Hæstiréttur íslands
Mál nr. 138/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Aðild
- Res Judicata
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 14. apríl 2005. |
|
Nr. 138/2005. |
Kaupfélag Árnesinga svf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Sparisjóði Mýrasýslu (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Aðild. Res judicata. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
K gaf út fjóra víxla sem S keypti. Auk víxlanna gaf K út yfirlýsingar sem kváðu á um að allar greiðslur til K frá F skyldu lagðar inn á tilgreindan bankareikning hjá S. Fór svo að K taldi sig óbundinn af fyrrnefndri ráðstöfun fyrrverandi framkvæmdastjóra síns að hafa gefið út víxlana, svo og af yfirlýsingunum tveimur. Varð það til þess að greiðslur frá F voru lagðar inn á vörslureikning hjá lögmannsþjónustu þar til leyst yrði úr ágreiningnum. S höfðaði síðan mál meðal annars til innheimtu víxlanna. Lauk því máli með dómi Hæstaréttar þar sem greiðsluskylda K var staðfest vegna víxlanna en hafnað var kröfu S um staðfestingu veðréttar í fyrrnefndum greiðslum frá F. K höfðaði þá mál þetta og krafðist þess aðallega að viðurkennt yrði að S ætti engan rétt til greiðslnanna frá F en til vara að yfirlýsingunum yrði rift. F hafði þá þegar lagt féð inn á reikning K hjá S, sem getið hafði verið í yfirlýsingunum, og hafði S þegar ráðstafað því fé til að greiða skuld K samkvæmt víxlunum. Sökum þessa var kröfu K vísað frá dómi með vísan til 25. gr. laga um meðferð einkamála. Þá var talið að atvik hefðu tekið slíkum breytingum eftir höfðun málsins að óhjákvæmilegt væri að líta svo á að grundvöllur væri einnig brostinn undan því að því er varðaði varakröfu K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. mars 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 17. mars 2005, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gaf sóknaraðili út 11. apríl 2003 fjóra víxla, sem hver var að fjárhæð 7.500.000 krónur, og voru þeir samþykktir af Eignarhaldsfélaginu Brú ehf. til greiðslu á tímabilinu frá 20. júní til 20. september sama ár. Að þessari ráðstöfun stóð þáverandi framkvæmdastjóri sóknaraðila, sem jafnframt var stjórnarformaður Eignarhaldfélagsins Brúar ehf., en það var talið til dótturfélaga sóknaraðila. Víxlar þessir voru keyptir af varnaraðila til framlengingar á eldri víxli. Sama dag og fyrrnefndu víxlarnir voru gefnir út var undirrituð yfirlýsing sóknaraðila og Flugleiða hf. um að allar greiðslur til hans frá svokallaðri greiðslumiðlun Flugleiða hf. frá og með 15. apríl 2003 skyldu lagðar inn á nánar tilgreindan bankareikning hjá varnaraðila. Í yfirlýsingu þessari, sem jafnframt var árituð af varnaraðila, var tekið fram að ekki mætti breyta þeirri skipan, sem þar var kveðið á um, nema með samþykki hans og sóknaraðila. Að auki undirrituðu aðilar málsins aðra yfirlýsingu sama dag, þar sem sóknaraðili veitti varnaraðila heimild til að taka út af áðurnefndum bankareikningi greiðslur tiltekinnar fjárhæðar á tilgreindum dögum, sem svöruðu til fjárhæðar og gjalddaga víxlanna fjögurra.
Sóknaraðili fékk 14. júlí 2003 heimild til greiðslustöðvunar, sem síðan var framlengd allt til 13. janúar 2004. Fyrir lok hennar var sóknaraðila veitt heimild 8. janúar 2004 til að leita nauðasamnings, sem staðfestur var 29. apríl sama ár með því meginefni að samningskröfur á hendur honum yrðu greiddar að 20 hundraðshlutum. Skömmu eftir að sóknaraðili fékk upphaflega heimild til greiðslustöðvunar tilkynnti hann varnaraðila 17. júlí 2003 að hann teldi sig af nánar tilgreindum ástæðum óbundinn af þeirri ráðstöfun framkvæmdastjóra síns að hafa gefið út fyrrnefnda fjóra víxla, svo og af yfirlýsingunum tveimur frá 11. apríl sama ár. Hann tilkynnti jafnframt Flugleiðum hf. 17. júlí 2003 um þessa afstöðu sína til yfirlýsinganna og krafðist þess að fé frá greiðslumiðlun félagsins yrði ekki greitt varnaraðila, heldur beint til sín. Flugleiðir hf. tilkynntu málsaðilum sama dag að fé til sóknaraðila úr greiðslumiðlun félagsins yrði lagt á vörslureikning hjá LOGOS lögmannsþjónustu þar til leyst yrði úr þessum ágreiningi.
Varnaraðili fékk ekki áðurnefnda fjóra víxla greidda og höfðaði því mál á hendur sóknaraðila til heimtu þeirra 25. nóvember 2003. Krafðist varnaraðili þess jafnframt að staðfestur yrði veðréttur sinn í fé frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu, samtals 70.264.090 krónur. Dómur gekk í málinu fyrir Héraðsdómi Vesturlands 11. mars 2004 og voru kröfur varnaraðila teknar þar til greina, en þá lá fyrir samkvæmt málatilbúnaði hans að fjárhæðin, sem lögmannsþjónustan hafði í vörslum sínum, væri 45.205.934 krónur. Sóknaraðili áfrýjaði dóminum 24. maí 2004 og lauk málinu, sem var nr. 211/2004, með dómi Hæstaréttar 18. nóvember sama ár. Í honum var niðurstaða héraðsdóms staðfest um greiðsluskyldu sóknaraðila við varnaraðila, en um kröfu þess síðarnefnda um staðfestingu veðréttar sagði eftirfarandi í dóminum: „Þegar virt er framangreind yfirlýsing áfrýjanda og Flugleiða hf. 11. apríl 2003, sem einnig var undirrituð af stefnda, er ljóst að í henni er ekki tekið fram að um veðsamning sé að ræða og engin fjárkrafa er þar samkvæmt orðalagi hennar sett að veði, heldur lýsir áfrýjandi því yfir að allar greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. fari inn á tiltekinn reikning hjá stefnda og að ekki sé heimilt að gera breytingu þar á nema með samþykki stefnda. Þótt hér sé um skýra viljayfirlýsingu að ræða af hálfu áfrýjanda, sem geymir skuldbindingu hans sem ekki verður breytt nema með samþykki stefnda, felur hún samkvæmt efni sínu ekki í sér að stefnda hafi verið veitt veð eða önnur tryggingarréttindi í hinum umræddu greiðslum frá Flugleiðum hf. Er því fallist á með áfrýjanda að hér sé ekki um veðsamning að ræða og verður krafa stefnda um staðfestingu veðréttar ekki tekin til greina.“
Á meðan framangreint mál var til meðferðar fyrir Hæstarétti höfðaði sóknaraðili mál þetta 7. júlí 2004. Í héraðsdómsstefnu krafðist hann þess aðallega að viðurkennt yrði að varnaraðili ætti engan rétt til greiðslna að fjárhæð samtals 70.264.090 krónur í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu, en til vara að yfirlýsingunum tveimur frá 11. apríl 2003 yrði rift og varnaraðila gert að greiða sér 4.482.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2003 til greiðsludags. Varakrafan var reist á 1. mgr. 139. gr., 141. gr. og 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en í héraðsdómsstefnu var án nánari skýringa tiltekið að hún væri um „endurgreiðslu á kr. 4.482.800 sem fram fór þ. 23.6.2003“. Í greinargerð, sem varnaraðili lagði fram í héraði 18. janúar 2005, var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að hann yrði sýknaður af kröfum sóknaraðila. Kom meðal annars fram í greinargerðinni að varnaraðili hafi áður en hann „varð gjaldþrota“ greitt umræddar 4.482.800 krónur inn á skuld samkvæmt einum víxlanna fjögurra, sem var á gjalddaga 20. júní 2003. Með hinum kærða úrskurði var fallist á aðalkröfu varnaraðila um frávísun málsins.
II.
Í bréfi LOGOS lögmannsþjónustu 29. desember 2004, sem beint var meðal annars til lögmanna málsaðila, var lýst þeirri skoðun að það leiddi af áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 18. nóvember sama ár að yfirlýsing sóknaraðila og Flugleiða hf. 11. apríl 2003 væri gild. Yrði því fé, sem lögmannsþjónustan tók í vörslur sínar vegna ágreinings aðilanna, lagt á þann bankareikning sóknaraðila hjá varnaraðila, sem getið var í yfirlýsingunni. Væri um að ræða höfuðstól að fjárhæð 45.535.800 krónur og 2.554.908 krónur í vexti eða samtals 48.090.708 krónur. Samkvæmt greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi tók hann við þessari greiðslu og varði hluta hennar til að greiða skuld sóknaraðila samkvæmt áðurnefndum fjórum víxlum. Eftir þessa ráðstöfun er aðalkrafa sóknaraðila, sem lýtur eins og áður segir að því einu að viðurkennt verði að varnaraðili eigi engan rétt til nánar tiltekinnar fjárhæðar í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu, andstæð ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa henni frá héraðsdómi.
Eftir að sóknaraðili höfðaði mál þetta hefur því verið slegið föstu með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2004 að sóknaraðila hafi verið skylt að greiða varnaraðila skuld samkvæmt margnefndum fjórum víxlum. Þótt fallist yrði á við efnismeðferð varakröfu sóknaraðila að skilyrði væru til að rifta ráðstöfunum, sem fólust í yfirlýsingunum tveimur frá 11. apríl 2003 og greiðslum í skjóli þeirra, myndi skylda eftir sem áður hvíla á sóknaraðila til að efna þessa skyldu sína, eftir atvikum að teknu tilliti til nauðasamnings hans, sem áður er getið, en til þess er ekki tekin afstaða svo viðhlítandi sé í málatilbúnaði hans. Þá liggur nú fyrir að varnaraðili hefur tekið sér fulla greiðslu skuldarinnar samkvæmt víxlunum fjórum, en ekki aðeins fengið greiddar inn á hana 4.482.800 krónur, eins og kröfugerð sóknaraðila tekur mið af. Þótt sóknaraðila hafi ekki borið að beina varakröfu sinni, sem reist er á ákvæðum XX. kafla, sbr. 32. gr. laga nr. 21/1991, að Flugleiðum hf. samhliða varnaraðila, og ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991 standi því ekki í vegi að sóknaraðili hafi þessa kröfu nú uppi, hafa atvik tekið samkvæmt framansögðu slíkum breytingum eftir höfðun málsins að óhjákvæmilegt er að líta svo á að grundvöllur sé brostinn undan því að þessu leyti. Verður því jafnframt að vísa varakröfu sóknaraðila frá héraðsdómi.
Samkvæmt framangreindu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa málinu frá dómi. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 17. mars 2005.
Mál þetta er höfðað 7. júlí 2004, þingfest 7. september s.á, en tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda 2. mars 2005.
Stefnandi er Kaupfélag Árnesinga svf., kt. 680169-5869, Eyrarvegi 37, Selfossi.
Stefndi er Sparisjóður Mýrasýslu, kt. 610269-5409, Borgarbraut 14, Borgarnesi.
Stefnandi krefst viðurkenningar á því að stefndi eigi engan rétt til eftirtalinna greiðslna sem séu í vörslu LOGOS lögmannsstofu fh. Greiðslumiðlunar Flugleiða hf.:
Þann 24. júlí 2003 20.253.977 krónur
Þann 22. ágúst 2003 26.718.056 krónur
Þann 2. október 2003 23.292.057 krónur
Til vara er þess krafist að yfirlýsingu Óla Rúnars Ástþórssonar fh. stefnanda, Flugleiða hf. og stefnda frá 11. apríl 2003 og ávísun dags. sama dag verði rift og stefnda gert að greiða stefnanda 4.482.800 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. 6. 2003 til greiðsludags. Loks er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er gerð krafa um að stefndi verði alfarið sýknaður af kröfum stefnanda. Loks krefst stefndi greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Með stefnu 25. nóvember 2003 höfðaði stefndi mál gegn stefnanda til greiðslu fjögurra víxla útgefinna 11. apríl 2003 af þáverandi framkvæmdastjóra stefnanda og samþykktra til greiðslu af Eignarhaldsfélaginu Brú hf. Samhliða þeirri kröfu var gerð krafa um að staðfestur yrði veðréttur fyrir skuldinni í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu og í því vísað til tveggja skjala, sem dagsett voru á útgáfudegi víxlanna 11. apríl 2003. Í því máli studdi stefnandi sýknukröfu sína einkum því að framkvæmdastjórinn, sem gaf út víxlana, hafi farið út fyrir umboð sitt þar sem um óvenjulegar og meiriháttar ráðstafanir hafi verið að ræða sem stefnda hafi mátt vera ljóst. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 11. mars 2004 var stefnandi dæmdur til greiðslu samkvæmt víxlunum. Á grundvelli yfirlýsinga fyrrum framkvæmdastjóra stefnanda frá 11. apríl 2003 var talið að stofnast hafi til gilds veðsamnings og því staðfestur veðréttur til handa stefnda í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða, sem þá voru í vörslu LOGOS lögmannsþjónustu. Í kjölfar dóms héraðsdóms höfðaði stefnandi mál þetta með dómkröfu þess efnis að stefndi eigi engan rétt til þeirra greiðslna er séu í vörslu LOGOS lögmannsþjónustu, en með varakröfu um riftun á yfirlýsingum fyrrum framkvæmdastjóra stefnanda. Með dómi Hæstaréttar Íslands 18. nóvember 2004, í málinu nr. 211/2004, var fallist á að framkvæmdastjóri stefnanda hafi haft heimild til að gefa út hina umdeildu víxla fyrir hönd stefnanda og greiðsluskylda stefnanda því staðfest. Yfirlýsingar stefnanda og Flugleiða hf., frá 11. apríl 2003, voru hins vegar samkvæmt efni sínu ekki taldar fela í sér að stefnda hafi verið veitt veð eða önnur tryggingarréttindi í greiðslunum frá Flugleiðum hf., þó svo um hafi verið að ræða skýra viljayfirlýsingu af hálfu stefnanda. Var því fallist á með stefnanda að ekki hafi verið um veðsamning að ræða og krafa um staðfestingu veðréttar því ekki tekin til greina.
Stefnanda var með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 14. júlí 2003 veitt heimild til greiðslustöðvunar. Með úrskurði héraðsdóms 8. janúar 2004 var stefnanda veitt heimild til að leita nauðasamninga við lánadrottna sína og var nauðasamningur staðfestur 29. apríl 2004.
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á því að kröfugerð stefnanda standist ekki eins málum sé nú háttað. Aðalkrafa stefnanda sé sú að stefndi eigi engan rétt til greiðslna sem séu í vörslu LOGOS lögmannsþjónustu, samtals að fjárhæð 70.264.090 krónur. Engir fjármunir frá Flugleiðum hf., sem hafi átt að berast stefnda, séu nú í vörslu LOGOS lögmannsþjónustu. Lögmannsþjónustan hafi verið með í sínum vörslum 48.090.708 krónur sem hafi verið greiddar stefnda, sbr. bréf LOGOS lögmannsþjónustu frá 29. desember 2004 á dskj. nr. 9. Eins og þar sé rakið hafi lögmaður Flugleiða hf. lýst yfir, áður en stefndi hafi höfðað mál það er dæmt hafi verið endanlega í Hæstarétti 18. nóvember 2004, að félagið myndi greiða umrædda fjármuni til þess aðila sem þeim bæri að fenginni dómsniðurstöðu. Með bréfi 29. desember hafi lögmaðurinn tilkynnt, með vísan til dóms Hæstaréttar, að umræddir fjármunir yrðu greiddir inn á tilgreindan reikning stefnanda hjá stefnda. Hafi það verið gert næsta dag, eða 30. desember 2004 og hafi stefndi ráðstafað hluta af þeim fjármunum til greiðslu á hinum umþrættu víxlum. Til vara krefjist stefnandi riftunar á yfirlýsingum sem þegar hafi verið dæmt um í Hæstarétti Íslands að væru skuldbindandi fyrir stefnanda. Sá dómur hafi res judicata áhrif hvað það varði. Varakrafa stefnanda sé einnig að hluta til fjárkrafa en í málavaxtalýsingu í stefnu sé engin grein gerð fyrir tilvist fjárkröfunnar og því ekki ljóst hvernig málsástæður stefnanda fái samrýmst atvikalýsingu hvað fjárkröfuna varði.
Á því sé byggt, að þó fallist yrði á aðalkröfu stefnanda yrði ekki unnt að fullnusta slíkan dóm með aðför og því þýðingarlaust að kveða upp efnisdóm um hana. Sama eigi við um varakröfuna þar sem þær yfirlýsingar sem krafist sé riftunar á hafi ekki lengur þýðingu þar sem engar greiðslur, sem hafi átt að ganga til stefnda, séu lengur hjá Flugleiðum hf., né inni á þeim reikningi stefnanda hjá stefnda sem tilgreindur sé í umræddri yfirlýsingu. Varðandi riftunarkröfuna bendi stefndi jafnframt á að verið sé að krefjast riftunar á yfirlýsingu sem þriðji aðili hafi átt hlut að, þ.e. Flugleiðir hf. Það félag sé ekki aðili að málinu. Ekki sé unnt að rifta sameiginlegri yfirlýsingu nokkurra aðila án þess að þeir allir eigi aðild að málinu.
Eins og hér hagar til þykir rétt að vitna orðrétt til málsástæðna stefnanda fyrir aðalkröfu, eins og þeim er lýst í greinargerð:
,,Aðalkrafan:
- Á því er byggt að þáverandi framkvæmdastjóri stefnanda hafi ekki verið innan umboðs síns, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 (hér eftir skammstöfuð sml.). Bæði er um að ræða ráðstafanir sem eru óvenjulegar og meiriháttar, auk þess sem þær varða ekki atvinnu stefnanda. Af því leiðir að gerningarnir, þ.e. útgáfa víxlanna og önnur skjalagerð, sé ekki skuldbindandi. Verði ekki fallist á það er byggt á því að stefndi hafi verið grandsamur, bæði þegar upphaflegu víxilviðskiptin áttu sér stað, við framlengingarnar og skjalagerðina þ. 11. apríl 2003. Af því leiðir að gerningurinn skuldbindur stefnanda ekki sbr. 1. mgr. 11. gr. sml. Fyrir liggur að Óla Rúnari var óheimilt að veita ábyrgðir stefnanda sbr. dskj. 3 bls. 57-58, sbr. bls. 104-108.
Framkvæmdastjóri sem sækir umboð sitt til stjórnar getur ekki ráðstafað fjármunum félagsins og inn á hvaða bankareikninga þeir skuli leggjast með bindandi hætti þannig að stjórnin sé svipt forræði þeirra. Á því er byggt að sönnunarbyrði um umboð hvíli alfarið á stefnda, hann þarf að sýna fram á að um fullgilt umboð hafi verið að ræða og framkvæmdastjórinn hafi verið innan þess.
2. Verði ekki fallist á fyrrgreinda málsástæðu er á því byggt að skjalagerðin skv. efni sínu feli ekki í sér neinn ráðstöfunarrétt stefnda yfir fjármununum. Eingöngu eru ákvæði um að leggja fjármuni á tiltekinn reikning en ráðstöfun hans er ekki takmörkuð með bindandi hætti heldur óafturkallanlegri ávísun sem þegar hefur verið afturkölluð.
3. Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður er á því byggt að sú ráðstöfun sem þarna sé fyrir hendi fellur ekki undir nein ákvæði veðlaga og er hún því með öllu óheimil sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Skortir þar öll skilyrði og má sem dæmi nefna að greiðslurnar skulu lagðar inn á reikning veðþola sem þýðir að við það fellur allur hugsanlegur veðréttur niður, tilgreiningar vantar, fjárhæðir vantar, tilkynning til raunverulegs skuldara, samningur er ekki einhliða og skuldarann vantar en Greiðslumiðlun Flugleiða eða Flugleiðir h/f er ekki skuldari í þessu samhengi heldur innheimtumaður hjá öðrum viðskiptamanni.
4. Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður er byggt á því að ákvæði laga um greiðslustöðvun hindri að greiðslur þessar geti fallið til stefnda enda geta fjármunir, sem til falla á greiðslustöðvunartímabili, ekki runnið til greiðslu gjaldfallinna skulda. “
Í varakröfu byggir stefnandi í fyrsta lagi á 1. mgr. 139. gr. gjaldþrotalaga, nr. 21/1991, enda þýði niðurstaða stefnda í hag að um sé að ræða greiðslu eftir frestdag. Hafi hún aldrei verið samþykkt af aðstoðarmanni. Verði ekki á það fallist sé á því byggt að 141. gr. laga nr. 21/1991 eigi við, enda sé verið að ráðstafa rekstrartekjum hótelsins með virðisaukaskatti og öllu til stefnda sem aðrir kröfuhafar þurfi að þola og það á greiðslustöðvunartímabili að mestu. Krafa um endurgreiðslu á 4.482.800 krónum, sem fram fór 23. júní 2003 sé byggð á 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 en stefndi hafi verið að fullnusta ,,hin meintu tryggingarréttindi.” Verði ekki fallist á riftun á framangreindum grundvelli sé byggt á 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 en ljóst sé að með gerningnum 11. apríl 2003 hafi eldri skuld verið tryggð, auk þess sem gerningurinn hafi aldrei verið tilkynntur hinum raunverulegu skuldurum og þar af leiðandi hafi skapast það gat í tíma milli tryggingaréttinda og gerningsins að síðari málsliður 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 eigi við. Verði ekki fallist á neitt af þessu sé byggt á 131. gr. laga nr. 21/1991 enda sé nánast um örlætisgerning að ræða þar sem krafa á Eignarhaldsfélagið Brú hf. hafi verið verðlaus.
Niðurstaða:
Sparisjóður Mýrasýslu höfðaði mál gegn Kaupfélagi Árnesinga svf. með stefnu 25. nóvember 2003, og var ágreiningsefninu ráðið til lykta í dómi Hæstaréttar Íslands 18. nóvember 2004, í máli nr. 211/2004. Dómkröfur í því máli lutu m.a. að staðfestingu á veðrétti í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. sem þá voru í vörslu LOGOS lögmannsþjónustu, á grundvelli yfirlýsinga er fyrrum framkvæmdastjóra Kaupfélags Árnesinga svf. ritaði undir samhliða útgáfu víxla og áttu að tryggja sparisjóðnum greiðslur vegna víxilskuldbindingarinnar. Í efnisvörnum kaupfélagsins í hinu fyrra máli var á því byggt í ítarlegum rökstuðningi að framkvæmdastjóri kaupfélagsins hafi farið út fyrir umboð sitt við undirritun skjalanna 11. apríl 2003, auk þess sem sú ráðstöfun hafi ekki verið honum heimil þar sem stærstur hluti þeirra greiðslna sem voru í vörslu LOGOS lögmannsþjónustu hafi fyrst orðið til eftir að stefnanda hafi verið veitt greiðslustöðvun. Mál það sem hér er til úrlausnar höfðaði stefnandi undir áfrýjun hæstaréttarmálsins nr. 211/2004. Stefnandi hefur nú aðallega uppi viðurkenningarkröfu með heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sem enn lýtur að hinum umþrættu greiðslum sem þá voru í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu.
Sú staðreynd að þeir fjármunir sem um er deilt í málinu eru ekki lengur í vörslu LOGOS lögmannsþjónustu og að dómi verði þar af leiðandi ekki fullnægt með aðför varðar ein og sér ekki því að málinu verði af þeirri ástæðu vísað frá dómi, þar sem dómi um viðurkenningu á tilvist tiltekinna réttinda verður vegna efnis síns almennt ekki fullnægt með aðför. Í aðalkröfu stefnanda um að stefndi eigi ekki rétt til greiðslna úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. er vísað til tiltekinna þriggja greiðslna er borist hafi LOGOS lögmannsþjónustu á grundvelli yfirlýsingarinnar frá 11. febrúar 2003. Til stuðnings þessari kröfu sinni hefur stefnandi í fyrsta lagi teflt fram málsástæðum byggðum á því að þáverandi framkvæmdastjóri stefnda hafi ekki verið innan umboðs síns við gerð yfirlýsingarinnar, í öðru lagi að í yfirlýsingunni hafi ekki falist ráðstöfunarréttur til handa stefnda yfir greiðslunum, í þriðja lagi að yfirlýsingin falli ekki undir ákvæði veðlaga og þar af leiðandi hafi ekki stofnast veðsamningur og loks í fjórða lagi að ákvæði laga um greiðslustöðvun hindri að greiðslurnar geti falli til stefnda. Stefnandi hefur þannig aftur bundið úrlausnarefnið við gildi yfirlýsingarinnar frá 11. febrúar og þá aðallega við það hvort hún hafi verið skuldbindandi fyrir stefnanda. Um það álitaefni hefur stefnandi áður teflt fram sömu málsástæðum og lagarökum og fram koma í stefnu og úr því sakarefni hafa dómstólar áður leyst, endanlega Hæstiréttur Íslands með dómi í málinu nr. 211/2004. Í þeim dómi kemur m.a. fram að um hafi verið að ræða skýra viljayfirlýsingu af hálfu stefnanda, sem hafi haft að geyma skuldbindingu hans sem ekki yrði breytt nema með samþykki stefnda. Verður þessu álitaefni um gildi yfirlýsingarinnar ekki skotið til dómstóla á nýjan leik, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 og aðalkröfunni af þeirri ástæðu vísað frá dómi.
Með varakröfu sinni krefst stefnandi þess að nefndum yfirlýsingum verði rift og stefnda gert að endurgreiða stefnanda 4.482.800 krónur ásamt vöxtum. Í dómsmáli er að öðru jöfnu unnt að hafa uppi kröfu um riftun yfirlýsingar sem dómstólar hafa áður fjallað um og talið skuldbindandi, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, þar sem málsgrundvöllurinn er þá annar og sakarefnið þar með. Hins vegar verður að fallast á með stefnda að riftun á slíkri yfirlýsingu verði ekki við komið án þess að öllum þeim er yfirlýsingin skuldbindi verði stefnt til aðildar í málinu. Nefnd yfirlýsing er undirrituð af hálfu Flugleiða hf., og tekst félagið á hendur tilteknar skyldur samkvæmt henni. Af þeim sökum og með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 verður varakröfunni, og þar með málinu í heild sinni, vísað frá dómi.
Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefnandi greiði stefnda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður.
Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Kaupfélag Árnesinga svf., greiði stefnda, Sparisjóði Mýrasýslu, 200.000 krónur í málskostnað.