Hæstiréttur íslands
Mál nr. 214/2010
Lykilorð
- Málskostnaðartrygging
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 25. nóvember 2010. |
|
Nr. 214/2010. |
Byggingafélagið Byggðavík ehf. (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Fjórum félögum ehf. (Óskar Sigurðsson hrl.) |
Málskostnaðartrygging. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Máli B ehf. gegn F ehf. var vísað frá Hæstarétti þar sem málskostnaðartrygging var ekki afhent innan frests sem B ehf. hafði til að afhenda trygginguna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. apríl 2010. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.672.114 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. maí 2005 til 3. júní sama ár, af 301.690 krónum frá þeim degi til 19. september 2005, en af 3.672.114 krónum frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krafðist þess með bréfi 4. október 2010, með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að áfrýjanda yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Fallist var á þá kröfu með ákvörðun réttarins 2. nóvember 2010. Fjárhæð málskostnaðartryggingar var ákveðin 600.000 krónur og áfrýjanda veittur tveggja vikna frestur til að afhenda skilríki fyrir henni. Þau hafa ekki verið afhent í samræmi við ákvörðun réttarins.
Með vísan til 3. mgr. 133. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991, verður málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Áfrýjandi, Byggingafélagið Byggðavík ehf., greiði stefnda, Fjórum félögum ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.