Hæstiréttur íslands

Mál nr. 409/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit milli hjóna


                                     

Mánudaginn 17. ágúst 2015.

Nr. 409/2015.

K

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

M

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

Kærumál. Fjárslit milli hjóna.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli K og M vegna hjónaskilnaðar þeirra. Krafðist K þess aðallega að helmingshlutur hennar í tiltekinni fasteign yrði talinn séreign hennar en til vara að vikið yrði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um eignarhlutinn og henni heimilað að taka hann að óskiptu við fjárslitin.Var talið unnt að slá því föstu að upphaflegar séreignir K hefðu blandast svo við hjúskapareignir aðila að ekki væri unnt að sérgreina þann hluta eigna þeirra sem talist gæti séreign. Auk þess yrði að líta til þess að ekki lægi annað fyrir en að þau lán sem tekin hefðu verið til kaupa á fasteignum K og M hefðu verið greidd með eignum beggja og þau því staðið sameiginlega að verðmætasköpun eigna þess. Var aðalkröfu K því hafnað og eignarhluturinn talinn hjúskapareign hennar. Þá var ekki fallist á með K að skiptin yrðu bersýnilega ósanngjörn fyrir hana ef ekki yrði vikið frá helmingaskiptareglunni að því varðaði umrædda fasteign. Var varakröfu K því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2015, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að 50% eignarhlutur hennar í fasteigninni C í [...] verði talinn séreign hennar við fjárslitin, en til vara að vikið verði frá reglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um þennan eignarhluta og henni heimilað að taka hann að óskiptu við fjárslitin. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Það athugast að varnaraðili hefur auk greinargerðar lagt fram í Hæstarétti svonefndar „athugasemdir … að fenginni greinargerð kæranda“. Engin lagaheimild stendur til þess að slíkt málflutningsskjal sé lagt fram.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2015.

Mál þetta, sem barst dóminum með bréfi skiptastjóra mótteknu 13. júní 2014, var tekið til úrskurðar 15. apríl sl. Sóknaraðili er K, [...], [...]. Varnaraðili er M, [...], [...].

Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að við opinber skipti til fjárslita með henni og varnaraðila skuli 50% eignarhlutur hennar í fast­eigninni að C, [...], teljast séreign hennar og falla utan skipta.  Til vara krefst sóknaraðili þess að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskapar­laga hvað varðar framangreindan eignarhluta og að sóknaraðila verði heimilað að taka hann að óskiptu við fjárslitin. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og viðurkennt með dómi að við opinber skipti til fjárslita með aðilum skuli 50% eignarhluti sóknaraðila í fasteigninni að C, [...], teljast hjúskapareign hennar og koma til skipta. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að varnaraðila beri endurgjald að fjárhæð 16.750.000 krónur úr hendi sóknaraðila, eða önnur lægri fjárhæð að mati dómsins. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I

Málsatvik

Sóknaraðili og varnaraðili gengu í hjúskap [...] 1983. Áður, eða þann [...]. júní 1983, höfðu þau gert með sér kaupmála. Efni hans var sem hér segir:

Við undirrituð, K [...], og B [...], sem höfum ákveðið að ganga í hjónaband, gerum með okkur svofelldan

K A U P M Á L A:

  1. Eignarhluti minn, K, í fasteigninni D, [...], sem telst vera 47% þeirrar eignar, miðað við núverandi byggingastig og verðmæti, skal vera séreign mín, K, og félagsbúi okkar óviðkomandi.
  2. Eignarhluti minn, M, í fasteigninni nr. [...] við D, sem telst vera 13% þeirrar eignar miðað við núverandi byggingarstig og verðmæti, skal vera séreign mín M, og félagsbúi okkar óviðkomandi.
  3. Framangreind fasteign er parhús og er K þinglesinn eigandi austurenda og E [...], þinglesinn eigandi vesturenda, en þær þinglýsingar breyta ekki framangreindum eignarhlutföllum K og M, en E telst eiga 40% heildareignarinnar sem er utan þessa kaupmála. Húsnæðisstjórnarlán vegna byggingarinnar hafa K og E tekið og bera þær greiðslubyrði þeirra hvort af sínu láni. Sameiginlegt lán hafa E og K fengið að upphæð 52.000 krónur hjá A [...] og bera þær greiðslubyrði þess að hálfu hvort, hvað nafnverð áhrærir. Einnig bera þær að jöfnu greiðslubyrði hæstu lögleyfðu sparisjóðsvexti af þessu láni á greiðsludegi, en eigandi þeirra vaxta er M.
  4. Eignarhluti minni K, í húseigninni nr. [...] við B samkvæmt kaupsamningi um þá eign dags. [...]. mars 1983, skal vera séreign mín, K, og félagsbúi okkar óviðkomandi. Séreign þessi rýrnar eftir gerð þessa kaupmála ef og eftir því sem M kynni að greiða af skuldum, sem hvíla á B.
  5. Hlutdeild mín, K, í kaupsamningi dags. 4. mars 1983 um F í [...], sem telst vera 25% af söluandvirði þeirrar eignar, krónur 700.000, í peningum og bréfum, skal vera séreign mín, K, og félagsbúi okkar óviðkomandi.
  6. Eftirstöðvar söluverðs G, samkvæmt afsali dags. 3. jan. 1983, skuldabréf, víxlar og peningar, krónur 300.000, skuli vera séreign mín, K, og félagsbúi okkar óviðkomandi.
  7. Eftirstöðvar söluverðs H í [...] samkvæmt kaupsamningi dags. 15. júlí 1982 krónur 15.972 í veðskuldabréfum, skal vera séreign mín, K, og félagsbúi okkar óviðkomandi.
  8. Að öðru leyti fer um fjármál okkar samkvæmt lögum.
  9. Kaupmála þennan skal skrásetja í kaupmálabók borgarfógetaembættisins í Reykjavík.

Aðilar slitu samvistir í mars 2013 og þann [...]. febrúar 2014 sótti sóknaraðili um skilnað að borði og sæng hjá sýslumanninum í Reykjavík.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2014 var bú aðila tekið til opinberra skipta til fjárslita vegna hjúskaparslita og skiptastjóri skipaður í búinu. Helsta eign búsins var fasteignin C, [...], sem aðilar festu kaup á árið 1999. Framagreindar fasteignir skv. kaupmálanum frá júní 1983 höfðu þá verið seldar, D í september sama ár og og B í júní 1989. Í millitíðinni höfðu aðilar keypt nokkrar fasteignir saman og voru þær í öllum tilvikum skráðar á þau bæði. Fasteignin I, sem þau keyptu í október 1983 var skráð þannig að sóknaraðili var eigandi 12,07%, varnaraðili að 36,10% og E, systir sóknaraðila að 51,83% eignarinnar. Fasteignir sem þau eignuðust síðar voru skráðar á þau að jöfnu en það voru J, [...9 sem þau keyptu 1989 og seldu 1991, L, [...], sem þau keyptu 1995 og seldu 1999 og C, [...] sem þau keyptu 1999. Þá festu aðilar kaup á lóð í landi [...] og sumarhúsi 1992 en þessar eignir voru seldar 1999. Ákvæðum kaupmálans frá 1983 var ekki breytt með nýjum kaupmála vegna framangreindra eignabreytinga. Við skiptin kom upp ágreiningur um hvort helmings eignarhluti sóknaraðila í fasteigninni C skyldi teljast séreign hennar á grundvelli kaupmálans. Skiptastjóri vísaði ágreiningi til úrlausnar dómsins, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Aðalkröfu sína byggir sóknaraðili á því að hún hafi komið inn í hjónabandið með eignir sem nemi að brúttóandvirði tæplega 44 milljónum króna, framreiknað til 1. janúar 2014. Við upphaf hjónabandsins hafi aðilar gert með sér þann samning að föðurarfur hennar og það sem í hans stað myndi eða kynni að koma skyldi verða séreign hennar og hjúskapareignum hennar óviðkomandi.  Sóknaraðili sé þinglýstur eigandi að helmingshlutdeild í C. Þær eignir sem hún hafi komið með í hjúskapinn hafa a.m.k. myndað eða fjármagnað eignarhlutann í C og með því skapað séreign vegna kaupmála þeirra, sem eigi að halda utan skipta við skilnaðinn, sbr. 1. mgr. 74. gr. og 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. áður 29. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 20/1923 um réttindi og skyldur hjóna.  Því verði að ganga út frá því að kaupmálinn nái til þessa eignarhluta að öðru kosti væri verulega raskað því fyrirkomulagi sem aðilar hafi gert með sér samning um, að þær eignir sem sóknaraðili hafi komið með í hjúskapinn skyldu verða séreign hennar.

                Varakröfu sína byggir sóknaraðili á því að beita beri 104. gr. laga nr. 31/1993 við skiptin, þ.e. að það beri að víkja frá reglum um helmingaskipti á eigninni á þann veg að helmingshlutur hennar í fasteigninni komi ekki til skipta. Önnur niðurstaða yrði bersýnilega mjög ósanngjörn í garð hennar þegar litið sé til þess að ríflega helming eigna búsins megi rekja til arfs sem hún hafi komið með í búið við upphaf hjúskapar og aðilar gerðu með sér samning um að ætti að vera séreign hennar og standa utan skipta. Stóran hluta hjúskaparins hafi hún verið  heimvinnandi húsmóðir.  Yngsti sonur málsaðila, sem fæddist 1997, sé mikið fatlaður og hafi það verið meginhlutverk sóknaraðila, sem sé [...], að sinna honum fyrstu árin. Hafi hún ekki farið aftur út á vinnumarkað, eftir fæðingu hans, fyrr en á árinu 2001 og hafi þá að jafnaði verið í 20-40% starfshlutfalli fyrstu árin.  Árið 2006 hafi hún aukið það í 60% og síðan í 80% á árinu 2007. Varnaraðili hafi sinnt starfsframa sínum og því verið í allt annarri og betri stöðu,  m.a. eigi hann umtalsverð lífeyrisréttindi, þ. á m. um 12,5 milljóna króna inneign í séreignasjóði sem hann hafni að eigi að koma til skipta.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að sóknaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á að eignarhluti hennar í fasteigninni að C sé ígildi þeirra eigna sem gerðar hafi verið að séreign hennar með kaupmálanum frá 1983. Sóknaraðili verði að sýna fram á að verðmætum sem fengust fyrir fasteignir samkvæmt kaupmála hafi í raun verið haldið sérgreindum og þeim varið til að afla þeirrar eignar sem krafa sé gerð um að talin verði ígildi séreigna samkvæmt kaupmála. Framsetning sóknaraðila á málinu sé ekki í samræmi við hérlenda réttarframkvæmd en ekki sé unnt að framreikna eignir í kaupmála og krefjast útlagningar á andvirði þeirra utan skipta.

Varnaraðili vísar til þess að við kaupin á J, eftir sjö ára hjónaband, hafi verið litið svo á að fasteignin væri í jöfnum eignarhlutföllum. Þetta sé sérstakrar athygli vert þar sem eignarhlutföll í fasteigninni I, sem aðilar hafi fest kaup á í nóvember 1983, ásamt systur sóknaraðila, hafi verið nákvæmlega reiknuð. Þarna sé því þegar kominn fram algjör samruni eigna og fullkomin fjárhagsleg samstaða hjónanna. Hafi sóknaraðili litið svo á að hún ætti meira í búi þeirra, hefði henni verið í lófa lagið að gera tilkall til þess að það kæmi fram í mismunandi eignarhlutföllum í þessari fasteign.

                Varnaraðili vísar til þess að framlagðir útreikningar sóknaraðila um verðmæti upp­haflegra séreigna sinna byggi á röngum forsendum í viðamiklum atriðum. Þeir séu vilhallir og haldlausir. Enn fremur sé sá sem þá gerði tengdur sóknaraðila fjöl­skyldu­böndum.

Varnaraðili telur að því fari fjarri að brúttóverðmæti allra þeirra eigna sem nefndar séu í kaupmálanum hafi samtals verið gert að séreign sóknaraðila með kaup­málanum. Það hafi eingöngu verið nettóverðmæti eignanna eins og þær hafi staðið við gerð kaupmálans. 

Varnaraðili byggir á því að sanngirnisrök hnígi að því að öllum eignum aðila sé skipt jafnt. Bæði sóknar- og varnaraðili hafa sameiginlega lagt allt sitt í sam­eiginlegan fjárhag sinn um ríflega 30 ára skeið. Á þessum tíma hafi þau haft tekjur og útgjöld sem nema margfaldri þeirri fjárhæð sem nemi heildareignum þeirra við hjú­skapar­stofnun, eða upphaflegum séreignum sóknaraðila, og blandað þessum tekjum við eigur sínar. Þá hafi varnaraðili lagt inn í sameiginlegan fjárhag þeirra föðurarf sinn að sambærilegri fjárhæð og sá arfur sem hafi myndað séreignir sóknaraðila.

Til stuðnings varakröfu sinni vísar varnaraðili sérstaklega til þess að sam­eiginlegar eigur aðila og séreignir hans hafi verið nýttar til að auka verðmæti eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni við C. Jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að eignarhluti sóknaraðila í fasteigninni væri séreign hennar gæti það vart haft nein áhrif á fjárhagslegt uppgjör aðila vegna ákvæðis 107. gr. hjúskaparlaga.

IV

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila við opinber skipti til fjárslita vegna hjúskapar­slita þeirra en aðila slitu samvistum í mars 2013. Sóknaraðili krefst þess aðallega að helmingseignarhluti hennar í fasteigninni C, [...], skuli teljast séreign hennar og falla utan skipta. Byggir hún kröfuna á því að eignarhlutinn sé ígildi þeirra eigna sem gerðar voru að séreign hennar með kaupmála aðila frá 16. júní 1983, skömmu áður en þau gengu í hjúskap. Til vara krefst sóknaraðili þess að vikið verði frá helmingaskiptareglu sömu laga hvað eignarhlutann varðar og að henni verði heimilað að taka hann að óskiptu við fjárslitin. Varnaraðili mótmælir kröfum sóknaraðila. Vísar hann til þess að ósannað sé að eignarhluti sóknaraðila í fasteigninni sé ígildi þeirra eigna sem gerðar hafi verið að séreign hennar með kaupmála eða að efni séu til að víkja frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga.

Helmingaskiptareglan er meginreglan við fjárslit hjóna, 6. gr. og 103. gr. hjúskapar­laga nr. 31/1993. Kjarni hennar er sá að hvort hjóna eigi tilkall til helmings skírrar hjúskapareignar hins. Þessari reglu er fyrst og fremst ætlað að veita mökum fjárhagslega vernd við skilnað og byggist á því að hjón standi saman að verð­mætasköpun og að í hjúskap sé að jafnaði efnahagsleg, félagsleg og persónuleg samstaða. Reglan stuðlar því að jafnstöðu maka við hjúskaparlok. Þegar fjárhagur hjóna er mjög samofinn er erfitt eða ómögulegt að rekja kaup, tekjur og framlög aftur í tímann við fjárskipti. Meginreglan er sú að eign einstaklings í hjúskap telst hjú­skapareign hans, sbr. 54. gr. hjúskaparlaga. Sá sem heldur því fram að eign sé annað en hjúskapareign ber sönnunarbyrði fyrir því. Takist sú sönnun ekki verður eign talin hjúskapareign en ekki séreign.

Um séreignir samkvæmt 55. gr. hjúskaparlaga gildir svokölluð ígildisregla, sbr. 75. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um að verðmæti, sem komi í stað séreignar, verði einnig séreign, svo og arður af þessum verðmætum, nema annars sé getið í kaupmála eða í fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda þar sem það á við. Skilyrði ígildis­reglunnar er að hægt sé að rekja verðmætin sem halda á utan skipta til upp­runalegrar séreignar. Til þess að unnt sé að fallast á kröfu sóknaraðila verður sérgreining eignanna, samkvæmt framansögðu, því að vera möguleg á þeim tíma þegar skiptin fara fram, annaðhvort þannig að eignin sjálf sé til staðar eða ígildi hennar. Skírlega hefur komið fram í  dómaframkvæmd að eign sem er séreign annars maka getur blandast svo við hjúskapareignir hjóna að ekki sé unnt að sérgreina þann hluta eigna sem talist gæti séreign og að réttur til séreigna falli niður, sjá t.d. dóma Hæstaréttar í máli nr. 89/2015, frá 5. mars 2015 og í máli nr. 56/2012 frá 24. febrúar 2012.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu voru eignarhlutar sóknaraðila í fasteignum við D, [...] (47%), parhús í byggingu, og B, [...] (100%), fjögurra herbergja íbúð, gerðar að séreign hennar í umræddum kaupmála 1983. Á sama hátt var kveðið á um að 13% eignarhluti varnaraðila í C væri séreign hans. Þá var í kaupmálanum kveðið á um að vextir af sameiginlegu láni, sem sóknaraðili og E, systir hennar og meðeigandi að D, hefðu tekið hjá A, föður varnaraðila, tilheyrðu varnaraðila. Með kaupmálanum voru eftirstöðvar kaupverðs þriggja fasteigna, sem sóknaraðili hafi átt í félagi við aðra, samtals rúm ein milljón króna, jafnframt gerðar að séreign hennar. Eignir þær sem gerðar voru að séreign sóknaraðila hafði hún fengið í arf eftir föður­ömmu sína. Í skýrslum aðila fyrir dómi kom fram að umrædd hlutdeild varnaraðila í D og eignarréttur hans af vöxtum af láni föður hans til systranna hefði komið til þar sem varnaraðili hefði innt af hendi vinnu vegna byggingar eignarinnar. Af ákvæðum 1. og 2. gr. kaupmálans má ráða að tilgangur aðila hafi verið að einungis nettó eignarhluti sóknaraðila í fasteigninni D hafi átt að teljast séreign hennar, sbr. orðalagið „miðað við núverandi byggingastig og verðmæti“. Jafnframt var í 4. gr. kaupmálans kveðið á um að séreign sóknaraðila í B  rýrnar eftir gerð þessa kaupmála ef og eftir því sem M kynni að greiða af skuldum, sem hvíla á B“.

Á hjúskapartíma aðila voru framangreindar fasteignir skv. kaupmálanum seldar, D 1983 en B 1989. Keyptu þau nokkrar fasteignir saman en í engu tilvika var gerður nýr kaupmáli um eignarhluta þeirra í viðkomandi eign. Í skýrslum aðila fyrir dóminum kom fram að þau hefðu aldrei rætt um kaupmálann á hjúskapartíma sínum.

Á viðmiðunardegi skipta, sem er 10. febrúar 2014, sbr. 1. mgr. 101. gr. hjúskapar­laga og 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991, var helsta eign aðila fasteignin C, en óumdeilt er að hún hafi verið að andvirði 67.000.000 króna. Innistæður þeirra í  fjármálastofnunum voru skv. skattframtali 2014 samtals 2.742.713 krónur í lok árs 2013 og þá töldu þau fram bifreiðar að andvirði 6.027.820 krónur. Í greinargerð sóknaraðila er innbú talið að verðmæti 5.500.000 krónur og hafa ekki verið gerðar athugasemdir við það af hálfu varnaraðila. Samtals námu eignir þeirra því um 81 milljón króna.

Málsaðilar eru bæði háskólamenntuð. Varnaraðili lauk námi í viðskiptafræði haustið 1984 en sóknaraðili í hjúkrunarfræði vorið 1985. Varnaraðili hefur stundað fulla vinnu utan heimilis frá því að hann lauk námi, m.a. var hann [...] á [...]og í [...]. Bjuggu aðilar þá saman á þessum stöðum fyrir utan að sóknaraðili var í Reykjavík til 1988. Í dag starfar varnaraðili sem [...] hjá opinberu fyrirtæki og var með 13.087.662 krónur í tekjur árið 2013, skv. skattframtali 2014. Sóknaraðili mun ekki hafa sinnt fullu starfi utan heimilis, m.a. vegna búsetu aðila úti á landi og vegna umönnunar fatlaðs sonar þeirra. Í dag starfar hún á [...] og var hún með 7.609.509 krónur í tekjur árið 2013, skv. sama skattframtali.

Um aðalkröfu:

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að hún hafi, skv. kaupmálanum, komið með mikil verðmæti inn í hjúskapinn. Sóknaraðili hefur hins vegar aðeins að takmörkuðu leyti leitast við að sanna að eignarhluti hennar í fasteigninni C sé séreign hennar á grundvelli ígildisreglu hjúskaparlaga, heldur látið við það sitja að framreikna umrædd verðmæti miðað við eldri lánskjaravísitölu og vísa til þess að það blasi við að það sem hún hafi komið með í hjúskapinn hafi myndað eignarhlutann. Í greinargerð sóknaraðila var á því byggt að séreignahluti hennar skv. kaupmálanum næmi samtals 43.694.600 krónum miðað við verðlag hinn 1. janúar 2014. Í tilefni af mótmælum varnaraðila lagði sóknaraðili fram nýja útreikninga þar sem byggt er á því að nettó séreignareignarhluti hennar skv. framangreindum kaupmála hafi á sama tíma numið samtals 31.323.000 krónum. Að mati dómsins er slík sönnunarfærsla, þ.e. að framreikna verðmæti upprunalegra séreigna, ekki í samræmi við framangreind ákvæði hjúskaparlaga og dómaframkvæmd þegar kemur að því að meta hvort tiltekin eign við skipti sé ígildi séreigna. Er því ekki unnt að horfa til útreikninganna við mat á aðalkröfu sóknaraðila.

Parhúsið við D var selt með kaupsamningum dagsettum 26. september 1983. Austurendinn á 1.078.301 krónur og var kaupverði greitt í peningum og með yfirtöku áhvílandi láns að fjárhæð 188.301 króna. Vesturhlutinn á 1.074.589 krónur og var kaupverðið greitt í peningum, fasteign við M í [...], sem metin var á 888.637 (að frádregnum áhvílandi skuldum) og með yfirtöku áhvílandi láns að fjárhæð 85.982 krónur. Í kaupsamningum eru sóknaraðili og E systir hennar einar tilgreindar sem seljendur en eins og fram hefur komið var varnaraðili talinn eigandi að 13% eignarinnar skv. kaupmálanum. Mun E hafa fengið M í sinn hlut. Lánið sem systurnar tóku hjá föður varnaraðila, A, samtals 52.000 krónur, vegna byggingar parhússins, virðist hafa verið greitt upp við söluna en þess er getið á skattframtali sóknaraðila 1983 en ekki á sameiginlegu framtali aðila 1984. Galli kom upp í hinu selda parhúsi og munu málsaðilar og E hafa staðið straum af kostnaði vegna viðgerða eftir söluna.

Með kaupsamningi 25. nóvember 1983 keyptu aðilar íbúð í I, ásamt E, á 1.200.000 krónur. Kaupverðið var greitt með peningum að fjárhæð 900.000 krónur og  útgefnu skuldabréfi að fjárhæð 300.000 krónur. Var eignar­hluti sóknaraðila skráður 12,07%, eignarhluti varnaraðila 36,10 % og eignar­hluti E 51,83 %. Íbúðin, sem var leigð út, var seld 23. mars 1987 2.300.000 krónur og voru 1.906.250 greiddar í peningum en afgangurinn með yfirtöku skulda­bréfs og útgáfu nýs skuldabréfs. Samkvæmt skattframtali 1988 var íbúðin, með hlið­sjón af verðbreytingum, seld með tapi en alkunna er að á þessum árum var mikil verðbólga.

Sóknaraðili hafði fest kaup á íbúðinni við B skömmu áður en aðilar gengu í hjónaband, eða þann 16. mars 1983. Kaupverðið var 1.560.000 krónur, sem greiðast skyldi með 1.235.000 krónum í peningum á rúmu ári, yfirtöku áhvílandi láns 7.160 krónur og útgáfu tveggja skuldabréfa til fjögurra ára, samtals að fjárhæð 317.840 krónur. Er kaupmálinn var gerður höfðu 440.000 krónur verið inntar af hendi í útborgun en greiðslur af skuldabréfunum áttu að hefjast í júlí og október 1984.  Eftirstöðvar kaupverðs vegna þriggja fasteigna, sem gerðar voru að séreign sóknaraðila með kaupmálanum eða fjármunum sem sóknaraðili fékk vegna sölu á eigna­hlutum hennar í D og I, var ekki haldið sérgreindum frá öðrum eignum. Því er ekki unnt að fullyrða að þessar eignir hafi eingöngu verið nýttar til að greiða kaupverð B, þótt með hliðsjón af þeim fjármunum, sem gögn málsins gefa til kynna að aðilar hafi haft til umráða, séu verulegar líkur fyrir því að þær hafi að mestu leyti runnið til að greiða fyrir hana. Þrátt fyrir að varnaraðili hafi ekki lokið námi fyrr en haustið 1984 er til þess að líta að tekjur hans á árinu 1983 voru 84.646 krónur, árið 1984 215.013 krónur, árið 1986 1.222.001 krónur og árið 1987 1.460.434 krónum. Tekjur sóknaraðila á sama tíma voru mun lægri en hún lauk námi vorið 1985. Þá er óumdeilt að fasteignin við I var í útleigu og að aðilar hafi fengið leigutekjur af henni. Enn fremur hefur komið fram að aðilar tóku árið 1987 lán frá Lífeyrissjóði verslunarmanna að fjárhæð 662.061 króna sem tryggt var með veði í fast­eigninni við B. Lántöku þessa segir varnaraðili hafa verið vegna endurbóta á eigninni og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila. Lánið var síðan flutt á aðra eign við sölu á B. Er íbúðin var seld árið 1989 verður því ráðið að varnaraðili hafi, líkt og kaupmálinn gerið ráð fyrir, innt af hendi einhverjar greiðslur þessarar séreignar sóknaraðila, þannig að séreignarhluti hennar rýrnaði líkt og gert var ráð fyrir í 4. gr. kaupmálans. Fór það þannig að þegar aðilar keyptu saman fasteignina við J í [...], í stað íbúðarinnar við B, að fasteignin, sem er ein­býlishús, var skráð á þau að jöfnu. Íbúðin við B var seld með kaupsamningi dag­settum 14. júní 1989. Var kaupverðið, 5.900.000 krónur, greitt með 5.350.000 krónum í  peningum og skuldabréfi til fjögurra ára að  fjárhæð 550.000 krónur. Fjár­munum sem sóknaraðili fékk við kaupin var ekki haldið sérstaklega aðgreindum frá öðrum eignum aðila.

Kaupverð J, var skv. kaupsamningi, dagsettum 2. ágúst 1989, 10.500.000 krónur. Var það greitt með 7.900.000 krónum í peningum, yfirtöku áhvílandi láns 186.368 krónur og með skuldabréfi til fjögurra ára að fjárhæð 2.413.632 krónur. Fasteignin var seld aftur með kaupsamningi dagsettum 30. október 1991 á 13.700.000 krónur. Útborgun var 8.779.884 krónur (m.a. greidd með afhend­ingu fasteignarinnar N, [...] sem metin var á 6.824.494 krónur, að frádregnum áhvílandi skuldum), fasteignaveðbréfum (húsbréf) að fjárhæð samtals 1.520.000 krónur og yfirtöku veðlána samtals að fjárhæð 3.400.016 krónur.  Eignin við N var síðan seld E, systur sóknaraðila, á 7.700.000 krónur í lok árs 1991. Greiddi hún kaupverðið með 3.840.871 í peningum, yfirtöku skulda að fjárhæð 1.859.129 krónur og útgáfu fasteignaveðbréfs (húsbréfs) að fjárhæð 2.000.000 króna.

Er fasteignin við J var seld 1991 bjuggu aðilar í [...] vegna starfa varnaraðila og leigðu þar íbúðarhús. Fjármunum sem fengust út úr sölunni var því ekki ráðstafað beint upp aðra fasteign, sem notuð var að staðaldri fyrir fjölskylduna, og hluta sóknaraðila í þeim var ekki haldið sérstaklega aðskildum frá öðrum eigum aðila. Aðilar keyptu ekki nýja fasteign, til að nota í þessum tilgangi, í Reykjavík fyrr en 1999 er þau festu kaup á einbýlishúsinu við C, sem deila máls þessa stendur um. Á tímabilinu 1991-1999 var fjármunum þeirra, skv. fyrir­liggjandi gögnum, varið í að kaupa íbúð við L, [...], sumar­bústaðar­lóð  við O í landi [...] og sumarhús sem flutt var á lóðina. Þá má ráða af þeim skattframtölum sem liggja frammi að þau hafi staðið í viðskiptum með bifreiðar og viðskiptabréf en tekið skal fram að framtöl 1994 og 1997-1999  hafa ekki verið lögð fram. Kaupverð L, 6.250.000 krónur skv. kaupsamningi dagsettum 11. júlí 1995, var að mestu greitt með yfirtöku áhvílandi lána að fjárhæð 4.239.735 krónur en 2.010.265 krónur voru greiddar í peningum. Fasteignina, sem skráð var á þau að jöfnu, notuðu þau til að dvelja í er þau voru í Reykjavík. Með hliðsjón af framangreindu þykir, eftir að fasteignin við J var seld, því unnt að slá því föstu að upphaflegar séreignir sóknaraðila hafi blandast svo við hjúskapareignir aðila að ekki sé unnt að sérgreina þann hluta eigna þeirra sem talist gæti séreign. Enn fremur verður að líta til þess að ekki liggur annað fyrir en að þau lán sem tekin voru til kaupa á fasteignum aðila hafi verið greidd með eignum búsins og stóðu þau þannig sameiginlega að verðmætasköpun eigna þess. Frekari fasteignakaup aðila staðfesta það en er C var keypt árið 1999 á 21.500.000 krónur, voru 13.710.000 krónur greiddar með peningum, 1.476.361 króna með yfirtöku skulda og 6.313.000 krónur með útgáfu fasteignaveðbréfs (húsbréfs). Samkvæmt öllu framan­sögðu er það niðurstaða dómsins að fasteignin við C, eða verðmæti eign­arinnar, teljist hjúskapareign. Í samræmi við ofangreint verður aðalkröfu sóknaraðila hafnað.

Um varakröfu:

                Til vara byggir sóknaraðili á því að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga hvað varðar fasteignina C og að sóknaraðila verði heimilað að taka hana að óskiptu við fjárslitin. Vísar hún til þess að önnur niðurstaða yrði bersýnilega mjög ósanngjörn í garð hennar þegar litið sé til þess að ríflega helming eigna búsins megi rekja til arfs sem hún hafi komið með í búið við upphaf hjú­skapar og stóran hluta hjúskaparins hafi hún verið heimvinnandi húsmóðir. Varnaraðili hafi hins vegar sinnt starfsframa sínum og eigi hann umtalsverð líf­eyris­réttindi í séreignasjóði.

                Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga má víkja frá reglum um helm­inga­skipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Á þetta einkum við þegar tekið er tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjú­skapar, svo og ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjú­skaparstofnun. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar geta frávik frá helm­inga­skiptum enn fremur átt sér stað þegar annað hjóna hefur með vinnu, framlögum til fram­færslu fjölskyldunnar eða á annan hátt stuðlað verulega að aukningu á þeirri fjár­eign sem falla ætti hinu hjóna í skaut eða hefur átt hlut að því að bæta fjáreign hins að öðru leyti. 

                Eins og áður hefur verið rakið bjuggu aðilar saman sem hjón í tæp 30 ár. Kaup­máli þeirra frá 1983 gefur til kynna að sóknaraðili hafi komið með umtalsvert meiri verðmæti í búið en varnaraðili. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki annað ráðið en að aðilar hafi staðið saman að verðmætasköpun eigna búsins og að með þeim hafi verið veruleg fjárhagsleg sam­staða á hjúskapartíma. Þá liggur fyrir að föðurarfur sem varnaraðila tæmdist 1994, rann inn í búið en hann var greiddur út í peningum og hluta­bréfum í tveimur félögum. Útreikningum varnaraðila um að hann sé, upp­reiknaður til verðlags í febrúar 2014, að andvirði rúmlega 10.000.000 króna, hefur ekki verið mótmælt. Átti arfur þessi þannig hlut að því að bæta fjáreign búsins. Við upphaf skipta voru eignir búsins að andvirði rúmlega 81 milljón króna, þar af fasteignin við C að andvirði 67 milljónir króna. Töluverð verðmæti munu því koma í hlut sóknaraðila þrátt fyrir að helmingaskiptareglu hjúskaparlaga verði beitt. Sóknaraðili, sem 54 ára, er menntaður hjúkrunarfræðingur og starfar við sitt fag.  Þegar til alls þessa er litið verður ekki fallist á það með sóknaraðila að skiptin yrðu bersýnilega ósanngjörn fyrir hana ef ekki yrði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga að því er varðar fasteignina að C. Sú staðreynd að varnaraðili á umtalsverða fjármuni í séreignarlífeyrissjóði fær ekki breytt þeirri niðurstöðu. Ber því  að hafna varakröfu sóknaraðila og fallast á þá kröfu varnaraðila að við fjárskipti milli aðila skuli helmings eignarhluti sóknaraðila í fasteigninni teljast hjúskapareign hennar og koma til skipta samkvæmt nefndu ákvæði hjúskaparlaga.

                Eins og atvikum í máli þessu er háttað þykir rétt, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

                Við meðferð málsins var gætt ákvæða. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila K og varnar­aðila, M, skal helmings eignarhluti sóknaraðila í fast­eigninni að C, [...], teljast hjúskapareign hennar og koma til skipta.

Málskostnaður fellur niður.