Hæstiréttur íslands
Mál nr. 485/2006
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Vinnuslys
- Húsbóndaábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 22. mars 2007. |
|
Nr. 485/2006. |
Vífilfell hf. (Ólafur Haraldsson hrl.) gegn Kristni H. Guðlaugssyni (Valgarður Sigurðsson hrl.) |
Skaðabótamál. Líkamstjón. Vinnuslys. Húsbóndaábyrgð.
Í málinu krafðist K skaðabóta úr hendi V vegna tjóns er hann varð fyrir er hann féll í bröttum stiga í versluninni Suðurver, er hann var að bera gosflöskur niður í lager verslunarinnar. K var starfsmaður V og fólst starf hans í því að fara á milli verslana og raða vörum V í hillur. V hafði engan umráðarétt yfir húsnæði verslunarinnar Suðurver og bar því ekki ábyrgð á að gerðar yrðu úrbætur til að auka öryggi starfsmanna þar. Gilti það sama um verkstjóra V að umsjón með verslunarhúsnæðinu var ekki talin falla undir verkskyldur hans samkvæmt 21. gr laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Var V því sýknað af kröfu K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi slasaðist er hann féll í bröttum stiga í versluninni Suðurveri í Reykjavík þegar hann bar gosflöskur niður í kjallara en þar var lager verslunarinnar. Stefndi var starfsmaður Áfyllingar ehf., sem er dótturfélag áfrýjanda. Áfrýjandi byggir ekki á því að þetta eigi að leiða til sýknu vegna aðildarskorts.
Starf stefnda var fólgið í því að fara á milli verslana við annan mann og raða vörum áfrýjanda í hillur. Stiga þeim sem stefndi féll í og aðstæðum þar er nánar lýst í héraðsdómi. Skyldur vinnuveitanda samkvæmt VI. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum lúta meðal annars að því að tryggja að vinnustaður sé öruggur og aðstæður góðar. Áfrýjandi hafði engan umráðarétt yfir húsnæði verslunarinnar og bar því ekki ábyrgð á að gerðar yrðu úrbætur til að auka öryggi starfsmanna þar. Gildir það sama um verkstjóra áfrýjanda, að umsjón með húsnæði þessu verður ekki talin falla undir verkskyldur hans samkvæmt 21. gr. laga nr. 46/1980. Áfrýjandi verður því sýknaður af kröfu stefnda.
Eins og málsatvikum er háttað þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði. Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Vífilfell hf., skal vera sýkn af kröfu stefnda, Kristins H. Guðlaugssonar.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Stefndi greiði áfrýjanda 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2006.
Mál þetta var höfðað 15. júní 2005 og var dómtekið 10. maí sl.
Stefnandi er Kristinn H. Guðlaugsson, Álfkonuhvarfi 19, Kópavogi.
Stefndu eru Vífilfell hf., Stuðlahálsi l, Reykjavík. Stefnt er til réttargæslu Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Dómkröfur
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 5.136.357 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 18. mars 2002 til greiðsludags.
Jafnframt gerir stefnandi þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi lögmanns hans, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti á málskostnaðarfjárhæðina.
Ekki eru að svo stöddu gerðar neinar kröfur á hendur réttargæslustefnda en skorað er á hann að veita stefnanda styrk í málinu eða gæta réttar síns ella.
Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar, enda eru engar kröfur gerðar á hendur félaginu.
Málavextir
Málavextir eru þeir að hinn 1. apríl 1999 varð stefnandi fyrir líkamstjóni er hann var við vinnu sína fyrir Áfyllingu ehf. sem er dótturfyrirtæki stefnda í versluninni Suðurver í Reykjavík. Vann stefnandi við útkeyrslu gosdrykkja í verslanir.
Verkefnið, sem stefnanda var falið í versluninni Suðurveri þennan dag, fólst í því að sækja vörur inn á lager verslunarinnar sem er staðsettur í kjallara hússins og raða vörunum í hillur. Til að komast í kjallarann þurfti að fara um þröngan og mjög brattan stiga. Er slysið varð var stefnandi að fara niður stigann með afgangsvörur sem hann var að bera niður á lagerinn. Rann hann til í næstefstu tröppunni og féll niður á kjallaragólfið. Við fallið fékk hann áverka á sitjanda og bak sem leitt hefur til varanlegra bakmeiðsla. Stefnandi var frá vinnu fyrstu tvær vikumar eftir slysið en reyndi þá að hefja störf að nýju. Einkennin versnuðu hins vegar stöðugt og var hann á endanum úrskurðaður með brjósklos á áverkastaðnum í baki. Garðar Guðmundsson, heila og taugaskurðlæknir, gerði aðgerð á stefnanda og var hann í kjölfarið metinn 12% varanlegur öryrki af Atla Þór Ólasyni lækni. Stefnandi kveður þróunina hafa síðan verið á verri veg og sé líðan hans í dag orðin sú sama og fyrir aðgerðina.
Á grundvelli matsgerðar Atla Þórs voru stefnanda greiddar 323.724 krónur úr slysatryggingu launþega. Réttargæslustefndi hafnaði hins vegar bótaskyldu í málinu en benti stefnanda á að hægt væri að skjóta ágreiningi um bótaskyldu til tjónanefndar vátryggingafélaganna, sem var gert með bréfi, dags. 25. júní 2003. Niðurstaða nefndarinnar var stefnanda ekki í vil og var afstöðu stefnda skotið til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Var það gert með bréfi stefnanda, dags. 30. september 2003. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar barst stefnanda með bréfi, dags. 16. mars 2004. Var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sú að Vífilfell hf. beri ekki skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem stefnandi varð fyrir er hann féll í stiganum 1. apríl 1999.
Stefnandi sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og fór fram á við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 12. janúar 2005 að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir, hæfir og óvilhallir matsmenn til að láta í té skriflegt og rökstutt álit um afleiðingar ofangreinds slyss. Til matsins voru dómkvaddir Guðjón Baldursson læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hrl. Í matsgerð matsmanna, dags. 9. maí 2005, kemur fram í niðurstöðu að stefnandi hefur orðið fyrir tjóni í kjölfar slyssins. Réttargæslustefnda var send matsgerðin, en félagið breytti ekki afstöðu sinni til málsins.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Bótagrundvöllur.
Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að stefndi og starfsmenn hans, sem stefndi beri húsbóndaábyrgð á, hafi valdið sér tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti.
Stefnandi telur orsakir slyssins eingöngu vera ófullnægjandi og í raun hættulegar vinnuaðstæður í versluninni Suðurveri. Það hafi verið á ábyrgð vinnuveitanda og verkstjóra hans að tryggja að vinnustaður stefnanda væri öruggur og stofnaði ekki beinlínis heilsu starfsmanna í hættu. Það hafi ekki verið gert og með því hafi verið brotið gegn ákvæðum VI. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. einnig 13. og 21. gr. sömu laga.
Stefndi hafi ekki tilkynnt slys stefnanda til Vinnueftirlitsins fyrr en tæpum tveimur árum eftir að slysið varð og því hafi ekki farið fram nein rannsókn af þess hálfu á orsökum slyssins. Með þessu hafi stefndi brotið gegn skýrum fyrirmælum 79. gr. fyrrgreindra laga og hafi um leið fellt á sig sönnunarbyrðina fyrir því að orsakir slyssins væru aðrar en hinar hættulegu starfsaðstæður. Engin lögregluskýrsla hafi verið gerð um þetta slys fyrr en í maí 2004 eftir ítrekaðar óskir stefnanda.
Stefnandi gerir kröfu um að honum verði bætt tjón sitt úr ábyrgðartryggingu Vífilfells hf. hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Hann telur vinnuveitanda sinn bera alla ábyrgð á tjóni sínu samkvæmt reglunum um vinnuveitendaábyrgð en verkstjóranum á staðnum, Stefáni Garðarssyni, hafi borið skýlaus skylda til að stöðva vinnu við burð goskassanna milli hæða, við þær aðstæður sem þarna voru. Það hafi hann ekki gert og hafi þar brotið gegn skyldum sínum samkvæmt nefndum lögum. Athafnaleysi hans við þessar aðstæður sé saknæmt og grundvalli bótaskyldu vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir. Samstarfsmaður hans hafi verið Baldur Hafsteinn Guðbjörnsson. Hann hafi gefið lögregluskýrslu um slysið og aðstæður á staðnum.
Stefndi hafi keypt ábyrgðartryggingu vegna starfsemi sinnar hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. sem hafi verið í gildi þegar slysið varð. Af þeim sökum sé því félagi stefnt til að gæta réttar síns í máli þessu.
Stefnandi telur stefnda bera alla ábyrgð á tjóni sínu sem alfarið megi rekja til saknæmrar og ólögmætra athafna eða athafnaleysis starfsmanna stefnda, þar sem um ófullnægjandi vinnuaðstöðu hafi verið að ræða og rangt mat á aðstæðum með þeim afleiðingum fyrir stefnanda sem hér sé getið.
Bótafjárhæð.
Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna komi fram að helstu kvartanir stefnanda séu verkur í mjóbaki og hægri ganglim. Einkum sé um að ræða verki sem versni við langar og erfiðar vinnutarnir, langar setur, bogur, lyftingar, hlaup og allt það sem reyni á mjóbakið. Þannig sé einkum um að ræða álagsbundin óþægindi en einnig sé um hvíldaróþægindi að ræða. Niðurstaða matsmanna sé að við slysið 1. apríl 1999 hafi stefnandi orðið fyrir eftirfarandi tjóni á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993:
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. 56 dagar
2. Þjáningarbætur skv. 3.gr.
Rúmliggjandi 2 dagar
Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi 54 dagar
3. Stöðugleikapunktur: 01.01.2001
4. Varanlegur miski skv. 4.gr. 12%
5. Varanleg örorka skv. 5.gr. 12%
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna og sundurliðist kröfur hans með eftirfarandi hætti.
Stefnandi hafi verið 19 ára þegar slysið varð og voru tekjur hans á því ári 1.181.528 krónur. Þessar tekjur gefi ekki rétta mynd af framtíðartekjum hans, en tekjur stefnanda á síðasta ári hafi verið 3.265.312,00 krónur. Með heimild í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga telur stefnandi að miða beri við síðustu árslaun en þau gefi mun réttari mynd af framtíðarlaunum stefnanda, m.a. með vísan til skattframtala stefnanda.
1. Þjáningarbætur rúmliggjandi 2 d (1880) 3.760,00 kr.
2. Þjáningarb. batnandi, ekki rúml. 54 d. (1010) 54.540 kr.
3. Varanlegur miski 12% (5.793.000) 695.160 kr.
4. Tímabundið atvinnutjón, sbr. 2. gr. (56 d.) 507.937 kr.
5. Varanl. örorka, sbr. 5. gr. 12%(10-földun) 3.918.374 kr.
6. 2% ársvextir frá slysdegi 280.310,00 kr.
7. Útlagður kostnaður tjónþola 353.750 kr.
Samtals 5.813.831 kr.
Til viðbótar ofangreindri fjárhæð sé krafist dráttarvaxta frá dagsetningu fyrri matsgerðar, 18. mars 2002, til greiðsludags, þar sem tjón stefnanda hafi þá legið fyrir og sé síðan staðfest með síðari matsgerð en stefndi hafi verið krafinn um bætur á grundvelli fyrri matsgerðar. Jafnframt sé krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi lögmanns stefnanda að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti á málskostnaðarfjárhæð.
Um skaðabætur vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um dráttarvexti vísar stefnandi til 2. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Um upphafstíma dráttarvaxta vísar stefnandi til 9. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 með síðari breytingum.
Málsástæður stefnda og lagarök
Aðalkrafa um sýknu.
Stefndi byggir sýknukröfu sína annars vegar á því að ósannað sé að tjónið megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans eða annarra atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum og hins vegar á því að stefnandi verði sjálfur að bera tjón sitt að fullu sjálfur vegna eigin sakar.
Ósannað sé að tjónið megi rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum.
Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns. Mótmæli stefndi því að skilyrði séu til að víkja frá þessari meginreglu og leggja sönnunarbyrðina á stefnda. Í því sambandi sé rétt að taka skýrt fram að stefnda hafi ekki verið tilkynnt um slysið samdægurs, eins og stefnandi haldi fram, sbr. skýrslu Stefáns Garðarssonar framkvæmdastjóra fyrir lögreglu. Raunar hafi slysið ekki verið tilkynnt framkvæmdastjóra sérstaklega heldur hafi hann frétt af slysinu, eins og fram komi í nefndri lögregluskýrslu. Þar komi einnig fram að meiðsl stefnanda hafi þá ekki virst vera til staðar og stefnandi hafi gert mjög lítið úr slysinu. Í því sambandi skuli bent á að stefnandi hafi ekki leitað til læknis fyrr en 16. apríl 1999, rúmum tveimur vikum eftir slysið. Samkvæmt þessu hafi ekkert það verið sem hafi gefið stefnda, strax í upphafi, tilefni til að ætla að tilkynna bæri um slysið samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Mótmælir stefndi því að hafa brotið gegn nefndu ákvæði. Í framhaldi af þessu skuli bent á að stefnandi, samstarfsmaður hans og þáverandi framkvæmdastjóri stefnda hafi nú gefið skýrslur um málið fyrir lögreglu og stiginn hafi sérstaklega verið skoðaður af byggingarfulltrúanum í Reykjavík. Atvik málsins virðist að mestu leyti vera óumdeild, rannsóknarhagsmunir hafi ekki spillst og því engin efni til að láta meinta vanrækslu stefnda á að tilkynna strax um slysið hafa áhrif á sönnun eða önnur atriði í málinu.
Stefndi mótmælir því að hann geti borið ábyrgð á meintum vanbúnaði stigans eða öðrum aðstæðum á slysstað. Því til stuðnings skuli bent á að stefndi hafi ekkert með að gera þær aðstæður er voru á staðnum, enda hafi hann ekki forræði á aðstæðum í þeim verslunum sem hann sendi vörur til og sé ekki í aðstöðu til að gera breytingar á þeim. Telur stefndi að ábyrgð á aðstæðum hvíli alfarið á fasteignareiganda (verslunareiganda). Beri honum að sjá til þess að aðstæður séu fullnægjandi þannig að slysahætta sé takmörkuð. Megi stefndi treysta því að aðstæður séu þannig í þeim verslunum sem hann sendi vörur til.
Stefndi mótmælir því að aðbúnaður á staðnum hafi verið ófullnægjandi eða hættulegur. Þá varð ekki séð að sá stigi, sem stefnandi féll í, fullnægði ekki í einu og öllu ákvæðum byggingarreglugerðar eða að hann væri hættulegur. Telur stefndi ósannað að orsakatengsl séu á milli meints vanbúnaðar stigans og slyss stefnanda, enda sé á því byggt í málinu að stefnandi hafi runnið til í stiganum þar eð að hann var mjög háll vegna bleytu. Samkvæmt framansögðu mótmælir stefndi því að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi og brotið gegn tilgreindum ákvæðum laga nr. 46/1980.
Stefndi mótmælir því að verkstjórn hafi verið ábótavant. Rétt sé að taka fram að Stefán Garðarsson framkvæmdastjóri, hafi ekki verið á staðnum þegar slysið varð, eins og haldið sé fram í stefnu. Á þeim tíma sem slysið varð hafi um 20 starfsmenn stefnda starfað við áfyllingu. Hafi verið ómögulegt fyrir framkvæmdastjóra að fylgjast með störfum þeirra allra, enda hafi þeir unnið í fjölmörgum verslunum á stóru svæði. Á hinn bóginn hafi starfsmenn haft greiðan aðgang að framkvæmdastjóra og gátu komið á framfæri við hann ábendingum og athugasemdum eða óskað eftir leiðbeiningum um rækslu starfsins, t.d. á fundum sem haldnir hafi verið á hverjum morgni þar sem farið var yfir verkefni dagsins o.fl.
Stefnandi hafi verið tæplega tvítugur þegar slysið varð og hafði unnið frá árinu 1998 við að fylla á vörur í verslunum, fyrst hjá Fagkynningu ehf. og síðar hjá stefnda. Um tiltölulega einfalt verk hafi verið að ræða sem stefnandi hafði unnið margoft áður. Hafi ekki verið ástæða til að fylgjast sérstaklega með vinnu hans í umrætt sinn. Hafi stefnanda og samstarfsmanni hans verið falið að vinna verkið og ákveða tilhögun vinnunnar. Hafi framkvæmdastjóri mátt treysta því að stefnandi myndi beita öruggum vinnuaðferðum við verkið.
Í skýrslum sínum fyrir lögreglu hafi stefnandi og samstarfsmaður hans ekki fullyrt hvort stiginn hefði verið blautur og háll. Af framlögðu veðurfarsyfirliti Veðurstofu Íslands megi sjá að meðalhiti á slysdaginn hafi verið -1,8°C og snjóhula 2 á skalanum 0-4. Daginn fyrir slysið hafi meðalhiti verið -4,8°C, snjódýpt 1 cm og snjóhula 2 á skalanum 0-4. Að þessu virtu megi ætla að snjór og krapi hafi borist í stigann vegna umgangs stefnanda og samstarfsmanns hans og gert hann hálan og blautan. Sé á því byggt í stefnu að mjög hált hafi verði í stiganum af framangreindum orsökum.
Að öllu framangreindu virtu sé því harðlega mótmælt að stefndi geti borið skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Hafi einfaldlega verið um óhappatilviljun að ræða sem líklega má rekja til íslenskra vetraraðstæðna, eins og getið sé hér að framan. Á þeim geti stefndi ekki borið ábyrgð.
Eigin sök stefnanda.
Telji héraðsdómur að ekki hafi verið um óhappatilviljun að ræða, byggir stefndi á því að stefnandi verði sjálfur að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Hafi atriði því til stuðnings verið rakin hér að framan að nokkru leyti en rétt sé að árétta eftirfarandi atriði.
Stefnandi hafi sjálfur ákveðið að nota umræddan stiga til að komast til og frá kjallara í stað þess að nota lyftu sem staðið hafi til boða. Hafi sú leið verið hættulaus þótt hún væri aðeins lengri, eins og fyrr sé rakið. Með vali sínu hafi stefnandi tekið áhættu sem hann verði sjálfur að bera fulla ábyrgð á.
Stefnandi hafi vitað eða mátt vita að stiginn var blautur og háll og hafi það gefið honum sérstakt tilefni til að gæta ýtrustu varkárni, t.d. að nota lyftuna í stað stigans.
Varakrafa um verulega lækkun.
Varakrafa stefnda um verulega lækkun sé byggð á eftirfarandi atriðum:
Í fyrsta lagi byggir stefndi á því að bætur beri að lækka verulega vegna eigin sakar stefnanda. Hafi röksemdir því til stuðnings verið raktar hér að framan og vísist til þeirra.
Í öðru lagi mótmæli stefndi kröfu stefnanda um tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir slíku tjóni en um það beri hann sönnunarbyrði. Bótum fyrir tímabundið atvinnutjón sé ætlað að bæta það tjón sem tjónþoli raunverulega verði fyrir vegna fjarvista frá vinnu í kjölfar slyss. Sé því ljóst að við ákvörðun þeirra sé ekki unnt að taka mið af tekjum stefnanda árið 2004, fimm árum eftir slysið, eins og stefnandi virðist byggja á. Sé krafa stefnanda í engu samræmi við þær tekjur sem hann hafi haft síðustu mánuðina fyrir slysið, sem þó hljóta að gefa réttasta mynd af raunverulegu tjóni. Beri a.m.k. að lækka kröfu stefnanda verulega. Tekið skuli hér fram að stefnandi hafi fengið greidd laun frá stefnanda eftir slysið og eigi þær greiðslur að koma til frádráttar tímabundnu atvinnutjóni. Ekkert tillit virðist hins vegar vera tekið til þessa í kröfugerð stefnanda. Af framlögðum skattframtölum verði ekki ráðið að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni og hjá stefnda séu engar fjarvistir skráðar.
Í þriðja lagi mótmælir stefndi því að skilyrði séu til að ákvarða árslaun stefnanda á grundvelli undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hafi stefnandi ekki sannað að aðstæður hans fyrir slysið hafi verið svo óvenjulegar að ákvæðið geti átt við. Byggir stefndi á því að ákvarða beri árslaun stefnanda á grundvelli aðalreglu 1. mgr. 7. gr. laganna.
Heildarvinnutekjur stefnanda á næstliðnu ári fyrir slysið hafi verið 994.431 króna, að teknu tilliti til framlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð. Að teknu tilliti til hækkunar lánskjaravísitölu samkvæmt síðari málsl. 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga sé árslaunaviðmiðið 1.184.842 krónur. Krafa stefnanda vegna varanlegrar örorku sé 1.421.810 kr. (1.184.842 * 10 * 12%).
Jafnvel þótt héraðsdómur fallist á að skilyrði séu til að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við ákvörðun árslauna stefnanda, mótmælir stefndi því að lagt verði til grundvallar það árslaunaviðmið sem stefnandi krefst. Sé fráleitt að árslaun stefnanda fjórum árum eftir slysið séu réttasti mælikvarðinn á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Í því sambandi sé rétt að ítreka að miða verði við stöðu tjónþola á slysdegi. Þá verði að benda á að þau árslaun, sem stefnandi krefst að miðað verði við, séu mun hærri en árslaun fyrri ára. Ef árslaun séu ákvörðuð samkvæmt 2. mgr. 7. gr. telur stefndi réttara að líta til þeirra launa sem stefnandi hafi haft síðustu mánuðina fyrir slysið. Í tilkynningu til Tryggingastofnunar ríkisins um slys komi fram að laun stefnanda hjá stefnda frá 1. desember 1998 til 30. júlí 1999 hafi verið 1.084.760 krónur eða 1.627.140 krónur á ársgrundvelli. Að teknu tilliti til framlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð og vísitöluhækkunar samkvæmt síðari málsl. 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga sé árslaunaviðmiðið 2.055.023 krónur. Krafa stefnanda vegna varanlegrar örorku sé þá 2.466.028 krónur (2.055.023 * 10 * 12%). Að lokum sé rétt að geta þess að þetta árslaunaviðmið sé ekki fjarri meðaltekjum verkamanna á 1. ársfjórðungi 1999.
Í fjórða lagi krefst stefndi þess að greiðsla úr slysatryggingu launþega að fjárhæð 323.724 krónur, sbr. framlögð kvittun á dskj. nr. 27, komi til frádráttar dæmdum skaðabótum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Í fimmta lagi byggir stefndi á því að vextir sem fallið hafi fjórum árum fyrir þingfestingu málsins eða fyrr séu fyrndir, sbr. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Beri því að hafna kröfum stefnanda um nefnda vexti.
Í sjötta lagi mótmælir stefndi kröfu stefnanda um meintan útlagðan kostnað. Af gögnum málsins virðist mega ráða að hann sé að langmestu leyti til kominn vegna kostnaðar við öflun matsgerðar. Geti slíkur kostnaður ekki komið til álita sem liður í kröfu stefnanda á hendur stefnda, enda teljist þóknun matsmanns til málskostnaðar, samkvæmt e-lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í sjöunda lagi byggir stefndi á því að dráttarvextir geti fyrst reiknast þegar mánuður sé liðinn frá stefnubirtingardegi, enda hafi þá fyrst verið lagðar fram upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, s.s. skattframtöl og lögregluskýrslur, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá skuli bent á að í kröfubréfum stefnanda hafi aðeins verið gerð krafa um viðurkenningu á bótaskyldu en fjárkröfur komi fyrst fram í stefnu.
Hvað sem öðru líði telur stefndi ljóst að stefnandi geti ekki krafist dráttarvaxta og vísitöluhækkunar fyrir sama tímabil, svo sem gert sé í stefnu. Ef dráttarvaxtakrafa stefnanda sé tekin til greina að fullu sé þess krafist að kröfufjárhæðir stefnanda verði lækkaðar og við vísitöluútreikninga verði lánskjaravísitala í mars 2002 lögð til grundvallar.
Um lagarök vísar stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, óhappatilviljun, gáleysi og eigin sök tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Stefnandi var að störfum hjá fyrirtækinu Áfyllingu ehf., dótturfyrirtæki Vífilfells hf., er hann varð fyrir slysi hinn 1. apríl 1999. Var stefnandi að störfum ásamt Baldri Hafsteini Guðmundssyni. Fólst starf þeirra í að keyra gosdrykki í verslanir og sjá um að fylla í hillur verslana. Er slysið varð var stefnandi að störfum í versluninni Suðurveri. Stefnandi kveðst hafa verið að fara niður stiga sem liggur úr versluninni niður á lager hennar sem var í kjallara. Kveðst stefnandi hafa verið með kókkippur í höndunum. Honum hafi skrikað fótur ofarlega í stiganum og hann fallið niður.
Í stefnu segir að snjóföl hafi verið úti og því hafi verið mjög hált í stiganum. Við yfirheyrslur upplýstist að svo var ekki enda voru stefnandi og félagi hans að vinna innan dyra. Í greinargerð stefnda segir að lyfta hafi verið í versluninni en upplýst er að svo var ekki. Eina leiðin úr versluninni niður á lagerinn var því um þennan stiga.
Stiginn lá niður um lúgu í gólfi verslunarinnar. Handrið var á vegg við stigann en ljóst samkvæmt þeim myndum sem fyrir liggja að ekki var hægt að styðjast við það fyrr en komið var neðarlega í stigann.
Í úttekt á stiganum sem gerð var af byggingafulltrúa, Magnúsi Sædal Svavarssyni, sem gerð var 24. febrúar 2004 kemur fram að ljósop stigans, þ.e. breiddin milli stigakjálka, er 62,5 sm en í byggingarreglugerð nr. 292/1979 sé gert ráð fyrir að lágmarksbreidd stiga innan íbúðar sé 90 sm. Ganghæð í stiganum er undir lágmarksákvæðum sem eru 220 sm en minnsta ganghæð mældist 170 sm. Framstig mældist 18 sm en má minnst vera 24 sm. Hvert skref í stiganum = 2 uppstig + framstig er 67 sm en á að vera 61-63 sm. Hæð frá tröppunefi í handrið mældist 60 sm en á að vera minnst 80 sm. Handrið á að vera beggja megin en er aðeins veggmegin og nær aðeins frá neðri brún loftplötu 1. hæðar og ekki allan stigann niður. Handrið hefði eðli málsins samkvæmt átt að ná upp á 1. hæð.
Samkvæmt framansögðu uppfyllti stiginn ekki ákvæði byggingareglugerðar og var hættulegur þeim sem um hann þurftu að fara. Samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi gerði hann sér grein fyrir því að stiginn var hættulegur og reyndi að fara varlega, en samt fór sem fór.
Í 41. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum segir að vinnustaður merki í lögunum umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Í 42. gr. sömu laga segir að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.
Enda þótt stefnandi hafi verið að störfum í húsnæði sem ekki tilheyrði stefnda er ljóst að hann var staddur í umræddri verslun á vegum vinnuveitanda síns sem samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1980 ber ábyrgð gagnvart starfsmönnum sínum á að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar á vinnustað. Telst hann því samkvæmt reglum um húsbóndaábyrgð bera fulla ábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir umrætt sinn enda hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi með óaðgæslu átt þátt í því að slysið varð. Ber því að fella bótaábyrgð á stefnda vegna umrædds slyss.
Bótakrafan.
Að beiðni stefnanda voru dómkvaddir tveir matsmenn til þess að meta afleiðingar slyssins, þeir Guðjón Baldursson læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hrl. Matsgerð þeirra er dags. 9. maí 2005.
Í matsgerð þeirra kemur fram að stefnandi hafi verið frá vinnu 2 vikur eftir slysið. Hann hafi leitað á slysadeild 16. apríl 1999. Þar var hann álitinn hafa tognað og marist á mjöðm og læri og fékk meðhöndlun með bólgueyðandi lyfjum. Hann var áfram með verki í baki og niður í hægri fót. Hann fór í sneiðmynd af mjóbaki 31. desember 1999 en sú rannsókn var talin eðlileg. Hinn 5. janúar 2000 fór stefnandi í viðtal til Gunnars Brynjólfs Gunnarssonar bæklunarskurðlæknis. Var honum vísað til sjúkraþjálfara. Vegna viðvarandi einkenna var tekin önnur sneiðmynd af mjóbaki hinn 31. júlí 2000 sem sýndi þá brjósklos á milli IV. og V. lendarliðar. Vegna versnandi einkenna, þrátt fyrir kröftuga sjúkraþjálfun, leitaði hann til Garðars Guðmundssonar taugaskurðlæknis. Hinn 17. nóvember 2000 var síðan framkvæmd aðgerð þar sem fannst brjósklos, eins og sneiðmyndin hafði sýnt. Hægur bati var eftir aðgerðina. Þá er í matsgerðinni vísað til vottorðs Garðars Guðmundssonar, heila- og taugaskurðlæknis, sem telur að brjósklosið hafi verið bein afleiðing vinnuslyssins.
Niðurstöður matsmanna eru þær að þeir telja stefnanda hafa verið óvinnufæran af völdum slyssins í 2 vikur eftir slysið og síðan í 6 vikur eftir aðgerðina 17. nóvember 2000.
Við mat á þjáningatíma miða matsmenn við tímabil óvinnufærni. Þar af hafi hann verið rúmliggjandi í 2 daga í kjölfar aðgerðar 17. nóvember 2000.
Um mat á varanlegum miska segir: „Við mat á varanlegum miska leggja matsmenn til grundvallar að um einkenni tognunaráverka á lendarhrygg er að ræða og afleiðingar eftir aðgerð vegna brjóskloss. Um er að ræða hreyfiskerðingu og verki sem valda matsbeiðanda skerðingu á almennri færni svo og lífsgæðum. Varanlegur miski með hliðsjón af ofangreindu telst hæfilega metinn 12% og er matið að hluta grundvallað af töflum örorkunefnda um miskastig.“
Um mat á varanlegri örorku segir: „Við mat á varanlegri örorku er litið til læknisfræðilegra afleiðinga slyssins sem að mati matsmanna geta haft áhrif á starfsgetu í velflestum störfum til sjós og lands. Kristinn hefur takmarkaða menntun og stutta starfsreynslu í almennum verkamannastörfum og nú síðast í vélsmiðju. Mat á varanlegri örorku er miðað við þennan bakgrunn og önnur eðlislík störf. Af tekjusögu eftir slys er vandséð hvort tekjutjóns hafi gætt en síðastliðin tvö ár hefur Kristinn verið í nokkuð vellaunuðu starfi í vélsmiðju sem hentar honum vel með tilliti til einkenna af völdum slyssins. Ógjörningur er að segja til um hvort Kristinn hefði getað haft hærri laun árin þar á undan frá slysi þó telja verði það líklegt. Matsmenn telja augljóst að einkenni torvelda honum val á starfi eða störfum þar sem reynir á líkamlega færni. Þótt Kristinn sé í nokkuð vellaunuðu starfi nú sem sérhæfður verkamaður verður að taka tillit til þess að vinnumarkaðurinn er síbreytilegur og enginn trygging til staðar fyrir því að hann haldi núverandi starfi. Með hliðsjón af þessu og öðru leyti með tilvísun til almennra sjónarmiða við mat á skerðingu á vinnugetu til lengri tíma litið er varanleg örorka metin 12%.“
Stöðugleikapunkt telja matsmenn vera sex vikum eftir aðgerð eða 1. janúar 2001.
Kröfu um þjáningabætur, 58.300 krónur, er ekki mótmælt og ber að taka hana til greina, enda er krafan í samræmi við matsgerð.
Krafa stefnanda vegna 12% varanlegs miska nemur 695.160 krónum. Er henni ekki mótmælt tölulega og ber að taka hana til greina.
Krafa vegna tímabundins atvinnutjóns nemur 507.937 krónum.
Samkvæmt tilkynningu stefnanda til Tryggingastofnunar ríkisins um slys á dskj. nr. 8 og staðfestingu vinnuveitanda hans, dags. 21. nóvember 2001, verður helst ráðið að stefnandi hafi þegið laun í veikindaleyfi sínu. Engin grein er gerð fyrir því í sóknargögnum hver laun stefnanda voru er slysið varð eða hvaða greiðslur hann þáði frá vinnuveitanda meðan hann var óvinnufær. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir raunverulegu tímabundnu atvinnutjóni og ber að hafna kröfu hans vegna þess.
Krafa stefnanda vegna varanlegrar 12% örorku nemur 3.918.374 krónum. Stefnandi byggir þessa kröfu sína á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miðar við tekjur sem stefnandi hafði á árinu 2004. Mótmælir stefndi því að beitt verði ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Hann mótmælir einnig því tekjuviðmiði sem stefnandi beitir í kröfugerð sinni.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 skulu árslaun til ákvörðunar bóta vegna varanlegrar örorku teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs 3 síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skulu árslaun metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Í athugasemdum með 6. gr. laga nr. 37/1999 til breytinga á 7. gr. laga nr. 50/1993 segir m.a. að viðmiðun við síðustu 3 tekjuár sé að jafnaði eðlileg þegar um sé að ræða mann í launuðu starfi. Launatekjur liðinna ára séu hins vegar ekki góður mælikvarði ef breytingar hafi orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys varð eða þegar fullyrða megi að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Megi nefna að tjónþoli hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum eða látið af starfi og hafið töku lífeyris. Í slíkum tilvikum sé eðlilegra að ákveða viðmiðunarlaunin miðað við nýjar aðstæður. Á sama hátt yrði tekjuviðmiðun námsmanns, sem væri að ljúka starfsréttindanámi, eðlilegust miðað við það starf.
Stefnandi var 19 ára þegar slysið varð. Hafði hann tiltölulega nýlega stigið sín fyrstu spor á vinnumarkaði en hann kveðst hafa unnið einhverja mánuði hjá stefnda en var áður í iðnnámi. Samkvæmt matsgerð vann stefnandi 2 ár hjá stefnda, síðan á dekkjaverkstæði í rúmt ár en hefur síðan þá unnið í vélsmiðju. Hefur stefnandi þennan tíma unnið sambærileg störf enda þótt tekjur hans hafi aukist með árunum. Í ljósi þess sem að framan er rakið er ekki fallist á að þessar aðstæður séu óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og verður greininni því ekki beitt við útreikning bóta til stefnanda.
Samkvæmt framansögðu þykir við ákvörðun bóta verða að byggja á 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miða við tekjur stefnanda fyrir slysið. Stefndi hefur í greinargerð sinni reiknað út varanlega örorku stefnanda miðað við heildarvinnutekjur stefnanda á næstliðnu ári fyrir slysið, sbr. það sem áður er rakið. Annar útreikningur liggur ekki fyrir í málinu og hefur stefnandi ekki mótmælt þessum útreikningi miðað við gefnar forsendur. Samkvæmt þessum útreikningi nemur tjón stefnda 1.421.810 krónum og ber að taka þá fjárhæð til greina til ákvörðunar á bótum fyrir varanlegan miska. Til frádráttar þeirri fjárhæð koma greiðslur úr slysatryggingu að fjárhæð 323.724 krónur.
Samkvæmt framansögðu eru kröfur stefnanda teknar til greina með 1.851.549 krónum.
Samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 fyrnast vextir á 4 árum. Mál þetta er höfðað 15. júní 2005. Vextir sem gjaldfallnir voru fyrir 15. júní 2001 eru því fyrndir. Vextir greiðast því eins og greinir í dómsorði.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 875.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Vífilfell hf., greiði stefnanda, Kristni H. Guðlaugssyni, 1.851.549 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 15. júní 2001 til 28. júlí 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 875.000 krónur í málskostnað.