Hæstiréttur íslands
Mál nr. 190/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Sakarefni
- Þinglýsing
- Kröfugerð
- Málsástæða
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Föstudaginn 15. maí 2009. |
|
Nr. 190/2009. |
Ártúnsbrekka ehf. (Kristinn Brynjólfsson framkvæmdastjóri) gegn VBS Fjárfestingabanka hf. (Skúli Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Sakarefni. Þinglýsing. Kröfugerð. Málsástæður. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu 20. ágúst 2002 fyrir fasteignina R var meðal annars kveðið á um skiptingu hennar í sjö eignarhluta, sem hver fékk sitt fastanúmer í landskrá fasteigna. Eignarhlutar þessir voru veðsettir til tryggingar kröfum samkvæmt 56 skuldabréfum í eigu V. Gerð var ný eignaskiptayfirlýsing fyrir R, sem var í þetta sinn skipt í átta eignarhluta. Sex af þessum eignarhlutum voru auðkenndir með sömu fastanúmerum og tiltekin höfðu verið í fyrri eignaskiptayfirlýsingunni, en einn af eldri eignarhlutunum leið undir lok og til urðu tveir nýir. Veðréttindi fyrir áðurnefndum skuldabréfum voru ekki færð á þessa tvo nýju eignarhluta. Að kröfu V færði sýslumaður veðréttindin á nýju eignarhlutana þar sem hann taldi að mistök hefðu verið gerð við þinglýsingu nýju yfirlýsingarinnar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfestur var fyrir Hæstarétti, var kröfu Á hafnað um að veðréttindin samkvæmt umræddum skuldabréfum yrðu afmáð af nýju eignarhlutunum tveimur sökum þess að hann hefði ekki leitað úrlausnar dómstóla um hana innan frests, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1978. Í máli þessu krafðist Á m.a. dóms um viðurkenningu á því að veðréttindi fyrir ofangreindum skuldabréfum tækju ekki til nýju eignarhlutana í R og jafnframt að skuldabréfin næðu eingöngu til þeirra eignarhluta sem tilgreindir voru í bréfunum sjálfum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í 3. gr. laga nr. 39/1978 væri þeim, sem teldi á sér brotið með ákvörðun sýslumanns um þinglýsingu, veitt heimild til að leita eftir sérstökum reglum úrlausnar dómstóla um það hvort sýslumaður hefði farið að lögum í ákvörðun sinni. Þessi sérstaka málsóknarheimild girti því ekki fyrir að felldur yrði dómur á einkamál, sem rekið væri milli tveggja eða fleiri aðila til að fá leyst úr ágreiningi um efnisleg réttindi þeirra, þótt dómurinn kynni að leiða af sér að breyta yrði í kjölfarið þinglýstum heimildum honum til samræmis. Á beindi kröfu sinni ekki að sýslumanninum í Reykjavík, heldur krafðist hann að V yrði skyldaður vegna ætlaðra annmarka á réttindum sínum til að fá þau afmáð úr þinglýsingabók. Ákvæði 1. mgr. 1. gr., sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 stæðu því ekki þessari dómkröfu Á í vegi. Samkvæmt þessu var felldur úr gildi hinn kærði úrskurður hvað fyrstu tvær dómkröfur Á varðar og lagt fyrir héraðsdóm að taka þær til efnismeðferðar, en kröfu Á um greiðslu skaðabóta úr hendi V var vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að „úrskurði héraðsdómara um frávísun verði breytt, málinu verði vísað aftur til héraðsdóms til efnislegrar umfjöllunar og að sakarefni verði skipt þannig að fyrst verði dæmt í dómkröfu eitt en hinar dómkröfurnar tvær verði látnar hvíla á meðan og bíða þess að verða dæmdar“. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila, sem fyrirsvarsmanni hans, Kristni Brynjólfssyni, verði jafnframt gert að greiða.
I
Samkvæmt gögnum málsins var 20. ágúst 2002 gerð eignaskiptayfirlýsing fyrir fasteignina Rafstöðvarveg 1a í Reykjavík, þar sem meðal annars var kveðið á um skiptingu hennar í sjö eignarhluta, sem hver fékk sitt fastanúmer í landskrá fasteigna. Fyrir liggur að þessir eignarhlutar voru veðsettir allir í senn til tryggingar kröfum samkvæmt 32 skuldabréfum að fjárhæð samtals 160.000.000 krónur, sem gefin voru út til handhafa 1. mars 2006 og hvíldu á 1. veðrétti, 10 skuldabréfum að fjárhæð samtals 50.000.000 krónur, útgefnum til handhafa 5. október 2005 og áhvílandi á 2. veðrétti, og 14 skuldabréfum að fjárhæð alls 42.000.000 krónur, sem gefin voru út til handhafa 30. júní 2006 og hvíldu á 3. veðrétti. Óumdeilt virðist að varnaraðili hafi eignast öll þessi skuldabréf, en eftir þinglýsingu þeirra var 22. desember 2006 gerð ný eignaskiptayfirlýsing fyrir Rafstöðvarveg 1a, sem í þetta sinn var skipt í átta eignarhluta. Sex af þessum eignarhlutum voru auðkenndir með sömu fastanúmerum og tiltekin höfðu verið í fyrri eignaskiptayfirlýsingunni, en einn af eldri eignarhlutunum leið undir lok og til urðu tveir nýir, sem fengu fastanúmer 229-8067 og 229-8153. Þegar þessari síðari eignaskiptayfirlýsingu var þinglýst 22. desember 2006 voru veðréttindi fyrir áðurnefndum skuldabréfum ekki færð á þessa tvo nýju eignarhluta. Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, sem stóð að þessari yfirlýsingu sem eigandi allrar fasteignarinnar, gaf út afsal 10. mars 2007 til sóknaraðila fyrir eignarhlutunum með fastanúmerum 229-8067 og 229-8153 og var því þinglýst 17. apríl sama ár. Varnaraðili krafðist þess 20. apríl 2007 að sýslumaðurinn í Reykjavík leiðrétti mistök, sem gerð hafi verið við þinglýsingu eignaskiptayfirlýsingarinnar frá 22. desember 2006 með því að veðbönd samkvæmt skuldabréfunum hafi ekki verið færð á nýju eignarhlutana tvo. Sýslumaður varð við þessari kröfu varnaraðila 24. apríl 2007. Sóknaraðili tilkynnti sýslumanni 22. janúar 2008 að hann bæri þessa ákvörðun undir héraðsdóm og krefðist þess að veðréttindi samkvæmt umræddum skuldabréfum yrðu afmáð af eignarhlutunum nr. 229-8067 og 229-8153 í fasteigninni Rafstöðvarvegi 1a. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2008, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 9. maí sama ár í máli nr. 238/2008, var þessari kröfu sóknaraðila hafnað sökum þess að hann hafi ekki leitað úrlausnar dómstóla um hana innan þess frests, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 25. september 2008. Í héraðsdómsstefnu krafðist hann þess í fyrsta lagi að „staðfest verði með dómi að veðandlag skuldabréfa sem tryggð eru með veði í fasteignum að Rafstöðvarvegi 1a nái ... ekki til eignarhluta með fastanúmer 229-8067 og 229-8153“, í öðru lagi að „staðfest verði með dómi að afmá skuli úr þinglýsingarbókum framangreind skuldabréf af eignarhlutum með fastanúmer 229-8067 og 229-8153 sem innfærð voru að kröfu stefnda til sýslumannsins í Reykjavík, dags. 20. apríl 2007“ og í þriðja lagi að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 1.237.000 krónur „fyrir hvern byrjaðan mánuð frá 1. september 2007 til þess dags sem bréfunum verður aflétt auk dráttarvaxta til greiðsludags.“ Með hinum kærða úrskurði varð héraðsdómur við kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi.
II
Varnaraðili hefur ekki fært nein haldbær rök fyrir aðalkröfu sinni um að málinu verði vísað frá Hæstarétti og verður henni því hafnað.
Fyrsta dómkrafa sóknaraðila, sem að framan er getið, beinist að því að afla dóms um viðurkenningu á því að veðréttindi fyrir 56 skuldabréfum, sem nánar er lýst í kröfugerð hans, taki ekki til eignarhluta í fasteigninni Rafstöðvarvegi 1a með fastanúmerum 229-8067 og 229-8153. Ljóst er af málatilbúnaði sóknaraðila að hann beinir þessari kröfu að varnaraðila sem eiganda skuldabréfanna og hefur sá síðarnefndi jafnframt tekið til varna í málinu á þeim grunni. Skilja verður aðra dómkröfu sóknaraðila á þann hátt að hann leiti þar aðfararhæfs dóms um skyldu varnaraðila til fá afmáð úr þinglýsingabók veðréttindi samkvæmt skuldabréfunum í eignarhlutunum tveimur. Ekki verður ráðið af héraðsdómsstefnu að sóknaraðili reisi þessa kröfu á öðru en því að veðréttindi fyrir skuldabréfunum hvíli ranglega samkvæmt þinglýsingabók á þessum tilteknu eignarhlutum í fasteigninni og er því fyrsta dómkrafa sóknaraðila í reynd málsástæða að baki annarri dómkröfu hans, sem lengra gengur. Þótt ekki verði samkvæmt þessu séð að efni séu til að hafa báðar þessar kröfur uppi í senn er ekki ástæða að svo komnu máli til að vísa fyrstu kröfunni frá dómi af þessum sökum, en að því mætti eftir atvikum gæta ef efnisdómur gengi sóknaraðila í hag.
Með 3. gr. þinglýsingalaga er þeim, sem telur á sér brotið með ákvörðun sýslumanns um þinglýsingu, veitt heimild til að leita eftir sérstökum reglum úrlausnar dómstóla um þá ákvörðun. Í slíku máli verður ekki með bindandi hætti kveðið á um efnisleg réttindi að baki þinglýstri heimild, heldur aðeins hvort sýslumaður hafi farið að lögum í ákvörðun sinni. Þessi sérstaka málsóknarheimild girðir því ekki fyrir að felldur verði dómur á einkamál, sem rekið er milli tveggja eða fleiri aðila til að fá leyst úr ágreiningi um efnisleg réttindi þeirra, þótt dómurinn kunni að leiða af sér að breyta verði í kjölfarið þinglýstum heimildum honum til samræmis. Sóknaraðili beinir ekki annarri dómkröfu sinni að sýslumanninum í Reykjavík, heldur krefst hann þar að varnaraðili verði skyldaður vegna ætlaðra efnislegra annmarka á réttindum sínum til að fá þau afmáð úr þinglýsingabók. Ákvæði 1. mgr. 1. gr., sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standa því ekki þessari dómkröfu sóknaraðila í vegi.
Samkvæmt framangreindu verður að fella hinn kærða úrskurð úr gildi að því er varðar fyrstu tvær dómkröfur sóknaraðila og leggja fyrir héraðsdóm að taka þær til efnismeðferðar, en með vísan til forsendna úrskurðarins verður á hinn bóginn staðfest niðurstaða hans um að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila um greiðslu skaðabóta úr hendi varnaraðila. Dómkröfur sóknaraðila, sem varða ákvörðun um skiptingu sakarefnis fyrir héraðsdómi, geta ekki sætt úrlausn Hæstaréttar og koma þær því ekki hér til álita.
Rétt er að ákvörðun málskostnaðar í héraði bíði efnisdóms í málinu, en varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að því er varðar frávísun á kröfu sóknaraðila, Ártúnsbrekku ehf., um greiðslu skaðabóta úr hendi varnaraðila, VBS Fjárfestingabanka hf.
Að öðru leyti en að framan greinir er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2009.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 10. mars 2009, er höfðað 25. september 2008.
Stefnandi er Ártúnsbrekka ehf., kt. 550207-0440, Lágabergi 1, Reykjavík.
Stefndi er VBS Fjárfestingarbanki hf., kt. 621096-3039, Borgartúni 26, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda í málinu eru í þremur liðum:
1. Að staðfest verði með dómi að veðandlag skuldabréfa, sem tryggð eru með veði í fasteignum að Rafstöðvarvegi 1a, nái eingöngu til þeirra eignarhluta sem tilgreindir eru í bréfunum sjálfum, þ.e. eignarhluta með fastanúmer 204-3313, 225-5824, 225-8525, 225-8526, 225-8527, 225-8528, 225-8529, en ekki til eignarhluta með fastanúmer 229-8067 og 229-8153. Um er að ræða 32 handhafaskuldabréf á 1. veðrétti, hvert að fjárhæð 5.000.000 króna, útgefin hinn 1. mars 2006, 10 handhafaskuldabréf á 2. veðrétti, hvert að fjárhæð 5.000.000 króna, útgefin hinn 5. október 2005, og 14 handhafaskuldabréf á 3. veðrétti, hvert að fjárhæð 3.000.000 króna, útgefin hinn 30. júní 2006.
2. Að staðfest verði með dómi að afmá skuli úr þinglýsingarbókum framangreind skuldabréf af eignarhlutum með fastanúmer 229- 8067 og 229-8153, sem innfærð voru að kröfu stefnda til sýslumannsins í Reykjavík, dags. 20 apríl 2007.
3. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.237.000 krónur fyrir hvern byrjaðan mánuð frá 1. september 2007 til þess dags sem bréfunum verður aflétt auk dráttarvaxta til greiðsludags.
Þá er og krafist málskostnaðar að mati dómsins auk 24,5% virðisaukaskatts.
Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaður að mati dómsins samkvæmt málskostnaðarreikningi sem áskilinn er réttur til að leggja fram við aðalmeðferð málsins og beri málskostnaðarfjárhæðin dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. degi eftir dómsuppsögu til greiðsludags.
Jafnframt er þess krafist að umboðsmaður stefnanda, Kristinn Brynjólfsson, verði dæmdur persónulega til greiðslu kostnaðar vegna tilefnislausrar málssóknar.
Hinn 10. mars sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda. Er einungis sú krafa til úrlausnar í þessum þætti málsins.
Stefndi gerði þá kröfu að málinu yrði vísað frá dómi og stefnda yrði úrskurðaður málskostnaður í samræmi við kröfu í greinargerð.
Stefnandi gerði þá kröfu að frávísunarkröfu stefnda yrði hafnað og málið yrði tekið til efnismeðferðar. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Málavextir
Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að hinn 10. mars 2007 hafi hann keypt eignarhluta með fastanúmer 229-8067 og 229-8153 að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík og hafi afsali verið þinglýst sama dag. Fyrir hafi legið þinglýsingarvottorð, dags. 9. mars, sem sýndi að engin veðbönd hvíldu á eignarhlutunum og hafi stefnandi eignast þá veðbandalausa. Með bréfi til sýslumannsins í Reykjavík, dags. 20. apríl 2007, hafi umboðsmaður stefnda krafist þess að framangreindum bréfum yrði þinglýst á eignarhluta með fastanúmer 229-8067 og 229-8153, á þeirri forsendu að um leiðréttingu væri að ræða þar sem ekki hafði verið tekið tillit til áhvílandi veðskulda þegar ný eignaskiptayfirlýsing fyrir Rafstöðvarveg 1a var innfærð hinn 22. desember 2006. Fulltrúi sýslumannsins í Reykjavík hafi orðið við kröfu umboðsmanns stefnda og þinglýsti skuldabréfunum á framangreinda eignarhluta hinn 24. apríl 2007, án þess að upplýsa stefnanda/eiganda eignanna á nokkurn hátt um kröfugerðina eða ákvörðun sína um að verða við henni.
Af hálfu stefnanda hafi ákvörðun þinglýsingarstjóra, um að innfæra skuldabréfin, verið borin undir Héraðsdóm Reykjavíkur samkvæmt heimild í þinglýsingarlögum. Málið hafi verið þingfest 15. febrúar 2008 og tekið til úrskurðar hinn 29. febrúar 2008. Úrskurður héraðsdóms byggist á því að sóknaraðili hafi ekki vísað málinu til dómsins innan þeirra tímamarka sem kveðið sé á um í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 og hafi málinu verið vísað frá dómi. Í úrskurðinum hafi því ekki verið tekin efnisleg afstaða til réttmætis kröfu stefnda eða ákvörðunar sýslumanns. Stefnandi telji að krafa umboðsmanns VBS Fjárfestingarbanka hf. hafi verið byggð á röngum og ólögmætum forsendum og ekki hafi verið um leiðréttingu að ræða þegar bréfin voru innfærð. Ítrekað hafi verið reynt að ná samkomulagi við stefnda um afléttingu bréfanna en án árangurs. Af þessum sökum sé stefnanda nauðugur sá kostur að höfða einkamál á hendur VBS Fjárfestingarbanka til að fá rétt sinn viðurkenndan eins og tilgreint sé í dómkröfum, en tjón vegna þessa sé nú þegar orðið verulegt þar sem ekki sé hægt að ráðstafa eignunum á meðan umrædd skuldabréf hvíli á þeim.
Um málavexti vísar stefndi til þess að fyrir mistök hafi, í heimildarleysi, andstætt lögum og án samþykkis stefnda, verið aflýst veðskuldum af tveimur fasteignum, en stefndi hafi verið, og sé, eigandi umræddra veðskuldabréfa. Gjörð þessi hafi farið fram í tengslum við þinglýsingu nýs skiptasamnings fyrir heildareigninni, þar sem henni var m.a. skipt upp í fleiri eignarhluta sem tókst að fá veðböndunum létt af. Stefnda hafi hvorki verið kunnugt um tilkomu hins nýja skiptasamnings né aflýsingu veðbandanna. Þegar stefndi hafi orðið þess áskynja hvað gerst hafði, hafi hann þegar í stað krafist leiðréttingar á færslunum og hafi sýslumaður fallist á kröfuna með áritun sinni á beiðnina 24. apríl 2007.
Forsvarsmanni stefnanda hafi verið kunnugt um leiðréttinguna strax hálfum mánuði síðar, eða hinn 11. maí 2007, eins og skjöl málsins beri með sér, án þess að hann hefðist nokkuð að.
Í stefnu málsins sé að finna ýmsar rangfærslur um samskipti aðila, meira og minna máli þessu óviðkomandi, eins og það liggi fyrir, í bland við óljósar málsástæður.
Nánar séu málavextir þeir að þegar stefndi kom að fjármögnun framkvæmda á lóðinni Rafstöðvarvegi 1a, landnúmer 110748, í september 2004, með samningi við systurfélag stefnanda I, Hönnunar- og listamiðstöðina Ártúnsbrekku ehf., forsvarsmaður Kristinn Brynjólfsson, hafi verið í gildi þinglýstur eignaskiptasamningur á heildareigninni frá því í september 2002. Þar hafi eigninni verið skipt í sjö eignarhluta sem allir voru veðsettir með krossveði til tryggingar skuldinni við stefnda. Sá skiptasamningur hafi verið í gildi þegar veðbréfum stefnda var þinglýst á eignirnar, en um hafi verið að ræða sjö nánast sambærilega bragga, bæði að stærð og allri gerð, þó einhverjir þeirra hefðu svokallað milliloft. Það hafi svo verið löngu síðar, eða í janúar 2007, sem systurfélag stefnanda II, Miðstöðin ehf., forsvarsmaður Kristinn Brynjólfsson, þinglýsti, án samþykkis stefnda, nýjum skiptasamningi á eignina. Þar hafi verið búið að gera þær breytingar helstar að sameina undir einu númeri tvo bragga þannig að þær eignir voru sex að tölu, en að auki hafði verið bætt við tveimur nýjum sjálfstæðum númerum; eignarhluta 229-8067, sem sé geymslurými sem hafi orðið til bak við braggana og svo kjallarahús undir bílastæði, sem fengið hafi númerið 229-8153. Eftir nýja eignaskiptasamningnum hafi eignarhlutarnir því orðið 8, en ekki sjö eins og ranglega standi á bls. 1 í seinni eignaskiptasamningnum. Með samanburði á samningunum sjáist að hlutdeild eignarhluta nr. 204-3313, í lóðinni, svo dæmi sé tekið, sem varnaraðili eigi m.a. veð í, minnki úr 13,91 % í 8,72%. Ljósrit af skiptasamningunum fylgi. Allt annað hafi breyst að tiltölu. Teikningar þær sem fyrir lágu þegar gengið var til fjármögnunar verkefnisins af hálfu varnaraðila hafi einnig gert ráð fyrir nýbyggingunum tveimur, enda hafi verulegur hluti lánveitinganna gengið til þeirra.
Þannig liggi fyrir að hinir nýju matshlutar hafi fyrst og fremst orðið til fyrir það að þeim var skipt út úr öðrum eignarhlutum og þar með þeim eignarhlutum sem stefndi naut veðréttinda í. Einhver lítilsháttar breyting á lóð hafi enga þýðingu í þessu sambandi, en fullyrðingar og rangfærslur stefnanda þar um sé enn eitt dæmið að mati stefnda um það hvernig hann hafi reynt að flækja mál þetta og sveipa einhverri dulúð í þeim eina tilgangi, að því er virðist, að reyna að skjóta undan stórfelldum eignum. Vakin sé athygli á að kjallararýmið sé 771,6 fermetrar og njóti 31,12% lóðarréttinda, en bakhúsið sé skráð 229,4 fermetrar og njóti það 7,12% hlutdeildar til lóðarréttinda. Stefndi telji að stefnandi, og/eða systurfyrirtæki hans, en forsvarsmaður félaganna sé sá sami, hafi reynt að skjóta undan 1.001 fermetra og 38,24% lóðarréttinda.
Látið sé nægja að vísa til nokkurra rafpósta frá margumræddum forsvarsmanni og úttekta verkfræðistofu um framvindu framkvæmda, en hvort tveggja taki að mati stefnda af öll tvímæli um að umþrættir fasteignahlutar hafi verið fjármagnaðir af stefnda og hafi verið órjúfanlegur hluti veðandlagsins. Við þinglýsingu hins nýja skiptasamnings hefðu öll veð átt að færast yfir á hina nýju eignarhluta. Með einhverjum óútskýrðum hætti virðist forsvarsmanni stefnanda hins vegar hafa tekist að koma í veg fyrir það. Sú gjörð hafi verið leiðrétt þegar þinglýsingarstjóri hafði verið upplýstur um það hvernig málið var vaxið.
Það væri andstætt meginreglum íslenskrar réttarskipunar um samningsveð og verndun réttinda fyrir þinglýsingu ef unnt væri, án samráðs við veðhafa, að skipta frá eign umtalsverðum hlutum hennar án þess að þinglýst réttindi og kvaðir fylgi. Annars sé verið að rýra veðandlagið, en það hefði stefndi aldrei fallist á, enda hafi lánsféð að stórum hluta runnið til þeirra framkvæmda eins og áður segi.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Á því er byggt af hálfu stefnanda að félagið Ártúnsbrekka ehf. sé sjálfstæður lögaðili sem aldrei hafi átt nein viðskipti við VBS Fjárfestingarbanka hf. Stefnandi hafi eignast umrædda eignarhluta skuldlausa og framangreindum veðskuldum hafi verið þinglýst á eignirnar án hans samþykkis eða vitundar. Eins og fram sé komið hafi ákvörðun þinglýsingarstjóra um að innfæra bréfin verið borin undir héraðsdóm en málinu hafi verið vísað frá dómi án efnislegrar umfjöllunar á þeirri forsendu að það hafi ekki verið höfðað innan þeirra tímamarka sem tilgreind séu í þinglýsingarlögum. Af þessum sökum sé stefnanda nauðugur sá kostur að höfða einkamál á hendur VBS Fjárfestingarbanka til að fá rétt sinn viðurkenndan eins og tilgreint sé í dómkröfum en tjón vegna þessa sé nú þegar orðið verulegt þar sem ekki sé hægt að ráðstafa eignunum á meðan umrædd skuldabréf hvíli á þeim.
VBS Fjárfestingarbanki hf. hafi knúið fram nauðungarsölur og keypt sjálfur þá eignarhluta sem settir hafi verið að veði samkvæmt skuldabréfunum fyrir samtals 291.000.000 króna, en höfuðstóll þeirra með fyrirframgreiddum vöxtum hafi verið 252.000.000 króna. Framangreindar nauðungarsölur hafi annars vegar farið fram hinn 18. apríl 2007 og hins vegar hinn 18. september 2007. Þrátt fyrir þetta hafi engum bréfum verið aflétt.
Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi sjálfur átt sæti í stjórn Hönnunar-og listamiðstöðvarinnar Ártúnsbrekku ehf. frá upphafi og þekki því vel forsögu málsins. Því sé algjörlega hafnað að eignarhlutarnir hafi á nokkrum tímapunkti verið veðsettir til tryggingar skuldinni enda sé hvergi minnst á byggingarnar í umdeildum skuldabréfum. Krafa stefnda um að innfæra bréfin sé í andstöðu við gerða samninga og sé því ólögmæt.
Ef samið hefði verið um veðsetningu bygginganna, sem deila þessi snúist um, hefði átt að geta þeirra í bréfunum. Í skuldabréfunum séu hins vegar taldir upp þeir eignarhlutar sem veðsettir voru til tryggingar skuldinni og sé því veðrétturinn skýrlega afmarkaður í samræmi við 16. gr. laga um samningsveð, sem og 18. gr. sömu laga um veðsetningu aðgreindra eignarhluta. Leggja beri sérstaka áherslu á að stefndi sé banki og hafi verið einráður um orðalag og efni þeirra skuldabréfa sem um sé deilt í málinu. Honum hafi verið fullkunnugt um framangreindar byggingar sem og byggingarstig þeirra þegar skuldabréfin voru gefin út, en eins og áður hafi komið fram hafi 3. veðréttar bréfin t.a.m. verið gefin út löngu eftir að framkvæmdum lauk. Allan vafa og óskýrleika beri því að túlka honum í óhag.
Það sé ljóst að þinglýsing framangreindra skuldabréfa, að fjárhæð 252.000.000 króna, inn á viðkomandi eignarhluta, hafi gert það að verkum að ekki sé hægt að ráðstafa þeim með sölu eða leigu með tilheyrandi fjárhagstjóni fyrir stefnanda. Samkvæmt framlögðu verðmati sem unnið hafi verið af Dan Valgarð S. Wiium hdl. og löggiltum fasteignasala, hinn 27. ágúst 2007, hafi söluverð eignarhlutanna, sem hér um ræði, verið talið 123.700.000 krónur.
Í bótakröfu sé stuðst við þá viðteknu hefð á fasteignamarkaði að mánaðarleiga atvinnuhúsnæðis sé að lágmarki einn hundraðasti af söluverðmæti eignar sem í raun sé ávöxtunarkrafa þess fjár sem í eignunum er bundið. Bótakrafa að fjárhæð 1.237.000 krónur, auk dráttarvaxta, sé því gerð fyrir hvern byrjaðan mánuð frá 1. september 2007 til þess dags sem bréfunum verður aflétt.
Kröfunni til stuðnings sé vísað í lög um meðferð einkamála nr. 91/1991, lög um samningsveð nr. 75/1997, einkum 16. gr., um afmörkun veðréttar, og 18. gr., um veðsetningu aðgreindra eignarhluta. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað styðst við lög nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi varnaraðila.
Málsástæður stefnda vegna frávísunarkröfu
Stefndi telur kröfugerð og stefnu svo óljósa að það hljóti að varða frávísun málsins, m.a. með tilvísun til 25. og 80. gr. einkamálalaga. Aðildin sé í meira lagi óljós, enda vandséð hvernig hægt væri að taka kröfur stefnanda á hendur stefnda til greina og byggja á þeim dóm. Þannig sé t.a.m. ekki á færi stefnda að uppfylla stefnukröfurnar þó dæmt væri honum í óhag.
Bótakrafan sé t.a.m. algerlega órökstudd að því er varðar bótagrundvöll eða tilgreiningu tjóns sem eigi væntanlega að vera fyrir missi leigutekna. Hvergi sé hins vegar að finna í gögnum málsins að vörslur umþrættra fasteigna hafi verið teknar af stefnanda enda sitji hann þar sem fastast. Staðfestingarkrafan sé krafa um lögfræðiálit og afmáningarkrafan ætti að snúa að sýslumanni. Málið einkennist að öðru leyti af rangfærslum og hlutasannleik með þeim hætti að það hljóti að varða frávísun.
Loks sé þess að geta að ágreiningsmál þetta verði ekki borið undir dómstóla að nýju fyrir meginreglu réttarfarslaga um res judicata, en ekki verði stuðst við nein rök eða beinar lagaheimildir til þess að bera sama úrlausnarefnið undir dómstóla að nýju, þó undir öðrum formerkjum sé.
Niðurstaða
Fyrsta dómkrafa stefnanda lýtur að því að staðfest verði með dómi að veðandlag tiltekinna skuldabréfa, sem tryggð eru með veði í fasteignum að Rafstöðvarvegi 1a, nái eingöngu til þeirra eignarhluta sem tilgreindir séu í bréfunum sjálfum, þ.e. eignarhluta með fastanúmer 204-3313, 225-5824, 225-8525, 225-8526, 225-8527, 225-8528, 225-8529, en ekki til eignarhluta með fastanúmer 229-8067 og 229-8153.
Önnur dómkrafa stefnanda er sú að staðfest verði með dómi að afmá skuli úr þinglýsingabókum þessi tilteknu skuldabréf af eignarhlutum með fastanúmer 229-8067 og 229-8153 sem innfærð voru að kröfu stefnda til sýslumannsins í Reykjavík, dags. 20 apríl 2007.
Eins og kröfur þessar eru settar fram þykir sýnt að úrlausn seinni dómkröfunnar felur í sér úrlausn á þeirri fyrri. Er því í raun um eina og sömu kröfu að ræða.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 taka lögin til dómsmála sem hvorki sæta sérstakri meðferð eftir fyrirmælum annarra laga né eiga undir sérdómstóla lögum samkvæmt.
Í 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 eru sérreglur um hvernig leita skuli úrlausnar dómstóla, m.a. um það hvort þinglýsing skjals verði afmáð eða henni breytt. Þeir sem eiga hlut að ágreiningi um slík atriði varðandi þinglýsingu eiga ekki valfrelsi um það hvort mál verði rekið eftir þessum sérreglum.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 2. apríl 2008, var fjallað um þessi sömu 32 handahafaskuldabréf, sem eru til umfjöllunar í þessu máli, og þá sömu kröfu sem höfð er uppi í þessu máli, að bréfin yrðu afmáð úr þinglýsingabókum af Rafstöðvarvegi 1a, Reykjavík, eignarhlutum með fastanúmer 229-8067 og 229-8153.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 skal bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara áður er fjórar vikur eru liðnar frá henni að nánar uppfylltum skilyrðum.
Í framangreindum úrskurði segir að ekki verði séð að stefnandi hefði krafist þess að þinglýsingarstjóri leiðrétti þá færslu sem gerð var í fasteignabók varðandi eignarhlutana, eins og stefnanda var heimilt samkvæmt 2. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga. Þegar stefnandi tilkynnti sýslumanninum í Reykjavík að hann hygðist kæra umrædda ákvörðun þinglýsingastjóra til héraðsdóms hafi verið liðinn sá fjögurra vikna frestur sem hann hafði samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga. Var kröfu stefnanda því hafnað.
Stefnandi kærði úrskurð þennan til Hæstaréttar Íslands. Með dómi uppkveðnum 9. maí 2008 staðfesti Hæstiréttur Íslands niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.
Í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 segir að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra sem komi að lögum í þeirra stað um þær kröfur sem séu dæmdar þar að efni til.
Í 2. mgr. sömu greinar segir að krafa sem dæmd hefur verið að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en segi í lögunum. Nýju máli um slíka kröfu skuli vísað frá dómi.
Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að kröfur stefnanda samkvæmt kröfuliðum 1 og 2, sem lúta sérreglum laga nr. 39/1978, hafa þegar verið bornar undir dómstóla og hlotið úrlausn. Fyrrgreindur dómur Hæstaréttar Íslands er því bindandi um úrslit þessa máls að því er þessar kröfur áhrærir og ber því samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 að vísa kröfuliðum 1 og 2 í stefnu frá dómi.
Skaðabótakrafa stefnanda er með öllu vanreifuð. Hún er afleidd krafa og tengist kröfuliðum 1 og 2 og verður ekki um hana fjallað á sjálfstæðan hátt. Ber því einnig að vísa þessari kröfu frá dómi.
Samkvæmt framansögðu er máli þessu vísað frá dómi í heild sinni.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 200.000 krónur. Ekki þykja næg efni til að dæma fyrirsvarsmann stefnanda, Kristin Brynjólfsson, persónulega til greiðslu málskostnaðar.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Ártúnsbrekka ehf., greiði stefnda, VBS Fjárfestingabanka hf., 200.000 krónur í málskostnað.