Hæstiréttur íslands
Mál nr. 541/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Framhaldssök
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 2. október 2013. |
|
Nr. 541/2013.
|
Björn Samúelsson Kristrún Samúelsdóttir Ingvar Samúelsson og Þorgeir Samúelsson (Leifur Runólfsson hdl.) gegn Tómasi Sigurgeirssyni (Björn Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Framhaldssök. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi framhaldskröfu B, K, I og Þ sem tilgreind var sem aðalkrafa í framhaldsstefnu í máli þeirra gegn T um landamerki jarðanna H og R. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom m.a. fram að hin nýja krafa í framhaldsstefnu byggði á gjafabréfi frá árinu 1687 sem B, K I og Þ hafi verið fullkunnugt um við höfðun málsins. Yrði að meta þeim það til vanrækslu að hafa ekki þegar í upphafi málsins komið fram með allar kröfur sínar varðandi landamerki jarðanna. Uppfyllti framhaldsstefnan því ekki skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 19. júlí 2013 og réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 8. júlí 2013, þar sem framhaldssök sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Björn Samúelsson, Kristrún Samúelsdóttir, Ingvar Samúelsson og Þorgeir Samúelsson, greiði óskipt varnaraðila, Tómasi Sigurgeirssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 8. júlí 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15. maí 2013, höfðuðu Björn Samúelsson, Reykjabraut 5, Reykhólahreppi, Kristrún Samúelsdóttir, Pósthússtræti 1, Keflavík, Ingvar Samúelsson, Hellisbraut 36, Reykhólahreppi, og Þorgeir Samúelsson, Höllustöðum, Reykhólahreppi, hinn 30. maí 2012, gegn Tómasi Sigurgeirssyni, Reykhólum, Reykhólahreppi. Stefndi höfðaði mál til gagnsakar gegn stefnendum 2. júlí 2012. Þá höfðuðu aðalstefnendur framhaldssök gegn aðalstefnda 18. febrúar sl. Í málinu deila málsaðilar um landamerki milli jarðanna Höllustaða og Reykhóla í Reykhólahreppi, svo sem nánar kemur fram í kröfugerð málsaðila í stefnu, gagnstefnu, framhaldsstefnu og framlögðum greinargerðum.
Í greinargerð stefnda í framhaldssök, sem lögð var fram í þinghaldi 20. mars sl. er þess meðal annars krafist að framhaldskröfu aðalstefnenda samkvæmt framhaldsstefnu verði vísað frá dómi og að framhaldsstefnda verði úrskurðaður málskostnaður í þessum þætti málsins úr hendi gagnaðila.
Stefnendur í framhaldssök gera þær kröfur í þessum hluta málsins að kröfu stefnda um frávísun verði hrundið og að kröfur stefnenda samkvæmt framhaldsstefnu verði teknar til efnismeðferðar. Þá gera stefnendur í framhaldssök kröfu um málskostnað vegna þessa þáttar málsins, þó þannig að málskostnaðarákvörðun bíði efnisdóms í málinu.
Í þinghaldi 15. maí sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda í framhaldssök. Að málflutningi loknum var málið tekið til úrskurðar.
I.
Stefndi í framhaldssök (hér eftir nefndur stefndi) vísar til þess að mál þetta hafi verið höfðað af aðalstefnendum (hér eftir nefndir stefnendur) með stefnu 30. maí 2012 og verið þingfest 6. júní sama ár. Málið varði ágreining um landamerki milli jarðanna Höllustaða og Reykhóla í Reykhólahreppi, frá svonefndri Stórulaug og til sjávar í Grundarvog. Ágreiningur þessi sé ekki nýr af nálinni og megi í því sambandi meðal annars vísa til dóms Hæstaréttar Íslands frá 8. október 2009, þar sem dómkröfum eiganda Höllustaða varðandi landamerki á umræddu svæði hafi verið alfarið hafnað.
Stefnendur hafi tæpum níu mánuðum eftir höfðun máls þessa ákveðið að auka við kröfur sínar og höfða framhaldssök á hendur stefnda þar sem gerð sé ný krafa varðandi landamerki á hinu umdeilda landsvæði og í sjó fram, til viðbótar við þær dómkröfur sem stefnendur geri í aðalsök málsins. Í framhaldsstefnu komi fram að ástæða þess að ákveðið hafi verið að höfða framhaldssök í málinu sé sú að stefnendur hafi nú látið rekja eigendasögu jarðanna Höllustaða og Reykhóla. Eftir þá athugun sé það skoðun stefnenda að lögleg landamerki milli jarðanna á hinu umdeilda svæði frá Stórulaug til sjávar séu þau sömu merki og lýst sé í gjafabréfi Jóns Magnússonar frá 3. janúar 1687.
Af hálfu stefnda er til þess vísað að skv. 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé heimilt að auka við fyrri kröfur eða hafa uppi nýja kröfu í dómsmáli eftir þingfestingu en fyrir aðalmeðferð þess ef skilyrðum 1. mgr. 27. gr. laganna sé fullnægt, þ.e. að frumkrafan og framhaldskrafan séu samkynja eða eigi rætur sínar að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, og það verði ekki metið aðilanum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi þegar í upphafi.
Stefndi kveður það eina af meginreglum einkamálaréttarfars að afmarka verði sakarefni dómsmáls skýrlega strax í upphafi, sbr. meðal annars ákvæði 1. mgr. 80. gr. og 99. gr. laga nr. 91/1991. Frávik frá þessari meginreglu beri samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum að túlka þröngt. Í framhaldsstefnu komi fram að stefnendur hafi ákveðið að láta rekja eigendasögu Höllustaða og Reykhóla og þeir ráðist í mikla rannsóknarvinnu eftir að málið var höfðað. Í febrúar sl. hafi síðan komið fram nýjar upplýsingar sem gefi stefnendum tilefni til að ætla að þeir eigi mun meira landsvæði en áður hafi verið talið og því hafi þeir neyðst til að höfða framhaldssök.
Stefndi segir ekki verða af framhaldsstefnunni ráðið hvaða nýju gögn það séu sem veiti hinar nýju upplýsingar og gefi stefnendum tilefni til að auka við kröfur sínar í málinu. Fái stefndi ekki betur séð en framhaldskrafa stefnenda byggist alfarið á gjafabréfi Jóns Magnússonar frá 3. janúar 1687 er Jón ráðstafaði til Ragnheiðar dóttur sinnar jörðinni Höllustöðum, með þeim landamerkjum sem í gjafabréfinu séu tilgreind. Gjafabréfið geti hins vegar tæplega talist hafa að geyma nýjar upplýsingar í málinu sem réttlæti framhaldsstefnu. Stefnendum hafi verið fullkunnugt um gjafabréfið, enda hafi sérstaklega verið til þess vísað í stefnu í máli sem þáverandi eigandi Höllustaða, móðir stefnenda, hafi höfðað fyrir Héraðsdómi Vestfjarða á árinu 2007 til ákvörðunar á landamerkjum milli jarðanna Höllustaða, Grundar og Reykhóla í Reykhólahreppi. Í dómi Héraðsdóms Vestfjarða í málinu, frá 23. október 2008, hafi sérstaklega verið gerð grein fyrir gjafabréfinu og þýðingu þess fyrir niðurstöðu málsins. Kveður stefndi engin ný gögn eða upplýsingar hafa komið fram í máli þessu sem ekki hafi legið fyrir við útgáfu stefnu í maí 2012.
Sú staðreynd að stefnendur hafi fyrst eftir málshöfðun tekið ákvörðun um að ráðast í sérstaka rannsóknar- og heimildavinnu vegna málsins sé vísbending um að þeir hafi látið undir höfuð leggjast að undirbúa málið sem skyldi og þeir því ekki þekkt nægilega vel til þess áður en stefna var gefin út. Rannsóknarvinnuna hafi stefnendur átt að framkvæma áður en málið var höfðað til að leggja þann grunn að málinu sem þau nú vilji. Verði því að meta stefnendum til vanrækslu að hafa ekki komið fram með allar kröfur sínar varðandi landamerki jarðanna á hinu umdeilda landsvæði þegar í upphafi málsins.
Samkvæmt framansögðu segir stefndi vera augljóst að framhaldsstefnan uppfylli ekki skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991 svo heimilt verði að taka hana til greina og sameina hana aðalsök málsins. Kröfur stefnenda séu þess eðlis að þær beri að gera þegar í upphafi, enda verði ekki séð að stefnendum hafi verið ókunnugt um þau gögn sem þau segist nú byggja framhaldskröfu sína á. Þá verði heldur ekki séð að einhver atvik hafi hamlað því að stefnendur settu fram framhaldskröfur sínar þegar í upphafi.
Í annan stað kveður stefndi ekki verða hjá því komist að vísa framhaldskröfu stefnenda frá dómi sökum þeirra miklu annmarka sem séu á skýrleika og framsetningu á kröfugerð í framhaldsstefnu, sbr. ákvæði d-, e- og g-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Kröfur í framhaldsstefnu séu mjög ruglingslegar en svo virðist sem dómkröfur í framhaldssök og aðalsök séu að hluta til þær sömu, þ.e. vara- og þrautavarakröfur í framhaldssök séu þær sömu og aðal- og varakröfur stefnenda í aðalsök. Ekki verði betur séð en þessi framsetning á kröfugerð sé í andstöðu við ákvæði 29. og 80. gr. laga nr. 91/1991, enda sé framhaldssök eingöngu ætlað að auka við fyrri kröfur eða hafa uppi nýja kröfu í málinu eftir þingfestingu þess, en ekki að ítreka eða endurtaka fyrri kröfur í málinu.
Þá sé í framhaldskröfu stefnenda gerð krafa um merki langt í sjó fram, þar sem hnitpunktar A349730/N551471 og A348339/N550980 séu úti í sjó. Enga skýringu eða rökstuðning sé að finna í stefnunni hvers vegna miða eigi við nefnda hnitpunkta varðandi landamerki milli jarðanna Höllustaða og Reykhóla. Ekki sé með nokkru móti hægt að átta sig á þessum hluta kröfugerðar stefnenda, enda enga skýringu að finna í framhaldsstefnunni sem skýri ástæður þess að stefnendur miði við fyrrgreinda hnitpunkta. Málatilbúnaður stefnenda sé því svo óljós og óskýr að hann fullnægi ekki kröfum e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 til þess að efnisdómur verði lagður á framhaldskröfu stefnenda. Þeir hafi þannig ekki lagt framhaldskröfu sína fram með nægilega skýrum hætti og ekki lagt þann grundvöll að kröfunni sem nauðsynlegur sé til þess að efnisdómur verði lagður á hana.
Stefndi bendir einnig á að ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991 um efni stefnu eigi sér ekki hvað síst þann tilgang að tryggja stefnda í dómsmálum rétt til að kynna sér málatilbúnað stefnanda í því skyni að eiga sanngjarnan kost á að verjast kröfum hans að því er alla þætti málsins varði. Með vísan til þess hversu óljós og óskýr málatilbúnaður stefnenda sé verði að telja hann mjög til þess fallinn að takmarka möguleika stefnda til að halda uppi vörnum í málinu með þeim hætti sem eðlilegt geti talist.
Stefndi segir þá miklu annmarka sem séu á reifun á framhaldskröfu stefnenda í framhaldsstefnu, svo og málsástæðum og rökstuðningi þeirra fyrir kröfunni, einfaldlega vera þess eðlis að úr því verði ekki bætt á síðari stigum málsins með því að leggja fram gögn og/eða skýringar á kröfugerðinni. Með vísan til alls framangreinds verði því ekki hjá því komist að vísa framhaldskröfu stefnenda frá dómi.
II.
Stefnendur vísa til þess að þeir hafi, eins og mögulegt sé, látið rekja eigendasögu Höllustaða og Reykhóla frá upphafi til dagsins í dag. Við þá rannsókn hafi margt fróðlegt komið í ljós og sé það mat stefnenda nú að hin löglegu landamerki séu með þeim hætti sem lýst sé í gjafabréfi Jóns Magnússonar, þ.e. „... með þeim landamerkjum innfrá í Stórulaug þaðan sjónhending upp í fjall að ofan í sjó.“
Stefnendur segjast byggja heimild til að framhaldsstefna fyrir kröfum sínum á 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í febrúarmánuði sl. hafi komið fram nýjar upplýsingar um að stefnendur eigi mun meira landsvæði en áður hafi verið talið og þeim því verið nauðsynlegt að höfða framhaldssök til að ná fram kröfum sínum. Hinar nýju kröfur, sbr. framhaldsstefnu, byggi stefnendur á gjafabréfi Jóns Magnússonar frá 3. janúar 1687, sem á þeim tíma hafi verið eigandi bæði Höllustaða og Reykhóla.
Stefnendur kveða mikla vinnu og tímafreka nauðsynlega í landamerkjamálum. Þeir hafi hins vegar haft stuttan tíma til aðgerða, þ.m.t. málshöfðunar, eftir að málsaðilar gerðu með sér samkomulag í lögbannsmáli hjá sýslumanni, en þar hefði verið kveðið á um það að höfða skyldi mál vegna deilna aðila um landamerki fyrir réttarhlé sumarið 2012. Þeim verði því ekki metið til vanrækslu að hafa ekki komið fram með allar kröfur sínar varðandi landamerki jarðanna á hinu umdeilda landsvæði þegar í upphafi málsins, svo sem stefndi haldi fram.
Nýjar kröfur samkvæmt framhaldsstefnu séu samkynja upphaflegum kröfum stefnenda samkvæmt stefnu og eigi þær því að komast að í málinu skv. 29. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr., laga nr. 91/1991. Vísa stefnendur til þess að dómstólar hafi í úrlausnum sínum samþykkt að hleypa framhaldskröfum að, leiði það ekki til þyngsla við rekstur viðkomandi máls. Þá benda stefnendur einnig á að framhaldskröfur þeirra byggist á átta nýjum dómskjölum sem lögð hafi verið fram samhliða framhaldsstefnunni.
Samkvæmt öllu framansögðu segja stefnendur dómnum bera að hrinda frávísunarkröfu stefnda og taka kröfur stefnenda samkvæmt framhaldsstefnu til efnismeðferðar.
III.
Hin nýja krafa stefnenda samkvæmt framhaldsstefnu byggist á gjafabréfi Jóns Magnússonar frá 3. janúar 1687 er Jón ráðstafaði til Ragnheiðar dóttur sinnar jörðinni Höllustöðum, með þeim landamerkjum sem í gjafabréfinu eru tilgreind. Upplýst er að þáverandi eigandi Höllustaða, móðir stefnenda, höfðaði á árinu 2007 mál hér fyrir dómi til ákvörðunar á landamerkjum milli jarðanna Höllustaða, Grundar og Reykhóla. Í dómi héraðsdóms 23. október 2008, sem staðfestur var með vísan til forsendna með dómi Hæstaréttar í máli 693/2008, var sérstaklega gerð grein fyrir tilvitnuðu gjafabréfi og þýðingu þess fyrir niðurstöðu málsins. Er í frumstefnu málsins frá 30. maí 2012 ítrekað vísað til þessa dóms Hæstaréttar.
Ljóst er samkvæmt því sem hér hefur verið rakið að stefnendum var fullkunnugt um gjafabréf Jóns Magnússonar fyrir höfðun málsins. Af málatilbúnaði stefnenda verður ráðið að þeir hafi við útgáfu stefnu 30. maí 2012 ekki talið gjafabréfið geta stutt við kröfur sínar varðandi landamerki milli Höllustaða og Reykhóla. Svo virðist hins vegar að eftir að hafa kannað frekar fyrirliggjandi gögn telji stefnendur nú að um landamerki jarðanna skuli fara eftir því sem í gjafabréfinu segir. Samkvæmt því freista stefnendur þess ekki einungis með hinni nýju kröfu samkvæmt framhaldsstefnu að auka við kröfur sínar í málinu heldur verður ekki annað séð, af þeim þó fátæklegu skýringum og gögnum sem kröfunni fylgja, en grundvöllur hennar sé allt annar en hinnar upphaflegu kröfugerðar.
Samkvæmt framansögðu verður að mati dómsins að meta stefnendum það til vanrækslu að hafa ekki komið fram með allar kröfur sínar varðandi landamerki Höllustaða og Reykhóla þegar í upphafi málsins og getur ætlað samkomulag milli málsaðila í tengslum við lögbannsmál stefnenda gegn stefnda fyrir sýslumanni, varðandi það hvenær stefnendur skyldu hafa höfðað mál þetta, engu breytt í þessu sambandi. Framhaldsstefnan uppfyllir því ekki áðurnefnt skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991. Einnig verður að telja að með hinni nýju kröfu samkvæmt framhaldsstefnu sé upphaflegum grundvelli málsins raskað svo, sbr. d-, e- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, að slíka breytingu geti stefnendur ekki gert án samþykkis stefnda. Að þessu athuguðu verður kröfunni vísað frá dómi.
Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar vegna þessa hluta málsins bíði efnisdóms í málinu.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt 1. mgr. 115. gr., sbr. 2. mgr. 100. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Framhaldskröfu aðalstefnenda, Björns, Kristrúnar, Ingvars og Þorgeirs Samúelsbarna, sem sérgreind er sem aðalkrafa í framhaldsstefnu, er vísað frá dómi.
Málskostnaður úrskurðast ekki.