Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-41

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
BlueWest ehf., Friðgeiri Guðjónssyni, Gabriel Alexander Fest og Sigtryggi Leví Kristóferssyni (Ásgeir Þór Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Refsiheimild
  • Stjórnarskrá
  • Sekt
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 7. mars 2022, sem barst réttinum 29. sama mánaðar, leita BlueWest ehf., Friðgeir Guðjónsson, Gabriel Alexander Fest og Sigtryggur Leví Kristófersson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. febrúar 2022 í máli nr. 391/2021: Ákæruvaldið gegn BlueWest ehf., Friðgeiri Guðjónssyni, Gabriel Alexander Fest og Sigtryggi Leví Kristóferssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

3. Með ákæru Lögreglustjórans á Vestfjörðum 1. desember 2020 voru leyfisbeiðendum gefin að sök „brot gegn lögum um náttúruvernd og auglýsingu um staðfestingu á stjórnunar-og verndaráætlun friðlandsins á Hornströndum, Ísafjarðarbæ, með því að hafa, ákærði Friðgeir, sem framkvæmdastjóri Reykjavík Helicopters ehf., staðið fyrir, skipulagt og selt útsýnisflug með tveimur þyrlum um friðlandið á Hornströndum og lendingu þar, nánar til tekið í Fljótavík, mánudaginn 13. júlí 2020, og ákærðu Gabríel Alexander og Sigtryggur Leví, sem flugstjórar þyrlnanna OY-HIT og OY-HIS, flogið vélunum og lent þeim í Fljótavík, án þess að hafa leyfi Umhverfisstofnunar til lendingar.“ Háttsemi þeirra var talin varða við 9. gr. auglýsingar um staðfestingu á stjórnunar-og verndaráætlun friðlandsins á Hornströndum, Ísafjarðarbæ, nr. 161/2019, sbr. 2. mgr. 81. og 1. og 4. mgr. 90. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

4. Með dómi héraðsdóms voru leyfisbeiðendur sýknaðir af framangreindum sakargiftum þar sem ekki var talið að 9. gr. auglýsingar nr. 161/2019 fullnægði áskilnaði 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og sakfelldi leyfisbeiðendur fyrir framangreinda háttsemi. Leyfisbeiðanda BlueWest ehf., áður Reykjavík Helicopters ehf., var gert að greiða 150.000 króna sekt en leyfisbeiðendum Friðgeiri, Gabriel Alexander og Sigtryggi Leví gert að greiða 75.000 króna sekt að viðlagðri vararefsingu.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að málið hafi verulega almenna þýðingu enda lúti ágreiningur þess að kröfum stjórnarskrár um skýrleika refsiheimilda. Þá reyni á önnur atriði sem hafi almenna þýðingu, meðal annars að þá refsiheimild sem um er deilt sé ekki að finna í auglýsingu nr. 161/2019. Jafnframt vísa leyfisbeiðendur til þess að fullnægt sé skilyrði 4. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 til veitingar áfrýjunarleyfis.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að úrlausn þess kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er þá jafnframt haft í huga að leyfisbeiðendur voru sakfelldir í Landsrétti en höfðu verið sýknaðir í héraði. Þegar þannig hagar til skal að jafnaði orðið við ósk um áfrýjunarleyfi, sbr. lokamálslið sömu málsgreinar. Samkvæmt þessu verður beiðnin tekin til greina.