Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-24

TM tryggingar hf. (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
gegn
A (Jónas Þór Jónasson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Varanleg örorka
  • Umferðarslys
  • Árslaun
  • Viðmiðunartekjur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 21. febrúar 2023 leita TM tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 27. janúar sama ár í máli nr. 706/2021: A gegn TM tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi um hvort miða skuli við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við ákvörðun bóta til gagnaðila vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir árið 2014 eða hvort meta skuli árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sömu greinar og þá með hvaða hætti. Leyfisbeiðandi hefur greitt gagnaðila bætur á grundvelli 3. mgr. 7. gr. laganna en gagnaðili krefst frekari bóta úr hendi leyfisbeiðanda.

4. Héraðsdómur taldi ekki forsendur til þess að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við ákvörðun bóta til gagnaðila og var leyfisbeiðandi því sýknaður af kröfu hennar. Með dómi Landsréttar var hins vegar fallist á varakröfu gagnaðila. Talið var að líta yrði svo á að aðstæður gagnaðila á viðmiðunartímabili hefðu verið óvenjulegar í skilningi ákvæðisins og að árstekjur hennar síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið hefðu ekki verið réttur mælikvarði á framtíðartekjur. Í dómi Landsréttar var horft til þess að þegar gagnaðili slasaðist hefði hún stundað afgreiðslu- og sölustörf og að gera mætti ráð fyrir að ef slysið hefði ekki orðið hefði hún að minnsta kosti haft jafnháar tekjur í framtíðinni og næmu meðaltali heildarlauna starfsfólks við afgreiðslu- og sölustörf.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni sína. Í því sambandi vísar hann einkum til þess að með niðurstöðu Landsréttar hafi verið hafnað viðmiði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og fundinn annar mælikvarði til að ákvarða líklegar framtíðartekjur tjónþola. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Hafi Landsréttur ekki tekið tillit til þess að sérstakt aldursálag sé reiknað inn í margföldunarstuðul 6. gr. skaðabótalaga sem taki meðal annars mið af því að laun fari hækkandi fram að ákveðnu aldursári. Gagnaðli hafi verið nálægt hæsta stuðli greinarinnar á slysdegi.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft almennt gildi um ákvörðun viðmiðs árslauna þegar dæmdar eru bætur fyrir varanlega örorku. Beiðnin er því samþykkt.