Hæstiréttur íslands
Mál nr. 26/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Greiðslustöðvun
|
|
Föstudaginn 31. janúar 2003. |
|
Nr. 26/2003. |
Plastiðjan ehf. (Sigurður Georgsson hrl.) gegn Íslenska vatnsfélaginu ehf. (Reinhold Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Greiðslustöðvun.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni Í um áframhaldandi greiðslustöðvun. Talið var að af þeim gögnum sem Í hafði lagt fyrir héraðsdóm þegar hann leitaði heimildar til greiðslustöðvunar og síðar framlengingar á þeirri heimild, yrði ekki ráðið sem skyldi hvað valdið hafi fjárhagsörðugleikum Í. Í þessum gögnum yrðu ekki fundnar upplýsingar um fjárhag Í nema að takmörkuðu leyti. Væri ekki fullnægt þeim kröfum, sem gera yrði til upplýsinga af hendi skuldara samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þóttu slíkir brestir á málatilbúnaði Í að óhjákvæmilegt væri að hafna beiðni hans um áframhaldandi greiðslustöðvun. Þá var fundið að því, að með hinum kærða úrskurði hafi héraðsdómari ekki markað heimild Í til áframhaldandi greiðslustöðvunar tíma, eins og borið hafi að gera samkvæmt lögum nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. janúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. desember 2002, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um áframhaldandi greiðslustöðvun. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að heimild varnaraðila til greiðslustöðvunar verði felld niður og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
Samkvæmt gögnum málsins mun varnaraðili hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2002, sem standa skyldi til 27. sama mánaðar. Í samræmi við ákvæði 13. gr. og 14. gr. laga nr. 21/1991 hélt aðstoðarmaður varnaraðila fund með lánardrottnum félagsins 20. desember 2002, þar sem fjallað var meðal annars um stöðu þess og ráðagerðir um hvernig koma mætti nýrri skipan á fjármál þess. Að þessu gerðu leitaði varnaraðili framlengingar á heimild sinni til greiðslustöðvunar. Sóknaraðili bar fram við Héraðsdóm Reykjavíkur mótmæli 27. desember 2002 við þessa beiðni varnaraðila. Var leyst úr þeim ágreiningi aðilanna með hinum kærða úrskurði.
Af gögnum málsins verður ráðið að þegar varnaraðili leitaði í upphafi heimildar til greiðslustöðvunar, sem honum var sem fyrr segir veitt 4. desember 2002, hafi hann lagt fram beiðni um heimildina, vottorð úr hlutafélagaskrá, samþykktir sínar, yfirlýsingu svonefndra skoðunarmanna félagsins, yfirlýsingu lögmanns, sem tók að sér að vera aðstoðarmaður varnaraðila við greiðslustöðvun, og ársreikninga félagsins 2001. Þegar varnaraðili leitaði síðan framlengingar á heimildinni lagði hann fram fyrir héraðsdómi beiðni um hana, eintak af dreifibréfi til lánardrottna ásamt staðfestingu fyrir sendingu þess, skrá yfir lánardrottna með upplýsingum um fjárhæð krafna þeirra, fundargerð frá áðurnefndum fundi með lánardrottnum, skrá um eignir varnaraðila og greinargerð aðstoðarmanns. Af þessum gögnum verður ekki ráðið sem skyldi hvað valdið hafi fjárhagsörðugleikum varnaraðila og í raun ekkert um það í hverju þeir séu fólgnir, en fyrir þessu bar honum að gera ítarlega grein í beiðni sinni um heimild til greiðslustöðvunar, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1991. Um fjárhag varnaraðila verða ekki fundnar upplýsingar í þessum gögnum nema að því takmarkaða leyti, sem styðjast mætti við áðurnefndan ársreikning fyrir árið 2001. Fyrir skuldum hans er að vísu gerð grein í framlögðum gögnum, en í yfirliti um eignir er í fjórum liðum getið um vélbúnað, aðra rekstrarfjármuni og birgðir og samanlagt andvirði þeirra sagt vera 68.900.000 krónur, sem styðjist við vátryggingarmat. Er hér ekki fullnægt þeim kröfum, sem gera verður til upplýsinga af hendi skuldara samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1991. Þá hefur varnaraðili sem fyrr segir lagt fram bréf frá skoðunarmönnum félagsins, þar sem þeir lýsa því yfir að bókhald hans sé í lögboðnu horfi. Af bréfinu verður þó ekkert ráðið um að annar hvor þessara skoðunarmanna sé löggiltur endurskoðandi, svo sem skýrlega er áskilið í síðari málslið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt framansögðu eru slíkir brestir á málatilbúnaði varnaraðila að óhjákvæmilegt er að hafna beiðni hans um áframhaldandi greiðslustöðvun. Verður að dæma hann til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Það athugast að með hinum kærða úrskurði markaði héraðsdómari heimild varnaraðila til áframhaldandi greiðslustöðvunar ekki tíma eins og bar að gera samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laga nr. 21/1991.
Dómsorð:
Beiðni varnaraðila, Íslenska vatnsfélagsins ehf., um heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar er hafnað.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Plastiðjunni ehf., 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. desember 2002.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 27. desember sl og tekið til úrskurðar sama dag.
Sóknaraðili er Íslenska vatnsfélagið ehf., kt. 540700-2490, Garðastræti 17, Reykjavík, en varnaraðili Plastiðjan ehf., kt. 680573-0269, Gagnheiði 17, Selfossi.
Dómkröfur sóknaraðila eru að heimild sem sóknaraðila var veitt til greiðslustöðvunar með úrskurði 4. desember sl. verði framlengd á grundvelli 17. gr. laga nr. 21/1991.
Dómkröfur varnaraðila eru að hafnað verði kröfu sóknaraðila.
Með úrskurði 4. desember sl. var sóknaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar allt til 27. sama mánaðar. Á dómþingi þann dag var af hálfu sóknaraðila lögð fram skrifleg beiðni um heimild til áframhaldandi greiðslustöðvun ásamt gögnum í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 15. gr. laga nr. 21/1991. Af hálfu varnaraðila var sótt þing og lögð fram skrifleg og rökstudd mótmæli gegn því að beiðni sóknaraðila yrði tekin til greina, en varnaraðili er einn af lánardrottnum sóknaraðila svo sem fram kemur á lista yfir þá sem eiga kröfu á hendur sóknaraðila, er lagður var fram í sama þinghaldi af hálfu sóknaraðila. Hvorugur aðila féll frá kröfum sínum. Var mál þetta þá þingfest.
Sóknaraðili byggir á því að nauðsynlegt sé að fá til liðs við félagið nýja hluthafa, sem leggi félaginu til fjármagn til að tryggja áframhaldandi rekstur þess. Viðræður hafi farið fram við breska aðila í matvælaframleiðslu sem hafi áhuga á að gerast hluthafar. Neytendakönnun á neyslu drykkjarvatns á Lundúnarsvæðinu hafi sannfært þá um markaðsmöguleika framleiðsluvöru sóknaraðila. Ákveðinn hafi verið fundur strax eftir áramót. Megi ætla að saman geti gengið með aðilum en um fjársterkan aðila sé að ræða í Bretlandi sem hluthafa í Íslenska vatnsfélagið ehf. sé persónulega kunnugir.
Varnaraðili byggir á því að ljóst megi vera að félagið sé með öllu bjarglaust og raunverulega gjaldþrota. Það hafi engan tilgang að framlengja líftíma þess. Allir kröfuhafar muni tapa verulega dag hvern sem seinkun verði á því að sóknaraðili verði lýstur gjaldþrota.
Niðurstaða: Samkvæmt framlögðum gögnum, sem lögð voru fram með beiðni sóknaraðila um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar, eru eignir félagsins metnar að fjárhæð 68.900.000 kr., en samanlögð fjárhæð á kröfuhafalista 89.545.336 kr. Þá var í máli þessu lagt fram skjal af hálfu sóknaraðila, sem greinir frá því, að hlutafé félagsins sé 20.000.000 kr.
Fram kemur í greinargerð skipaðs aðstoðarmanns Íslenska vatnsfélagsins ehf. í greiðslustöðvun, er hann lagði fram með beiðni um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar, að hann hafi kannað sérstaklega trúverðugleika staðhæfingar stjórnar skuldarans um viðræður við breska aðila í matvælaframleiðslu, er hafi áhuga á að gerast hluthafar. Komið hefði í ljós að stjórnarmenn höfðu greint honum rétt frá.
Að virtu því, sem hér hefur fram komið, verður talið að skilyrði séu til að fallast á beiðni sóknaraðila um áframhaldandi greiðslustöðvun.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Fallist er á beiðni sóknarðila, Íslenska vatnsfélagsins ehf., um áframhaldandi greiðslustöðvun.