Hæstiréttur íslands

Mál nr. 168/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Útburðargerð
  • Sératkvæði


Föstudaginn 7

 

Föstudaginn 7. apríl 2006.

Nr. 168/2006.

Guðmundur Þorleifsson

(Lúðvík Örn Steinarsson hrl.)

gegn

Fljótsdalshéraði

(Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

 

Kærumál. Aðför. Útburðargerð. Sératkvæði.

Fallist var á kröfu F um að hesthús án lóðarréttinda í eigu G  yrði borið út af landi í eigu F með beinni aðfarargerð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 2. mars 2006, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að hesthús við Gæðingabakka 8, Fljótsdalshéraði, fastanúmer 217-6325, í eigu sóknaraðila, ásamt öllu sem húsinu fylgir, skyldi borið út af landi varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðila krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að nýju, en til vara að kröfu um aðfarargerð verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Kröfu sína um ómerkingu hins kærða úrskurðar byggir sóknaraðili á því að héraðsdómari hafi í forsendum úrskurðarins tekið afstöðu til hugsanlegs bótaréttar sem sóknaraðili telji sig hafa eignast á hendur varnaraðila við að verða knúinn til að fjarlægja hús sitt af því landi sem það stendur á. Fallist er á með sóknaraðila að ekki hafi verið efni til þess að taka afstöðu til þessa hugsanlega réttar sóknaraðila í málinu, þar sem það snýst aðeins um kröfu varnaraðila um beina aðfarargerð samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989. Þar sem leyst er úr þeirri kröfu í hinum kærða úrskurði þykir þessi annmarki samt ekki geta valdið ómerkingu hans, enda skiptir sú afstaða héraðsdómara um þetta sem fram kemur í hinum kærða úrskurði ekki máli við úrlausn ágreinings aðilanna. Verður því ekki fallist á aðalkröfu sóknaraðila um ómerkingu úrskurðarins.

Fram kemur í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar að hann hafi aflað sér mats dómkvaddra manna á verðmæti þeirrar húsbyggingar sem krafa varnaraðila um útburð beinist að. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Guðmundur Þorleifsson, greiði varnaraðila, Fljótsdalshéraði, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ég er sammála því sem segir í atkvæði meirihluta dómenda, að efni hafi ekki staðið til þess að héraðsdómari tæki afstöðu til hugsanlegs bótaréttar sóknaraðila á hendur varnaraðila.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði deila málsaðilar um réttindi yfir því landi sem hús sóknaraðila stendur á. Sóknaraðili telur sig meðal annars hafa öðlast réttindi yfir landinu fyrir hefð, sbr. lög nr. 46/1905. Varnaraðili mótmælir þessu og virðist þá byggja á að 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 standi þessu í vegi. Ekki verður leyst úr þessum ágreiningi aðilanna, nema kostur sé gefinn á gagnaöflun um nánari atvik að því er gerðarþoli fékk landið til afnota til byggingar hesthússins, eftir atvikum með skýrslutöku af vitnum sem um þau geta borið. Til þess að fallast megi á beina aðfarargerð samkvæmt 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga þurfa réttindi gerðarbeiðanda að vera svo ljós, að ekki geti skipt máli um tilvist þeirra, öflun gagna af því tagi sem nefnd eru í niðurlagsákvæði 1. mgr. 83. gr. laganna. Með vísan til þess sem fyrr segir tel ég ekki unnt að fallast á að þessu skilyrði sé fullnægt í málinu og beri því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi. Þar sem meirihluti Hæstaréttar hefur komist að öndverðri niðurstöðu er ekki nauðsynlegt að ég taki afstöðu til skiptingar á kostnaði málsaðila.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 2. mars 2006.

I.

Aðild og dómkröfur

Beiðni gerðarbeiðanda barst dómnum 20. október 2005. Málið var þingfest 7. nóvember sl. og tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 24. janúar sl.

Gerðarbeiðandi er Sveitarfélagið Fljótsdalshérað, kt. 481004-3220, Lyngási 12, Egilsstöðum

Gerðarþoli er Guðmundur Þorleifsson, kt. 050432-7349, Hamrahlíð 6, Egilsstöðum.

Gerðarbeiðandi krefst þess að borið verði út með beinni aðfarargerð af landi sveitarfélagsins lóðarréttindalaust hesthús, sem í skrám Fasteignamats ríkisins er skráð sem Gæðingabakki 8, fastanúmer 217-6325, ásamt öllu því er húsinu fylgir. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og að fjárnám verði heimilað hjá gerðarþola, fyrirsvars- og umráðamanni, fyrir kostnaði af væntanlega gerð.

Af hálfu gerðarþola er þess krafist að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá krefst gerðarþoli málskostnaðar að viðbættu sérstöku álagi á málskostnað, að mati dómsins, og við ákvörðun hans verði tekið tillit til áhrifa 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

II.

Málavextir

Málavextir eru þeir að á fundi hreppsnefndar Egilsstaðahrepps þann 19. janúar 1970 var tekin fyrir beiðni hóps manna, “hestamanna í Egilsstaðakauptúni”, um að þeir fengju aðstöðu fyrir hesthúsbyggingu og aðstöðu fyrir hesta í svonefndum Votahvammi, sem þá var utan skipulags svæðis og nær allt út að Eyvindará. Afgreiðsla hreppsnefndar á erindinu var eftirfarandi skv. fundargerðarbók Egilsstaðahrepps þann dag:

“Rætt var um þessa umsókn og var samþykkt að leyfa hestamönnum þessa aðstöðu gegn vægu gjaldi, enda skili þeir til Bygginganefndar teikningum af húsunum og tillögum af skipulagi því er þeir hugsa sér hún samþykki. Leyfið tekur ekki til neins ákveðins tíma, heldur skoðast sem hver önnur bráðabirgðaráðstöfun á svæðinu meðan það er óskipulagt. Þá er hreppnum alls óviðkomandi byggingarnar og er hann hvorki skaðabótaskyldu gagnvart niðurrifi húsanna eða flutningi þeirra né skyldur til að kaupa þær, verði þær lagðar niður sem hesthús. Ennfremur er leyfið háð þeim skilyrðum að hestamenn fjarlægi alla hesta sína af skipulögðu svæði kauptúnsins og gæti þess að þeir verði á engan hátt íbúunum til óþæginda.”

Í framhaldi af þessari bókun risu á árunum 1972 til 1975 samtals átta hús á svæðinu, sem eru samkvæmt Landskrá fasteigna merkt nr. 1-8 við Gæðingabakka á Egilsstöðum. Auk þess fengu hestamenn leyfi til þess að girða svæði meðfram Eyvindará til beitar fyrir hesta sína. Hafa hestamenn síðan haft þar aðstöðu. Þegar húsin höfðu verið byggð voru þau verðmetin af Fasteignamati ríkisins, svo sem lögskylt var og myndaðist þar með grunnur til álagningar fasteignagjalda af þeim. Hafa eigendur síðan greitt fasteignagjöld af húsunum en ekki lóðarafgjöld. Lóðarleigusamningar hafa aldrei verið gerðir um húsin.

Árið 1970 varð íslenska ríkið eigandi að meirihluta af landi þáverandi Egilsstaðahrepps og voru lóðarleigusamningar í þann tíð gerðir milli fasteignaeigenda og ríkissjóðs. Engir slíkir lóðarleigusamningar voru gerðir vegna hesthúsanna. Árið 1997 eignaðist sveitarfélagið Egilsstaðabær, sem nú er runnið inn í sveitarfélagið Fljótsdalshérað, það land er hesthúsin í Votahvammi standa á. Land það, sem framangreind hesthús standa á, er því í eigu gerðarbeiðanda.

Árið 2003 fékk verktakafyrirtækið ÍAV hf. úthlutað til deiliskipulags og byggingar, öllu hinu svokallaða Votahvammssvæði til skipulagningar og byggingar íbúðarhúsabyggingar, þar sem framkvæmdir eru nú hafnar.

Gerðarbeiðandi kveðst hafa á ýmsan hátt greitt götu hestamanna í Votahvammi, m.a. með lagningu reiðleiða frá svæðinu o. fl. Lengi hafi verið reynt að stofna til sérstakrar nefndar hestamanna og sveitarfélagsins þar sem reglur um umgengni o.fl. er varðaði hestamenn á svæðinu yrði ákvarðað með formlegum hætti, en af því hafi þó aldrei orðið. Gerðarbeiðandi kveður alla starfsemi hestamanna í Votahvammi, að því er húsin og svæðið varðar hafa farið fram í samráði og sátt við sveitarstjórn frá upphafi og hafi ekki komið til neinna sérstakra árekstra vegna svæðisins og öll mál verið leyst í sátt. Gerðarbeiðandi kveður fyrrnefnd hesthús vera innan svokallaðs Votahvammssvæðis, sem nú hafi verið deiluskipulagt. Á árinu 2003 hafi hafist samskipti sveitarstjórnar Austur-Héraðs og eigenda hesthúsa í Votahvammi varðandi rýmingu svæðisins, þar sem þá hafi orðið ljóst að húsin þyrftu að víkja fyrir hinni fyrirhugðu byggð. Hafi verið haldnir fundir með eigendum húsanna þar sem þeim hafi verið kynnt að nú væri kominn sá tími að rýma þyrfti svæðið. Síðan þá hafi lögmenn aðila staðið í bréfskriftum vegna málsins. Gerðarbeiðandi hafi frá upphafi vísað til bókunar hreppsnefndar Egilsstaðarhrepps frá 19. janúar 1970 og telji að hún hafi með þeirri bókun, þegar hún féllst á að hestamenn fengju að byggja í Votahvammi, undanþegið sig bótaskyldu þegar húsin þyrftu að víkja. Málsaðilar hafi ekki náð samkomulagi um lausn málsins og hafi því gerðarbeiðandi orðið að krefjast útburðar á hesthúsunum.

Gerðarþoli kveðst vera eigandi hesthússins nr. 8 við Gæðingabakka og hafi húsið, sem sé 95 fm að stærð, verið byggt árið 1973. Gerðarþoli kveður hesthús sitt tengt vatnsveitu Egilsstaða og auk þess sérmetið í fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins (Landskrá fasteigna) og hafi gerðarþoli árum saman greitt af húsinu lögboðin og umkrafin fasteignagjöld til gerðarbeiðanda.

Í bréfi Guðmundar Magnússonar, þáverandi sveitarstjóra gerðarbeiðanda, til Guðmundar Þorleifssonar  og Gunnars Egilssonar, dags. 15. júní 1976, sé að finna afstöðu skipulagsyfirvalda til uppbyggingar á hesthúsahverfi á umræddu svæði. Í bréfinu sé ekki að finna neina takmörkun á heimild til framkvæmda eða uppbyggingar hesthúsahverfisins. Sé sérstaklega til þess vitnað í bréfinu að sett verði reglugerð í samráði við stjórn félags hesteigenda en ekki hafi verið við það staðið af hálfu gerðarbeiðanda.

Á fundi hreppsnefndar gerðarbeiðanda þann 1. maí 1979 hafi þeir Sveinn Árnason og Jóhann D. Jónsson mætt og gert grein fyrir samningsumleitunum við eigendur hesthúsa við Gæðingabakka varðandi uppsetningu girðingar umhverfis svæði hestamanna í Votahvammi og lagningu reiðvegar utan gatna kauptúnsins. Svo virðist sem kynnt hafi verið á fundinum samkomulagsdrög um afmörkun svæðisins og framkvæmdir hestamanna á svæðinu. Fyrir liggi að hvorki hafi verið staðið við fyrirætlanir um gerð samnings um uppbyggingu á svæðinu eða gerð reglugerðar fyrir hesthúsahverfið. Svo virðist einnig að gerðarbeiðandi hafi aldrei gengið frá skipulagsuppdrætti af hesthúsahverfinu við Gæðingabakka.

Á árinu 2003 hafi gerðarþola og öðrum eigendum hesthúsa skyndilega verið gert að rýma svæðið þar sem húsin stæðu í vegi fyrir íbúðabyggð sem skipulögð hefði verið. Kröfu um rýmingu hefði ekki verið hafnað af gerðarþola, en farið fram á eðlilegt endurgjald fyrir eign og réttindi gerðarþola í Votahvammi. Gerðabeiðandi hafi að vísu boðið eigendum hesthúsa við Gæðingabakka að endurgreiða þeim fasteignagjöld, sem þeir hefðu greitt til gerðarbeiðanda vegna hesthúsanna með verðbótum. Einnig hafi gerðarbeiðandi boðist til að annast niðurrif og förgun húsanna án kostnaðar fyrir gerðarþola og aðra eigendur hesthúsa á svæðinu. Boði bæjarstjórnar hafi verið hafnað af öllum eigendum hesthúsanna með bréfi dags. 17. september 2004. Hafi verið á það bent að greiða þyrfti skaðabætur til eigenda húsanna, enda væri eignarréttur þeirra varinn af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og grunnreglum eignarréttarins. Hins vegar hafi ekki verið gerðar athugasemdir við valdheimildir gerðarbeiðanda til að breyta landnotkun í Votahvammi með skipulagi íbúðabyggðar.

Með bréfi dags. 2. maí 2005 hafi af hálfu gerðarþola hafi verið gerð sundurliðuð skaðabótakrafa á hendur gerðarbeiðanda vegna hesthúsa við Gæðingabakka í þeim tilgangi að leysa málið án frekari tafa og kostnaðar. Þeirri kröfu hafi verið hafnað af hálfu gerðarbeiðanda með bókun á fundi 11. maí 2005.

Með matsbeiðni dags. 28. september 2005 til héraðsdóms hafi gerðarþoli og aðrir eigendur hesthúsanna farið fram á að dómkvaddir yrðu matsmenn til að skilgreina og meta fjártjón gerðarþola af því að þurfa að láta eign sína og aðstöðuna í Votahvammi af hendi til gerðarbeiðanda, þ.e. fullt verð hesthússins og aðstöðunnar að viðbættum kostnaði við förgun, eyðingu og tjóni vegna aðstöðumissis.

III.

Málsástæður

Af hálfu gerðarbeiðanda er á því byggt að með bókun hreppsnefndar Egilsstaðahrepps frá 19. janúar 1970 hafi eigendum húsanna í Votahvammi verið heimilað að byggja þau og láta þau standa á svæðinu “...meðan það er óskipulagt”. Svæðið hafi verið skilgreint á aðalskipulagi þéttbýlisins á Egilsstöðum sem fyrirhuguð íbúðabyggð um árabil. Með úthlutun svæðisins til ÍAV ehf. hafi það verið tekið til deiliskipulags og byggingar íbúðarhúsa. Því sé sá tími kominn fram að svæðið sé ekki lengur “óskipulagt”, heldur hafi deiliskipulag farið fram og lagning gatna og bygging húsa hafin. Þar með sé fram komið lausnarskilyrði það, sem hreppsnefnd Egilsstaðahrepps hafi sett fyrir stöðu húsanna þann 19. janúar 1970 og húsin hafi því ekki lengur stöðurétt á svæðinu. Í nefndri bókun sé einnig tekið fram að hreppnum séu byggingarnar óviðkomandi og sé hann ekki skaðabótaskyldur gagnvart niðurrifi eða flutningi þeirra, né skyldur til að kaupa þær verði þær lagðar niður sem hesthús. Nú þegar hafi notkun einhverra húsa á svæðinu sem hesthúsa verið hætt.

Gerðarbeiðandi hafi án árangurs, allt frá árinu 2003, leitað samkomulags við eigendur hesthúsanna um að þeir rýmdu svæðið og fjarlægðu hús sín. Hafi sveitarfélagið boðið aðilum án nokkurrar skyldu eða skuldbindinga m.a. að rífa húsin án kostnaðar fyrir þá, sem og að endurgreiða þeim verðbætt þau fasteignagjöld, sem þeir hefðu greitt af húsunum í gegnum tíðina. Tekið hafi verið fram að þessi boð væru ekki sett fram sem viðurkenning á neins konar skyldu eða bótarétti, heldur til þess að létta eigendum breytinguna. Á árinu 2003 hafi sveitarfélagið keypt jörðina Fossgerði til afnota fyrir hestamenn og hafi starfsemi hestamanna á Egilsstöðum að verulegu leyti þegar verið flutt þangað.

Gerðarbeiðandi kveðst fullyrða að eigendum hesthúsa við Votahvamm hafi alla tíð verið það ljóst að hús þeirra yrðu að víkja þegar skipulag krefðist þess og að sveitarfélagið hefði með leyfisveitingu fyrir byggingu þeirra á sínum tíma undanþegið sig bótaábyrgð vegna rýmingar svæðisins. Húsin hafi aldrei haft lóðarréttindi og þau því ekki verið skráð sem fasteign í veðmálabókum sýslumanns og þau hafi ekki verið veðhæf sem fasteign. Upphaflegir eigendur húsanna, sem sumir séu enn eigendur, hafi ákveðið á sínum tíma að byggja húsin, þrátt fyrir það að ljóst væri að þau væru byggð til bráðabirgða. Árið 1970 hafi verið ljóst að allmörg ár gætu liðið þar til sveitarfélagið hefði þörf fyrir byggingarlóðir í Votahvammi og hafi eigendur, væntanlega í trausti þess, talið að hús þeirra myndu standa um allmörg ár eins og reyndi hefði orðið.

Ætla verði að þeir aðilar, sem erft hafi eða keypt hús af upphaflegum eigendum hafi gert sér það ljóst að þeir væru að kaupa eða erfa hús án lóðarréttinda, sem ekki hafi verið hægt að veðsetja sem fasteign, enda finnist Gæðingabakkar ekki í veðmálabókum sýslumannsembættisins á Seyðisfirði. Þá hefði seljendum borið að upplýsa nýja eigendur um skilyrði þau sem hreppsnefnd setti fyrir byggingu húsanna árið 1970, þar sem sérstökum kvöðum hafi ekki verið lýst á neinar lóðir, þar sem húsin hafi aldrei haft nein lóðarréttindi. Telji kaupendur að þeir hafi ekki verið nægjanlega upplýstir um réttarstöðu húsanna, sé það mál er varði fyrri eiganda en ekki gerðarbeiðanda.

Þann 8. júlí 2005 hafi verið send til birtingar áskorun til allra þekktra eigenda og fyrirsvarsmanna hesthúsa að Gæðingabökkum 1-8 á Egilsstöðum um að þeir fjarlægðu hesthús sín úr Votahvammi fyrir 31. júlí 2005. Þeirri áskorun hafi ekki verið sinnt.

Gerðarbeiðandi kveðst telja að öll skilyrði 78. gr. aðfaralaga nr. 90/1989 til útburðar framangreinds húss af lóð sveitarfélagsins séu uppfyllt. Framangreint hesthús standi á landi sveitarfélagsins og standi orðið í vegi fyrir að gildandi deiluskipulagi svæðisins komist til framkvæmda. Gerðarbeiðandi telji sig hafa gert allt það, sem í hans valdi standi, til þess að fá gerðarþola til þess að rýma svæðið, en það hafi ekki tekist.

Stefndi kveðst byggja kröfu sína um að útburðarbeiðni gerðarbeiðanda verði hafnað á því að skilyrði til beinnar aðfarargerðar séu ekki fyrir hendi í málinu. Bent er sérstaklega á að krafa gerðarbeiðanda lúti í raun að því að fá með úrskurði dómsins umráð yfir eignarréttindum gerðarþola án greiðslu umkrafinna skaðbóta, sem fái ekki staðist heimildir eða grundvöll beinna aðfarargerða. Vísað er til 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 þar sem gert sé ráð fyrir því að dómari skuli að öðru jöfnu hafna aðfarabeiðni þyki varhugavert að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt sé að afla. Þá sé enn fremur á það bent að krafa gerðarbeiðanda sé ekki tæk til úrskurðar samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989, eins og hún sé fram sett í aðfararbeiðninni. Það leiði af sjálfu sér að áframkvæmanlegt sé með öllu að “bera hesthús” gerðarþola af landi gerðarbeiðanda og þurfi ekki fara um það fleiri orðum.

Gerðarþoli kveðst enn fremur byggja á eftirfarandi sjónarmiðum:

Umrætt hesthús við Gæðingabakka sé eign gerðarþola samkvæmt fasteignaskrá Landsskrár fasteigna. Um það sé ekki ágreiningur milli aðila. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum, sé eignarrétturinn friðhelgur og megi engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þurfi til þess lagaheimild og komi fullt verð fyrir. Gerðarþoli og aðrir eigendur hesthúsa á svæðinu hafi ítrekað krafist skaðabóta fyrir húsin og aðstöðuna í Votahvammi og sé sú deila aðila enn óútkljáð. Meðan svo sé skorti að lögum öll nauðsynleg skilyrði fyrir því að gerðarbeiðandi geti með beinni aðfarargerð knúið fram “útburð hesthúsa” (umráðatöku) með beinni aðfarargerð, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989.

Samkvæmt 33. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1998, sem fjalli um bætur vegna skipulags og yfirtöku eigna, sé einnig ótvírætt að gerðarþoli og aðrir eigendur hesthúsa á svæðinu eigi skaðbótarétt á hendur gerðarbeiðanda vegna framkvæmdar á því skipulagi sem um ræðir og samþykkt hafi verið. Þar sem gerðarbeiðandi hafi ekki fengist til að viðurkenna bótaskyldu í málinu sé gerðarþola nauðsynlegt að afla matsgerðar til að sanna það fjárhagslega tjón sem hann muni verða fyrir vegna kröfu gerðarbeiðanda um að gerðarþoli láti eign sína af hendi, þ.e. mannvirki og aðstöðuna vegna gildistöku skipulags íbúðabyggðar í Votahvammi.

Gerðarþoli kveðst vera ósammála túlkun gerðarbeiðanda á því að bókun frá fundi hreppsnefndar gerðarbeiðanda þann 19. janúar 1970 geti svipt gerðarþola skaðabótum þyrftu hesthúsin að víkja af svæðinu vegna skipulags. Gerðarþoli bendir á að skaðbótaskylda gerðarbeiðanda sé ótvíræð samkvæmt stjórnarskránni og grunnreglum eignarréttarins, reglu skaðabótaréttar og skipulags- og byggingarlögum. Það sé ekki á valdi gerðarbeiðanda að takmarka slíkan rétt. Þá hafi gerðarþoli heldur aldrei undirgengist neinar slíkar takmarkanir á eignarráðum sínum.

Gerðarbeiðandi hafi fullyrt að hesthús gerðarþola hafi eins konar “stöðuleyfi” en þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir gerðarþola hafi gerðarbeiðandi aldrei framvísað slíku leyfi eða bókunum um það. Þegar af þeirri ástæðu verði að benda á að fullyrðingu gerðarbeiðanda verði ekki fundin viðhlítandi stoð. Hesthús gerðarþoli hafi staðið í Votahvammi í meira en 30 ár þannig að ekki fái staðist órökstudd fullyrðing gerðarbeiðanda um bráðabirgðaráðstöfun réttinda og stöðuleyfi. Því hafni gerðarþoli sem röngu og nánast fjarstæðukenndu.

Hesthús gerðarþola sé skráð og metið til verðs í fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins og tengt vatnsveitu gerðarbeiðanda. Sé því harðlega mótmælt sem röngu af gerðarþola að eign hans sé ekki fasteign og hafi ekki verið skráð sem slík, eins og haldið sé fram af gerðarbeiðanda. Bendir gerðarþoli á að eignin hafi verið skráð í fasteignaskrá og gerðarbeiðandi haft af henni tekjur samkvæmt lögum; tekjur sem hann hafi enga heimild til að endurgreiða gerðarþola fremur en öðrum eigendum fasteigna í sveitarfélaginu. Gerðarþoli bendir ennfremur á að hann hafi greitt lögboðin álögð fasteignagjöld gerðarbeiðanda af eigninni eftir árlegri kröfu hans þar um. Þá liggi fyrir að gerðarþoli sé að öllu leyti grandlaus um þá meintu bráðabirgðaráðstöfun rétttinda, sem gerðarbeiðandi byggi kröfu sína á og kveðst óbundinn af öllum takmörkunum sem gerðarbeiðandi haldi fram að eigi við í málinu og leysi hann undan greiðslu skaðabóta til gerðarþola.

Gerðarþoli vísar til þess að gerðarbeiðandi hafi haft um 35 ár til að ganga frá skipulagi hesthúsahverfisins og hugsanlegum reglum samkvæmt heimildum byggingar- og skipulagslaga fyrir hverfið en gerðarbeiðandi hafi farið með valdheimildir á því sviði frá upphafi. Því sé harðlega mótmælt sem röngu og ósönnuðu að gerðarbeiðandi hafi tekið ákvörðun um úthlutun svæðisins undir hesthúsahverfi á grundvelli heimilda í þágildandi 12. gr. skipulagslaga nr. 64/1964. Þess verði hvergi fundið stoð í heimildum eða skjölum gerðarbeiðanda. Því verði gerðarþoli að hafna alfarið sjónarmiðum og síðbúnum skýringum sem fram komi hjá lögmanni gerðarbeiðanda um þetta í aðfararbeiðninni. Útilokað sé með öllu að réttarstaða gerðarþola sé önnur og lakari gagnvart stjórnarskránni og grunnreglum eignarréttarins af þeirri ástæðu einni að gerðarbeiðandi hafi farið með valdheimildir samkvæmt skipulagslögum í þau ríflega 30 ár, sem hesthús gerðarþola hefur staðið í Votahvammi. Það fái ekki staðist að lögum og beri þegar af þessum sökum að hafna útburðarkröfu gerðarbeiðanda.

Útilokað sé einnig að gerðarbeiðandi hafi á sínum tíma byggt ákvörðun á tilvitnaðri 12. gr. skipulagslaga nr. 64/1964 um úthlutun þeirra réttinda og aðstöðu sem um ræði í Votahvammi, enda hafi ekki verið sýnt fram á að svæðið hafi verið auðkennt sérstaklega á skipulagsuppdrætti um frestun skipulags og heldur ekki að leyfi til framkvæmda á svæði hesthúsahverfisins hafi verið bundið einhverjum takmörkunum eða fyrirvörum. Ljóst sé að engu sé þinglýst um það á viðkomandi eignir og því fái staðhæfing gerðarbeiðanda um þetta einfaldlega ekki staðist. Engu breyti í þessu sambandi þótt gerðarbeiðandi hafi ekki verið eigandi landsins á Egilsstöðum á þessum tíma, eins og nefnt sé í aðfararbeiðninni, þar sem gerðarbeiðandi hafi farið einn með allar valdheimildir samkvæmt nefndum skipulagslögum og séð um að úthluta byggingarlóðum, en það hafi hvorki landeigandi né gerðarþoli gert.

Loks bendir gerðarþoli á að hann hafi í meira en 30 ár farið með óskert eignarráð á svæði hesthúsahverfisins, ásamt öðrum eigendum hesthúsa á svæðinu. Gerð lóðarsamninga við gerðarþola hafi ekki verið í valdi gerðarbeiðanda að framkvæma og hafi gerðarþola hvorki verið né mátt vera kunnugt að eign hans gæti ekki staðið þann tíma, sem hún hefur staðið á landi hverfisins. Kveðst gerðarþoli vísa í þessu sambandi til laga nr. 46/1905 um hefð.

Með vísan til framanritaðs kveðst gerðarþoli hafna því að skilyrði 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 séu fyrir hendi og beri því að hafna kröfu gerðarbeiðanda og dæma gerðarþola ríflegan málskostnað.

Gerðarþoli kveðst byggja á aðfararlögum nr. 90/1989, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1998, grunnreglum eignarréttarins og reglum skaðabótaréttar. Málskostnaðarkrafa gerðarþola sé byggð á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um að ákveðið verði álag á málskostnað sé byggð á 2. mgr., sbr. a-lið 1. mgr. 131. gr. sömu laga vegna tilefnislauss málareksturs og kröfugerðar sem ekki sé tæk til meðferðar og úrskurðar. Þá sé krafa gerðarþola um að tekið verið tillit til 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Gerðarþoli hafi ekki frádráttarrétt á móti skatti þessum og því sé honum nauðsynlegt vegna skaðleysissjónarmiða að þess verði gætt við ákvörðun málskostnaðar.

IV.

Niðurstaða

Eins og fram hefur komið var á fundi hreppsnefndar Egilsstaðahrepps hinn 19. janúar 1970 tekin fyrir og samþykkt umsókn hestamanna í Egilsstaðakauptúni um aðstöðu fyrir hesta og byggingu hesthúsa í svonefndum Votahvammi, sem þá var utan skipulagðs svæðis í kauptúninu. Fram kemur að umsóknin hafi borist byggingarnefnd, sem vísað hafi erindinu til hreppsnefndar. Í fundargerð hreppsnefndar er sérstaklega tekið fram að leyfi þetta sé ekki til neins ákveðins tíma, heldur skuli það skoðast sem hver önnur bráðabirgðaráðstöfun á svæðinu meðan það sé óskipulagt. Þá segir orðrétt í fundargerðinni: “Þá er hreppnum alls óviðkomandi byggingarnar og er hann hvorki skaðabótaskyldur gagnvart niðurrifi húsanna eða flutningi þeirra né skyldur til að kaupa þær, verði þær lagðar niður sem hesthús.”

Óumdeilt er að umrætt landsvæði var ekki í eigu gerðarbeiðanda á þessum tíma. Gera verður hins vegar ráð fyrir að það hafi verið innan skipulagsskylds svæðis kauptúnsins, ella hefðu hestamenn ekki sótt um leyfi hreppsins til byggingar hesthúsanna. Heimild til að binda leyfi til byggingar hesthúsanna því skilyrði að þau yrðu fjarlægð sveitarsjóði að kostnaðarlausu var að finna í 2. mgr. 12. gr. þágildandi skipulagslaga nr. 19/1964.

Óumdeilt er að aldrei voru gerðir lóðarleigusamningar við eigendur þeirra átta hesthúsa, sem reist voru í Votahvammi á árunum 1972-1975. Mun það heldur ekki hafa staðið til af hálfu gerðarbeiðanda samkvæmt skýru orðalagi bókunar hreppsnefndar Egilsstaðahrepps frá 19. janúar 1970 og skipulags svæðisins síðar undir íbúðabyggð. Umrædd hesthús hafa því verið lóðarréttindalaus frá öndverðu. Þá liggur það fyrir að gerðarþoli og aðrir eigendur hesthúsa í Votahvammi hafa aldrei verið krafðir um lóðarleigu vegna afnota landsins, enda mun aldrei hafa verið samið um slíka leigu. Þeir hafa hins vegar greitt fasteignagjöld af húsunum sem slíkum. Fyrir liggur að umrætt svæði hefur um árabil verið skilgreint sem svæði undir íbúðabyggð á aðalskipulagi og hefur nú nýlega verið deiliskipulagt sem slíkt. Með hliðsjón af öllu framangreindu mátti gerðarþola, sem reisti sér hesthús í Votahvammi árið 1975 án lóðarréttinda, vera það ljóst frá upphafi að aðstaðan þar var aðeins til bráðabirgða og að til þess gat komið fyrr eða síðar að hesthús hans yrði að víkja vegna skipulags svæðisins til nota í öðrum tilgangi en undir hesthús.

Ekki er fallist á að gerðarþoli hafi eignast umrætt landsvæði fyrir hefð, enda verður ekki talið að hann hafi farið með full eignarráð yfir landi því, sem hesthúsið stendur á. Er þá í fyrsta lagi til þess litið að leyfi til byggingar hesthússins var veitt með áður greindum skilyrðum og í öðru lagi að lóð undir hesthúsið hefur hvorki verið afgirt sérstaklega né afmörkuð með formlegum hætti, sbr. 2. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Er því einnig ljóst að hesthús gerðarþola hefur ekki verið skráð sem fasteign í þinglýsingabók og skjöl er varða yfirfærslu eignarréttar að húsinu og veðsetningu þess því ekki tæk til þinglýsingar, sbr. áðurtilvitnuð ákvæði þinglýsingarlaga.

Þá er eigi heldur fallist á að gerðarþoli eigi rétt á bótum vegna niðurrifs hesthússins eða flutnings þess af landi gerðarbeiðanda. Eins og áður greinir mátti gerðarþola vera ljóst þegar hann hófst handa við byggingu þess að staða þess á svæðinu var aðeins til bráðabirgða og að húsið yrði að víkja bótalaust kæmi til þess að landið yrði skipulagt undir annað en hesthúsabyggð, sbr. skilyrði gerðarbeiðanda fyrir byggingu hesthússins á sínum tíma. Gerðarþoli gat því ekki vænst endurgjalds fyrir hesthúsið nema um það væri samið sérstaklega.

Samkvæmt dskj. nr. 3 keypti gerðarbeiðandi land af íslenska ríkinu árið 1997, sem afmarkast af Eiðaveig að austan, Fagradalsbraut og Lyngási að sunnan, Austurlandsvegi (þjóðvegi 1) og Melhornsvegi að vestan og Eyvindará að norðan. Ljóst er að Votihvammur er innan þessa landsvæðis. Gerðarbeiðandi er því þinglýstur eigandi að landsvæði því, sem um er deilt í málinu. Hann hefur því allar heimildir er felast í beinum eignarrétti að landinu. Hesthús gerðarþola stendur því í vegi að gerðarbeiðandi geti óheft nýtt sér þau réttindi.

Að öllu þessu athuguðu og með því að landsvæði þetta hefur nú fyrir allnokkru verið tekið undir íbúðabyggð þykir gerðarþoli ekki eiga rétt á að láta hesthúsið standa á landi gerðarbeiðanda í Votahvammi. Skilyrðum 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er því fullnægt, sbr. 83. gr. sömu laga. Að þessu virtu þykir rétt að fallast á kröfu gerðarbeiðanda og heimila að gerðarþoli verði borinn út með hesthús sitt af landi gerðarbeiðanda við Gæðingabakka 8 á Egilsstöðum.

Í samræmi við úrslit málsins ber gerðarþola að greiða gerðarbeiðanda 40.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til þess að lögmaður gerðarbeiðanda þingfesti og flutti mál nr. A-5-11/2005 á sama tíma og mál það, sem hér um ræðir, en málin eru samkynja.

Að kröfu gerðarbeiðanda er heimilað fjárnám hjá gerðarþola fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri kveður upp úrskurðinn. Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna og veikinda dómarans.

Úrskurðarorð:

Hesthús við Gæðingabakka 8, Fljótsdalshéraði, fastanúmer 217-6325, í eigu gerðarþola, Guðmundar Þorleifssonar, skal ásamt öllu sem húsinu fylgir, borið út af landi gerðarbeiðanda, Sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs.

Heimilt er að gera fjárnám hjá gerðarþola fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda, Sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði, 40.000 krónur í málskostnað.