Hæstiréttur íslands
Mál nr. 436/1999
Lykilorð
- Verksamningur
- Galli
- Ómerkingu héraðsdóms hafnað
|
|
Fimmtudaginn 16. mars 2000. |
|
Nr. 436/1999.
|
Iðntölvutækni ehf. (Hlöðver Kjartansson hdl.) gegn Fugli og Fiski ehf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Verksamningur. Galli. Ómerkingu héraðsdóms hafnað.
Einkahlutafélögin I og F gerðu með sér samning um að F léti I í té sérfræðiþjónustu við tölvukerfi. Skyldi I greiða F mánaðarlega sem svaraði endurgjaldi fyrir vinnu í 25 klukkustundir, en um var að ræða vinnu, sem eigandi F, B, átti að láta af hendi. I neitaði að greiða reikninga vegna tveggja mánaða og bar fyrir sig að um verksamning hefði verið að ræða, sem F hefði vanefnt. Ekki voru talin efni til að ómerkja héraðsdóm að kröfu I. Þótt á það væri fallist að ýmis atriði í samningssambandi aðilanna væru almennt ekki einkennandi fyrir verksamninga, var ekki talið að þau stæðu í vegi fyrir að byggt yrði á því í málinu að um slíkan samning hefði verið að ræða um þjónustu, sem F skyldi láta I í té gegn föstu mánaðarlegu endurgjaldi. Að virtum gögnum málsins þótti við úrlausn þess verða byggja á því að F hefði tekið að sér að vinna um óákveðinn tíma að hverju því sérfræðilega verki, sem I kynni að fela honum, meðal annars við tiltekið tölvukerfi fyrir Á, sem I hafði tekið að sér að gera. I þótti hins vegar ekki geta gert F ábyrgan fyrir gæðum verksins, sem F lagði af mörkum við gerð tölvukerfisins, enda hafði ekki verið sýnt fram á að hann hefði tekið að sér að annast það verk einn á eigin ábyrgð. Var staðfest niðurstaða héraðsdómara um að fallast bæri á kröfur F, en I hafði ekki sérstaklega andmælt fjárhæð reikninganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. október 1999 að fengnu leyfi til áfrýjunar. Hann krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms, en til vara sýknu af kröfu stefnda. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi gerðu málsaðilar samning seinni hluta árs 1997 um að stefndi léti áfrýjanda í té sérfræðiþjónustu við tölvukerfi. Stefndi kveður þjónustu þessa ekki hafa verið bundna við ákveðið verk eða tímabil. Hafi áfrýjanda borið samkvæmt samningnum að greiða sér mánaðarlega sem svaraði endurgjaldi fyrir vinnu í 25 klukkustundir, 4.000 krónur fyrir hverja, ásamt aksturskostnaði, en við báða þá liði skyldi bætast virðisaukaskattur. Hafi verið um að ræða vinnu, sem eigandi stefnda, Björn Helgason, átti að inna af hendi. Reikningar hafi verið gerðir þessu til samræmis í nafni stefnda fyrir september, október og nóvember 1997 og greiddir án athugasemda af hendi áfrýjanda. Hins vegar hafi hann neitað að greiða reikninga fyrir desember 1997 og janúar 1998, samtals að fjárhæð 310.267 krónur. Málið sé höfðað til heimtu skuldar samkvæmt þeim.
Áfrýjandi kveður samning aðilanna hafa átt þann aðdraganda að Björn Helgason hafi sóst eftir verkefnum hjá sér sumarið 1997. Um þær mundir hafi Íslenska álfélagið hf. sent áfrýjanda gögn um útboð á gerð nánar tiltekins tölvukerfis. Hafi áfrýjandi látið Birni þessi gögn í té og leitað svara hans um hvort hann gæti ráðið við verkefnið. Því hafi Björn svarað játandi og talið sig ekki þurfa að vinna meira en sem svaraði fjórum klukkustundum á dag til að ljúka verkefninu. Hafi þá verið samið um að áfrýjandi greiddi stefnda fyrir þetta 100.000 krónur á mánuði, en legði einnig til aðstöðu, tæki og hugbúnað til verksins og bæri jafnframt kostnað af ferðum Björns og fæði. Samkvæmt samningi, sem áfrýjandi hafi gert við Íslenska álfélagið hf., hafi hann tekið að sér að gera umrætt tölvukerfi og ljúka verkinu 20. október 1997. Við það hafi stefndi engan veginn staðið og horfið frá verkinu óloknu í janúar 1998. Að auki hafi vinnu stefnda í ýmsum atriðum verið áfátt og hún því lítið nýst fyrir áfrýjanda, sem hafi orðið að ljúka verkinu sjálfur. Áfrýjandi lítur svo á að verksamningur hafi komist á milli sín og stefnda um að sá síðarnefndi tæki að sér gerð tölvukerfisins. Þann samning hafi stefndi vanefnt, en greiðslur, sem hann hafi þegar fengið samkvæmt fyrrgreindum þremur reikningum, hafi numið hærri fjárhæð en verðmæti verks hans fyrir áfrýjanda. Krefst áfrýjandi á þessum grunni sýknu af kröfu stefnda.
II.
Undir rekstri málsins í héraði neytti héraðsdómari heimildar samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að kveðja til setu í dómi tvo sérfróða meðdómsmenn. Í hinum áfrýjaða dómi var ekki fallist á með áfrýjanda að um lögskipti hans við stefnda ættu að gilda réttarreglur um verksamninga, en að því virtu var krafa stefnda að fullu tekin til greina. Vegna þeirrar niðurstöðu komu ekki til úrlausnar málsástæður áfrýjanda um annmarka á verki stefnda eða verðmæti þess fyrir hann, en um þau atriði hafði hann aflað matsgerðar dómkvadds manns og yfirmats. Með því að niðurstaða dómenda í héraði réðist á þennan hátt getur það ekki talist annmarki á hinum áfrýjaða dómi að sérfróðu meðdómsmennirnir hafi ekki tekið þar afstöðu til málsástæðna áfrýjanda, sem lutu að framangreindu. Eru því engin efni til að fallast á kröfu áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms af þessum sökum.
Í héraðsdómsstefnu var því lýst að stefndi reisti kröfu sína á tveimur ógreiddum reikningum fyrir vinnu samkvæmt samkomulagi, sem hafi verið leyst af hendi í desember 1997 og janúar 1998. Þar var ekki vikið nánar að því hvort stefndi teldi samninginn að baki kröfu hans hafa verið um verk eða vinnu. Í greinargerð áfrýjanda fyrir héraðsdómi var því á hinn bóginn sérstaklega haldið fram að um hafi verið að ræða verksamning á milli aðilanna. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi tók stefndi í kjölfarið af tvímæli um að hann liti svo á að áfrýjandi hafi gert við sig vinnusamning. Þessi háttur á málatilbúnaði stefnda var ekki í slíkri andstöðu við 1. mgr. 80. gr. eða 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 að héraðsdómur hafi ekki mátt styðjast við umrædda málsástæðu hans vegna ákvæðis 2. mgr. 111. gr. sömu laga. Verður hinn áfrýjaði dómur því heldur ekki ómerktur að kröfu áfrýjanda af þessum sökum.
III.
Eins og áður greinir tók stefndi að sér að veita áfrýjanda þjónustu, sem eigandi stefnda, Björn Helgason, virðist eftir gögnum málsins hafa leyst af hendi eingöngu með sinni eigin vinnu. Fyrir þessu voru áfrýjanda gerðir reikningar í nafni stefnda. Þegar af þeirri ástæðu að stefndi er persóna að lögum er ekki unnt að líta svo á að reikningar hans hafi verið reistir á vinnusamningi við áfrýjanda. Þótt fallast megi á með héraðsdómi að ýmis atriði í samningssambandi aðilanna séu almennt ekki einkennandi fyrir verksamninga, standa þau ekki í vegi fyrir að byggt verði á því í þessu máli að um slíkan samning hafi verið að ræða um þjónustu, sem stefndi skyldi láta áfrýjanda í té gegn föstu mánaðarlegu gjaldi. Verður þetta því lagt til grundvallar við úrlausn málsins.
Stefndi heldur því fram sem áður segir að samningurinn um þjónustu, sem hann gerði við áfrýjanda, hafi ekki verið bundinn við vinnu að tilteknu verki. Gagnstætt þessu reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn á því að samningurinn hafi eingöngu verið gerður til að fela stefnda að annast einum síns liðs að gera fyrrnefnt tölvukerfi, sem áfrýjandi hafði tekið að sér með samningi við Íslenska álfélagið hf. Í sambandi við þetta verður að líta til þess að stefndi hóf störf í þágu áfrýjanda í byrjun september 1997 eða um 50 dögum áður en þeim síðarnefnda bar að ljúka verki fyrir Íslenska álfélagið hf. Samkvæmt samningi aðilanna gat áfrýjandi ekki vænst þess að stefndi léti í té frekari störf við verkið á því tímabili en sem svaraði liðlega 40 klukkustundum. Óumdeilt er í málinu að áfrýjanda var kunnugt um að Björn Helgason hafði á þeim tíma, sem verkið hófst, enga reynslu af gerð tölvukerfis með þeim hugbúnaði, sem nýta átti í þessu tilviki. Í munnlegri skýrslu dómkvadds matsmanns fyrir héraðsdómi kom fram það álit hans að maður, sem væri vanur notkun þessa hugbúnaður, hefði þurft á milli 500 og 550 klukkustunda vinnu til að ljúka gerð tölvukerfisins fyrir Íslenska álfélagið hf. Yfirmatsmaður kvaðst fyrir héraðsdómi telja vinnu við gerð kerfisins mundu hafa tekið vanan mann 350 til 400 klukkustundir. Samkvæmt greinargerð, sem áfrýjandi hefur lagt fram frá starfsmanni sínum um hvernig staðið var að gerð tölvukerfisins eftir að stefndi hvarf frá verkinu, var aðeins varið um 75 klukkustundum til eftirlits, viðhalds og lagfæringa á kerfinu eftir að það var afhent verkkaupa. Að þessu athuguðu standa líkindi mjög gegn því að aðilarnir hafi samið um að stefndi tæki einn að sér að gera tölvukerfið úr garði og hafa það tilbúið til afhendingar innan tilsetts tíma, en fyrir staðhæfingu þess efnis verður áfrýjandi samkvæmt þessu að bera sönnunarbyrði. Henni hefur hann ekki fullnægt.
Fallast verður á það mat héraðsdóms að sannað sé með framburði starfsmanns áfrýjanda fyrir dómi að Björn Helgason hafi á verktíma sínum fyrir áfrýjanda sinnt fleiri verkefnum en gerð tölvukerfis fyrir Íslenska álfélagið hf. Verður því að leggja til grundvallar þá staðhæfingu stefnda að samningur aðilanna hafi ekki verið bundinn við það eitt að hann ynni að gerð þessa tölvukerfis.
Samkvæmt öllu framangreindu verður við úrlausn málsins að byggja á því að með samningi aðilanna hafi stefndi tekið að sér að vinna um óákveðinn tíma að hverju því sérfræðilega verki, sem áfrýjandi kynni að fela honum, í allt að 25 klukkustundir á mánuði, meðal annars við gerð umrædds tölvukerfis fyrir Íslenska álfélagið hf. Með hliðsjón af áætlun dómkvaddra matsmanna um þá vinnu, sem hefði þurft að verja til síðastnefnda verksins, mátti áfrýjanda vera ljóst að útilokað væri með öllu að stefndi gæti einn síns liðs lokið því á þeim verktíma, sem áfrýjandi hafði bundið sig við. Áfrýjanda var eins og áður greinir kunnugt um að Björn Helgason hafði enga reynslu af gerð tölvukerfis af þeim toga, sem hér um ræðir. Áfrýjanda var og í lófa lagið að hafa nauðsynlegt eftirlit með verki stefnda, en því virðist í litlu sem engu hafa verið sinnt. Þegar allt þetta er virt getur áfrýjandi ekki gert stefnda ábyrgan fyrir gæðum verksins, sem sá síðarnefndi lagði af mörkum við gerð tölvukerfis fyrir Íslenska álfélagið hf. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest, enda hefur áfrýjandi ekki sérstaklega andmælt fjárhæð reikninga stefnda.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Iðntölvutækni ehf., greiði stefnda, Fugli og fiski ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. f.m., er höfðað með stefnu birtri 13. maí 1998.
Stefnandi er Fugl og fiskur ehf., kt. 600688-1119, Smáraflöt 24, Garðabæ.
Stefndi er Iðntölvutækni ehf., kt. 511289-1229, Reykjavíkurvegi 72, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 310.267 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 25/1987 af 157.759 krónum frá 1. febrúar 1998 til 1. mars sama árs, en af 310.267 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst þess að jafnframt að dráttarvextir leggist árlega við höfuðstól kröfunnar, í fyrsta sinn þann 1. febrúar 1999. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
I.
Mál þetta snýst um innheimtu á tveimur reikningum frá stefnanda, sem hann segir vera til komna vegna kaupa stefnda á sérfræðiþjónustu við tölvukerfi frá september 1997 til og með janúar 1998. Samkvæmt samningi aðila hafi mánaðarlegt endurgjald fyrir vinnu starfsmanns stefnanda í þágu stefnda átt að nema 100.000 krónum fyrir utan virðisaukaskatt. Hafi endurgjaldið verið miðað við 25 vinnustundir. Þá hafi stefndi að auki átt að greiða stefnanda aksturskostnað. Í samræmi við þennan samning hafi stefnandi gert stefnda fimm reikninga. Reikningar fyrir mánuðina september, október og nóvember 1997 hafi að fullu verið greiddir með samtals 465.400 krónum. Stefndi hafi hins vegar neitað að greiða reikninga fyrir desember 1997 og janúar 1998. Hefur stefnandi höfðað málið til heimtu þeirra. Nemur reikningur hans vegna desember 1997 157.759 krónum. Auk endurgjalds fyrir vinnu í þágu stefnda, 100.000 krónur, er stefndi með reikningi þessum krafinn um greiðslu aksturskostnaðar að fjárhæð 26.714 krónur og virðisaukaskatts, en hann nemur 31.045 krónum. Virðisaukaskattur samkvæmt reikningi fyrir janúar 1998 nemur 30.012 krónum, en aksturskostnaður 22.496 krónum. Að viðbættri launakröfu nemur samtala þessa reiknings 152.508 krónum.
Af hálfu stefnda er á því byggt, að aðilar málsins hafi gert verksamning sín á milli og krafa stefnanda sé til komin vegna hans. Fullnægjandi verkskil af hálfu stefnanda hafi hins vegar ekki farið fram. Eigi hann af þeim sökum ekki rétt til frekari greiðslu úr hendi stefnda. Af hálfu stefnanda er aftur á móti gengið út frá því, að vinna starfsmanns hans í þágu stefnda hafi grundvallast á vinnusamningi. Aldrei hafi verið um það samið að stefnandi sinnti ákveðnu verki fyrir stefnda. Mál hafi þó þróast á þann veg, að starfsmaður stefnanda, sem hafði þjónustu við stefnda með höndum, hafi aðallega unnið að einu verkefni á starfstíma sínum hjá stefnda.
II.
Samkvæmt því sem fram er komið í málinu var í ágúst 1997 efnt til útboðs af hálfu Íslenska álfélagsins hf. (ISAL) um gerð hugbúnaðar fyrir mengunarmælingar í þurrhreinsistöðvum í verksmiðju félagsins í Straumsvík. Skyldi verkið vera í því fólgið að hanna, forrita og setja upp tölvukerfi á rannsóknastofu ISAL, sem tæki við mælingum á magni mengunarefna í útblæstri frá þremur strompum þurrhreinsistöðva verksmiðjunnar. Að auki átti kerfið að lesa gildi frá loftvog og sækja upplýsingar um framleiðslu með því að tengjast framleiðslukerfi ISAL. Átti kerfið að framkvæma ýmsa útreikninga, birta niðurstöður á skjá, ýmist með línuritum eða tölum, gefa aðvörun og skrá mæligildi í gagnagrunn. Skilyrt var að kerfið yrði byggt á svokölluðu InTouch kerfi frá fyrirtækinu Wonderware. Stefndi bauð í verkið ásamt tveimur öðrum. Nam tilboð stefnda 960.000 krónum án virðisaukaskatts, en tilboð annarra tilboðsgjafa voru umtalsvert hærri. Var samið við stefnda á grundvelli tilboðs hans.
Starfsmaður stefnanda, Björn Helgason, sem jafnframt er fyrirsvarsmaður félagsins, kom til starfa hjá stefnda um svipað leyti og framangreindur verksamningur á milli stefnda og ISAL var gerður. Er á því byggt af hálfu stefnda að stefnandi hafi tekið að sér að vinna verkið og að Björn skyldi hafa það með höndum. Skriflegur samningur þar um hafi ekki verið gerður. Þjónusta sú, sem stefnandi bauð fram og samningur aðila tók til, hafi hins vegar engum árangri skilað. Geti stefnandi í ljósi þessa ekki undir nokkrum kringumstæðum átt rétt til þeirrar greiðslu úr hendi stefnda sem hér er gerð krafa um. Þá leggur stefndi áherslu á, að stefnandi hafi ekki sinnt öðrum verkum fyrir stefnda en því sem hér um ræðir.
Að beiðni stefnda hefur verið aflað matsgerða vegna vinnu starfsmanns stefnanda við uppsetningu þess tölvukerfis hjá ISAL, sem vísað er til hér að framan. Var undirmatsgerð í höndum Júlíusar Karlssonar verkfræðings, en yfirmatsgerð var unnin af Birgi Sigurþórssyni rafeindatæknifræðingi og Jóni Birni Bragasyni rafmagnstækni-fræðingi.
III.
Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi lýsti Björn Helgason tildrögum þess að hann hóf störf hjá stefnda. Kvaðst hann hafa rætt við fyrirsvarsmann félagsins eftir samtal við einn af starfsmönnum þess og komist að raun um að á vegum stefnda væri unnið að verkefnum sem áhugavert gæti verið fyrir hann að kynnast. Hann hafi þó tekið það skýrlega fram, að hann hefði litla sem enga þekkingu á InTouch og rauntímaforritun, sem stefndi hafi aðallega unnið með á þessum tíma. Stefndi hafi um þetta leyti verið að semja við ISAL um gerð þess hugbúnaðar fyrir mengunarmælingar, sem lýst er hér að framan. Í því verki hafi meðal annars verið gert ráð fyrir tengingum við Oracle gagnagrunn, en Björn hafi þekkingu og reynslu á því sviði hugbúnaðargerðar. Stefndi hafi hins vegar ekki komið að slíku verki áður. Því hafi verið ljóst að Björn gæti orðið stefnda að liði við vinnslu þessa verkefnis. Hafi orðið að samkomulagi að Björn kæmi til starfa hjá stefnda. Hafi verið samið um lágt mánaðarlegt endurgjald til stefnanda, 100.000 krónur, sem stefndi myndi greiða á meðan Björn væri að kynnast þeim tölvubúnaði sem aðallega var unnið með hjá stefnda og þeim verkefnum sem fyrir lágu. Við það hafi verið miðað að mánaðarlegt vinnuframlag Björns næmi 25 vinnustundum. Utan þess tíma myndi hann hafa aðgang að tölvubúnaði stefnda og bókum og öðru sem varðaði hann. Fram kom hjá Birni að hann hefði unnið að framangreindu verki ásamt einum af starfsmönnum stefnda. Hafi hann varið mestum tíma í það verk á meðan hann vann hjá stefnda, en vinna hans þar hafi hins vegar ekki verið einskorðuð við það.
IV.
Í skriflegri aðilaskýrslu fyrirsvarsmanns stefnda, Guðvarðar B. Péturssonar, er því haldið fram, að hann hafi afhent Birni Helgasyni útboðsgögn vegna framangreindrar hugbúnaðargerðar fyrir ISAL. Hafi Björn yfirfarið gögnin og aðspurður lýst því yfir að myndi ráða við verkið. Þá hafi hann sagt að hann þyrfti ekki að verja nema fjórum klukkustundum í verkið á degi hverjum. Í kjölfar þessa hafi verið samið við Björn um mánaðarlegt endurgjald til hans, 100.000 krónur, en að auki hafi stefndi átt að leggja honum til aðstöðu, tæki og hugbúnað. Þá skyldi stefndi greiða allan kostnað, svo sem kostnað vegna ferða og fæðis. Fyrir dómi kvaðst Guðvarður hafa reiknað með því, þá er hann samdi við stefnanda, að verklok samkvæmt útboðsgögnum og síðar verksamningi myndu dragast eitthvað og að allt eins mætti búast við því að ekki tækist að ljúka verkinu að fullu fyrr en í lok desember. Afrakstur af vinnu stefnanda hafi reynst algerlega óviðunandi. Þegar það hafi komið í ljós hafi stefndi ákveðið að draga það að greiða reikning stefnanda fyrir desember 1997 í því skyni að knýja hann til úrbóta. Því hafi stefnandi í engu sinnt og horfið frá verkinu ókláruðu. Hafi stefndi orðið að vinna verkið svo að segja frá grunni, enda hafi vinna stefnanda ekki nýtst honum sökum vöntunar á skýringartextum.
V.
Svo sem fram er komið er engum skriflegum samningi til að dreifa um það samningssamband aðila, sem stofnað var til í ágúst/september 1997. Þarf í ljósi ágreinings málsaðila að taka afstöðu til þess, hvort um verksamning hafi verið að ræða.
Samkvæmt almennri skilgreiningu samningaréttar er með hugtakinu verksamningur átt við samning, þar sem annar samningsaðilinn, verktaki, tekur að sér gegn endurgjaldi að sjá um framkvæmd tiltekins verks, þannig að hann ábyrgist gagnaðila sínum, verkkaupa, tiltekinn árangur verksins.
Samningur sá, sem hér er til umfjöllunar, var gerður á milli tveggja lögaðila. Komst hann á um svipað leyti og stefndi gerði samning við Íslenska álfélagið hf. um verk það, sem starfsmaður stefnanda, Björn Helgason, vann að á því tímabili sem reikningsgerð stefnanda á hendur stefnda tekur til. Þá er virðisaukaskatti bætt við það mánaðarlega endurgjald, sem stefnandi segir að honum hafi borið vegna vinnu Björns hjá stefnda, og ekki liggur fyrir að það hafi sætt skerðingu með frádrætti vegna iðgjalda til lífeyrissjóðs eða staðgreiðslu opinberra gjalda. Ekki var heldur til þess ætlast svo séð verði, að stefndi stæði skil á framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs vegna Björns eða bæri skylda til að greiða vegna hans opinber gjöld, sem tengjast launagreiðslum. Verður helst af þessu ráðið, að verksamningur hafi legið til grundvallar þjónustu stefnanda í þágu stefnda, svo sem stefndi heldur fram. Á móti kemur, að staðhæfing stefnda um tilvist verksamnings, sem legði ríkar skyldur á stefnanda, styðst hvorki við skrifleg gögn né vætti vitna. Verður stefndi að bera hallann af þeim skorti á sönnun, sem í þessu felst. Þar við bætist að í málatilbúnaði stefnda er í engu vikið að því hvert hafi átt að vera heildarendurgjald til stefnanda fyrir verkið og verklok eru ekki skýrlega tilgreind þar. Ekki verður heldur séð að stefndi hafi leitað samþykkis verkkaupa fyrir því að stefnandi kæmi að verkinu sem undirverktaki, en í almennum skilmálum um útboð og verksamninga vegna gagnavinnslukerfa, ÍST 32, er ráð fyrir því gert að verktaki þurfi að samþykkja undirverktaka og hvers konar skuldskeytingu af hálfu verktaka. Að auki er til þess að líta, að með þeim reikningum, sem stefnandi hefur þegar fengið greidda, var stefndi með sama hætti og nú krafinn um greiðslu tímakaups. Þá lagði stefndi til allan þann búnað sem Björn notaðist við í störfum sínum hjá stefnda á umræddu tímabili, vinnu sína innti hann af hendi á starfsstöð stefnda eða á athafnasvæði ISAL og við gerð umrædds hugbúnaðar starfaði hann með starfsmanni stefnda. Loks verður af framburði vitnisins Stefáns Braga Þorsteinssonar ráðið, en vitnið er starfsmaður stefnda, að Björn hafi, svo sem hann hefur staðhæft, unnið að öðrum verkefnum hjá stefnda en því sem verksamningur stefnda og ISAL tók til.
Þegar framangreint er virt liggur ekki fyrir sönnun þess, að stefnandi hafi tekið að sér gagnvart stefnda að vinna framangreint verk sem undirverktaki hans. Þá er með sama hætti ósannað að stefnandi hafi með verksamningi tekið að sér að annast ákveðna þætti verksins. Fær þessi niðurstaða stoð í H.1994.1743, H.1997.2047, H.1997.2128 og dómi Hæstaréttar frá 6. maí 1999 í málinu nr. 286/1998. Samkvæmt þessu studdust umrædd lögskipti aðila ekki við verksamning. Er málið leitt til lykta á þeim grundvelli að samningur aðila hafi falið það eitt í sér, að stefnandi léti stefnda í té sérfræðiþjónustu gegn umsömdu mánaðarlegu endurgjaldi, svo sem stefnandi heldur fram.
Af hálfu stefnda hefur því ekki verið haldið fram, að samningssambandi aðila hafi lokið fyrir 1. febrúar 1998. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á atvik, sem leitt gætu til þess að skylda hans til greiðslu umsamins mánaðarlegs endurgjalds félli niður af öðrum ástæðum.
Með vísan til framburðar fyrirsvarsmanns stefnda hér fyrir dómi um efni þess samnings sem tókst með aðilum og fyrirvaralausrar greiðslu stefnda á reikningum stefnanda vegna fyrri tímabila, verður ekki á það fallist með stefnda, að honum beri ekki skylda til að greiða stefnanda aksturspeninga.
Samkvæmt öllu framansögðu ber að hafna sýknukröfu stefnda og taka til greina þá kröfu stefnanda, að stefnda verði gert að greiða honum 310.267 krónur ásamt dráttarvöxtum, svo sem krafist er.
Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdóms-mönnunum Eymundi Sigurðssyni rafmagnsverkfræðingi og Guðna B. Guðnasyni tölvunar-fræðingi.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Iðntölvutækni ehf., greiði stefnanda, Fugli og fiski ehf., 310.267 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 157.759 krónum frá 1. febrúar 1998 til 1. mars sama árs, en af 310.267 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.