0.3.2 í útboðslýsingunni, með því að áskilja að framkvæmdatrygging verktakans næði til greiðslu tafabóta. Stefnandi bendir á að samkvæmt grein 0.3.3 í útboðslýsingunni sé kveðið á um greiðslur og reikningsskil. Þar sé meðal annars vísað til kafla 5.1 í ÍST 30 en ekkert í þeim kafla staðalsins feli í sér heimild til handa verkkaupa til að áskilja sér rétt til að halda eftir greiðslum af framvindureikningum vegna hugsanlegra tafabóta. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt grein 0.1.5 í útboðslýsingunni víki ákvæði ÍST 30 ef þau stangist á við ákvæði útboðs- og verkskilmála og/eða verklýsingar.

        Samkvæmt framangreindu telur stefnandi að stefndi hafi ekki haft samningsbundna heimild til þess að halda eftir að hluta til eða öllu leyti greiðslum samkvæmt framvindureikningum. Sú aðgerð stefnda í máli þessu, að halda eftir á ólögmætan hátt um 25 milljónum króna af framvindureikningum stefnanda, hafi valdið stefnanda verulegum erfiðleikum við framkvæmd verksins og meðal annars haft þau áhrif að verkið tafðist vegna erfiðleika stefnanda við að greiða birgjum og undirverktökum sínum. Stefnandi telur því að hann eigi rétt til framlengingar verktímans af þessum sökum um að minnsta kosti sex vikur.

       Stefnandi vísar til þess að um 80 aukaverk hafi þurft að vinna til þess að ljúka við framkvæmdir. Stefnandi telur að þessi mikli fjöldi aukaverka í verki sem einungis átti að vinnast á tveimur til fjórum mánuðum, sýni glögglega hversu vanbúið verkið var til útboðs. Stefnandi telur ekki óvarlegt að áætla að verktíminn hafi lengst um að minnsta kosti tvo til þrjá mánuði, eingöngu vegna ófyrirséðra en umbeðinna auka- og viðbótarverka.

       Þá hafi stefnandi reist nýjan vegg við vörugeymslu með brunamótstöðuviðmiði EI-60. Stefndi taldi frágang veggjar við loft vera ófullnægjandi og ekki standast kröfur um brunaþol. Engin hönnunargögn voru um frágang veggjarins við loftið og deildu aðilar um hvort sérstaka hönnun þyrfti til að unnt yrði að ganga réttilega frá veggnum. Stefnandi heldur því fram að hann hafi reist vegginn samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og í samræmi við veggi sem fyrir voru á svæðinu. Hafi eitthvað skort upp á að veggurinn og tenging hans við loftið hafi verið fullnægjandi, hafi það verið hlutverk stefnda og hönnuða hans að útvega fullnægjandi hönnunargögn sem hægt yrði að fara eftir. Stefnandi telur að tafir vegna þessa sem séu á ábyrgð og áhættu verkkaupans nemi fjórum til sex vikum. Þá hafi aðilar deilt um þakhalla, hvort missmíði væri á þakinu og ef svo væri, hverjar væru orsakir hennar. Stefnandi telur sig hafa farið eftir hönnunargögnum um burðarvirki þaksins og því sé um hönnunargalla að ræða ef þakhalli er ekki nægilegur. Stefnandi telur að tafir á verkinu vegna þessarar deilu við stefnda nemi fjórum til sex vikum.

         Að öllu framangreindu virtu telur stefnandi yfirgnæfandi rök vera fyrir þeirri kröfu sinni að ógilda beri eða víkja til hliðar verktíma- og tafabótaákvæði í verksamningi aðila, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Stefnandi telur að í stað upphaflega ákveðins verktíma beri í þessu máli að miða við hina almennu reglu í íslenskum verksamningarétti, að hafi ekki verið samið um ákveðinn verktíma beri verktaka að vinna verk og skila því með hæfilegum hraða, að teknu tilliti til allra atvika.

        Stefnandi telur að þegar litið sé á málið í heild sé um svo stórfelld og mörg tilvik að ræða að í raun sé með engu móti hægt að ætlast til þess að verki af þessu tagi ljúki á styttri tíma en 9-12 mánuðum. Stefnandi telur, með vísan til allra framangreindra atriða sem hann telur hafa átt ríkan þátt í því að ekki reyndist unnt að ljúka verkinu innan tilgreinds tíma í samningi aðila, að viðurkenna beri rétt sinn til verulegrar lengingar verktímans í báðum verkáföngum, að álitum um ekki skemmri tíma en sjö til átta mánuði í heild frá 1. ágúst 2012. Stefnandi telur sig eiga samningsbundinn rétt til slíkrar lengingar verktímans, sbr. grein 5.2.2 í ÍST-30:2012.

        Varðandi tafabætur þá byggir stefnandi á því með vísan til umfjöllunar sinnar um verktímann og brostnar forsendur fyrir honum, svo og réttmæti kröfu sinnar að öðrum kosti um framlengingu skilafresta 1. og 2. verkáfanga og verktímans í heild, að stefndi eigi ekki lögvarinn rétt til tafabóta og því hafi stefndi á óréttmætan hátt haldið eftir stórum hluta framvindugreiðslna, stefnanda og undirverktökum hans til stórfellds tjóns. Stefnandi bendir jafnframt á að sú fjárhæð tafabóta sem stefndi hefur haldið eftir af framvindureikningum sé um 12% af heildasamningsfjárhæð fyrir verkið en slík fjárhæð, verði á hana fallist, sé óbærilega há fyrir hvern þann verktaka sem lendir í viðlíka aðstæðum og stefnandi gerði í þessu verki.

        Stefnandi heldur því fram að ákvæði í verksamningnum um tafabætur miðist við að verkkaupi verði í raun fyrir tjóni vegna dráttar á afhendingu, enda sé kveðið á um það í grein 5.2.6 í ÍST-30 að tafabætur skuli áætlaðar miðað við hugsanlegt tjón. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni þótt 1. verkáfanga hafi ekki að öllu leyti verið lokið þann 1. júní 2012. Þannig hafi stórum hluta 1. verkáfanga eða um 60% verið skilað þann 1. júní 2012, eins og samkomulag var um, og aðgengi komufarþega hafi verið tryggt, sá verkþáttur tekinn út og notkun hans heimiluð. Skömmu síðar hafi komið í ljós að stefndi þurfti ekki að nota þessa aðkomuleið fyrir farþega svo sem ítrekað var bókað í verkfundargerðum.

        Stefnandi telur að samkvæmt grein 5.2.7 í ÍST-30:2012 hafi verið skylt að endurskoða ákvæðið um tafabætur í verksamningnum þegar búið var að tryggja aðgengi farþega og heimila notkun þess verkhluta. Slíkt hafi hins vegar aldrei komið til greina af hálfu stefnda eins og bókanir í verkfundargerðum beri með sér. Stefnandi telur að stefndi hafi með þessu brotið gegn samningsbundinni skyldu sinni gagnvart stefnanda og valdið stefnanda margháttuðu óhagræði og tjóni.

        Stefnandi telur það einnig hafa töluverða þýðingu að aðrir verkþættir í 1. verkáfanga, þ.e. reising stiga- og lyftuhúss, tenging þess við 2. hæð flugstöðvarinnar, og utanhússfrágangur á 2. hæðinni að nokkru leyti, hafi út frá rökréttu verkskipulagi og nýtingaráformum stefnda tengst 2. verkáfanga en ekki 1. verkáfanga. Ljóst sé að þessir hlutar byggingarinnar hefðu aldrei nýst stefnda á nokkurn hátt öðruvísi en í beinum tengslum við frágang og nýtingu rýmisins á 2. hæðinni. Raunar liggi ekki fyrir hvers vegna þessir verkþættir voru flokkaðir með 1. verkáfanga í stað 2. verkáfanga, verkþættir sem átti að ljúka við á tæplega tveggja mánaða verktíma. Tilviljun ein virðist hafa ráðið þessari verkáfangaskiptingu. Af þessu leiðir að stefndi hefði aldrei getað orðið fyrir neinu tjóni þótt þessum verkþáttum yrði ekki skilað 1. júní 2012.

         Verði ekki fallist á kröfu stefnanda um framlengingu skilafrests og höfnun á tafabótum til handa stefnda vegna þess telur stefnandi að hafna beri kröfu stefnda um tafabætur þar sem hann hefur á engan hátt gert grein fyrir slíkri kröfu. Stefnandi haldi því fram að stefndi hafi ekki gert sér neina grein fyrir tafabótunum með sundurliðuðu og rökstuddu yfirliti. Stefndi hafi einungis haldið eftir rúmlega 25 milljónum króna án þess að gera nokkra grein fyrir dagafjölda, tímabili eða öðrum atriðum sem skipta máli fyrir stefnanda og undirverktaka hans. Vegna þessa tómlætis stefnda hafi hann fyrirgert öllum rétti sínum til tafabóta úr hendi stefnanda, hafi slíkur réttur verið til staðar á annað borð.

        Hvort sem fallist verði á kröfu stefnanda um synjun á rétti stefnda til tafabóta að nokkru eða öllu leyti telur stefnandi að gjalddagi slíkrar kröfu stefnda, eigi hún rétt á sér á annað borð, geti enn ekki verið runninn upp og vísar stefnandi í því sambandi til áðurnefnds tómlætis stefnda um að gera grein fyrir kröfu sinni og grundvelli hennar. Að auki vísar stefnandi til umfjöllunar sinnar í lið 2.1.10-19 um tafir vegna greiðsludráttar á framvindureikningum. Tafabætur hafi verið innifaldar í framkvæmdatryggingu samkvæmt grein 0.4.1 í útboðslýsingu verksins en með því að fella fyrirkomulag tafabóta í þann farveg sem þar sé kveðið á um, sé ljóst að stefndi var bundinn af því að gera þau mál upp, þ.e. kröfu um tafabætur og ágreining þar um, í lok verksins.

         Stefnandi telur að alla vanrækslu stefnda beri að meta honum í óhag, þar á meðal að því er varðar það tímamark þegar krafa telst nægilega sundurliðuð og upplýst til þess að geta talist greiðslukræf. Stefnandi vísar til þess að hann hafi í orðsendingu sinni nr. 36, dags. 23. október 2012, auk þess að mótmæla tafabótarétti stefnda, bent stefnda á að hann hefði ekki fengið í hendur neina útreikninga á tafabótakröfum stefnda vegna peninga sem stefndi hefði haldið eftir af framvindureikningum stefnanda. Stefndi hafi samkvæmt þessari ábendingu haft fullt tilefni til að gera nánari grein fyrir kröfu sinni og rökstyðja hana.

        Þá telur stefnandi að stefnda hafi einungis verið heimilt að reikna 100.000 króna tafabætur á báða verkáfanga, hafi stefndi á annað borð átt rétt á tafabótum, en ekki 100.000 króna tafabætur á hvorn verkáfanga fyrir sig. Orðalag greinar 0.4.2 í verksamningi aðila beri ekki skýrt með sér að stefndi geti krafist tilgreindrar fjárhæðar fyrir hvorn verkáfanga. Stefnandi telur að óskýrleika í orðalagi ákvæðisins beri að skýra sér í hag en stefnda í óhag.

         Varðandi kröfur sínar vegna aukaverka og viðbótarkostnaðar þá vísar stefnandi til þess að á verktímanum hafi þurft að leysa fjölmörg vandamál vegna óvæntra atvika og vanhönnunar verksins. Mörg aukaverk hafi fallið til og margvíslegur viðbótarkostnaður. Margir aukaverkareikningar stefnda hafi verið samþykktir og greiddir en öðrum hafnað. Rétt sinn til greiðslu þessara reikninga byggir hann á verksamningi málsaðila, ákvæðum ÍST-30:2012 og almennum reglum íslensks verksamningaréttar um greiðsluskyldu verkkaupa á aukaverkum og viðbótarkostnaði.       

        Eins og rakið hefur verið lagði stefnandi við aðalmeðferð fram breytta kröfugerð og féll frá ákveðnum kröfum. Hér verður eingöngu vikið að þeim kröfum sem eftir standa. Kröfum stefnanda um greiðslu fyrir aukaverk og viðbótarkostnað, er nánar lýst svo:

       Aukaverk nr. 12 – gólf í farþegagangi. Samkvæmt lið 5.1.1 Gólfílögn í verklýsingu komi fram að reikna skyldi með því að undirlag gólfílagnar yrði að grunna með óþynntum múrgrunni af heppilegri gerð. Að hluta til hafi þurft að undirbúa gólfílögnina á annan hátt, þ.e. að slípa gólf í farþegagangi, lakka það og strá sandi í lakkið, í stað þess eingöngu að grunna flötinn, og af þessu hafi hlotist meiri vinna en stefnandi telur sig hafa mátt búast við. Stefnandi krefur stefnda því um aukakostnað sem af þessu hlaust. Viðbótarvinna múrara hafi verið 20 tímar á tímagjaldinu 5.760 krónur eða samtals 115.200 kr. og efniskostnaður 32.808 kr. með umsömdu 10% álagi á efniskaup. Heildarkostnaður hafi því verið 148.008 kr. m/vsk.

        Aukaverk nr. 16 – uppsetn. á blikkstoðum í rútuskýli. Samkvæmt lið 7.2.5. í verklýsingu, þar sem fjallað var um vegg milli vörumóttöku og stigahúss/rútubiðskýlis, skyldi veggurinn uppbyggður af stálgrind. Stefnandi bauð einungis í reisingu stálgrindarinnar en ekki í útvegun efnis eða smíði. Stefnandi heldur því fram að við útboð verksins hafi ekkert komið fram á teikningum sem gaf til kynna að honum bæri að útvega blikkstoðir til þess að nota í þessum verklið. Stefnandi bendir á að samkvæmt útboðsteikningu nr. X38-03 hafi verið gert ráð fyrir reisingu 150x150 mm RHS stálgrindar sem stefndi átti samkvæmt kafla 2.6 í verklýsingu að útvega. Þann 12. maí 2012 hafi eftirlitsmaður stefnda sent uppfærða teikninguna nr. X38-03 og þar hafi fyrst komið fram upplýsingar um lóðréttar, heilsinkhúðaðar blikkstoðir. Í tölvupósti stefnanda til eftirlitsmanns þann 24. maí 2012 var bent á þetta atriði og jafnframt að af þessari breytingu hlytist kostnaðarauki. Hönnuður verkþáttarins hafi talið stoðirnar hafa komið fram á teikningum nr. 41.29 (deili J) og með texta á teikningu nr. 38.03, svo og hafi þær verið sýndar á teikningu nr. 20.26. Stefnandi telur hins vegar teikningu nr. 41.29 sýna allt annan vegg en þann sem kröfuliður þessu snýst um. Þá sé blikkstoða ekki getið á útboðsteikningu nr. 38.03. Loks bendir stefnandi á að teikning nr. 20.26 sé af einangruðum bogavegg sem sé útveggur fyrri framkvæmda. Þá hafi hann þurft að spyrjast sérstaklega fyrir um þykkt á efni blikkstoða, enda hafði þessa efnis ekki verið getið eða því lýst í útboðsgögnum.

        Stefnandi krafði stefnda um greiðslu fyrir þetta aukaverk og samkvæmt sundurliðunarblaði stefnanda nam viðbótarvinnan við reisingu blikkstoðanna 665.280 krónum en efniskostnaður 747.198 krónum eða samtals 1.412.478 krónum. Stefnandi telur stefnda eiga að greiða þennan aukakostnað vegna efnis sem ekki var getið í útboðsgögnum, enda hafi stefndi ekki sýnt fram á að krafan sé ósanngjörn.

        Aukaverk nr. 17 – niðurrif á austurvegg. Samkvæmt grein 7.2.1 í verklýsingu átti verktaki að taka niður austurvegg annarrar hæðar og endurnýta það sem nýtilegt yrði, svo sem glugga, gler, klæðningar og sólskerma, við uppbyggingu og frágang nýrra útveggja, sbr. orðsendingar eftirlitsmanns stefnda nr. 9 og 11. Efni sem verktakinn teldi sig geta endurnýtt við nýjan útvegg skyldi vera í vörslu og á ábyrgð verktakans og skyldi hann gæta þess að efnið yrði ekki fyrir hnjaski. Vísað var til teikninga arkitekta nr. X22-210 (grunnmynd 2. hæðar, veggir og hurðir, yfirlit, svæði B2/B3), X19-35 (hliðarmyndir suður og austur), X19-36, X19-43 (skurðir) og X1-34 (##).

        Samkvæmt texta á teikningu X22-210 skyldi reisa bráðabirgðaútvegg á byggingartíma en nákvæm gerð hans og staðsetning átti að vera í samráði við stefnda og stefnanda. Vísað var til teikningar Almennu verkfræðistofunnar. Sú teikning, nr. 687.5-B-699, hafi hins vegar ekki legið fyrir þegar útboðið fór fram og fékk stefnandi hana í hendur síðar en ekki frá stefnda. Stefndi fékk annan verktaka til þess að reisa bráðabirgðavegginn en sá verktaki hafði ekkert samráð við stefnanda við þá framkvæmd. Þegar til kom hafi bráðabirgðaveggurinn verið staðsettur svo nálægt útveggnum sem átti að rífa niður eða einungis í 6 cm fjarlægð, að mjög erfitt hafi reynst að koma við tækjum á þeirri hlið útveggjarins sem sneri að bráðabirgðaveggnum. Ekki hafi verið orðið við kröfu stefnanda um að bráðabirgðaveggurinn yrði fjarlægður. Vegna hins takmarkaða athafnarýmis milli veggjanna hafi reynst mjög erfitt að koma við mannskap og tækjum til þess að ná niður óskemmdu efni í útveggnum sem stefnanda var uppálagt í verklýsingu að gera ráð fyrir að nýta við uppbyggingu nýs útveggjar á 2. hæð flugstöðvarinnar.

        Stefnandi heldur því fram að hann hafi samkvæmt verklýsingu mátt búast við fullnægjandi vinnuaðstöðu við niðurrif útveggjar þar sem gert var ráð fyrir endurnýtingu efnis við byggingu nýs útveggjar. Stefnandi gerði athugasemdir vegna staðsetningar bráðabirgðaveggjarins þann 30. apríl 2012, í verkfundargerð nr. 5, dagskrárlið 29 og með orðsendingum nr. 11 og 12. Stefnandi heldur því fram að stefndi beri áhættu af og ábyrgð á staðsetningu bráðabirgðaveggjarins og þeim aukakostnaði sem af hlaust við niðurrif útveggjarins. Tilboð stefnanda í þennan verklið var 1.980.000 kr. og var miðað við að fullnægjandi aðstaða væri til niðurrifs útveggjar á þann hátt að endurnýta mætti sem mest af byggingarefni í honum í hinn nýja útvegg sem reisa átti. Raunkostnaður hafi hins vegar orðið 3.606.480 kr. eða um 82% hærri en reiknað var með í tilboðinu. Stefnandi heldur því fram að í raun hafi forsendan fyrir tilboði sínu í þennan verklið brostið enda hafi tilboðið miðast við allt aðrar og betri vinnuaðstæður en raunin varð.

         Krafa stefnanda í þessum lið stefnukröfunnar er mismunurinn á tilboðsfjárhæðinni og raunkostnaði við niðurrif veggjarins, þ.e. 1.626.480 kr., og byggist m.a. á dagskýrslum sem stefndi sé með afrit af. Stefnandi telur að stefnda beri að greiða sér þessa kröfu enda hafi hann ekki sýnt fram á að hún sé ósanngjörn.

        Aukaverk nr. 29 – plex á þaki rútuskýlis: állistar o.fl. til festingar. Stefndi hafi keypt eða látið útbúa állista og aðrar festingar fyrir plexígler á þaki rútuskýlis en þegar til átti að taka fundust þær ekki. Til þess að stöðva ekki þennan verkþátt keypti stefnandi því festingarnar. Samkvæmt ábendingu eftirlitsmanns var sett fram hófleg krafa um greiðslu þessa viðbótarkostnaðar. Stefnda beri að greiða stefnanda þennan viðbótarkostnað að fjárhæð 140.130 kr. enda hafi hann ekki sýnt fram á að hann sé ósanngjarn.

        Aukaverk nr. 32 – epoxy-gólf í vörumóttöku. Á verkfundi þann 9. júlí 2012 hafi stefnandi bent á að epoxy-gólf í vörumóttöku hafi vantaði í verklýsingu og magnskrá. Þess vegna væri þessi verkliður aukaverk. Í verkfundargerðinni hafi verið bókað að þar sem epoxy-gólfið hafi vantað í verklýsingu og magnskrá skyldi stefnandi bæta við nýju epoxyi við núverandi gólf, í sama lit og fyrir væri. Hafa skyldi skilin milli nýs og gamals epoxy-gólfs þannig að sem minnst bæri á þeim. Fulltrúi stefnda, eftirlitsmaður með verkinu, óskaði eftir tilboði frá stefnanda í fermetraverð á niðurlögn á umræddu epoxy-gólfi áður en farið yrði í þennan verklið. Samkvæmt aukaverkareikningi stefnanda nr. 32 krafði hann stefnda um greiðslu á 208.224 kr. vegna þessa aukaverks. Miðaðist reikningsfjárhæðin að hluta til við efniskostnað við flotun undir epoxy, svo og við niðurlögn á epoxy-efninu, en stefnandi fékk undirverktaka til þeirrar vinnu. Stefndi hafi gert athugasemdir við kröfuna á 23. verkfundi þann 17. september 2012 og  síðan hafnað kröfunni, í tölvupósti þann 19. október 2012. Stefnandi telur reikningsfjárhæðina vera hóflega og sanngjarna og að stefnda beri að greiða sér hana enda hafi stefndi ekki sýnt fram á að krafan sé ósanngjörn. Stefnandi bendir á að þótt flatarmál gólfsins hafi verið tiltölulega lítið hafi þurft sérstaka aðgætni við verkið. Um vandasama vinnu við rennu og niðurföll hafi verið að ræða með vatnshalla á gólfinu.

        Aukaverk nr. 34 – uppsetning á stálvirki í norðurbyggingu, stiga o.fl. Í tilboði stefnanda í uppsetningu stálvirkis í norðurbyggingu, stiga og lyftuhúsi og í rútuskýli hafi verið gengið út frá magnáætlun í útboðsgögnum en tilboðsverð miðaðist við þyngd stáls. Ágreiningslaust er með aðilum að þyngd stálvirkis í norðurbyggingu var 491,50 kg minni en samkvæmt tilboðinu. Þyngd stálvirkis fyrir stiga og lyftuhús reyndist vera 537,9 kg meiri og þyngd stálvirkis í rútuskýli reyndist vera 1.912,20 kg meiri en samkvæmt magntölum í útboðsgögnum. Einingarverð í hvern lið stálvirkis samkvæmt tilboði var eftirfarandi:

                                           Ein.verð:               Magnbreyting (kg):            Verðbreyting:

Norðurbygging 150 kr.                   -491,5                                   -73.725

Stigi og lyftuhús              310 kr.                   537,9                                     166.749

Rútuskýli                          315 kr.                   1.912,20                               602.343

                                                                                                                         __________

Alls                                                                                                                   695.367 krónur

        Með 10% álagi nemi heildarkrafa stefnanda 764.903 kr. sem stefnda beri að greiða samkvæmt verksamningi aðila. Stefnandi fellst ekki á það sjónarmið eftirlitsaðila að ekki eigi að greiða fyrir mismun frá áætluðu magni ef mismunurinn nemur minna en 10%, sbr. tölvupóst frá 8. nóvember 2012.

        Aukaverk nr. 44 – Icopal-dúkur og krossviður fjarlægður, förgun efnis. Áður en uppbygging á útvegg 2. hæðar flugstöðvarinnar hófst þurfti stefnandi meðal annars að rífa Icopal-dúk ofan af vegg 1. hæðar, svo og að fjarlægja krossvið ofan á og af vegg 2. hæðar undir glugga og farga efninu. Stefnandi telur þetta vera aukaverk enda hafi þess í engu verið getið í verklýsingu að rífa þyrfti dúk eða fjarlægja krossvið. Krafa stefnanda tekur mið af vinnutímum smiða (24 klst.) og ófaglærðra starfsmanna (20 klst.), en heildarkrafan nemur 234.940 kr. Stefnda beri að greiða fyrir þetta aukaverk umkrafða fjárhæð enda hefur hann ekki sýnt fram á að kröfufjárhæðin sé ósanngjörn. Stefnandi bendir í þessu sambandi á að væntanlegum bjóðendum gafst ekki kostur á að skoða aðstæður á þessu verksvæði í vettvangsgöngu þar sem engum bjóðenda var leyft að fara inn fyrir. Vinna við þennan verklið hafi reynst allt öðruvísi og til muna tafsamari og erfiðari en búast hafi mátti við ef tekið er mið af verklýsingu.

         Aukaverk nr. 49 – útveggjaeiningar ofan við gluggavegg. Samkvæmt verksamningi aðila átti stefnandi að hanna nýjan útvegg á 2. hæð. Við niðurrif eldri útveggjar átti stefnandi að endurnýta allt það byggingarefni sem unnt væri, svo sem glugga, gler, klæðningar og sólskerma, við uppbyggingu hins nýja veggjar, sbr. orðsendingar eftirlitsmanns stefnda nr. 9 og 11. Teikningar af uppbyggingu eldri útveggjarins voru ekki með útboðsgögnum og þurfti stefnandi því að geta sér til um uppbyggingu hans þegar gengið var frá tilboðinu. Þá var ekki unnt að skoða útvegginn í vettvangsgöngu bjóðenda þar sem þeim var ekki hleypt inn í flugstöðina. Í tilboðinu var gert ráð fyrir endurnýtingu efnis úr gamla veggnum. Þar sem bráðabirgðaveggur, sem reistur var rétt innan við eldri útvegginn (sjá lýsingu í aukaverki nr. 17), var hafður alltof nálægt veggnum sem rífa átti, var ekki unnt að rífa útvegginn án þess að eyðileggja byggingarefnið í honum að meira eða minna leyti. Á því beri stefndi ábyrgð. Stefnandi telur að vegna þess að ekki reyndist unnt að endurnýta byggingarefnið úr gamla útveggnum hafi þurft að smíða og leggja til umtalsvert meira af byggingarefni en ella hefði orðið og reiknað var með í tilboði stefnanda. Stefnandi telur að stefndi eigi að standa straum af þeim viðbótarkostnaði sem af þessu hlaust enda hafi það verið á ábyrgð hans að bráðabirgðaveggurinn var reistur of nálægt útveggnum sem rífa skyldi.

        Stefnandi hafi sundurliðað og gert ítarlega grein fyrir kostnaðinum í þessum kröfulið, bæði efni og vinnu og stefndi hefur ekki sýnt fram á að krafa stefnanda, 2.074.699 kr., sé ósanngjörn.

       Aukaverk nr. 52 – hellulögn við/undir flóttastiga. Ágreiningslaust sé að stefnandi vann aukaverk við hellulögn við og undir flóttastiga en upphaflega átti að steypa flötinn sem var hellulagður. Aðilar séu hins vegar ekki á einu máli um kröfufjárhæð stefnanda, 289.747 kr. Stefnandi telur sig hafa gert stefnda viðhlítandi grein fyrir þessum viðbótarkostnaði og hvernig hann sundurliðast. Stefnandi sé ósammála eftirlitsmanni um að krafan sé óeðlilega há. Vinna hafi þurft við hellulögnina á erfiðum stað. Ekki var auðvelt að koma fyrir tækjum eða að vinna þetta eins og þegar hellulagt er með nægu athafnarými. Stefnandi telur að ekki sé unnt að nota viðmiðunartölur úr byggingarlykli Hannars enda séu tölur þar miðaðar við allt aðrar og betri vinnuaðstæður. Stefnandi telur stefnda ekki hafa sýnt fram á að kröfufjárhæðin sé ósanngjörn og því beri stefnda að greiða hana.

        Aukaverk nr. 53 – opna bráðabirgðavegg inn á Panoramabar, o.fl. Til þess að ná gólfinu í nýju byggingunni í rétta hæð hafi þurft að ná í hæðarkóta á eldra gólfinu innan við bráðabirgðavegginn sem reistur var áður en eldri útveggur var rifinn niður. Útilokað hafi verið að gera það á annan hátt en þann að útbúa hurð á bráðabirgðaveggnum í því skyni. Stefnandi heldur því fram að hann hafi ekki getað reiknað með þessu verklagi út frá verklýsingu og þannig ekki getað tekið það með í útreikning á tilboði sínu. Stefnandi bendir sérstaklega á að ekki hafi verið hægt að taka gólfhæðina á nýja svæðinu áður en bráðabirgðaveggurinn var reistur enda hafi svæðið þá verið hluti af þaki 1. hæðar með dúk og hellum ofan á sem rífa þurfti af og hreinsa áður en mæling færi fram. Stefnandi telur að stefnda beri að greiða kostnað vegna þessa að fjárhæð 147.920 kr. og stefndi hafi ekki sýnt fram á að hún sé ósanngjörn.

       Aukaverk nr. 55 – fjarlægður brunnur undir stigahúsi, o.fl. Ágreiningslaust sé að stefnandi vann aukaverk við að fjarlægja brunn undir stigahúsi. Grafa þurfti frá brunninum og fjarlægja hann. Einnig gróf stefnandi fyrir frárennslislögnum og mokaði yfir. Fyrir þessa vinnu krefur stefnandi stefnda um greiðslu vegna 12 klst. vinnu ófaglærðra starfsmanna og 4 klst. vinnu á hjólagröfu. Eftirlitsmaður stefnda telur að verkþátturinn hafi tekið mun styttri tíma og samþykkti því greiðslu miðaða við 50% af kröfu stefnanda. Stefnandi er ósammála stefnda að þessu leyti og telur sig hafa gert fullnægjandi grein fyrir kröfu sinni að fjárhæð 109.940 kr. Stefndi hafi hins vegar ekki sýnt fram á að kröfufjárhæðin sé ósanngjörn og því beri honum að greiða kröfuna.

        Aukaverk nr. 57 – aðlögun flísa úr farþegagangi inn í töskumóttöku. Stefnandi krafði stefnda um greiðslu á 46.080 kr. vegna aukaverks sem fólst í því að gera þurfti sérstakar ráðstafanir við aðlögun flísa sem lagðar voru á nýtt gólfsvæði í farþegagangi, þar sem þær mættu gólfflísum á eldra gólfsvæði í töskumóttöku. Stefnandi benti á þennan verkþátt sem aukaverk í verkfundargerð nr. 10. Stefnandi telur að sú vinna sem þurfti að inna af hendi vegna þessa hafi ekki verið í verklýsingu (5.5.1. Granít). Stefnandi telur kröfuna vera hóflega og að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hún sé ósanngjörn.

        Aukaverk nr. 58 – bora fyrir niðurfalli í stálbita, smíða og sjóða styrkingar á stálbita. Stefnandi vakti athygli á því, á verkfundi 25. júní 2012, sjá verkfundargerð nr. 13, að þakniðurfall inni í austurvegg stiga- og lyftuhúss kæmist ekki niður vegginn þar sem niðurfallið þyrfti að fara gegnum stálbita á veggnum svo að hægt yrði að tengja það við stút í sökkulvegg. Önnur lausn var einnig rædd á verkfundinum. Á verkfundi þann 2. júlí 2012, verkfundargerð nr. 14, ákvað stefndi að þakniðurfallið færi niður í vesturvegg, eins og teikningar segðu til um, og að tekið yrði úr bitum og lektum veggjar til þess að það kæmist á leiðarenda.

        Stefnandi hafi unnið verkið sem fólst í því að bora fyrir þakniðurfallinu gegnum stálbita. Smíða þurfti styrkingar og sjóða þær á stálbitann til þess að hann missti ekki styrk við borun gatsins. Ekki er ágreiningur með aðilum um að verk þetta hafi verið unnið en stefndi taldi fjölda vinnutíma of mikinn og ekki í samræmi við umfang verksins. Stefnandi krafði stefnda um greiðslu fyrir vinnu tveggja járnsmiða í níu klst. dagana 19. og 20. júlí 2012, alls 36 klst. Einnig var krafist greiðslu vegna leigu á suðuvél og kaupa á stáli í styrkingarnar. Alls var krafist greiðslu á 225.385 kr. en í breyttri kröfugerð lækkaði stefnandi kröfu sína í 179.305 kr. Stefnandi telur að stefnda beri að greiða umkrafða fjárhæð enda hafi stefndi ekki sýnt fram á að krafan sé ósanngjörn.

        Aukaverk nr. 60 – niðurtekt og færsla á suðurglugga. Á verkfundi nr. 17, þann 30. júlí 2012, benti stefnandi á að öll vinna við suðurvegg 2. hæðar væri aukaverk þar sem hans væri ekki getið í verklýsingu eða magnskrá. Stefndi hafnaði kröfu stefnanda og taldi verkið innifalið í verklið 7.2.1 í verklýsingu. Jafnframt kæmi þetta fram á niðurrifsteikningu nr. X99-05.

        Stefnandi heldur því fram að hann eigi kröfu um greiðslu fyrir þetta aukaverk. Verkliður 7.2.1 fjalli einungis um niðurrif á austurvegg byggingarinnar, ekki sé getið um suðurvegg hennar. Þá sé ekki gert ráð fyrir niðurrifi suðurveggja í magnskrá. Stefnandi telur því að um aukaverk sé að ræða, sem stefnda beri að greiða fyrir.

       Stefnandi hefur lagt fram sundurliðaða dagskýrslu fyrir þennan verklið. Alls eru skráðir 199,5 tímar vegna vinnu trésmiða og 49,5 tímar vegna vinnu tækjastjóra. Þá er krafist greiðslu vegna efniskaupa (þéttingar og festingar) og vegna tækjanotkunar (skæralyfta og lodal, alls 49,5 tímar á hvort tæki). Heildarkrafan nemur 1.818.676 kr. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi ekki sýnt fram á að krafan sé ósanngjörn og því beri honum að greiða hana.

        Aukaverk nr. 63 – smíði og uppsetning á festingum á gluggaprófíla. Samkvæmt lið 2.6.1 í verklýsingu átti stefnandi að setja upp stálgrindarbita, þakbita og stálsúlur í svonefndri Norðurbyggingu samkvæmt fyrirmælum á teikningu. Stefndi átti að útvega fullsmíðað stál sem afhenda átti stefnanda 15. mars 2012. Á verkfundi nr. 21, þann 3. september 2012, vakti stefnandi athygli stefnda á því að stálbiti á suðurhlið sem settur var upp fyrir vegg 2. hæðar hafi verið of stuttur til austurs og því þyrfti að lengja hann. Eftirlitsmaður stefnda bókaði í fundargerðina að hann myndi óska eftir útfærslu frá hönnuði vegna þessa. Stefnandi telur að það hafi verið á ábyrgð stefnda að stálbitar voru smíðaðir of stuttir. Allar úrbætur á þessum galla séu því á ábyrgð og kostnað stefnda. Smíða hafi þurft og setja upp festingar fyrir gluggaprófíla á suður/austurhorni og á austur/norðurhorni. Kostnaður vegna þessa hafi numið 83.595 kr. sem stefnda ber að greiða enda hefur hann ekki sýnt fram á að þessi krafa sé ósanngjörn.

        Aukaverk nr. 64 – móttaka efnis frá verkkaupa (flísar og ofnar). Samkvæmt lið 3.3.2 Ofnar í verklýsingu átti að endurnýja ofna sem teknir yrðu niður. Stefndi lét taka ofnana niður og setti þá í geymslu. Stefnandi þurfti að láta sækja ofnana í geymsluna og flytja þá á verkstað. Það útheimti nokkra vinnu sem ekki var gert ráð fyrir í verklýsingunni. Stefnandi krefur stefnda um greiðslu fyrir þá vinnu. Samkvæmt lið 5.5.1 Granít átti stefndi að útvega allt flísaefni og flytja á verkstað. Stefndi afhenti ekki flísar á 2. hæð hússins, þær sem þar átti að leggja niður, heldur skildi þær eftir á plani. Stefnandi þurfti að láta hífa flísarnar upp á 2. hæð. Stefnandi telur þetta vera aukaverk sem stefnda beri að greiða fyrir. Stefndi hefur hafnað þessari kröfu stefnanda. Stefnandi hefur krafið stefnda um greiðslu vegna þessara aukaverka að fjárhæð 187.560 kr. Stefndi hafi ekki sýnt fram á að sú krafa sé ósanngjörn.

        Aukaverk nr. 65 – kostnaður vegna flutnings á álplötum í og úr pólýhúðun. Samkvæmt verkliðum 5.4.1 (Kerfisloft úr götuðum málmplötum), 7.3.1 (Klæðning – álkassettur) og 7.3.2 (Klæðning – sléttplötuklæðning) í verklýsingu gerði stefndi ákveðnar kröfur um lit á klæðningarplötum. Plötur í hinum fyrirskrifuðu litum voru ekki til hjá efnissölum nema keypt yrði í mjög miklu magni, langt umfram það magn sem þurfti í verkið. Stefnandi lagði til að álplötur í sambærilegum lit yrðu notaðar í staðinn, en því var hafnað af stefnda og arkitektum hans. Eina færa leiðin til þess að ná réttum lit hafi því verið að senda álplötur í pólýhúðun og var stefnda send orðsending þar að lútandi þann 10. maí 2012. Stefnda hafi þannig verið kunnugt um að grípa þurfti til þessa úrræðis og var því ekki mótmælt af hans hálfu. Stefnandi telur flutning platnanna í pólýhúðun og til baka á verkstað vera aukaverk og viðbótarkostnað, sem stefnda beri að greiða. Stefnandi hafi gert stefnda grein fyrir kostnaðinum vegna þessa sem nam 1.081.150 kr. samkvæmt yfirliti. Stefndi hafi ekki sýnt fram á að þessi krafa sé ósanngjörn en hafi hafnað kröfunni. Stefnandi bendir á að ekki var hægt að klippa álplöturnar fyrir fram og flytja þær í einni ferð. Setja þurfti hverja plötu upp samkvæmt mjög nákvæmu máli. Því hafi þurft flutning í nokkrum ferðum svo sem fram kemur í yfirliti stefnanda. Stefnandi bendir einnig á að þegar eldri klæðning var rifin niður utanhúss hafi komið í ljós að þær plötur voru pólýhúðaðar. Þessa var ekki getið í útboðsgögnum og verður að telja útboðsgögnin verulega ófullnægjandi að þessu leyti. Stefnandi hafi því ekki gert ráð fyrir því í tilboði sínu að til þessa ráðs þyrfti hugsanlega að grípa og miðað tilboð sitt við það.

        Aukaverk nr. 66 – kostnaður vegna flutnings á gluggaprófílum í og úr pólýhúðun.

Vegna staðsetningar bráðabirgðaveggjar sem verktakar á vegum stefnda reistu við eldri útvegg á 2. hæð urðu gluggaprófílar, sem teknir voru niður og fyrirmæli voru um í verklýsingu að nýta skyldi í uppbyggingu nýs útveggjar, fyrir hnjaski. Óhjákvæmilegt hafi verið að taka prófílana niður eftir uppsetningu þeirra á nýja útveggnum til þess að pólýhúða þá eftir hnjaskið. Þess í stað hafi prófílarnir verið sendir í pólýhúðun áður en þeir voru settir upp. Af þessu hafi hlotist kostnaður sem stefnda beri að greiða. Stefnandi heldur því fram að hann hafi raunar á þann hátt sparað stefnda umtalsverðan kostnað við niðurrif prófílanna og húðun þeirra síðar meir. Stefnandi krefur stefnda um 725.376 kr. vegna þessa. Stærsti hluti kröfunnar sé útlagður kostnaður vegna pólýhúðunarinnar eða 601.816 kr. Stefnandi telur að stefnda beri að greiða þennan viðbótarkostnað, enda hefur hann ekki sýnt fram á að krafan sé ósanngjörn.

        Aukaverk nr. 67 – viðbótarkostnaður við rekstur vinnusvæðis vegna lengri verktíma. Stefnandi telur að verkið hafi tafist af ástæðum sem stefndi beri ábyrgð á og áhættu af svo sem færð eru rök fyrir hér að framan. Lengri verktími hafði það í för með sér að stefnandi þurfti að halda úti vinnubúðum og annarri aðstöðu á framkvæmdasvæðinu mun lengur en hann mátti reikna með. Stefnandi heldur því fram að vegna lengingar verktímans hafi brostið forsendur fyrir þeim þætti í tilboði sínu er laut að rekstri vinnusvæðis. Hann krefur því stefnda um greiðslu vegna þessa viðbótarkostnaðar eða í fimm mánuði. Krafan nemur alls 2.230.370 kr. og stefndi hafi ekki sýnt fram á að hún sé ósanngjörn

        Aukaverk nr. 73 – tilfærsla netbakka. Í sal á 2. hæð hafi rafverktaki á vegum stefnanda þurft að taka niður netbakka fyrir lagnir og setja hann upp á ný. Um hafi verið að ræða breytingu frá teikningu vegna þrengsla við lagnir í lofti. Stefnandi krefur stefnda um greiðslu fyrir þetta aukaverk og viðbótarkostnað en krafan nemi 118.080 krónum. Stefndi hafi ekki sýnt fram á að krafan sé ósanngjörn.

        Aukaverk nr. 80 – lagnaskaft í töskumóttöku. Að beiðni stefnda (eftirlits) hafi verið gerðar breytingar á lagnaskafti í töskumóttöku og eingöngu sé ágreiningur um fjárhæð aukaverkakröfunnar. Stefnandi krefst greiðslu fyrir vinnu smiðs í fjóra tíma í verkinu, eða alls 24.744 kr. en stefndi sé ekki reiðubúinn að greiða fyrir meira en tveggja tíma vinnu. Stefnandi telur kröfu sína hóflega og að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hún sé ósanngjörn.

        Aukaverk nr. 81 – göt fyrir raflögn gegnum stálprófíl. Bora hafi þurft fyrir raflögn gegnum stálprófíl í gólfi vegna glerveggjar. Að mati stefnanda var þetta aukaverk enda kom lýsing á þessu hvorki fram í lið 4.1.5 Göt og brunaþéttingar, en þar sé eingöngu lýst borun gegnum steypta fleti, né í kafla 5.7 í verklýsingunni. Krafa stefnanda, 11.520 kr., sé hófleg og hefur stefndi ekki sýnt fram á að hún sé ósanngjörn.

        Aukaverk nr. 82 – Breytingar á þakhalla v/ófullnægjandi hönnunar. Aðilar hafi deilt um þakhalla á flugstöðvarbyggingunni og orsakir þess að vatn virtist á einum stað ekki eiga greiða leið að niðurfalli. Stefnandi telur að um hönnunargalla hafi verið að ræða. Að fyrirmælum eftirlitsmanns stefnda voru gerðar lagfæringar á þakinu. Stefnandi telur það vera aukaverk og sendi eftirlitinu kröfuyfirlit þar að lútandi þar sem sundurliðaður er kostnaður stefnanda vegna eigin starfsmanna, svo og aðkeyptrar þjónusta undirverktaka. Krafan er að fjárhæð 984.232 kr. Stefnandi telur stefnda eiga að greiða fyrir þetta aukaverk og telur jafnframt að stefndi hafi ekki sýnt fram á að krafa sín sé óhæfileg eða ósanngjörn.

        Aukaverk nr. 83, Kostnaður v/aðgangspassa og setu námskeiðs. Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir ýmsum kostnaði vegna umsókna um aðgangsheimildir starfsmanna og undirverktaka. Menn á vegum hans hafi þurft að sitja námskeið til þess að fá aðgangsheimildir og hann þurft að greiða kostnað vegna þessa. Ekkert í útboðslýsingu verksins hafi gefið til kynna að hann þyrfti að reikna með þessum kostnaði og hann eigi því kröfu á hendur stefnda vegna þessa óvænta og ófyrirséða aukakostnaðar. Stefndi hafi ekki sýnt fram á að krafan sé ósanngjörn og honum beri því að greiða hana, en hún sé að fjárhæð 496.154 kr.

        Aukaverk nr. 84 – málun línurista. Samkvæmt 3.5.6 Loftristar í verklýsingu áttu línuristar að vera úr áli, ómálaðar. Stefnandi hafi þurft að taka þær niður og láta húða í sama lit og loftin til samræmis við aðrar sambærilegar ristar í flugstöðinni. Til að spara stefnda þann kostnað og fyrirhöfn lét stefnandi undirverktaka sinn sjá um að mála ristarnar áður en þær voru settar upp. Stefnandi hefur krafið stefnda um greiðslu fyrir þetta aukaverk, 246.630 kr. sem hann telur hóflegt. Stefndi hafi ekki sýnt fram á að krafan sé ósanngjörn.

        Varðandi kröfu stefnanda um lækkun verktryggingar segir í grein 0.5.1 í verksamningi aðila að stefndi skuli gefa út skriflega heimild til að lækka eða fella niður framkvæmdatryggingu innan 10 daga frá því að lokaúttekt fari fram. Skyldi tryggingin lækkuð í 4% af samningsupphæð, að viðbættum viðaukum við samning og verðbótum. Samkvæmt þessu samningsákvæði átti stefndi eða eftirlitsaðili fyrir hönd hans að gefa út heimildina eigi síðar en 4. mars 2013, en lokaúttekt verksins fór fram 21. febrúar 2013. Krafa um lækkun verktryggingarinnar hafi verið send eftirlitsaðila þann 9. apríl 2013 að undangengnum tilmælum stefnanda til eftirlitsaðila þar að lútandi. Þrátt fyrir ítrekanir þar að lútandi sinnti stefndi ekki samningsbundinni skyldu sinni að þessu leyti fyrr en 18. nóvember 2013. Kostnaður stefnanda við að halda úti fullri verktryggingu hafi numið um 100 þúsund krónum á mánuði. Frá 4. mars 2013 olli stefndi því stefnanda fjárhagslegu tjóni sem nemur lækkuninni á verktryggingunni, hefði stefndi sinnt skuldbindingu sinni um að gefa út yfirlýsingu um lækkunina. Nemur tjón stefnanda alls 614.342 kr. og krefur stefnandi um þá fjárhæð.

        Krafa stefnanda um bætur vegna verktryggingarinnar byggist á almennum reglum skaðabótaréttar, innan og utan samninga. Stefnanda þykir ljóst vera að stefndi hafi af ásetningi eða gáleysi valdið honum þessu fjárhagslega tjóni með saknæmu og ólögmætu athafnaleysi sínu. Kostnaður sá og þar með fjárhagslegt tjón sem stefnandi verði fyrir af þeim sökum sé bein afleiðing þessarar háttsemi stefnda.

        Varðandi lagarök þá styður stefnandi dómkröfur sínar m.a. við almennar reglur íslensks verksamningaréttar um tilurð og skuldbindingargildi samninga, skyldu verkkaupa til þess að hafa útboðsgögn og hönnunargögn tilbúin þegar verk er boðið út, reglur um forsendur verktaka fyrir tilboðsgerð og samningsgerð, reglur um rangar og brostnar forsendur fyrir samningsákvæðum, skyldu verkkaupa til að veita verktaka greiðan aðgang að verksvæði, skyldu verkkaupa til að samræma störf hliðsettra verktaka, reglur um rétt verktaka til framlengingar skilafrests, rétt verktaka til greiðslna fyrir aukaverk og vegna viðbótarkostnaðar, rétt verktaka til umkrafinna verklauna, nema verkkaupi sýni fram á að krafa sé ósanngjörn, og skyldu verksamningsaðila til þess að leggja sig fram um að leysa sameiginlega óvænt og aðkallandi álitamál á verktíma. Einnig er stuðst við almennar reglur um rétt verktaka til bóta úr hendi verkkaupa vegna ófullnægjandi aðstöðu, hönnunargagna eða af öðrum ástæðum er valda verktaka tjóni.

        Kröfu um bætur fyrir tjón vegna tafa á lækkun verktryggingar styður stefnandi við almenna bótareglu innan samninga og/eða utan samninga.

        Krafa stefnanda um dráttarvexti styðst við ákvæði í III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur, sbr. einkum 5.-6. gr. og 12. gr. laganna.

         Stefnda er stefnt fyrir dóm á lögheimilisvarnarþingi félagsins, sbr. 2. mgr. 85. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

         Krafa stefnanda um málskostnað úr hendi stefnda styðst við ákvæði 21. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sérstaklega 129. og 130. gr. laganna.

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi vísar til þess að stefnandi krefjist annars vegar greiðslu á óumdeildum reikningsfjárhæðum sem nema u.þ.b. 25 milljónum króna og hins vegar krefjist hann greiðslu fyrir aukaverk sem stefndi hefur hafnað. Um fyrrnefnda hluta stefnukröfunnar gildi að stefndi hafi beitt samningsbundnum heimildum til að draga dagsektir eða tafabætur frá kröfum stefnanda en ekki sé ágreiningur um fjárhæðir reikninga. Um síðari hlutann um tilvist aukaverkakrafnanna sé ágreiningur. Útreiknaðar tafabætur frá samningsbundnum skiladögum nemi 35,7 milljónum króna. Áfallnar tafabætur komi til frádráttar og verði skuldajafnað, í fyrsta lagi gegn óumdeildum reikningsfjárhæðum og síðan þeim aukaverkakröfum sem kunni að verða viðurkenndar í þessu máli og að því marki sem tafabætur hrökkva til.

        Eins og fram komi í lokaskýrslu framkvæmdaeftirlits hafi stefnandi nánast einvörðungu byggt á vinnu undirverktaka en mjög hafi skort á heildarskipulag vinnu og undirbúning einstakra verkþátta. Þá var að mati eftirlitsins ónógur mannskapur á verkstað og verkið illa af hendi leyst. Þá komi fram á bls. 8 í lokaskýrslu eftirlitsins að dagsektir að fjárhæð 17,4 milljónir króna féllu á frá 1. júní 2012 til 22. nóvember 2012 þegar stefnandi var talinn hafa skilað fyrsta áfanga verksins að mestu. Skil á öðrum áfanga hafi dregist til loka febrúarmánaðar 2013 og lauk verktaki því ekki í raun. Dagsektir sem féllu á frá umsömdum skiladegi hinn 1. ágúst hafi numið 18,3 milljónum króna og er þá aðeins miðað við upphaf febrúarmánaðar 2013. Samtals námu áfallnar dagsektir því 35,7 milljónum króna. Það er krafa stefnda að þær dragist frá stefnukröfum.

        Stefndi vísar til þess að í stefnu sé annars vegar lagt upp með málsástæður um að víkja beri ákvæðum verksamnings um verktíma og tafabætur til hliðar með stoð í reglum kröfuréttar um brostnar forsendur og 36. gr. samningalaga nr. 36/1936. Hins vegar byggi stefnandi á því að hann eigi rétt á framlengingu verktíma í margfaldan upphaflegan verktíma.

        Varðandi ógildingarkröfu stefnanda vegna brostinna/rangra forsendna og 36. gr. samningalaga þá vísar stefndi til þess að í stefnu sé byggt á því að víkja beri til hliðar eða ógilda ákvæði verksamnings aðila um skilafresti og tafabætur, enda sé það ósanngjarnt að bera þau ákvæði fyrir sig „í ljósi allra atvika málsins“. Þetta sé að mati stefnda haldlaus málsástæða. Umrædd ákvæði í útboðslýsingu og verksamningi séu afar hefðbundin og skipta áhættu af verkskilum og verktíma eins og gert er í öllum þorra sambærilegra verksamninga á Íslandi. Ákvæðin hafi því hvorki verið ósanngjörn né í andstöðu við viðskiptavenju eins og haldið er fram. Verkefnið sem um ræðir hafi ekki verið óvenjulegt heldur nokkuð vel fyrirsjáanlegt byggingartæknilega þótt þörf væri á góðu skipulagi og samræmi á verktímanum. Jafnframt hafi stefnandi sem verktaki átt öll færi á því að fá framlengingu verktíma ef aðstæður gæfu tilefni til. Enginn hafi þvingað stefnanda til að bjóða í verkið né hafi hann mótmælt samningsskilmálunum fyrr en löngu eftir að verkið var komið í óefni. Stefnandi sé vanur sambærilegum verkefnum og hafi haft allar forsendur til að átta sig á þeirri áhættu sem hann tók á sig með því að lofa verkskilum 1. áfanga hinn 1. júní 2012 og 2. áfanga hinn 1. ágúst 2012.

        Röksemdir stefnanda fyrir þessum órökréttu málsástæðum séu óljósar en virðist þó snúa að því að verktími hafi verið of naumt skammtaður, breytingar hafi átt sér stað á verktímanum, byggingarleyfi seint gefið út, útboðstegundin hafi hentað mjög illa og erfitt fyrir verktaka sem buðu í að „átta sig á verkinu sjálfu“. Engar þessara viðbára virðist þó eiga stoð í gögnum málsins og sé þeim mótmælt.

        Meginatriðið sé að málið snýst um það hvernig samningsákvæðin voru efnd og hvaða réttindi fólust í þeim. Aðferðafræðin geti ekki verið sú að byrja á því að víkja þeim til hliðar eins og stefnandi fer fram á. Ágreiningsefni málsins beri  að leysa á þeim grunni að ákvæðunum sé beitt samkvæmt efni sínu og sú niðurstaða geti aldrei orðið ósanngjörn í skilningi 36. gr. samningalaga nema sýnt sé fram á að skilyrði þeirrar reglu eigi við. Það hafi ekki verið gert í þessu máli.

        Varðandi rétt til framlengingar verktíma á grundvelli samningaákvæða þá vísar stefndi til þess að þrátt fyrir að ekki hafi verið fullnægt skyldu samkvæmt ÍST-30 og útboðsgögnum um rökstudda og nákvæma kröfu um framlengingu skilafrests megi ráða af stefnunni að stefnandi telji sig eiga rétt á að a.m.k. 200 daga framlengingu. Kröfugerð stefnanda vegna framlengingar skilafrests sé yfirgengileg og ekki í neinu samræmi við ákvæði samnings aðila eða þau gögn sem fyrir liggja um aðstæður á verkstað.

        Flestum kröfum stefnanda hafi verið svarað með bréfi framkvæmdaeftirlitsins, dagsettu 18. október 2012. Stefnandi hafi lítt brugðist við athugasemdum sem þar komu fram og hafi í sumum tilvikum bætt við atriðum sem hann telur að eigi að leiða til enn frekari framlengingar á skilafresti. Stefndi vísar almennt um afstöðu sína til áðurnefnds bréfs og byggir einnig á því að það sem komi fram síðar sé of seint fram komið.

        Tilboð hafi verið opnuð hinn 7. mars 2012. Tilboði stefnanda hafi verið tekið fljótlega og hófst þá undirbúningur verksins. Verksamningur hafi verið gerður hinn 4. apríl 2012 og stefnandi hafi engan fyrirvara gert um verktíma. Í 4. gr. samningsins hafi verið skýr ákvæði um verklok, bæði fyrsta og annars áfanga, sem og tilvísun til útboðsgagna um greiðslu tafabóta. Sjá megi í verksamningi að verktrygging var ekki tilbúin fyrr en hinn 27. mars 2012 og önnur skjöl sem vantaði frá stefnanda, s.s. gæðakerfi og öryggisáætlun, séu dagsett hinn 28. mars 2012. Stefndi minnir á að verkinu átti að skila um 60 dögum eftir að verksamningur var undirritaður. Við það bætist að þegar komið var fram í seinnihluta maímánaðar ætlaði stefnandi að verk hans kynni að tefjast um 20 daga, sbr. verkfund nr. 8, dags. 21. maí 2012, og lagði fram nýja verkáætlun sem sýndi að aðrir verkliðir en skil á stigahúsi og rútuskýli voru í raun á áætlun.

        Í ákvæðum útboðsgagna (0.3.2) segi um tafabætur:

„Verktaki skal ljúka verki sínu á tilskildum tíma samkvæmt grein 0.0.5 ... Fyrir hvern almanaksdag sem dregst að ljúka einstökum áföngum fram yfir verklok, miðað við meðfylgjandi aðgerðarplan, skal verktaki greiða verkkaupa kr. 100.000 í tafabætur. Telji verktaki sig eiga rétt á framlengingu skilafrests þá skal hann strax skýra frá því og um leið leggja fram nauðsynleg gögn er sanni réttmæti framlengingarinnar, sbr. kafla 5.2 í ÍST 30.“

        Í síðast tilvitnuðum ákvæðum ÍST-30 sé kveðið á um það í gr. 5.2.2 hvaða atvik geti heimilað framlengingu verktíma en í meginatriðum sé þar um að ræða breytingar á verkinu sem tefja framgang þess, vanefndir verkkaupa með því að ekki eru lögð fram gögn, efni o.þ.h., og einnig ef óviðráðanleg ytri atvik „tálmi framkvæmdum verulega“. Í grein nr. 5.2.3 í staðlinum segir síðan:

„Ef verktaki telur sig eiga rétt á framlengingu á verktíma skal hann tafarlaust senda verkkaupa rökstudda tilkynningu um það. Í tilkynningu skal rökstutt að töfin hafi hlotist af þeim atvikum sem verktaki ber fyrir sig.“

       Verksamningur aðila er að þessu leyti hefðbundinn um skiptingu áhættu vegna verktíma og lögð er áhersla á tafarlausar tilkynningar og sannanir enda séu hagsmunir verkkaupa ríkir af því að fá sem allra fyrst vitneskju um röskun tímaáætlana.

        Hvorki stefnandi né aðrir bjóðendur hafi gert athugasemdir við verktíma á tilboðsstigi og er ritað var undir verksamning hinn 4. apríl 2012 ítrekaði stefnandi áform sín um að skila fyrsta áfanga verksins tæpum tveimur mánuðum síðar eða hinn 1. júní 2012.

        Stefnandi hafi hafið undirbúning verksins nokkru fyrr og megi sjá af fundargerð fyrsta verkfundar sem haldinn var 26. mars 2012 að hann var þá þegar langt kominn með að setja upp vinnubúðir, tengja rafmagn og girða af vinnusvæðið. Einnig komi fram í fundargerðinni að verktakinn hefði fengið heildstætt sett af uppdráttum og breyttum teikningum án þess að nokkrar athugasemdir væru gerðar við það.

        Á öðrum verkfundi, hinn 2. apríl 2012, kom fram að verktaki ynni enn að samningum við undirverktaka og hann hét því að láta starfsmenn vinna lengri vinnudag en frá 8-18 „til þess að halda áætlun“. Einnig komi fram í sömu fundargerð að niðurrif og færsla veggja, sem byrjað var á í verkinu, væri langt komin. Auk þess væri stálvirki tilbúið til samsetningar o.fl. Um verkáætlun sé sagt við þetta tækifæri að verktaki sé á áætlun. Sjá megi af fundargerðum um þetta leyti að verkkaupi kallaði ítrekað eftir nýjum verkáætlunum í samræmi við framvindu verksins en á því varð undandráttur hjá stefnanda, t.a.m. sé bókað á verkfundi hinn 30. apríl 2012: „Samkvæmt fyrirliggjandi verkáætlun er verktaki aðeins á eftir áætlun, en það mun væntanlega koma í ljós í vikunni hvort það muni lagast.“ Í sömu fundargerð er svo bókað undir lið 21:

„Brýnt var fyrir verktaka að hann bæri upp allar sínar kröfur jafnóðum og hann teldi tilefni til og sérstaklega ef hann teldi sig eiga rétt á hugsanlegum viðbótargreiðslum eða framlengingu á verktíma. Verktaki taldi svo ekki vera til þessa.“

        Í fundargerð verkfundar hinn 7. maí 2012 virðist orðið ljóst að verktaki var orðinn á eftir með verkið og er bókað eftir fulltrúum verktakans að þeir muni „mæta þessum töfum með fjölgun og lengri vinnudögum … ásamt því að fjölga mönnum við verkið“.

        Í verkfundargerð frá 14. maí 2012 sé ekki enn komin fram nein formleg krafa um framlengingu á skilafresti en brýnt hafi enn verið fyrir verktaka að setja slíkt fram án tafar. Á næsta verkfundi, sem haldinn var hinn 29. maí 2012, var sérstaklega áréttað í upphafi að í gildi væri verksamningur með tilteknum skiladögum og þá orðið umræða um tafirnar þar sem fulltrúi stefnanda sagði að hann teldi „Atafl eiga inni daga vegna tafa …“ og boðaði framlagningu rökstuðnings og nýrrar verkáætlunar til samræmis.

Við sama tækifæri áréttaði fulltrúi stefnda að innheimtar yrðu tafabætur og vísaði m.a. til sérstakrar orðsendingar sem send hafði verið hinn 24. maí 2012 frá eftirlitsmanni stefnda. Ný verkáætlun virðist hafa verið lögð fram á verkfundi hinn 11. júní 2012 og í henni miðað við að verklok (beggja áfanga) yrðu 24. ágúst 2012 og að verktaki „teldi sig eiga inni umrædda daga vegna tafa á verkinu“. Áréttaðar voru áfallandi dagsektir vegna fyrsta áfanga. Stefnanda hafi ævinlega á verkfundum þar eftir verið kynntur fjöldi þeirra daga sem tafabæturnar hefðu fallið á, án þess að sérstakar athugasemdir væru gerðar við þá útreikninga. Á verkfundi er haldinn var hinn 13. ágúst komi fram að dagsektir vegna annars áfanga séu áfallandi samhliða þeim sem kveðið var á um í samningi fyrir fyrsta áfanga. Í fundargerð hinn 3. september (mánuði eftir að skila átti báðum áföngum) komi fram að veðurfar hafi ekki haft mikil áhrif á framgang verksins. Þar komi einnig fram að lögð hafi verið fram ný verkáætlun þar sem verklok voru áætluð hinn 19. nóvember 2012. Hún hafi ekki staðist.

          Fyrst verkáfanga hafi átt að skila hinn 1. júní 2012 en hann fólst í því að skila farþegagangi tilbúnum til notkunar, ljúka gerð biðsvæðis 16 flughlaðsmegin, undirstöðum steyptum, flughlaði steyptu, og stigahúsi frágengu að utan á suðurhlið og vesturhlið út yfir brú. Verkið dróst á langinn en gerð var stöðuúttekt hinn 29. nóvember 2012 þar sem ýmsir verkþættir sem ólokið var eru taldir upp, en verktaki hafði tilkynnt þremur dögum fyrr að hann vildi skila verkinu af sér. Tafabætur vegna fyrsta áfanga eru reiknaðar frá skiladegi hinn 1. júní 2012 til 22. nóvember 2012 (daginn áður en verktaki tilkynnti um verkskil) og eru 100.000 kr. fyrir hvern dag í 174 daga, þ.e. 17,4 milljónir.

        Í stefnu séu sérstaklega rakin nokkur atvik er varða fyrsta áfanga verksins sem hafi átt að skila 1. júní 2012 og stefnandi byggir á að hafi veitt heimild til að fresta verkskilum. Fyrst nefni stefnandi drátt á útgáfu byggingarleyfis, að verksamningur hafi verið undirritaður seinna en áætlað var og teikningar verið afhentar seint. Útgáfa byggingarleyfisins hafi engin áhrif haft á framvindu verksins enda var það fyrir löngu hafið, undirritun verksamningsins hafði ekki heldur haft áhrif og dregist m.a. vegna stefnanda sjálfs. Stefnandi hafði fyrir löngu hafið framkvæmdir þegar formlegar teikningar voru afhentar. Hann hafi engan fyrirvara gert og það sé hrein tylliástæða að mati stefnda að þessir þættir hafi skipt máli. Byggingaráformin höfðu verið samþykkt af yfirvöldum þann 16. mars 2012, sbr. yfirlýsingu á dskj. nr. 16. og stefnandi hafði fengið uppfærðar verkteikningar afhentar eigi síðar en hinn 22. mars 2012, sbr. bókun á aukaverkfundi nr. 1. Til samanburðar megi nefna að umsókn stefnanda um að fá samþykktan byggingarstjóra og uppáskriftir iðnmeistara bárust ekki byggingarfulltrúa fyrr en hinn 5. maí 2012.

        Í öðru lagi nefni stefnandi að samkomulag hafi orðið um seinkun fyrsta verkáfanga. Þetta sé rangt og eins og rakið sé að framan var margítrekað að samningsbundin verklok væru í gildi. Misskilningur stefnanda um þetta hafi verið leiðréttur á hverjum verkfundi. Þær bókanir verkfunda sem stefnandi beri fyrir sig segi ekkert um slíkt samkomulag. Bókunin frá 26. mars 2012 um nauðsyn á nánar skilgreindri áætlun hafi verið til þess gerð að leggja áherslu á að stefnandi skipulegði sig vel til að ná umræddri tímasetningu á 1. áfanga verksins.

         Í þriðja lagi beri stefnandi það fyrir sig að gerðar hafi verið margar breytingar á hönnunargögnum og að af því hafi hlotist verulegar tafir. Ekkert sé sannað um það að breytingar og nánari útfærslur sem ævinlega fylgja í verkum af þessum toga hafi verið fleiri eða færri en reyndur verktaki mátti búast við.

        Eins og fram komi í lokaskýrslu eftirlits og svari eftirlitsaðila hinn 18. október 2012 fjölgaði teikningum ekki með þeim hætti sem lýst er í stefnu. Staðreyndin sé sú að teikningum hafi fjölgað um 13 frá útboði þar til verktaki fékk afhentar verkteikningar í byrjun verks. Heildarfjöldi útgefinna teikninga í verkinu hafi verið 224 og hafi þeim fjölgaði um 77 stykki frá útboði á verktímanum. Auk þess virðist sem ýmsir þeirra verkþátta sem stefnandi nefnir hafi verið fullkláraðir áður en nýjar teikningar (reyndarteikningar) voru gefnar út eða verkþáttur jafnvel unninn miklu síðar. Stefnandi hafi sett fram sum sjónarmið sín um framlengdan verktíma á fyrri stigum en þau eru hrakin lið fyrir lið í áðurnefndu bréfi eftirlitsaðila hinn 18. október 2012 og virðist ekkert hafa verið brugðist við þeim athugasemdum áður en stefna er gefin út í málinu. Í bréfinu féllst eftirlitið á að verktaki gæti átt rétt til þriggja daga framlengingar á verkskilum vegna kröfuliðar er varðaði plexígler. Öðrum kröfum var hafnað og er vísað til forsendna í bréfi eftirlitsins frá 18. október 2012.

        Stefndi telur að í stefnu og öðrum gögnum skorti algjörlega á: a) að færðar séu sönnur á að breytingar á teikningum séu umfram venjur og það sem reyndur verktaki megi ætla, b) útskýringu á því hvert orsakasamhengi sé á milli breytinga og tafa á verkinu og c) að greint sé hvenær tilkynnt hafi verið um tafir í samræmi við ákvæði verksamnings. Krafan sé því algjörlega ósönnuð að þessu leyti og stefndi eigi í raun óhægt um vik að setja fram varnir með skipulegum hætti.

         Um einstök atriði sem nefnd eru í stefnu tekur stefndi fram eftirfarandi í greinargerð:

        Varðandi stiga og lyftuhús segir:

Teikningar frá 12.apríl 2012 voru ekki breyttar teikningar, um var að ræða nýjar teikningar af stálstiga (teikn.nr. 687.5-B-730 til 738) þ.e.a.s. smíðateikningar af stálstiga sem verktaki óskaði eftir 22.mars 2012, sbr. aukafund nr.1. Teikning af stálhandriði 16.apríl var ekki breytt teikning, var einnig um nýja teikningu að ræða (teikn.nr. 687.5-B-739) þ.e.a.s. smíðateikningu sem tilheyrði stálstiga.

Breyttar teikningar 11.maí 2012 af stál- og timburvirki (Teikn.nr. 687.5-B-710, 714 og 716). Teikningar voru uppfærðar miðað við breytingar sem gerðar voru við smíði á stálvirki, þar sem stálvirki var ekki fyllilega í samræmi við eldri teikningar sem verktaki fékk í hendurnar. Um var að ræða viðbótar stálbita (framlegning á núverandi skyggni) yfir innkeyrslu vörugeymslu.

Verkþátturinn var framkvæmdur af verktaka 20.-22. júní 2012 og því augljóst að hinar meintu tafir vegna hönnunargagna höfðu engin áhrif.

Teikning nr. 687.5-B-712 var uppfærð 7. júní 2012, þar sem sniði var bætt við sem sýndi nánar tengingu stálvirkis stigahúss við núverandi byggingu þ.e.a.s. eftir að verktaki var búinn að opna núverandi vegg og skoða nánar aðstæður á staðnum 4.júní 2012.

Varðandi uppbyggingu þaks segir:

Gefnar voru út uppfærðar teikningar (teikn.nr. 687.5-B-720 og 687.5-B-726) með frekari málsetningum 24.apríl 2012 eftir beiðni verktaka á verkfundi nr. 3, 16.apríl 2012.  Þar sem stefnandi hafði ekki séð fyrir sér hvernig hann ætlaði sér að koma umræddu þakvirki saman, þá voru sendar tillögur á verktaka með uppsetningu þeirra. Þá var jafnframt sent riss sem sýndi breytingu á þakfrágangi endabila, þar sem lokað yrði með krossviðplötum í stað trapisustáls. Hinn 8.maí 2012 var gefin út ný teikning (teikn.nr. 687.5-B-727) af Almennu verkfræðistofunni, þar sem sýndur er nánari frágangur á þakvirki s.s. m.v. einangrun ofaná trapisustál skv. verklýsingu í lið 7.2.6. Hinn 9.maí 2012 voru teikningar sendar á verktaka sem sýndu tillögu að festingu trapisustáls frá hönnuðum, en verktaki taldi sig ekki hafa fengið teikningarnar áður afhentar á sýnum tíma (25.apríl 2012). Ekki liggur fyrir staðfesting á móttöku verktaka fyrir teikningunum á umræddum tíma þ.e.a.s. 25.apríl 2012 hjá eftirliti! Sjá einnig fyrirspurn frá verktaka 20.júní hér að neðan.

Verkþátturinn var framkvæmdur af verktaka 2.-12. júlí 2012.

Hinn 29.maí 2012 voru sendar uppfærðar teikningar frá arkitektum af uppbyggingu þakvirkis, þar sem fallið var frá því að setja krossviðplötur og timburvirki í þakið.

Vegna þessa varð vinna við uppbyggingu þaks auðveldari og kostnaður minni. 31.maí 2012 voru sendar uppfærðar teikningar frá burðarþolshönnuðum af uppbyggingu þakvirkis, þar sem fallið var frá því að setja krossviðplötur og timburvirki í þakið.

Vegna þessa varð vinna við uppbyggingu þaks auðveldari og kostnaður verktakans minni.

14.júní 2012 var teikning nr. 687.5-B-720 uppfærð, þar sem bætt var inná teikninguna styrking á nýrri stálskúffu sem sett var upp í stað þess að flytja eldri með gluggakerfinu eins og fyrirhugað var í verklýsingu. Um var að ræða breytingu útfrá gögnum, þar sem ákveðið var að auðvelda verkið fyrir verktakann með því að skilja eftir eldri bita og setja upp nýjan í staðinn við færslu útveggjar 2.hæðar. 14.júní 2012 voru teikningar nr. 687.5-B-720 og 687.5–B-726 frá burðarþolshönnuðum samræmdar við teikningar arkitekta vegna breytinga á frágangi þakkanta, og teikningu nr. 687.5-B-727 sem gefin var út 8.maí 2012, Verkþátturinn var framkvæmdur af verktaka 2.-7. ágúst 2012.

Hinn 20.júní 2012 kemur fyrirspurn frá verktaka vegna festingar á trapisustáli, þar sem hann telur sig ekki hafa fengið umræddar upplýsingar/teikningar í hendurnar (finnur þær ekki) og honum því sendar sömu teikningar og hann fékk 9.maí 2012 (og 25.apríl 2012) aftur jafnóðum! Höfðu þ.a.l. liðið 6 vikur frá því verktaka var sendar síðast umræddar teikningar af tillögu að festingu trapisustálsins. Verkþátturinn var framkvæmdur af verktaka 2.-12. júlí 2012.

Af þessari samantekt er ljóst að engin tengsl eru á milli útgáfu teikninga og þeirra tafa sem urðu á verkinu, hvað þá að sýnt hafi verið á samningsbundinn rétt til framlengingar á skilafresti.

        Varðandi stiga segir:

Hinn 12.apríl 2012 voru afhentar nýjar teikningar (ekki breyttar) þ.e.a.s. smíðateikningar af stálstiga (teikn.nr. 687.5-B-730 – 687.5.-B-738) eins og verktaki hafði óskað eftir á aukafundi nr. 1, 22.mars 2012. Hinn 27.apríl 2012 var tilkynnt um væntanlega breytingu á stálstiga og fylgdi uppdráttur frá arkitektum (teikn.nr. X24-23) með tilkynningunni sem sýndi áætlaða breytingu á stiga. Hinn 2.maí 2012 var teikning nr. X24-23 gefin formlega út sem sýndi umræddar breytingar á stiga eins og tilkynnt var 27.apríl 2012. Þann 12.júlí 2012 voru teikningar nr. 687.5-B-730 og 687.5-B-738 uppfærðar til samræmis við breytingar sem gerðar höfðu verið á verkstað, þ.a.l. reyndarteikningar.

Varðandi rútuskýli segir:

Hinn 7.apríl 2012 var gefin út uppfærð teikning nr. 687.5-B-713, þar sem sniði hafði verið bætt við og sýndi viðbótarstoðir fyrir gataplötur í enda/gafli skýlis. Þann 3.maí 2012 voru gefnar út uppfærðar teikningar (nr. X38-01,X38-02 og X38-03) af rútuskýlinu, þar sem ákveðið var að nota plexigler í stað gataplatna úr stáli. Hinn 4.maí 2012 var ekki gefin út uppfærð teikning (nr. X38-03) samkvæmt yfirliti eftirlits, en sendar voru út tvisvar sinnum teikningar þann 7.maí 2012! Þann 7.maí 2012 var gefin út uppfærð teikning frá arkitektum (nr. X38-03) þar sem þykkt á plexigleri var breytt úr 15mm í 10mm, ásamt því að tilgreina þykkt á plexigleri í þaki (6 mm) eins og fram kemur í verklýsingu lið 7.5.8.  Þá var jafnframt gefin út uppfærð teikning nr. 687.5-B713 og ný teikning nr. 687.5-B717 frá burðarþolshönnuðum sem sýna nánar útfærslur vegna breytingar hjá arkitektum þar sem plexigler var sett í stað gataplatna úr stáli. Hinn 12.maí 2012 var gefin út uppfærð teikning (nr. X38-03), þar sem texti var lagfærður, ásamt því að samræma teikningu nánar við aðrar teikningar s.s. teikningar nr. X20-110, 20-26, 40-29, 687.5-B-713. Sjá einnig nánar í svari við kröfu nr. 5. Þann 22.maí 2012 var gefin út viðbótarteikning nr. X38-04, sem sýndi nánar stærðir á plexigleri að ósk verktaka. Í fyrstu útgáfu var einungis sýnd málsetning á lóðréttum plötum, en stærð/skipting þakplatna með brotalínum. Verktaki taldi það ekki fullnægjandi og var því umrædd teikning gefin aftur út sama dag, þar sem málsetning á þakplötum var einnig gefin upp.

Verkþátturinn var framkvæmdur af verktaka 10.júlí 2012 (þak) og 23.júlí 2012 (veggi). Útilokað er að uppfærsla á teikningum mörgum vikum fyrr hafi haft nokkur einustu áhrif á framgang verkþáttarins.

Hinn 7.maí 2012 óskaði eftirlit eftir tilboði frá verktaka í veggklæðningu í rútuskýli, þar sem skipt var út gataðri stálplötu fyrir plexigler sbr. orðsendingu nr. 12 frá eftirliti og verkfundargerð nr.6 (7.maí 2012).

Eftirlit ítrekaði eftir tilboði í umrædda framkvæmd á verkfundi nr.7, 14.maí 2012 og síðan aftur á verkfundi nr.8,  21.maí 2012 og óskaði þá verktaki eftir frekari málum til þess að geta gefið tilboð í verkið. Verktaka var send ný teikning nr. X38-04 með umræddum málum 22.maí 2012 (sjá einnig umfjöllun hér að ofan).  Leið því einungis einn dagur frá því ósk verktaka barst til eftirlits að verktaki fékk umræddar upplýsingar afhentar.

Varðandi hurðaskrár segir: 

Þann 2.maí 2012 var óskað eftir nýju tilboði í hurðir og var verktaka sendar uppfærðar hurðakrár (á Excel-formi), þar sem gerðar voru breytingar á verkinu hvað varðar útvegun búnaðar á hurðir. En verkkaupi ákvað að sjá um að útvega allan hurðabúnað sem sneri að stýringum og neyðarbúnaði hurða og sá verktaki þá einungis um að útvega hurðir með pumpum, ásamt lagnaleiðum fyrir raflagnir að búnaði hurðanna. Var þetta gert sérstaklega til þess að auðvelda framgang verksins. 5.júní 2012 var gefin út uppfærð/breytt hurðaskrá frá arkitektum (teikn.nr. X32-31), þar sem tilgreindur var sá búnaður sem áætlaður var á hverja hurð fyrir sig.  12.júní 2012 var gefin út uppfærð raflagnateikning nr. R-4-223B, í samræmi við breytingar á búnaði skv. breyttri hurðaskrá sem gefin var út 5.júní 2012.

Varðandi raflagnir segir:

Hinn 25.júní 2012 voru gefnar út 19 nýjar teikningar (A3), sem sýndu nánar viðbætur við stjórnkerfi loftræsikerfis í töflu hússtjórnarkerfis (einlínumyndir) til frekari upplýsinga, en verktaki lagði einungis lagnir að töflu (sbr. gögn). Annar verktaki lagði til og tengdi viðbótarbúnað í töflu.

Varðandi kerfisloft segir:

Þann 27.júní 2012 var gefin út uppfærð teikning nr. 22-32, þar sem búið var að bæta við deili/stærra sniði af stöllun kerfisloftsins sem fyrir var á teikningunni, að ósk verktaka á verkfundi nr.9, 27.maí 2012.

Hönnuður (arkitekt) var fenginn á staðinn til þess að mæla upp núverandi kerfisloft sem var á staðnum og tengja átti við, þar sem verktaki treysti sér ekki til þess sjálfur.

Eftirlit og hönnuðir höfðu vísað verktaka á núverandi teikningar, ásamt því að skoða og mæla núverandi kerfisloft til þess að sjá nánar útfærslu kerfisloftsins (tölvupóstur 7.júní 2012), en verktaki neitaði því og óskaði eftir frekari teikningu frá hönnuðum.

Varðandi tafir við jarðvinnu segir:

Óskiljanlegur er rökstuðningur stefnanda undir þessum lið. Hann virðist reikna með því að upphaflegur verktími 1. verkáfanga yrði aðeins 78 dagar en hafi orðið 57 „miðað við undirritun verksamning“. Síðan er sagt að tafir hafi orðið vegna lagna í jörðu o.fl. og að verktaki eigi rétt til að „minnsta kosti 8 daga“. Þessi krafa er algjörlega óreifuð og óskiljanleg. Henni mótmælti stefndi.

Varðandi síðbúna staðfestingu stáls í rútuskýli segir:

Í stefnu segir að stefni telji að verkið hafi tafist um 6 daga vegna þess að seinkun hafi orðið á afhendingu stáls í rútuskýli. Þessi krafa hafði áður komið fram en í svari eftirlits frá 18. október 2012 (dskj. nr. 153) er það ítarlega rakið að allt stálið var tilbúið fyrir utan rútuskýlið  á tilsettum tíma og vísað í fundargerð dags. hinn 23. apríl 2012 því til stuðnings. Verktakinn virðist síðan hafa óskað eftir afhendingu stálsins daginn eftir að hann ætlaði sér að reisa stálvirkið, en hafði síðan ekki aðstöðu til að taka á móti því öllu á verkstað.

Engar forsendur eru fyrir því að heimila framlengingu verktíma vegna þessa atvik, sem virðist skrifast alfarið á stefnanda sjálfan og hans undirverktaka. Engar röksemdir eru í stefnu fyrir því að tafirnar eigi að vera sex dagar en ekki eitthvað allt annað.

        Varðandi tafir vegna síðbúinnar staðfestingar á burðarþoli veggjar á 1. hæð segir:

Vandséð er hvernig staðfestingar á burðarþolsútreikningi vegna verkþáttar í öðrum áfanga verksins ættu að tengjast framgangi fyrsta verkhluta og öðrum verkþáttum eins og lagt virðist upp með í stefnu. Krafan er ekkert rökstudd að þessu leyti og bara sagt að tafirnar hafi verið „þess eðlis að útilokað var fyrir stefnanda að ljúka 1. verkáfanga fyrr en einhvern tíma eftir 14. ágúst 2012“. Þessari fullyrðingu er mótmælt og kröfur eru algjörlega órökstuddar og ekkert reifað hvernig umrædd staðfesting á burðarþoli hafi hamlað skilum á fyrsta áfanga. Verður efnislega að vísa til svara framkvæmdaeftirlitsins á dskj. nr. 153 um kröfulið nr. 1.

        Stefndi hafnar öllum kröfum um að stefnandi eigi rétt til framlengingar á skilafresti vegna fyrsta áfanga verksins. Hvorki sé til staðar efnislegur réttur né fylgdi stefnandi þeim reglum sem giltu samkvæmt samningi um að tilkynna um tafir og fylgja þeim eftir. Fyrsta áfanga var ekki skilað til fullnustu fyrr en í desember árið 2012 og féllu því á dagsektir að fjárhæð 17.400.000 kr. svo sem sjá megi í verklokaskýrslu, dags. í nóvember 2013.

        Varðandi skilafrest vegna 2. áfanga sé því haldið fram í stefnu að öll atvik er ollu töfum á fyrsta verkáfanga hafi haft áhrif á skil annars áfanga. Þetta sé rangt og ósannað. Ef verkið hefði verið vel skipulagt og mannað hefði ekki verið neinum erfiðleikum bundið að tryggja framgang annars áfanga þrátt fyrir tafir á þeim fyrsta.

        Ekkert hafi verið unnið í öðrum áfanga svo mánuðum skipti þótt ekkert hamlaði þar vinnu. Að öðru leyti sé þessi kröfuliður svo illa rökstuddur að stefndi eigi erfitt um við að tjá sig vel um það atvik. Flestir liðirnir eigi það sammerkt að ekki er um að ræða atvik sem heimili framlengingu skilafrests, ekki var tilkynnt um þá í tæka tíð og engin gögn hafi verið lögð fram sem gátu sýnt og sannað nauðsynlega framlengingu. Því verði að hafna þeim öllum.

          Stefndi gerir svofelldar athugasemdir við einstaka liði: Varðandi tafir vegna staðsetningar bráðabirgðaveggjar þá liggi fyrir að framkvæmdaeftirlit hafi hafnað kröfugerð stefnanda vegna þessa þáttar með rökstuðningi í bréfi þann 18. október 2012 og í sérstakri orðsendingu í bréfi 3. maí 2012 þar sem svarað hafi verið orðsendingu stefnanda frá deginum áður. Umræddur veggur hafi verið á þeim stað sem útboðsgögn gerðu ráð fyrir eins og lýst sé á dómskj. 64 og dskj. 153. Kvartanir stefnanda hafi því ekki átt við rök að styðjast sökum þess að stefnandi hafi ekki haldið áfram í verkþættinum fyrr en löngu síðar og erfiðleikar við niðurrif hafi því á engan hátt tafið framgang verksins.

         Varðandi tafir vegna síðbúinnar staðfestingar á burðarþoli veggjar á 1. hæð þá tekur stefndi fram að veggi á 2. hæð viðbyggingar skyldi stefnandi hanna. Staðfest hönnun stefnanda hafi legið fyrir 21. maí 2012 en stefnandi ekki skilað inn uppdráttum af hönnun veggja 2. hæðar til eftirlits eða byggingarfulltrúa fyrr en 13. ágúst 2012 svo að hægt væri að undirrita uppdrættina. Á því beri stefndi enga sök en atvik virðast hafa þróast þannig að stefnandi hafði beint samband við hönnuði stefnda og óskaði eftir „yfirlýsingu um burðarhæfi“. Hann hafi fengið þau svör að ekki væri hægt að gefa slíkt út fyrr en búið væri að opna núverandi vegg (á 1. hæð) svo að hægt væri að skoða málið nánar. Stefnandi hafi verið beðinn um að gera það en það dróst. Auk þess hafi hann hafist alltof seint handa við að undirbúa verkþáttinn. Stefndi vísar þetta varðandi til verkfundargerðar nr. 15, 13. júlí 2012 þar sem er bókun í lið 13 Hönnunargögn, breytingar:

„Verktaki óskar eftir því að fá áritaðan og stimplaðan uppdrátt frá hönnuði verkkaupa og byggingarfulltrúa um að burðarkerfi veggja á 1.hæð beri veggi 2.hæðar sem búið er að hanna. PSP segir byggingarfulltrúa vera í sumarfríi og að engin sé að leysa hann af á meðan, svo ekki verður hægt að fá undirritun hans í fljótheitum, en væntanlega sé hægt að fá hönnuði til þess að árita uppdráttinn.

BBS óskar eftir yfirlýsingu burðarþolshönnuðar Almennu um að burðarhæfi veggjarins á 1.hæð beri veggi 2.hæðar.

Burðarþolshönnuður hjá Almennu hefur svarað þessum fyrirspurnum áður og bent á að þeir getir ekki staðfest burðargetu veggja 1.hæðar fyrr en búið er að opna veggina og skoða það nánar. Óskað er eftir því að verktaki opni núverandi vegg svo hægt sé að færa umrædda uppbyggingu á veggjum og festingu glugga inná uppdrætti veggja 2.hæðar, þannig að hönnuðir geti staðfest burðargetu þeirra með áritun sinni á uppdrættina.“

        Stefndi byggir á því að því sé ekki um atvik að ræða sem heimili framlengingu á skilafresti eða teljist vera á ábyrgð stefnda. Þá sé krafa um 98 daga skilafrest ekki sett í neitt samhengi við raunveruleg áhrif meintrar tafar á viðbrögðum hönnuðar. Um nánari atvik vísar stefndi til svars framkvæmdaeftirlits í afgreiðslu krafna nr. 2 og 3, kröfuliðar nr. 1. Eins og þar komi fram hafi átt sér stað ítrekuð samskipti þar sem stefnandi var hvattur til að vinna áfram að málinu eftir að í ljós kom í byrjun maí 2012 að hann ekki byrjað á hönnunarvinnu. Samþykki við hönnun sinni hafi hann fengið 21. maí 2012 frá eftirliti og hönnuðum en þá var einungis rúm vika þar til hann átti að skila af sér fyrsta áfanga verksins. Fullnaðaruppdráttum hafi síðan ekki verið skilað fyrr en 13. ágúst 2012 eða um 70 dögum eftir að skila átti fyrsta áfanga verksins. Þessar tafir gætu því ekki leitt til réttar á tímaframlengingu.

        Varðandi stærð lyftuops þá segi í stefnu að ekki hafi komið fram „fullnægjandi upplýsingar um staðfest mál lyftuops“. Athygli hafi verið vakin á þessu 10. og 11. ágúst 2012 og beri að lengja verktíma um sjö daga vegna þessa. Þessari athugasemd stefnanda hafi verið svarað fjórum dögum eftir að hún barst og auk þess hafði þá komið í ljós að umrædd mál á lyftuopinu lágu fyrir á uppdráttum og engar breytingar höfðu orðið. Í þessu samhengi vísar stefndi til útboðsgagna, liðar nr. 0.7.1, þar sem fram komi að verktaka beri að rýna einstaka verkþætti eigi síðar en tveimur vikum áður en framkvæmdir eiga að hefjast við verkþáttinn. Kröfum sé því alfarið hafnað.

        Varðandi tafir vegna of stuttra stálbita þá mótmælir stefndi því að vansmíði hafi verið á byggingarefni sem stefndi hafi átt að afla, og hafi tafið verkið um að minnsta kosti sex vikur og segir þetta algjörlega ósannað. Eins og fram komi í verkfundargerðum nr. 21, 22, 23, 24 og 25 (fyrst 3.september 2012) var beðið eftir lausnum frá hönnuðum varðandi umræddar festingar en við nánari skoðun kom í ljós að festingarnar voru í höndum stefnanda sjálfs sem hluti af uppbyggingu veggja á 2.

 hæð. Hann hafi unnið og sett upp umrætt stálvirki (stálbita o.fl.) 2.-15. apríl 2012 og virðist hafa stillt stálbitum vitlaust upp (of stutt) miðað við uppbyggingu á veggjum 2. hæðar sem hann hafi sjálfur séð um hönnun á. 

         Stefnandi setji síðan upp viðbótarfestingar fyrir gluggahornin sem hann útbjó sjálfur, væntanlega í samráði við sína hönnuði, 19.-28. september 2012 (smíðað 13. sept. 2012, skv. dagsskýrslum verktaka) og síðan breytta/viðbótar festingu fyrir sólskerma yfir brúnni 7. nóvember 2012. Bókað sé í fundargerð í október 2012 að unnið sé að smíði framlengingar á stálbita en engin krafa komi fram um framlengingu skilafrests. Í verkfundargerð nr. 28 15. nóvember 2012 óski eftirlit formlega eftir uppfærðum uppdráttum þar sem umræddar festingar sem verktaki hafi sett upp séu sýndar. Í orðsendingu nr. 38, 21. nóvember 2012, mótmælir stefnandi umræddri ósk og eftirlit svari með orðsendingu nr. 21, 22. nóvember 2012. Stefnandi hafi því lokað útveggjum og sett upp sólskerma yfir brú með þeim festingum sem hann útbjó sjálfur og setti upp án þess að skila inn umbeðnum teikningum til eftirlits eða byggingarfulltrúa. Uppfærðir uppdrættir hafi ekki enn borist frá stefnanda en verkþátturinn hafi verið framkvæmdur af stefnanda 19. sept. til 7. nóv. 2012. Þessi krafa stefnanda sé því alltof seint fram komin og eigi engan efnislegan rétt á sér.

        Varðandi liðinn Glerveggir og hurðabúnaður þá sé því haldið fram í stefnu að verkið hafi tafist um þrjár vikur vegna meintra tafa á því að svara fyrirspurn um umbúnað hertra glerhurða á glerveggjum. Í svörum framkvæmdaeftirlits frá október 2012 sé farið yfir samskipti aðila vegna þessa atriðis. Ekki sé hægt að fallast á að það sem þar er lýst hafi haft nokkur áhrif á heildarframgang verksins en stefnandi virðist hafa hafist handa um verkþáttinn hinn 27. nóvember 2012 löngu eftir að fyrirspurnum hans var svarað til fullnustu og verktími var liðinn. Stefnandi hafi ekki látið vita af því á verkfundum fyrr en hinn 20. ágúst 2012 að hann teldi sig vanta frekari upplýsingar til að halda áfram með umræddan verkþátt. Það sé því augljóslega rangt að meintur skortur á viðbrögðum hafi tafið verkið. Glerveggir hafi verið samþykktir 21. maí 2012 með athugasemdum þar sem óskað var eftir frekari upplýsingum yfir pólýhúðun á stáli frá verktaka. Stefnandi hafi skilað inn frekari upplýsingum 2. október 2012 og endanleg samþykkt legið fyrir frá hönnuðum 3. október 2012.

        Varðandi færslu á gluggahorni suðurveggjar sé í raun um að ræða ágreining um auka- eða viðbótarverk er tengist skilningi á útboðsgögnum og verklýsingum. Ekki sé nein heimild í samningi til að gera sjálfstæða kröfu til framlengingar verkskila á grundvelli minni háttar aukaverks.

         Varðandi liðinn Óhagstætt veður þá hafi veðrið að mati stefnda ekki getað verið betra fyrir umrædda framkvæmd. Hvað varðar veður þegar komið hafi verið fram yfir sett verklok þá hafi veðrið verið hefðbundið haust- og vetrarveður að mati eftirlits þar sem stakir dagar voru erfiðir fyrir utanhússvinnu. Ekki verði séð að verktaki hafi farið fram á aukinn verktíma vegna veðurs meðan á verkframkvæmdum stóð og krafan sé því allt of seint fram komin. Þrettán daga tafir séu með öllu óútskýrðar og eingöngu vísað til mats stefnanda sjálfs sem sé ekki tengt við hina bundnu leið verksins með neinum hætti. Liðurinn sé því óreifaður og ósannaður með öllu.

        Varðandi liðinn Tafir vegna aðgangsmála þá vísar stefndi til reglugerðar nr. 985/2011 um aðgang að flugverndarsvæðum. Á aukafundi með stefnanda þann 22. mars 2012 hafi verið farið sérstaklega yfir þetta mál og fulltrúa stefnanda bent á að hafa samband við viðeigandi aðila vegna aðgangsmálanna. Afgreiðsla aðgangsheimilda hafi tekið tvær vikur til að byrja með. Ekki sé upplýst hvers vegna stefnandi sótti ekki um heimildir fyrir starfsmenn í upphafi heldur hafi umsóknir tínst inn eftir því sem verkinu vatt fram og stefnandi geti ekki um að ávallt hafi verið unnt að leysa mál með því að fá öryggisgæslu á meðan aðgangsheimildir vantaði. Engar forsendur séu fyrir því að framlengja skilafrest verksins vegna þessa framkvæmdaatriðis sem hafi legið fyrir í upphafi og stefnandi hefði getað komið í veg fyrir öll vandræði með góðu skipulagi og fyrirhyggju.

        Varðandi liðinn Pólýhúðun klæðningarplatna þá segi í stefnu að þegar í ljós kom að senda þurfti álplötuklæðingu í pólýhúðun hafi bæði hlotist af því viðbótarkostnaður og tafir. Samkvæmt orðsendingu nr. 15, 10.apríl 2012 frá stefnanda komi ekki fram að um viðbótarkostnað sé að ræða, einungis staðfesting á pöntun efnis og ósk um frekari upplýsingar um magn á lit klæðningar. Krafan eigi ekki efnislega rétt á sér og komi auk þess allt of seint fram, sbr. nánari umfjöllun í svari eftirlits vegna aukaverks nr. 65, mótteknu frá stefnanda 21. desember 2012. Rétt sé að nefna að spurning um þetta hafi komið fram á fyrirspurnartíma útboðsins og verið svarað þannig að ef litir væru ekki til þyrfti verktaki að láta húða með lit.

        Varðandi liðinn Tafir vegna skorts á flísum þar sem stefnandi krefjist lengingar verktíma um „að minnsta kosti 5-6 mánuði“ með þeim rökum að stefndi hafi átt að leggja til flísar en vantað hafi upp á magn þegar til átti að taka Þetta atriði í fyrsta lagi ekki máli  hvað varðar framvindu verksins og í öðru lagi hafi það eingöngu verið skipulagsleysi stefnanda um að kenna að viðbótarflísar voru pantaðar seint. Við þetta bætist að á teikningum, sem voru hluti gagna verksins, var sérstaklega minnst á skyldur verktakans, t.a.m. á teikningu XK 610-20, en þar segi:

                „Eftirfarandi athugist sérstaklega

Verkkaupi leggur til xx fermetra af ljósum flísum og xx fermetra af dökkum flísum sem ætlast til að notað verði í þessu útboði. Það sem á vantar útvegar verktaki.“

        Sama komi fram og sé áréttað á teikningu nr. X43-109 um gólffrágang. Flísar hafi verið til á lager en bæði komi fram á síðastnefndum teikningum og í samskiptum á verktíma að verktakinn skuli yfirfara magn flísa á lager verkkaupa. Á þetta sé minnst á verkfundum, s.s. verkfundi nr. 20, 27. ágúst 2012, og í tölvuskeytum, sbr. texta úr tölvupósti frá eftirliti hér að neðan sem sendur var til stefnanda 29. október 2012, þegar hann varð var við skort á flísum. Þá liggi fyrir að byggingastjóri, starfsmaður stefnanda, hafði að lokum samband við efnissalann hinn 23. nóvember 2012 og spurðist fyrir um hvort flísar væru til eða hvort þyrfti að panta þær. Stefnandi hafi því lagt flísar þangað til hann varð alveg uppiskroppa með þær. Stefnandi tilkynnti síðan á verkfundi nr. 29, 26. nóvember 2012, að hann ætlaði sér ekki að skaffa viðbótarflísar eins og óskað hefði verið eftir af stefnda og kæmi fram á uppdráttum arkitekta þar sem hann teldi stefnda eiga að leggja til flísar samkvæmt gögnum, sbr. tölvuskeyti þess efnis frá verktaka 29. okt. 2012.

        Stefndi telur engar forsendur fyrir því sem haldið er fram í stefnu að um einhvers konar vanefndir sé að ræða hjá honum sem gætu réttlætt kröfur um framlengingu verktíma, hvað þá að það geti verið fimm til sex mánuðir því að flísar hafi verið til reiðu þangað til skammt var til þeirra verkloka sem stefndi miðar við.

        Varðandi liðinn Efnisútvegun þar sem stefnandi nefni tafir á útvegun efnis til verksins, m.a. þar sem ekki hafi verið um að ræða lagervöru, þá tilgreini stefnandi ekki nánar í tíma hvaða tafir hafi orðið af þessum sökum og heldur ekki hve marga daga sú töf eigi að hafa staðið. Hvað varðar afgreiðslur efnismála, sbr. verkfundargerð nr. 5, 30. apríl 2012, þá var svar eftirlits eftirfarandi: „BIS segir allar fyrirspurnir afgreiddar eins fljótt og mögulegt er. Þá skuli vanda framlagðar fyrirspurnir, svo ekki verði tafir á afgreiðslu þeirra.“ Afgreiðsla efnismála hafi þannig verið háð undirbúningi og upplýsingagjöf frá stefnanda og því virðist ekki hafa verið sinnt.

                    Í stefnu sé því haldið fram að meintur greiðsludráttur á verkreikningum hafi valdið töfum á verkinu. Rökin virðist vera þau að ekki hafi verið heimilt að innheimta tafabætur með því að draga fjárhæð þeirra frá greiðslu framvindureikninga og telji stefnandi sig eiga rétt til sex vikna framlengingar á verktíma af þessum sökum. Stefndi hafnar þessu og vísar til þess að ef samningsbundnar tafabætur eigi á annað borð rétt á sér sé fullheimilt að draga þær frá við greiðslu reikninga verktaka. Þetta sé staðfest í dómum Hæstaréttar, m.a. dómi í máli nr. 329/2002. Einnig kemur þetta skýrlega fram í ákvæðum ÍST-30 sem séu hluti samnings aðila, þ.e. gr. 5.2.8. Að auki sé með öllu ósannað að frádráttur tafabótanna hafi tafið framvindu verksins. Stefnandi haldi því fram að fjöldi aukaverka hafi verið slíkur að tafið hafi verið um „að minnsta kosti 2-3 mánuði“. Af yfirliti yfir aukaverk í lokaskýrslu eftirlits megi sjá að rúmlega helmingur af aukaverkum verktaka, eða 46 verk. af 84 verkum, var lagður fram frá nóvember 2012 til mars 2013 og voru sum aukaverkanna jafnvel frá því í maí 2012. Af 84 aukaverkum sem voru lögð fram af verktaka hafi 27 aukaverkum verið hafnað og þ.a.l. 57 samþykkt. Auka- og viðbótarverk hafi því ekki í öllum tilfellum verið til lengingar á verktíma þar sem sum voru til að auðvelda framkvæmdir og til styttingar á verktíma. Verktaki hafi ekki lagt fram kröfu um viðbótarverktíma í öllum tilfellum vegna þessara verka á verktímanum. Fjárhæð aukaverka og fjöldi þeirra sé hvorki hlutfallslega mikill miðað við fjárhæð verklauna í heild né eðli þess verks sem um ræðir. Þá sé engin fullnægjandi greining á því í stefnu né annars staðar í gögnum með hvaða hætti aukaverkin hafi tafið framgang verksins. Stefndi bendir á þá reglu verktakaréttar að verktaki fái greitt sérstaklega fyrir aukaverk og ekki stofnist réttur til tímaframlengingar á grunni ÍST-30 vegna þeirra, nema um mjög veruleg frávik sé að ræða en svo hafi ekki verið í þessu máli.

        Þá sé í stefnu að tafir hafi orðið vegna veggjar með EI-60 brunamótstöðu. Rétt sé að eftirlit gerði athugasemdir við gerð veggjarins en ekki sé útskýrt í stefnunni með hvaða hætti tafir urðu á verkinu vegna þess. Aðilar áttu samskipti vegna þessa í lok árs 2012 og byrjun 2013. Engin krafa hafi verið sett fram um framlengingu verktíma á verktímanum sjálfum og engin töf orðið á uppsetningu veggjarins enda málið snúist um frágang á milli veggjar og þaks sem kom í ljós þegar uppsetningu veggjarins og smíði var lokið.

        Varðandi Tafir vegna þakhalla þá megi um þetta atriði að mörgu leyti segja það sama og í síðasta lið. Engin krafa hafi komið fram um framlengingu á verktíma og gallinn ekki komið fram fyrr en eftir að vinnu var lokið.

          Stefndi vísar til þess að í lok umfjöllunar í stefnu um tafabætur séu ýmis sjónarmið endurtekin og þeim sé mótmælt í heild sinni. Sérstaklega sé því mótmælt að réttur hafi stofnast til 7-8 mánaða tímaframlengingar, eins og haldið sé fram í stefnu. Stefndi byggir á því að um sé að ræða samningsbundnar bætur sem séu í samræmi við það sem almennt gerist á markaði. Heildarfjárhæðin sé há vegna þess að verktakinn vanefndi verk sitt mjög verulega og hann fái ekki afslátt af samningsbundnum vanefndaúrræðum í slíku tilviki. Tafirnar hafi haft í för með sér margs konar vandkvæði og viðbótarkostnað fyrir stefnda en hann þurfi hins vegar ekki að færa sönnur á fjárhæð slíks, enda séu tafabætur umsamdar bætur sem ekki verði breytt þótt einstaklingsbundið tjón verði meira eða minna. Ávallt hafi verið upplýst um þann dagafjölda sem um ræddi í tafir í verkfundargerðum og engum vandkvæðum verið bundið fyrir verktakann, stefnanda, að átta sig á fjárhæð þeirra. Þær hafi og verið innheimtar eftir því sem þær féllu til. Fráleitt sé því að halda því fram að um tómlæti hafi verið að ræða hjá stefnda eins og haldið í stefnu og sé sú málsástæða í mótsögn við annan málatilbúnað stefnanda um að ekki hafi mátt draga bætur frá framvindureikningum. Hið síðastnefnda tengist svo umfjöllun í stefnu um uppgjörstíma og gjalddaga tafabóta. Þar haldi stefnandi því fram að gjalddagi tafabóta sé enn ekki kominn en að stefndi hafi verið „bundinn við að gera þau mál upp, þ.e. kröfu um tafabætur og ágreining þar um, í lok verksins“. Eins og áður segir kveði ÍST-30 á um að tafabætur séu innheimtar jafnóðum með frádrætti af útgefnum reikningum. Það geti ekki farið á milli mála að vegna júníreiknings stefnanda, verkframvindu nr. 4, voru innheimtar bætur að fjárhæð 3 milljónir króna sem voru áfallnar bætur vegna fyrsta áfanga í júní 2012. Aftur hafi verið dregið frá verklaunum vegna septemberreiknings 15,1 milljón króna, þ.e. 90 dagar vegna fyrsta áfanga og 60 dagar vegna annars áfanga. Minna hafi verið dregið frá reikningum vegna janúar til desember 2012 og janúar 2013.  þetta Þetta hafi jafnóðum verið upplýst á verkfundum og þess sé getið í fundargerðum hvað var áfallandi á hverjum tíma. Því sé það haldlaust í stefnu að krafan sé ekki nægjanlega sundurliðuð og upplýst til að geta talist greiðslukræf. Krafan sé um 100.000 kr. á dag fyrir tafir á hvorum verkáfanga og dagarnir hafi verið taldir fyrir stefnanda með bókunum í verkfundargerðir. Fjárhæðirnar hafi verið dregnar af jafnóðum þannig að þessi málsástæða sé staðlaus.

        Að síðustu haldi stefnandi því fram að ekki hafi verið samið um sjálfstæðar dagsektir vegna fyrsta áfanga. Þetta sé í fyrsta skipti sem þetta viðhorf komi fram, enda einstaklega skýrt í útboðsgögnum, verksamningi og síðan bókunum á verkfundum hvernig litið var á gögnin að þessu leyti. Stefnandi hafi engum mótmælum hreyft og sé því of seint að hreyfa þeim nú.

 

        Varðandi aukaverkakröfur þá tekur stefndi fram að í verkinu hafi verið samþykkt alls 57 aukaverk og greiðsla fyrir þau samtals að fjárhæð 10,2 milljónir króna eða um 5% af heildarsamningsfjárhæð verksins. Alls gerði stefnandi kröfu um greiðslu á 84 aukaverkum og því hafi 27 kröfum verið hafnað. Flest aukaverkin hafi verið minni háttar og yfirlit um öll umkrafin aukaverk sé í verklokaskýrslu framkvæmdaeftirlits nr. 252, Viðauka A, og vísar stefndi almennt til þess sem þar kemur fram. Þar séu jafnframt tilgreindar á einum stað ástæður þess að aukaverkakröfum var hafnað.

        Stefndi telur að um aukaverk gildi ákvæði 0.3.1 í útboðslýsingu en í því er m.a. vísað til ákvæða ÍST-30, kafla 3.6. Þar segi m.a. að verktaki eigi rétt á sérstakri greiðslu vegna breytinga sem verkkaupi biður um. Eins og fram komi í gr. 3.6.4 í staðlinum beri að semja tafarlaust um síka greiðslu og í samningi „skal taka fram hvort breytingin hefur áhrif á skilafrest og þá hve mikil“. Einnig segi í gr. 3.6.5 að engin auka- eða viðbótarverk skuli vinna nema samkvæmt „staðfestum fyrirmælum verkkaupa“. Þegar leyst er úr málinu þarf einnig að hafa í huga að í gr. 5.1.5 segir að verktaki skuli skila mánaðarlega skrá yfir hugsanlegar kröfur um greiðslu vegna aukaverka og breytinga og gera „rökstudda grein fyrir þeim“. Allir reikningar skulu vera nægjanlega sundurliðaðir og studdir fylgiskjölum, sbr. ákvæði gr. 5.1.11. Mótbárur stefnda við greiðslukröfum byggja allar á ákvæðum samningsins. Ástæður fyrir höfnun greiðslu vegna aukaverka hafi í flestum tilvikum verið að stefndi taldi verk innifalin í samningsverkinu, þ.e. að ráða hafi mátt af útboðsgögnum og verksamningi að verktaki þyrfti að inna viðkomandi vinnu af hendi. Gerðar séu þær kröfur til verktaka að þeir kynni sér vel útboðsgögn og átti sig á því hvað þurfi til að ljúka verkþáttum sem þar er lýst. Á þessu sé hnykkt í ýmsum ákvæðum samningsgagna, s.s. gr. 0.2.2 þar sem fram komi að í „hverjum einstökum lið skal einnig vera innifalinn allur kostnaður verktaka af viðkomandi verklið, svo sem allt efni, vinna, vélar, og tæki ... nema annað sé tekið fram“.  Ef einhver vafi er við tilboðsgerð og lýsingu útboðsgagna ber verktaka að leita skýringa, samanber ákvæði gr. 2.2.3 í ÍST-30.

        Aukaverki nr. 12, um greiðslu fyrir undirbúning gólfílagnar, hafi verið hafnað á þessum forsendum, sbr. orðsendingu á dskj. nr. 182. Skýrt komi fram í lið nr. 5.1.1 (Gólfílögn) og viðeigandi teikningum hvert ástand gólfs sé og hvað eigi að gera. Nauðsynlegur undirbúningur við hreinsun o.fl. var því innifalinn. Sama eigi við um aukaverk nr. 16 þar sem krafist er greiðslu vegna uppsetningar á blikkstoðum. Skýrt kemur fram á teikningum að blikkstoðir séu hluti af þeim veggjum sem stefnandi tók að sér að byggja. Engu breytir þótt stefnandi hafi þurft að spyrjast fyrir um þykkt stoðanna eins og hann telur að styðji kröfur sínar. Engin sönnunargögn eða nein fullnægjandi reifun hafi verið lögð fram af stefnanda um það að hönnuðir og framkvæmdaeftirlit hafi komist að rangri niðurstöðu þegar fjallað var um kröfur hans á fyrri stigum.

         Í kröfu stefnanda nr. 17 sé fjallað um niðurrif á svokölluðum austurvegg og meintum erfiðleikum við það vegna staðsetningar á bráðabirgðaútvegg. Stefnandi setji fram kröfu að fjárhæð 1.626.480 kr. sem hann finni út á grundvelli þess sem hann segist hafa reiknað með í tilboði og þess kostnaðar sem raunverulega varð. Á dskj. nr. 17 sé krafan hins vegar sett fram með allt öðrum hætti, þ.e. sem tímafjöldi smiða og verkamanna (348 klst.). Upphaflega hafi krafan verið sett fram með enn öðrum hætti, þ.e. þá var hún að fjárhæð 981.840 kr. Kröfunni hafi verið svarað með bréfi framkvæmdaeftirlits hinn 18. október 2012 og þar bent á að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem greindi í útboðsgögnum, þ.m.t. þeim teikningum arkitekta sem fylgdu. Hækkun kröfunnar sé alltof seint fram komin og öll gögn mjög á reiki um það hvað hafi valdið viðbótarkostnaði og hver hann hafi orðið. Augljóslega sé krafan því ósönnuð, bæði hvað varðar meint frávik frá verklýsingum og þann kostnað sem á að hafa leitt af þeim. Hugmyndir um „brostnar forsendur“ fyrir tilboði í verkliðinn eigi hvorki stoð í samningi né réttarreglum.

         Aukaverki nr. 29 (plex á þaki rútuskýlis) var hafnað á þeim grunni að það hefði verið innifalið í lið 7.5.8 í útboðs- og verklýsingu.

         Aukaverk nr. 34 lúti að aukakröfu vegna þess að stálvirki sem stefnandi tók að sér að setja upp var þyngra en áætlað var. Krafan eigi hins vegar ekki rétt á sér vegna þess að í umræddum liðum sé sérstaklega tekið fram að greitt sé fyrir uppsetninguna í heild óháð hvort virkið sé þyngra eða léttara en áætlað var. Þetta sjáist þegar ákvæði útboðslýsingar í grein 2.6.0.6 um magntölur og mælingu er borin saman við þá liði sem um ræðir (2.6.1-2.6.3). Í fyrstnefndu greininni sé kveðið á um að greiða skuli fyrir uppsett og frágengið stál á kílóverði sem tilgreint sé í einingaverði í tilboðsskrá „nema annað sé sérstaklega tilgreint hér á eftir“. Í greinunum á eftir segi svo um þessa tilteknu liði að magn sé reiknað „í heild“. Þetta sjáist einnig skýrlega í tilboðsskrá sem var hluti útboðsgagna þar sem þessir liðir eru tilgreindir sem „heild“ og að magn sé „1“ á bls. 19 undir liðnum „Stálvirki“.

        Umrætt stálvirki breyttist hvorki né varð tafsamara í uppsetningu svo vitað sé. Augljóslega hefði stefnandi hvorki slegið af samningsverkinu ef stálvirkið hefði reynst einhverjum kílóum léttara en áætlað var né hefði nokkur krafa verið gerð til þess. Aukaverkakrafan eigi sér því hvorki samningslega stoð né sé byggð á ætluðum viðbótarkostnaði. Hún sé raunar sett fram sem magnuppgjörskrafa undir heitinu aukaverk og feli í sér þversögn. Stefndi getur þess að verkeftirlit hafi boðið lítils háttar greiðslu vegna þessa liðar en það ekki falið í sér neina viðurkenningu á réttmæti kröfunnar, enda sé ekki byggt á því í málinu af hálfu stefnanda.

       Aukaverk nr. 44, Icopal dúkur og krossviður fjarlægður, snúist um að stefnandi telji sig hafa þurft að vinna meira en hann átti von á við að leysa af hendi verkliði nr. 7.2.3 og 7.2.9 og nefnir í stefnu að krafan „taki mið af vinnutíma smiða“ og ófaglærðra starfsmanna, samtals um 44 klukkustundir. Krafan sé algjörlega vanreifuð og var ekki sett fram áður en verkið var unnið eða samráð haft á annan hátt. Kröfunni hafi því verið hafnað. Í stefnu sé engin reifun á því hvað það var nákvæmlega sem þurfti að gera umfram það sem stefnandi átti von á.

         Um aukaverk nr. 49 segi í stefnu að þar sem ekki hafi reynst unnt að nýta byggingarefni úr eldri útvegg hafi þurft að kosta meiru til við innkaup á nýju efni. Er gerð krafa um greiðslu á 2.074.699 kr. Eftirlit hafnaði þessu, enda ekki fjallað um þau atriði sem stefnandi tiltekur kröfu sinni til stuðning í viðeigandi ákvæðum verklýsingar (ákvæði 7.2.3 um útveggi á 2. hæð aðalbyggingar). Í ákvæði 7.2.1, um niðurrif á austurvegg aðalbyggingar, sé fjallað um að ef verktaki getur nýtt efni þá megi hann gera það. Engin stoð sé hins vegar fyrir þeirri kröfu sem gerð sé í verklýsingu fyrir uppbyggingu hins nýja veggjar.

        Um aukaverk nr. 53 segi í stefnu að nauðsynlegt hafi verið að „ná í hæðarkóta á eldra gólfinu, innan við bráðabirgðavegginn“. Vegna þess hafi þurft að gera hurð á bráðabirgðavegginn. Hins vegar sé óútskýrt hvers vegna þetta hafi ekki verið hluti af samningsverkinu og af hvaða sökum þetta hafi komið á óvart.

        Aukaverkakrafa nr. 57 fjalli um „aðlögun flísa“ en að mati stefnda var sá liður innifalinn í verklið nr. 5.5.1. Ekki var beðið um eða fengin fyrirmæli í tæka tíð um að vinna þyrfti aukaverk við lögnina.

          Í aukaverkakröfu nr. 60 krefjist stefnandi greiðslu vegna „niðurtektar og færslu á suðurglugga“ að fjárhæð um 1,8 milljónir króna. Stefndi telur að um samningsverk sé að ræða og vísar um það til verklýsingar, gr. 7.2.1 og teikningar nr. X99-05 þar sem nánari skýringar koma fram á verkþættinum og telur þau viðvik sem stefnandi telur upp hafa átt að vera innifalin í tilboði hans í verkið.

        Sama eigi við um aukaverk nr. 63 þar sem stefnandi krefjist sérstakrar greiðslu vegna smíði og uppsetningar á festingum á gluggaprófíla. Verkið er innifalið í verklið nr. 7.2.3 (útveggir á 2. hæð aðalbyggingar). Festingar veggja og glugga á hornum eru hluti af verkinu og hönnun þess. Ef uppsetning á bitum hefur verið röng var það ekki á áhættu stefnda sem verkkaupa, heldur stefnanda sjálfs.

        Aukaverk nr. 64 snúist um vinnu sem var innifalin í lið nr. 5.5.1 þar sem tilgreint var að verkkaupi myndi leggja til flísar í verkið og lið 3.3.2, Ofnar, þar sem ofnar eru nýttir og greitt hefur verið fyrir í framvindu samningsverka.

         Í aukaverki nr. 65 krefjist verkkaupi um einnar milljónar króna í flutningskostnað vegna þess að flytja þurfti álplötur í pólýhúðun til litunar. Vinnan hafi verið innt af hendi til að uppfylla kröfur verklýsingar, liði 5.4.1, 7.3.1 og 7.3.2, og engar forsendur séu fyrir því að greiða sérstaklega vegna þess hvernig kaupa þurfti inn. Stefnandi hafi borið áhættu af þeim innkaupum og gat kynnt sér lagerstöðu birgja á tilboðsstigi.

        Aukaverk nr. 66 fjalli um kostnað vegna flutnings á gluggaprófílum. Ekki verði séð að hér sé um neins konar aukaverk að ræða, heldur verklag sem verktaki ákvað sjálfur og bar hvorki undir verkkaupa né fékk samþykki fyrir.  

        Í aukaverki nr. 73 krefst stefnandi þess að fá greiddar 118 þúsund krónur vegna þess að færa þurfti til netbakka. Stefndi telur að þetta verk hafi verið innifalið í lið nr. 4.1.2 þar sem fram kemur að verktaki hafi átt að samræma og staðsetja netstiga miðað við aðrar lagnir áður en hann yrði settur upp. Hvorki hafi verið lögð fram krafa í tíma, né fengið samþykki fyrir þessu sem aukaverki.

        Stefndi fjallar síðan um aukaverk þar sem fullnægjandi gögn og sundurliðanir eru ekki lagðar fram.

        Aukaverk nr. 32 fjalli um vinnu við epoxy-gólf. Óskað hafði verið eftir tilboði í þennan lið, en einungis hafi komið reikningur eftir að verkið hafði verið unnið, sbr. tölvupóstsamskipti er áttu sér stað dagana 31. ágúst og 1. september 2012. Með tölvupósti hinn 1. september hafi verkeftirlit óskað eftir stoðgögnum. Þau bárust ekki fyrr en löngu síðar. Þegar reikningurinn barst var kostnaður við 8 fermetra epoxy-gólfið 208.224. kr. og var umræddum lið því hafnað á þeim forsendum að fjárhæðir pössuðu ekki miðað við magn, auk þess sem í dskj. nr. 191 komi fram að ekki yrði greitt fyrir liðinn fyrr en búið væri að laga halla á gólfinu.

        Aðilar deili um eðlilegt endurgjald vegna aukaverks nr. 52. Stefnandi hafi ekki lagt fram tilboð eða áætlun vegna verksins og setji nú fram himinháar kröfur sem hann telur að þurfi að samþykkja vegna þess að ekki hafi verið sýnt fram á að þær séu ósanngjarnar. Það sé hins vegar ekki kröfuaðferð sem hægt er að beita samkvæmt ákvæðum verksamningsins, eins og áður sé vikið að.

        Aukaverk nr. 55 hefur ekki verið samþykkt þar sem ekki voru lögð fram gögn um þann tíma sem krafist er greiðslu fyrir. Ekki virðist hafa verið tekið tillit til þess í kröfugerð verktakans að gröftur frá lögnum er inni í samningsverki, lið 1.2.4. Til sátta lagði eftirlit til að greidd yrðu 50% af framlagðri kröfu en því hafnaði stefnandi. Krafan kom auk þess allt of seint fram því að verkið var unnið í maí en krafan virðist hafa komið fram í desember sama ár (2012).

        Kröfur nr. 80 og 81 séu sama marki brenndar. Báðir verkliðir voru innifaldir í samningsverkum og stefndi vísar til lokaskýrslu verkeftirlits.

        Með aukaverki nr. 83 krefjist stefnandi kostnaðar vegna „aðgangspassa og setu námskeiðs“. Við upphaf aðalmeðferðar féll stefnandi frá þessum kröfulið.

        Krafa nr. 84 fjallar um málun línurista. Enga sundurliðun sé að finna á dómskjali nr. 224 og krafan algjörlega vanreifuð. Stefndi kannast ekki við að hafa beðið um aukaverk sem tengist þessari lýsingu og var kröfunni því hafnað. Reifun í stefnu breyti þar engu um.

        Stefndi fjallar síðan um kröfur sem hann telur ekki byggjast á samningi.

        Aukaverk nr. 67 snúist um kostnað sem verktaki telur sig hafa lagt í umfram áætlun vegna þess að verkið tók lengri tíma en áætlað var. Umkrafin fjárhæð nemur 2,2 milljónum króna. Þessi krafa byggi ekki á neinu samningsákvæði og stefndi hafi ekki vanefnt skyldur sínar á neinn hátt. Þar fyrir utan sé krafan algjörlega vanreifuð og dómsskjal nr. 215 sé eigið mat stefnanda á því hvað sé hæfilegt að hann fái fyrir að reka vinnusvæði sitt í fimm mánuði. Þetta sé ekki sett í neitt samhengi við tilboð hans, heimild til verkframlengingar eða hvaða kostnaður það var sem nánar féll til. Krafan sé því fráleit, ósönnuð og algjörlega vanreifuð.

        Stefndi byggir á því að krafa stefnanda vegna kostnaðar við verktryggingu sem stefnandi lagði fram samkvæmt kröfum útboðslýsingar byggist ekki á neinum samningslegum forsendum og ljóst að lokaúttekt fór fram mun síðar og var með ýmsum athugasemdum þegar hún loks fór fram.

        Kröfur stefnda um sýknu byggja á meginreglum verktakaréttar um skyldu verktaka til að skila fyrirframákveðnu verkefni fyrir fast gjald á umsömdum tíma. Hvorki hafi verið sýnt fram á eitthvað sem hnekki því né þeim samningum sem gerðir voru til samræmis við þessar reglur. Stefndi byggir og á þeim samningsákvæðum og ákvæðum ÍST-30 staðalsins sem vísað er til hér að framan.

IV.

Niðurstaða

        Ágreiningur aðila lýtur að allmörgum atriðum sem varða verkframkvæmdina, verktímann, tafabætur, hönnunargögn og vanhönnun, meinta galla á verki, greiðslu framvindureikninga og kröfu stefnanda um greiðslur fyrir auka- og viðbótarverk.

        Við aðalmeðferð gáfu skýrslur Kári Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda, Kristinn Arnarsson verktaki, Páll Svavar Pálsson, forstöðumaður skipulags- og þróunar hjá stefnda og Benedikt Ingi Sigurðsson, verkfræðingur hjá Verkfræðistofu Suðurnesja, eftirlitsmaður með verkinu. Framburður þessara aðila verður ekki rakinn nema að því leyti sem hann er talinn hafa þýðingu varðandi úrlausn málsins.

        Stefnandi byggir á því að víkja beri ákvæðum verksamnings um skilafresti og tafabætur til hliðar á grundvelli reglna kröfuréttar um brostnar forsendur og 36. gr. samningalaga nr. 36/1936, enda sé ósanngjarnt að bera þau fyrir sig í ljósi allra atvika málsins. Stefnandi byggir hvað þetta varðar fyrst og fremst á því að verktími hafi verið alltof skammur. Auk þess byggir hann á fjölmörgum atriðum sem hann telur að heimila eigi framlengingu verktíma þar sem um hafi verið að ræða breytingar á verkinu sem hafi tafið framgang þess og vanefndir stefnda á að leggja fram fullnægjandi gögn  og efni.

        Dómurinn getur hvorki fallist á það að umrædd ákvæði í útboðslýsingu og verksamningi séu ósanngjörn né að þau séu í andstöðu við viðskiptavenju á þessu sviði. Ákvæðin eru hefðbundin og í samræmi við sambærilega verksamninga. Þá gerði stefnandi hvorki athugasemdir við verktímann á tilboðsstigi né er hann ritaði undir verksamninginn þann 4. apríl 2012 og ítrekaði þá áform um að skila fyrsta áfanga verksins hinn 1. júní 2012. Stefnandi hafði mikla reynslu af sambærilegum verkum og var því í aðstöðu til að gera sér að fullu grein fyrir þeim skuldbindingum sem hann tók á sig. Vanmat stefnanda á þeirri áhættu sem hann tók á sig með því að skuldbinda sig til ljúka verkum í samræmi við verksamninginn getur ekki leitt til þess að víkja beri ákvæðum verksamningsins um verktíma og tafabætur til hliðar með stoð í reglum um brostnar forsendur og 36. gr. samningalaga nr. 36/1936. Ekki er því fallist á þessa málsástæðu stefnanda.

        Í grein nr. 5.2.3 í ÍST 30 segir:

„Ef verktaki telur sig eiga rétt á framlengingu á verktíma skal hann tafarlaust senda verkkaupa rökstudda tilkynningu um það. Í tilkynningu skal rökstutt að töfin hafi hlotist af þeim atvikum sem verktaki ber fyrir sig.“

        Í stefnu byggir stefnandi á því að samkvæmt samkomulagi við stefnda hafi hann unnið þannig að fyrsta áfanga verksins að aðgengi fyrir farþega yrði tryggt um farþegagang þann 1. júní 2012 en öðrum verkþáttum innan fyrsta verkáfanga yrði skilað síðar. Stefndi mótmælir því að slíkt samkomulag hafi verið gert.

        Benedikt Ingi Sigurðsson eftirlitsmaður með verkinu, starfsmaður Verkfræðistofu Suðurnesja, sem kom sem vitni fyrir dóminn við aðalmeðferð, kvaðst aðspurður ekki kannast við að slíkt samkomulag hafi verið gert. Þá kemur ekki fram í verkfundargerðum að slíkt samkomulag hafi verið gert. Dómurinn telur að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að samkomulag um þetta hafi verið gert.

        Niðurstaða dómsins varðandi aukaverkakröfur stefnanda er sem hér segir:

        Aukaverkakrafa nr. 12. Telja verður að þetta verk hafi verið nauðsynlegt og unnið í samráði við verkkaupa, en það hafi ekki verið innifalið í lið 5.1.1 í verklýsingu. Verður því fallist á að hér sé um réttmæta kröfu að ræða að fjárhæð 148.008 kr.

        Aukaverkakrafa nr. 16. Í lið 2.6.3 og þeirri útboðsteikningu sem vísað er til kemur ekki skýrt fram að stefnandi hafi átt að útvega og leggja til þennan hluta skýlisins. Í þessum lið er um að ræða uppsetningu á efni sem stefndi átti að leggja til og ekki verður séð að stefnandi hafi getað gert sér grein fyrir því að og uppsetning blikkstoða hafi verið hluti af þessum verklið. Því er fallist á að þessi krafa stefnanda sé réttmæt, en hún er að fjárhæð 1.412.478 kr.

        Aukaverkakrafa nr. 17. Ekki verður annað séð en að staðsetning bráðabirgðaveggjar sé í samræmi við útboðsgögn og stefnandi hafi ekki mátt hafa réttmætar væntingar um aðra staðsetningu veggjarins. Ber því að hafa þessari kröfu.

        Aukaverkakrafa nr. 20. Umræddir állistar og festingar eru af því efni sem stefndi átti að leggja til verksins og þeir voru ekki tiltækir þegar til átti að taka. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefndi hafi afhent stefnanda umrætt efni. Því ber að fallast á þessa kröfur stefnanda að fjárhæð 140.130 kr.

        Aukaverk nr. 32. Hér er um að ræða aukaverk sem ekki var inni í útboðsgögnum og hefur stefndi ekki sýnt fram á að krafa stefnanda sé ósanngjörn. Ber því að fallast á kröfu stefnanda að fjárhæð 264.344 kr.

        Aukaverk nr. 34. Stefnandi hefur sett fram réttmæta kröfu sem byggð er á leiðbeinandi magntölum í verklýsingu og þar sem sýnt er fram á að aukið hafi verið við uppsetningu stálvirkis. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að þessi krafa sé ósanngjörn og verður því fallist á kröfu stefnanda að fjárhæð 764.903 kr.

        Aukaverk nr. 44. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á með hvaða hætti þessi verkþáttur hafi verið erfiðari eða tafsamari en búast hefði mátt við. Þessi kröfuliður er því vanreifaður og ekki er fallist á að um réttmæta kröfu sé að ræða.

        Aukaverk nr. 49. Samkvæmt útboðsgögnum er gert ráð fyrir að stefnandi nýti allt efni sem til fellur og útvegi það efni sem á vantar. Ekki verður séð í hverju viðbótarefni sé umfram það sem stefnandi hafi mátt gera ráð fyrir í tilboði sínu. Þessari kröfu stefnanda er því hafnað.

        Aukaverk nr. 52. Dómurinn telur að þetta sé aukaverk sem ekki hafi verið inni í útboðsgögnum og hefur stefndi ekki sýnt fram á að krafa stefnanda sé ósanngjörn. Er því fallist á kröfu stefnanda að fjárhæð 289.747 kr.

        Aukaverk nr. 53. Telja verður að hér sé um að ræða óumflýjanlegan hluta af samningsverki þar sem fyrir lá að gólfin ættu að vera í sömu hæð og gerð var krafa um í útboðsgögnum. Kröfunni er því hafnað.

        Aukaverk nr. 55. Dómurinn telur að þetta sé aukaverk sem ekki hafi verið inni í útboðsgögnum og hefur stefndi ekki sýnt fram á að krafa stefnanda sé ósanngjörn. Er því fallist á kröfu stefnanda að fjárhæð 109.940 kr.

        Aukaverk nr. 57. Telja verður að hér sé um að ræða óumflýjanlegan hluta af samningsverki þar sem fyrir lá að gólfin ættu að vera í sömu hæð og gerð var krafa um í útboðsgögnum, en þar kom fram að gerð væri rík krafa til mikillar nákvæmni við aðlögun flísa að aðliggjandi gólfefni. Kröfunni er því hafnað.

        Aukaverk nr. 58. Dómurinn telur að þetta sé aukaverk sem ekki hafi verið inni í útboðsgögnum og hefur stefndi ekki sýnt fram á að krafa stefnanda sé ósanngjörn. Ber því að fallast á kröfu stefnanda að fjárhæð 179.305 kr. en stefnandi hafði lækkað kröfuna um 46.080 kr. frá því sem hann setti fram.

        Aukaverk nr. 60. Færsla á suðurglugga. Í kafla 7.2.1 í verklýsingu er getið um niðurrif austurveggjar 2. hæðar, en á teikningu X99-05 er getið um niðurrif austurveggjar og sérstaklega merkt inn niðurrif hluta suðurveggjar. Ekki verður séð af útboðsgögnum að hluti suðurveggjar hafi átt að vera í verklið 7.2.1, niðurrif austurveggjar. Er því fallist á kröfu stefnda að fjárhæð 1.818.675 kr.

        Aukaverk nr. 63. Stefndi átti að útvega fullsmíðað stál og afhenda til uppsetningar en smíða þurfti og setja upp festingar fyrir gluggaprófíla. Dómurinn telur að þetta sé aukaverk sem ekki hafi verið inni í útboðsgögnum og hefur stefndi ekki sýnt fram á að krafa stefnanda sé ósanngjörn. Ber því að fallast á kröfu stefnanda að fjárhæð 83.595 kr.

        Aukaverk nr. 64. Um er að ræða efni sem stefndi átti að leggja til og útvega og stefnandi mátti gera ráð fyrir að fá afhent á verkstað. Hér er um flutningskostnað að fjárhæð 187.560 kr. að ræða sem stefnandi á réttmæta kröfu á að fá greidda.

         Aukaverk nr. 65. Flutningur efnis í og úr pólýhúðun. Fram kemur í útboðsgögnum að stefnandi átti að útvega málmplötur skv. ákveðnu litanúmeri sem fram kemur í verklýsingu. Stefnandi mátti því gera ráð fyrir því að sérpanta þyrfti efni með þessum lit eða gera aðrar ráðstafanir til þess að útvega viðeigandi efni. Af þeim sökum á stefnandi ekki rétt á greiðslu flutningskostnaðar. Kröfu hans er því hafnað.

            Aukaverk nr. 66. Varðandi þennan lið þá verður ekki annað séð en að staðsetning bráðabirgðaveggjar sé í samræmi við útboðsgögn og stefnandi hafi ekki mátt eiga réttmætar væntingar um aðra staðsetningu veggjarins. Hann mátti því gera sér grein fyrir því að eitthvert hnjask hlytist af niðurtekt glugga. Þessari kröfu stefnanda er því hafnað.

         Aukaverk nr. 67. Hafnað hefur verið framlengingu verktíma og af því leiðir að stefnandi ber ábyrgð á rekstri vinnusvæðis vegna lengri verktíma. Þessari kröfu stefnanda er því hafnað.

        Aukaverk nr. 73. Dómurinn telur að þetta sé aukaverk sem ekki hafi verið inni í útboðsgögnum og hefur stefndi ekki sýnt fram á að krafa stefnanda sé ósanngjörn. Ber því að fallast á kröfu stefnanda að fjárhæð 118.080 kr.

        Aukaverk nr. 80. Dómurinn telur að þetta sé aukaverk sem ekki hafi verið inni í útboðsgögnum og hefur stefndi ekki sýnt fram á að krafa stefnanda sé ósanngjörn. Ber því að fallast á kröfu stefnanda að fjárhæð 24.744 kr.

        Aukaverk nr. 81. Dómurinn telur að þetta sé aukaverk sem ekki hafi verið inni í útboðsgögnum og hefur stefndi ekki sýnt fram á að krafa stefnanda sé ósanngjörn. Ber því að fallast á kröfu stefnanda að fjárhæð 11.520 kr.

        Aukaverk nr. 82. Breyting á þakhalla. Stefnandi gerði lagfæringar á þakhalla eftir fyrirmælum stefnda og telur dómurinn að um aukaverk sé að ræða, enda hafi engin efnisleg mótmæli verið í greinargerð stefnda. Er því fallist á kröfu stefnanda að fjárhæð  984.232 kr.  

        Aukaverk nr. 83. Í útboðsgögnum kemur ekki fram að stefnandi hafi þurft að standa straum af kostnaði vegna aðgangskorta og námskeiða til þess að vinna verkið skv. útboðsgögnum. Ber því að fallast á þennan lið sem stefnandi lækkaði um 7.700 kr. frá upphaflegri kröfugerð og er nú að fjárhæð 496.154 kr.

        Aukaverk nr. 84. Dómurinn telur að þetta sé aukaverk sem ekki hafi verið inni í útboðsgögnum og hefur stefndi ekki sýnt fram á að krafa stefnanda sé ósanngjörn. Ber því að fallast á kröfu stefnanda að fjárhæð 246.630 kr.

       Varðandi skaðabótakröfu stefnanda vegna verktryggingar fellst dómurinn á kröfu stefnanda um að stefnda hafi borið að lækka verktryggingu þann 4. mars 2013 en þá hafði stefndi yfirtekið verkið. Útreikningi stefnanda á tölulið kröfunnar hefur ekki verið efnislega mótmælt og er því fallist á kröfu stefnanda eins og hún er sett fram að fjárhæð 614.342 kr.

        Samkvæmt því sem hefur verið rakið fellst dómurinn á að réttmætar kröfur stefnanda vegna aukaverka og skaðabótakröfu vegna verktryggingar nemi samtals 7.894.387 krónum. Samþykktir reikningar vegna framvindu og samþykktra aukaverka sem stefndi hélt eftir eru samtals 25.038.829 kr. Samtals er því fallist á kröfur stefnanda að fjárhæð 32.933.216 krónur.

          Stefndi gerir kröfu um að til frádráttar kröfum stefnanda komi tafabætur sem stefndi telur sig eiga rétt á. Í útboðsgögnum er kveðið á um þetta og í ákvæði 0.3.2 segir: „Verktaki skal ljúka verki sínu á tilskildum tíma samkvæmt grein 0.0.5 ... Fyrir hvern almanaksdag sem dregst að ljúka einstökum áföngum fram yfir verklok, miðað við meðfylgjandi aðgerðarplan, skal verktaki greiða verkkaupa 100.000 kr. í tafabætur. Telji verktaki sig eiga rétt á framlengingu skilafrests þá skal hann strax skýra frá því og um leið leggja fram nauðsynleg gögn er sanni réttmæti framlengingarinnar, sbr. kafla 5.2 í ÍST 30.“

       Verksamningur var gerður 4. apríl 2012 og samkvæmt 4. gr. hans kemur fram að verkáætlun verktaka liggi fyrir og sé hluti af samningnum. Verkinu sé skipt í tvo áfanga og verklok vegna 1. áfanga séu 1. júní 2012 og vegna 2. áfanga 1. ágúst 2012.

        Stefndi reiknar tafabætur vegna fyrsta áfanga frá skiladegi 1. júní 2012 til 29. nóvember 2012, þ.e. daginn áður en stefnandi tilkynnti verkskil, og eru tafabætur 100.000 kr. fyrir hvern dag eða samtals 17,4 milljónir kr. vegna þessa verkhluta.

        Vegna 2. áfanga reiknar stefndi tafabætur/dagsektir frá skiladegi 1. ágúst 2012 til 1. febrúar 2012, en verki lauk ekki, samtals að fjárhæð 18.300.000 kr. Samtals er krafa stefnda um tafabætur að fjárhæð 35.700.000 kr.

        Ekki liggur fyrir í málinu að stefnandi hafi fullnægt skyldu samkvæmt staðlinum og útboðsgögnum um að senda stefnda rökstuddar tilkynningar og kröfur um framlengingu skilafrests eða að hann hafi á tilboðsstigi gert athugasemdir við verktíma og heldur ekki á verktímanum fyrr en 24. maí 2012 með orðsendingu nr. 17 á dskj. nr. 38. Þar er ekki sett fram krafa um framlengingu verksins heldur eingöngu ósk um endurskoðun á áfangaskilum sem áætluð voru í júní. Krafa um viðbótarverktíma sem verktaki taldi sig eiga rétt á kom fyrst fram með orðsendingu nr. 28, dags. 25. ágúst 2012 sem lögð var fram á verkfundi 27. ágúst 2012. Varðandi þau atriði sem stefnandi vísar til og telur að orsakað hafi tafir á verkinu sem hafi átt að leiða til þess að hann ætti rétt á framlengingu á verktíma þá koma þau ekki til sérstakrar umfjöllunar hér með vísan til þessarar vanrækslu stefnanda. Ber því að fallast á kröfu stefnda um að tafabætur komi til frádráttar dómkröfum stefnanda.

           Í verkfundargerðum var bókað um stöðu verksins og þegar ljóst var að verkið væri á eftir áætlun var áréttað að innheimtar yrðu tafabætur. Á verkfundum var upplýst um dagafjölda tafa og þær innheimtar eftir því sem þær féllu til. Því er ekki um tómlæti að ræða hjá stefnda. Þetta kemur fram í verkfundargerðum og Lokaskýrslu eftirlits, dags. nóv. 2013, en Benedikt Ingi Sigurðsson eftirlitsmaður með verkinu, starfsmaður Verkfræðistofu Suðurnesja, kom sem vitni fyrir dóminn við aðalmeðferð. Hann kvað útboðsgögn verksins hafa verið hefðbundin. Stefnandi hafi lagt fram verkáætlun og sagst ætla að standa við verktíma. Verkið hafi nánast allt verið unnið af undirverktökum, það og skipulagsleysi stefnanda hafi verið aðalorsök þess hve verkið dróst.         

        Varðandi þá málsástæðu stefnanda að ekki hafi verið samið um sjálfstæðar tafabætur vegna fyrsta áfanga þá kemur það skýrlega fram í útboðsgögnum og verksamningi, sbr. orðalag í grein 0.0.5 hér að framan, „fyrir hvern almanaksdag sem dregst að ljúka einstökum áföngum fram yfir verklok, miðað við meðfylgjandi aðgerðarplan, skal verktaki greiða verkkaupa 100.000 kr. í tafabætur“. Tafabætur voru auk þess innheimtar jafnóðum vegna tafa á 1. áfanga án þess að fram komi í fundargerðum að því hafi verið mótmælt af stefnanda. Ekki verður því fallist á þessa málsástæðu stefnanda. Þá byggir stefnandi á því að gjalddagi tafabóta sé ekki enn kominn og stefndi hafi verið bundinn við að gera upp þau mál, það er kröfu um tafabætur og ágreining þar um í lok verksins. Samkvæmt ÍST-30 er kveðið á um að tafabætur séu innheimtar jafnóðum með frádrætti af útgefnum reikningum eins og gert var og rakið hefur verið. Stefnandi hafði ekki uppi mótmæli gegn því á verkfundum þegar gerð var grein fyrir innheimtu tafabóta, en þau bar honum að hafa uppi um leið og tilefni var til. Mótmæli stefnanda eru því of seint fram komin. Ekki er því fallist á þessa málsástæðu stefnanda.

        Samkvæmt því sem rakið hefur verið eru áfallnar tafabætur að minnsta kosti jafn háar þeim kröfum stefnanda sem dómurinn telur réttmætar. Af því leiðir að stefndi er sýknaður af kröfum stefnanda.

        Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

        Dóminn kveða upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari ásamt sérfróðu meðdómendunum Ásmundi Ingvarssyni verkfræðingi og Steingrími Haukssyni byggingatæknifræðingi.

Dómsorð:

        Stefndi, Isavia ohf., er sýkn af kröfum stefnanda, Atafli ehf.

        Málskostnaður fellur niður.