Hæstiréttur íslands

Mál nr. 184/2012


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Verðbréfaviðskipti
  • Afleiðusamningur
  • Hlutabréf
  • Ógilding samnings
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Fimmtudaginn 29. nóvember 2012.

Nr. 184/2012.

NVN ehf. og

Einar Örn Jónsson

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.

Jón Ármann Guðjónsson hdl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.

Guðbjarni Eggertsson hdl.)

Fjármálafyrirtæki. Verðbréfaviðskipti. Afleiðusamningur. Hlutabréf. Ógilding samnings. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.

L hf. höfðaði mál gegn N ehf. og fyrirsvarsmanni félagsins, E, til heimtu skuldar vegna viðskipta þeirra samkvæmt fimm framvirkum samningum um kaup N ehf. á hlutum í L hf. Var kröfu beint að E um hluta skuldarinnar á grundvelli yfirlýsingar hans um sjálfskuldarábyrgð. N ehf. og E báru aðallega fyrir sig að samningarnir hefðu ekki komist lögformlega á, að L gæti ekki borið þá fyrir sig vegna ákvæða III. kafla laga nr. 7/1936 um um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og að L hf. hefði einhliða og ranglega flokkað N ehf. sem fagfjárfesti og þar af leiðandi ekki veitt félaginu þær leiðbeiningar sem því hefðu ella verið veittar sem almennum fjárfesti, en til vara að krafa L hf. væri reist á röngum reikningslegum forsendum. Hæstiréttur sló því föstu að gildi einstakra samninga milli aðila hefði ekki verið háð því að þeir væru undirritaðir af þeim báðum, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 24. nóvember 2011 í máli nr. 93/2011, og að sýnt væri að L hf. hefði á fullnægjandi hátt fært efni einstakra samninga í letur og sent N ehf. til samræmis við áskilnað skilmála L hf., sem N ehf. hafði samþykkt. Á hinn bóginn taldi Hæstiréttur að eins og málið væri reifað væri slíkur vafi uppi um efni samninganna fimm að ófært væri að fella efnisdóm á málið, auk þess sem margt væri óljóst um hvernig L hf. hefði ráðstafað lánsfé N ehf. til uppgjörs á skuldum félagsins við L hf., þ. á m. vegna hinna fimm umþrættu samningum. Loks vísaði Hæstiréttur til málsástæðna N ehf. og E, er lutu að ætlaðri rangri flokkun L hf. á N ehf. sem fagfjárfestis í viðskiptum þeirra, og var á það bent að viðhlítandi afstaða yrði ekki tekin til þessara málsástæðna með því einu að vísa til dóms réttarins 24. janúar 2011 í máli nr. 638/2010, svo sem héraðsdómur hafði gert, en atvik er lytu að þessum hluta málsins væru vanreifuð af hálfu L hf. Var málinu vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. mars 2012. Þeir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnda, en að því frágengnu að þær verði lækkaðar. Í öllum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms með þeirri breytingu að áfrýjandanum NVN ehf. verði gert að greiða sér 995.522.310 krónur með þeim vöxtum, sem þar voru dæmdir. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Stefndi höfðaði mál þetta 30. október 2009 og krafðist þess að áfrýjandanum NVN ehf., sem þá hét Norðurver ehf., yrði gert að greiða sér 995.552.310 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 29. febrúar 2008 til greiðsludags, en áfrýjandinn Einar Örn Jónsson dæmdur til að greiða 250.000.000 krónur með sömu vöxtum frá 5. desember 2009 til greiðsludags. Gegn þessu gæfi stefndi út afsal fyrir 27.332.590,60 hlutum í Landsbanka Íslands hf. Í héraðsdómsstefnu var atvikum lýst þannig að áfrýjandinn NVN ehf. hafi gert fimm framvirka samninga við stefnda 30. nóvember og 28. desember 2007 og 29. janúar 2008 um kaup þess fyrrnefnda á hlutum í stefnda, sem sagt var að hafi verið alls 25.002.098,06 að tölu, en áður hafi áfrýjandinn 17. mars 2006 samþykkt almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá stefnda. Með þessum samningum hafi stefndi skuldbundið sig til að selja hlutina og áfrýjandinn til að greiða umsamið kaupverð á gjalddaga. Af stefnunni verður ráðið að tveir samningar frá 30. nóvember 2007, nr. 7675-3 og 7840-3, hafi verið á gjalddaga 29. febrúar 2008 og hvor um kaup á 5.000.000 hlutum, en kaupverð samkvæmt þeim fyrrnefnda hafi verið 193.743.238 krónur og þeim síðarnefnda 192.415.899 krónur. Tveir samningar frá 28. desember 2007, nr. 10508-1 og 10666-1, hafi verið á gjalddaga 28. mars 2008. Sá fyrrnefndi hafi verið um kaup á 4.726.688,60 hlutum og kaupverðið 169.997.455 krónur, en sá síðarnefndi um kaup á 10.275.410 hlutum fyrir 369.559.684 krónur. Fimmti samningurinn, frá 29. janúar 2008, hafi verið nr. 7121-4 og með gjalddaga 29. apríl sama ár, en hann hafi verið um kaup á 2.055.082 hlutum fyrir 69.806.034 krónur. Áfrýjandinn NVN ehf. hafi ekki efnt þessa samninga. Áfrýjandinn Einar Örn hafi 18. október 2007 gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum félagsins við stefnda að fjárhæð allt að 250.000.000 krónur. Í stefnunni var málsástæðum stefnda lýst þannig að skuld áfrýjandans NVN ehf. samkvæmt samningunum væri alls 995.522.310 krónur og hafi hann skuldbundið sig til að leggja kaupverð samtals 27.057.180,60 hluta í stefnda inn á reikning þess síðarnefnda á umsömdum gjalddögum, en engin greiðsla hafi borist. Áfrýjandinn Einar Örn hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum hins áfrýjandans við stefnda að fjárhæð 250.000.000 krónur og væri hann því krafinn um þá fjárhæð.

Við þingfestingu málsins í héraði 5. nóvember 2009 lagði stefndi fram áðurnefnda fimm samninga, almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti og yfirlýsingu áfrýjandans Einars Arnar um sjálfskuldarábyrgð, auk greiðsluáskorunar frá stefnda 17. mars 2009 og tveggja yfirlýsinga allra málsaðila 11. og 14. desember 2006, þar sem kveðið var á um að áfrýjandinn NVN ehf. tæki við réttindum og skyldum áfrýjandans Einars Arnar samkvæmt þremur tilgreindum gjaldmiðlaskiptasamningum við stefnda frá árunum 2005 og 2006. Áfrýjendur tóku til varna með greinargerð, sem lögð var fram á dómþingi 27. maí 2010 eftir að málinu hafði verið frestað alls í þrettán skipti. Á tímabilinu frá 21. júní 2010 var málið tekið fyrir í þinghöldum önnur sextán skipti fram að aðalmeðferð þess 2. nóvember 2011, en þá hafði héraðsdómari meðal annars hafnað kröfu áfrýjenda um frávísun málsins með úrskurði 30. mars 2011 og kröfu þeirra um að hann viki sæti með úrskurði 24. júní sama ár, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 2. september 2011 í máli nr. 436/2011.

Í greinargerð fyrir héraðsdómi höfðu áfrýjendur aðallega uppi varnir á þeim grunni að samningar hafi ekki komist á um framangreind viðskipti, en þeir væru „ekki skriflegir, ekki undirritaðir og ekki með lögformlegum hætti og ekki bindandi“, svo og að „meintir samningar“ hafi verið gerðir án vitundar og samþykkis áfrýjenda. Einnig báru þeir fyrir sig að samningarnir, hafi þeir komist á, væru „ólögmætir“ með vísan til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, en ljóst væri orðið að stefnda hafi verið „kunnar vitlausar verðskráningar þeirra bréfa sem hann seldi“. Hann hafi ekki veitt áfrýjendum nægar upplýsingar eftir ákvæðum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, en að auki hafi hann orðið uppvís að markaðsmisnotkun og beitt blekkingum í viðskiptunum. Til vara kröfðust áfrýjendur lækkunar á kröfum stefnda á þeirri forsendu að hann krefðist ranglega greiðslu alls umsamins kaupverðs samkvæmt samningunum gegn afhendingu hlutanna, sem samningarnir tóku til og væru orðnir verðlausir, í stað þess að krefjast aðeins mismunar á umsömdu kaupverði og markaðsverði bréfanna á gjalddögum samninganna, en þess hafi stefndi krafist á fyrri stigum innheimtuaðgerða. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi báru áfrýjendur að auki fyrir sig að stefndi hafi flokkað NVN ehf. ranglega sem fagfjárfesti og átt umdeildu viðskiptin við hann á þeirri forsendu, en þannig hafi stefndi komið sér undan því að veita upplýsingar í þeim mæli, sem honum hefði borið ef félagið hefði talist almennur fjárfestir svo sem áfrýjendur teldu það með réttu vera.

II

Vegna framangreindra varna áfrýjenda öfluðu aðilarnir fjölmargra gagna fyrir héraðsdómi, sem sneru að viðskiptum áfrýjandans NVN ehf. við stefnda áður en fyrrgreindir fimm samningar, sem stefndi reisir dómkröfur sínar á, voru gerðir, svo og atriðum, sem vörðuðu þá samninga að öðru leyti.

Eins og áður var getið samþykkti áfrýjandinn NVN ehf. 17. mars 2006 almenna skilmála stefnda fyrir markaðsviðskipti og er efni þeirra lýst í hinum áfrýjaða dómi. Skilmála þessa samþykkti áfrýjandinn aftur 10. maí sama ár, að virðist í óbreyttri mynd. Í þeim var meðal annars kveðið á um að viðskiptamaður ætti að koma á framfæri við stefnda beiðni um viðskipti hverju sinni með símbréfi eða tölvubréfi eða í símtali, sem yrði tekið upp, og skyldu allir samningar staðfestir skriflega. Stefndi ætti að senda frumrit samninga til viðskiptamanns, sem bæri að endursenda undirrituð frumrit innan sjö daga eða eftir atvikum fyrir gjalddaga ef skemur væri í hann. Einnig var mælt fyrir um að viðskiptamanni bæri að setja tryggingar þegar stofnað væri til viðskipta og legði stefndi mat á markaðsverðmæti þeirra, en færi tap viðskiptamanns yfir helming þess verðmætis væri stefnda heimilt að krefjast viðbótartrygginga. Meðal atvika, sem teldust til verulegra vanefnda, væru þau að viðskiptamaður setti ekki tryggingu eða viðbót við hana innan tilskilins frests og að stefnda bærist ekki undirritað frumrit samnings innan sjö daga frá dagsetningu hans. Yrðu skuldbindingar viðskiptamanns gjaldfelldar væri stefnda heimilt en ekki skylt að beita skuldajöfnuði „milli allra samninga sem falla undir þessa skilmála þannig að hagnaður og tap hvors aðila um sig“ yrði gert upp í einu lagi.

Sem fyrr segir liggur fyrir í málinu að áfrýjandinn NVN ehf. tók 11. og 14. desember 2006 yfir aðild að þremur framvirkum samningum um gjaldeyrisviðskipti, sem áfrýjandinn Einar Örn hafði gert við stefnda 30. ágúst 2005 og 6. og 16. janúar 2006, en ekkert liggur fyrir um frekari afdrif þeirra viðskipta. Að þessu frágengnu hafa ekki verið lögð fram gögn um eldri samninga milli áfrýjandans NVN ehf. og stefnda um framvirk viðskipti en frá 10. maí 2006, þar sem áfrýjandinn keypti 4.990.000 hluti í stefnda og var gjalddagi 10. ágúst sama ár. Þessi viðskipti voru síðan framlengd fimm sinnum og samningnum að endingu lokað 27. ágúst 2007, en áfrýjandinn mun þá hafa fengið útborgaðan hagnað að fjárhæð 53.257.673 krónur. Annan samning gerðu þeir um 4.200.000 hluti í stefnda 22. ágúst 2006 og voru þau viðskipti framlengd tvívegis fram til þess að samningi virðist hafa verið lokað 11. janúar 2007 og áfrýjandinn hagnast um 13.052.912 krónur. Að auki munu áfrýjandinn NVN ehf. og stefndi hafa gert framvirka samninga um kaup þess fyrrnefnda á hlutum í FL Group hf. og Glitni banka hf., sem hafi fært áfrýjandanum hagnað á lokunardegi beggja samninganna 26. febrúar 2007 að fjárhæð samtals 144.981.133 krónur. Fjóra samninga virðast þeir einnig hafa gert í mars og júní 2006 um framvirk kaup áfrýjandans á hlutum í Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf., en þessum samningum mun öllum hafa verið lokað í júní 2007 og hann tapað á þeim samtals 3.365.747 krónum. Þá er þess og að geta að áfrýjandinn mun hafa keypt af stefnda 26. júlí 2007 með framvirkum samningi 50.000 hluti í Kaupþingi banka hf., sem framlengdur var einu sinni, en honum virðist hafa verið lokað á gjalddaga 29. janúar 2008 og áfrýjandinn tapað á honum 34.331.542 krónum. Öll þau viðskipti, sem að framan greinir, munu hafa verið gerð upp milli aðilanna. Að þessu frágengnu liggja ekki fyrir gögn um önnur viðskipti af þessum toga milli áfrýjandans NVN ehf. og stefnda en þau, sem stefndi reisir mál þetta á, ef frá eru talin framvirk kaup áfrýjandans á hlutum í Hf. Eimskipafélagi Íslands. Um þau er fjallað í hæstaréttarmálinu nr. 183/2012, sem rekið hefur verið samhliða þessu máli.

Áður var getið þeirra fimm framvirku samninga um kaup áfrýjandans NVN ehf. á hlutum í stefnda, sem mál þetta snýr að. Samningurinn, sem fyrst var nefndur, var nr. 7675-3 og gerður 30. nóvember 2007, en á gjalddaga hans 29. febrúar 2008 átti stefndi að afhenda áfrýjandanum 5.000.000 hluti á genginu 38,7486 og áfrýjandinn að greiða 193.743.238 krónur. Eintakið af þessum samningi, sem stefndi hefur lagt fram í málinu, er ekki undirritað af honum, en á hinn bóginn af áfrýjandanum. Um viðskiptin, sem hér um ræðir, var upphaflega gerður samningur 26. febrúar 2007 nr. 7675-0 um jafn marga hluti í stefnda, en á gjalddaga hans átti áfrýjandinn NVN ehf. að greiða 171.591.355 krónur fyrir þá. Þessi viðskipti voru síðan framlengd með samningum nr. 7675-1 og 7675-2 þar til samningurinn, sem stefndi reisir kröfur sínar á, var að endingu gerður. Eintök af samningum nr. 7675-0 og 7675-2, sem stefndi hefur lagt fram, eru undirrituð af áfrýjandanum, en eintak af samningi nr. 7675-1 af hendi hvorugs. Áfrýjandinn hefur lagt fram í Hæstarétti eintak af samningi nr. 7675-2, sem er undirritað af hálfu beggja. Engar greiðslur virðast hafa farið milli aðilanna við framlengingar á viðskiptunum, sem hér um ræðir.

Annar samningurinn, sem málið varðar, var nr. 7840-3 og einnig gerður 30. nóvember 2007, en framlagt eintak af honum er undirritað af áfrýjandanum NVN ehf. einum. Á gjalddaga 29. febrúar 2008 átti áfrýjandinn að greiða 192.415.899 krónur fyrir 5.000.000 hluti í stefnda á genginu 38,4832. Samningurinn átti rætur að rekja til samnings nr. 7840-0, sem var gerður 1. mars 2007 um kaup á 5.000.000 hlutum, og skyldi áfrýjandinn greiða fyrir þá 170.791.479 krónur á gjalddaga 30. maí sama ár. Þessi viðskipti voru síðan framlengd með samningum nr. 7840-1 og 7840-2 uns komið var að fjórða samningnum í þessari röð, sem stefndi krefst greiðslu eftir í málinu. Eintak af samningi nr. 7840-0, sem stefndi hefur lagt fram, er undirritað af hvorugum aðilanum, en eintök af næstu samningunum tveimur eru undirrituð af áfrýjandanum einum. Áfrýjendur hafa á hinn bóginn lagt fram í Hæstarétti eintak af samningi nr. 7840-2, sem er undirritað af hálfu beggja aðila hans. Ekki er að sjá að áfrýjandinn NVN ehf. hafi nokkuð greitt til stefnda við framlengingar á þessum viðskiptum.

Þriðji samningurinn, sem stefndi byggir kröfur sínar á, var nr. 10508-1 og gerður 28. desember 2007. Stefndi lagði fram á mismunandi stigum málsins í héraði þrjú eintök af þessum samningi og er ekkert þeirra undirritað, en í þeim öllum kom meðal annars fram að áfrýjandanum NVN ehf. hafi borið að greiða stefnda 169.997.455 krónur á gjalddaga 28. mars 2008. Á tveimur eintökum af samningnum segir að stefnda hafi borið gegn þessu að afhenda áfrýjandanum á gjalddaga 4.726.668,60 hluti í stefnda á genginu 35,9654. Á þriðja eintakinu kemur á hinn bóginn fram að stefndi skyldi afhenda 4.600.000 hluti á genginu 36,956. Samningur þessi var gerður til framlengingar á viðskiptum áfrýjandans og stefnda, sem samningur nr. 10508-0 var gerður um 17. september 2007, en í honum var kveðið á um kaup þess fyrrnefnda á 4.600.000 hlutum, sem honum bæri að greiða 187.332.631 krónu fyrir á gjalddaga 18. desember sama ár. Eintak, sem stefndi lagði fram í héraði af þeim samningi, er undirritað af áfrýjandanum einum, en fyrir Hæstarétti hafa áfrýjendur lagt fram eintak af samningnum, sem er eins og hitt að öðru leyti en því að það er jafnframt undirritað af stefnda. Meðal gagna, sem stefndi lagði fram í héraði, eru tvö yfirlit um stöðu samnings nr. 10508-0, annað dagsett 18. desember 2007 og hitt degi síðar, en samkvæmt því fyrrnefnda var tap áfrýjandans vegna þessara viðskipta 21.645.231 króna og því síðarnefnda 21.496.472 krónur. Að auki lagði stefndi fram uppgjör sitt á sama samningi miðað við 28. desember 2007, en þar kom fram að skuld áfrýjandans væri 24.838.540 krónur. Á viðskiptayfirliti, sem stefndi lagði fram í héraði, var meðal annars skráð að síðastgreind fjárhæð hafi verið greidd 28. desember 2007 þegar viðskiptin voru framlengd með samningi nr. 10508-1.

Fjórði samningurinn, sem stefndi reisir kröfur sínar á, var einnig gerður 28. desember 2007 og bar auðkennið nr. 10666-1. Áður en yfir lauk hafði stefndi lagt fram í héraði fjögur eintök af þessum samningi. Ekkert þeirra er undirritað, en þeim öllum var að öðru leyti sammerkt að gjalddagi var 28. mars 2008 og hafi áfrýjandinn NVN ehf. þá átt að greiða 369.559.684 krónur. Á tveimur af þessum eintökum sagði að stefnda bæri að afhenda áfrýjandanum á gjalddaga 10.275.410 hluti í stefnda á genginu 35,9654, en á öðrum tveimur að afhenda ætti 10.000.000 hluti á genginu 36,956. Samningurinn mun hafa verið gerður til framlengingar á viðskiptum samkvæmt samningi nr. 10666-0 frá 26. september 2007 um kaup áfrýjandans NVN ehf. á 10.000.000 hlutum með gjalddaga 28. desember sama ár, en stefndi hefur lagt fram eintak af þeim samningi, sem er undirritað af hálfu áfrýjandans. Í málinu liggur fyrir uppgjör stefnda miðað við 28. desember 2007 vegna samnings nr. 10666-0, þar sem tilgreind var skuld áfrýjandans vegna viðskiptanna að fjárhæð 69.475.715 krónur, en samkvæmt viðskiptayfirliti frá stefnda virðist þessi fjárhæð hafa verið greidd honum.

Fimmti samningurinn, sem málið varðar, var nr. 7121-4, gerður 29. janúar 2008. Af þessum samningi lagði stefndi einnig fram í héraði fjögur eintök á ýmsum stigum málsins. Í þeim öllum kom fram að gjalddagi hafi verið 29. apríl 2008 og áfrýjandinn NVN ehf. þá átt að greiða stefnda 69.806.034 krónur, en ekkert eintak er undirritað. Í tveimur eintökum sagði að stefnda bæri á gjalddaga að afhenda áfrýjandanum 2.055.082 hluti í stefnda á genginu 33,9675, en í hinum tveimur 2.000.000 hluti á genginu 34,903. Samningurinn mun hafa átt rætur að rekja til viðskipta áfrýjandans NVN ehf. við stefnda samkvæmt samningi nr. 7121-0, sem var gerður 24. janúar 2007 um kaup þess fyrrnefnda á 2.000.000 hlutum. Eintak af þeim samningi, sem stefndi lagði fram í héraði, er ekki undirritað, en á hinn bóginn eru eintök frá honum af samningi nr. 7121-1, gerðum 25. apríl 2007, samningi nr. 7121-2 frá 26. júlí sama ár og samningi 29. október sama ár nr. 7121-3 öll undirrituð af hálfu áfrýjandans NVN ehf. Áfrýjendur hafa lagt fram fyrir Hæstarétti eintak af samningi nr. 7121-2, sem er undirritað af hálfu stefnda og áfrýjandans NVN ehf. og er það samhljóða eintakinu sem stefndi hefur lagt fram. Við framlengingar á viðskiptunum virðast engar greiðslur hafa farið milli áfrýjandans og stefnda, en samkvæmt yfirliti frá stefnda um stöðu samnings nr. 7121-3 á gjalddaga 29. janúar 2008 var tap áfrýjandans af honum 4.519.242 krónur.

Frá því tímabili, sem framvirku viðskiptin um hluti í stefnda voru gerð, liggur meðal annars fyrir í málinu skjal frá stefnda 15. október 2007 með fyrirsögninni „ákvörðun“, þar sem fram kom að áfrýjandinn NVN ehf. hafi óskað „eftir hækkun og framlengingu á afleiðuramma félagsins.“ Skjalið ber með sér að samþykkt hafi verið tillaga um að hækka svonefndan afleiðuramma úr 150.000.000 í 250.000.000 krónur og framlengja hann í þrjá mánuði til 14. janúar 2008 með því skilyrði að áfrýjandinn Einar Örn gæfi út nýja yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð á skuldum hins áfrýjandans, sem yrði hækkuð á sama hátt og afleiðuramminn. Þessu til samræmis undirritaði áfrýjandinn Einar Örn áðurnefnda yfirlýsingu 18. október 2007 um sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð allt að 250.000.000 krónur á skuldum áfrýjandans NVN ehf. við stefnda.

Einnig liggur fyrir í málinu dreifibréf frá stefnda 23. október 2007, sem hann kveðst hafa sent áfrýjandanum NVN ehf., en þar voru kynntar nokkrar breytingar, sem lög nr. 108/2007 höfðu í för með sér við gildistöku þeirra 1. nóvember sama ár. Í dreifibréfinu kom meðal annars fram að frá þeim tíma yrði stefnda skylt að flokka viðskiptavini sína í markaðsviðskiptum sem almenna fjárfesta, fagfjárfesta eða viðurkennda gagnaðila og var tilkynnt að hann hafi skipað viðtakanda bréfsins í flokk fagfjárfesta vegna þeirra verðbréfaviðskipta, sem stefndi annaðist fyrir hans hönd. Meðfylgjandi væri ný útgáfa af almennum skilmálum stefnda vegna markaðsviðskipta, svo og „stefna Landsbankans um framkvæmd viðskiptafyrirmæla“, en honum yrði upp frá þessu skylt að afla samþykkis viðskiptavina á stefnunni áður en fyrirmæli þeirra yrðu framkvæmd. Tekið var fram að „eftir 1. nóvember nk. er Landsbankanum óheimilt að annast verðbréfaviðskipti fyrir yðar hönd liggi samþykki ekki fyrir.“ Áfrýjandinn Einar Örn undirritaði vegna áfrýjandans NVN ehf. yfirlýsingu 5. desember 2007, þar sem staðfest var að hann hafi kynnt sér efni framangreinds dreifibréfs. Þar var jafnframt lýst yfir samþykki á því að stefndi hafi flokkað félagið sem fagfjárfesti, svo og á almennum skilmálum hans um verðbréfaviðskipti og stefnu um framkvæmd viðskiptafyrirmæla.

Stefndi sendi tölvubréf 10. desember 2007 til áfrýjandans Einars Arnar, þar sem vísað var til framvirkra viðskipta áfrýjandans NVN ehf. samkvæmt átta samningum, sem þá hafi verið í gildi. Af þeim voru tveir um kaup á hlutum í Hf. Eimskipafélagi Íslands og einn um hluti í Kaupþingi banka hf., en þeirra var getið hér áður. Samkvæmt bréfinu voru að öðru leyti í gildi fimm samningar um kaup á hlutum í stefnda, en þeir væru samningur nr. 7675-3 um 5.000.000 hluti, nr. 7840-3 um 5.000.000 hluti, nr. 10508-0 um 4.600.000 hluti, nr. 10666-0 um 10.000.000 hluti og nr. 7121-3 um 2.000.000 hluti. Fram kom að tap áfrýjandans NVN ehf. samkvæmt öllum samningunum átta væri orðið meira en 50% af markaðsvirði trygginga, sem stefnda hefðu verið settar, og væri þess krafist að áfrýjandinn léti í té frekari tryggingar innan sjö daga.

Í framlögðum tölvubréfum, sem gengu milli starfsmanna stefnda 19. til 21. desember 2007 í tengslum við gjalddaga samnings nr. 10508-0 við áfrýjandann NVN ehf. 18. sama mánaðar, kom meðal annars fram að sá síðarnefndi vildi „gera upp og framlengja“ og „reyndar gera upp allt tap“, en í undirbúningi væri lánveiting til hans. Áfrýjandinn NVN ehf. gerði 27. desember 2007 samning við stefnda um lán að fjárhæð 140.000.000 krónur og óskaði sá fyrrnefndi samdægurs eftir útborgun þess. Í yfirliti, sem stefndi gerði 28. desember 2007 um stöðu áðurgreindra átta samninga áfrýjandans, var greint meðal annars frá samningunum fimm um kaup á hlutum í stefnda. Teldist áfrýjandinn á því stigi hafa hagnast um samtals 12.296.190 krónur af samningum nr. 7675-3, 7840-3 og 7121-3, en tapað 14.023.540 krónum vegna samnings nr. 10508-0 og 45.970.715 krónum vegna samnings nr. 10666-0. Að teknu tilliti til samninganna þriggja um framvirk kaup á hlutum í Hf. Eimskipafélagi Íslands og Kaupþingi banka hf. væri heildartap áfrýjandans orðið 73.662.592 krónur. Í framlögðum tölvubréfum milli starfsmanna stefnda 28. desember 2007 kom meðal annars fram að áfrýjandinn NVN ehf. fengi þann dag lán að fjárhæð 140.000.000 krónur „sem á að fara inn á samningana“ og yrði það lagt á nánar tiltekinn bankareikning. Þessu var svarað með því að samningar áfrýjandans yrðu þá framlengdir og lánsféð tekið út af reikningnum til að ganga „upp í tap samninga.“ Starfsmaðurinn, sem sendi fyrstnefndu orðsendinguna, óskaði í framhaldi af þessu eftir að „taka eitthvað smá af 140m vegna kostnaðar“, þannig að 139.600.000 krónur yrðu tiltækar á reikningnum. Í málinu liggur ekki annað fyrir um ráðstöfun þessa lánsfjár en gögn um að stefndi hafi 28. desember 2007 skuldfært reikning áfrýjandans NVN ehf. fyrir greiðslu til uppgjörs á tapi hans samkvæmt samningi nr. 10508-0, 24.838.540 krónur, og samningi nr. 10666-0, 69.475.715 krónur, eða alls 94.314.255 krónur.

Stefndi sendi tölvubréf 9. janúar 2008 til áfrýjandans Einars Arnar vegna áfrýjandans NVN ehf., þar sem greint var á ný frá stöðu framvirkra samninga þess síðastnefnda um hlutabréfakaup, en sem fyrr væri einn um hluti í Kaupþingi banka hf., tveir um hluti í Hf. Eimskipafélagi Íslands og fimm um hluti í stefnda. Þessir fimm samningar væru nr. 7675-3 um 5.000.000 hluti, nr. 7840-3 um 5.000.000 hluti, nr. 10508-1 um 4.600.000 hluti, nr. 10666-1 um 10.000.000 hluti og nr. 7121-3 um 2.000.000 hluti. Með því að tap áfrýjandans af þessum samningum væri komið yfir helming af markaðsvirði trygginga frá honum var þess krafist að hann legði fram frekari tryggingar innan sjö daga. Stefndi beindi sams konar erindi til áfrýjandans NVN ehf. í tölvubréfi 7. febrúar 2008, þar sem samningum þeirra var lýst á sama hátt og að framan segir að öðru leyti en því annars vegar að þar var ekki lengur greint frá samningi um framvirk kaup á hlutum í Kaupþingi banka hf. og hins vegar að í stað samnings nr. 7121-3 var kominn samningur nr. 7121-4 og tiltekið að hann væri um kaup á 2.000.000 hlutum í stefnda. Við þessu brást áfrýjandinn Einar Örn samdægurs með tölvubréfi til stefnda, þar sem hann sagðist ekki sjá annað en að hann yrði „að losa um bréf á morgun.“ Þessa afstöðu ítrekaði áfrýjandinn 9. sama mánaðar í tölvubréfi og kvaðst þurfa „að losa um bréf í Landsbankanum nema önnur lausn finnist.“ Loks tók hann fram í tölvubréfi degi síðar að það væri „tvennt í stöðunni, selja alla framvirku samningana á Landsbankann, eða málið sé sett á hold með góðum kjörum frá bankanum.“

Af gögnum málsins verður ekkert séð um frekari samskipti milli aðilanna fram að því að stefndi sendi áfrýjandanum Einari Erni tölvubréf 26. ágúst 2008 ásamt samningum áfrýjandans NVN ehf. nr. 10508-1, 10666-1 og 7121-4, sem ættu „eftir að skila sér til okkar undirritaðir í hús“. Í framhaldi af þessu óskaði áfrýjandinn Einar Örn eftir því í tölvubréfi 18. september 2008 að stefndi tæki saman alla samninga, sem væru í gildi milli stefnda og áfrýjandans NVN ehf. Stefndi sendi af því tilefni yfirlit, þar sem greint var frá sjö framvirkum samningum, þar af tveimur vegna kaupa á hlutum í Hf. Eimskipafélagi Íslands. Hinir samningarnir voru um kaup á hlutum í stefnda, nr. 7675-3 um 5.137.705 hluti, nr. 7840-3 um sama fjölda hluta, nr. 10508-1 um 4.726.689 hluti, nr. 10666-1 um 10.275.410 hluti og nr. 7121-4 um 2.055.082 hluti. Á yfirlitinu kom fram „staða samnings“ í hverju tilviki og var hún samtals 480.846.807 krónur áfrýjandanum NVN ehf. í óhag vegna síðastnefndu fimm samninganna, en 524.931.908 krónur vegna allra samninganna sjö.

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í stefnda, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Í málinu liggur fyrir ódagsett yfirlit frá stefnda vegna framvirkra viðskipta við áfrýjandann NVN ehf. á tímabilinu frá 1. janúar 2007 til 31. desember 2008. Á þessu yfirliti var meðal annars getið um fyrrnefnda samninga þeirra um kaup á hlutum í stefnda og tilgreint að samningur nr. 7675-3 hafi verið um 5.137.705 hluti, samningur nr. 7840-3 um sama fjölda hluta, samningur nr. 10508-1 um 4.726.689 hluti, samningur nr. 10666-1 um 10.275.410 hluti og samningur nr. 7121-4 um 2.055.082 hluti. Tap áfrýjandans af þessum samningum var sagt vera samtals 239.004.314 krónur. Stefndi sendi áfrýjandanum NVN ehf. tilkynningu 12. febrúar 2009 um gjaldfallnar greiðslur samkvæmt afleiðusamningum þeirra. Á yfirliti, sem fylgdi tilkynningunni, voru taldir upp samningar nr. 7675-3, 7840-3, 10508-1, 10666-1 og 7121-4, en aðeins greint frá „markaðsvirði“ þeirra, sem var sagt vera samtals 239.012.310 krónur áfrýjandanum í óhag. Að auki var þar á sama hátt getið um stöðu samninganna tveggja um framvirk kaup á hlutum í Hf. Eimskipafélagi Íslands. Í framhaldi af þessu sendi stefndi áfrýjandanum áskorun 17. mars 2009 um að greiða skuld samkvæmt sömu samningum og síðan innheimtubréf 25. júní sama ár, en í báðum tilvikum voru fjárhæðir vegna hvers samnings tilgreindar á sama hátt og í framangreindu yfirliti með tilkynningunni 12. febrúar 2009 og krafist dráttarvaxta og innheimtukostnaðar til viðbótar þeim. Fyrir liggur í málinu að fjárhæðirnar, sem komu fram í þessum þremur bréfum stefnda, hafi verið reiknaðar út á þann hátt að frá umsömdu kaupverði úr hendi áfrýjandans NVN ehf. samkvæmt framvirku samningunum hafi verið dregið markaðsverð hlutabréfanna, sem kaupin voru gerð um, miðað við gjalddaga hvers samnings. Í héraðsdómsstefnu var á hinn bóginn krafist sem áður segir greiðslu á kaupverði hlutanna í stefnda gegn afhendingu á þeim.

III

Samningarnir fimm milli áfrýjandans NVN ehf. og stefnda, sem mál þetta varðar, voru gerðir eftir 1. nóvember 2007 og lúta þeir því allir ákvæðum laga nr. 108/2007. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna ber fjármálafyrirtæki, sem tekur að sér þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, að gera skriflegan samning um hana við viðskiptavin. Regla þessi tekur eftir orðanna hljóðan aðeins til viðskipta við almenna fjárfesta og gildir hún því ekki um þjónustu fjármálafyrirtækis við fagfjárfesti. Stefndi skipaði sem áður segir áfrýjandann NVN ehf. í flokk fagfjárfesta samkvæmt tilkynningu 23. október 2007 og var stefnda að því gefnu óskylt að gæta þessa lagaákvæðis í viðskiptum þeirra.

Áfrýjandinn NVN ehf. samþykkti sem áður segir 17. mars og 10. maí 2006 almenna skilmála stefnda fyrir markaðsviðskipti. Jafnframt samþykkti áfrýjandinn með fyrrnefndri yfirlýsingu 5. desember 2007 meðal annars almenna skilmála stefnda um verðbréfaviðskipti og stefnu um framkvæmd viðskiptafyrirmæla. Í málinu hafa hvorki verið lagðir fram skilmálar þessir né stefna um framkvæmd viðskiptafyrirmæla og verður því að taka hér mið af skilmálunum, sem áfrýjandinn samþykkti á árinu 2006. Samkvæmt þeim átti viðskiptamaður að beina til stefnda beiðni um einstök viðskipti í símbréfi, tölvubréfi eða símtali, sem tekið yrði upp, en samningar skyldu síðan staðfestir skriflega með því að stefndi sendi frumrit þeirra til viðskiptamannsins, sem bar að endursenda þau undirrituð innan tiltekins frests. Í skilmálunum var þó einnig tekið fram að það teldist veruleg vanefnd viðskiptamanns ef stefnda bærist ekki undirritað frumrit samnings innan frestsins og væri þá stefnda heimilt að bregðast við með því að „loka samningi“. Af þessu verður að álykta að gildi einstakra samninga áfrýjandans NVN ehf. við stefnda hafi ekki verið háð því að sá fyrrnefndi undirritaði þá og enn síður þeir báðir, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 24. nóvember 2011 í máli nr. 93/2011. Á hinn bóginn leiddi af skilmálunum að stefnda bar að færa efni einstakra samninga í letur og senda áfrýjandanum. Að því leyti, sem áfrýjandinn undirritaði samninga um framvirk kaup á hlutum í stefnda, má þegar vera ljóst að sá síðarnefndi hafi fullnægt þessari skyldu. Í málinu liggur fyrir að stefndi sendi í mörgum öðrum tilvikum skriflega samninga með tölvubréfum til áfrýjandans, sem virðast ekki hafa verið endursendir með undirritun, þar á meðal fyrrnefnda samninga nr. 10508-1, 10666-1 og 7121-4. Hvorki um þessi tilvik né önnur hefur stefndi lagt fram gögn um að áfrýjandinn hafi beðið um viðskiptin í símbréfi, tölvubréfi eða símtali, svo sem áskilið var í skilmálum stefnda, og nýtur því ekki að þessu leyti við beinnar skjalfestrar sönnunar um skuldbindingar áfrýjandans.

Þó svo að ekkert liggi fyrir um að áfrýjandinn NVN ehf. hafi nokkru sinni hreyft athugasemdum við efni samninga, sem stefndi sendi honum en hann undirritaði ekki, verður að líta til þess að ekki gætir samræmis um það í gögnum, sem stefndi hefur lagt fram. Þannig er í héraðsdómsstefnu byggt á því að samningur nr. 10508-1 hafi verið um framvirk kaup á 4.726.688,60 hlutum í stefnda á genginu 35,9654 og hefur hann lagt fram tvö eintök af samningnum í því horfi, en einnig eintak af samningi með sama auðkenni um kaup á 4.600.000 hlutum á genginu 36,956. Í fyrrnefndum tölvubréfum stefnda til áfrýjandans NVN ehf. 9. janúar og 7. febrúar 2008 var tiltekið að þessir samningar væru um kaup á 4.600.000 hlutum, en í yfirlitum frá stefnda miðað við 18. september og 31. desember 2008 var í þessu sambandi rætt um 4.726.689 hluti. Í stefnu var einnig byggt á því að með samningi nr. 10666-1 hafi verið gerð framvirk kaup á 10.275.410 hlutum í stefnda á genginu 35,9654 og samrýmist það tveimur eintökum af samningnum, sem stefndi hefur lagt fram, en á öðrum tveimur eintökum, sem hann lagði einnig fram, var kveðið á um kaup á 10.000.000 hlutum á genginu 36,956. Þessum samningum var lýst á síðarnefndan hátt í tölvubréfum stefnda 9. janúar og 7. febrúar 2008, en á þann fyrrnefnda í yfirlitunum miðað við 18. september og 31. desember sama ár. Þá var lagt til grundvallar í stefnu að samningur nr. 7121-4 hafi verið um 2.055.082 hluti í stefnda, sem keyptir yrðu á genginu 33,9675, og lagði stefndi fram tvö eintök af samningnum, sem samrýmdust þessu. Þannig var samningnum jafnframt lýst í yfirlitunum 18. september og 31. desember 2008. Stefndi lagði þó einnig fram tvö eintök af samningi með sama númeri, sem voru um kaup á 2.000.000 hlutum á genginu 34,903, og var vísað til samnings með því efni í tölvubréfi hans 7. febrúar 2008. Þótt samræmi sé milli allra fyrirliggjandi eintaka af samningum nr. 7675-3 og 7840-3 og þeim sé lýst á sama veg í tölvubréfum stefnda til áfrýjandans NVN ehf. 10. desember 2007 og 9. janúar og 7. febrúar 2008, svo og í yfirliti frá stefnda 28. desember 2007, þar á meðal um að hvor þessara samninga hafi verið um kaup á 5.000.000 hlutum í stefnda, verður að gæta að því að í yfirlitum hans 18. september og 31. desember 2008 kom fram að sömu samningar væru um kaup á 5.137.705 hlutum. Að því leyti, sem getið var í þessum gögnum um fjárhæðina, sem áfrýjandinn NVN ehf. hafi átt í einstökum tilvikum að inna af hendi í kaupunum, var á hinn bóginn samræmi varðandi hvern samning um sig. Það getur þó ekki fengið því breytt að stefndi lagði grunn að málinu í héraðsdómsstefnu með lýsingu á efni þessara samninga og hefur fært fram gögn, sem samrýmast þeirri lýsingu, en einnig lagt sjálfur fram gögn, sem stangast á við hana. Á þessu gaf stefndi engar viðhlítandi skýringar við flutning málsins fyrir Hæstarétti. Þetta veldur ekki aðeins þversögnum í málatilbúnaði stefnda, heldur einnig því að efni einstakra samninga er svo á reiki að ófært er að fella efnisdóm á kröfur hans eins og málið hefur verið reifað.

Að því verður einnig að gæta að vörnum hefur verið haldið uppi í málinu á þeim grundvelli að stefndi hafi einhliða og ranglega flokkað áfrýjandann NVN ehf. sem fagfjárfesti í viðskiptum þeirra eftir að lög nr. 108/2007 tóku gildi. Þetta hafi valdið því að áfrýjandinn hafi ekki notið þeirra leiðbeininga, sem honum hefðu verið veittar sem almennum fjárfesti, og sé atvikum þannig háttað að öðru leyti að stefndi geti ekki borið fyrir sig samninga þeirra vegna ákvæða 30. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Málsástæður um þetta komu ekki fram í greinargerð áfrýjenda fyrir héraðsdómi, en það gerðu þær á hinn bóginn undir rekstri málsins og hafa þeir borið því við að þeim hafi verið haldið fram jafn skjótt og tilefni hafi gefist til vegna gagna, sem stefndi lagði fram. Þessum málsástæðum áfrýjenda, sem stefndi mótmælti sem of seint fram komnum, hafnaði héraðsdómur efnislega með vísan til þess að slegið hafi verið föstu í dómi Hæstaréttar 24. janúar 2011 í máli nr. 638/2010 að engin ákvæði væru í lögum nr. 108/2007 um ógildi samnings um fjármálaviðskipti á þeim grundvelli að fjármálafyrirtæki hafi ranglega flokkað viðsemjanda sinn sem fagfjárfesti. Um þetta er til þess að líta að í málinu, sem lauk með þeim dómi Hæstaréttar, hafði viðsemjandi fjármálafyrirtækis óskað eftir að sér yrði skipað í flokk fagfjárfesta eftir heimild í 24. gr., sbr. e. lið 9. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, en komist var að þeirri niðurstöðu að brostið hafi skilyrði til að fyrirtækið yrði við því. Að auki var í dóminum vísað til þess að í lögum nr. 108/2007 væru ekki ákvæði um ógildingu samnings fjármálafyrirtækis við viðskiptamann sinn af ástæðum sem þessum og yrði því að finna stoð fyrir slíkum málalokum í ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936 eða ólögfestum reglum fjármunaréttar. Í máli þessu hafa áfrýjendur sem áður segir haldið því fram að fyrir hendi séu atvik, sem þeir telji geta leitt til ógildingar samninga áfrýjandans NVN ehf. við stefnda samkvæmt síðastnefndum lagaákvæðum, auk þess sem sá áfrýjandi hafi hvorki óskað eftir því að sér yrði skipað í raðir fagfjárfesta né fullnægt skilyrðum til að verða það samkvæmt einhliða ákvörðun stefnda. Í þessu ljósi verður viðhlítandi afstaða ekki tekin til þessara málsástæðna áfrýjenda með því einu að skírskota til dóms í máli nr. 638/2010 sem fordæmis. Að þeim kosti frágengnum háttar hér svo til að stefndi hefur ekki lagt fram gögn til skýringar á forsendum þess að hann hafi flokkað áfrýjandann NVN ehf. sem fagfjárfesti. Meðal vitna, sem leidd voru til skýrslugjafar fyrir héraðsdómi, voru þrír fyrrverandi starfsmenn stefnda, sem komu að viðskiptum hans við áfrýjandann NVN ehf., og kváðust þau sérstaklega aðspurð ekki geta upplýst hvernig komið hafi til að hann hafi verið flokkaður sem fagfjárfestir, en það viðfangsefni hafi átt undir regluvörð eða lögfræðisvið stefnda. Þrátt fyrir þetta aflaði stefndi ekki vættis þeirra manna, sem kynnu að geta borið um þetta af eigin raun. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti andmælti stefndi því að skilyrði hafi skort til að telja áfrýjandann NVN ehf. til fagfjárfesta og var getum að því leitt að hann hafi verið flokkaður sem slíkur á grundvelli heimildar í 24. gr. laga nr. 108/2007. Nánari atvik, sem að þessu lúta, eru með öllu vanreifuð og er ekki rétt að fella efnisdóm á málið í því horfi, sem það nú er að þessu leyti.

Auk þess, sem að framan greinir, verður að líta til þess að áfrýjandinn NVN ehf. tók með fyrrnefndum samningi 27. desember 2007 lán hjá stefnda að fjárhæð 140.000.000 krónur. Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að áfrýjandinn hafi fengið nokkuð af lánsfé þessu í hendur og virðist sem stefndi hafi tekið það til sín til að standa straum af tapi áfrýjandans af framvirkum viðskiptum þeirra um hlutabréfakaup. Svo sem áður var getið verður ráðið af gögnum málsins hvernig 94.314.255 krónum muni hafa verið ráðstafað í þessu skyni. Stefndi hefur hvorki lagt fram uppgjör né önnur gögn til að varpa ljósi á hvernig farið var að öðru leyti með þetta fé, sem telja verður að hafi átt að ganga upp í ætlaðar skuldir áfrýjenda við stefnda, sem fjallað er um í máli þessu og hæstaréttarmáli nr. 183/2012.

Vegna þeirra atriða, sem nú hefur verið getið, verður ekki komist hjá því að vísa máli þessu frá héraðsdómi. Stefnda verður gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi handa hvorum áfrýjanda fyrir sig eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Landsbanki Íslands hf., greiði áfrýjendum, NVN ehf. og Einari Erni Jónssyni, hvorum fyrir sig samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2011.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var 2. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af  Landsbanka Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík, með stefnu birtri 30. október 2009 á hendur NVN ehf., (áður Norðurver ehf.), Laufásvegi 77, Reykjavík og Einari Erni Jónssyni, sama stað.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að hinu stefnda félagi verði gert að greiða honum 995.552.310 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 386.159.137 kr. frá 29. febrúar til 28. mars 2008, af 925.716.276 kr. frá 28. mars 2008 til 29. apríl 2008 og af 995.552.310 kr. frá 29. apríl 2008 til greiðsludags gegn afhendingu 27.332.590,60 hluta í Landsbanka Íslands hf. Er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. laga nr. 39/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst stefnandi þess að stefnda Einari Erni verði gert að greiða stefnanda 250.000 krónur in soldium með hinu stefnda félagi, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 5. desember 2009 til greiðsludags. Enn fremur krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu. Er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

                Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, til vara krefjast þeir sýknu en til þrautavara lækkunar krafna. Þá krefjast þeir málskostnaðar úr hendi stefnanda. Er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

II

Málavextir

Stefnandi og stefndi NVN ehf. gerðu með sér fimm framvirka samninga um kaup félagsins á samtals 27.057.180,60 hlutum í stefnanda. Samningarnir bera fyrirsögnina: „Hlutabréf – Staðfesting á framvirkum samningi.“ Eru þeir fylltir út á stöðluðu formi þar sem skilmálar voru í tveimur hlutum, annars vegar „A. Lýsing á samningi“ og hins vegar „B. Ákvæði samnings“. Í lýsingu samkvæmt A-hluta kemur fram hver sé samningsdagur og gjalddagi, seljandi væri stefnandi og kaupandi stefndi NVN ehf. og seld væru hlutabréf í stefnanda, hve margir hlutir, með ákveðnu „viðmiðunargengi í upphafi“. Vextir voru ákveðin tiltekin % að viðbættu 1,75 % og „framvirkt gengi“ tiltekið og út frá því reiknuð samningsfjárhæð í íslenskum krónum. Samkvæmt B-hluta samningsins, lið I, skuldbatt stefnandi sig til að selja kaupanda framangreind hlutabréf á gjalddaga. Jafnframt skuldbatt seljandi sig á gjalddaga til að afhenda kaupanda framangreint nafnverð hlutabréfa. Í lið II sagði: „Á gjalddaga leggur kaupandi inn á viðskiptareikning seljanda framangreinda samningsfjárhæð.“ Í lið II kom jafnframt fram að óskaði viðskiptamaður eftir því að framlengja samning á gjalddaga, þyrftu aðilar að semja um það sérstaklega. Þá sagði í lið VIII að auk ákvæða samningsins giltu um hann, að því marki sem við ættu, ákvæði í svonefndum rammasamningi stefnanda um markaðsviðskipti og í almennum skilmálum Sambands íslenskra viðskiptabanka og sparisjóða um vaxta- og gjaldmiðlaskipti. Loks sagði í lið XI: „Jafnframt staðfestir mótaðili LÍ að hann hafi kynnt sér eðli framvirkra samninga og notið sérfræðiráðgjafar utan Landsbanka Íslands áður en hann undirritaði samninginn.“

Í öllum tilvikum er um að ræða framlengingu málsaðila á fyrri samningum sama efnis. Nánar tiltekið er um að ræða:

·         Samning með auðkennisnúmerinu 7675-3, dagsettan 30. nóvember 2007, um 5.000.000 hluta á framvirka genginu 38,7486, samningsfjárhæð 193.743.238 kr., með gjalddaga 29. febrúar 2008.

·         Samning með auðkennisnúmerinu 7804-3, dagsettan 30. nóvember 2007, um 5.000.000 hluta á framvirka genginu 38,4832, samningsfjárhæð 192.415.899 kr., með gjalddaga 29. febrúar 2008.

·         Samning með auðkennisnúmerinu 10508-1, dagsettan 28. desember 2007, um 4.726.688,60 hluti á framvirku genginu 35,9654, samningsfjárhæð 169.997.455 kr., með gjalddaga 28. mars 2008.

·         Samning með auðkennisnúmerinu 10666-1, dagsettan 28. desember  2007, um 10.275.410 hluti á framvirka genginu 35,9654, samningsfjárhæð 369.559.684 kr., með gjalddaga 28. mars 2008.

·         Samning með auðkennisnúmerinu 7121-4, dagsettan 29. janúar 2009, um 2.055.082 hluti á genginu 33,9675, samningsfjárhæð 69.806.034 kr., með gjalddaga 29. apríl 2008.

Samningarnir eru óundirritaðir að öðru leyti en því að stefndi Einar Örn undirritaði fyrir hönd hins stefnda félags samninga dagsetta 30. nóvember 2007.

Á gjalddaga hinna umdeildu samninga efndi hvorugur aðilanna skyldur sínar samkvæmt þeim.

Það athugast að í stefnukröfu misritaðist fjöldi hluta í stefnanda sem hann hyggist afhenda stefnda NVN ehf. gegn greiðslu umkrafinnar fjárhæðar, þ.e. hann hyggst afhenda fleiri hluti en um var samið.

Hinn 18. október 2007 undirritaði stefndi Einar Örn, sem jafnframt er  stjórnarformaður hins stefnda félags, sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldum NVN ehf. við stefnanda, allt að 250.000.000 kr.

Samkvæmt gögnum málsins höfðu stefnandi og hið stefnda félaga áður átt viðskipti með sambærilega fjármálagerninga. Stefndi Einar Örn undirritaði 17. mars 2006, fyrir hönd félagsins, almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda. Í þessum skilmálum kemur fram að þau gildi um öll markaðsviðskipti milli bankans og viðskiptamanns, þ.e. hins stefnda félags, svo sem skammtímalánveitingar, gjaldeyrisviðskipti, afleiðuviðskipti og kaup og sölu verðbréfa. Skilmálarnir gildi hvort heldur sem viðskiptin eigi sér stað í gegnum síma, veraldarvefinn eða á annan hátt. Um framkvæmd einstakra viðskipta á grundvelli skilmálanna skyldu gerðir skriflegir samningar með nánari ákvæðum um sérgreinda skilmála, lánskjör og endurgreiðslu. Beiðni um viðskipti skyldi komið á framfæri við bankann með símbréfi, tölvupósti eða símtali, en staðfesta bæri alla samninga skriflega nema um væri að ræða svokölluð stundarviðskipti með gjaldeyri. Átti bankinn að koma skriflegum samningum í hendur viðskiptamanns, sem bæri að undirrita þá og skila þeim aftur til bankans innan sjö daga. Um þörf á tryggingum við upphaf viðskiptanna skyldi farið eftir mati bankans, en tekið var fram að honum væri heimilt að krefjast viðbótartrygginga færi tap viðskiptamanns yfir helming af andvirði trygginga og bæri þeim síðarnefnda að meginreglu að verða við slíkri kröfu innan sjö daga. Ákvæði voru um skuldajöfnun (nettun) samninga en bankanum var heimilt, en ekki skylt, væru skuldbindingar viðskiptamanns gjaldfelldar, að beita skuldajöfnuði innan samninga sem féllu undir þessa skilmála þannig að hagnaður og tap hvors aðila fyrir sig væri gert upp í einu lagi. Sérstök fyrirmæli voru um vanefndir og þess meðal annars getið að yrðu þær verulegar af hendi viðskiptamanns væri áfrýjanda heimilt en þó aldrei skylt að gjaldfella eða loka samningi. Skilgreint var í nokkrum liðum hvað teldist til verulegra vanefnda. Þar á meðal voru vanskil við viðskiptamann sem ekki var bætt úr, vanhöld á að leggja fram tryggingar og frumrit samninga innan sjö daga frá dagsetningu samnings. Var kveðið á um að bankanum bæri að tilkynna viðskiptamanni um gjaldfellingu skuldbindingar eða lokun samnings af slíkum ástæðum, en bankinn myndi þá annast útreikning á hagnaði eða tapi af samningi og markaðsverðmæti trygginga og skyldi slíkur útreikningur sendur viðskiptamanni innan fimmtán daga krefðist hann þess. Með undirritun skilmálanna lýsti viðskiptamaður því yfir að sér væri ljóst að markaðsviðskiptin gætu verið sérstaklega áhættusöm. Viðskiptamanni bæri því að afla sér ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga teldi hann hennar þörf. Auk þess var tekið fram að viðskiptamaður gerði sér grein fyrir því að í markaðsviðskiptum bankans fælist ekki viðskiptavakt. Af því leiddi að bankinn ábyrgðist ekki tilkynningar til viðskiptamanns um stöðu samninga eða lokun þeirra við ákveðin mörk. Það væri því á ábyrgð viðskiptamanns að fylgjast með stöðu og þróun þeirra samninga sem hann hefði gert við bankann.

Fjármálaeftirlitið ákvað 7. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar stefnanda og víkja stjórn hans frá störfum þegar í stað. Var stefnanda jafnframt skipuð skilanefnd, sem tók við öllum heimildum stjórnar hans samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Skyldi hún meðal annars sjá um rekstur félagsins og hafa umsjón með allri meðferð eigna þess.

Stefnandi sendi stefnda NVN ehf., hinn 12. febrúar 2009, tilkynningu vegna afleiðu- og gjaldeyrisviðskipta við stefnanda. Þar kemur fram að á yfirlitum sem fylgdu væri að finna alla samninga hans við stefnanda. Annað yfirlitanna hafði að geyma yfirlit yfir lokaða eða gjaldfallna samninga en staðan á þeim miðaðist við lokunardag/gjalddaga þeirra. Var hinna umdeildu samninga getið í yfirlitinu auk tveggja annarra samninga sem hið stefnda félag hafði gert vegna kaupa á hlutabréfum í Hf. Eimskipafélagi Íslands. Var gjaldfallin greiðsla („markaðsvirði“)  vegna samningana um kaup á hlutum í stefnda sögð samtals 239.012.310 kr. Var stefnda veittur 14 daga greiðslufrestur frá dagsetningu tilkynningarinnar til að ganga frá greiðslu eða semja um greiðslu ella áskildi stefnandi sér rétt til að innheimta kröfuna með aðstoð lögmanns. Þá var stefnda NVN ehf. send greiðsluáskorun stefnanda 17. mars 2009 og innheimtubréf 25. júní sama ár þar sem krafist var greiðslu á 253.258.029 kr. auk vaxta og kostnaðar, en hluti þeirrar fjárhæðar, 239.012.310 kr., var vegna hinna fimm umdeildu samninga um kaup á hlutum í stefnda. Yfirlit yfir samningana fylgdu þessum kröfubréfum. Stefnandi ritaði stefnda NVN ehf. bréf 20. október 2009 þar sem félaginu var gefinn var kostur á að ,,gera upp þá samninga sem liggja að baki skuld yðar samkvæmt aðalefni sínu, gegn útgáfu afsals undirliggjandi verðmæta“. Stefndi NVN ehf. varð ekki við áskorunum stefnanda og höfðaði stefnandi þá mál þetta. Í stefnu kemur fram að stefnufjárhæðin, sem beinist að stefnda NVN ehf., 995.552.310 krónur, sé ,,samningsfjárhæð“ þeirra fimm samninga sem áður greinir, en krafan gegn stefnda Einari Erni sé reist á ábyrgðaryfirlýsingu hans.

                Meðal gagna málsins er enn fremur yfirlýsing stefnda Einars Arnar fyrir hönd hins stefnda félags, dagsett 5. desember 2007, þar sem hann staðfestir að hann hefði kynnt sér efni bréfs stefnanda, frá 23. október sama ár, vegna breytinga á lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Með undirrituninni samþykkti hann m.a. flokkun félagsins sem fagfjárfestis.

Hið stefnda félag er, samkvæmt framlögðu vottorði, sagt vera eignarhaldsfélag og tilgangur þess séu kaup og sala fasteigna og lausafjármuna, útleiga eigna, verðbréfaviðskipti, inn- og útflutningur, kaup og sala veiðileyfa, sala ráðgjafar á þessum sviðum og annar skyldur rekstur.

Stefndi Einar Örn er með verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands. Auk þess að vera stjórnarmaður hins stefnda félags var hann einn eigenda og sat um árabil í stjórn eignarhaldsfélagsins Saxhóls ehf.

Af hálfu stefndu eru gerðar athugasemdir við málatilbúnað stefnanda í stefnu. Telja þeir  skjöl, sem lögð hafi verið fram með stefnu og byggt sé á, í besta falli drög að samningum. Ekkert þeirra sé undirritað af stefnanda og aðeins tvö þeirra af hálfu hins stefnda félags. Hin þrjú séu algjörlega óundirrituð. Stefndu vísa til þess að í svokölluðum MiFID reglum, sem innleiddar hafi verið á Íslandi með setningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og tekið hafi gildi 1. nóvember 2007, skömmu fyrir dagsetningu meintra samninga, sé enn frekar hnykkt á þeim atriðum og kröfum sem varði samninga fjármálafyrirtækja um fjármálagerninga við viðskiptavini sína sem þar séu flokkaðir nánar eftir starfa þeirra og eðli. Í stefnu komi ekkert fram um hvernig hið stefnda félag hafi verið flokkað samkvæmt þeim reglum. Enn fremur benda stefndu á að í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008, komi fram mörg og veigamikil ákvæði um innri starfsemi þeirra, þ.m.t. stefnanda, sem fæstir virðist hafa haft hugarflug til að láta sér detta í hug. Hvað málshöfðun þessa varði megi þó vísa til 12. kafla skýrslunnar, um verðbréfamarkaðinn, þar sem nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að hlutir í stefnanda hafi verið taldir verðmeiri en þeir hafi verið í raun og nýir hluthafar á þeim tíma hafi keypt hluti á of háu verði.

Skýrslu fyrir dómi gáfu stefndi Einar Örn Jónsson, stjórnarformaður hins stefnda félags, Steinþór Gunnarsson, Arnar Jónsson, Jón Otti Jónsson, Árni Maríasson, Erla Hrönn Aðalgeirsdóttir, núverandi og fyrrverandi starfsmenn stefnanda, og Knútur Þórhallsson, endurskoðandi stefnda NVN ehf.

III

Málsástæður stefnanda

      Af hálfu stefnanda er vísað til þess að skuld hins stefnda félags við hann, samkvæmt þeim samningum sem um ræðir, sé 995.522.310 kr. Byggir stefnandi á því að félagið hafi skuldbundið sig til að leggja kaupverðið á samtals 27.057.180,60 hlutum í stefnanda, þ.e. svonefnda samningsfjárhæð, inn á reikning stefnanda á gjalddaga samninganna. Stefndi Einar Örn hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á allt að 250.000.000 kr. og sé hann því krafinn um greiðslu á þeirri fjárhæð vegna skulda félagsins.

Stefnandi mótmælir því að umræddir samningar hafi ekki skuldbindingargildi. Um sé að ræða skriflega staðfestingu á samkomulagi sem komist hafi á milli verðbréfamiðlara og hins stefnda félags. Stefndu rugli saman hugtökunum skriflegur samningur og undirritaður samningur. Þá hafi það verið venja í viðskiptum aðila að samningar væru ekki alltaf undirritaðir. Liggi fyrir að stefndi NVN ehf. hafi áður fengið greiddan hagnað samkvæmt samningum sem ekki hafi verið undirritaðir. Bendir stefnandi á að hann hafi sent stefnda Einari Erni kröfu um viðbótartryggingu (veðkall) vegna viðskipta við stefnanda og þá hafi stefndi sjálfur óskað eftir yfirlitum þar sem hinna umdeildu samninga hafi verið getið. Aldrei hafi hið stefnda félag haldið því fram að það væri ekki bundið af samningunum. Þótt samningarnir hafi ekki verið undirritaðir af hálfu bankans skuldbindi þeir samt sem áður stefnda. Stefnandi sjálfur beri það ekki fyrir sig að samningar séu ekki skuldbindandi fyrir hann.

Stefnandi vísar til þess að samningarnir hafi verið dæmigerðir fyrir þá afleiðusamninga sem hafi tíðkast fyrir hrun. Framvirkur samningur um hlutabréf sé í eðli sínu mjög einfaldur en uppgjör hans fari eftir gengi hlutabréfanna, þ.e. mismun á gengi þegar samningurinn hafi komist á og þegar hann sé gerður upp. Stefndi Einar Örn hafi í mörg ár komið að fyrirtækjarekstri og ætti því að vera kunnugur viðskiptum með hlutabréf.

Stefnandi vísar til þess að í greinargerð stefndu hafi ekki verið á því byggt að stefndi hafi ekki verið fagfjárfestir. Einungis sé vísað almennt til svokallaðra MiFID-reglna en ekki til þess hvaða afleiðingar röng skráning ætti að hafa að lögum. Telur hann að málsástæða stefndu hvað þetta varðar sé of seint fram komin. Verði ekki fallist á það leiði hugsanleg röng skráning ekki til þess að samningarnir teljist óskuldbindandi.

Stefnandi vísar á bug þeim málsástæðum að samningarnir séu ólögmætir á grundvelli ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Stefnandi vísar til þess að innheimtubréf til hins stefnda félags hafi gert ráð fyrir svokallaðri nettun samninga, eins og heimilt hafi verið samkvæmt hinum almennu skilmálum, en í máli þessu sé krafist greiðslu samkvæmt ákvæðum samningsins, þ.e samningsfjárhæðar. Telur stefnandi sig ekki bundinn við fyrri innheimtubréf enda hafi þeim ekki verið svarað.

Stefnandi mótmælir sérstaklega að stefndu geti komið að nýjum málsástæðum eins og hann virðist gera í dómsskjali sem hann lagði fram í upphafi aðalmeðferðar.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og fjárskuldbindinga. Kröfu um dráttarvexti styður hann við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefndu

Frávísunarkrafa stefndu byggist á e og f lið 1. mgr.  80. gr. laga um  meðferð einkamála nr. 91/1991. Telja stefndu að málavaxtalýsing, kröfugerð og röksemdir, lagatilvitnanir og allt það sem áskilið er í tilvitnaðri lagagrein sé í skötulíki í málatilbúnaði stefnanda og allsendis ófullnægjandi til að byggja málarekstur á. Þá telja stefndu að endalega stefnukröfu megi lesa þannig að heildarstefnufjárhæð sé 1.245.552.310 kr. þar sem til viðbótar kröfu að fjárhæð 995.552.310 kr. á hendur hinu stefnda félagi sé krafist 250.000.000 kr. úr hendur stefnda Einari Erni in solidum með félaginu. Sé stefnufjárhæðin í meginatriðum röng og því ætti að vísa málinu frá vegna óljósrar kröfugerðar.

Stefnda NVN ehf. byggir sýknukröfu sína á því að ekki sé til að dreifa lögformlegum samningum milli aðila að baki kröfum stefnanda. Þau viðskipti sem kröfurnar byggist á, og hafi verið kölluð framvirkir samningar hér á landi, séu í eðli sínu með þeim hætti og þeirri óvissu, nánast happadrætti eins og sýnt hafi sig. Vel þurfi að vanda til samninganna svo gildir séu enda margskonar óvissa í þeim um uppgjörsfjárhæðir fyrir báða aðila. Af þeim sökum séu slíkum samningum sett ítarleg skilyrði í lögum um fjármálafyrirtæki sem leggi ríkar kröfur á þá aðila sem þess lags viðskipti mega stunda, sér í lagi ef gerð eru fyrir eigin reikning eins og við eigi í þessu máli og þá þeim mun frekar í verslun með eigin bréf. Af skilmálum stefnanda og framlögðum kröfuskjölum megi leiða að ekki hafi verið komnir á bindandi samningar milli aðila og engar fjárhagslegar tilfæringar eða skuldbindingar verið gerðar slíku samfara. Þá hafi ekki verið sýnt fram að þar til bærir aðilar, samkvæmt reglum stefnanda, hafi tekið þær ákvarðanir sem teknar hafi verið eða undirgengist þær skuldbindingar, m.a. um lánafyrirgreiðslu stefnanda, þar með talið um lánafyrirgreiðslu út á eigin hlutabréf. Engu breyti þó aðilar hafi áður átt í einhverjum fyrri viðskiptum sem lokið sé og að pottur kunni að hafa verið brotinn í formgerð þeirra. Telur stefndi að umkrafðir samningar hafi ekki komist á milli aðila, séu ekki skriflegir, ekki undirritaðir og ekki með lögformlegum hætti og ekki bindandi fyrir stefnda. Jafnframt telur hann að meintir samningar hafi verið gerðir án vitundar og samþykkis stefnda. Líta verði svo á að um sjálftöku eða sjálfsafgreiðslu stefnanda hafi verið að ræða og þá á hvaða verði sem er enda liggi ekkert fyrir um að söluverð á hverjum tíma hafi verið markaðsverð, því síður rétt markaðsverð.

                 Stefndi NVN ehf. telur að samningar, ef á hefðu komist, séu ólögmætir, sbr. ákvæði laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ljóst sé nú að stefnanda hafi verið kunnar rangar verðskráningar þeirra bréfa sem hann hafi selt og skv. MiFID reglum, sbr. lög 108/2007, hafi upplýsingar verið ónógar. Meintur seljandi og milligönguaðili um sölu hafi verið einn og sami aðili, þ.e. stefnandi, og því ljóst að hann hafi verið vinnuveitandi þeirra starfsmanna sem að hinum meintu viðskiptum hafi komið og beri sem slíkur húsbóndaábyrgð á gjörðum þeirra, m.a. varðandi það að beita stefnda blekkingum í hinum meintu viðskiptum með þeirri markaðsmisnotkun sem hann hafi nú orðið uppvís að. Þessi staða mála hafi gert ríkari kröfur stefnanda um allt form og efni samninga ásamt kröfu um meiri upplýsingar til stefnda. Hjá stefnanda hafi verið til staðar þekking um verðmæti hlutabréfanna og ofmat þeirra sem haldið hafi verið frá stefnda með þeim hætti að sviksamlegt verði að telja, sbr. ákvæði almennra hegningalaga nr. 19/1940.

Varakröfu sína um lækkun krafna byggir stefndi NVN ehf. á kröfugerð stefnanda sjálfs og framlögðum gögnum slitastjórnar og fyrri kröfum um meinta skuld stefnda. Fyrir liggi að gjalddagar meintra samninga hafi verið í febrúar, mars og apríl 2008. Ekkert sé fram komið í stefnu um það að stefnandi hafi á þessum tíma horft til þess að beita ákvæðum í hinum meintu samningum (grein IX) eða skuldajöfnun, nettun samninga, sbr. 4. gr. almennra skilmála stefnanda eða í raun leitað neinna annarra úrræða til lausnar þessara viðskipta, þegar til greiðslufalls hafi komið. Þá liggi ekkert fyrir um að stefnandi hafi boðið fram greiðslu hlutabréfanna af sinni hálfu á meintum gjalddögum samninganna.

Stefndi Einar Arnar kveðst byggja á öllum sömu málsástæðum og rökum og meðstefndi en auk þess öðru fremur á að umkrafðir samningar hafi aldrei komist á. Þar með sé engri skuld til að dreifa hjá meðstefnda en meint skuld byggist á ábyrgð á skuld á grundvelli undirritaðs samkomulags. Í annan stað vísar hann til þess að samningar sem greiðsluábyrgðar sé krafist fyrir hafi verið ólöglegir og fái því ekki staðist. Óbein ábyrgð, með þeim hætti sem til hafi verið stofnað með framlögðu samkomulagi og að þeirri fjárhæð, sé í alla staði óeðlileg. Hefði verið í verkahring stefnanda að gera stefnda rækilega grein fyrir því hvað þýddi í raun fyrir einstakling að takast slíkt á hendur án þess að nokkuð lægi frekar fyrir um þekkingu hans og getu til að efna. Telur stefndi þetta alfarið stangast á við ákvæði MiFID reglna skv. lögum 108/2007 sem í gildi hafi verið gengin þegar til meintra skuldbindinga vegna ábyrgðarinnar hafi verið stofnað. Stefndi vísar enn fremur til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga kröfu sinni til stuðnings enda sé brostin forsenda fyrir gildi nefnds samnings um ábyrgð hans.

Stefndu mótmæla kröfum stefnanda um tildæmdan virðisaukaskatt af málskostnaði. Stefnandi sé fjármálastofnun og því undanskilinn greiðslu virðisaukaskatts. Málshöfðun, sem ein tegund innheimtu, og sem unnin sé af starfsmönnum stefnanda, þó lögmannsréttindi hafi, sé því í engu frábrugðin annarri reglulegri starfsemi slíkra starfsmanna í þágu stefnanda.   

                Um lagarök vísa stefndu til meginreglna samninga og kröfuréttar um réttar efndir samninga og fjárskuldbindinga sem og einkamálalaga nr. 91/1991, einkum 80. gr. 1. mgr. Þá vísa þeir til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum greina 30, 33, 36 og 38, til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 einkum til 1., 2., 5., 8., 9., 10., 14., 15., 16., 18. og 19. gr. laganna. sbr. áður lög 33/2003, einkum til 2. kafla laganna um réttindi og skyldur, til reglugerðar um fjárfestingavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja nr. 995/2007 og ákvæða og reglugerðar um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005. Loks vísa stefndu til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum greinar 19 ásamt greinum 248-249 sem og grein 261. Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á 129. og 130. gr. einkamálalaga 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 enda hvorugur stefndu virðisaukaskattsskyldur aðili.

IV

Niðurstaða

      Í máli þessu deila aðilar um gildi fimm framvirkra samninga um kaup stefnda NVN ehf. á samtals 27.057.180,60 hlutum í stefnanda. Enn fremur er deilt um gildi yfirlýsingar stefnda Einars Arnar um sjálfskuldarábyrgð á skuldum meðstefnda. Umræddir samningar voru gerðir 30. nóvember 2007, 28. desember 2007 og 29. janúar 2008 og voru allir með gjalddaga um þremur mánuðum síðar. Samkvæmt ákvæði samninganna skuldbatt stefnandi sig til að selja stefnda framangreinda hluti og hið stefnda félag skuldbatt sig til að inna af hendi kaupverðið (samningsfjárhæð) á gjalddaga samninganna sem var ákveðinn þremur mánuðum eftir gerð þeirra. Í öllum tilvikum var um að ræða endurnýjun samhljóða samninga, þ.e. um kaup á tilteknum hlutum í stefnanda, en samningsfjárhæð var misjöfn sem skýrðist af breyttu gengi hlutanna. Í málavaxtalýsingakafla dóms þessa er nánar gerð grein fyrir samningunum, hinum almennu skilmálum sem giltu í viðskiptum milli aðila og því að stefndi Einar Örn hafði samþykkt flokkun félagsins sem fagfjárfestis.

Um frávísunarkröfu

Með úrskurði uppkveðnum 30. mars sl. var kröfu stefndu um frávísun málsins hafnað. Stefndu byggja m.a. á því að þegar stefnukrafan sé lesin í heild sinni sé verið að krefjast greiðslu samtals á 1.245.552.310 kr., þ.e. 995.552.310 kr. úr hendi stefnda NVN ehf. og 250.000.000 kr. úr hendi stefnda Einars Arnar. Þótt fallast megi á það með stefndu að stefnukrafan á hendur stefnda Einari Erni hefði mátt vera skýrari, er til þess að líta að forsendur hennar eru skýrðar í stefnu og endanlegri kröfugerð stefnanda. Málið er að þessu leyti fullreifað af stefnanda hálfu og verður ekki séð að stefndu hafi verið gert erfitt fyrir um varnir af þessum sökum. Er því hafnað ítrekaðri kröfu stefndu um frávísun málsins.

Um sýknukröfu

                Sýknukrafa stefnda byggist í fyrsta lagi á því að engir skuldbindandi samningar hafi komist á milli aðila. Vísar hann m.a. í því samhengi til þess að samningarnir séu ekki undirritaðir af báðum aðilum. Séu þeir því ekki skuldbindandi fyrir hið stefnda félag. Það að samningarnir hafi ekki verið undirritaðir sé ekki í samræmi við þá almennu skilmála fyrir markaðsviðskipti sem gilt hafi í viðskiptum aðila.

Vegna þessa er rétt að líta til fordæmis Hæstaréttar Íslands í máli nr. 93/2011, frá 24. nóvember sl., þar sem sambærilegt álitaefni var til úrlausnar. Þar taldi rétturinn að niðurstaða málsins gæti ekki ráðist af því einu að viðskiptamaðurinn hefði ekki undirritað samning um þau viðskipti sem deilt var um hvort komist hefðu á. Vísaði rétturinn m.a. til þess að lög nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti (nú lög nr. 108/2007) leiddu ekki til þess að viðskiptamanni og fjármálafyrirtæki bæri að gera skriflega samninga um einstök viðskipti sín. Það ósamræmi, sem væri innbyrðis milli hinna almennu skilmála, sem voru samhljóða þeim sem um ræðir í máli þessu, yrði óhjákvæmilega að valda því að þar teldist ekki hafa verið kveðið skýrt á um skyldu til að gera einstaka viðskiptasamninga milli aðilanna skriflega svo að afleiðingar gæti haft fyrir gildi þeirra. Umrætt ósamræmi fólst í því að í 2. grein skilmálanna var kveðið á um að allir samningar skyldu staðfestir skriflega nema um væri að ræða stundarviðskipti með gjaldeyri. Þá bæri bankanum að senda frumrit allra samninga, sem samkvæmt þessu ætti að gera skriflega, til viðskiptamanns, sem væri skylt að koma þeim undirrituðum til bankans innan sjö daga frá samningsgerð. Í ákvæðum 7. greinar skilmálanna um vanefndir og heimildir bankans til að gjaldfella skuldbindingar viðskiptamanns sagði á hinn bóginn að bankanum væri heimilt, en undir engum kringumstæðum skylt, að gjaldfella eða loka samningi, meðal annars ef frumrit samninga hefði ekki borist bankanum innan 7 daga frá dagsetningu samnings eða fyrir gjalddaga, ef hann væri hann innan þeirra tímamarka. Með vísan til þessa fordæmis Hæstaréttar verður ekki fallist á að hinir umdeildu samningar í máli þessu séu ekki skuldbindandi fyrir hið stefnda félag af þeirri ástæðu einni að þeir séu ekki undirritaðir fyrir hönd félagsins og stefnanda.

Kemur því til skoðunar hvort stefnanda hafi tekist sönnun fyrir því að samningarnir hafi komist á.

Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að það hafi verið venja í viðskiptum aðila að samningar væru ekki undirritaðir en hefðu samt sem áður verið taldir gildir. Því til staðfestingar lagði stefnandi fram tvo sambærilega samninga og þá sem um er deilt í máli þessu en þeir bera auðkennisnúmerið 5862-2 og 5497-5. Voru þeir ekki undirritaðir af hálfu aðila. Samkvæmt yfirliti stefnanda voru þeir samt sem áður gerðir upp til hagsbóta fyrir hið stefnda félag árið 2007, hinn síðarnefndi með rúmlega 53 milljón króna hagnaði fyrir félagið.

Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi bar stefndi Einari Örn að viðskipti hans fyrir hönd hins stefnda félags við stefnanda hefðu venjulega gengið þannig fyrir sig að starfsmaður verðbréfamiðlunar stefnanda, Steinþór Gunnarsson, hefði haft samband við sig og þeir síðan gert munnlega samninga. Í kjölfarið hefðu skriflegir samningar verið undirritaðir af beggja hálfu. Taldi Einar Örn sig ekki hafa samþykkt þá samninga sem um er deilt í máli þessu þar sem þeir hefðu ekki verið undirritaðir af hálfu beggja aðila. Þó svo fyrir lægi að hann hefði undirritað tvo af samningunum fimm væri það ekki trygging fyrir því að viðskiptin hefðu gengið eftir þar sem komið hefði fyrir að hætt hefði verið við samninga sem þeir Steinþór höfðu samið um.

Í framburði framangreinds Steinþórs kom fram að eftir að hann, fyrir hönd stefnda, og stefndi Einar Örn hefðu gert með sér munnlega samninga hefði Steinþór sent „pöntun inn í kerfið“ og aðrir starfsmenn stefnanda hefðu séð um að klára samninginn, m.a. ákveða kjör á lánum og senda hann til viðskiptamanns til undirritunar. Minntist Steinþór þess ekki að bankinn hefði nokkurn tíma hrokkið frá samningi. Sama kom fram í framburði annarra starfsmanna stefnanda sem skýrslu gáfu fyrir dóminum. Þá skýrðu þeir frá því að sambærilegir samningar hefðu ekki verið undirritaðir af hálfu stefnanda nema viðskiptavinur hefði óskaði sérstaklega eftir því.

Af hálfu stefnanda voru lagðir fram tölvupóstar vegna samskipta starfsmanna hans við stefnda Einar Örn vegna viðskipta málsaðila. Er hinna umdeildu samninga getið í þeim.

Með tölvupósti stefnanda 10. desember 2007 var stefnda Einari Erni send krafa um viðbótartryggingu vegna viðskipta við stefnanda, þ.e. svokallað veðkall. Þar er að finna yfirlit yfir þá framvirku hlutabréfasamninga sem voru í gildi milli hins stefnda félags og stefnanda þann dag, m.a. tvo samninga um framvirk kaup félagsins á hlutum í stefnda, dagsetta 30. nóvember 2007, er bera auðkennisnúmerin 7840-3 og 7675-3, en þeir eru meðal þeirra samninga sem um er deilt í máli þessu. Hinn 9. janúar 2008 var veðkallið ítrekað. Til viðbótar við framangreinda samninga frá 30. nóvember 2007 var getið um tvo samninga frá 28. desember 2007, er bera auðkennisnúmerið 10508-1 og 10666-1, en þeir eru líka meðal hinna umdeildu samninga. Hinn 7. febrúar 2008 var Einari Erni aftur sent veðkall með tölvupósti stefnanda. Til viðbótar við framangreinda samninga var getið um samning frá 29. janúar 2008, er ber auðkennisnúmerið 7121-4, en hann er enn fremur meðal hinna umdeildu samninga. Voru stefnda Einari Erni þannig send veðköll þar sem allra hinna umdeildu samninga var getið. Liggur ekkert fyrir í gögnum málsins um að hann hafi andmælt gildi þessara samninga. Þvert á móti sendi hann tölvupósta til Steinþórs Gunnarssonar 9. og 10. febrúar 2008, þar sem hann ræðir m.a. um að hann þurfi að „losa um bréf í Landsbankanum“.

Með tölvupósti Steinþórs Gunnarssonar til stefnda Einars Arnar, dagsettum 4. febrúar 2008, var hann beðinn um að undirrita og faxa samninga. Samkvæmt viðhengjum sem fylgdu tölvupóstinum var um að ræða samninga með auðkennisnúmerin 10666-1, 10508-1 og 7121-4 en það eru þeir samningar sem um er deilt í málinu og ekki eru undirritaðir að neinu leyti. Síðar sama dag svarar stefndi Einar Örn tölvupósti Steinþórs með þeim orðum að hann „sé erlendis fram á miðvikudag faxlaus kem til þín þá og kvitta“. Samningarnir voru ekki undirritaðir af hálfu Einars Arnar í kjölfar þessa svarpósts hans. Þá liggur fyrir í málinu tölvupóstur starfsmanns stefnanda, dagsettur 26. ágúst 2008, til hans, þar sem ítrekuð er beiðni um að samningar, með sömu auðkennisnúmerum, verði undirritaðir og sendir stefnanda í símbréfi. Liggur ekki fyrir í gögnum málsins að stefndi Einar Örn hafi borið fyrir sig að hann teldi hið stefnda félag ekki bundið af umræddum samningum.

Með tölvupósti stefnda Einars Arnar, dagsettum 18. september 2008, óskaði hann eftir því við stefnanda að teknir yrðu saman allir samningar sem í gildi væru milli hins stefnda félags og stefnanda. Stefnandi varð við beiðninni og sendi honum yfirlit yfir samningana og tryggingar hins stefnda félags. Á því koma fram hinir fimm umdeildu samningar um kaup hins stefnda félags á hlutum í stefnanda. Hér liggur heldur ekki fyrir að stefndi Einar Örn hafi borið fyrir sig að hann teldi félagið ekki bundið af samningunum.

Stefnandi hefur lagt fram samninga er bera sömu auðkennisnúmer og samningar þeir sem um er deilt í málinu, þ.e. upphaflega samninga og samninga um endurnýjun. Þannig eru samningar nr. 10508-0, nr. 10666-0 og nr. 7121-1 undirritaðir af stefnda Einari Erni. Óumdeilt er að upphaflegur samningur er alltaf með númerinu 0 fyrir aftan auðkennisnúmerið (bandstrik og 0) en í hvert sinn sem viðkomandi samningur er endurnýjaður hækkar það númer um einn tölustaf. Verður því ekki annað ráðið en að stefndi Einar Örn hafi samþykkt samningana þótt ekki liggi fyrir undirritun hans á endurnýjun þeirra. Hefðu þeir ekki verið endurnýjaðir hefði hið stefnda félag þurft að gera þá upp, þ.e. samningunum hefði verið lokað, en ekkert hefur komið fram um að það hafi verið gert.

Með vísan til alls framangreinds verður að telja sannað að samningar þeir sem um er deilt í málinu hafi komist á milli stefnanda og hins stefnda félags, enda bar félagið ekki fyrir sig fyrr en eftir málshöfðun þessa að þeir hefðu ekki skuldbindingargildi.

Í öðru lagi byggir stefndi NVN ehf. sýknukröfu sína á því að samningunum, hafi þeir komist á, beri að víkja til hliðar á grundvelli 30., 33., 36. og 38. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vísar hann í því samhengi m.a. til þess að hið stefnda félag hafi ranglega verið flokkað af stefnanda sem fagfjárfestir. Af hálfu stefnanda var þessari málsástæðu mótmælt sem of seint fram kominni. Í greinargerð stefndu í málinu er sérstaklega vísað til þess að ekkert komi fram í stefnu um hvernig hið stefnda félag hafi verið flokkað samkvæmt svokölluðum MiFID reglum, sem innleiddar hafi verið á Íslandi með setningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Þótt málatilbúnaður stefndu hefði mátt vera skýrari að þessu leyti verður að telja að dóminum sé heimilt að taka afstöðu til þessarar málsástæðu stefndu. Um þetta atriði liggur hins vegar fyrir skýrt fordæmi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 638/2010, frá 24. janúar sl., þar sem rétturinn komst að þeirri niðurstöðu í sambærilegu máli að í lögum nr. 108/2007 væru engar reglur um ógildi samnings vegna þess annmarka að viðskiptamaður stefnanda væri ranglega flokkaður sem fagfjárfestir og gætu því slík málalok ekki komið til álita af þeim ástæðum einum. Skiptir því ekki máli um niðurstöðu máls þessa hvort hið stefnda félag hafi ranglega verið flokkað sem fagfjárfestir eður ei og verður ekki fallist á sýknukröfu á þessari forsendu.

Stefndi vísar enn fremur til þess að samningarnir séu ólögmætir þar sem stefnanda hafi verið kunnar rangar verðskráningar þeirra bréfa sem hann hafi selt og skv. MiFID reglum, sbr. lög 108/2007, hafi upplýsingar verið ónógar. Ofmat hlutabréfanna, sem haldið hafi verið frá stefnda, sé með þeim hætti að sviksamlegt verði að telja, sbr. ákvæði almennra hegningalaga nr. 19/1940. Vísar stefndi í þessu samhengi til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Stefndu hafa ekki fært fram frekari sönnun fyrir staðhæfingu sinni að þessu leyti og er réttmæti hennar því ósannað, sbr. og dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 561/2010 frá 7. apríl sl. Verður ekki fallist á sýknukröfu á þessum forsendum.

Samkvæmt öllu framanröktu verður lagt til grundvallar að skuldbindandi samningar hafi komist á milli aðila og að þeir séu gildir.

Um varakröfu

Stefndi NVN ehf. hefur til stuðnings varakröfu sinni vísað til þess að stefnandi hafi, áður en til málshöfðunar kom, sent honum kröfur að mun lægri fjárhæð en stefnukrafa máls þessa hljóðar upp á. Ekkert sé fram komið í stefnu um að stefnandi hafi á þessum tíma horft til þess að beita ákvæðum í hinum meintu samningum (grein IX) eða skuldajöfnun samninga, sbr. 4. gr. almennra skilmála stefnanda eða í raun leitað neinna annarra úrræða til lausnar þessara viðskipta, þegar til greiðslufalls hafi komið.              

Eins og fram hefur komið var stefnanda heimilt en ekki skylt, samkvæmt 4. gr. hinna almennu samningsskilmála um viðskipti aðila, að beita skuldajöfnuði milli allra samninga sem féllu undir skilmálana þannig að hagnaður og tap hvors aðila um sig væri gert upp í einu lagi. Hið stefnda félag svaraði ekki áskorunum stefnanda um að gera upp samninga með þeim hætti. Verður ekki séð að það eigi neinn rétt til þess að samningarnir verði gerðir upp samkvæmt 4. gr. skilmálanna.

Ber því að fallast á kröfu stefnanda um að stefndi NVN ehf. greiði stefnanda 995.552.310 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 386.159.137 kr. frá 29. febrúar til 28. mars 2008, af 925.716.276 kr. frá 28. mars 2008 til 2008 og af 995.552.310 kr. frá 29. apríl 2008 til greiðsludags gegn afhendingu 27.332.590,60 hluta í stefnanda. Stefnandi hefur jafnframt krafist vaxtavaxta, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í umræddu ákvæði er mælt fyrir um það að sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skuli þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð. Því þykir ekki ástæða til að kveða sérstaklega á um þetta í dómi.

Um sýknukröfu stefnda Einars Arnar

      Stefndi Einar Örn gekkst hinn 18. október 2007 undir sjálfskuldarábyrgð vegna skulda meðstefnda við stefnanda, allt að 250.000.000 kr. Um var að ræða hækkun á fyrri sjálfskuldarábyrgð stefnda um 100 milljónir króna sem var til komin vegna beiðni hins stefnda félags um hækkun og framlengingu afleiðuramma félagsins. Stefndi byggir sýknukröfu sína, hvað varðar ábyrgðarskuldbindingu þessa, á því að til framangreindrar ábyrgðar hans hafi verið stofnað með þeim hætti og að þeirri fjárhæð að í alla staði sé óeðlilegt og hefði verið í verkahring stefnanda að gera honum rækilega grein fyrir því hvað þýddi í raun fyrir einstakling að takast slíkt á hendur án þess að nokkuð lægi frekar fyrir um þekkingu hans og getu til að efna. Í greinargerð var af hálfu stefnanda vísað til ákvæða MiFID reglna skv. lögum 108/2007 og ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þar sem brostin sé forsenda fyrir gildi nefnds samnings um ábyrgð hans.

Stefndi var stjórnarformaður og eigandi hins stefnda einkahlutafélags sem er eignarhaldsfélag og hefur m.a. þann tilgang að kaupa og selja fasteignir og lausafjármuni, leigja út eignir og eiga verðbréfaviðskipti. Þá sat stefndi í stjórn eignarhaldsfélagsins Saxhóls ehf. um árabil. Verður því að ætla að hann hafi verið kunnugur þeim viðskiptum sem um ræddi og honum fullljós sú áhætta sem hann tók með sjálfskuldarábyrgðinni. Enn fremur var honum, sem stjórnarformanni hins stefnda félags, kunnugt um eignarstöðu félagsins og því ekki þörf á upplýsingagjöf stefnanda til hans um mat á greiðslugetu þess. Þá ber að horfa til þess að samkvæmt yfirliti starfsmanns stefnanda, dags. 15. október 2007, var stefndi einn eigenda Saxhóls ehf., sem sagt var „gríðarlega sterkt eignarhaldsfélag“. Stefndi hefur ekki lagt gögn sem hrekja þá staðhæfingu eða gögn sem sýna fram á að hann hafi ekki verið borgunarmaður fyrir umræddri ábyrgð er til hennar var stofnað.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að forsendur séu til þess að fallast á að til ábyrgðarinnar hafi verið stofnað með þeim hætti að stefnandi geti ekki borið hana fyrir sig. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 250.000.000 kr. in soldium með hinu stefnda félagi, af tildæmdri kröfu, 995.552.310 kr., ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 5. desember 2009 til greiðsludags. 

                Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað. Mál þetta var þingfest 5. nóvember 2009 en því hefur ítrekað verið frestað, oftast að beiðni stefndu. Hafa verið haldin yfir 30 þinghöld í málinu frá þingfestingu, þ.m.t. um kröfur stefndu um málskostnaðartryggingu, um frávísun og um að dómari víki sæti. Með hliðsjón af framangreindu, þeim hagsmunum sem um er deilt og því að annað samkynja mál milli stefnanda og hins stefnda félags var rekið samhliða þessu máli fyrir dóminum þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 1.000.000 kr. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts en innheimtustarfsemi stefnanda er ekki undanskilin greiðslu á virðisaukaskatti þar sem hún er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 562/1989 um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana. Enn fremur hefur verið höfð hliðsjón af því að stefnandi hefur höfðað annað samkynja mál á hendur stefnda NVN ehf. sem rekið var samhliða þessu máli.

Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Hafnað er frávísunarkröfu stefndu, NVN ehf. og Einars Arnar Jónssonar.

Stefndi, NVN ehf., greiði stefnanda, Landsbanka Íslands hf., 995.552.310 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 386.159.137 kr. frá 29. febrúar til 28. mars 2008, af 925.716.276 kr. frá 28. mars 2008 til 29. apríl 2008 og af 995.552.310 kr. frá 29. apríl 2008 til greiðsludags gegn afhendingu 27.332.590,60 hluta í Landsbanka Íslands hf.

Þar af greiði stefndi Einari Örn stefnanda 250.000.000 kr. in soldium með hinu stefnda félagi, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 5. desember 2009 til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda 1.000.000 kr. í málskostnað.