Hæstiréttur íslands
Mál nr. 141/2000
Lykilorð
- Fjársvik
- Þjófnaður
- Eignaspjöll
- Nytjastuldur
- Ölvunarakstur
- Akstur sviptur ökurétti
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 14. september 2000. |
|
Nr. 141/2000. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Hlyni Má Jónssyni (Sigurður Jónsson hrl.) |
Fjársvik. Þjófnaður. Eignaspjöll. Nytjastuldur. Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Skilorð.
H var ákærður fyrir fjársvik, þjófnað, eignaspjöll, nytjastuld, ölvunarakstur og akstur án ökuréttar og gekkst hann við sakargiftum. Var hann sviptur ökurétti og dæmdur til greiðslu skaðabóta auk fangelsisrefsingar, en hluti refsingarinnar var skilorðsbundinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. mars 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing, sem ákærða var gerð með héraðsdómi, verði þyngd, en niðurstaða héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og greiðslu skaðabóta staðfest.
Ákærði krefst þess að refsing og önnur viðurlög verði milduð.
Í málinu eru ákærða gefin að sök brot, sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi, gegn 244. gr., 248. gr., 1. mgr. 257. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo og að hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum með því að hafa ekið bifreið ölvaður og sviptur ökurétti. Vínandamagn í blóðsýni úr ákærða reyndist vera 1,20o/oo. Ákærði gekkst við sakargiftum fyrir héraðsdómi. Hann unir sakfellingu og skyldu til greiðslu bóta samkvæmt hinum áfrýjaða dómi, en leitar endurskoðunar á viðurlögum.
Að virtum sakferli ákærða og gættum ákvæðum 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans samkvæmt hinum áfrýjaða dómi, fimm mánaða fangelsi, hæfilega ákveðin. Er rétt að fresta fullnustu tveggja mánaða þeirrar refsingar haldi ákærði almennt skilorð, eins og nánar greinir í dómsorði. Að öðru leyti skal héraðsdómur vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Ákærði, Hlynur Már Jónsson, sæti fangelsi í fimm mánuði. Skal fresta fullnustu tveggja mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar, greiðslu skaðabóta og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.
Dómur héraðsdómi Suðurlands föstudaginn 25. febrúar 2000.
Mál þetta var höfðað með ákæru Sýslumannsins í Vestmannaeyjum, dagsettri 5. janúar sl., á hendi Hlyni Má Jónssyni, kt. 270980-4229, Helgafellsbraut 31, Vestmannaeyjum. Ákæran er í fjórum liðum, svohljóðandi:
" I. Fyrir fjársvik með því að hafa, síðdegis laugardaginn 3. apríl 1999 látið afgreiðslustúlku á bensínstöð Olís í Grindavík fylla bifreið sína, VU 718, af bensíni fyrir alls kr. 3.800,- án þess að hafa möguleika á að greiða fyrir það og ekið á brott af bensínstöðinni án frekari skýringa.
II. Fyrir þjófnað með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 7. ágúst 1999 farið inn í bifreiðina SK 656 sem er í eigu Svavars Arnar Guðmundssonar, kt. 050481-4689 og stolið þaðan 29 geisladiskum, þar sem bifreiðin stóð ólæst fyrir utan Kirkjuveg 57, Vestmannaeyjum.
III. Fyrir þjófnað og eignaspjöll með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 15. ágúst 1999, rifið niður og skemmt tvær myndavélar í hraðbanka Íslandsbanka við Kirkjuveg í Vestmannaeyjum, stolið annarri vélinni, en hin hékk eftir á vírtengingu.
IV. Fyrir þjófnað, eignaspjöll, nytjastuld og umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 14. október 1999, brotist inn á Bílaverkstæði Harðar og Matta við Básaskersbryggju í Vestmannaeyjum með því að brjóta einfalda rúðu næst útidyrum verkstæðisins, tekið í heimildarleysi bifreiðina ZU 448 þar sem hún stóð sunnan við verkstæðið og ekið henni undir áhrifum áfengis og sviptur ökuréttindum um götur í Vestmannaeyjabæ uns hann keyrði henni upp í brekku við gönguslóð upp á Eldfell, sunnan við gryfjuna milli Sorpu og Eldfells.
V. fyrir þjófnað og eignaspjöll með því að hafa síðar sömu nótt farið inn í bifreiðina RH 275 þar sem hún stóð við Nýjabæjarbraut 10 í Vestmannaeyjum og stolið þaðan einum geisladisk, skemmt annan og rifið niður baksýnisspegil bifreiðarinnar.
Teljast liðir II - V varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 frá 1940, liður I telst varða við 248. gr. sömu laga, en liðir III - V að auki við 1. mgr. 257. gr. sömu laga og liður IV við 1. mgr. 259. gr. sömu laga og 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50 frá 1987."
Ákæruvald krefst refsingar og sviptingar ökuréttar.
Þá eru hafðar uppi þessar bótakröfur:
Íslandsbanki hf., Vestmannaeyjum, krefst bóta vegna þjófnaðar og skemmdarverka í hraðbanka við Kirkjuveg, kr. 96.931.
Tryggingamiðstöðin hf., Vestmannaeyjum, vegna innbrots í bifreiðaverkstæði Harðar og Matta, kr. 46.703 auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi og síðan dráttarvaxta til greiðsludags.
Jóhannes Þór Sigurðsson, kt. 061068-5549, vegna þjófnaðar og eignaspjalla í bifreiðinni RH 275, kr. 6.000.
Ákærði krefst vægustu refsingar er lög leyfa. Hann krefst þess að bótakröfum Íslandsbanka hf. og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. verði vísað frá dómi. Hann samþykkir bótakröfu Jóhannes Þórs Sigurðssonar.
Málið var dómtekið 9. þessa mánaðar.
Fyrir dómi játaði ákærði brot sín öll sem rakin eru í ákæru. Ekki er nauðsynlegt að reifa málsatvik nánar en segir í ákæru, sbr. 125. gr. laga nr. 19/1991. Taka ber þó fram að rannsakað var blóðsýni úr ákærða vegna brots þess sem greinir í IV. lið ákæru, en alkóhómagn í því reyndist 1,84.
Ákærði kvaðst hafa verið í mikilli óreglu í eitt ár og séu brotin öll framin er hann hefur verið undir áhrifum áfengis. Hann hafi farið á Vog í októbermánuði síðastliðnum, fljótlega eftir að hann framdi brot þau sem talin eru í ákæruliðum IV og V. Þaðan hafi hann farið til dvalar að Staðarfelli. Hann sé að reyna að vinna bug á áfengisfíkn sinni og kveðst nú sækja reglulega AA-fundi í Vestmannaeyjum.
Ákærði hefur tvívegis verið dæmdur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Í dómi 3. febrúar 1997 var refsing hans ákveðin fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár. Í dómi 14. júlí 1999 var þessi refsing tekin upp og ákveðin að nýju fangelsisrefsing, í þrjá mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár. Í síðargreinda dóminum var hann auk þjófnaðar sakfelldur fyrir hraðakstur, að aka ölvaður og sviptur ökuréttindum, auk brota gegn lögreglusamþykkt. Var hann auk hinnar skilorðsbundnu fangelsisrefsingar dæmdur til að greiða 175.000 krónur í sekt og sviptur ökurétti í 15 mánuði.
Brot samkvæmt I. lið ákæru var framið áður en síðastgreindur dómur var kveðinn upp og birtur, en önnur brot á eftir. Verður að ákveða refsingu ákærða samkvæmt reglum 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Er hún hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Þetta er í þriðja sinn sem ákærði er sakfelldur fyrir hegningarlagabrot, auk annarra brota, þ.á.m. margítrekaðra umferðarlagabrota. En þar sem ákærði er ungur og hefur sýnt vilja til að snúa af þeirri afbrotabraut sem hann var kominn út á, er rétt að skilorðsbinda fjóra mánuði af refsingunni með almennu skilorði. Skilorðstími skal vera þrjú ár.
Ölvunarakstursbrot ákærða er ítrekað. Í dóminum 14. júlí 1999 var hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga Því verður hann nú sviptur ökurétti í tvö ár. Sviptingartími telst frá 18. október 2000, en þá lýkur 15 mánaða sviptingu samkvæmt áðurgreindum dómi.
Ákærði samþykkir bótakröfu Jóhannes Þórs Sigurðssonar og verður hún dæmd.
Bótakrafa Tryggingamiðstöðvarinnar er vegna skemmda er urðu á Bifreiðaverkstæða Harðar og Matta og fjallað er um í IV lið ákæru. Krafan er ekki studd sérstökum gögnum, en með rannsóknargögnum sýnist nægilega sýnt fram á þær skemmdir sem unnar voru og ekki er ástæða til að draga reikningsgerð tryggingafélagsins í efa. Verður krafan dæmd eins og hún er gerð.
Bótakrafa Íslandsbanka hf. styðst við áætlun Þórarins Sigurðssonar hjá Geisla, Flötum 29, um kostnað við viðgerð og uppsetningu, sem nemur 37.500 krónum. Þá er tilboð frá Securitas ehf. um nýja myndavél, samtals 17.831 króna. Loks er óskýrður liður undir nafninu Íslandsbanki 41.600 krónur. Fallast ber á áætlaðan viðgerðarkostnað, en að öðru leyti er krafan vanreifuð, en ekki er upplýst að nauðsynlegt hafi verið að fá nýja myndavél, þar sem hin eldri komst til skila. Þá er ekki gerð grein fyrir beinum kostnaði bótakrefjanda.
Sakarkostnað allan ber ákærða að greiða, málsvarnarlaun eru ákveðin 40.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Hlynur Már Jónsson, sæti fangelsi í fimm mánuði. Fresta skal fullnustu fjögurra mánaða af refsingunni og skal sá hluti falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá 18. október 2000 að telja.
Ákærði greiði Jóhannesi Þór Sigurðssyni 6.000 krónur.
Ákærði greiði Tryggingamiðstöðinni hf. 46.703 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 14. október 1999 til 25. febrúar 2000, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði Íslandsbanka hf. 37.500 krónur. Að öðru leyti er bótakröfu þessa aðila vísað frá dómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun, 40.000 krónur.