Hæstiréttur íslands

Mál nr. 538/2016

Jóhannes Helgi Einarsson (Valgeir Kristinsson hrl.)
gegn
Arion banka hf. (Kristján B. Thorlacius hrl.)

Lykilorð

  • Víxill
  • Greiðslustaður

Reifun

Sparisjóðurinn A, síðar A hf., höfðaði mál til heimtu skuldar samkvæmt tryggingarvíxli sem samþykktur hafði verið til greiðslu af Á ehf., en undirritaður af J sem útgefanda og framseljanda og af K sem ábekingi neðan við orðin „án afsagnar“. Fyrir lá að áður en gjalddagi var færður á víxilinn hafði bú Á ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta án þess að greiðsla hafði fengist upp í kröfur lánardrottna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að greiðslustaður hefði ekki verið tilgreindur á víxlinum og gæti ekki komið þess í stað að tiltekið hefði verið að hann hefði verið gefinn út á Siglufirði og að á honum hefði verið prentað merki, sem sparisjóðir, þar á meðal sparisjóðurinn A, hefðu notað í starfsemi sinni. Með vísan til 3. mgr. 2. gr. víxillaga nr. 93/1933 var talið að réttur greiðslustaður hefði verið á tilgreindu heimilisfangi Á ehf. í Reykjavík og að víxillinn hefði ekki verið réttilega sýndur til greiðslu þar á gjalddaga, sbr. 1. mgr. 38. gr. sömu laga. Með hliðsjón af 1. mgr. 53. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 46. gr. laganna var litið svo á að sá fyrirvari sem gerður hafði verið á víxlinum um fullnustu án kostnaðar breytti engu um skyldu víxilhafa til að sýna víxil til greiðslu innan fresta sem til þess væru settir. Hefði A hf. því glatað rétti sínum gegn öðrum víxilskuldurum en samþykkjanda. Var J sýknaður af kröfu A hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. júlí 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

AFL-Sparisjóður, með starfstöð á Siglufirði, höfðaði mál þetta 29. maí 2015 á hendur áfrýjanda og Kára Kort Jónssyni til heimtu skuldar samkvæmt víxli. Áfrýjandi tók til varna í málinu, en ekki var sótt þing af hálfu Kára. Undir rekstri málsins í héraði urðu aðilaskipti til sóknar á grundvelli þess að Fjármálaeftirlitið mun hafa samþykkt samruna sparisjóðsins við stefnda 15. október 2015 og er óumdeilt að stefndi sé nú réttur aðili að málinu.

Ritað var á víxilinn, sem stefndi reisir kröfu sína á, að hann væri „tryggingarvíxill v/yfirdráttarheimildar“ og var áföst við hann „yfirlýsing/umboð“ frá 15. janúar 2009, þar sem víxilskuldararnir allir veittu AFL-Sparisjóði heimild til að færa á víxilinn útgáfudag og gjalddaga. Víxillinn var að fjárhæð 5.000.000 krónur og samþykktur til greiðslu af Ánanausti ehf., með tilgreindu heimilisfangi að Sólvallagötu 84 í Reykjavík, en áritaður af áfrýjanda sem útgefanda og framseljanda og af áðurnefndum Kára sem ábekingi neðan við orðin „án afsagnar“. Á víxilinn hefur verið færður útgáfudagurinn 15. janúar 2009 og gjalddaginn 27. febrúar 2015. Neðst á honum voru prentuð orðin: „Víxillinn greiðist í“, en að þessu leyti var hann ekki fylltur frekar út. Fyrir liggur í málinu að áður en gjalddagi var færður á víxilinn hafði bú Ánanausts ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta 12. september 2013 og lauk þeim 14. mars 2014 án þess að greiðsla fengist upp í kröfur lánardrottna. Samkvæmt því, sem fram kom í héraðsdómsstefnu, var víxillinn vistaður á starfstöð AFL-Sparisjóðs á gjalddaga, en engin greiðsla hafi borist.

Samkvæmt 5. tölulið 1. gr. víxillaga nr. 93/1933 skal meðal annars greina í víxli greiðslustað hans, en í 3. mgr. 2. gr. sömu laga er tekið fram að hafi greiðslustaður ekki verið tilgreindur sérstaklega skuli sá staður, sem tilgreindur sé við nafn greiðanda, talinn vera greiðslustaður. Svo sem ráðið verður af áðursögðu var greiðslustaður ekki tilgreindur á víxlinum, sem stefndi reisir kröfu sína á, heldur var sá hluti hans óútfylltur. Getur ekki komið þess í stað að tiltekið var á víxlinum að hann hafi verið gefinn út á Siglufirði og að á honum hafi verið prentað merki, sem sparisjóðir, þar á meðal AFL-Sparisjóður, hafi notað í starfsemi sinni. Hér stendur því svo á, sem um ræðir í fyrrnefndri 3. mgr. 2. gr. víxillaga, og var þannig réttur greiðslustaður víxilsins á tilgreindu heimilisfangi samþykkjanda hans að Sólvallagötu 84 í Reykjavík. Sem fyrr segir kom fram í héraðsdómsstefnu að víxillinn hafi verið á starfstöð AFL-Sparisjóðs á gjalddaga og var hann því ekki réttilega sýndur til greiðslu á greiðslustað á gjalddaga eða öðrum hvorum tveggja næstu virkra daga þar á eftir, sbr.1. mgr. 38. gr. víxillaga. Í 1. mgr. 53. gr. sömu laga er mælt fyrir um afleiðingar þess að frestir séu látnir hjá líða, sem gilda um sýningu víxils til greiðslu þegar fyrirvari hefur verið gerður um fullnustu án kostnaðar. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laganna felst slíkur fyrirvari í orðunum „án afsagnar“, en í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að hann breyti engu um skyldu víxilhafa til að sýna víxil til greiðslu innan fresta sem til þess eru settir. Með því að slíkir frestir líði glatar víxilhafi rétti sínum gegn öðrum víxilskuldurum en samþykkjanda, sbr. lokaorð 1. mgr. 53. gr. víxillaga. Þessu til samræmis verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Jóhannes Helgi Einarsson, er sýkn af kröfu stefnda, Arion banka hf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2016.

Mál þetta var höfðað gegn Jóhannesi Helga Einarssyni með stefnu birtri 29. maí 2015 og gegn Kára Kort Jónssyni með sakaukastefnu birtri 15. júní 2015. Málið var dómtekið 20. apríl sl.

Stefnandi er AFL - Sparisjóður ses., Aðalgötu 34, Siglufirði.

Stefndu eru Kári Kort Jónsson, Krummahólum 2, Reykjavík og Jóhannes Helgi Einarsson, Fagrahjalla 60, Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda sameiginlega (in solidum) skuld að fjárhæð 5.000.000 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 5.000.000 kr. frá 16. maí 2015 til greiðsludags. Auk þess er krafist málskostnaðar.

Af hálfu stefnda Jóhannesar Helga er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar.

Af hálfu Kára Kort var ekki tekið til varna.

Upphaflega var stefnandi AFL - sparisjóður ses. Í byrjun aðalmeðferðar lagði lögmaður stefnanda fram bókun þar sem fram kemur að Arion banki hafi nú tekið við öllum réttindum og skyldum sparisjóðsins. Bankinn tók við aðild málsins og var það bókað í þingbók.

I.

Málavextir

                Stefnandi byggir kröfu sína á tryggingarvíxli, útgefnum og framseldum af stefnda Jóhannesi Helga þann 15. janúar 2009, að fjárhæð 5.000.000 kr. Víxillinn er án afsagnar. Gjalddagi víxilsins er 27. febrúar 2015 og var samþykktur til greiðslu af Ánanaustum ehf. Þá var hann ábektur af stefnda Kára Kort. Fyrir liggur að Ánanaust ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 12. september 2013 og var því ekki stefnt. Skiptum lauk 14. mars 2014.

Á viðfestri yfirlýsingu/umboði vegna yfirdráttarheimildarinnar kemur fram að víxillinn sé óútfylltur (in blanco) að því er varðar útgáfudag og gjalddaga en að fjárhæð 5.000.000 kr. Víxillinn sé afhentur Afli - Sparisjóði til tryggingar viðskiptum við Ánanaust ehf. sem séu vegna yfirdráttarheimildar á tékkareikningi nr. 4810. Afli - Sparisjóði sé hér með veitt umboð til að formgilda víxilinn með því að rita á hann útgáfudag og gjalddaga verði um vanskil að ræða af hálfu tékkareikningshafa og innheimta hann með venjulegum hætti. Yfirlýsingin er dagsett á Siglufirði 15. janúar 2009 og undirrituð af hálfu samþykkjanda og af stefndu.

Er krafa var gerð um greiðslu víxilfjárhæðarinnar með innheimtubréfi dags 16. apríl 2015 nam yfirdrátturinn 8.917.484 kr. Krafan fékkst ekki greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi reisir kröfu sína á fyrrgreindum víxli sem var til tryggingar skuld Ánanausta ehf. Skuldin hafi ekki fengist greidd. Vísar stefnandi til víxillaga nr. 93/1993, einkum 7. kafla laganna um fullnustu vegna greiðslufalls. Sé málið rekið samkvæmt 17. kafla laga 91/1991, um meðferð einkamála. Þá gerir stefnandi kröfu um dráttarvexti mánuði eftir dagsetningu innheimtuviðvarana til stefndu.           

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að hinn umdeildi víxill hafi ekki verið sýndur til greiðslu á réttum stað og varði það missi víxilréttar gagnvart stefnda. Bendir hann á að víxillinn sé ekki útfylltur með greiðslustað. Í stefnu staðfesti stefnandi að víxillinn hafi verið til greiðslu á gjalddaga hjá stefnanda sem sé með starfsstöð að Aðalgötu 34, Siglufirði. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. víxillaga segi að sé greiðslustaður eigi tilgreindur sérstaklega, skuli sá staður, sem tilgreindur er við nafn greiðanda, talinn greiðslustaður víxilsins og skal þessi staður þá einnig talinn heimili greiðanda. Samkvæmt þessari lagagrein var réttur greiðslustaður Sólvallagata 84 Reykjavík, heimili Ánanausta ehf.

Af 4. gr. víxillaga verður ráðið að handhafi „opins víxils“, þ.e. sýningarvíxils eða víxils án gjalddaga til útfyllingar af víxilhafa, stendur frammi fyrir því að taka ákvörðun við gjaldþrot samþykkjanda víxils. Telja megi að við gjaldþrot falli víxillinn í gjalddaga. Telur stefndi að þar sem víxillinn hafi ekki verið sýndur til greiðslu með réttu á heimilsfangi samþykkjanda í Reykjavík, heldur á starfsstöð stefnanda á Siglufirði, hafi víxilréttur stefnanda gagnvart stefnda fallið niður fyrir vangeymslu. Því beri að sýkna hann af öllum dómkröfum og dæma til greiðslu málskostnaðar.

IV.

Niðurstaða

Mál þetta er rekið sem víxilmál samkvæmt XVII. kafla víxillaga nr. 93/1933. Stefnandi hefur ekki samþykkt frekari varnir en þær sem tilgreindar eru í 118. gr., sbr. 1. mgr. 119. gr. laganna

Eins og fram kom í skýrslu stefnda Jóhannesar Helga var hinn umdeildi víxill afhentur stefnanda með undirritun hans án þess að gjalddagi hefði verið tilgreindur. Útgáfudag hafi hins vegar verið þar að finna. Stefndi kvað sér hafa verið kunnugt um yfirdráttinn á reikninginn. Vegna vanskila á yfirdrætti greiðanda víxilsins fyllti stefnandi víxilinn út með því að tilgreina gjalddaga eins og hann hafði heimild til samkvæmt viðfestu umboði með víxlinum.

Í 1. mgr. 47. gr. víxillaga segir að þeir, sem út hafa gefið víxil, samþykkt hann eða framselt eða gerst ábyrgðarmenn að honum, beri allir fyrir einn og einn fyrir alla ábyrgð gagnvart víxilhafa. Segir í 2. mgr. ákvæðisins að víxilhafa sé rétt að beina kröfu sinni gegn hverjum sem hann vill af þessum skuldurum, gegn einum þeirra sér eða fleirum saman, og þurfi eigi að fara eftir þeirri röð sem skuldbindingar þeirra eru á víxlinum. Með röð skuldbindinga er átt við að fram að því að víxill er samþykktur er útgefandi víxilskuldarinn. Ábyrgist hann bæði samþykki víxilsins og greiðslu hans. Þegar greiðandi hefur samþykkt víxilinn er hann orðinn víxilskuldarinn. Framseljendur ábyrgjast einnig samþykki og greiðslu víxilsins ef þeir framselja víxilinn með áritun sinni á hann. Þá ber ábekingur, þ.e. ábyrgðarmaður víxilábyrgð gagnvart víxilhafa með sama hætti.

Víxill sá sem hér um ræðir er ekki sýningarvíxill heldur svokallaður eyðuvíxill, sbr. 10. gr. víxillaga, og til tryggingar yfirdrætti á reikning samþykkjanda víxilsins hjá sparisjóðnum. Á hann höfðu ekki verið fylltar út upplýsingar um greiðslustað en víxillinn er á stöðluðu eyðublaði sparisjóðanna með auðkenni þeirra, fjögurra laufa smára, og þar fyrir aftan er útgáfudagur hans og staður „Siglufirði 15/1 2009“. Ekki liggur annað fyrir en að hann hafi verið til greiðslu á gjalddaga hjá stefnanda þar sem vistunarstaður hans var. Stefndi bendir á að tilgreining greiðslustaðar á víxlinum sé formsskilyrði samkvæmt 5. tl. 2. gr. víxillaga. Vegna þess að það sé ekki uppfyllt sé víxilréttur stefnanda gagnvart stefnda fallinn niður fyrir vangeymslu. Úrlausn málsins lýtur þannig að því hvort fullnægjandi hafi verið að sýna víxilinn til greiðslu hjá stefnanda.

Að mati dómsins uppfyllir ofangreindur víxill formkröfur 1. gr. víxillaga. Réttur greiðslustaður tryggingarvíxilsins var hjá stefnanda og var hann nægilega tilgreindur. Samkvæmt þessu er víxilréttur ekki fallinn niður gagnvart stefndu. Hvað varðar stefnda Kára Kort var gætt 96. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Sú staðreynd að stefnandi hafi ekki gætt tilkynningarskyldu sinnar um gjaldagann gagnvart stefndu varðar ekki missi víxilréttar hans.

Með hliðsjón af niðurstöðu þessari og með vísan til 1. mgr. 130. gr. og 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991, ber stefndu að greiða stefnanda sameiginlega málskostnað, sem þykir hæfilegur 380.000 kr.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Jóhannes Helgi Einarsson og Kári Kort Jónsson, skulu greiða stefnanda Arion banka sameiginlega (in solidum) skuld að fjárhæð 5.000.000 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 5.000.000 króna frá 16. maí 2015 til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda sameiginlega 380.000 krónur í málskostnað.