Hæstiréttur íslands

Mál nr. 95/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti


                                     

Föstudaginn 7. mars 2014.

Nr. 95/2014.

 

Byggingahúsið ehf.

(Gunnar Egill Egilsson hdl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem bú B ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu L hf. á grundvelli 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. janúar 2014, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að tilteknum skilyrðum fullnægðum. Frumskilyrði er að sá sem krefst gjaldþrotaskipta eigi lögvarða kröfu á hendur skuldara. Fallist er á með héraðsdómi að varnaraðili hafi sýnt nægilega fram á að svo sé. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði beindi varnaraðili áskorun til sóknaraðila samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 með bréfi 26. mars 2013 sem birt var honum 9. apríl sama ár. Því erindi svaraði sóknaraðili með bréfi 15. sama mánaðar þar sem tilvist fjárkröfunnar var andmælt. Jafnframt var því hafnað að varnaraðili gæti krafist yfirlýsingar um gjaldfærni sóknaraðila samkvæmt fyrrgreindu ákvæði laganna. Þar sem sóknaraðili varð hvorki við áskoruninni né hefur sýnt fram á að hann sé allt að einu fær um að standa skil á skuldbindingum sínum þegar þær falla í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðili verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Byggingahúsið ehf., greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. janúar 2014.

Mál þetta er komið til á grunvelli 1. mgr. 168. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, vegna ágreinings um kröfu um gjaldþrotaskipti. Það var þingfest 1. ágúst sl. og tekið til úrskurðar 1. nóvember sl. Með því að úrskurðaur varð ekki lagður á það innan lögmælts frests vegna anna dómara var það endurflutt hinn 20. janúar 2014.

Sóknaraðili sem er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík,  krafðist þess með bréfi sem barst dómnum 29. maí sl. að bú varnaraðila Byggingarhússins ehf. Bjarkargrund 2 Akranesi, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili krefst málskostnaðar vegna flutnings máls þessa.

Varnaraðili sem er Byggingahúsið ehf., Bjarkargrund 2 Akranesi, krefst þess að kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila verði hafnað.

Ennfremur krefst varnaraðili málskostnaðar.

Sóknaraðili krafðist þess með bréfi til dómsins dagsettu 23. maí 2013 að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Greiðsluáskorun með vísan til 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 hafi verið birt hinn 9. apríl 2013 þar sem skorað hafi verið á félagið að lýsa því yfir innan þriggja vikna að það yrði fært um að greiða tiltekna skuld innan skamms tíma. Svar hafi borist með bréfi, dagsettu 15. apríl 2013 en í svarbréfinu hafi ekki verið að finna yfirlýsingu um greiðslufærni félagsins innan skamms tíma,

Um lagastoð fyrir gjaldþrotaskiptakröfunni vísar sóknaraðili til 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010, sem tóku gildi 2. júlí 2010. Samkvæmt ákvæðinu geti lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu ekki fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær komi í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma, „að skuldarinn hafi ekki innan þriggja vikna orðið við áskorun lánardrottins, sem birt hefur verið honum eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli, um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við hlutaðeigandi lánardrottin þegar hún fellur í gjalddaga eða innan skamms tíma ef hún er þegar gjaldfallin."

Slík krafa nái þó ekki fram að ganga ef skuldarinn sýni fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær komi í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma.

Sóknaraðili byggir á því að ekki geti verið vafi um að þau gögn sem fylgdu beiðni hans um gjaldþrotaskipti uppfylli kröfur sem gerðar séu í áðurnefndu lagaákvæði. Samkvæmt því telur sóknaraðili ágreining í málinu eingöngu geta snúist um það hvort varnaraðili geti afstýrt gjaldþrotaskiptum með því að sýna fram á að sóknaraðili sé ekki kröfuhafi varnaraðila eða að varnaraðili sé gjaldfær.

Hvað aðild Landsbankans hf. varði hafi Fjármálaeftirlitið hinn 9. október 2008, með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tekið þá ákvörðun að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka íslands hf., nú Landsbankinn hf.

Krafa sóknaraðila byggist á því að hann eigi gjaldfallnar kröfu á varnaraðila, sem ekki hafi fengist greidd. Um sé að ræða yfirdrátt á myntveltureikningi nr. 0101-29-600001 í svissneskum frönkum (CHF) en varnaraðili sé reikningshafi. Umsókn varnaraðila um reikninginn sé dagsett 17. ágúst 2007 þar sem merkt sé í þar til gerðan reit að reikningurinn eigi að vera í svissneskum frönkum. Reikningurinn hafi verið stofnaður hinn 21. ágúst 2007. Hinn 9. nóvember 2007 hafi varnaraðili fengið yfirdráttarheimild á reikninginn og sama dag hafi staða hans verið orðin neikvæð um CHF 420.167,38. Varnaraðili hafi aðeins einu sinni greitt inn á skuld sína, hinn 9. júlí 2008, en tekið samdægurs út af reikningnum fyrir sömu fjárhæð. Yfirdráttarheimild varnaraðila hafi fallið niður og hinn 10. febrúar 2011 hafi staða reikningsins verið neikvæð um CHF 1.386.565,86 og hafi var reikningnum þá verið lokað. Skuldin hafi þann dag numið 168.426.155 krónum miðað við skráð sölugengi sóknaraðila þann dag, sbr. almenna skilmála bankans um myntveltureikninga.

Af hálfu sóknaraðila hafi verið sýnt fram á ógjaldfærni varnaraðila með þeim hætti sem áskilið sé í ofangreindu ákvæði gjaldþrotaskiptalaga.

Í svarbréfi varnaraðila til sóknaraðila, dagsettu 15. apríl 2013, hafi komið fram mótmæli við kröfu sóknaraðila. Í fyrsta lagi mótmæli varnaraðili tilvist kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila og teldi ekkert liggja fyrir um kröfuna. Þessu er mótmælt. Lögð hafi verið fram umsókn um veltureikninginn ásamt ítarlegu reikningsyfirliti yfir allar færslur reikningsins. Þá komi einnig fram í bréfi varnaraðila að hann hafði þá undir höndum reikningsyfirlitið, Verði því að telja mikinn ólíkindablæ á þessari málsástæðu varnaraðila. Aldrei hafa nokkrar athugasemdir verið gerðar við reikningsyfirlitin en neðst á þeim komi fram að athugasemdir óskist gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, annars teljist reikningurinn réttur. Enn fremur hefðu líklegast allir sem fylgjast eitthvað með sínum fjármálum gert alvarlegar athugasemdir ef, af einhverjum ástæðum, verið væri að draga á reikning reikningshafa án hans heimildar og það um háar fjárhæðir. Þá komi skuldin fram í ársreikningi félagsins fyrir rekstrarárið 2011 sem samþykktur hafi verið á aðalfundi félagsins 5. október 2012. Þar sé í skýrslu stjórnar einvörðungu settur fram fyrirvari um að óvissa sé um hvort lánið sé í erlendri mynt eða með ólögmætri gengistryggingu en ekkert um tilurð kröfunnar. Með vísan til alls ofangreinds sé þessi málsástæða varnaraðila honum haldlaus og verði ekki séð að áskorun varnaraðila á dskj. nr. 9 hafi nokkra þýðingu í þessu máli. Í öðru lagi byggi varnaraðili á því að skuldin sé fyrnd. Því er mótmælt af hálfu sóknaraðila. Um sé að ræða peningalán, sbr. 1. ml. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sem fyrnist á 10 árum og krafan því augljóslega ekki fyrnd. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um fyrningu kröfuréttinda sé sérstaklega tekið fram í athugasemdum um 1. ml. 2. mgr. 5. gr. að reglan taki m.a. til peningalána, sem veitt séu í atvinnuskyni, þar með talið yfirdráttarlána. Sé því engum vafa undirorpið að krafan sé ekki fyrnd. Varnaraðili byggi í þriðja lagi á tómlæti sóknaraðila við innheimtu skuldarinnar. Því er einnig mótmælt af hálfu sóknaraðila. Ljóst sé að krafa eins og um ræðir í þessu máli geti ekki fallið niður fyrir tómlæti. Varnaraðili sé lögaðili sem fengið hafi háar fjárhæðir lánaðar frá forvera sóknaraðila og geti með engum hætti byggt á tómlæti. Þeir sem gangist undir fjárskuldbindingar verði að efna þær. Löggjafinn hefur ávallt haft fyrningarfrest ríflegan á peningalánum og því skyti það skökku við ef krafa félli niður vegna tómlætis mörgum árum áður en krafan hefði ella fyrnst. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness hinn 6. maí 2011 hafi yfirdráttarlán á sambærilegum reikningi og hér um ræðir verið talið lán í íslenskum krónum verðtryggt með ólögmætum hætti miðað við gengi bandaríkjadals. Taldi sóknaraðili því óhjákvæmilegt að líta svo á að réttaróvissa væri um sambærileg lán hans. Fjármálafyrirtækið í ofangreindu máli áfrýjaði hins vegar dóminum til Hæstaréttar. Hæstiréttur snéri dómi héraðsdóms við og dæmdi að stofnað hefði verið til skuldar í mynt viðkomandi reiknings. Dómur Hæstaréttar var kveðinn upp 11. október 2012 og var það ekki fyrr en þá sem réttaróvissunni var endanlega eytt,

Þá telur sóknaraðili kröfur sínar ekki nægilega vel tryggðar, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 65. gr. Laga nr. 21/1991.

Sé því ljóst að varnaraðili hafi ekkert gert til að sýna fram á gjaldfærni sína. Telur sóknaraðili því að fallast beri á kröfur hans um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Af hálfu varnaraðila er um málsatvik vísað til þess að varnaraðili sé einkahlutafélag, sem hafi þann tilgang, skv. samþykktum, að reka smásöluverslun um land allt og rekstur fasteigna- og lánastarfsemi tilheyrandi slíkum rekstri. Viðskipti sóknaraðila og varnaraðila hafi hafist í ágúst 2007, þegar sóknaraðili hafi yfirtekið banka- og verðbréfaþjónustu sem varnaraðili hefði fengið hjá Glitni hf.

Hvorki hafi við upphaf þeirra viðskipta, né síðar, verið lagt mat á hæfi varnaraðila til að eiga í viðskiptum með fjármálagerninga, þá hafi heldur ekki verið aflað upplýsinga um þekkingu og reynslu fyrirsvarsmanna varnaraðila af slíkum viðskiptum, eins og skylt sé að gera, sbr. 15. og 16. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

Hinn 18. ágúst 2007 hafi aðili með prókúruumboð f.h. varnaraðila undirritað umsókn um myntveltureikning hjá forvera sóknaraðila. Um slíka myntveltureikninga gildi almennir skilmálar sóknaraðila og sé samkvæmt þeim unnt að sækja um yfirdráttarheimild á slíka reikninga með skriflegri beiðni, símtali eða tölvupósti. Varnaraðili hafi hvorki óskað eftir yfirdráttarheimild á þar til gerðum reit í umræddri umsókn, né óskað eftir henni á seinni stigum.

Með innheimtubréfi, dagsettu 2. mars 2011 hafi sóknaraðili krafist greiðslu þeirra krafna sem séu grundvöllur máls þessa. Erindi því hafi verið svarað af þáverandi lögmanni varnaraðila, með tölvupósti dagsettum 8. mars 2011, þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um kröfuna og afriti þeirra gagna sem henni tengjast. Erindi lögmannsins hafi ekki verið svarað og hafi hann ítrekað hann fyrirspurn sína í tölvupósti, dagsettum 30. mars 2011. Hinu síðara erindi hafi verið svarað, án þess þó að fram hafi verið færð svör við framkomnum fyrirspurnum.

Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að ekkert í málatilbúnaði sóknaraðila gefi tilefni til að ætla að kröfur hans byggi á lánaviðskiptum, hvorki yfirdráttarlánaviðskiptum eða annars konar lánaviðskiptum, eins og látið sé í skína í greinargerð sóknaraðila.

Þannig sé hvergi til að dreifa gögnum sem sýni fram á að varnaraðili hafi lagt fram beiðni um lánsfjármagn, eins og undantekningarlaust sé undanfari slíkra viðskipta. Þá sé ekkert í gögnum málsins sem renni stoðum undir það að milli varnar- og sóknaraðila hafi komist samkomulag um að annar veitti hinum lán að fjárhæð 1.386.565,86 svissneskra franka, sem endurgreitt skyldi á seinni stigum, með vöxtum.

Enn fremur verði ekki séð að þeirri fjárhæð, sem krafist sé greiðslu á í þessu máli, hafi verið ráðstafað í þágu varnaraðila, eða með frumkvæði og/eða forræði varnaraðila. Þvert á móti hafi það aðeins verið fyrir tilstilli sóknaraðila sem fjárhæð hafi verið færð til skuldar á myntveltureikningi hans og sé ádrætti reikningsins svo ráðstafað algerlega án þess að varnaraðili eigi þar nokkra aðkomu að. Ekkert í gögnum málsins gefi tilefni til að ætla að varnaraðili haft nokkra aðkomu haft að þessum viðskiptum. Því sé hafnað að krafa sú sem grundvallar beiðni sóknaraðila um gjaldþrotaskipti sé lögvarin krafa, enda ekki um að ráða yfirdráttarlán sem sóknaraðili hafi veitt varnaraðila og varnaraðili tekið hjá sóknaraðila, eins og sóknaraðili virðist byggja á.

Í þessu samhengi sé rétt að ítreka að í þinghaldi hinn 6. ágúst sl. hafi verið skorað á gagnaðila að leggja fram á gögn sem sýndu fram á að til lánaviðskipta hefði stofnast milli aðila þessa máls og að varnaraðili hefði óskað eftir að dregið yrði á lánsheimild á grundvelli slíkra viðskipta.

Sóknaraðili hafi ekki lagt nein slík gögn fram og byggi varnaraðili á því að hann hafi ekki skuldbindið sig til að greiða sóknaraðila þá fjárhæð sem grundvallar málatilbúnað hans. Sóknaraðili verði að bera allan hallann af þeim rýra málatilbúnaði sem hann leggi upp með og að hafa ekki bætt úr honum, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þar að lútandi.

Það eina sem stefnandi leggi fram um tilurð yfirdráttarlánsins sé umsókn um myntveltureikning, dagsett 17. ágúst 2007. Í greinargerð sóknaraðila komi fram að þessi myntveltureikningur hafi verið stofnaður hinn 21. ágúst og að staða hans hafi verið neikvæð sama dag, um CHF 420.167,38.

Af greinargerð sóknaraðila verði ekki annað ráðið en að byggt sé á því að til yfirdráttarins hafi verið stofnað með umsókn um myntveltureikning, sbr. dskj. 5, enda virðist hann stofnaður með yfirdráttarheimild og ekki liggi önnur gögn fyrir um yfirdráttarheimildina.

Hrópandi ósamræmi sé á milli málatilbúnaðar sóknaraðila og þeirra gagna sem hann byggi á, enda megi vera ljóst af skoðun umsóknar varnaraðila um myntveltureikning að ekki sé fylltur út sá reitur sem lúti að umsókn um yfirdráttarheimild.

Enn fremur geti sú umsókn, sem grundvallar kröfugerð sóknaraðila, ekki talist skuldbindandi fyrir varnaraðila. Helgist það af því að umsóknin sé ekki undirrituð af stjórnarmanni félagsins, eins og áskilið sé í 16. gr. samþykkta félagsins, heldur af prókúruhafa, sbr. dskj. 17 og 18. Vissulega séu heimildir prókúruhafa til skuldbindingar umbjóðenda víðtækar, sbr. 25. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903. Prókúruhafar geti þó aldrei undirritað skuldbindingar f.h. umbjóðenda, sem ekki tengist rekstri þeirra, eða séu óvenjulegar eða umfangsmiklar, með vísan til rekstrar umbjóðenda, sbr. sama ákvæði laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.

Umsókn um yfirdráttarheimild í erlendri mynt, sem virðist ekki hafa verið lægri en 1.386.565,86 svissneskra franka, geti aldrei talist vera ráðstöfun sem snerti þann verslunarrekstur sem varnaraðili stundi skv. samþykktum sínum. Aðkomu stjórnar þyrfti alltaf í slíkum tilvikum til að hún geti talist skuldbindandi fyrir varnaraðila.

Það hefur enga þýðingu um tilvist réttinda sóknaraðila að hann hafi sent út reikningsyfirlit, sem sýnt hafi neikvæða stöðu myntveltureiknings. Einhliða yfírlýsing sóknaraðila um að yfirlitið teljist rétt, sé því ekki andmælt, verði ekki til þess að undirbyggja kröfuréttindi hans.

Þá hafi það heldur enga þýðingu að krafa sóknaraðila hafi verið tilgreind, í ársreikningi varnaraðila. Félagið sé ekki í neinum rekstri og hafi skuldin verið færð inn sem varúðarfærsla, enda hefði bankinn haldið kröfunni á lofti gagnvart varnaraðila.

Þegar allt ofangreint sé virt, sé ómögulegt á álykta að sóknaraðili geti átt kröfu á hendur varnaraðila sem geti grundvallað beiðni hans um gjaldþrotaskipti og beri því að hafna fram kominni beiðni.

Sú meginregla gildi um fyrningu krafna að þær fyrnist á fjórum árum, sbr. 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 og 3. gr. áðurgildandi laga um sama efni, nr. 44/1905. Þá hafi verið lögfestar undantekningar á þeim meginreglum, sbr. 4. gr. áðurnefndra laga og 2. og 4. gr. hinna síðarnefndu laga.

Af hálfu sóknaraðila sé á því byggt að fyrningarfrestur krafna hans sé 10 ár, með vísan til umræddra undantekninga frá meginreglu um almennan fyrningarfrest kröfuréttinda. Varnaraðili telur að þessi staðhæfing sóknaraðila fáist ekki staðist. Eins og áður var rakið verður ekki séð að sú krafa sóknaraðila byggi á samkomulagi milli aðila um lánveitingu, eða yfirdráttarlánveitingu, eins og byggt er á. Ekkert í málatilbúnaði sóknaraðila gefi tilefni til að ætla að svo sé.

Sóknaraðili geti ekki að eigin forræði búið svo um viðskiptin að þau hafi yfirbragð og einkenni yfirdráttarláns, og með því komast hjá almennri meginreglu um fjögurra ára fyrningu krafna hans. Frekari gögn þyrftu að koma til, svo unnt væri að fallast á þá röksemdafærslu sóknaraðila að um yfirdráttarlán sé að ræða. Slík gögn hafa ekki komið fram, þrátt fyrir áskoranir þar að lútandi.

Beri málatilbúnaður sóknaraðila það ekki skýrlega með sér, að umrædd viðskipti séu hefðbundin lánaviðskipti, eða yfirdráttarlánaviðskipti, verði að álykta sem svo að krafa hans sé almenn fjárkrafa, sem hafi almennan fyrningarfrest í skilningi laga um fyrningu kröfuréttinda, óháð því í hvaða búning sóknaraðili hafi búið kröfugerð sína í þágu krafna sinna um gjaldþrotaskipti. Byggist sú lögskýring á því að undantekningar frá meginreglum skuli ávalt túlka þröngt og verði sóknaraðili að bera hallann af öllum óskýrleika í þessum efnum.

Verði talið að lögvarin krafa hafi myndast á hendur varnaraðila, í samræmi við málatilbúnað sóknaraðila, verði að taka mið af eðli þeirrar kröfu í heildarsamhengi hlutanna. Eins og sjá megi af reikningsyfirliti yfir myntveltureikning varnaraðila hafi fjármunum verið ráðstafað til innborgunar á skiptasamninga milli sóknar- og varnaraðila. Verði því að ætla að tilgangurinn með viðskiptunum sé að fjármagna greiðslu krafna sóknaraðila skv. téðum skiptasamningi.

Það sé yfir vafa hafíð að krafa samkvæmt slíkum samningi fyrnist á fjórum árum, í samræmi við meginreglur 3 gr. laga um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt eðli máls geti krafa sem lúti að fjármögnum viðskipta aldrei haft lengri fyrningarfrest en sú viðskiptakrafa sem verið sé að fjármagna.

Vísist í þessu samhengi til athugasemda í greinargerð að frumvarpi til laga nr. 150/2007 sem segi skýrt að önnur fjármögnun, sem ekki falli undir skilgreiningar peningalána skv. 5. gr., fyrnist á fjórum árum, jafnvel þó að um sé að ræða lánveitingu í atvinnuskyni. Enn fremur segi að þegar um sé að ræða viðskipti vegna kaupa með greiðslufresti, gildi hinn almenni fyrningarfrestur, enda séu slík lán gerð upp á skömmum tíma fremur en að um langtímalán sé að ræða. Það sjónarmið eigi einmitt við um þá skiptasamninga sem varnaraðili gerði við LBI hf., sem almennt séu gerðir til skamms tíma, og svo framlengdir eða gerðir upp.

Krafa sóknaraðila tekur bæði til greiðslu höfuðstóls og vaxta. Jafnvel þó að höfuðstóll væri talinn hafa 10 ára fyrningarfrest sé ljóst skv. 2. ml. 1. mgr. og 2. ml. 2. mgr. 5. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda að krafa um vexti sé niður fallin sökum fyrningar.

Sé ekki fallist á málsástæður varnaraðila, er lúta að tilvist kröfu varnaraðila og fyrningu, byggir varnaraðili enn fremur á því að sóknaraðili hafi fyrirgert rétti sínum til þess að krefjast greiðslu á kröfum sínum sökum tómlætis.

Sóknaraðili hafi enga tilburði gert til að innheimta kröfu sína fyrr en langt hafi verið liðið frá gjaldfellingu þeirra. Þegar sóknaraðili láti loks verða af því að senda innheimtubréf, bregðist hann ekki á nokkurn hátt við óskum eða áskorunum um afhendingu gagna um tilurð kröfunnar.

Tómlæti sóknaraðila sé því stórfellt og þess valdandi að kröfur hans verði að teljast niður fallnar.

Lagarök

Vísað er til meginreglu kröfuréttarins um tilvist krafna og meginreglna samningaréttar. Þá byggir varnaraðili ennfremur á lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, sér í lagi 15. og 16. gr., sem og lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007 og áðurgildandi laga um sama efni, nr. 44/1905

Málskostnaðarkrafa stefnanda byggir á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

NIÐURSTAÐA

Í gögnum málsins er að finna umsókn um myntveltureikning frá 17. ágúst 2007 þar sem f.h. varnaraðila er sótt um að fá að opna myntveltureikning við Landsbanka Íslands hf. Í umsókninni kemur m.a. fram að eigandi fjármuna sem lagðir yrðu inn á reikninginn skyldi varnaraðili, tilgangur með notkun reikningsins væri vegna eignastýringar og að uppruni fjárins væri lántaka. Merkt er í þar til gerðan reit að reikningurinn eigi að vera í svissneskum frönkum. Samkvæmt yfirliti yfir reikning þennan sem bar númerið 101-29-600001 var hann stofnaður hinn 21. ágúst 2007. Hinn 9. nóvember 2007 fékk varnaraðili yfirdráttarheimild á reikninginn og sama dag var staða hans orðin neikvæð um 420.167,38 svissneska franka. Varnaraðili greiddi inn á skuld sína, hinn 9. júlí 2008, en tók samdægurs út af reikningnum fyrir sömu fjárhæð. Yfirdráttarheimild varnaraðila féll niður hinn 10. febrúar 2011 og var staða reikningsins þá neikvæð um 1.386.565,86 svissneska franka og reikningnum þá lokað. Skuldin nam þann dag 168.426.155 krónum miðað við skráð sölugengi sóknaraðila. Fram kemur í bréfi lögmanns varnaraðila dagsettu 15. apríl 2013 að varnaraðila höfðu borist reikningsyfirlit án þess að nokkrar athugasemdir hafi komið fram við þau fyrr en ágreiningsmál þetta kom til sögunnar.

Ekki verður fallist á það með varnaraðila að krafan sé niður fallin fyrir fyrningu enda um að ræða peningalán, sbr. 1. málslið. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sem fyrnist á 10 árum og krafan því augljóslega ekki fyrnd. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um fyrningu kröfuréttinda er sérstaklega tekið fram í athugasemdum um 1. ml. 2. mgr. 5. gr. að reglan taki m.a. til peningalána, sem veitt séu í atvinnuskyni, þar með talið yfirdráttarlána. Fallast má á það  eð sóknaraðila að það hafi fyrst verið með dómi Hæstaréttar 11. október 2012 sem réttaróvissu um lögmæti lána sams konar því sem hér ræðir um var endanlega eytt. Telur dómari ekki koma til álita að telja kröfu sóknaraðila niður fallna fyrir tómlæti. Er því þeirri málsástæðu varnaraðila að krafan sé niður fallin fyrir þær sakir hafnað.

Samkvæmt framansögðu þykja nægjanleg rök hafa verið færð fram fyrir því að sóknaraðili eigi fjárkröfu þá á hendur varnaraðila sem hann reisir kröfu sína um gjaldþrotaskipti á.

Varnaraðili varð ekki við áskorun sóknaraðila um að lýsa því yfir að hann væri fær um að greiða skuld sína við sóknaraðila á þann hátt sem kveðið er á um í 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010. Samkvæmt upphafsákvæði sömu málsgreinar verður bú varnaraðila því tekið til gjaldþrotaskipta nema hann sýni fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær falla í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Varnaraðili ber sönnunarbyrði fyrir því að hann sé fær um að standa full skil á öllum skuldbindingum sínum eða muni að minnsta kosti verða það innan skamms tíma, sbr. upphafsákvæði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Honum hefur ekki tekist að færa sönnur á að hann sé gjaldfær í skilnings þess ákvæðis. Verður krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi hans því tekin til greina.

Varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað eins og greinir í úrskurðarorði greinir þ.m.t. virðisaukaskattur.

Við uppkvaðningu úrskurðar sem hefur dregist vegna anna dómara.er gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ

Bú varnaraðila, Byggingahússins ehf., er tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., 500.000 krónur í málskostnað.