Print

Mál nr. 693/2010

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Meiðyrði
  • Ómerking ummæla
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísun frá Hæstarétti

                                     

Fimmtudaginn 3. nóvember 2011.

Nr. 693/2010.

Viggó Valdemar Sigurðsson

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

Unni Valdemarsdóttur

Ragnari Kristni Árnasyni

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

Benedikt Bóasi Hinrikssyni

Reyni Traustasyni og

Birtingi útgáfufélagi ehf.

(Þórður Bogason hrl.)

Ærumeiðingar. Meiðyrði. Ómerking ummæla. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

V höfðaði mál gegn U, RÁ, B, RT og B ehf. vegna 15 ummæla sem birtust í frétt dagblaðsins DV. Í umfjöllun blaðsins var lýst viðskiptum félags V við U og RÁ  frá sjónarhóli þeirra síðarnefndu en þau töldu að félagið hefði vanefnt skuldbindingar sínar gagnvart sér. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í héraðsdómsstefnu hefði mjög skort á að fjallað væri um hvernig ummæli í einstökum liðum ómerkingarkröfu áfrýjanda gætu talist meiðyrði. Þess í stað hefði verið látið við það sitja að fjalla almennt um að greinin hefði falið í sér aðdróttanir og ærumeiðingar í garð V og að framsetning umfjöllunarinnar hefði verið til þess fallin að meiða æru hans og valda honum álitshnekki. Í stefnunni var í einu lagi vísað til þess að V teldi ummælin varða við 229. gr., 233. gr. a., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ekki var skýrt hvernig hvert þessara lagaákvæða gæti átt við um ummælin. Sum ummælanna sem krafa V beindist að voru í umfjöllun DV beint höfð eftir U eða RÁ en önnur voru hluti af frásögn blaðamannsins B. Í dómi Hæstaréttar var bent á að þrátt fyrir þetta hefði ekki komið fram í stefnu rök fyrir því að U og RÁ gætu borið ábyrgð á ummælum sem ekki voru höfð eftir þeim. Einnig hefði krafa um að R yrði gert að þola ómerkingu á öðrum ummælum en þeim sem fram komu á forsíðu verið órökstudd. Að þessu virtu þótti málatilbúnaður V svo óglöggur og ónákvæmur að ófært þótti að leggja efnisdóm á málið. Af þessum sökum var málinu vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.     

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2010. Hann krefst þess að eftirtalin ummæli sem birtust í DV 1. september 2008 í 159. tölublaði 98. árgangs verði dæmd dauð og ómerk:

1.    Fyrirsögn á forsíðu: „Hjón kæra Viggó fyrir þjófnað.“

2.    Undirfyrirsögn á forsíðu: „Hjón í Mosfellsbænum sem lögðu aleiguna í að byggja nýtt heimili hafa kært Viggó Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara, fyrir þjófnað á gámi. Þau segjast hafa verið svikin um heimilið.“

3.    Fyrirsögn á bls. 8-9: „Svikin um heimilið“.

4.    Undirfyrirsögn á bls. 8: „Hjón í Mosfellsbæ, Unnur Valdemarsdóttir og Ragnar Kr. Árnason, hafa kært Viggó Sigurðsson, stjórnarformann Ásvíkur og fyrrverandi landsliðsþjálfara í handbolta, fyrir þjófnað á 40 feta gámi af lóð þeirra. Kæran kemur í kjölfar mikillar þrautagöngu hjónanna.“

5.    Greinartexti í öðrum dálki á bls. 8: „Hann virtist ekki gera sér grein fyrir að ekki er hægt að reisa hús án þess að hafa teikningar fullkláraðar og leyfi frá byggingaryfirvöldum“.

6.    Greinartexti í þriðja dálki á bls. 8: „Mikill tími, þjark og vesen hefur farið í að fá flest allar þær teikningar sem fylgja áttu húsinu vegna þess að þær hafa aldrei verið tilbúnar á réttum tíma.“

7.    Greinartexti í fjórða dálki á bls. 8: „Það er ekkert skipulag, engin vinnuáætlun og engin samvinna um verkið og Viggó hefur ítrekað tekið fram fyrir hendurnar á byggingarstjóra sem er lögum samkvæmt framkvæmdastjóri verksins“.

8.    Fyrirsögn við fjórða dálk á bls. 8: „Ekki vandað til verka“.

9.    Fyrirsögn við fimmta dálk á bls. 8: „Aleigan fer fyrir lítið“.

10. Greinartexti í fimmta dálki á bls. 8: „Þeir verkkaupar sem komið hafa að húsinu hafa flestir ekkert fengið borgað frá Ásvík, fyrirtækinu þar sem Viggó er stjórnarformaður.“

11. Fyrirsögn undir mynd á bls. 9: „Hann er búinn að svíkja samninga, ljúga og vera með dónaskap. Hóta okkur símleiðis, hvort sem er í símtölum eða með sms-i.“

12. Greinartexti í fyrsta dálki á bls. 9: „Smiðir hafa heldur ekki fengið borgað og ekki rafvirkjar. Hjónin eru að leggja aleigu sína í húsið og segir Unnur að erfitt hafi verið að heyra þau tíðindi að ekki yrði haldið áfram með smíðina nema Viggó myndi borga sínar skuldir.“

13. Fyrirsögn við fyrsta dálk á bls. 9: „Stal 40 feta gám af lóðinni“.

14. Greinartexti í öðrum dálki á bls. 9: „Hafa Unnur og Ragnar kært Viggó fyrir þjófnað, enda segjast þau hafa verið búin að greiða Viggó og hans mönnum allt samkvæmt samningi.“

15. Greinartexti í öðrum dálki á bls. 9: „Hann er búinn að svíkja samninga, ljúga og vera með dónaskap. Hóta okkur símleiðis, hvort sem er í símtölum eða með sms-i. Og með tölvupósti og nú síðast stal hann af okkur“.

Áfrýjandi krefst þess einnig að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 500.000 krónur til að standa straum af kostnaði af birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í máli þessu í þremur dagblöðum. Þá krefst hann þess að stefndu Unni Valdemarsdóttur, Ragnari Kristni Árnasyni, Benedikt Bóasi Hinrikssyni og Reyni Traustasyni verði sameiginlega gert að greiða sér aðallega 15.000.000 krónur, en til vara lægri fjárhæð, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 1. september 2008 til 3. maí 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst áfrýjandi þess að kveðið verði á um heimild til að gera aðför fyrir öllum dæmdum greiðslum í málinu hjá stefnda Birtingi útgáfufélagi ehf. sem útgefanda DV. Áfrýjandi krefst og málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu Unnur og Ragnar krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að fjárkröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndu Benedikt, Reynir og Birtingur útgáfufélag ehf. krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins samþykkti áfrýjandi 24. maí 2007 fyrir hönd Ásvíkur ehf. tilboð stefndu Unnar um kaup á húsi án lóðar, en hann mun hafa verið fyrirsvarsmaður og eigandi félagsins, sem fékkst við innflutning einingahúsa frá Svíþjóð. Stefnda hugðist láta reisa húsið á lóð að Grenibyggð 38 í Mosfellsbæ sem íbúðarhús fyrir fjölskyldu sína og stefnda Ragnars. Kaupverð hússins var 23.025.000 krónur sem greiða átti með 9.210.000 krónum við undirritun kauptilboðs, 4.145.000 krónum þegar húsið yrði fokhelt og 9.170.000 krónum við afhendingu þess. Lokagreiðslu að fjárhæð 500.000 krónur átti að inna af hendi mánuði eftir uppsetningu hússins að fullnægðri skilalýsingu. Í tilboðinu var tekið fram að kaupdagur hússins miðaðist við tollafgreiðslu þess um það bil sex mánuðum eftir undirritun tilboðsins. Samhliða tilboðinu undirrituðu aðilarnir skilalýsingu sem hafði að geyma nánari skilmála um kaupin, en þar kom meðal annars fram að kaupanda bar á eigin kostnað að steypa sökkla og plötu undir húsið. Einnig var tekið fram að allar teikningar fylgdu húsinu að frátöldum lagnateikningum vegna gólfhita. Þá kom fram í skilalýsingunni að kaupandi greiddi öll gjöld af húsinu.

Áfrýjandi staðhæfir að upphaflega hafi átt að senda húseiningarnar til landsins 1. nóvember 2007, en því hafi verið frestað til 6. desember sama ár, þar sem stefndu Unni hafi ekki verið fært að taka við þeim. Húseiningarnar hafi svo komið til landsins 11. desember 2007 í fimm gámum. Stefnda sótti um byggingarleyfi 21. nóvember 2007 og var það veitt 21. janúar 2008. Í kjölfarið var hafist handa við að steypa sökkla og botnplötu en því lauk seint í mars 2008. Um það leyti voru húseiningarnar leystar úr tolli og gámarnir fluttir á lóðina 11. apríl það ár. Skömmu síðar var hafist handa við að reisa húsið. Þegar hér var komið sögu hafði stefnda staðið skil á umsaminni greiðslu að fjárhæð 9.210.000 krónur við undirritun kauptilboðs, auk þess sem hún hafði innt af hendi 4.145.000 krónur sem greiða átti þegar húsið yrði fokhelt. Þá hafði stefnda greitt 5.000.000 krónur inn á þá fjárhæð sem standa bar skil á við afhendingu hússins. Samtals hafði því stefnda greitt 18.355.000 krónur af kaupverðinu.

Þegar byrjað var að reisa húsið og eftir því sem verkinu vatt fram reis fjölþættur ágreiningur milli stefndu Unnar og áfrýjanda sem fyrirsvarsmanns seljanda hússins. Taldi stefnda að dráttur hefði orðið á útgáfu byggingarleyfis sökum þess að seljandi hússins hafi ekki lagt fram fullnægjandi teikningar, auk þess sem verkið hafi dregist þar sem hann hafi ekki staðið í skilum við undirverktaka. Áfrýjandi taldi á hinn bóginn að dráttur hefði orðið á því að reisa húsið þar sem plata undir það hafi ekki verið tilbúin fyrr en í lok mars 2008, auk þess sem stefnda hefði ekki fengið rafmagn tengt við húsið. Þessi viðtökudráttur hafi valdið talsverðu tjóni, svo sem vegna leigu á gámi undir innréttingar og tæki sem áttu að fara í húsið. Fór svo að áfrýjandi tók þennan gám 22. ágúst 2008 og skilaði honum af sér en kom því, sem í honum var, í geymslu. Í kjölfarið lýsti stefnda 25. sama mánaðar yfir riftun á samningnum við Ásvík ehf., sem mótmælti að henni væri það heimilt.

II

Hinn 1. september 2008 var í dagblaðinu DV fjallað um viðskipti Ásvíkur ehf. og stefndu Unnar um einingahúsið. Fréttin var kynnt efst á forsíðu blaðsins með þeirri fyrirsögn sem greinir 1. lið ómerkingakröfu áfrýjanda, en þar fyrir neðan kom undirfyrirsögn sú sem greinir í 2. lið kröfunnar. Umfjöllun blaðsins var síðan meginefnið í opnu á bls. 8 og 9 en þar komu fram önnur þau ummæli sem ómerkingakrafa áfrýjanda nær til. Við upphaf umfjöllunar á bls. 8 var stefndi Benedikt tilgreindur sem blaðamaður og sagt að hann skrifi textann. Stefndi Reynir var ritstjóri blaðsins en útgefandi þess stefndi Birtingur útgáfufélag ehf.

Í umfjöllun blaðsins var viðskiptunum lýst frá sjónarhóli stefndu Unnar og Ragnars og þau atriði rakin sem þau töldu hafa falið í sér vanefnd af hálfu seljanda. Beindist þessi umfjöllun aðallega að áfrýjanda sem fyrirsvarsmanni Ásvíkur ehf. Þá var fjallað um fjárkröfur sem áfrýjandi hafi haft uppi á hendur þessum stefndu og að hann hafi hlutast til um brottnám gáms með tækjum og innréttingum í húsið. Þau ummæli sem greinir í 5. og 15. lið ómerkingarkröfu áfrýjanda voru höfð eftir stefndu Unni innan tilvitnunarmerkja. Ummælin sem greinir í 15. lið kröfunnar voru endurtekin að hluta innan tilvitnunarmerkja í fyrirsögn og lýtur 11. liður hennar að því. Stefnda Unnur hefur ekki dregið í efa að þessi ummæli sé rétt eftir sér höfð og auk þess hefur hún kannast við ummæli í 6. lið ómerkingakröfu áfrýjanda, en þau voru tilgreind innan tilvitnunarmerkja án þess að getið væri frá hverjum þau stafi. Þá voru ummæli í 7. lið ómerkingarkröfu áfrýjanda höfð eftir stefnda Ragnari innan tilvitnunarmerkja og hefur hann ekki vefengt þau. Annar texti, sem ómerkingarkrafan tekur til og kom fram ýmist í fyrirsögnum eða meginmáli greinarinnar, var ekki innan tilvitnunarmerkja þannig að gefið væri til kynna að hann væri hafður orðrétt eftir stefndu.

Í frásögn stefnda Benedikts í upphafi greinarinnar kom fram að áfrýjandi hafi ekki svarað blaðamanni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þetta kannast áfrýjandi ekki við, en hann kveðst hafa sett sig í samband við stefnda rakleitt eftir að blaðið kom út og voru birtar athugasemdir hans í því daginn eftir.

III

Áfrýjandi beinir kröfu sinni um ómerkingu ummæla í fimmtán liðum að stefndu Unni, Ragnari, Benedikt og Reyni. Þannig er kröfunni beint í senn að öllum stefndu að frátöldu Birtingi útgáfufélagi ehf. Í héraðsdómsstefnu var því haldið fram að stefndu Unnur og Ragnar ásamt greinarhöfundi, stefnda Benedikt, bæru sameiginlega ábyrgð á þessum ummælum, enda hafi þau öll verið rækilega nafngreind í blaðagreininni. Þá sagði að stefndu Unnur og Ragnar hafi heldur ekki komið því á framfæri að ummælin væru ekki réttilega eftir þeim höfð í blaðinu. Loks var þess getið um aðild stefnda Reynis að hún væri reist á því að ekki væri ljóst hver hefði samið fyrirsögn á forsíðu blaðsins, en hann sem ritstjóri þess bæri ábyrgð á ummælunum þar sem enginn blaðamaður hafi nafngreint sig, sbr. þágildandi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.

Héraðsdómsstefna í málinu er stutt en þó nokkur hluti hennar er lagður undir dómkröfur áfrýjanda. Þar er jafnframt fjallað um önnur skrif blaðsins um áfrýjanda á árunum 2005 og 2006, svo og um störf hans á vettvangi íþrótta, en þessi atriði eru málinu óviðkomandi. Á hinn bóginn skortir mjög á að fjallað sé um hvernig ummæli í einstökum liðum ómerkingarkröfu áfrýjanda geti talist meiðyrði, heldur var þess í stað látið við það sitja að fjalla almennt um að greinin hafi falið í sér aðdróttanir og ærumeiðingar í garð áfrýjanda og framsetningin verið fallin til þess að meiða æru hans og valda honum álitshnekki. Einnig er þess að gæta að í stefnunni var í einu lagi vísað til þess að áfrýjandi teldi ummælin, sem ómerkingarkrafa hans tók til, varða við 229. gr., 233. gr. a., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga, en í engu var skýrt hvernig hvert þessara lagaákvæða gæti átt við um ummælin. Þá eru þau ummæli sem ómerkingarkrafa áfrýjanda tekur til ýmist höfð eftir stefndu Unni eða stefnda Ragnari eða um er að ræða frásögn stefnda Benedikts sem ritaði greinina. Í stefnunni var í engu rökstutt hvernig stefndu Unnur og Ragnar gætu borið ábyrgð á ummælum sem ekki var hermt í greininni að höfð væru eftir þeim. Enn fremur hafa engin rök verið færð fyrir kröfu um að stefnda Reyni verði gert að þola ómerkingu á öðrum ummælum en þeim sem getur í 1. og 2. lið ómerkingarkröfu áfrýjanda og lúta að forsíðu blaðsins. Að öllu þessu virtu var málatilbúnaður áfrýjanda svo óglöggur og ónákvæmur að ófært var að leggja efnisdóm á málið. Verður af þessum sökum að vísa því af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi handa hverju þeirra eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi, Viggó Valdemar Sigurðsson, greiði stefndu, Unni Valdemarsdóttur, Ragnari Kristni Árnasyni, Benedikt Bóasi Hinrikssyni, Reyni Traustasyni og Birtingi útgáfufélagi ehf., hverjum fyrir sig samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. ágúst síðastliðinn, var höfðað 27. apríl 2009 af Viggó Valdemar Sigurðssyni, Fagrahjalla 11, Kópavogi, gegn Unni Valdemarsdóttur, Grenibyggð 38, Mosfellsbæ, Ragnari Kristni Árnasyni, sama stað, Benedikt Bóasi Hinrikssyni, Rauðavaði 25, Reykjavík, Reyni Traustasyni, Aðaltúni 20, Mosfellsbæ, og Birtingi útgáfufélagi ehf., Lynghálsi 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda á hendur stefndu Unni, Ragnari, Benedikt og Reyni eru:

I)     Að eftirtalin ærumeiðandi ummæli, sem birtust í dagblaðinu DV, mánudaginn 1. september 2008, í 159. tbl., 98. árg. verði dæmd dauð og ómerk:

1)   Fyrirsögn á forsíðu:  Hjón kæra Viggó fyrir þjófnað

2)   Undirfyrirsögn á forsíðu: „Hjón í Mosfellsbæ sem lögðu aleiguna í að byggja nýtt heimili hafa kært Viggó Sigurðsson fyrrverandi landsliðsþjálfara fyrir þjófnað á gámi.  Þau segjast hafa verið svikin um heimilið

3)   Fyrirsögn á bls. 8-9: Svikin um heimilið

4)   Undirfyrirsögn á bls. 8:  Hjón í Mosfellsbæ, Unnur Valdemarsdóttir og Ragnar Kr. Árnason, hafa kært Viggó Sigurðsson, stjórnarformann og fyrrverandi landsliðsþjálfara í handbolta fyrir þjófnað á 40 feta gámi af lóð þeirra. Kæran kemur í kjölfar mikillar þrautagöngu hjónanna“

5)   Greinartexti í öðrum dálki á bls. 8: „Hann virtist ekki gera sér grein fyrir að ekki er hægt að reisa hús án þess að hafa teikningar fullkláraðar og leyfi frá byggingaryfirvöldum“

6)   Greinartexti í þriðja dálki á bls. 8: Mikill tími, þjark og vesen hefur farið í að fá flest allar þær teikningar sem fylgja áttu húsinu vegna þess að þær hafa aldrei verið tilbúnar á réttum tíma

7) Greinartexti, í fjórða dálki á bls. 8: Það er ekkert skipulag, engin vinnuáætlun og engin samvinna um verkið og Viggó hefur ítrekað tekið fram fyrir hendurnar á byggingastjóra sem er lögum samkvæmt framkvæmdastjóri verksins“

8)   Dálkafyrirsögn við fjórða dálk á bls. 8:  Ekki vandað til verka“

9)   Dálkafyrirsögn við fimmta dálk á bls. 8:  „Aleigan fyrir lítið“

10) Greinartexti bls. 8, fimmti dálkur, neðst: Þeir verkkaupar sem komið hafa að húsinu hafa flestir ekkert fengið borgað frá Ásvík, fyrirtækinu sem Viggó er stjórnarformaður“

11) Fyrirsögn um miðja bls. 9, undir mynd: Hann er búinn að svíkja samninga, ljúga og vera með dónaskap.  Hóta okkur símleiðis hvort sem er í símtölum eða með sms-i“

12) Greinartexti bls. 9, fyrsti dálkur: Smiðir hafa heldur ekki fengið borgað og ekki rafvirkjar. Hjónin eru að leggja aleigu sína í húsið og segir Unnur að erfitt hafi verið að heyra þau tíðindi að ekki yrði haldið áfram með smíðina nema Viggó myndi borga sínar skuldir“

13) Dálkafyrirsögn bls. 9, fyrsti dálkur:  „Stal 40 feta gám af lóðinni“

14) Greinartexti bls. 9, annar dálkur, efst: Hafa Unnur og Ragnar kært Viggó fyrir þjófnað, enda segjast þau hafa verið búin að greiða Viggó og hans mönnum allt samkvæmt samningi“

15) Greinartexti bls. 9, annar dálkur, fyrir miðju: „Hann er búinn að svíkja samninga, ljúga og vera með dónaskap. Hóta okkur símleiðis, hvort sem er í símtölum eða með sms-i.  Og með tölvupósti og nú síðast stal hann af okkur“

II) Að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 500.000 krónur til að standa straum af kostnaði við birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í máli þessu í þremur dagblöðum.

III)  Að stefndu, Unnur, Ragnar, Benedikt og Reynir, verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda skaða- og miskabætur að fjárhæð 15.000.000 króna ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 1. september 2008 til 3. maí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Krafist er höfuðstólsfærslu vaxta.

Krafa stefnanda á hendur stefnda, Birtingi útgáfufélagi ehf., er að veitt verði aðfararheimild fyrir öllum tildæmdum greiðslum í málinu hjá þessum stefnda sem útgefanda DV samkvæmt ákvæðum laga um prentrétt nr. 57/1956.

Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum að mati dómsins og virðis­auka­skatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefndu, Unnar og Ragnars, eru aðallega að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda um skaða- og miskabætur og kostnað við að standa straum af kostnaði við birtingu dóms verði lækkaðar. Krafist er málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti að skaðlausu að mati dómsins.

Stefndu, Benedikt, Reynir og Birtingur útgáfufélag ehf., krefjast aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Til vara krefjast stefndu þess að krafa stefnanda um miskabætur og greiðslu kostnaðar til að standa straum af birtingu dóms verði lækkuð stórkostlega. Stefndu krefjast málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt máls­kostnaðar­yfirliti að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti.            

Af hálfu stefndu var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi, en kröfum þeirra um það var hafnað með úrskurði dómsins 29. desember 2009.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Í grein sem birtist í dagblaðinu DV 1. september 2008 var fjallað um viðskipti stefnanda og stefndu, Unnar og Ragnars. Stefnandi var á þeim tíma fyrirsvars­maður Ásvíkur ehf. sem seldi stefndu Unni sænskt einingahús sem skyldi reisa á lóð hennar í Mosfellsbæ. Stefnandi telur að í greininni komi fram aðdróttanir og æru­meiðandi ummæli um hann, en á því eru kröfur hans í málinu reistar. Af hálfu stefnanda er einnig byggt á því að með framsetningu og um­fjöllun í greininni hafi verið brotið gegn reglum um friðhelgi einkalífs stefnanda.

Þessum málsástæðum stefnanda er mótmælt af hálfu stefndu. Stefndu halda því fram að ummæli stefndu, Unnar og Ragnars, sem fram komi í blaðinu, fjalli aðeins um þeirra hlið á málinu og að þar segi frá þeim staðreyndum sem fyrir liggi um viðskipti þeirra við stefnanda. Stefndu mótmæla öllum kröfum stefnanda og telja að þær hafi ekki laga­stoð.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að á forsíðu, í fyrirsögn, undirfyrirsögnum og ummælum í greininni komi fram aðdróttanir og ærumeiðingar í hans garð. Honum sé borin á brýn refsiverð háttsemi sem falli undir ákvæði almennra hegninga­laga nr. 19/1940. Á bls. 8 í blaðinu sé greinarhöfundur nafngreindur, stefndi Benedikt Bóas Hinriksson. Auk nafnbirtingar sé mynd af greinar­höfundi. 

Auk greinarinnar, sem birt hafi verið á einni og hálfri opnu á bls. 8-9 í blaðinu, með stórri og áberandi mynd af stefnanda, hafi fyrirsögn verið slegið upp efst á forsíðu, einnig með andlitsmynd af stefnanda, þar sem orðið „þjófnað“ sé það fyrsta sem lesandi reki augun í við hlið andlitsmyndarinnar af stefnanda. Í greininni, og fyrir­­sögnum með henni, sé að finna tilhæfulausar aðdróttanir og gróf meiðyrði um stefn­anda sem slegið sé fram sem fullyrðingum. Greinin og fyrirsagnir hennar beindust helst að því að láta líta út fyrir að stefnandi hefði sýnt af sér refsiverða hátt­semi og brotið gegn ákvæðum hegningarlaga með þjófnaði, lygum, svikum og hót­unum. 

Í greininni sé fullyrt að stefnandi og fyrirtæki hans, Ásvík ehf., hafi vanefnt verulega kaupsamning um framangreint einingahús milli Ásvíkur ehf. og stefndu Unnar. Ávirðingar þessar séu rangar. Stefndu hafi sjálf vanefnt kaupsamninginn við Ásvík ehf. sem hafi nú hafið innheimtuaðgerðir vegna vangreiddra eftirstöðva kaup­verðs og leitað atbeina dómstóla til innheimtu kröfunnar. Þau hafi ekki verið tilbúin með lóðina og teikningar af húsinu hafi ekki verið í samræmi við skipulag. Þess vegna hafi dregist að fá þær samþykktar. Tafirnar verði því raktar til stefndu sjálfra. Stefnandi hefði orðið fyrir miklu tjóni vegna vanefnda stefndu. 

Stefnandi hafi ekkert til þessara saka unnið og hvorki verið kærður til lögreglu né yfirheyrður af henni vegna þessara ásakana. Greinarhöfundur hafi ekki aðeins birt ósönn og gáleysisleg ummæli stefndu, Unnar og Ragnars, heldur einnig blásið upp um­mælin á mjög ærumeiðandi hátt fyrir stefnanda með vísan í þjóðþekkta persónu hans sem fyrrum landsliðsþjálfara í handbolta.

 Tilgangurinn virtist hafa verið sá einn að auka sölu dagblaðsins á kostnað mann­orðs stefnanda sem sé þekktur fyrir langan feril sem handboltamaður og þjálfari íslenskra og erlendra handboltaliða og fyrrum þjálfari íslenska landsliðsins í hand­bolta. Stefnandi teljist því „opinber persóna“ og hafi margsinnis verið umfjöllunarefni fjölmiðla, þ.m.t. dagblaðsins DV, sem stefndi, Birtingur útgáfufélag ehf., gefi út. 

Þótt stefnandi kunni að verða að þola einhverja fjölmiðlaumfjöllun vegna starfa sinna, séu ákveðin takmörk fyrir því hversu langt megi ganga í þeim efnum. Dag­blaðið DV hafi áður gengið ansi nærri friðhelgi einkalífs stefnanda með skrifum sínum. Á tímabilinu 5. ágúst 2005 til 30. júní 2006 hafi t.d. verið ritað 20 sinnum á síðum DV um stefnanda og í þeim skrifum ítrekað farið með rangfærslur og veist að stefnanda með afar ósmekklegum hætti. Skrifum þessum hafi linnt eftir tilkynningu lögmanns stefnanda um fyrirhugaða málssókn stefnanda á hendur DV, ef skrifin héldu áfram. Skrifin hafi nær öll fjallað um stefnanda sem þekktan einstakling úr handbolta­geiranum. Í þessu máli hafi hins vegar verið veist að einkalífi stefnanda á allt öðrum vettvangi en hann er þekktur fyrir. Með því hafi greinar­höfundur og viðmælendur hans brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda, enda þættu viðskipti stefnanda og stefndu, Unnar og Ragnars, vart fréttnæm ef um óþekktan aðila í sömu starfsgrein væri að ræða. Ekki hafi heldur verið birtar upplýs­ingar með almennri skírskotun til atvinnufyrirtækis stefnanda, heldur einungis fjallað um þessi einu afmörkuðu viðskipti, sem óútkljáður ágreiningur sé um á milli aðila, þannig að veru­lega halli á stefnanda. Í blaðagreininni komi fram fullyrðingar um ósannaðar staðhæf­ingar sem ekki rúmist innan 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi.

      Framsetning greinarinnar sé ótvírætt til þess fallin að meiða æru stefnanda og valda honum álitshnekki, sérstaklega með tilliti til þess að hann sé vel þekktur einstak­lingur, ekki aðeins í íslensku þjóðfélagi heldur einnig í handboltasamfélagi heimsins. Greinin hafi nú þegar orðið stefnanda til tjóns með því að samninga­viðræður stefnanda við erlent handboltalið hafi farið út um þúfur haustið 2008 er fyrirsvars­menn liðsins fregnuðu af greininni í DV. Greinin hafi auk þess valdið fjöl­skyldu stefnanda ama og særindum, enda hafi með rangindum og lygum verið veist að æru stefnanda með umstefndum ummælum í greininni. 

Stór og mjög áberandi mynd af stefnanda sé á bls. 9, en myndin hafi ekki verið tekin í nokkrum tengslum við greinina, heldur við störf stefnanda sem þjálfari hand­bolta­liðs, eða á allt öðrum vettvangi. Undir myndinni sé fyrirsögnin „Hann er búinn að svíkja samninga, ljúga og vera með dónaskap. Hóta okkur símleiðis, hvort sem er í símtölum eða með sms-i.“ Þar sé með mjög ósmekklegum og meiðandi hætti verið að tengja andlit stefnanda við ósannar aðdróttanir viðmælenda greinarhöfundar. 

Það sé rangt og ósannað, sem greinarhöfundur haldi fram, að stefnandi hafi ekki svarað blaðamanni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Greinarhöfundur hafi aldrei reynt að ná í stefnanda vegna aðdróttana viðmælenda sinna. Íþróttablaðamaður á sama blaði hafi hins vegar haft samband við stefnanda þremur dögum fyrir birtingu umstefndrar greinar til að fá álit stefnanda á stöðu íslenska handboltalandsliðsins. Stefnandi hafi svo sjálfur haft samband við greinarhöfund sama dag og greinin birtist til að koma að leiðréttingum á aðdróttunum og rangindum viðmælenda greinarhöfundar. Grein stefnda Benedikts með viðtali við stefnanda hafi birst daginn eftir í DV, 2. september. Þar hafi verið birtar leiðréttingar eða andsvör stefnanda, en greinarhöfundur dragi þó úr gildi þeirra og geri útskýringar stefnanda mjög ótrú­verðugar með því að birta strax í næstu setningum rangar og ósannar fullyrðingar stefndu, Unnar og Ragnars, að því er virtist til þess að draga úr trúverðugleika stefnanda. Auk þess hafi greinarhöfundur birt viðtal við Sigurð Helga Guðjónsson, formann Húseigendafélagsins, en hann hafi einungis fengið að heyra rangar fullyrð­ingar stefndu, Unnar og Ragnars, en ekki hvernig viðskipti aðila höfðu í raun gengið fyrir sig. Tilgangurinn með viðtalinu við Sigurð hafi augljóslega verið sá að árétta og renna stoðum undir aðdróttanir og meiðyrði sem greinar­höfundur hefði birt í DV daginn áður, í þeim eina tilgangi að sverta persónu stefnanda með afar ósmekklegum hætti.

Stefndu hafi farið langt út fyrir mörk þess tjáningarfrelsis sem verndað sé með ákvæðum stjórnarskrár, með röngum og ósönnum aðdróttunum, m.a. um að stefnandi hafi gerst sekur um refsivert auðgunarbrot. Beri því að dæma umstefnd ummæli dauð og ómerk samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ummælin varði við 229., 233. a, 234. og 235. gr. sömu laga og beri stefndu ábyrgð á ummæl­unum. Hin umstefndu orð séu meingerð gegn persónu stefnanda og brot gegn friðhelgi einkalífs hans sem varið sé af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og hafi valdið stefnanda óbætanlegu tjóni og miska. Stefnandi eigi af þessum sökum rétt á skaða-og/eða miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fyrir það tjón úr hendi stefndu.

Refsikrafa sé ekki gerð í málinu þar sem hún sé nú fyrnd. Stefndu, Unnur og Ragnar, ásamt greinarhöfundi, stefnda Benedikt, séu öll samábyrg á um­stefndum um­mælum, enda séu þau öll rækilega nafngreind í blaðagreininni. Stefndu, Unnur og Ragnar, hafi heldur ekki haldið fram, eða komið á framfæri, að ummælin hafi ekki verið réttilega eftir þeim höfð við birtingu greinarinnar.

Aðild stefnda Reynis, ritstjóra DV, þegar hin ærumeiðandi ummæli birtust í blaðinu, byggðist á því að ekki væri ljóst hver hefði samið ummælin í fyrirsögn á for­síðu DV. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956 beri ritstjóri ábyrgð á ummælunum þar sem enginn blaðamaður hafi nafngreint sig. Rit­stjóri beri einnig ábyrgð á ritstjórnarstefnu DV og beri því ábyrgð á efni því sem birt sé í blaðinu. Birtingur útgáfufélag ehf. sé útgefandi DV og sé lögum samkvæmt hægt að krefjast aðfararheimildar fyrir dóminum og tildæmdum greiðslum á hendur útgefanda.

Krafa stefnanda byggðist á ákvæðum laga nr. 57/1956, einkum 13. og 15. gr., og 241. gr. almennra hegningarlaga. Krafa um miskabætur byggðist á 26. gr. skaðabóta­laga og 2. og 3. mgr. 15. gr. laga um prentrétt. Krafa um skyldu stefndu til greiðslu fjárhæðar til að kosta birtingu dóms í fjölmiðlum byggðist á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Krafa um aðfarar­heimild hjá útgefanda fyrir tildæmdum fjár­hæðum byggðist á 17. gr. laga nr. 57/1956. Krafa um vexti, dráttarvexti og vaxtavexti styðjist við ákvæði IV. kafla laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af honum sé reist á lögum nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. Um varnarþing sé vísað til 32. og 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málstæður og lagarök stefndu, Unnar og Ragnars

Af hálfu stefndu, Unnar og Ragnars, er vísað til þess að hin umþrætta blaða­grein sé afleiðing af deilum sem risið hafi í kjölfar viðskipta stefndu, Unnar og Ásvíkur ehf.  Málsatvik séu þau að 23. maí 2007 hafi verið undirritað kauptilboð þar sem stefnda Unnur hafi keypti einingarhús af Ásvík ehf. Kaupverð hafi verið 23.025.000 króna. Áætlaður afhendingartími hafi verið sex mánuðir og hafi kaupandi átt að greiða kaupverð með fjórum greiðslum í samræmi við framvindu, þ.e. við undir­ritun tilboðs, við fokheldi, við afhendingu og mánuði frá uppsetningu og að uppfylltri skilalýsingu.

Strax hafi gengið erfiðlega að fá Ásvík ehf. til að skila teikningum af húsinu til að fá byggingarleyfi, en þeim hafi verið skilað fimm mánuðum eftir undirritun kaup­tilboðs. Um mánaðartöf hafi orðið vegna breytinga, sem hafi þurft að gera á deili­skipu­lagi, og hafi teikningum verið skilað að nýju 21. nóvember sama ár. Byggingar­fulltrúi hafi gert athugasemdir við teikningarnar, en fullnægjandi teikningum hafi ekki verið skilað af hálfu Ásvíkur ehf. fyrr en í janúar 2008 og byggingarleyfi gefið út 21. sama mánaðar. Þá hafi verið farið í að undirbúa sökkla og botnplötu og hafi þeirri vinnu lokið 28. mars s.á. Að ósk Ásvíkur ehf. hafi stefnda Unnur greitt aðra innborgun á verkið, þ.e. sem hafi átt að greiða við fokheldi í febrúar s.á., en stefnandi hafi óskað eftir greiðslunni vegna fjárhagserfiðleika Ásvíkur. Fokheldis­vottorð hafi verið gefið út 23. júlí s.á., um hálfu ári eftir að stefnda Unnur innti þá greiðslu af hendi sem hafi átt að greiða við útgáfu þess.

Þegar kom að því að reisa húsið hafi Ásvík neitað að hefjast handa nema greitt yrði frekar inn á verkið. Stefnda Unnur hafi þá greitt 5.000.000 króna inn á það og hafi það verið hluti greiðslu sem hafi átt að greiða við afhendingu hússins. Þá hefði stefnda Unnur verið búin að greiða 9.145.000 krónur umfram skyldu miðað við kauptilboðið. Eftir það hafi verið byrjað á verkinu og hafi það sóst ágætlega til að byrja með. Í júní hafi svo farið að bera á töfum á verkinu, m.a. vegna deilna undirverktaka við Ásvík ehf., þar á meðal vegna þess að þeir hafi ekki fengið greitt fyrir verk sín. Rafverktaki hafi neitað að skila teikningum að raflögnum, en þær hafi verið nauðsynlegar til að tengja mætti rafmagn í húsið.

Aðilar hafi reynt að finna lausn á deilunum á fundi hjá fasteignarsala 14. júlí 2008. Þar hafi verið ákveðið að fresta deilum um uppgjör. Samkomulag hafi orðið um að reyna að ljúka verkinu sem fyrst og verklok áætluð innan þriggja vikna. Ásvík ehf. hefði hins vegar vanefnt samkomulagið og ekki unnið frekar í húsinu. Stefnandi hafi látið fjarlægja gám með hluta hússins af lóðinni og hafi stefndu, Unnur og Ragnar, kært málið til lögreglu. Að lokum hafi farið svo að kaupandi hefði rifti samningi aðila með bréfi 25. ágúst s.á. Samhliða hafi verið boðað til verkúttektar 28. ágúst en stefnandi hafi ekki mætt fyrir hönd Ásvíkur ehf. Samkvæmt verkstöðuúttekt hafi mörgum þáttum verið ólokið þegar samningnum var rift. Hafi meðal annars ekki verið búið að afhenda innréttingar og tæki, sem fylgja áttu húsinu, auk þess sem vinnu við raflagnir og málun hafi verið ólokið.

Í framhaldi af þessu hefði stefndi Benedikt haft samband við stefndu, Unni og Ragnar, fyrir hönd DV og tekið við þau viðtal sem síðar hafi birst 1. september 2008 með hinum umstefndu ummælum. Þau hafi síðan ekki frétt meira af því fyrr en þeim var birt stefna í máli þessu.

Stefndu, Unnur og Ragnar, byggi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildar­skorti. Umfjöllunarefni greinarinnar sé fyrst og fremst viðskipti stefndu og fyrirtækis stefnanda, Ásvíkur ehf. Hin umstefndu ummæli snúi því að Ásvík ehf. en ekki stefnanda sjálfum eða persónu hans. Verndarandlag ákvæða XXV. kafla almennra hegningarlaga nái einungis til æru og mannorðs einstaklinga. Þar sem ummælin beindust ekki að stefnanda sjálfum hefði hann ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Þar með geti hann ekki átt aðild að málinu og beri því að sýkna stefndu.

Þá sé byggt á því að stefndu, Unnur og Ragnar, séu ekki höfundar annarra um­mæla en þeirra þar sem þau hafi sérstaklega verið tilgreind viðmælendur og haft sé rétt eftir þeim. Geti þau ekki talist höfundar ummæla í 1.-4. tl. og 8.-14. tl. í stefnu. Stefndi Benedikt sé í greininni tilgreindur sem höfundur texta. Samkvæmt dóma­fordæmum sé hann óumdeilanlega höfundur greinarinnar og fyrirsagna í skilningi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 og beri sem slíkur ábyrgð á þeim. Beri að sýkna stefndu af kröfum vegna þessara ummæla.

Sama gildi um ummæli í 6. tl. en hvorugt stefndu sé tilgreint sem viðmælandi. Þá sé af hálfu stefnda Ragnars byggt á því að hann geti ekki borið ábyrgð á ummælum í 5. og 15. tl. enda séu þau tileinkuð stefndu Unni. Af hálfu Unnar sé byggt á því að hún geti ekki borið ábyrgð á ummælum í 7. tl. en þau séu tileinkuð Ragnari.

Þá byggi stefndu á að rétturinn til tjáningar sé varinn af 73. gr. stjórnar­skrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í tjáningarfrelsinu felist rétturinn til að koma á framfæri skoðunum sínum og að taka á móti og miðla áfram upplýs­ingum. Þessi grundvallarréttur í lýðræðisþjóðfélagi hafi verið margáréttaður af dómstólum hér og Mannréttindadómstól Evrópu. Þar sé um að ræða eðli­lega og sanngjarna frásögn af við­skiptum neytenda, þ.e. stefndu og fyrirtækis stefnanda sem selji einingarhús. Sérstaklega verði að horfa til þess að stefndu séu neyt­endur, sem hafi verið í við­skiptum um kaup á íbúðarhúsnæði fyrir fjöl­skyldu sína, viðskipti sem hafi snert veru­lega hagsmuni þeirra.

Stefndu byggi á að hin umstefndu ummæli varði ekki við 229. gr. almennra hegn­ingar­laga, enda hafi stefnandi ekki reynt að rökstyðja hvaða ummæli feli í sér um­fjöllun um einkamálefni hans sem leynt eigi að fara.

Í stefnu sé haldið fram að með umfjöllun sé brotið gegn friðhelgi stefnanda. Þessu hafni stefndu. Í dómaframkvæmd hafi það verið talið brjóta gegn friðhelgi þekkts einstaklings ef umfjöllunin geti ekki talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu, og eigi þannig erindi til almennings, og jafnframt að viðkomandi einstaklingur hafi með réttu  mátt vænta þess að friðhelgi einkalífs síns yrði virt. Hvorugt þessara skilyrða væri upp­fyllt í þessu máli. Annars vegar sé til umfjöllunar mál sem varði viðskipti einstak­linga við tiltekið fyrirtæki. Eðlilegt sé að neytendur geti komið kvörtunum sínum á framfæri, eftir atvikum með aðstoð fjölmiðla, og sé það eðlilegur þáttur í þjóðfélags­umræðu um neytendamál. Hins vegar geti stefnandi engar væntingar haft til þess að viðskipti fyrirtækis hans njóti friðhelgi einkalífs.

Því sé hafnað að 233. gr. a almennra hegningarlaga eigi við. Stefnandi hafi ekki rökstutt hvernig einstök ummæli feli í sér að ráðist hafi verið að honum vegna „þjóðernis [hans], litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar“.

Hin umstefndu ummæli feli ekki í sér ærumeiðingu gegn persónu stefnda. Almennt sé hægt að flokka ummælin í tvennt. Annars vegar sé um að ræða fullyrð­ingar um staðreyndir og hins vegar gildisdóma sem feli í sér lýsingu á upplifun stefndu, Unnar og Ragnars, á viðskiptum sínum við fyrirtæki stefnanda.

Stefndu sé heimilt að lýsa sannanlegum staðreyndum málsins án þess að það baki þeim skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda. Þeir eigi rétt á að viðhafa ummæli sem feli í sér gildisdóma og lýsingu á upplifun og tilfinningum stefndu á viðskiptum og sam­skiptum þeirra við Ásvík ehf. Meginumfjöllunarefni greinarinnar sé viðskipti ein­stak­l­inga við fyrirtæki á markaði. Stefndu lýsi þeim örðugleikum sem þau hafi lent í vegna þessara viðskipta. Játa verði þeim víðtækt svigrúm sem neytendum til að lýsa við­skiptum sínum við fyrirtæki á markaði. Umfjöllun um mál, sem snerti neytendur, sé mikilvæg í nútímaþjóðfélagi, meðal annars til að veita fyrirtækjum nauðsynlegt að­hald og upplýsa aðra neytendur. Veita verði stefndu víðtækt svigrúm til að taka sterklega til orða til að vekja athygli á málstað sínum. Ummælin séu innan þeirra marka sem tjáningarfrelsið veiti stefndu til að taka þátt í umræðu í lýðræðisþjóðfélagi. Ummæli þeirra verði að skoða í ljós þeirra deilna sem stefndu hafi átt í við fyrirtæki stefnanda. Afstaða stefndu til einstakra ummæla sé eftirfarandi:

1. tl. Þarna sé um að ræða fyrirsögn sem samin hafi verið af stefnda Benedikt. Þetta séu fullyrðingar um staðreyndir. Stefnandi hafi verið kærður til lögreglu af stefndu, en málið látið niður falla. Ummælin sem feli í sér fullyrðingar um stað­reyndir, sem séu sannar og réttar, séu ekki refsiverð eða ærumeiðandi.

2. tl. Um sé ræða fyrirsögn sem samin hafi verið af stefnda Benedikt. Ummælin séu að hluta til fullyrðingar um staðreyndir. Þá sé um að ræða lýsingu á upplifun stefndu um að þau hafi verið svikin um heimilið sem þau hafi lagt aleiguna í. Rétturinn til að setja fram slíka lýsingu sé óumdeilanlega innan marka tjáningarfrelsis.

3. tl. Um sé að ræða fyrirsögn sem samin hafi verið af stefnda Benedikt. Einnig vísi stefndu til þess sem segi í 2. tl.

4. tl. Um sé að ræða fyrirsögn sem samin hafi verið af stefnda Benedikt. Stefndu vísi til þess sem segi um lið 1. og 2. tl. Lýsing á samskiptum aðila sem þrautargöngu stefndu rúmist innan marka tjáningarfrelsis og feli ekki í sér ærumeiðingu.

Ummæli í 5., 6. og 7. tl. feli í sér lýsingu á upplifun stefndu á viðskiptum sínum við fyrirtæki stefnanda og samskiptum við hann. Lýst sé mati stefndu á framgangi verksins og því skipulagsleysi sem hafi einkennt framkvæmdina. Hvorki sé ráðist að æru stefnanda né persónu þótt framganga verksins sé gagnrýnd. Ummælin skapi stefndu ekki skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda. Þau feli ekki í sér ærumeiðingu og þau séu innan þeirra marka sem tjáningarfrelsi veiti þeim til að taka þátt í þjóðfélags­umræðu um neytendamál. 

Ummælin í 8. tl. séu fyrirsögn samin af stefnda Benedikt. Um sé að ræða lýsingu á niðurstöðu verkfræðings um framkvæmd verksins. Ummælin feli ekki í sér æru­meiðingu gagnvart stefnanda heldur skoðun viðkomandi einstaklings.

9. tl. sé fyrirsögn samin af stefnda Benedikt. Lýst sé upplifun stefndu; að þau hafi lagt aleigu sína í framkvæmdina án þess að fá umsamið endurgjald fyrir.

Ummæli í 10. tl. beindust ekki að stefnanda heldur Ásvík ehf. Það séu ekki ærumeiðandi ummæli að fullyrða að stefnandi sé stjórnarformaður Ásvíkur ehf.  

Ummæli í 11. og 15. tl. væru nær samhljóða. Þar sé um að ræða upplifun stefndu á viðskiptum sínum við stefnanda sem fyrirsvarsmann Ásvíkur ehf. Ásvík ehf. hafi ekki efnt samning aðila, hvorki upprunalegan kaupsamning né samkomulagið 14. júlí um að ljúka verkinu. Ummælin væru því í eðlilegu samhengi við þær stað­reyndir og upplifun stefndu á framkomu stefnanda. Þá liggi fyrir að stefnandi hefði fyrir hönd Ásvíkur ehf. ítrekað hótað stefndu með lögfræðiinnheimtu og öðrum aðgerðum, í símtölum, bréfum og með smáskilaboðum. Á þessum tíma höfðu stefndu kært stefnanda til lögreglu fyrir þjófnað á gámi.

Í 12. tl. sé um að ræða staðreyndir, en verkið hafi tafist verulega vegna deilna Ásvíkur ehf. við smiði og rafvirkja. Rafvirkjar hafi neitað að skila inn teikningum, sem hafi verið nauðsynlegar til að fá heimtaug dregna í húsið, vegna launadeilna við Ásvík. Viðkomandi undirverktakar Ásvíkur ehf. hafi tjáð stefndu Unni að ekki yrði haldið áfram með verkið nema gert yrði upp við þá.

13.     tl. sé fyrirsögn samin af stefnda Benedikt. Stefndu vísi til þess sem segi í 1. tl.

Varðandi 14. tl. sé vísað til 2. tl., en stefndu, Unnur og Ragnar, hefðu lagt fram kæru hjá lögreglu vegna þjófnaðar. Það sé staðreynd að stefnda Unnur hafði greitt Ásvík allt sem henni bar að greiða samkvæmt samningi aðila og framvindu verks­ins.

Verði fallist á með stefnanda að ummæli sem stefndu beri ábyrgð á feli í sér móðgun samkvæmt 234. gr. laga nr. 19/1940 þá byggi stefndu á að réttur þeirra til að hafa í frammi móðgun sé varin af 73. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 3. mgr. megi einvörðungu setja tjáningarfrelsi skorður með lögum vegna þeirra atriða sem þar eru talin, m.a. vegna réttinda eða mannorðs annarra. Orðalagið sé samskonar og orða­lag 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Verndarandlag 234. gr. almennra hegningarlaga snúi ekki að mannorði einstak­linga, þ.e. virðingu þeirra út á við, heldur einvörðungu að sjálfsvirðingu þeirra, þ.e. inn á við. Þetta ákvæði hegningarlaganna gangi þannig gegn ákvæðum 73. gr. stjórnar­­­skrárinnar, sbr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Verði fallist á kröfur stefnanda að einhverju leyti sé þess krafist að kröfur samkvæmt liðum II) og III) verði stórlega lækkaðar.

Stefndu byggi kröfu sína um málskostnað á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála. Stefndu séu ekki virðisaukaskattskyld og verði að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

Stefndu byggi á ákvæðum 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994, sbr. 11. gr. laga nr. 97/1995. Enn fremur sé byggt á 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá sé byggt á ákvæðum XXV. kafla almennra hegningarlaga, einkum 241. gr., og V. kafla laga nr. 57/1956 um prentrétt, einkum 13. og 15. gr. Þá sé vísað til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála. Um málskostnað sé vísað til 129. og 130. gr. sömu laga og enn fremur til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Málsástæður og lagarök stefndu Benedikts, Reynis og Birtings útgáfufélags ehf.

Af hálfu stefndu er vísað til þess að í ágúst 2008 hafi dagblaðinu DV borist ábending um að hjón í Mosfellsbæ ættu í harðvítugri viðskiptadeilu við landsþekktan mann sem sé stefnandi. Deilan hafi snúist um kaup hjónanna á einingahúsi af fyrirtæki stefnanda. Stefndi Benedikt hafi haft samband við hjónin sem hafi staðfest söguna. Frásögn þeirra hafi verið á þá leið að þau hefðu greitt fyrirtæki stefnanda, Ásvík ehf., aleigu sína, eða tæpar 20 milljónir króna. Í staðinn hafi þau átt að fá fullbúið hús innan tilsettra tímamarka. Fyrirtæki stefnanda, Ásvík ehf., sem samkvæmt opinberri skráningu sé heildverslun með hreingerningar­efni, hafi hins vegar átt í miklum greiðsluvandræðum, líkt og gögn sýni og sanni, sbr. fjárnámsgerðir frá fyrri hluta árs 2009. Fljótlega eftir að einingar hússins bárust á staðinn hafi iðnaðarmenn mætt til að vinna að uppsetningu þess. Þeir hafi hins vegar horfið af vettvangi þegar þeir hafi ekki fengið greitt frá stefnanda. Við hlið hússins hafi staðið gámur með innréttingum o.fl. sem tilheyrt hafi húsinu. Þann gám hafi stefnandi fjarlægt í leyfisleysi og síðar hafi hann sagst hafa tekið hann í pant fyrir skuldum stefndu, Ragnars og Unnar, þótt honum hafi ekki verið heimilt að gera það samkvæmt lögum. Hjónin hafi því kært stefnanda fyrir þjófnað, þar eð þau hefðu þegar greitt fyrir innihald gámsins. Síðan hafi gengið á með orðsendingum og öðrum skærum. Um þetta deilumál hafi DV fjallað. Fyrsta umfjöllunin hafi birst 1. september 2008 með lýsingum stefndu, Ragnars og Unnar, á málinu, þar sem ekki hafi náðst í stefnanda þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hann hafi hins vegar sett sig í samband við blaðið sama dag og fréttin birtist og komið að sínum sjónarmiðum. Frásögn hans hafi verið birt á heilsíðu í blaðinu daginn eftir þar sem hann hafi tjáð sig í löngu máli um sína hlið á málinu. Að auki hafi birst viðtal við formann Húseigendafélagsins, sem hafi talið að brotið hefði verið á stefndu, Ragnari og Unni, í málinu. Átta mánuðum síðar hafi stefnandi birt stefnu á hendur hjónunum, blaðamanni og ritstjóra DV og útgefanda þess.

Löggjafinn og dómstólar hafi játað fjölmiðlum verulegt svigrúm til almennrar um­fjöll­unar um menn og málefni. Rétturinn til tjáningar og miðlunar upplýsinga sé varinn af 73. gr. stjórnarskrár Íslands, en einnig af ákvæðum mann­réttinda­sáttmála Evrópu, sbr. 10. gr. laga nr. 62/1994. Þar segi að réttur til tjáningar­frelsis skuli einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir og taka við og skila áfram upplýsingum og hug­myndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Réttur fjöl­miðla sé, samkvæmt dómafordæmum Mannréttindadómstóls Evrópu, sérlega ríkur, enda sé hlutverk þeirra til að taka við og miðla upplýsingum afar mikil­vægur í lýðræðis­­samfélagi.

Réttur þessi takmarkist af þeim undantekningum sem fram komi í 2. mgr. 10. gr. laganna. Ítrekuð dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu áskilji að þessar undan­þágur frá meginreglunni um tjáningarfrelsi beri að túlka þröngt. Allar takmarkanir á tjáningar­frelsi beri að sýna fram á með sannfærandi hætti. Þannig megi, samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laganna, takmarka tjáningarfrelsi einungis ef nauðsyn beri til í lýðræðis­legu þjóðfélagi. Orðið „nauðsyn“ í þessu sambandi sé túlkað af Mannréttinda­dóm­stólnum sem „knýjandi þjóðfélagsleg nauðsyn“. Hvort slík nauðsyn sé fyrir hendi sé dómstólum í landsrétti látið eftir að meta. Hlutverk fjölmiðla og réttur sé hins vegar að taka á móti upplýsingum og miðla þeim áfram með hlutlausum hætti. Sá réttur sé jafnframt varinn af 73. gr. stjórnarskrár Íslands.

Fjölmiðlar eigi að hafa svigrúm til þess að taka við og miðla upplýsingum án þess að eiga á hættu að þurfa að taka ábyrgð á öllu því sem nafngreindir heimildar­menn hafi að segja, sérstaklega þegar aðstæður væru eins og í þessu máli, að ljóst sé hverjir viðmælendurnir eru og sannað að þeir hafi látið ummælin falla. Blaðamenn eigi rétt á að sinna þessu grundvallar hlutverki sínu án þess að vera sjálfum stefnt fyrir réttar­brot vegna slíkra ummæla annarra.

Stefndu vísi til sérstaks eðlis fjölmiðla og aukins réttar þeirra til að fjalla um mál og miðla upplýsingum til almennings. Réttur þessi sé margviðurkenndur af mann­réttinda­dómstól Evrópu, sem hafi margoft áréttað mikilvægi þess að fjölmiðlar geti ritað fréttir á viðtalsformi, sem sé einn mikilvægasti réttur fjölmiðla og verndað tjáningar­form. Brýnt sé að vega ekki að þessum réttindum fjölmiðla með inngripum gegn tjáningarfrelsi.

Dagblaðið DV greini mjög oft frá sambærilegum málum þar sem venjulegt fólk hafi tapað aleigu sinni í viðskiptum við verktaka og vafasama aðila. Stefnandi reki verktakafyrirtækið Ásvík ehf. og sé í fyrirsvari fyrir það. Hann sé þjóðþekktur ein­staklingur, einkum sem landsliðsþjálfari í handknattleik, og sé litið á hann sem fyrir­mynd annarra. Því hafi verið eðlilegt að málið yrði kannað nánar þegar ábending um það barst. Sú könnun hafi leitt í ljós að málið átti við rök að styðjast. Það hafi því verið skylda blaðsins og blaðamannsins að fjalla um það. Um­fjöllunin hafi verið eðli­leg og sanngjörn. Stefnandi hafi ekki leitað til siðanefndar Blaðamanna­félags Íslands, enda hefði sú viðleitni ekki borið árangur. Þess í stað krefjist stefnandi þess að fá ummælin dæmd dauð og ómerk. Sú krafa eigi heldur engan rétt á sér.

Málsástæðum stefndu, Reynis og Benediks, megi skipta í þrennt. Í fyrsta lagi geti stefndu ekki talist höfundar hinna umstefndu ummæla. Í öðru lagi geti stefnandi vart talist eiga aðild að ómerkingarkröfu sumra ummæla og sé því aðildarskortur sóknar­megin. Í þriðja lagi felist ekki í ummælunum ærumeiðing eða annað brot í garð stefnanda, einkum þegar framangreindar staðreyndir um tjáningarfrelsi séu hafðar í huga.

Aðildarskortur sé bæði sóknar- og varnarmegin í málinu vegna ýmissa ummæla. Aðildarskortur sóknarmegin sé vegna þess að stefnandi sé fyrirsvarsmaður hluta­félagsins Ásvíkur ehf. sem sé einhvers konar verktakafyrirtæki. Deilan sem fjallað hafi verið um í DV sé sprottin af viðskiptum stefndu Unnar við Ásvík ehf. Sum ummælanna lúti eingöngu að félaginu en ekki persónu stefnanda, til dæmis ummæli í 8. og 10. tl. Í 8. tl. segi að ekki hafi verið vandað til verka. Stefnandi hafi ekki komið að frágangi hússins sem stjórnarformaður félagsins og ummælin hafi því ekki beinst að honum persónulega eða æru hans. Í 10. tl. sé fyrirtækinu borið á brýn að hafa ekki staðið í skilum við verktaka. Þessi ummæli beindust ekki að persónu stefnanda heldur Ásvík ehf. Í málum er lúti að ærumeiðingum sé skýrt að ef ummæli varði ekki persónu manna og æru bæri að sýkna vegna aðildarskorts. Ákvæði 229. gr. almennra hegn­ingar­laga eigi ekki við um nein ummæli, enda varði engin þeirra einkahagsmuni stefnanda sem leynt skuli fara. Því síður eigi 233. gr. a sömu laga um kynþátta­fordóma við.

Aðildarskortur sé einnig uppi varnarmegin í málinu. Aðildarskorturinn felist í því að höfundar ummælanna séu nafngreindir í greininni sem stefndu, Unnur og Ragnar. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu, Reyni og Benedikt. Í 2. mgr. 15. gr. prentlaga segi að höfundur beri ábyrgð á efni rits ef hann hafi nafngreint sig. Hins vegar sé ekki skilgreint í ákvæðinu eða lögunum yfir höfuð hver teljist vera „höfundur“ í skilningi ákvæðisins. Höfundur teljist ekki sá sem skrifi upp ummæli, heldur sá sem láti þau falla, þ.e. sá sem ummæli eru eignuð. Því til stuðnings vísi stefndu til 73. gr. stjórnarskrár Íslands. Ef gera eigi einhvern mann ábyrgan fyrir skoðunum, hugsunum eða sannfæringu annars manns, svo sem blaðamann ábyrgan fyrir skoðunum viðmælanda síns, teljist það brot gegn þessu stjórnarskrárákvæði, enda sé þá ekki um skoðanir, sannfæringu eða hugsanir blaða­mannsins að ræða. Það sé stjórnarskrárbrot að láta stefndu, Reyni og Benedikt, sæta refsi- og fébótaábyrgð vegna skoðana, sannfæringar og hugsana stefndu, Unnar og Ragnars.

Ummæli hafi birst í DV 1. september 2008. Stefndu, Unnur og Ragnar, hafi engar athugasemdir gert við greinina þegar hún birtist. Hefði ekki verið rétt eftir þeim haft hefðu þau haft ærið tilefni til að gera athugasemdir við greinina. Málið hafi svo verið höfðað átta mánuðum síðar. Stefndu, Unnur og Ragnar, hafi engra leiðréttinga krafist á ummælunum við það tækifæri. Þá taki hljóðupptaka milli stefndu, Unnar og Benedikts, frá 29. apríl 2009, af allan vafa um að ummælin voru rétt höfð eftir stefndu, Unni og Ragnari. Þau tvö teljist höfundar ummælanna í skilningi 2. mgr. 15. gr. prentlaga, enda sé um þeirra skoðanir, sannfæringu og hugsanir að ræða og þau verði því sjálf að ábyrgjast þær fyrir dómi, eins og segi í 73. gr. stjórnarskrár Íslands. Önnur niðurstaða færi í bága við þetta stjórnarskrárákvæði. Einungis geti reynt á ábyrgð stefndu, Reynis og Benedikts, á grundvelli 236. gr. almennra hegningarlaga um útbreiðslu ummæla, en á því byggi stefnandi ekki í málinu. Beri því að sýkna stefndu af dómkröfum stefnanda. Fyrirsagnir og millifyrirsagnir byggi allar á þeim ummælum sem höfð hafi verið eftir stefndu, Unni og Ragnari, og séu því ekki sjálf­stæðar skoðanir, sannfæring eða hugsanir sem geti verið andlög ómerkingarkröfu á hendur stefndu, Benedikt og Reyni.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu á grundvelli aðildarskorts krefjist stefndu sýknu með vísan til þess að engin hinna umstefndu ummæla feli í sér ærumeiðingar gagnvart stefnanda. Ummælin séu sönn og í þeim felist ekki ærumeiðingar, auk þess að sum ummælin beindust ekki að persónu stefnanda. Stefndu eigi rétt á að birta ummælin um stefnanda, sem sé þjóðþekktur. Málið snerti ekki á neinn hátt einkalíf hans og varði því ekki einka­lífs­hagsmuni.

Ummælin í 1. tl. væru sönn, enda hafi stefndu, Unnur og Ragnar, lagt fram kæru hjá lögreglu á hendur stefnanda fyrir þjófnað. Ummæli verði því ekki dæmd dauð og ómerk og vísi stefndu til meginreglunnar um refsileysi sannaðra ummæla, en sannindi ummæla sé ábyrgðarleysisástæða.

Sama eigi við um ummælin í 2. tl. Síðari hluti ummælanna lýsi tilfinningu þeirra um að þeim finnist þau hafa verið svikin. Um sé að ræða gildismat þeirra sem þeim sé fullkomlega frjálst að hafa. Útilokað sé að stefnandi geti krafist þess að þessi skoðun þeirra skuli dæmd dauð og ómerk, enda geti enginn krafist ómerkingar á ummælum annars sem með slíkum ummælum lýsir tilfinningum sínum.

Ummælin í 3. tl. eigi það sammerkt með 2. tl. að lýsa skoðunum og tilfinningu stefndu. Stefnandi eigi engan rétt á að fá slíkar skoðanir dæmdar dauðar og ómerkar.

Ummælin í 4. tl. væru sönn, enda hafi stefndu, Unnur og Ragnar, lagt fram kæru hjá lögreglu á hendur stefnanda fyrir þjófnað á 40 feta gámi. Síðari hluti ummælanna, um að kæran komi í kjölfar mikillar þrautagöngu hjónanna, lýsi gildismati hjónanna og hvernig þau hafi sjálf upplifað málið sem mikla þrautagöngu. Fráleitt sé að slíkar skoðanir og tilfinningar sé hægt að ómerkja að kröfu þriðja aðila, en ummælin beindust heldur ekki að persónu stefnanda.

Ummælin í 5. tl. lýsi þeirri skoðun stefndu að halda mætti að stefnandi hefði ekki gert sér grein fyrir því að það væri ekki hægt að reisa hús nema hafa fullkláraðar teikningar og byggingarleyfi. Hér sé um fullkomlega meinleysislega skoðun að ræða sem geti engan veginn talist ærumeiðandi móðgun eða aðdróttun samkvæmt almennum hegningarlögum. Slík niðurstaða myndi þýða að öll kaldhæðni eða mein­leysis­legt háð væri brot á almennum hegningarlögum um ærumeiðingar. Þetta sé gagnrýni sem eigi rétt á sér og hafi verið sett fram sem létt háð. Ummælin hafi ekki að geyma neinar fullyrðingar um æru stefnanda sjálfs eða persónu hans.

Ummælin í 6. tl. lýsi þeirri reynslu stefndu, Unnar og Ragnars, að mikið þjark og vesen hafi verið að fá teikningar af húsinu. Hér sé um þeirra eigið gildismat að ræða og algerlega óskilgreint hvað felist í þjarki og veseni. Slík orð væru ekki andlög ómerkingarkröfu í dómsmáli. Þá sé heldur ekki unnt að fá dæmd dauð og ómerk ummæli um að teikningar af húsi hafi aldrei verið tilbúnar á réttum tíma. Fyrir það fyrsta séu ummælin sönn og feli í sér gagnrýni, en þar fyrir utan varði ummælin hvorki persónu stefnanda né æru hans. Í þeim felist hvorki móðgun né aðdróttun í garð stefnanda sem ómerkja beri með dómi.

Ummælin í 7. tl. væru gagnrýni stefndu, Unnar og Ragnars, á framkvæmd og skipu­lagi verksins. Að þeirra mati hafi ekkert skipulag ríkt við verkið. Þá hafi engin vinnuáætlun verið í gildi og engin samvinna um framkvæmdaþætti. Loks sé fundið að því að stefnandi hafi tekið fram fyrir hendurnar á byggingarstjóra verksins. Allt framan­­greint sé sannleikanum samkvæmt. Þar fyrir utan felist ekki í ummælunum annað en lýsingar og skoðanir stefndu, sem hafi haft réttmæta ástæðu til að gagnrýna það hvernig staðið var að verkinu. Miklar tafir hafi orðið á því og margt sannan­lega illa unnið. Stefndu hefðu því haft réttmæta ástæðu til að gagnrýna utanumhald á verkinu og hafi ekki með gagnrýni sinni bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnda, þótt þau hafi tjáð sig opinberlega með þessum hætti um hann. Þau hafi stjórnarskrárvarinn rétt á að opinbera gagnrýni sína og óánægju.

Ummælin í 8. tl. beindust að öðrum en stefnda, þ.e. þeim verktökum sem séð hafi um frágang í húsinu. Ummælin lýsi þrautagöngu hjónanna. Þetta megi glöggt sjá ef greinin er lesin, en þar komi fram að ekki hafi verið vandað til verka við flotun gólfa og uppsetningu gifsveggja. Ummælin væru því sönn og einungis skoðun stefndu á verkinu. Þessir hlutir komi stefnanda ekkert við og beindust ekki að persónu hans eða æru.

Ummælin í 9. tl. vísi til frásagnar hjónanna á því að þau hafi lagt aleiguna í að koma upp nýja húsinu. Þau lýsi því að það hafi verið erfitt að fá þær fréttir að iðnaðar­mennirnir, sem unnið höfðu að húsinu, myndu ekki vinna í því frekar nema fá greitt fyrir vinnu sína frá stefnanda, sbr. einnig 12. tl. Hjónunum hafi liðið eins og aleiga þeirra hefði farið fyrir lítið, þ.e. að þau hefðu lagt alla sína peninga fram sem fyrir­fram­greiðslu en sitji uppi með óklárað hús. Fráleitt sé að stefnandi eigi kröfu á því að þau ummæli verði dæmd dauð og ómerk, enda komi þau persónu hans ekki við. Einungis sé um að ræða tilfinningar stefndu, Ragnars og Unnar, sem þau hafi stjórnar­skrárvarinn rétt á að tjá opinberlega.

Ummælin í 10. tl. lúti að fyrirtækinu Ásvík ehf. en ekki stefnanda. Allt að einu felist ekki í þeim ærumeiðingar, en ummælin væru sannleikanum samkvæmt. Iðnaðarmenn, sem Ásvík ehf. hefði fengið til að reisa um­rætt hús, hafi horfið frá verkinu um tíma vegna vanefnda Ásvíkur ehf. Stefndu hafi staðið uppi með hálfklárað húsnæði og iðnaðarmenn hafi neitað að vinna í því. Stefndu hafi verið í fullum rétti til að tjá sig um að Ásvík ehf. hefði ekki greitt þeim verktökum sem komu að byggingu hússins, enda væru ummælin sönn. Því beri að hafna kröfu stefnanda um ómerkingu ummælanna.

Ummælin í 11. tl. væru hin sömu og koma fram í 15. tl. og því eigi sömu máls­ástæður við um þau.

Ummælin í 12. tl. tengdust m.a. ummælunum í 9. og 10. tl. og eigi við sömu málsástæður og þar væru reifaðar. Ummæli þessi lýsi því sem satt sé, að iðnaðarmenn, sem Ásvík ehf. réði til verksins, hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sína frá fyrirtækinu. Hjónin hefðu, sem satt sé, lagt aleiguna í húsið og það hafi, samkvæmt hinum umstefndu ummælum, verið áfall fyrir þau að vera búin að reiða fram aleiguna, en fá lítið sem ekkert í staðinn, aðeins hálfklárað hús. Ásvík ehf. hafi tekið við fjármunum frá stefndu, Ragnari og Unni, og séð um að útvega iðnaðarmenn. Þeir hafi hins vegar ekki fengið greitt frá Ásvík ehf. og því hafi þeir lagt niður vinnu. Um­mælin lýsi þessum erfiðu staðreyndum. Það sé svo að bíta höfuðið af skömminni af hálfu stefnanda að krefjast ómerkingar á ummælum hjónanna þegar þau tjái sig um þessa erfiðleika. Stefnandi eigi hins vegar engan rétt á slíkri ómerkingarkröfu.

Ummælin í 13. tl. vísi til þess að hjónin hafi talið að stefnandi hefði stolið 40 feta gámi af lóð sinni, sem í voru innréttingar o.fl., sem ætlað var í húsið. Stefnandi hafi sannanlega fjarlægt gáminn og viðurkennt það í viðtali við DV. Þar sé orðrétt haft eftir stefnanda: „Þjófnaður minn felst í því að ég fjarlægði gáminn, þau eiga eftir að borga annars vegar tjón og hins vegar húsið.“ Stefnandi hafi ekki nefnt að stefndu ættu eftir að borga gáminn og innihald hans, enda hafi þau verið búin að því. Stefnandi hafi því fjarlægt gáminn í leyfisleysi og haldið honum sem tryggingu fyrir öðrum meintum vanefndum stefndu. Stefndu hafi því haft réttmæta ástæðu til að fullyrða að gámnum hafi verið stolið og til að kæra stefnanda fyrir það. Í ummælunum felist því á engan hátt ærumeiðing í garð stefnanda, enda hafi hann fjarlægt gáminn í leyfisleysi. Orðin sem stefndu, Unnur og Ragnar, hafi notað hafi verið að stefnandi hefði stolið gámnum. Fyrir þá orðnotkun verði þeim í ljósi framangreinds ekki gert að þola ómerk­ingu ummælanna.

Ummælin í 14. tl. séu sönn, enda hafi stefndu, Unnur og Ragnar, lagt fram kæru hjá lögreglu á hendur stefnanda fyrir þjófnað. Þar sem ummælin séu sönn beri að sýkna stefndu. Hjónin hafi greitt stefnanda samkvæmt samningi, en hann hafi tekið 40 feta gám fullan af verðmætum í þeirra eigu í sína vörslu sem tryggingu fyrir öðrum meintum skuldum, m.a. einhverju óskilgreindu tjóni. Vegna þessa hafi hjónin lagt fram kæru á hendur stefnanda fyrir þjófnað. Í ummælunum felist ekki annað en frásögn af þessum atburðum sem séu sannir. Ekkert þýði fyrir stefnanda að krefjast ómerkingar á ummælunum, þar sem þau hafi lýst atburðarás sem sannanlega hafi átt sér stað.

Ummælin í 15. tl. séu sömu ummælin og tilgreind séu í 11. tl. og einni setningu betur. Ummælin lýsi tilfinningum stefndu, Unnar og Ragnars, í garð stefnanda í kjölfar þess að stefndu hafi greitt stefnanda aleigu sína en fengið í staðinn óklárað hús. Stefndu telji að stefnandi hafi ekki staðið við gerða samninga, sagt þeim ósatt og verið með dónaskap, auk þess að hafa í frammi hótanir. Stefndu hafi kosið að rifta samningi við Ásvík ehf. vegna vanefnda, þar sem ekki hafi verið staðið við samninga og þeim hafi ítrekað verið sagt ósatt. Mat hjónanna hafi auk þess verið að stefnandi hefði haft í frammi dónaskap og hótanir í síma með smáskilaboðum og tölvupóstum. Gögn í vörslu hjónanna sýni að þau hafi haft réttmæta ástæðu til að túlka framkomu stefnanda sem dónaskap og hótanir. Ummælin hafi ekki farið út fyrir tilefnið sem til þeirra gafst í ljósi þess að hjónin hefðu verið svikin í samningum og átt erfið samskipti við stefnanda vegna þessa.

Stefndu krefjist sýknu af kröfu um greiðslu kostnaðar við birtingu dóms með vísan til framangreindra málsástæðna, þ.e. aðildarskorts og til þess að ummælin séu ekki ærumeiðandi í garð stefnanda. Krafan sé auk þess vanreifuð að öllu leyti.

Stefndu krefjist sýknu af kröfu um greiðslu skaða- og miskabóta með vísan til framan­greindra málsástæðna, þ.e. aðildarskorts og til þess að ekki felist ærumeiðingar í ummælunum. Krafa stefnanda sé auk þess fullkomlega vanreifuð, þar sem henni fylgi engar sérstakar málstæður. Krafist sé bæði skaða- og miskabóta. Eini rökstuðn­ingurinn, sem fylgi kröfunni, sé sá að stefndu hafi valdið stefnanda „óbætanlegum (sic) tjóni og miska“ og ýjað að því að stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagstjóni þar sem forsvarsmenn erlends stórliðs í handknattleik hafi lesið fréttina í DV og því slitið viðræðum við stefnanda um ráðningu hans til þjálfarastarfa. Krafan um skaða- og miskabætur sé ekki rökstudd frekar. Stefnandi hafi á engan hátt sýnt fram á að stefndu, Benedikt eða Reynir, beri ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn honum. Ekki sé um ólögmæti að ræða þar sem ummælin geti ekki talist ærumeiðandi í garð stefnanda. Því beri að hafna miskabótakröfunni.

Til vara krefjist stefndu stórkostlegrar lækkunar á dómkröfu stefnanda um miska­bætur. Krafan sé úr velsæmi og langt fram yfir þá venju sem tíðkist í dóma­framkvæmd hér á landi. Stefndu krefjist þess að krafan verði að minnsta kosti lækkuð fimmtugfalt, verði á annað borð talið að stefndu hafi brotið gegn stefnanda.

Kröfunni um aðfararheimild fyrir tildæmdum greiðslum í málinu sé mótmælt. Kröfunni sé beint að stefnda, Birtingi útgáfufélagi ehf. Krafan sé fullkomlega van­reifuð, enda engar málsástæður reifaðar sem að dómkröfunni lúti. Dómkrafan sé þannig úr garði gerð að krafist sé aðfarar fyrir öllum tildæmdum greiðslum í málinu og kröfunni til stuðnings vísað til 17. gr. laga um prentrétt. Samkvæmt orðalagi lagagreinarinnar megi einungis innheimta greiðslur hjá útgefanda ritsins sem ritstjóri sé dæmdur til að greiða. Óheimilt sé að innheimta hjá útgefanda greiðslur, sem aðrir kunni að vera dæmdir til að greiða, en um þetta vitni dómafordæmi. Þar sem stefndi Reynir beri hvorki ábyrgð á hinum umstefndu ummælum, né geti þau talist æru­meiðandi, beri að sýkna stefnda, Birting útgáfufélag ehf., af kröfunni.

Stefndu krefjist að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu í samræmi við 129. gr., sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála. Stefndu geri kröfu um greiðslu af málskostnaðartryggingu sem stefnandi hafi lagt fram vegna málsins.

Kröfu um vexti og dráttarvexti sé mótmælt, enda eigi stefnandi ekki kröfu á hendur stefndu. Til vara sé þess krafist að vextir verði einungis miðaðir við dóms­uppsögu, ef talin eru skilyrði til að dæma dráttarvexti.

Um lagarök vísi stefndu til 73. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994.  Stefndu vísi til 234. – 236. gr., 239. gr. og 241. gr. almennra hegningarlaga og til 15. og 17. gr. laga um prentrétt. Þá vísi stefndu til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og í 2. mgr. sömu greinar segir að hver maður eigi rétt á því að láta hugsanir sínar í ljós með takmörkunum sem tjáningarfrelsinu eru sett. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmast lýðræðishefðum, eins og fram kemur í 3. mgr. sömu stjórnarskrárgreinar. Enn fremur kemur fram í 1. mgr. 10. gr. mann­réttinda­sáttmála Evrópu að sérhver maður eigi rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skuli einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hug­myndum án afskipta stjórnvalda. Í 2. mgr. sömu greinar segir að þar sem af réttindum þessum leiði skyldu og ábyrgð sé heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skil­yrðum, tak­mörkunum eða viðurlögum, sem lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til í lýð­ræðis­legu þjóðfélagi, meðal annars til verndar heilsu eða siðgæði manna eða mann­orði.

Stefnandi telur að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum prentlaga, stjórnarskrár og almennra hegningarlaga, sem mæla fyrir um refsingu og önnur úrræði vegna aðdrótt­ana og ærumeiðinga, með þeim um­mælum sem birt voru í DV og stefnandi krefst í málinu að ómerkt verði með dómi. Stefnandi telur að einnig hafi verið brotið gegn laga­reglum um friðhelgi einka­lífs. Ummælin eru öll sett fram í því sam­hengi að stefnda Unnur hafði átt viðskipti við fyrirtæki þar sem stefnandi var stjórnarformaður. Í inngangi að greininni sem um ræðir er greint frá þessum viðskiptum, stefnandi er þar nafngreindur, sagt er frá kærunni á hendur stefnanda og því er lýst að hún hafi komið í kjölfarið á mikilli þrautagöngu stefndu, Unnar og Ragnars. Stefndu hafi keypt hús af stefnanda og fyrirtæki hans í maí á fyrra ári og þeim hafi verið tjáð að þau gætu flutt inn í nóvember sama ár, en greinin birtist 1. september 2008. Fram kemur að húsið, sem aleiga þeirra hafi farið í, hafi á þeim tíma staðið óklárað. Í umfjöllun blaðsins kemur greinilega fram að þar var einhliða skýrt frá málavöxtum, eins og þeir horfðu við stefndu, Unni og Ragnari, og byggt var á frásögn þeirra af þeim. Tekið var fram að ekki hefði tekist að ná í stefnanda. Daginn eftir var frásögn stefnanda af málavöxtum birt í blaðinu. 

Við úrlausn málsins ber að líta til þess að stefnandi verður að þola opna umræðu og opinbera umfjöllun um viðskipti sem hann stundar. Upplýsingar og umfjöllun um viðskipti verður ekki lögð að jöfnu við frásagnir af einkalífi eða einkamálefnum manna. Í þessu sambandi breytir engu þótt viðskipin hafi ekki verið við stefnanda sjálfan heldur við fyrirtækið sem hann var í fyrirsvari fyrir. Þá verður ekki talið að brotið hafi verið gegn reglum um friðhelgi einkalífs þótt fram komi í frásögn af þessum viðskiptum að stefnandi ætti þar hlut að máli eða að frásögnin varðaði viðskipti af öðrum vettvangi en þeim sem stefnandi er þekktur af. Uppsetning og tilvísun til þess að stefnandi sé þjóðþekkt persóna verður ekki talin ærumeiðandi, en ekki er fallist á að stefndu hafi með því farið út fyrir mörkin sem tjáningarfrelsinu eru sett með lögum. Hið meinta tjón, sem stefnandi vísar til, telst ekki staðfesting á því að brotið hafi verið gegn honum af hálfu stefndu á þann hátt sem stefnandi heldur fram. Fyrir liggur að deilurnar, sem sagt er frá í blaðagreininni, voru til komnar vegna ásakana af beggja hálfu um vanefndir samningsins sem hér um ræðir. Í hinu sam­þykkta kauptilboði segir að húsið sé selt samsett, þ.e. uppkomið án lóðar. Þessar deilur eru enn óleystar, en ætla verður að meginástæðan fyrir því hve erfiðlega hefur gengið að leysa úr þeim sé sú að í skilalýsingu eru skyldur kaup­anda varðandi tímasetningar á því sem hann átti að vera tilbúinn með ekki vel skil­greindar. Á þessum annmarka í skilalýsingunni hlýtur stefnandi að bera megin­ábyrgð þar sem ekki hefur annað komið fram en að lýsingin sé frá honum komin.

Samkvæmt lögregluskýrslu kærðu stefndu, Unnur og Ragnar, þjófnað á gámi eftir að gámurinn var fjarlægður af lóð þeirra, en í honum voru meðal annars eldhús- og baðtæki, innréttingar, hurðir og parket, sem allt átti að fara í húsið, eins og lýst er í umfjöllun blaðs­ins. Fyrir liggur að stefnandi lét fjarlægja gáminn án samráðs við stefndu, Unni og Ragnar, en hann taldi sér það heimilt vegna meintra skulda þeirra sem enn er ágrein­ingur um. Af hálfu stefndu, Unnar og Ragnars, er því haldið fram að stefnandi hafi enga heimild haft til að fjarlægja gáminn, enda hafi þau verið búin að greiða fyrir það sem í honum var. Í fyrirsögnum á forsíðu blaðsins og á bls. 8 til 9, svo og í undirfyrir­sögnum, kemur fram að hjón hafi kært stefnanda fyrir þjófnað eða þjófnað á gámi og að þau segðust hafa verið svikin um heimilið. Í texta á bls. 9 kemur fram að stefndu, Unnur og Ragnar, hafi kært stefnanda fyrir þjófnað, enda segðust þau hafa verið búin að greiða honum og hans mönnum allt samkvæmt samningi. Það sem þarna kemur fram er byggt á frásögn stefndu, Unnar og Ragnars, af málsatvikum, eins og þau horfa við þeim. Jafnframt er þarna um að ræða ályktanir sem dregnar eru af umdeildum málsatvikum sem lýst er í umfjöllun blaðsins um málið. Hér verður því hvorki fallist á að þarna sé um rangar full­yrð­ingar eða ósannaðar staðhæfingar að ræða, eins og haldið er fram af hálfu stefnanda. Þá verður heldur ekki talið að stefndu hafi með frásögninni af málsatvikum, eins og þau horfðu við stefndu, og ályktunum sem þar eru dregnar svo og birtingu þeirra, farið út fyrir þau mörk sem tjáningar­frelsinu eru sett með ­lögum. Ber með vísan til þess að sýkna stefndu, Unni, Ragnar, Benedikt og Reyni, af kröfu stefnanda um að dæmd verði dauð og ómerk ummælin sem tilgreind eru í 1. til 4. tl. og 13. til 14. tl. í lið 1) í kröfugerð stefnanda.

Ummælin í 5. tl. sama liðar kröfugerðar stefnanda verða ekki talin brjóta gegn ákvæðum laga, sem vísað er til af hálfu stefnanda, þegar litið er til þess að með þeim eru settar fram ályktanir um stefnanda, sem eru dregnar af samskiptum sem stefndu, Unnur og Ragnar, áttu við hann og lýst er í blaðagreininni. Ber með vísan til þess að sýkna stefndu, Unni, Ragnar, Benedikt og Reyni, af kröfu um að ummælin í þessum tölulið verði dæmd dauð og ómerk.      

Í 6. til 12. tl. og 15. tl. er málsatvikum lýst, eins og þau horfðu við stefndu, og sagt frá afleiðingum af því sem stefndu telja að hafi gerst í tengslum við kaupin á húsinu og í samskiptum stefndu, Unnar og Ragnars, við stefnanda. Hér verður að líta svo á að stefndu hafi verið heimilt að viðhafa  ummælin, sem þarna koma fram, enda verður ekki talið að með þeim hafi verið brotið gegn stefnanda með því að gengið hafi verið of langt eða farið út fyrir þau mörk sem tjáningar­frelsinu eru sett með lögum. Með vísan til þess er ekki fallist á að skilyrði séu til að dæma ummælin dauð og ómerk. Ber því að sýkna stefndu, Unni, Ragnar, Benedikt og Reyni, af kröfu stefnanda um að ummælin í þessum töluliðum verði dæmd dauð og ómerk.      

Þar sem stefndu hafa samkvæmt framangreindu verið sýknuð af kröfu stefnanda í öllum tl. liðar 1) eru ekki skilyrði til að dæma stefndu til að greiða stefnanda in solidum 500.000 krónur til að standa straum af kostnaði við birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í þremur dagblöðum. Ber því að sýkna þessa stefndu af kröfu stefnanda um þá greiðslu.

Með vísan til þess sem þegar hefur komið fram, að ekki er talið að gengið hafi verið of langt eða farið út fyrir þau mörk sem tjáningarfrelsinu eru sett með lögum er ekki fallist á að stefndu hafi framið ólögmæta meingerð gegn persónu eða æru stefnanda eða að athafnir stefndu geti á annan hátt talist ólögmætar. Ber með vísan til þess að sýkna stefndu, Unni, Ragnar, Benedikt og Reyni, af skaða- og miskabótakröfu stefnanda.

Þar sem þessir stefndu hafa verið sýknaðir af öllum fjárkröfum í málinu kemur ekki til þess að veitt verði aðfararheimild á hendur stefnda, Birtingi útgáfufélagi ehf., eins og stefnandi krefst. Með vísan til þess ber að sýkna hið stefnda félag af þeirri kröfu stefnanda. 

Dæma ber stefnanda til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála. Málskostnaður stefndu, Unnar og Ragnars, er ákveðinn í einu lagi samkvæmt 1. mgr. 132. gr. sömu laga og þykir hæfilegur 400.000 krónur. Málskostnaður annarra stefndu er ákveðinn handa hverjum fyrir sig samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar. Málskostnaður stefndu, Benedikts og Reynis, þykir hæfilega ákveðinn fyrir hvorn þeirra 150.000 krónur en fyrir stefnda, Birting útgáfufélag ehf., 50.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til þess að frávísunarkröfum stefndu var hafnað.

Dóminn kveður upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

                                                                     D ó m s o r ð:

Stefndu, Unnur Valdemarsdóttir, Ragnar Kristinn Árnason, Benedikt Bóas Hinriksson, Reynir Traustason og Birtingur útgáfufélag ehf., eru sýknuð af öllum kröfum stefnanda, Viggós Valdemars Sigurðssonar, í málinu.

Stefnandi greiði stefndu, Unni og Ragnari, 400.000 krónur í málskostnað, stefnda Benedikt 150.000 krónur, stefnda Reyni 150.000 krónur og Birtingi útgáfufélagi ehf. 50.000 krónur.