Hæstiréttur íslands
Mál nr. 357/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
- Málskostnaður
|
|
Mánudaginn 27. ágúst 2007. |
|
Nr. 357/2007. |
Dánarbú M(Lárentsínus Kristjánsson hrl.) gegn K(Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti að hluta. Málskostnaður.
Dánarbú M kærði til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um nánar tilgreind atriði við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar K og M. Dánarbúið gætti þess í engu að greina í kæru þær ástæður sem hún var reist á. Úr þeim annmarka var ekki bætt þótt málsástæðum búsins hefðu verið gerð skil í greinargerð fyrir Hæstarétti enda hafði K þá þegar lokið málflutningi af sinni hendi innan frests samkvæmt 1. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991. Var því ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti að því er varðaði málskot dánarbúsins. Þá var dánarbúinu gert að greiða K málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 26. júní 2007, þar sem leyst var úr ágreiningi um nánar tilgreind atriði við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar varnaraðila og M. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að „hinum kærða úrskurði verði hrundið, dómkröfur hans í héraði verði teknar til greina og loks að sóknaraðila verði tildæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti úr hendi varnaraðila að mati réttarins.“
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 5. júlí 2007. Hún krefst þess að málinu verði vísað frá Hæstarétti að því er varðar kæru sóknaraðila, en að öðru leyti verði hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað, sem hún krefst í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Í kæru sóknaraðila, sem barst héraðsdómi 27. júní 2007, var vísað til þess að hún varði tiltekið dómsmál hans og varnaraðila. Að öðru leyti var meginmál þessa skjals svohljóðandi: „Hér með er kærður til Hæstaréttar Íslands úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra í ofangreindu máli frá 26. júní sl. Fyrir Hæstarétti verður gerð sú krafa að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kröfur sóknaraðila í héraði teknar til greina. Sérstök greinargerð verður send til Hæstaréttar vegna málsins þar sem nánari grein verður gerð fyrir kröfum og málsástæðum sóknaraðila. Kærugjald hefur verið greitt, sbr. meðfylgjandi kvittun.“ Samkvæmt c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991, sem gildir um meðferð þessa máls, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991, skal í kæru meðal annars greina ástæður, sem hún er reist á. Þessa gætti sóknaraðili í engu. Úr þeim annmarka var ekki bætt þótt málsástæðum hans hafi verið gerð skil í greinargerð fyrir Hæstarétti frá 17. júlí 2007, enda hafði varnaraðili þá þegar lokið málflutningi af sinni hendi innan frests samkvæmt 1. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991. Verður því ekki komist hjá að vísa málinu frá Hæstarétti að því er varðar málskot sóknaraðila.
Eins og áður greinir kærði varnaraðili úrskurð héraðsdómara til endurskoðunar á niðurstöðu hans um málskostnað, en krefst að öðru leyti að úrskurðurinn verði staðfestur. Með vísan til 1. mgr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti stendur hinn kærði úrskurður óraskaður.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar kæru sóknaraðila, dánarbús M.
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, K, samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 26. júní 2007.
I
Mál þetta var þingfest 13. febrúar sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 14. júní sl.
Sóknaraðili er dánarbú M, [...], Borgarnesi.
Varnaraðili er K, [heimilisfang].
Sóknaraðili krefst þess aðallega að við úthlutun í skiptamálinu D-2/2003 komi helmingur af þeirri fjárhæð sem til úthlutunar er í hlut sóknaraðila þegar tekið hefur verið tillit til ógreidds skiptakostnaðar og 719.257 króna greiðslu til sóknaraðila.
Til vara krefst sóknaraðili þess að við úthlutun í skiptamálinu D-2/2003 komi helmingur af þeirri fjárhæð sem til úthlutunar er í hlut sóknaraðila þegar tekið hefur verið tillit til ógreidds skiptakostnaðar.
Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að við úthlutun í skiptamálinu D-2/2003 komi 29,96% af þeirri fjárhæð sem til úthlutunar er í hlut sóknaraðila þegar tekið hefur verið tillit til ógreidds skiptakostnaðar og 719.257 króna greiðslu til sóknaraðila.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Varnaraðili krefst þess aðallega að við úthlutun í skiptamálinu D-2/2003 komi 88,39% af þeirri fjárhæð sem til úthlutunar er í hlut varnaraðila þegar tekið hefur verið tillit til ógreidds skiptakostnaðar og greiðslu að fjárhæð 719.257 krónur til sóknaraðila og greiðslu að fjárhæð 265.667 krónur til varnaraðila.
Til vara krefst varnaraðili þess að við úthlutun í skiptamálinu D-2/2003 komi 70,04% af þeirri fjárhæð sem til úthlutunar er í hlut varnaraðila þegar tekið hefur verið tillit til ógreidds skiptakostnaðar og greiðslu að fjárhæð 719.257 krónur til sóknaraðila og greiðslu að fjárhæð 603.167 krónur til varnaraðila.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.
II
Málavextir
Varnaraðili, K og M, gengu í hjónaband [...] 1999 en samvistarslit urðu [...] 2002. Úrskurður um skilnað að borði og sæng var síðan kveðinn upp [...] 2003. Tilraunir til að ná sáttum um eignaskiptingu og annað fyrirkomulag vegna hjónaskilnaðar báru ekki árangur og fór svo að hinn 17. mars 2003 var kveðinn upp úrskurður um opinber skipti til fjárslita á milli þeirra. Jón Sigfús Sigurjónsson héraðsdómslögmaður var sama dag skipaður skiptastjóri. M lést 2. apríl 2006 og með úrskurði 14. júní 2006 var dánarbú hans tekið til opinberra skipta. Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður var skipaður skiptastjóri dánarbúsins. Innköllun var birt í Lögbirtingablaðinu og eftir lok kröfulýsingarfrests þótti ljóst með hliðsjón af lýstum kröfum og eignastöðu dánarbúsins að eignir nægðu ekki fyrir skuldum. Var því tekin sú ákvörðun á skiptafundi 6. nóvember 2006 að fara með búið sem þrotabú og frá þeim fundi hefur verið farið með búið á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Allmargir skiptafundir voru haldnir með aðilum og lögmönnum þeirra en illa gekk að ná samkomulagi um skiptin. Af gögnum málsins má ráða að allnokkur vinna var lögð í að ljúka skiptum með samkomulagi. Þannig má sjá af endurriti fundargerðar skiptafundar sem haldinn var hinn 18. mars 2004 að aðilar lýsa því yfir að samkomulag hefði náðst um að bætur til M, að fjárhæð 3.950.585 krónur, og hlutabréfaeign hans hjá Hagal yrðu metnar sem hans séreignir. Þá hafi aðilar samið um að arfur eftir son varnaraðila félli óskiptur til hennar. Einnig náðist samkomulag um að M greiddi varnaraðila lífeyri og framfærslueyri samkvæmt úrskurði sýslumanns, en annars ættu skuldir að skiptast að jöfnu á milli aðila. Loks var samkomulag um að M fengi fasteignina að [...] útlagða til sín. Skuldir á nafni M eru samkvæmt gögnum máls 4.756.124 krónur en á nafni varnaraðila 4.036.867 krónur. Til að jafna skuldastöðu sín á milli sömdu aðilar um að varnaraðili greiddi sóknaraðila 719.257 krónur en þessi fjárhæð er mismunur á skuldum sem skráðar eru á nöfn hvors um sig. Á þennan fund mættu báðir aðilar ásamt lögmönnum sínum og rituðu allir nöfn sín á fundargerðina.
Í fundargerð skiptafundar 9. júní 2004 kemur fram að borið hafi á nokkrum misskilningi um túlkun á efnisatriðum samkomulagsins frá 18. mars s.á. Fór skiptastjóri yfir það samkomulag sem rakið var í átta tölusettum liðum. Farið var yfir hvern einstakan lið samkomulagsins og hann ræddur og útskýrður eins og tilefni var til. Eftir þessa yfirferð varð niðurstaðan sú að öll atriði samkomulagsins voru staðfest rétt og jafnframt staðfest að enginn misskilningur ríkti um túlkun einstakra liða. Eftir að tekið hafði verið tillit til greiðslna sem skiptastjóri hafði innt af hendi til aðila og hækkunar á séreignarhluta sóknaraðila í fasteigninni að [...] varð niðurstaðan sú að sú fjárhæð sem enn var til skipta ætti að skiptast þannig að sóknaraðili fengi í sinn hlut 11,61% en 89,39% kæmu í hlut varnaraðila. Þennan fund sótti varnaraðili án lögmanns en lögmaður M mætti á fundinn fyrir hans hönd. Fundargerð fundarins er undirrituð af lögmanni M, varnaraðila og skiptastjóra. Næst er haldinn skiptafundur 16. september 2004 en þann fund sækja ekki aðrir en skiptastjóri og varnaraðili.
Í fundargerð skiptafundar 11. mars 2005 leggur skiptastjóri til með vísan til skiptafundar sem haldinn var 18. mars 2004 að erfðafjárskattur, sem fengist hafði endurgreiddur, félli allur til varnaraðila. Einnig lagði skiptastjóri það til með vísan til samþykktar á fundi frá 9. júní 2004 að skiptingin yrði í þeim hlutföllum sem þar eru tilgreind. Frá hlut M ætti þó að draga skuld hans við varnaraðila vegna ógreidds lífeyris og framfærslueyris samtals að fjárhæð 265.667 krónur. Einnig er bókað að næsti fundur yrði haldinn 1. apríl 2005 en aðilar væru sammála að fyrir þann fund hafi verið gerð lokatilraun til að ná sáttum um skiptalok. Á fundinn mættu varnaraðili án lögmanns og Inga Björk Hjaltadóttir héraðsdómslögmaður vegna M. Fundurinn sem boðaður var 1. apríl fór hins vegar ekki fram og var ekki haldinn skiptafundur fyrr en 27. nóvember 2006 og þá hafði dánarbú M tekið við aðild hans að málinu. Einhverra hluta vegna var samkomulagi þessu ekki hrint í framkvæmd.
Á skiptafundi í fjárslitamálinu 4. desember 2006 kom fram að skiptastjóri hefði í fórum sínum 3.958.665 krónur sem enn ætti eftir að skipta á milli aðila en þá hafi ekki verið tekið tillit til ógreidds skiptakostnaðar að fjárhæð um 300.000 krónur og 719.257 króna sem koma ættu í hlut sóknaraðila ásamt 265.667 krónum til varnaraðila. Fyrir liggur að skiptastjóri og varnaraðili telja að af þeirri fjárhæð sem enn er óskipt eigi 88,39% að koma í hlut varnaraðila en 11,61% í hlut sóknaraðila. Skiptastjóri í dánarbúi M sætti sig ekki við þessi hlutföll. Sáttaumleitanir tókust ekki og því er þetta mál rekið sem ágreiningsmál í tengslum við skiptin.
III
Málsástæður og lagarök
Sóknaraðili byggir kröfur sínar aðallega á því að hvorki M né lögmanni hans hafi verið heimilt að gefa svo mikið eftir sem raun var í fjárslitamáli milli hans og varnaraðila eftir að hjúskap þeirra lauk. Einnig sé skiptastjóra í þrotabúi M óheimilt að gefa svo mikið eftir í fjárslitamálinu líkt og tillaga skiptastjóra í því máli gerir ráð fyrir.
Sóknaraðili telur að í gögnum fjárslitamálsins sé hvergi að finna nákvæmt yfirlit yfir eignir og skuldir aðila, hvorum aðila þær tilheyrðu eða hverjar væru sameiginlegar. Slíkt yfirlit sé nauðsynlegt til glöggvunar á því hvaða fjárhæð skuli koma í hlut hvors aðila þegar til úthlutunar kemur. Hins vegar sé ljóst að helstu eignir aðila voru arfur sem hafði fallið aðilum í skaut eftir son varnaraðila og slysabætur sem sóknaraðili hafði fengið. Samkvæmt tillögu skiptastjóra hafi arfurinn verið mun hærri en slysabæturnar eða 9.236.483 krónur á móti 3.950.585 krónum og virðist ætlunin hafa verið að skipta öðrum fjármunum, sem til skipta kæmu, í sömu hlutföllum. Þetta hafi verið gert án þess að skoðað væri nákvæmlega hvaða skuldir tilheyrðu hvorum aðila. Telur sóknaraðili einnig að samkvæmt frumvarpi til úthlutunar úr dánarbúi sonar varnaraðila hafi arfshluti hennar verið 14.396.768 krónur en ekki 9.236.483 krónur. Aðilar fjárslitamálsins samþykktu að allur arfurinn kæmi í hlut varnaraðila og hafi því í raun hallað mun meira á sóknaraðila en lítur út fyrir samkvæmt tillögu skiptastjóra fjárslitamálsins að lokauppgjöri. Sóknaraðili heldur því fram að þrátt fyrir að skuldir sem tilheyrðu sóknaraðila kynnu að hafa verið hærri en skuldir varnaraðila réttlæti það ekki þann mikla mun sem fyrir hendi er samkvæmt úthlutun í fjárslitamálinu.
Sóknaraðili telur jafnframt að þrátt fyrir að samningsfrelsi ríki og aðilum hafi því að mestu leyti verið heimilt að semja um hvernig leyst skyldi úr fjárslitamálinu, sbr. 95. gr. laga nr. 31/1993, sé ljóst að sóknaraðila og lögmanni hans var ekki heimilt að gefa svo mikið eftir sem raun ber vitni þannig að kröfuhafar sóknaraðila fengju ekki kröfur sínar greiddar. Breyti það engu að aðilar hafi verið búnir að semja um einhver atriði; þar sem hallað hafi verulega og með mjög ósanngjörnum hætti á sóknaraðila sé þrotabú hans ekki bundið af slíku samkomulagi.
Sóknaraðili bendir á að hvort hjóna beri ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á því hvíli, hvort sem þær hafi stofnast fyrir hjúskapinn eða síðar, sbr. 67. gr. laga nr. 31/1993. Sóknaraðili kveðst ekki geta fallist á að eignir sem áttu að koma í hans hlut séu notaðar til greiðslu skulda varnaraðila þannig að mun minna komi í hlut sóknaraðila við fjárslitin. Sóknaraðili vísar einnig til 109. gr. laga nr. 20/1991 og telur að reglum þess ákvæðis hafi ekki verið fylgt við fjárslitin á milli aðila heldur hafi þvert á móti verið gengið verulega á hlut sóknaraðila bæði hvað varðar hlutdeild hans í eignum auk þess sem skuldir, sem sannanlega tilheyrðu varnaraðila, hafi verið dregnar frá hans eignarhlut.
Sóknaraðili telur hvað eignir varðar að arfur, sem samkvæmt tillögu skiptastjóra skyldi allur koma í hlut varnaraðila, hafi verið hjúskapareign og því hefði hann átt að koma til skipta, sbr. 54. gr. laga nr. 31/1993. Varðandi skuldir bendir sóknaraðili á að á skiptafundi 9. júní 2004 hafi verið ákveðið að sóknaraðili fengi greiddar 2.000.000 króna en af þeirri fjárhæð skyldi 1.250.000 krónum varið í að greiða skuldir á nafni varnaraðila sem hvíldu á fasteign aðila að [...]. Sóknaraðili telur að með þessu hafi verið gengið á rétt hans og hagsmunir kröfuhafa hans sniðgengnir. Hvorki skiptastjóri í fjárslitamálinu né varnaraðili hafa getað gert grein fyrir því hvers vegna hafi verið gengið svo mjög á rétt sóknaraðila í fjárslitamálinu meðan sóknaraðili var á lífi né hvers vegna lagt er til að þeir fjármunir sem eftir eru til úthlutunar í fjárslitamálinu skuli skipt í hlutföllunum 88,39% í hlut varnaraðila á móti 11,61% í hlut sóknaraðila. Þessi tillaga sé því órökstudd en byggist hugsanlega á mjög ósanngjörnu samkomulagi aðila sem hafi verið gert er M heitinn var á lífi. Sóknaraðili telur að í raun hafi M ekki verið bær til að ganga svo freklega á rétt sinn til eigna í fjárslitamálinu. Enda hafi komið í ljós að eignir hans nægja ekki fyrir skuldum og því er nú eftir andlát hans farið með bú hans sem þrotabú. Að mati sóknaraðila hefur verið gengið gegn öllum reglum um jafnræði aðila, sem og kröfuhafa.
Vegna alls þessa telur sóknaraðili að ekki verði annað séð en að á hann hafi verulega hallað, bæði við úthlutun eigna og við greiðslu skulda í fjárslitamálinu.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til 54., 67. og 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, 109. gr. laga nr. 20/1991 og þeirrar meginreglu gjaldþrotaréttar að ekki sé heimilt að mismuna kröfuhöfum eða jafnvel sniðganga rétt þeirra algjörlega með gjafagerningum eða á annan sambærilegan hátt, sbr. XX. kafla laga nr. 21/1991. Kröfu um málskostnað styður sóknaraðili við 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Til stuðnings kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað vísar stefndi til laga nr. 50/1988 en sóknaraðili er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber því nauðsyn til að fá greiðslu virðisaukaskatts úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili byggir aðalkröfu sína á því að aðilar hafi komist að bindandi samkomulagi varðandi uppgjör á fjárskiptum sínum, sbr. fundargerðir skiptastjóra, dagsettar 18. mars 2004, 9. júní 2004 og 11. mars 2005. Í þessu sambandi vísar varnaraðili að auki til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993. Samningaviðræður hafi staðið yfir í heilt ár áður en samkomulag náðist og leggja beri það til grundvallar, enda sé um skýran vilja aðilanna beggja að ræða. Andlát M geti í engu breytt skuldbindingargildi samkomulagsins og varnaraðili hafnar því að M eða þáverandi lögmaður hans hafi ekki haft heimild til að semja með þeim hætti sem raun varð. Sóknaraðili sé bundinn af þessu samkomulagi og að ljúka beri skiptum á grundvelli þess.
Varnaraðili telur með vísan til endurrita framangreindra skiptafunda að aðilar hafi komist að þeirri niðurstöðu að af þeirri upphæð sem enn er óskipt ætti að skipta þannig að hlutur sóknaraðila væri 11,6% en hlutur varnaraðila 88,39% þegar tekið hefði verið tillit til ógreidds skiptakostnaðar og greiðslu til sóknaraðila að fjárhæð 719.257 krónur, og greiðslu að fjárhæð 256.667 krónur til varnaraðila. Var niðurstaða þessi reist á því að örorkubætur M heitins að fjárhæð 3.950.585 krónur töldust séreign hans ásamt hlutabréfaeign hans hjá Hagal og að arfur eftir son varnaraðila félli óskiptur til hennar. Þá féllust aðilar á að M greiddi varnaraðila lífeyri og framfærslueyri, samtals að fjárhæð 265.667 krónur.
Varnaraðili hafnar því sem röngu og ósönnuðu að hallað hafi með einhverjum hætti á sóknaraðila við framangreind skipti. Fyrir liggi í málinu að til eigna búsins töldust eignarhluti aðila í fasteigninni [...], örorkubætur M heitins að fjárhæð 3.950.585 krónur sem notaðar voru sem útborgun í eignina, þar með talin lokagreiðsla vegna sölu á fasteign í eigu varnaraðila í Reykjavík, að fjárhæð 1.413.102 krónur, og arfshluti varnaraðila að fjárhæð 14.396.768 krónur. Samkomulag hafi verið milli aðila þess efnis að örorkubætur sóknaraðila og arfshluti varnaraðila skyldu teljast til séreigna hvors um sig og þar með hafi langstærstum hluta eignanna verið skipt. Þá hafi verið samkomulag milli aðila um að afganginum af eignunum yrði skipt í sömu hlutföllum og örorkubótum og arfi var skipt. Aðilum hafi verið þetta heimilt samkvæmt meginreglu hjúskaparlaga um samningsfrelsi hjóna við skipti á eignum sínum, sbr. 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, og beri gögn málsins það skýrt með sér hver vilji aðila hafi verið. Varnaraðili bendir á að óumdeilt og viðurkennt sé af hálfu sóknaraðila að um þetta hafi verið samið og ekki sé á því byggt af hálfu sóknaraðila að aðilar hafi samið á annan veg heldur eingöngu að M heitnum hafi ekki verið þetta heimilt. Að mati varnaraðila er fráleitt að M hafi með þessu verið að reyna að koma eignum undan meintum fyrirhuguðum gjaldþrotaskiptum. Ekkert liggi fyrir í málinu sem bendi til þess að bú M hafi stefnt í þrot og því útilokað að leggja þann skilning á málið sem sóknaraðili gerir, auk þess sem gögn málsins bera það skýrt með sér hver vilji aðila var fyrir samkomulaginu.
Varnaraðili segir sóknaraðila rökstyðja sjónarmið sín um ósanngirni með því m.a. að ákveðið hafi verið að M skyldi fá greiddar 2.000.000 króna úr búinu en að stórum hluta þeirrar fjárhæðar, eða um 1.250.000 krónum, skyldi varið til að greiða skuld á nafni varnaraðila sem hvíldi á fasteign aðila að [...]. Þetta telji sóknaraðili skjóta stoðum undir þá fullyrðingu sína að verulega hafi hallað á sóknaraðila við uppgjör aðila. Þessu hafnar varnaraðili alfarið og bendir á að þótt skuld þessi hafi verið á nafni varnaraðila þá hafi hún talist til sameiginlegra skulda aðila. Á skiptafundi hinn 9. júní 2004 hafi þáverandi lögmaður M viðurkennt að skuld þessi skyldi teljast til sameiginlegra skulda aðila, enda hefði hún komið til fyrir 27. desember 2002. Þetta hafi síðan verið ítrekað á skiptafundi hinn 11. mars 2005. Var því ekkert óeðlilegt við það að hún kæmi til greiðslu samkvæmt framansögðu og þaðan af síður geti þessi ráðstöfun talist skjóta stoðum undir sjónarmið sóknaraðila um ósanngirni. Þá bendir varnaraðili einnig á það að afgangurinn af framangreindri greiðslu, eða 750.000 krónur, hafi verið greiddur til M auk þess sem samþykkt hafi verið á skiptafundi hinn 9. júní 2004 að 1.000.000 króna skyldi koma til viðbótar séreignarhluta M í fasteigninni að [...]. Þá beri einnig að hafa huga að sóknaraðili fékk á sambúðartímanum greiddar slysabætur sem runnu í þá fasteign en varnaraðili hafi ekki krafist þess að þær bætur skyldu teljast til séreignar hennar við skiptin. Skýrir þetta meðal annars þau hlutföll sem að lokum réðu skiptingu eigna. Með hliðsjón af öllu framangreindu beri því að fallast á kröfur varnaraðila í málinu.
Varðandi varakröfu sína byggir varnaraðili á því að ótvírætt samkomulag hafi legið fyrir um skiptingu á grundvelli þeirra hlutfalla sem fram koma í varakröfu hans, sbr. fundargerðir skiptafunda frá 18. mars og 9. júní 2004, en þetta sé beinlínis viðurkennt af hálfu sóknaraðila. Er vísað til þeirra málsástæðna sem raktar hafa verið vegna aðalkröfu en þær eigi einnig við um varakröfu að breyttu breytanda. Auk þessa bendir varnaraðili á að samkvæmt samkomulagi sem lá fyrir hinn 9. júní 2004, sem miðaðist við skiptingu í hlutföllunum 70,04% á móti 29,96%, þá hafi sóknaraðila borið að greiða varnaraðila húsaleigu vegna afnota af [...] frá 1. janúar 2003 fram í mars 2004, 22.500 krónur á mánuði eða samtals 337.500 krónur. Varnaraðili kveðst hafa fallið frá kröfu sinni um húsaleigu síðar meir þegar samkomulag náðist um skiptingu í samræmi við aðalkröfu. Krafa um greiðslu húsaleigu standi hins vegar óhögguð verði samkomulag samkvæmt aðalkröfu ekki lagt til grundvallar.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til meginreglna hjúskaparlaga og samningaréttar um samningsfrelsi aðila við fjárskipti, sbr. þó sérstaklega 95. gr. laga nr. 31/1993. Þá vísar varnaraðili til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir. Vegna kröfu um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991. Varnaraðili er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og ber því að dæma henni virðisaukaskatt ofan á lögmannsþóknun.
IV
Niðurstaða
Mál þetta snýst um í hvaða hlutföllum skuli skipta þeirri fjárhæð sem enn er til úthlutunar í fjárskiptamáli milli aðila. Samkvæmt gögnum málsins eru 3.958.665 krónur til skipta en frá þeirri fjárhæð á eftir að draga eftirstöðvar skiptakostnaðar og fjárhæð sem samkomulag er um að greiða eigi sóknaraðila.
Í 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 kemur fram sú meginregla að hjón geti ráðið fjárskiptum sínum vegna skilnaðar til lykta með samningi. Allmargir skiptafundir hafa verið haldnir frá því að úrskurður um opinber skipti var kveðinn upp og þar til ágreiningi þessum var vísað til dómsins. Við athugun á fundargerðum skiptafundanna má ráða að hinn 18. mars 2004 hafði tekist samkomulag um skiptingu eigna. Í samkomulaginu er tekið fram að skiptastjóra sé falið að gera tillögu um uppgjör á grundvelli þess sem um var samið. Tillaga skiptastjóra að skiptingu eftirstöðva liggur fyrir 6. júní 2004 og gerir skiptastjóri þá ráð fyrir að hlutfallstala skiptanna verði þannig að í hlut sóknaraðila af óskiptu fé komi 29,96% en 70,04% komi í hlut varnaraðila. Þessi tillaga skiptastjóra er rædd á næsta skiptafundi sem haldinn var 9. júní en efni hans er rakið hér að framan en þar kemur m.a. fram að miðað við þær greiðslur sem inntar höfðu verið af hendi ættu hlutföllin að vera 11,61% í hlut sóknaraðila en afgangurinn í hlut varnaraðila. Varnaraðili og Jón Sigfús Sigurjónsson héraðsdómslögmaður gáfu skýrslu fyrir dóminum. Þau báru bæði að sameiginlegar skuldir aðila sem greiddar voru eftir að opinber skipti hófust hafi verið greiddar með fé sem kom til búsins sem arfur varnaraðila og sem greiðsla fyrir íbúð sem varnaraðili átti í Reykjavík. Jón Sigfús bar að aðilar hafi komið sér saman um að skipta því fé sem enn átti eftir að úthluta í réttum hlutföllum við slysabætur M og arf sem féll í skaut varnaraðila. Vitnið bar að hans skilningur væri sá að samþykki beggja aðila hefði verið fyrir þessari skiptingu og þá fannst honum þessi skipting ekki ósanngjörn. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki annað ráðið en að aðilar hafi í raun náð samkomulagi um skiptingu þess fjár sem um er deilt en á skiptafundinum hinn 9. júní voru ekki gerðar athugasemdir af hálfu sóknaraðila varðandi skiptingu fjárins. Það er því mat dómsins að samkomulag hafi tekist milli aðila um skiptingu í samræmi við tillögu skiptastjóra og breytir þá engu þótt einhverra hluta vegna hafi tafist að ganga frá því samkomulagi.
Í málinu hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fjárhagur M heitins hafi verið svo bágur á þeim tíma sem samkomulagið var gert að hætta væri á að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þó að aðstæður hafi síðar orðið þannig að nú er farið með dánarbú hans sem þrotabú, breytir það ekki skuldbindingargildi samkomulags þess sem áður var komið á og verður því ekki talið að honum eða lögmanni hans, fyrir hans hönd, hafi ekki verið heimilt að semja með þessum hætti. Ekki verður heldur séð að við gerð samkomulagsins hafi hallað á M með neinum hætti þar sem báðir aðilar höfðu lögmann sér við hlið þegar samið var um skiptingu. Er sóknaraðili jafn bundinn af þessu samkomulagi hvort sem farið er með bú hans sem þrotabú eða ekki.
Ber að leggja til grundvallar að bindandi samkomulag hafi komist á um skiptinguna 70,04% og 29,96% og verður sú skipting ekki talin ósanngjörn með vísan til þess sem að framan er sagt. Sú breyting sem varð á hlutföllum á skiptafundi 9. júní 2004, þannig að í hlut varnaraðila komi 88,39% af því fé sem til úthlutunar er en 11,61% í hlut varnaraðila, verður að teljast eðlileg að teknu tilliti til þeirra greiðslna sem skiptastjóri hafði innt af hendi. Samkvæmt framansögðu er fallist á aðalkröfu varnaraðila um að við fjárskipti milli aðila komi 88,39% af þeirri fjárhæð sem til úthlutunar er í hlut varnaraðila þegar tekið hefur verið tillit til ógreidds skiptakostnaðar og greiðslu að fjárhæð 719.257 krónur til sóknaraðila og greiðslu að fjárhæð 265.167 krónur til varnaraðila en sú greiðsla var einnig hluti af samkomulaginu.
Með hliðsjón af málsatvikum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður en af hálfu varnaraðila Haukur Örn Birgisson héraðsdómslögmaður.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Kröfum sóknaraðila, dánarbús M, er hafnað.
Krafa varnaraðila þess efnis að við úthlutun í skiptamálinu D-2/2003 komi 88,39% af þeirri fjárhæð sem til úthlutunar er í hlut varnaraðila þegar tekið hefur verið tillit til ógreidds skiptakostnaðar og greiðslu að fjárhæð 719.257 krónur til sóknaraðila og greiðslu að fjárhæð 265.667 krónur til varnaraðila, er tekin til greina.
Málskostnaður fellur niður.