Hæstiréttur íslands

Mál nr. 554/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 25. ágúst 2015.

Nr. 554/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Bjarki Þór Sveinsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. ágúst 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. ágúst 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. september 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að hann sæti ekki einangrun meðan á því stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot sem geta varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 155. gr. og 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. ágúst 2015.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að aðila, sem talinn er heita X, fd. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. september 2015, kl. 16:00 og að á þeim tíma verði kærða gert að sæta einangrun.

                Krafan er reist á a lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

                Lögregla telur að kærði sé undir grun um brot gegn 227. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Kærði mótmælir kröfunni.

                Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur m.a. fram að tilkynning hafi borist frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 20. ágúst 2015 vegna tveggja aðila sem grunur léki á að hefðuð ferðast á fölsuðum skilríkjum hingað til lands. Í viðræðum við lögreglu kvað kærði að með honum í för væri sonur hans. Þegar óskað hafi verið eftir því að þeir framvísuðu skilríkjum hafi kærði framvísað [...] kennivottorðum sem hann sagði að tilheyrðu sér og syni sínum. Þá hafi kærði einnig framvísað [...] ökuskírteini. Við rannsókn skilríkjasérfræðinga lögreglu hafi komið í ljós að skilríkin voru öll fölsuð. Samkvæmt skilríkjunum hafi drengurinn borið nafnið A, f.d [...] og kærði Y, f.d. [...].

                Í viðræðum við lögreglu hafi kærði sagst heita X, fd. [...] og sonur hans B, fd. [...]. Hafi kærði jafnframt viðurkennt að framangreind skilríki væru fölsuð. Ekki hafi verið unnt að ræða við drenginn sökum tungumálaörðugleika. Hafi kærði í framhaldinu óskað eftir hæli fyrir sig og drenginn. Við leit í farangri kærða hafi einnig fundist fæðingarvottorð á nafn C, fd. [...]. Samkvæmt fæðingarvottorðinu séu foreldrar C: D, faðir og móðir E.

                Eftir að hafa tekið ljósmyndir og fingraför af kærða og drengnum taldi lögregla að um hefðbundið hælismál væri að ræða. Í því ljósi að talið var að um væri að ræða föður og son hans hafi fulltrúi lögreglustjóra tekið þá ákvörðun að ekki yrði farið fram á gæsluvarðhald yfir aðilunum.

                Vegna rannsóknar á máli kærða og drengsins, einkum vegna þess að ekki hafi verið hægt að staðreyna í raun hver kærði og drengurinn voru, hafi lögregla sent fyrirspurnir til erlendra löggæsluyfirvalda. Síðdegis þann 20. ágúst sl. hafi lögreglu borist svör frá erlendum löggæsluyfirvöldum, þ.e. [...] og [...]. Hafi komið fram í svörunum sem lögreglu hafi borist að kærði, sem væri þekktur undir nafninu X og sæti komubanni til [...] til 27.01.2016 og til [...] til 01.03.2017. Í kjölfar þessarar  upplýsinga hafi verið send fyrirspurn til alþjóðalögreglunnar Interpol um hvort kærði væri þekktur í þeirra gagnagrunnum. Hafi lögreglu borist svar frá skrifstofu Interpol í [...] í gær, þann 21. ágúst 2015, um að kærði væri talinn ganga undir nafninu Z, f.d. [...]. Hafi ennfremur komið fram að drengurinn B væri þekktur sem C, f.d. [...] og að hann væri skráður af fjölskyldu sinni sem horfinn aðili síðan 1. mars 2015. Í svari Interpol hafi einnig komið fram að kærði væri grunaður um að hafa numið barnið á brott þann 1. mars 2015. Í svari Interpol hafi einnig fylgt ljósmyndir af barninu sem tilkynnt hafi verið horfið og þeim aðila sem talinn er hafa numið það á brott. Hafi rannsókn skilríkjasérfræðings lögreglu leitt í ljós að um er að ræða sömu aðila og hafi komið hingað til lands þann 20. ágúst sl.

                Þá hafi lögregla unnið að því frá 21. ágúst 2015 að afla nánari upplýsinga um kærða og drenginn sem var með honum í för hingað til lands þann 20. ágúst sl. Í því skyni hafi lögregla aflað upplýsinga um sakaferil kærða hjá erlendum yfirvöldum. Við þá skoðun hafi m.a. komið fram að kærði eigi sér nokkra sögu hjá yfirvöldum í [...] og [...]. Í [...] virðist sem kærði hafi m.a. hlotið dóm þann [...]2008 fyrir nauðgun. Hafi kærði hlotið 1746 daga fangelsisdóm, u.þ.b. 4,5 ár, fyrir verknaðinn. Þá hafi kærði áður verið grunaður um nauðganir í [...], brot gegn vopnalögum, brot gegn útlendingalöggjöf, mansal, rán og brottnám barns. Hafi kærða verið vísað brott frá [...] árið 2005 og sæti komubanni til 1. mars 2017 líkt og framan greini.  Í [...] hafi kærða verið vísað brott þann 20. júní 1995 og meinuð endurkoma til þann 20. júní 1995 vegna meintrar nauðgunar og vopnalagabrots.

                Kærði hafi verið yfirheyrður einu sinni vegna málsins, þ.e. þann 21. ágúst sl. Við yfirheyrsluna hafi kærði sagst vera faðir drengsins og talið sig hafa fulla heimild til að ferðast með hann. Að mati lögreglu séu skýringar þær, sem kærði gaf við skýrslutökuna, ótrúverðugar, enda hafi hann þurft að leiðrétta sig varðandi það hvað meint barnsmóðir hans heiti. Hann hafi greint frá því barnsmóðir hans væri látin en hafi dregið það síðar til baka. Þá hafi kærði jafnframt greint frá því, eftir að hafa verið spurður tvívegis, að ekki hefðu verið höfð afskipti af honum af erlendum yfirvöldum. Er það í verulegu ósamræmi við það sem fram hafi komið í svörum frá [...] og [...] yfirvöldum. Þá telji lögregla einnig að skýringar kærða á komu hans hingað til lands séu ótrúverðugar en kærði hafi greint frá því að hann væri hingað kominn til að hitta vin sinn, þ.e. fyrrverandi nágranna sinn frá [...]. Sá aðili heiti F og væri íslenskur ríkisborgari. Aðspurður um það hvernig kærði ætlaði sér að koma sér í samband við F kvaðst hann ekki hafa símanúmer eða heimilisfang hér á landi en ætlaði sér engu að síður að finna hann. Við skoðun í þjóðskrá hafi komið í ljós að enginn sé skráður hér á landi með þessu nafni. Aðspurður um nafnið á drengnum sem hafi verið með honum í för kvað kærði hann heita B. Þegar lögregla hafi borið undir hann að það væri ekki það nafn sem lögregla taldi eiga við drenginn heldur C hafi hann breytt frásögn sinni og sagði það vera rétt nafn drengsins.

                Í ljósi alls framangreinds telur lögregla að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði sé ekki faðir drengsins heldur að drengurinn hafi verið numinn á brott frá heimili sínu og kunni að vera fórnarlamb mansals.

                Rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Miði rannsókn lögreglu einkum að því að upplýsa um tengsl á milli kærða og drengsins og hver fari með forsjá hans. Hafir lögregla þegar verið í miklum samskiptum við erlend löggæsluyfirvöld, einkum skrifstofu Interpol í [...] og búist lögregla við ítarlegri svörum frá þeim á næstu dögum. Þá vinni lögregla einnig að því að rannsaka ferðaleið kærða og drengsins hingað til lands og hugsanleg ferðalög þeirra erlendis.

                Líkt og áður segir telji lögregla sig hafa rökstuddan grun um að drengurinn kunni að vera fórnarlamb mansals og að hann kunni af þeim sökum að vera í afar viðkvæmri stöðu líkt og yfirleitt sé með fórnarlömb mansals. Af þeim sökum hafi lögregla enn ekki tekið formlega skýrslu af drengnum. Hann sé nú í umsjón barnaverndaryfirvalda í [...] í samvinnu við Barnaverndarstofu þar sem honum er tryggð sú aðstoð sem hann þurfi á að halda. Þau brot, sem kærði liggi undir grun um að hafa framið eða tekið þátt í fremja, varði að mati lögreglu við 155. gr. og 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og f. og h. lið 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. útlendingalaga nr. 96/2002 en við brotum gegn þessum ákvæðum liggi allt að 12 ára fangelsi. Lögregla telji sig þurfa svigrúm til að rannsaka málið nánar áður en kærði verði látinn laus úr haldi lögreglu. Þá telji lögregla að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og geti haft áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telji lögregla verulega hættu á að kærði kunni að reyna að hafa áhrif á drenginn gangi hann laus.   

                Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála, 155. og 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og f. og h. lið 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. útlendingalaga nr. 96/2002 telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. september 2015 kl. 16:00 og að kærði sæti einangrun á þeim tíma.

                Samkvæmt rannsóknargögnum er kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn másins er á frumstigi og ætla má að kærði geti torveldað rannsókn málins gangi hann laus. Að þessu virtu eru skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og b liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 uppfyllt í málinu. Er fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi á þann hátt sem í úrskurðarorði greinir.

                Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, fd. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. september  nk. kl. 16:00.

                Kærða er gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.