Hæstiréttur íslands
Mál nr. 583/2012
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Annað fjártjón
- Varanleg örorka
- Þjáningarbætur
Skaðabætur. Líkamstjón. Annað fjártjón. Varanleg örorka. Þjáningabætur.
A varð fyrir líkamstjóni er hann slasaðist við vinnu sína um borð í fiskiskipinu B 6. desember 2003. Ekki var deilt um bótaskyldu T hf. sem hafði þegar greitt A bætur vegna tjónsins. Ágreiningur aðila snerist aðallega um hvort A ætti kröfu á hendur T hf. um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, hvaða tekjuviðmið skyldi leggja til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku, tímabil þjáningabóta og annað fjártjón. Þá var ágreiningur um hvort draga bæri frá bótagreiðslu 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að A hefði ekki tekist að sanna að aðstæður hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið hafi verið svo óvenjulegar, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að árstekjur hans, eins og þær væru tilgreindar á skattframtölum, væru ekki líklegur mælikvarði á framtíðartekjur hans. Þá var tímabundið atvinnutjón A talið ósannað. Hvað varðar tímabil þjáningabóta var fallist á með T hf. að greiða skyldi þjáningabætur frá slysdegi til 25. apríl 2004 en samkvæmt gögnum málsins um lögskráningu, sem ekki hafði verið hnekkt, hafði A verið skráður lögskráningu á B 26. apríl 2004. Þar sem ekkert var fram komið í málinu af hálfu A sem hnekkti útreikningum varðandi frádrátt eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993, voru þeir lagðir til grundvallar varðandi frádrátt frá bótum. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu T hf. af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. september 2012. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 23.983.000 krónur með 4,5% ársvöxtum af 12.857.000 krónum frá 6. desember 2003 til 6. desember 2004, af 23.983.000 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 800.000 krónum 20. maí 2005, 500.000 krónum 15. júní 2005, 700.000 krónum 21. september 2005, 1.500.000 krónum 11. júní 2010, 224.987 krónum 2. febrúar 2006 og 3.912.863 krónum 8. desember 2011. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndi greiði sér 13.984.185 krónur með 4,5 % ársvöxtum af 6.180.000 krónum frá 6. desember 2003 til 6. desember 2004, af 13.984.185 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags að frádregnum innborgunum eins og í aðalkröfu greinir. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að stefndi greiði sér 7.621.354 krónur með 4,5 % ársvöxtum af 1.853.690 krónum frá 6. desember 2003 til 6. desember 2004, af 7.621.354 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags að frádregnum innborgunum eins og í aðalkröfu greinir. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.
Í málinu er ekki deilt um bótaskyldu stefnda, heldur snýst ágreiningur aðila um hvort áfrýjandi eigi kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, hvaða tekjuviðmið skuli leggja til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku, tímabil þjáningabóta og annað fjártjón. Þá er ágreiningur um hvort draga beri frá bótagreiðslu 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Meðal gagna málsins er útskrift um lögskráningu þar sem fram kemur að áfrýjandi hafi verið lögskráður á skipið B 26. apríl 2004 til 17. maí sama ár. Samkvæmt útskriftinni var hann einnig lögskráður á skipið 5. júlí til 15. september 2004 og loks frá 20. til 23. desember sama ár. Þessar upplýsingar eru ekki í samræmi við það sem áfrýjandi heldur fram þar sem hann hefur borið að hafa reynt að fara til sjós í eina viku í ágúst 2004 og aftur í kringum jólin sama ár en það hafi ekki gengið vegna verkja. Undir rekstri málsins í héraði lagði áfrýjandi fram skjal um lögskráningu sem hann kveður vera leiðréttingu á framangreindri útskrift en samkvæmt því var hann lögskráður í níu daga í ágúst 2004 og í fjóra daga í desember sama ár. Þetta skjal ber ekki með sér að vera leiðrétting á hinu fyrra og engum haldbærum gögnum er til að dreifa um á hvaða gögnum leiðrétting þessi byggir. Er þetta ekki til þess fallið að hnekkja hinu fyrra skjali um lögskráningu áfrýjanda. Verður því fallist á það með stefnda að bætur til áfrýjanda fyrir þjáningar skuli greiðast frá slysdegi 6. desember 2003 til 25. apríl 2004. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. maí sl., er höfðað af A, […], á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu birtri 7. júní 2011.
Í málinu gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 25.792.005 krónur ásamt 4,5% dráttarvöxtum frá 6. desember 2003 til 15. febrúar 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 800.000 krónum hinn 20. maí 2005, 500.000 krónum hinn 15. júní 2005, 700.000 krónum hinn 21. september 2005, 1.500.000 krónum hinn 11. júní 2010, 213.764 krónum hinn 2. febrúar 2006 og 3.912.863 krónum hinn 8. desember 2011.
Til vara gerir stefnandi þá dómkröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 20.305.385 krónur með sama vaxtafæti og greinir í aðalkröfu og að frádregnum sömu innborgunum.
Til þrautavara gerir stefnandi þá dómkröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.621.354 krónur með sama vaxtafæti og greinir í aðalkröfu og að frádregnum sömu innborgunum.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi greiði honum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.
Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði látinn niður falla. Að því marki, sem bætur kunni að verða tildæmdar, er þess krafist að þær beri 4,5% ársvexti til endanlegs dómsuppsögudags en frá þeim degi til greiðsludags er fallist á að bótafjárhæðin beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.
I.
Stefnandi var skipstjóri á skipinu B en útgerð skipsins, C ehf., var einkahlutafélag í eigu hans. Útgerðin hafði keypt hjá stefnda slysatryggingu fyrir áhöfn skipsins í samræmi við gildandi kjarasamning milli annars vegar Landssambands íslenskra útgerðarmanna og Samtaka atvinnulífsins og hins vegar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.
Hinn 6. desember 2003 var stefnandi á hvalbak skipsins að bæta við landfestatógum, þar sem það var við bryggju í Njarðvíkurhöfn, og féll hann þá niður stiga og niður á dekk. Við það hælbrotnaði hann á hægri fæti og hlaut högg á mjóbak.
Í málinu liggur frammi matsgerð D lögfræðings og E læknis, dagsett 17. desember 2009, þar sem lagt er mat á hverjar voru afleiðingar slyssins samkvæmt skaðabótalögum. Matsgerðarinnar aflaði stefnandi einhliða. Vegna þeirra áverka, sem stefnandi hlaut í slysinu, var það álit matsmanna að stefnandi gæti ekki stundað sjómennsku vegna afleiðinga slyssins og þyrfti að leita sér að léttara starfi í landi, svo sem léttu og hreyfanlegu verkstjórastarfi, en við slík störf vann hann á árunum 2007 og 2008. Helstu niðurstöður matsins voru þær að stefnandi var talinn óvinnufær (100%) í eitt ár frá slysdegi eða til 6. desember 2004, en þá var heilsufar hans eftir slysið einnig talið vera orðið stöðugt (stöðugleikatímapunktur). Á sama tímabili var stefnandi einnig talinn hafa verið veikur án þess að vera rúmfastur, eða í 366 daga. Varanlegur miski var metinn til 15 stiga og varanleg örorka 40%.
Stefndi hefur greitt eftirfarandi greiðslur inn á tjón stefnanda: 800.000 krónur hinn 20. maí 2005, 500.000 krónur hinn 15. júní sama ár, 700.000 krónur hinn 21. september sama ár og 1.500.000 krónur hinn 11. júní 2010. Þá ber framlögð skaðabótakvittun með sér að stefndi greiddi stefnanda hinn 8. desember 2011 4.638.138 krónur og er hún dregin frá stefnukröfum í dómkröfum stefnanda sem nemur 3.912.863 krónum. Þá voru stefnanda greiddar hinn 2. febrúar 2006 örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins í formi eingreiðslu að fjárhæð 224.987 krónur.
II.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því, að hann hafi slasast við útgerð skips í skilningi 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Hann hafi verið slysatryggður hjá stefnda þegar hann slasaðist og eigi því slysabótakröfu á hann samkvæmt samningi útgerðarinnar og félagsins í samræmi við úrskurð gerðardóms frá 16. maí 2001, sem skipaður hafi verið samkvæmt lögum nr. 34/2001, sbr. lög nr. 55/2001.
Stefnandi byggir fjárhæð dómkrafna sinna á matsgerð D lögfræðings og E læknis, dagsettri 17. desember 2009, og sundurliðar aðalkröfuna þannig:
|
1. Miskabætur: 8.509.950 x 15% |
kr. 1.276.350 |
|
2. Bætur fyrir varanlega örorku: 6.000.000 x 5,329 x 40% |
kr. 12.940.080 |
|
3. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón |
kr. 11.177.600 |
|
4. Þjáningabætur |
kr. 367.975 |
|
5. Annað fjártjón |
kr. 30.000 |
|
Samtals bótakrafa |
kr. 25.792.005 |
Miskabótakrafan sé byggð á niðurstöðu áðurnefnds sérfræðimats og 4. gr. skaðabótalaga. Sé miðað við vísitölu í desember 2009, 6982 x 4.000.000/3282 = 8.509.950 krónur.
Kröfu um bætur fyrir varanlega örorku byggir stefnandi á því að samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga beri að meta viðmiðunarlaun stefnanda sérstaklega þegar aðstæður séu þær, að telja megi laun síðustu þriggja ára ekki gefa rétta mynd af tekjuöflunarhæfi tjónþola. Staða stefnanda sem vinnandi manns hafi verið óvenjuleg þar sem hann hafi verið að byggja upp fyrirtækjarekstur og hafi kosið að taka eins lítið út úr rekstrinum og framast var unnt. Meðalárslaun hans miðað við framlegð hans til framleiðsluréttar á kúfiski og tekjur annarra manna í samsvarandi störfum, geti aldrei numið lægri fjárhæð en 6.000.000 króna. Megi hafa hliðsjón af þeim staðgreiðslulaunum, sem hann hafi orðið að greiða þeim skipstjóra, sem farið hafi með stjórn skips hans, B, á veikindatíma stefnanda en viðmiðunarlaun séu um 50% af þeim tekjum.
Stefnandi byggir á því að síðustu þrjú árin fyrir slysið hafi hann verið framkvæmdastjóri fyrirtækis, sem hafi haft nokkurn fjölda fólks í vinnu og sem hafi staðið í talsverðum framkvæmdum, skipulagningu á atvinnustarfsemi og viðræðum við stjórnvöld, bæði sveitarfélag og fiskveiðiyfirvöld. Stefnandi hafi því innt af hendi mikla vinnu árin fyrir slysið, bæði í dagvinnu, eftirvinnu og næturvinnu. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hafi almenn laun slíkra manna verið á því launabili, sem stefnandi miði árslaun sín við, eða um það bil 481.000 krónur á mánuði, 5.772.000 krónur á ári, en 516.000 krónur á mánuði árið 2004, 6.192 krónur á ári.
Kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón byggir stefnandi á því að staðgengilslaun hafi numið 11.177.600 krónum á árinu 2004 fyrir það tímabil sem hann var óvinnufær. Sé það dómhelguð venja að miða við slík laun, eins og m.a. komi fram í greinargerð með 2. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi sannanlega verið skráður sem skipstjóri á B áður en hann slasaðist og varð óvinnufær. Hann hafi því verið knúinn til að ráða skipstjóra í sinn stað og umkrafin fjárhæð nemi því raunverulegum staðgengilslaunum.
Kröfu sína um þjáningabætur byggir stefnandi á endanlegri sérfræðimatsgerð.
Annað fjártjón í 5. lið framangreinds útreiknings kveðst stefnandi byggja á kostnaði, sem hann hafi orðið fyrir vegna ferða sinna til lækna eftir slysið, t.d. vegna komugjalda, símkostnaðar, aksturskostnaðar og lyfjakostnaðar. Dómafordæmi séu fyrir því að slíkur kostnaður hafi verið metinn að álitum en stefnandi sé búsettur á […] og hafi haft töluvert fyrir því að leita læknis í Reykjavík vegna líkamstjónsins.
Stefnandi telur að ekki fái staðist að líta eigi til 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að því leyti að hann verði að sanna að hann hafi ekki aflað sér bóta frá lífeyrissjóði sínum, eins og hann hafi átt rétt til, og þannig ekki sinnt tjónstakmörkunarskyldu sinni samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar. Bendir stefnandi jafnframt á, að hann hafi þegar árið 2004 aflað sér tekna með vinnu og í það miklum mæli að hann hefi ekki átt rétt á bótum samkvæmt samþykktum lífeyrissjóðsins Gildis. Hins vegar hafi stefnandi reynt að afla sér tekna með vinnu eins og í hans valdi hafi staðið og þannig reynt að takmarka tjón sitt. Þá hafi hann lagt fram upplýsingar um réttindi sín hjá lífeyrissjóðum þannig að stefnda hafi verið fært að áætla þessi réttindi hans, eins og tryggingafélög geri tíðum í málum sem þessum. Byggir stefnandi jafnframt á því að sönnunarbyrðin um slíkan frádrátt hvíli á stefnda en stefnandi hafi lagt fram öll gögn, sem þörf sé á, varðandi þennan þátt málsins.
Varakröfu sína að því er varðar bætur fyrir varanlega örorku byggir stefnandi á meðallaunum iðnaðarmanna árið 2003 með eftirfarandi hætti:
|
1. Miskabætur: 7.624.000 x 15% |
kr. 1.143.600 |
|
2. Bætur fyrir varanlega örorku: 4.044.000 x 4,806 x 40% |
kr. 7.774.185 |
|
3. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón |
kr. 11.177.600 |
|
4. Þjáningabætur |
kr. 210.090 |
|
Samtals varakrafa |
kr. 20.305.385 |
Að því er varðar miskastig og prósentu varanlegrar örorku byggir stefnandi kröfuna á áðurgreindu sérfræðimati frá 17. desember 2009. Varðandi árslaunaviðmið byggir hann á meðallaunum iðnaðarmanna árin 2003 og 2004 en stefnandi sé […] að iðn, auk þess sem hann hafi skipstjórnarréttindi. Hafi hann a.m.k. unnið sem slíkur árin 2007 og 2008 hjá fyrirtækjunum […] ehf. og […] ehf. Hafi félög þessi orðið gjaldþrota og stefnandi síðar fengið greitt frá Ábyrgðarsjóði launa vegna tapaðra launa. Þá hafi stefnandi unnið sem smiður hluta ársins 2004 og hafi honum verið reiknuð laun á þeim forsendum. Um meðallaun iðnaðarmanna 2003 vísar stefnandi til framlagðra upplýsinga frá Hagstofu Íslands, m.a. um mánaðarlaun að fjárhæð 337.000 krónur á mánuði og árslaun að fjárhæð 4.044.000 krónur.
Þá byggir stefnandi á því að hann hafi nýtt vinnugetu sína til að byggja upp atvinnurekstur og falli hann því ekki undir ákvæði 8. gr. skaðabótalaga og þar með 3. mgr. 7. gr. laganna.
Til þrautavara byggir stefnandi á því að bætur til hans geti aldrei verið lægri en stefndi hafi boðið hinn 27. janúar 2011 og sundurliðar stefnandi þrautavarakröfu sína með eftirfarandi hætti:
|
1. Miskabætur: 7.624.000 x 15% |
kr. 1.143.600 |
|
2. Bætur fyrir varanlega örorku: 3.000.000 x 4,806 x 40% |
kr. 5.767.764 |
|
3. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón |
kr. 500.000 |
|
4. Þjáningabætur |
kr. 210.090 |
|
Samtals þrautavarakrafa |
kr. 7.621.354 |
Stefnandi vísar til þess að 3.000.000 króna árslaun séu meðallaun fiskvinnslufólks á […] 2003 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.
Um lagarök vísar stefnandi til 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, sem og meginreglna skaðabótalaga nr. 50/1993 um fullar bætur. Þá vísar stefnandi sérstaklega til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og grunnreglu 2. gr. laganna og dómvenju um staðgengilslaun en almennt vísar hann til 1.-7. gr. laganna. Málskostnaðarkrafa stefnanda er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og vaxtakrafan styðst við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
III.
Í greinargerð gerir stefndi athugasemdir við sönnunargildi framlagðrar matsgerðar, sem aflað var einhliða af stefnanda. Í munnlegum málflutningi lögmanns stefnda við aðalmeðferð málsins kom hins vegar fram að fallist hefði verið á niðurstöður hennar að verulegu leyti. Kröfur stefnanda séu þó í öllum atriðum allt of háar, þar sem þær séu í senn ósannaðar og eigi sér ekki lagastoð. Krefjist stefndi því sýknu eða verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda.
Stefndi kveður kröfu stefnanda um tímabundið atvinnutjón vera tilbúning af hálfu stefnanda og eigi hún sér enga stoð í gögnum málsins um raunveruleg laun stefnanda á því tímabili sem tímabundin óvinnufærni sé talin hafa varað. Sé henni því mótmælt sem rangri og ósannaðri.
Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé stefnandi sagður hafa verið óvinnufær til 6. desember 2004 þegar eitt ár var liðið frá slysinu, auk þess sem talið sé að þá hafi heilsufar hans verið orðið stöðugt vegna afleiðinga slyssins. Fyrir liggi í málinu útprentun af lögskráningardögum á B á árinu 2004. Þar komi fram að stefnandi var lögskráður á skipið 26. apríl til 17. maí, 5. júlí til 15. september og einnig 20. til 23. desember. Þetta verði ekki skilið öðruvísi en að stefnandi hafi verið að störfum um borð í skipinu á umræddum tímabilum en til þessa sé ekki litið í matsgerðinni. Engin samtíma læknisfræðileg gögn liggi fyrir sem sýni fram á óvinnufærni hans á þeim tíma sem hér um ræðir. Læknisvottorð F, dagsett 3. desember 2004, sé í alla staði mjög óskýrt og ónákvæmt og verði ekki á því byggt varðandi óvinnufærni stefnanda. Liggi því í reynd ekki fyrir nein sönnunargögn um óvinnufærni hans eftir 26. apríl 2004. Enn fremur sé upplýst af hálfu stefnanda að hann hafi farið til sjós í ágúst 2004. Verði að telja að þá hafi stefnandi allavega verið orðinn vinnufær, þótt hann hafi ekki treyst sér til að stunda störf á sjó. Í fyrirliggjandi matsgerð séu engar haldbærar skýringar færðar fram fyrir þeirri niðurstöðu að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt 6. desember 2004. Fráleitt sé að byggja á fyrrgreindu læknisvottorði F í þeim efnum, hvað þá að hann hafi verið óvinnufær með öllu til þessa tímamarks. Séu niðurstöður fyrirliggjandi matsgerðar varðandi tímabundna óvinnufærni stefnanda og stöðugleikatímapunkt stórlega dregnar í efa þannig að ekkert verði byggt á þessum atriðum við ákvörðun bóta.
Krafa stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón að fjárhæð 11.177.600 krónur virðist byggja á launum sem skipstjóra þeim, sem ráðinn var á skipið í janúar 2004, voru tildæmd með dómi Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 15. desember 2004. Hér verði að horfa til þess að þar var um vangoldin laun að ræða sem útgerðin gat ekki staðið skil á gagnvart skipstjóra þeim sem í hlut átti. Á árinu 2003 hafi stefnandi verið lögskráður á skipið í alls 119 daga samkvæmt fyrirliggjandi gögnum um lögskráningu á skipið það ár. Engu að síður hafi hann engin laun þegið á því ári frá útgerðinni né öðrum aðilum samkvæmt staðgreiðsluyfirliti frá því ári. Samkvæmt þessu og þar sem útgerðin gat heldur ekki greitt ráðnum skipstjóra laun fyrri hluta árs 2004, sé fullvíst að stefnandi hafi ekki átt þess kost að greiða sér laun á árinu 2004, jafnvel þótt slysið hefði ekki komið til. Sé því mótmælt sem röngu og algerlega fráleitu að þau laun, sem C ehf. var dæmd til að greiða samkvæmt fyrrgreindum dómi, hafi endurspeglað raunveruleg staðgreiðslulaun.
Stefndi kveður stefnanda hafa látið útgerðina gefa út launaseðla á sínu nafni fyrir allt árið 2004 og samkvæmt þeim hefðu árslaunin átt að nema samtals 6.940.027 krónum. Í bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 11. febrúar 2005, sem fylgdi launaseðlunum er þeir voru sendir stefnda, segi að stefnandi hafi ekki fengið laun frá útgerðinni „nema í desember og janúar 2004.“ Sé krafist bóta fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt launaseðlunum fyrir tímabilið frá febrúar til og með desember 2004.
Af staðgreiðsluyfirliti vegna ársins 2004 megi ráða að fyrstu þrjá mánuði ársins hafi stefnandi látið útgerðina, þá undir nafninu G ehf., greiða sér laun samtals að fjárhæð 1.500.058 krónur. Ekki sé fullt samræmi á milli þessara launagreiðslna og þeirra launa sem fram komi á hinum útgefnu launaseðlum. Af hinum misvísandi gögnum, sem fyrir liggi um hugsanlegt tímabundið atvinnutjón stefnanda, verði ekki séð að hann hafi orðið fyrir meira tjóni en sem nemur þeim launum, sem hann hafi fengið greidd frá útgerðinni fyrstu þrjá mánuði ársins 2004. Verði því ekki hjá því komist að hafna kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón.
Um kröfu stefnanda um þjáningabætur vísar stefndi til þess, að af fyrirliggjandi gögnum verði ekki betur séð en stefnandi hafi verið orðinn vinnufær þegar hann fór til sjós 26. apríl 2004. Frá þeim tíma hafi stefnandi ekki verið veikur í skilningi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, sbr. m.a. Hæstaréttardóm frá 1998 bls. 4328. Stefnandi hafi sjálfur upplýst að í ágúst 2004 hafi hann farið til sjós en ekki treyst til sér til að vera á sjónum þar sem erfitt hafi verið að stíga ölduna. Sé augljóst að þá hafi hann verið fær um létta vinnu, þótt sjómennska hafi ekki hentað honum. Skýr gögn um þessa sjóferð í ágúst 2004 virðist ekki liggja fyrir í málinu og sé við svo búið ekki annar kostur en að miða við að veikindatímabil stefnanda hafi verið frá slysdegi, 6. desember 2003, til 25. apríl 2004 eða í 141 dag. Við ákvörðun bótafjárhæðar sé því rétt að miða við fjárhæð sem í gildi var þegar stefnandi setti fram endanlega varakröfu sína í eldra dómsmálinu 17. desember 2009 og nemi þannig fjárhæð þjáningabóta fyrir hvern dag, sem tjónþoli telst veikur án þess að vera rúmliggjandi, 1.490 krónum eða 210.090 krónum fyrir veikindatímabilið. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé það í reynd sú hámarksfjárhæð sem stefnandi geti krafist fyrir þjáningar.
Stefndi kveðst ekki vefengja að varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins sé 15 stig en krafa stefnanda um bætur fyrir varanlegan miska sé í aðalkröfu hins vegar ekki reiknuð út í samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Á tjónsdegi hafi stefnandi verið 59 ára og 148 daga gamall. Samkvæmt töflu í 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nemi bætur fyrir algeran varanlegan miska fyrir 59 ára gamlan tjónþola 3.600.000 krónum og fyrir 60 ára gamlan tjónþola 3.560.000 krónum. Samkvæmt 9. gr. laganna séu umrædd töflugildi miðuð við upphaf aldursárs. Við útreikning bóta skuli reiknað með að fjárhæðirnar breytist jafnt milli töflugilda. Mismunur fyrrgreindra töflugilda nemi 40.000 krónum (3.600.000 – 3.560.000) og í ljósi aldurs stefnanda á tjónsdegi nemi töflugildið við útreikning bóta fyrir varanlegan miska 3.583.781 krónu (3.600.000 – (40.000 x 148/365)).
Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna breytist fjárhæð þessi mánaðarlega í hlutfalli við breytingar, sem verða á lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna, þó þannig að hún skuli hækka eða lækka svo fjárhæð standi á heilu eða hálfu þúsundi króna. Við gildistöku laganna í júlí 1993 hafi lánskjaravísitalan verið 3282 stig, en í desember 2009 hafi sama vísitala numið 6982 stigum. Samkvæmt þessu nemi fjárhæð bóta fyrir algeran miska í desember 2009 í tilviki stefnanda 7.624.000 krónum (3.583.781 x 6982/3282) en fyrir miska að 15 stigum 1.143.600 krónum (7.624.000 x 15%). Sé það sú fjárhæð sem stefnandi geti krafist í bætur fyrir varanlegan miska.
Stefndi mótmælir fyrirliggjandi mati um 40% varanlega örorku stefnanda sem allt of háu. Í málinu liggi fyrir gögn um að stefnandi hafi engar atvinnutekjur haft a.m.k. tvö síðustu árin fyrir slysið. Árið 2001 hafi atvinnutekjur hans numið 625.118 krónum samkvæmt staðgreiðsluyfirliti. Um nokkurra ára skeið hefði stefnandi unnið við að þróa veiðar á kúfiski við strendur Íslands í því skyni að flytja hann út ferskan og einnig frosinn. Gögn málsins bendi ekki til annars en að tilraunastarfsemi þessi hafi verið komin tiltölulega stutt á veg og hvergi nærri fyrirsjáanlegt að veiðar væru að hefjast og þar með útflutningur, þannig að starfsemi þessi færi að gefa af sér tekjur. Á slysdegi hafi því engar breytingar verið fyrirsjáanlegar á atvinnutekjum hans í framtíðinni.
Þótt við mat á varanlegri örorku sé litið til þess að stefnandi væri fyrst og fremst fær til léttra starfa vegna afleiðinga slyssins, verði hins vegar ekki horft fram hjá því að tekjur hans árin fyrir slys hafi verið nær engar og engin breyting væri fyrirsjáanleg í þeim efnum. Í ljósi þessa verði að telja fráleitt að skerðing á getu til að afla atvinnutekna sé metin 40%. Þá liggi engin gögn fyrir um sjúkrasögu stefnanda og þar með ekkert um það hvernig heilsu hans hafi í reynd verið háttað um það leyti sem hann slasaðist og hvort einhverjir heilsufarslegir þættir kunni að vera til staðar sem gætu haft áhrif á vinnugetu hans í framtíðinni. Sé því ljóst að matsgerðin sé haldin svo alvarlegum ágöllum að ekki sé unnt að byggja á henni við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku eða líkamstjón stefnanda að öðru leyti. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga gildir sú meginregla að árslaun til ákvörðunar bóta samkvæmt 6. gr. laganna skulu teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.
Þau árslaun, sem stefnandi noti við útreikning kröfu sinnar í aðalkröfu, 6.000.000 króna, eigi sér ekki nokkra stoð í veruleikanum. Ekkert liggi fyrir í málinu sem sýni fram á að tekjur stefnanda hafi verið að breytast að einhverju marki um það leyti sem hann slasaðist. Fyrst svo sé ástatt, hafi gögn um laun tiltekinna hópa launamanna, hvort sem það eru stjórnendur eða iðnaðarmenn, enga þýðingu til að ákveða viðmiðunarlaun við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku. Þá hafi heldur enga þýðingu þótt endurbætur hafi verið unnar á skipi útgerðarinnar á milli áranna 2001 og 2002 en á því tímabili virðist skipið ekki hafa verið í eigu stefnanda eða útgerðar á hans vegum heldur útgerðarinnar […] hf. í Vestmannaeyjum, að því er ráðið verði af verðútreikningi Fjárhæðanefndar fiskiskipa. Jafnvel þótt stefnandi hafi unnið að þessum endurbótum á skipinu, gefi þær enga vísbendingu um að tekjuaukning hafi verið fyrirsjáanleg hjá stefnanda um það leyti sem hann lenti í slysinu undir lok árs 2003. Framangreindri launaviðmiðun sé því eindregið mótmælt sem rangri og ósannaðri. Hið sama gildi í reynd um þær launaviðmiðanir, sem stefnandi byggi á í varakröfu og þrautavarakröfu sinni.
Þegar hefur verið rakið að stefnandi hafði nær engin laun árin fyrir slysið. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna skal hins vegar ekki miða við lægri árslaun en 1.200.000 krónur þegar í hlut eiga tjónþolar 66 ára og yngri eins og við á um stefnanda í máli þessu. Árslaun þessi skal leiðrétta samkvæmt lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna til þess tímamarks er heilsufar tjónþola var orðið stöðugt, sbr. 15. gr. laganna. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að lögum ekki stuðst við aðra viðmiðun en þessi lágmarksárslaun við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku stefnanda. Sé miðað við að heilsufar hans hafi verið orðið stöðugt 6. desember 2004, þrátt fyrir fyrirvara þar um, hafi umrædd lágmarksárslaun á því tímamarki numið 2.553.000 krónum (1.200.000 x 6982/3282).
Tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku reiknast út á því tímamarki sem upphaf örorkunnar miðast við, þ.e. 6. desember 2004, þegar heilsufar hans var orðið stöðugt, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Þá hafi stefnandi verið 60 ára og 148 daga. Samkvæmt töflugildum í 1. mgr. 6. gr. laganna sé margfeldisstuðull, sem nota skal við útreikning bótanna, 4,960 þegar í hlut á 60 ára gamall tjónþoli og þegar í hlut á 61 árs gamall tjónþoli er stuðullinn 4,581. Samkvæmt 9. gr. laganna eru umrædd töflugildi miðuð við upphaf aldursárs. Við útreikning bóta skuli reiknað með að stuðullinn breytist jafnt milli töflugilda. Mismunur fyrrgreindra töflugilda er 0,379 (4,960 – 4,581) og í ljósi aldurs stefnanda við upphaf örorkunnar sé töflugildið við útreikning bóta fyrir varanlega örorku 4,806 (4,960 – (0,379 x 148/365)). Jafnvel þótt miðað yrði við 40% varanlega örorku sé ekki grundvöllur fyrir hærri útreiknuðum bótum en 4.907.887 krónum (2.553.000 x 4,806 x 40%).
Ef hin metna 40% örorka reynist eiga við rök að styðjast, sé viðbúið að stefnandi eigi einnig rétt til örorkulífeyris úr lífeyrissjóði en 40% slíkra greiðslna skuli dragast frá skaðabótakröfu, eins og nánar sé mælt fyrir um í 4. málsl. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Stefnanda beri að sinna tjónstakmörkunarskyldu sinni samkvæmt ákvæði þessu. Dugi í því efni ekki einungis að leggja fram upplýsingar um áunnin lífeyrisréttindi stefnanda heldur beri stefnda að afla mats hjá viðkomandi lífeyrissjóði til að fá úr því skorið hvort starfsgeta hans sé svo skert að hann hafi öðlast rétt til töku örorkulífeyris. Ef mat á varanlegri örorku, sem stefnandi byggi kröfur sínar á, sé rétt, verði að ætla að hann hafi öðlast rétt til örorkulífeyris úr lífeyrissjóði. Sé því ekki unnt að líta svo á að með þeim launum, sem stefnandi aflaði á síðari hluta árs 2007 og á árinu 2008, hafi hann ekki átt rétt til örorkulífeyris allar götur frá því slysið varð uns hann öðlaðist rétt til töku ellilífeyris. Þá geti stefnandi heldur ekki öðlast betri rétt gagnvart stefnanda með því nýta ekki þann rétt sinn sem hann hafi haft til töku örorkulífeyris frá því slysið varð.
Stefndi mótmælir sem ósannaðri kröfu stefnanda um bætur fyrir annað fjártjón að fjárhæð 30.000 krónur.
Samkvæmt framansögðu geti bætur til stefnanda að hámarki numið 4.036.590 krónum sem sundurliðist svo:
Þjáningabætur (1.490 x 141) kr. 210.090
Varanlegur miski (7.624.000 x 15%) kr. 1.143.600
Varanleg örorka (2.553.000 x 4,806 x 40%) kr. 4.907.887
_________
kr. 6.261.577
Innborgun stefnda 20.5.2005 - kr. 800.000
Innborgun stefnda 15.6.2005 - kr. 500.000
Innborgun stefnda 21.9.2005 - kr. 700.000
Innborgun stefnda 11.6.2010 - kr. 1.500.000
Eingreiðsla örorkubóta frá TR 2.2.2006 kr. 224.987
_________
Samtals kr. 2.536.590
Frá þessari fjárhæð beri svo að draga 40% eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum. Eins og að framan greini, skorti gögn til að finna út hver sú fjárhæð sé sem draga beri frá af þessum sökum. Sé allt eins líklegt að hún nemi mismuninum sem enn teljist ógreiddur, auk vaxta og kostnaðar. Eins og mál þetta sé í pottinn búið, verði því að ætla að stefnandi hafi þegar fengið tjón sitt að fullu bætt og því beri að sýkna stefnda af kröfum hans.
Stefndi kveður þrautavarakröfu stefnanda byggja á tillögu, sem lögð hafi verið fyrir lögmann stefnanda undir rekstri fyrra dómsmáls um ágreining aðila. Hafi tillagan verið sett fram án skuldbindingar fyrir stefnda og hafi hún falið í sér verulega hærri bætur en stefnandi hafi sýnt fram á að hann eigi tilkall til. Vegi þar þyngst bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, viðmiðunarlaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku og að ekki var gert ráð fyrir frádrætti vegna örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum. Þá hafi tillagan gagngert verið sett fram í því skyni að ljúka mætti málinu í eitt skipti fyrir öll. Það komi því ekki til álita að greiða umrædda fjárhæð sem innborgun á tjónið og lögmaður stefnanda hafi þá virst hafa góðan skilning á því. Sé harðlega mótmælt ályktunum stefnanda um að stefndi kunni að einhverju leyti að vera bundinn af þessari tillögu.
Í greinargerð er varakrafa stefnda um lækkun á dómkröfum stefnanda sett fram á þeim forsendum að stefndi afli gagna undir rekstri málsins, sem leiði í ljós að stefnandi kunni að eiga rétt til hærri bóta en sem nemur þeim innborgunum, sem að framan greini, og áskilur stefndi sér í því tilviki rétt til að útlista varakröfuna frekar.
Stefndi mótmælir sérstaklega kröfum stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta. Matsgerð, sem stefnandi byggi kröfur sínar á, hafi fyrst legið fyrir þegar hún var lögð fram í eldra dómsmálinu 17. desember 2009. Krafan geti því í fyrsta lagi borið dráttarvexti frá 17. janúar 2010, sbr. fyrri málsl. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Á hinn bóginn sé ljóst að frekari gögn skorti til að unnt sé að ákvarða endanlega bætur fyrir varanlega örorku. Sé því sú krafa aðallega höfð uppi að tildæmdar bætur beri fyrst dráttarvexti frá endanlegum dómsuppsögudegi að telja, sbr. síðari málsl. 9. gr. laga nr. 38/2001.
Málskostnaðarkröfur stefnda, bæði í aðalkröfu og varakröfu, eru reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV.
Í máli þessu er ágreiningslaust að stefnandi á rétt á skaðabótum úr hendi stefnda vegna tjóns þess, sem hann varð fyrir þegar hann slasaðist við vinnu sína um borð í fiskiskipinu B hinn 6. desember 2003. Hins vegar lýtur ágreiningur aðila einkum að varanlegri örorku stefnanda og árslaunaviðmiðinu.
Í greinargerð gerir stefndi ýmsar athugasemdir við forsendur og niðurstöður framlagðrar matsgerðar D lögfræðings og E læknis, sem stefnandi aflaði einhliða. Stefndi hefur allt að einu undir rekstri málsins fengið H tryggingastærðfræðing til þess að reikna út endurgreiðsluverðmæti bóta frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem miðað er við niðurstöðu matsgerðarinnar um 15% varanlegan miska og 40% varanlega örorku vegna slyss stefnanda. Liggja útreikningarnir fyrir í málinu. Stefnandi hefur mótmælt útreikningunum, án þess þó að útlista nánar að hvaða leyti hann telur þá ranga. Þá hefur stefnandi hvorki lagt fram eigin útreikninga um eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði né gert ráð fyrir frádrætti 40% þess í bótakröfum sínum, svo sem honum bar að gera samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Þar sem ekkert er að öðru leyti fram komið sem hnekkir útreikningum þessum verða þeir lagðir til grundvallar við úrlausn málsins.
Stefnandi byggir kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku á því að meta beri viðmiðunarlaun stefnanda sérstaklega þar sem staða hans sem vinnandi manns hafi verið óvenjuleg, sbr. ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæðinu skal meta árslaun tjónþola sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en sú viðmiðun, sem tilgreind er sem aðalregla í 1. mgr. sömu lagagreinar, um að líta skuli til meðalatvinnutekna að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð. Vísar stefnandi til þess að hann hafi á umræddu tímabili unnið að uppbyggingu fyrirtækisreksturs og þróun kúfiskveiða og því tekið eins lítið út úr rekstrinum og framast var unnt. Í útreikningi sínum í aðalkröfu miðar stefnandi við að meðalárslaun, miðað við framlegð hans til framleiðsluréttar á kúfiski og tekjur annarra manna í samsvarandi störfum, geti aldrei numið lægri fjárhæð en 6.000.000 króna. Þessu hefur stefndi mótmælt og vísar til þess að ekkert liggi fyrir í gögnum málsins um að breytingar hafi orðið í kúfiskveiðum stefnanda og þá hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að breytingar séu í vændum sem gætu skapað aðstæður til að stefnandi nyti hærri launa en framlögð gögn benda til.
Til þess að unnt sé að beita ákvæðum framangreindrar 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hefur verið talið að uppfylla þurfi tvö meginskilyrði. Annars vegar að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi hjá tjónþola og hins vegar að annar mælikvarði en meðalvinnutekjur síðustu þriggja almanaksára fyrir slys, að viðbættu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs uppfært eins og segir í ákvæðinu, teljist réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Hvílir sönnunarbyrði um þessi atriði á stefnanda.
Af framlögðum gögnum málsins og framburði stefnanda hér fyrir dóminum er ljóst að stefnandi hafði um langt skeið, áður en slysið varð, unnið ötullega að því að undirbúa kúfiskveiðar, m.a. með tilraunaveiðum og hönnunarvinnu. Hins vegar liggur ekkert fyrir um það í gögnum málsins, að eitthvað hafi breyst hjá stefnanda vegna þess að viðsnúningur hafi orðið í rekstri hans vegna þessa, sem hafi haft eða muni hafa áhrif á árstekjur hans. Þá verður af gögnum málsins ekki séð að verðmætaaukning á skipi og öðrum eignum, sem framlögð gögn benda til að hafi orðið vegna vinnu stefnanda, hafi haft slík áhrif. Verður því að fallast á það með stefnda, að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að aðstæður hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið hafi verið svo óvenjulegar að árstekjur hans, eins og þær eru tilgreindar á skattframtölum, séu ekki líklegur mælikvarði á framtíðartekjur hans.
Ekki verður fallist á það með stefnanda að rök séu til þess að miða beri árslaun hans við laun stjórnenda í sjávarútvegi, eins og hann gerir í aðalkröfu sinni, enda ekkert fram komið í gögnum málsins sem sýnir að hann hafi þegið laun sem slíkur árin fyrir slysið. Þá verður við mat á varakröfu stefnanda að líta til þess, að þótt stefnandi sé lærður […] hafði hann, að því er best verður séð, ekki unnið sem slíkur árum saman fyrir slysið. Þykir því ekki tækt að nota laun iðnaðarmanna sem tekjuviðmið.
Kröfu sína um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón byggir stefnandi á því að miða beri við staðgengilslaun. Í framlagðri matsgerð frá 17. desember 2009 leggja matsmenn til grundvallar að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu frá slysdegi 6. desember 2003 til stöðugleikatímapunkts 6. desember 2004. Í framlögðu læknisvottorði F, dagsettu 3. desember 2004, kemur fram að stefnandi hafi orðið óvinnufær á slysdegi og hafi ekki verið orðinn vinnufær þegar vottorðið var gefið út. Ekki gætir þó að öllu leyti samræmis í læknisvottorðinu að þessu leyti því þar segir jafnframt: „Hefur reynt að fara í túra á bátnum en orðið að gefast upp, verkir.“
Stefnandi byggir á því að hann hafi sannanlega verið skráður á skipið B sem skipstjóri áður en hann slasaðist og varð óvinnufær og hafi því þurft að ráða skipstjóra í sinn stað. Í málinu liggur frammi óundirritað launaframtal C ehf. 2005 vegna launagreiðslna á árinu 2004 þar sem tilgreint er að I reiknist 11.177.600 krónur í laun. Einnig liggur frammi endurrit dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 15. desember 2004 í máli nr. E-2757/2004 þar sem C ehf. var gert að greiða áðurnefndum I þá fjárhæð vegna starfa hans sem skipstjóra á B tímabilið 21. janúar til 17. maí 2004. Stefndi hefur mótmælt sönnunargildi þessara skjala. Af gögnum málsins verður ráðið að þrátt fyrir að stefnandi hafi verið skráður á skipið í 119 daga á árinu 2003 hafi hann ekki fengið greidd laun frá útgerðinni samkvæmt því. Þegar jafnframt er litið til þess að óljóst virðist vera hvort framangreint skattframtal C ehf. vegna launagreiðslna á árinu 2004 var sent skattyfirvöldum og að ekki var tekið til varna í framangreindu dómsmáli, verður að fallast á það með stefnda að ekki verði einvörðungu byggt á þeim gögnum að þessu leyti.
Einnig benda gögn málsins til þess að stefnandi hafi verið lögskráður á umrætt skip hluta þess tímabils sem krafa hans tekur til. Loks verður að líta til þess að ósamræmis gætir í framlögðum gögnum að því er varðar launagreiðslur á árinu 2004, annars vegar samkvæmt staðgreiðsluyfirliti vegna þess árs og hins vegar samkvæmt launaseðlum stefnanda. Að öllu framangreindu virtu verður að hafna viðmiðun stefnanda við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón í aðal- og varakröfu hans og telst það því ósannað.
Í málinu liggur frammi sáttatillaga stefnda til lausnar á málinu þar sem miðað er við ívið hærri fjárhæð en í uppgjöri hans samkvæmt framlagðri skaðabótakvittun. Sýnist sem stefnandi byggi útreikninga þrautavarakrafna sinna á tillögunni, auk þess sem hann vísar um árslaunaviðmið hennar til meðallauna fiskvinnslufólks á […]. Gegn mótmælum stefnda verður ekki fallist á það með stefnanda að stefndi verði talinn bundinn af sáttatillögunni, umfram þá fjárhæð sem hann hefur þegar greitt stefnanda. Þá þykja laun fiskvinnslufólks á […] ekki tæk sem launaviðmið, enda er hún að engu leyti rökstudd af hálfu stefnanda, auk þess sem óumdeilt virðist að stefnandi vann ekki við fiskvinnslu árin fyrir slysið. Að þessu virtu verður þrautavarakröfu stefnanda í heild hafnað.
Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hefur nær engar tekjur haft síðustu þrjú árin fyrir slysið og verður því hér að miða við ákvæði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem segir að ekki skuli miða við lægri árslaun en þau, sem þar er sett fram í töflu. Er viðmiðið þar 1.200.000 krónur miðað við tjónþola yngri en 66 ára. Miðað við aldur stefnanda við upphafstíma varanlegrar örorku stefnanda, þ.e. 6. desember 2004 en þá var stefnandi 60 ára og 148 daga, verður að fallast á útreikninga stefnda eins og þeir eru fram settir í bréfi hans til lögmanns stefnanda 8. desember 2011 og miða árslaun hans við 2.553.000 krónur. Að þessu virtu og þar sem útreikningar stefnda, sem fram eru settir í greinargerð, eru byggðir á ákvæðum skaðabótalaga verður við þá miðað við úrlausn um kröfur stefnanda.
Stefnandi gerir í aðalkröfu sinni kröfu um greiðslu 30.000 króna úr hendi stefnda vegna ýmiss kostnaðar, sem hann hafi orðið fyrir vegna ferða sinna til lækna eftir slysið. Engin gögn hafa verið færð fram til sönnunar á þessum kostnaði og gegn mótmælum stefnda verður að telja kröfuna ósannaða og er henni því hafnað.
Óumdeilt er og ljóst af framlagðri skaðabótakvittun að stefndi greiddi stefnanda 4.638.130 krónur hinn 8. desember 2011 og eru reikningsforsendur greiðslunnar tilgreindar í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda, dagsettu sama dag. Kemur þar fram að í greiðslunni felist greiðsla á þjáningabótum, bótum vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku, að teknu tilliti til óumdeildra innborgana stefnanda til stefnda og frádrætti vegna eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris og tjónsdagsverðmætis örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins, hvort tveggja samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga. Þá hefur stefndi reiknað inn í fjárhæðina vexti frá 6. desember 2004 til greiðsludags 8. desember 2011, útlagðan kostnað og málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti. Verður ekki séð að stefnandi hafi mótmælt útreikningi þessum sérstaklega með öðrum hætti en með þeim málsástæðum, sem hann byggir kröfur sínar á og tekin hefur verið afstaða til hér að framan. Í ljósi alls framangreinds á stefnandi ekki rétt til frekari bóta en hann hefur nú þegar þegið úr hendi stefnda. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.