Hæstiréttur íslands

Mál nr. 665/2007


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Hilming
  • Nytjastuldur
  • Ávana- og fíkniefni
  • Umferðarlagabrot
  • Milliliðalaus málsmeðferð
  • Ítrekun
  • Vanaafbrotamaður


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. febrúar 2008.

Nr. 665/2007.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen, saksóknari)

gegn

Unnari Sigurði Hansen

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Þjófnaður. Hilming. Nytjastuldur. Fíkniefni. Umferðarlagabrot. Milliliðalaus málsmeðferð. Ítrekun. Vanaafbrotamaður.

 

U var sakfelldur fyrir tvö þjófnaðarbrot, hilmingu, nytjastuld, þrjú fíkniefnalagabrot og réttindaleysi við akstur í tvö skipti, en sýknaður af ákæru vegna innbrots í félagi við tvo aðra og vegna aksturs sviptur ökurétti og undir áhrifum fíkniefna. Tekið var fram að U væri vanaafbrotamaður og hefði meðal annars margítrekað gerst sekur um auðgunarbrot. Með hliðsjón af 71. gr., 72. gr., 77. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Skaðabótakröfu sem V hafði uppi í málinu vegna annars þeirra ákæruliða sem U var sýknaður af var vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. desember 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd og að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um greiðslu ákærða á skaðabótum til Vátryggingafélags Íslands hf.

Ákærði krefst aðallega sýknu af I., II., IV. og VI. kafla ákæru og af X. kafla að hluta. Þá krefst hann þess að honum gerð vægasta fangelsisrefsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhald frá 11. september 2007 komi til frádráttar henni. Ákærði krefst einnig að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi.

I

Í I. kafla ákæru er ákærða gefinn að sök þjófnaður með því að hafa að morgni 11. júní 2007, með tilteknum hætti í félagi við A og B, brotist inn í einbýlishús í Reykjavík og stolið þaðan ýmsum munum, samtals að verðmæti rúmlega hálf milljón krónur. A og B voru fundin sek um innbrotið með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2007. Skýrslur A og B hjá lögreglu um málsatvik eru nægilega raktar í hinum áfrýjaða dómi, en þau breyttu þar bæði frásögn sinni um ætlaðan þátt ákærða í innbrotinu. B bar fyrir dómi í þessu máli að ákærði hefði ekki tekið þátt í innbrotinu. A gaf hins vegar ekki skýrslu fyrir dómi við meðferð málsins í héraði. Þá verður hvorki séð að dómsendurrit frá skýrslugjöf A í áðurnefndu máli Héraðsdóms Reykjavíkur hafi legið frammi við meðferð málsins í héraði né umræddur dómur sem vísað er til í héraðsdómi. Dómur um sekt ákærða verður ekki reistur á gögnum sem ekki voru færð fram við meðferð málsins fyrir dómi, sbr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þegar af þessum sökum verður ákærði, sem hefur neitað sök bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, sýknaður af þessum kafla ákærunnar. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 verður bótakröfu Vátryggingafélags Íslands hf. vísað frá héraðsdómi.

Í II. kafla ákæru er ákærða gefin að sök hilming, með því að hafa að kvöldi 22. júní 2007 haft í sínum vörslum straumbreyti fyrir fartölvu sem stolið hafði verið fyrr um daginn úr Fella- og Hólakirkju. Ekki verður fallist á með héraðsdómi að brotaferill ákærða skuli hafa áhrif við mat á sönnun sektar hans. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum kafla ákæru.

Í IV. kafla ákæru er ákærða gefinn að sök þjófnaður með því að hafa 16. ágúst 2007 brotist inn í bifreið og stolið þaðan munum að verðmæti 100.000 krónur. Ekki verður ráðið af gögnum þeim sem liggja fyrir Hæstarétti að C hafi sagt að einungis ákærði og hún hafi haft aðgang að bifreið ákærða líkt og greinir í héraðsdómi. Ekki verður fallist á með héraðsdómi að játning ákærða á aðild að innbrotum í aðrar bifreiðar og sakfellingar fyrir önnur þjófnaðarbrot skuli hafa áhrif við mat á sönnun sektar hans. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum kafla ákæru.

Í VI. kafla ákærðu er ákærða gefið umferðarlagabrot að sök, með því að hafa að morgni mánudagsins 20. ágúst 2007 ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana– og fíkniefna. Eins og fram kemur í héraðsdómi ber vitnið D einn um akstur ákærða umrætt sinn, en hann kvaðst þekkja ákærða vegna þess að ákærði hefði stolið af sér bifreið nokkru áður. Ítrekað aðspurður fyrir dómi kvaðst D vera þess fullviss að ákærði hafi verið í framsæti bifreiðarinnar er lögregla kom að honum. Sá lögreglumaður sem kom að ákærða í bifreiðinni kvað hann hins vegar hafa legið í aftursæti hennar, en C þá staðið fyrir utan bifreiðina. Samkvæmt framanrituðu og með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði sýknaður af þessum kafla ákæru.

Ákærði játaði hjá lögreglu það brot sem honum er gefið að sök í X. kafla ákæru og er málavöxtum lýst í héraðsdómi. Eins og þar er rakið játaði ákærði hjá lögreglu að hafa haft tilgreint magn af hassi í sínum vörslum og að hafa ætlað hluta þess til sölu. Ákærði hefur fyrir dómi ekki vefengt að hafa gefið þessa skýrslu. Þá hefur lögreglumaður sá sem yfirheyrði ákærða staðfest skýrsluna fyrir dómi. Samkvæmt þessu hefur verið færð fram fyrir dómi fullnægjandi sönnun um að ákærði hafi játað við skýrslugjöf hjá lögreglu að hafa framið það brot sem um ræðir. Hefur ákærði ekki gefið skýringar á breyttum framburði sem tekið verður tillit til við úrlausn máls. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu samkvæmt þessum kafla ákæru.

II

Ákærði er í máli þessu fundinn sekur um tvö þjófnaðarbrot, hilmingu, nytjastuld, þrjú fíkniefnalagabrot og réttindaleysi við akstur í tvö skipti. Ákærði er fæddur 17. september 1966. Sakaferill hans er nægilega rakinn í héraðsdómi, en ákærði hefur 31 sinni verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni, umferðarlögum, tékkalögum og vopnalögum. Ákærði er vanaafbrotamaður og hefur hann meðal annars margítrekað gerst sekur um auðgunarbrot. Þegar litið er til ákvæða 71. gr., 72. gr., 77. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Til frádráttar dæmdri refsingu kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 11. september 2007.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Unnar Sigurður Hansen, sæti fangelsi í 10 mánuði. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald er hann hefur sætt frá 11. september 2007.

Skaðabótakröfu Vátryggingafélags Íslands hf. er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og upptöku skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 294.951 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns 249.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 6. nóvember 2007 á hendur Unnari Sigurði Hansen, [kt.], óstaðsettum í hús, Hafnarfirði, fyrir eftirtalin brot:   

                                                                 I.  007-2007-42876

                         fyrir þjófnað, með því að hafa að morgni mánudagsins 11. júní 2007, í félagi með A, [kt.], og B, [kt.], brotist inn í einbýlishúsið að E í Reykjavík, með því að fara inn um glugga á salerni hússins, og stolið þaðan fartölvu af gerðinni Dell, 200 enskum pundum, 200 dönskum krónum, fjórum veskjum, þar af einu er innihélt 75.000 krónur í reiðufé, sykurmæli, MP3-spilara, skartgripum og ávísunahefti, samtals að verðmæti um 550.000 krónur.

                         Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu gerir F f.h. Vátryggingafélags Íslands, þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 436.015, auk vaxta „af upphæðinni samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá greiðsludegi bótanna, en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

                                                                 II.  007-2007-47231

Fyrir hylmingu, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 22. júní 2007 haft í vörslum sínum straumbreyti fyrir fartölvu, sem stolið var fyrr um daginn úr innbroti í Fella- og Hólakirkju í Reykjavík, og lögregla fann á ákærða er hún hafði afskipti af honum.

                         Þetta er talið varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                                                                 III.  007-2007-62027

                         Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa að morgni miðvikudagsins 15. ágúst 2007, haft í vörslum sínum í bifreiðinni G 2,10 grömm af amfetamíni, sem lögregla fann við leit í bifreiðinni á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. 

                         Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

                                                                 IV.  007-2007-62436

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 16. ágúst 2007, brotist inn í bifreiðina H, þar sem hún stóð fyrir utan I í Reykjavík, með því að brjóta afturglugga bifreiðarinnar og stolið þaðan fartölvu af gerðinni Dell, tveimur staðsetningartækjum af gerðinni Garmin, myndavél af gerðinni Canon og seðlaveski með greiðslukortum og reiðufé að andvirði 100.000 krónur.

                         Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                                                               V.  007-2007-63371

                         Fyrir umferðarlagabrot, nytjastuld og þjófnað, með því að hafa mánudaginn 20. ágúst 2007, tekið bifreiðina J til eigin nota í heimildarleysi, þar sem hún stóð í bifreiðastæði við Kænuvog í Reykjavík og ekið henni, sviptur ökurétti, að Hrafnistu, þar sem ákærði stal úr bifreiðinni öryggjum, Ipod-spilara og lyfseðlum.

                         Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1956.

                                                               VI.  007-2007-63271

                         Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að morgni mánudagsins 20. ágúst 2007, ekið bifreiðinni G sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna henni örugglega, um L í Kópavogi að húsi nr. [...], þar sem lögregla hafði afskipti af honum.  

                         Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr. og  1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

                                                                 VII.  007-2007-64948

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 26. ágúst 2007, ekið bifreiðinni G, sviptur ökurétti, vestur Vesturvör í Kópavogi, uns lögregla stöðvaði akstur hans við Kársnesbraut.

                         Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

                                                                 VIII.   007-2007-67730

Fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 4. september 2007, í auðgunarskyni, brotist inn í skrifstofu og félagsheimili Fóstbræðra að Langholtsvegi 109-111 í Reykjavík, með því að spenna upp hurðir í húsnæðinu og róta þar í skúffum og skápum í leit að verðmætum, án árangurs.

                         Þetta er talið varða við 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20, 1956.

                                                                 IX.   007-2007-68019

                         Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 5. september 2007, haft í vörslum sínum í bifreiðinni G 4,02 grömm af hassi, sem lögregla fann er hún hafði afskipti af ákærða við Hringbraut 121 í Reykjavík.

                         Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

                                                                 X.   007-2007-69644

                         Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 11. september 2007, haft í vörslum sínum í bifreiðinni G 11,84 grömm af hassi, sem ákærði ætlaði að hluta til söludreifingar, og lögregla fann er hún hafði afskipti af honum við [...] í Reykjavík.

                         Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

                         Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að framangreind fíkniefni sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

 

Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði dæmd sú vægasta refsing er lög leyfa, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

III., V., VII. og IX. kaflar ákæru.

                Ákærði hefur skýlaust játað sök samkvæmt III., V., VII. og IX köflum ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum köflum ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

                I. kafli ákæru.

                Samkvæmt skýrslu lögreglu frá mánudeginum 11. júní 2006 kl. 10.10 fékk lögregla á þeim tíma boð um að fara að E í Reykjavík þar sem þar hafi verið brotist inn í húsnæði. Er lögregla kom á vettvang var haft tal af tilkynnanda og eiganda húsnæðisins. Kvaðst tilkynnandi hafa yfirgefið heimili sitt um kl. 8.55 um morguninn og komið aftur heim kl. 10.10. Þá hafi hann tekið eftir að brotist hafi verið inn í húsið. Hafi hann þegar hringt á lögreglu. Í frumskýrslu lögreglu er tekið fram að húsnæðið að E sé einbýlishús á einni hæð. Í skýrslu rannsóknarlögreglu­manns er tekið fram að húsnæðið hafi verið í mikilli endurnýjun, bæði innanhúss sem og að utan. Greinilega hafi verið farið inn um glugga á salerni, en glugginn hafi sennilega verið lítið eitt opinn. Sjá hafi mátt sand og hluta af fótspori á baðkarinu. Sá er í hlut hafi átt hafi greinilega reynt að opna svalahurð en ógreinileg fótspor hafi verið í grunninum fyrir neðan svalahurðina. Að sögn tilkynnanda hafi verið tekin svört fartölva af gerðinni Dell, 200 ensk pund, 200 danskar krónur, sykurmælir, 3 tóm veski, 1 veski með 75.000 krónum, 3 ógild vegabréf, 3 gild vegabréf og Mp3 spilari. Þá hafi verið tekið box með ýmsum skartgripum í að áætluðu verðmæti 237.000 krónur. Þá er tekið fram í skýrslunni að nágranni tilkynnanda hafi greint frá því að hann hafi séð ungan mann í garði við húsnæðið um kl. 9.30 að morgni mánudagsins 11. júní 2007. Í samtölum við lögreglu hafi nágranninn lýst viðkomandi sem slánalegum, um 1,85 til 1.90 cm á hæð, með millsítt hár og sennilega í gallabuxum og jakka. 

                Föstudaginn 15. júní 2006 kl. 22.28 var lögregla boðuð að versluninni 11-11 að Grensásvegi í Reykjavík þar sem ungt par hafi stolið vörum úr versluninni. Í lögregluskýrslu kemur fram að á vettvangi hafi starfsmaður verslunarinnar tekið á móti lögreglu og tjáð lögreglumönnum að maður og kona hafi komið inn í verslunina og sett vörur í innkaupakörfu. Er fólkið hafi komið að búðarkassa hafi starfsmaðurinn afgreitt þau. Maðurinn hafi sett vörur í innkaupapoka og gengið með þá út úr versluninni og sett inn í bláa [...] bifreið. Síðan hafi hann sjálfur sest inn í bifreiðina. Konan hafi sagt að hún væri með pening og hafi hún rétt starfsmanninum ávísun. Kvaðst starfsmaðurinn hafa tjáð konunni að hann gæti ekki tekið við ávísun. Hafi konan sagt að hún ætlaði að fara út í bifreiðina til að ná í pening. Eftir að konan hafi farið inn í bifreiðina hafi bifreiðinni verið ekið á brott. Skráningarnúmer bifreiðarinnar væri K. Samkvæmt upplýsingum lögreglu væri eigandi bifreiðar­innar B, en með honum væri A. Síðar sama dag handtók lögregla B og A á bifreiðastæði við verslunina Byko í Kópavogi. Eftir að hafa heimilað leit fundu lögreglumenn þrjá innkaupapoka í bifreiðinni. B og A voru í framhaldi færð á lögreglustöð.

                Í rannsóknargögnum málsins er að finna yfirlit um útgefnar ávísanir á reikning í Sparisjóði Vélstjóra í Borgartúni í Reykjavík. Samkvæmt því hafi verið gefnir út alls 6 tékkar á reikninginn eftir innbrot í húsnæði að E. 

                Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2007 í máli nr. S-1022/2007 voru A og B ákærð fyrir að hafa í félagi við ákærða brotist inn í einbýlishúsið að E í Reykjavík og stolið þaðan þeim varningi sem ákærða er í þessu máli gefið að sök að hafa tekið úr húsnæðinu. Í dómi héraðsdóms voru A og B bæði sakfelld fyrir umræddan þjófnað. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins greindi B þannig frá atvikum að ákærði hafi farið inn í húsnæðið að E. A hafi að beiðni ákærða farið út úr bifreið er B hafi ekið, gagngert til að athuga hvort einhver væri heima að E. Hún hafi komið til baka og ákærði í framhaldi farið inn í húsnæðið. Hann hafi komið til baka með þýfi í tösku. Við aðalmeðferðina játaði A sök fyrir dómi. Greindi hún frá því að hún, B og ákærði, hafi ákveðið að brjótast inn. Hún hafi athugað hvort einhver væri heima í húsinu. Svo hafi ekki verið og ákærði í framhaldi brotist inn í húsið.

                Mánudaginn 18. júní 2007 var A yfirheyrð hjá lögreglu. Í lögregluskýrslu kemur fram að A og B hafi verið handtekin eftir að hafa reynt að nota ávísanir sem teknar hafi verið í innbroti að E. Lögreglu hafi borist fjögur ljósrit ávísana úr innbrotinu þar sem A væri framseljandi á tveim ávísunum og væri uppi rökstuddur grunur um að B hafi fyllt ávísanirnar út. Við skýrslugjöfina kvaðst A ekki hafa brotist inn að E né vita hver hafi gert það. Hafi A og B fengið í hendur ávísanahefti frá tilteknum aðila sem þau vildu ekki skýra frá hver væri af ótta við hefndaraðgerðir. Maðurinn hafi skilið eftir hjá A bláa tösku með skartgripum, eyrnalokkum og fleiru. Hafi hann gefið A hlutina. A kvað B hafa fyllt út þær ávísanir er lögregla hafði með höndum úr innbrotinu en A hafi framselt þrjár ávísanirnar. Næsta dag var A aftur yfirheyrð vegna málsins. Kvaðst hún vilja breyta fyrri framburði sínum. Ákærði hafi umrætt sinn beðið A um að hringja dyrabjöllu á húsinu að E. Hafi hún gert það og í framhaldi farið inn í bifreið sem hafi verið í nágrenni við húsið. B hafi beðið með A í bifreiðinni á meðan ákærði hafi farið inn í húsið. Hafi hann komið til baka með þýfi í svartri Nike tösku, sem lögregla hafi fundið á heimili A. Hún og B hafi fengið í sinn hlut 25.000 krónur í reiðufé, auk þess sem ákærði hafi gefið A skartgripina sem hafi komið úr innbrotinu. Aðdragandinn hafi verið sá að þau þrjú hafi farið út að aka gagngert til þess að leita að húsnæði til að brjótast inn í. Hafi ákærði átt þá hugmynd. Ákærði hafi tekið restina af þýfinu, þ.e. tölvu, vegabréf og reiðufé. Þau þrjú hafi verið á bifreið B umrætt sinn.

                A gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 18. júlí 2007. Var borinn undir hana framburður B þar sem B hvarf frá þeim framburði sínum að ákærði hafi brotist inn í húsnæðið heldur hafi það verið Óli langi. A kvað umræddan Óla langa eða [...] ekki vera til. Viðkomandi einstaklingur væri uppspuni hjá B. Ákærði hafi farið inn í umrætt húsnæði.

                B gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu 18. júní 2007. B kvað atvik málsins hafa verið með þeim hætti að A hafi fundið húsnæðið að E í Reykjavík. Hafi hún athugað hvort einhver væri heima. Ákærði hafi síðan farið inn í húsnæðið einn á meðan B og A hafi beðið úti í bifreið skammt frá. Ákærði hafi síðan komið út aftur með varning í tösku. Hafi B fengið 25.000 krónur í reiðufé og ávísanir. A hafi fengið skartgripi. Ákærði hafi fengið verðmætustu skartgripina, 50.000 krónur í reiðufé, tölvu og vegabréf. B kvaðst hafa lagt bifreið sinni rétt fyrir neðan húsið á meðan ákærði hafi farið inn. B kvaðst hafa falsað ávísanir er hann hafi fengið úr innbrotinu. B hafi síðan framselt ávísun og A sömuleiðis.

                B var á ný yfirheyrður af lögreglu 10. júlí 2007. Kvaðst hann þá vilja breyta fyrri framburði sínum varðandi innbrotið að E. Ákærði hafi ekki brotist inn í húsnæðið heldur maður að nafni [...], kallaður Óli langi. Umræddur náungi væri ,,götustrákur”. Að öðru leyti hafi atburðarásin verið sú sama og B hafi áður lýst. B var á ný yfirheyrður hjá lögreglu 19. júlí 2007. Kvaðst hann þá vilja vísa til þess framburðar síns hjá lögreglu að ákærði hafi verið sá sem brotist hafi inn í húsnæðið að E. Rétt væri er fram hafi komið hjá A að náungi að nafni Óli langi væri ekki til. Ákærði hafi verið vistaður að Litla Hrauni með B og hafi ákærði beðið B um að breyta framburði sínum.

                Ákærði var fyrst yfirheyrður af lögreglu 18. júlí 2007. Kvaðst ákærði ekki hafa komið nærri innbroti að E í Reykjavík. Er undir ákærða voru bornir framburðir A og B hjá lögreglu kvað hann þá vera vitleysu. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði neita sök og ekki hafa komið nærri innbroti að E. Ákærði kvaðst þekkja bæði A og B. Hafi ákærði verið í miklu ,,rugli” í júní 2007, en hann hafi tekið ákvörðun um að láta sig hverfa úr afplánun refsidóms 9. júní 2007. Ákærði kvað sér hafa sinnast við A og B og gæti það verið ástæða þess að þau hafi borið á hann þjófnaðinn.

                B gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kvaðst B ekki muna mikið eftir umræddu atviki. Kvaðst hann telja að náungi að nafni Sigurður hafi verið með A umrætt sinn og staðið að innbrotinu að E. Ákærði hafi ekki verið með henni.

                A kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins þar sem ekki reyndist unnt að hafa upp á henni við aðalmeðferðina.

                Niðurstaða:

                Ákærði neitar sök og allri aðild að innbroti að E í Reykjavík að morgni mánudagsins 11. júní 2007.

                Ákærða er gefið að sök þjófnaður í félagi við A og B. Fyrir lögreglu greindu bæði A og B frá þætti ákærða í brotinu í samræmi við þá ákæru sem hér er til meðferðar. B dró síðan framburð sinn varðandi ákærða til baka hjá lögreglu, en færði hann síðar aftur í fyrra horf. Fyrir dómi í aðalmeðferð máls ákæruvaldsins gegn A og B, sem dæmt var 11. október sl., greindu þau síðan bæði frá þætti ákærða með þeim hætti að hann hafi brotist inn í umrætt húsnæði. Hér fyrir dómi í þessu máli hefur B ekki bendlað ákærða við innbrotið og nú bent á mann að nafni Sigurður er hafi brotist þar inn. Er það þriðja nafnið sem B bendlar við innbrotið, en hann hefur áður sagt að Óli langi hafi brotist þar inn. Þann framburð dró B til baka síðar.

                Ekki hefur tekist að hafa upp á A til að hún gæfi skýrslu í þessu máli. Að virtum framburði hennar hjá lögreglu, sbr. 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991, og með hliðsjón höfð af framburði hennar fyrir dómi í sakamálinu nr. 1022/2007 og framburði B í sama máli, sem samrýmist þeim framburði er hann gaf hjá lögreglu 18. júní og 19. júlí 2007 er að mati dómsins sannað að ákærði hafi framið þau brot er í ákæru greinir. Verður hann því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.       

                II. kafli ákæru.

                Samkvæmt skýrslu lögreglu frá föstudeginum 22. júní 2007 kl. 21.14 var lögregla á þeim tíma send að Fella- og Hólakirkju í Reykjavík en tilkynnt hafði verið um innbrot í kirkjuna. Á vettvangi tók tilkynnandi á móti lögreglumönnum og tjáði þeim að gluggi á suðurhlið kirkjunnar hafi verið spenntur upp. Í frumskýrslu kemur fram að lögreglumenn og tilkynnandi hafi farið inn í kirkjuna og þá komið í ljós að tekinn hafi verið straumbreytir sem hafi tilheyrt Thoshipa fartölvu í kirkjunni. Þá kemur fram í skýrslunni að er lögreglumenn hafi ekið á brott af vettvangi hafi þeir veitt ákærða athygli þar sem hann hafi staðið fyrir utan Asparfell 4. Er hann hafi orðið var við lögreglu hafi hann tekið til fótanna. Hafi hann verið eltur uppi þar sem hann hafi verið eftirlýstur af lögreglu. Er lögreglumenn hafi náð ákærða hafi hann verið með meðferðis straumbreyti fyrir Thoshipa fartölvu. Á leið á lögreglustöð hafi ákærði sagt lögreglumönnum að hann hafi ætlað að skipta á fartölvu í sinni eigu og fíkniefnum. Fíkniefnasali hafi ekki viljað taka við tölvunni nema straumbreytir fylgdi henni. Í skýrslunni er tekið fram að straumbreytir sá er hafi verið tekinn af ákærða hafi verið afhentur tilkynnanda, sem hafi tjáð lögreglu að um væri að ræða þann straum­breyti er tekinn hafi verið úr Fella- og Hólakirkju. 

                Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 1. ágúst 2007. Er hann var spurður um hvort hann hafi brotist inn í Fella- og Hólakirkju föstudaginn 22. júní 2007 kvaðst ákærði neita að tjá sig um málið, en það gæti hann ekki. Væri það sökum þess að hann myndi ekki eftir málinu. Fyrir dómi kvaðst ákærði lítið muna eftir atvikum en hann hafi verið í miklu ,,rugli” á þessum tíma. Kvaðst ákærði ekki geta skýrt hvernig hann hafi fengið umræddan straumbreyti í hendur.

                Lögreglumennirnir Axel Rúnarsson og Sigurjón Þórðarson, sem að rannsókn málsins unnu, staðfestu þátt sinn í rannsókninni. 

                Niðurstaða:

                Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Hefur hann lýst því að hann hafi verið í miklu ,,rugli” á þessum tíma og muni atvik því lítið.

                Fyrir liggur að straumbreytir fyrir fartölvu var tekinn í innbroti í Fella- og Hólakirkju að kvöldi föstudagsins 22. júní 2007. Ákærði var handtekinn skömmu síðar í næsta nágrenni við kirkjuna og var hann þá með umræddan straumbreyti meðferðis. Hefur hann ekki getað gefið skýringu á tilvist straumbreytisins í sínum fórum. Ákærði hafði skömmu áður strokið úr afplánun, en hann var að afplána refsidóm fyrir fjölda þjófnaðarbrota. Þegar litið er til brotaferils ákærða, áfengis- og fíkniefnaneyslu hans og þess að hann var handtekinn í nágrenni við innbrotsstaðinn með straumbreyti úr innbroti í Fella- og Hólakirkju í sínum fórum er hann gat ekki gert grein fyrir er sannað að ákærði hafi vitað að straumbreytirinn var stolinn. Verður ákærði því sakfelldur fyrir hylmingu samkvæmt ákæru. Er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða þessum lið ákærunnar. 

                VI. kafli ákæru.

                Fimmdaginn 15. ágúst 2007 kl. 22.46 fékk lögregla boð um að fara að I í Reykjavík en þar hafi verið brotist inn í bifreið með skráningar­númerið H. Á vettvangi hitti lögregla fyrir tilkynnanda, eiganda bifreiðarinnar. Hafi tilkynnandi tjáð lögreglu að hann hafi verið inni á verkstæði að I og lagt bifreið sinni fyrir utan húsnæðið. Um klukkustundu eftir að hann hafi lagt bif­reið­inni hafi hann ætlað heim á leið en þá tekið eftir því að afturgluggi bifreiðarinnar hafi verið brotinn. Úr bifreiðinni hafi verið tekin fartölva af gerðinni Dell, tvö stað­setningar­tæki af gerðinni Garmin, myndavél af gerðinni Cannon og seðlaveski með greiðslukortum og reiðufé að andvirði 100.000 krónur.

                Ákærði var handtekinn 20. ágúst 2007. Var ákærði þá á bifreið sinni með skráningarnúmerið G. Við leit í bifreiðinni fannst talsvert magn hluta er lög­regla hafði ástæðu til að ætla að væri þýfi. Þar á meðal voru greiðslukort er tekin voru úr bifreiðinni H fimmtudaginn 20. ágúst 2007. Við skýrslugjöf hjá lögreglu þann dag kvaðst ákærði ekki hafa brotist inn í bifreiðina H. Þá kvaðst ákærði ekki geta skýrt hvernig umrædd greiðslukort væru komin í bifreið ákærða. Hafi ákærði tekið inn mikið magn af ofskynjunarlyfinu LSD og af þeim sökum myndi ákærði ekki hvað hann væri búinn að gera síðan á fimmtudeginum 15. ágúst 2007. Í skýrsluna er bókað eftir ákærða að vel geti verið að hann hafi brotist inn í bifreið með skráningar­númerið H. Ákærði kvað enga aðra en hann og C hafa haft aðgang að bifreið sinni.

                Sama dag var tekin skýrsla af C hjá lögreglu. Kvaðst C ekki áður hafa séð þau greiðslukort er lögregla lagði hald á í bifreið ákærða, né vita hvernig stæði á að þau væru í bifreiðinni.

                Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins neitaði ákærði sök. Kvaðst hann ekki muna eftir þessu máli en hann hafi verið í mjög mikilli neyslu á þessum tíma. Kvaðst ákærði ekki geta skýrt með hvaða hætti umrædd greiðslukort hafi komist í vörslur ákærða. Fleiri en ákærði hafi þó notað bifreið ákærða á þessum tíma.

                Lögreglumennirnir Jóhann Bragi Birgisson og Sigurður Betúel Andrésson staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. Sigurður Betúel kvaðst muna eftir að ákærði hafi verið handtekinn við L í Kópavogi. Ýmislegt hafi fundist í bifreið ákærða, þ. á m. greiðslukort er horfið hafi í innbroti í bifreiðina H. Þeim kortum hafi verið búið að koma haganlega fyrir í sérstöku hólfi í hanskahólfi bifreiðar ákærða.

                Niðurstaða:

                Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki geta skýrt tilvist þess að greiðslukort, sem tekin voru úr bifreið með skráningarnúmerið H, hafi fundist í bifreið ákærða 20. ágúst 2007.

                Greiðslukort úr innbrotinu fundust í bifreið ákærða við handtöku. Ákærði hefur ekki alfarið synjað fyrir að hafa tekið þessa hluti heldur ber við minnisleysi. Ákærði hefur fullyrt fyrir dómi að fleiri en hann og C hafi haft aðgang að bifreið ákærða. Það er í andstöðu við yfirlýsingar ákærða hjá lögreglu 20. ágúst 2007 og yfirlýsingar C við lögregluyfirheyrslu sama dag. Þar báru þau bæði að einungis þau tvö hafi haft aðgang að bifreiðinni. C andaðist áður en mál þetta kom fyrir dóminn. Ákærði hefur lýst lífi sínu þannig að hann hafi verið í mikilli fíkniefnaneyslu um það leyti er brotist var inn í bifreiðina H. Þá hefur hann játað aðild að innbrotum í bifreiðar á þessum tíma, auk þess sem hann hefur verið sakfelldur fyrir ýmsa þjófnaði. Ákærði er síbrotamaður. Þegar þau atriði eru virt sem hér að framan voru rakin og sérstaklega litið til þeirrar staðreyndar að greiðslukortum úr innbroti í bifreiðina H var haganlega fyrir komið í hanskahólfi bifreiðar ákærða sem og þess að í bifreið ákærða var varningur úr ýmsum innbrotum þykir dóminum hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn í bifreiðina H. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt þessum lið ákæru og háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.         

                VI. kafli ákæru.

                Að morgni mánudagsins 20. ágúst 2007 kl. 07.41 barst lögreglu tilkynning um að tveir menn, sem hafi stolið skráningarmerkjum af bifreið og lyklum af henni, væru staddir við L í Kópavogi. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að er lög­reglumenn hafi komið á vettvang hafi sést hvar bifreiðinni G hafi verið lagt í stæði vestan við L. Tekið er fram að bifreiðin hafi verið í gangi er lögreglu hafi borið að. Enginn hafi setið undir stýri er lögreglumenn hafi komið að og hafi lögreglumenn því til öryggis tekið kveikjuláslykla úr bifreiðinni. Fyrir utan L hafi lögreglumenn séð til ferða C. Hafi lögreglumenn gefið sig á tal við hana. Hafi hún sjáanlega verið undir áhrifum einhverra efna. Í því hafi lög­reglu­menn veitt því athygli að ákærði hafi reynst vera í aftursæti bifreiðarinnar G. Tilkynnandi, D, hafi þá komið að máli við lögreglumenn. Kvaðst hann hafa verið á leið út af bifreiðastæði við L er bifreiðinni G hafi verið ekið framhjá. Hafi ákærði verið ökumaður bifreiðarinnar og C verið farþegi í bifreiðinni. Þar sem ákærði hafi m.a. verið grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna hafi verið framkvæmt á honum strokupróf fyrir fíkniefni. Hafi prófið gefið jákvæða samsvörun við amfetamín. Af þeim sökum hafi læknir verið kallaður til sem kl. 9.26 hafi dregið úr ákærða blóð til rannsóknar. Að auki hafi ákærði látið lögreglu í té þvagsýni kl. 8.40.  

                Samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 25. október 2007 mældist í blóði ákærða 120 ng/ml af amfetamíni og metýlfenídat 15 ng/ml. Í blóði mældist ekki tetrahýdrókannabínól. Í þvagi fannst amfetamín, metýl­fenídat og tetrahýdrókiannabínólsýra. Í niðurstöðu er tekið fram að amfetamín, metýl­fenídat og tetrahýdrókannabínólsýra séu í flokki ávana- og fíkniefna, sem óheimil séu á íslensku forráðasvæði. Ökumaður teljist því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar blóð- og þvagsýni hafi verið tekin. 

                Tekin var skýrsla af ákærða á lögreglustöð síðar þennan morgun. Kvaðst ákærði neita að tjá sig um hvort hann hafi fyrr um morguninn ekið bifreið með skráningar­númerið G. Kvaðst ákærði hafa verið að koma úr Breiðholti á bifreið­inni. Ekki kvaðst ákærði vilja tjá sig um hver hafi ekið bifreiðinni. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði ekki geta sagt til um sakarefnið þar sem hann myndi ekki eftir atvikinu. Þó kvaðst ákærði muna eftir er lögreglumenn hafi komið að, en þá hafi ákærði verið aftur í bifreiðinni G. Hafi hann þá verið undir áhrifum lyfja. Kvaðst ákærði sennilega hafa verið aftur í bifreiðinni er henni hafi verið ekið um morguninn.

                D kvaðst hafa verið í bifreið við L í Kópavogi að morgni mánudagsins 20. ágúst 2007. Þá hafi hann séð ákærða aka bifreið inn á bifreiðastæði við L. Með honum í för hafi verið C, en hún hafi setið í aftursæti bifreiðarinnar. D hafi kannast við þau vegna grunsemda um að ákærði hafi nokkru áður stolið bifreið frá D. Hafi það leitt til þess að D hafi nokkrum dögum fyrir þennan atburð stöðvað för ákærða og haldið honum þar til lögregla hafi komið á svæðið. Af þeim sökum hafi D þekkt vel til ákærða. Hafi D að morgni mánudagsins 20. ágúst ekið út af bifreiðastæðinu og í framhaldi hringt á lögreglu. D kvaðst hafa verið um 20 til 25 metra frá ákærða er hann hafi mætt honum þennan morgun. Lögregla hafi komið nokkuð fljótt eftir að D hafi hringt til hennar. Ákærði hafi verið inni í bifreiðinni er lögreglu hafi borið að garði en C verið fyrir utan bifreiðina.

                Lögreglumaðurinn Sigurður Betúel Andrésson staðfesti aðkomu sína að rann­sókn málsins. Kvað hann lögreglumenn ekki hafa séð ákærða aka bifreiðinni umrætt sinn. Ákærði hafi verið í aftursæti bifreiðarinnar er lögreglu hafi borið að garði. C hafi verið á vettvangi.  

                Niðurstaða:

                Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa ekið bifreiðinni G umrætt sinn. Hefur hann ekki skýrt hver hafi ekið bifreiðinni.

                D varð vitni að því er ákærði ók bifreiðinni. Hafði hann samband við lögreglu vegna óskyldra sakarefna er hann veitti athygli akstri ákærða. Er lögreglumenn komu á vettvang var ákærði í aftursæti bifreiðarinnar en kveikjulás­lyklar í bifreiðinni og hún í gangi. Þegar litið er til þess að bifreiðin G var í gangi er lögreglu bar að garði, að ákærði sat í aftursæti bifreiðarinnar og faldi sig, að D sá ákærða aka bifreiðinni þennan morgun og að ákærði hefur ekki getað gert grein fyrir því hver ók bifreiðinni er að mati dómsins hafið yfir skyn­sam­legan vafa að ákærði hafi ekið bifreiðinni greint sinn. Samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði mældust ávana- og fíkniefni í blóði ákærða eftir aksturinn. Þá var hann á þessum tíma sviptur ökurétti. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum lið ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

                VIII. kafli ákæru.

                Samkvæmt skýrslu lögreglu frá kl. 02.09 aðfaranótt þriðjudagsins 4. september 2007 fékk lögregla á þeim tíma tilkynningu frá öryggisvörðum um innbrot í skrifstofu og félagsheimili Fóstbræðra að Langholtsvegi 109 - 111 í Reykjavík. Í skýrslu lögreglu kemur fram að á vettvangi hafi komið í ljós að hurðir hafi verið spenntar upp. Rótað hafi verið til í skúffum og skápum í leit að verðmætum. Ekki hafi verið að sjá að neinu hafi verið stolið.

                Ákærði var handtekinn miðvikudaginn 5. september 2007 í tengslum við sakarefni samkvæmt ákærulið nr. IX. Í framhaldi af handtöku var leitað í bifreið ákærða með skráningarnúmerið G. Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu frá 11. september 2007 fannst við leit í bifreiðinni lítið barmmerki með mynd af hljóð­færi, strengjahörpu og svönum. Neðst á merkinu standi SÍK, sem standi fyrir Samtök íslenskra karlakóra. Haft hafi verið samband við fulltrúa Fóstbræðraheimilisins. Þá hafi komið í ljós að einhver merki af þessari gerð hafi hugsanlega verið í peningaskáp inni í félagsheimili Fóstbræðra að Langholtsvegi í innbrotinu 4. september 2007. Í skýrslu lögreglu kemur fram að merki sem þessi væru aðeins afhent meðlimum karlakóra og að merkjunum væri aðeins úthlutað við hátíðleg tækifæri. Sennilega væri til listi yfir þá meðlimi sem fengið hafi slík merki. 

                Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu fimmtudaginn 6. september 2007. Ákærði kvaðst hafa notað mikið af ávana- og fíkniefnum dagana á undan. Er undir ákærða var borið að C hafi borið við lögregluyfirheyrslu að hún og ákærði hafi leigt hótelherbergi á M kvað ákærði það rétt. Herbergið hafi verið skráð á ákærða og þau dvalið þar í tvo sólarhringa, aðfaranótt laugardags og fram á hádegi á mánudegi. Þau hafi verið inni í herberginu allan þann tíma er þau hafi verið með herbergið á leigu. Ákærði kvaðst ekki hafa brotist inn í skrifstofu og félagsheimili Fóstbræðra að Langholtsvegi í Reykjavík aðfaranótt þriðjudagsins 4. september 2007. Gæti verið að ákærði hafi farið þar inn en hann myndi það ekki sökum lyfjaneyslu. Þá var athygli ákærða vakin á því að í bifreið ákærða hafi fundist félagsmerki Sambands íslenskra karlakóra og hafi merkið enn verið í plastpoka og ónotað. Kvaðst ákærði ekki hafa séð merkið áður.

                C var yfirheyrð af lögreglu miðvikudaginn 5. september 2007. C kvaðst undanfarna tvo daga, ásamt ákærða, hafa verið með herbergi á leigu á M. Hafi þau komið seint að kvöldi 2. september 2007 og verið á hótelinu í tvo daga. C kvaðst ekki minnast þess að hafa séð félagsmerki Sam­bands íslenskra karlakóra í bifreið ákærða. Hún og ákærði hafi verið á hótelherberginu aðfaranótt þriðjudagsins 4. september 2007.   

                Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki vita neitt um það félagsmerki er fundist hafi í bifreið hans við leit lögreglu. Hafi ákærði verið mjög undir áhrifum lyfja á þessum tíma og myndi atvik lítið. Hafi ákærði gist á M aðfaranótt þriðju­dagsins 4. september 2007. Hafi hann ekki yfirgefið hótelið.

                Lögreglumennirnir Kristján Helgi Þráinsson og Börkur Árnason staðfestu þátt sinn í rannsókn sakaratriða samkvæmt þessum ákærulið.     

                Niðurstaða:

                Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki kannast við að hafa aðfaranótt þriðju­dagsins 4. september 2007 í auðgunarskyni brotist inn í skrifstofu og félagsheimili Fóst­bræðra að Langholtsvegi í Reykjavík.

                Ákæruvald reisir kröfu um sakfellingu á því að félagsmerki, sem horfið hafi úr innbrotinu, hafi fundist í bifreið ákærða um sólarhring eftir innbrotið. Ekki liggur fyrir óvefengjanleg sönnun um að viðkomandi félagsmerki hafi horfið úr félagsheimili Fóstbræðra. Forsvarsmaður Fóstbræðra er lögregla hafði samband við kvað ekki fastar að orði um þetta en svo að hann hafi ekki talið það ,,ólíklegt“ að félagsskapur Fóstbræðra væri með einhver slík merki hjá sér. Þá kvaðst hann ,,halda“ að einhver slík merki hafi verið í peningaskáp á heimilinu. Þá kemur fram í lögregluskýrslu að félagsmerkið sé merki Samtaka íslenskra karlakóra. Ekki liggur fyrir hvort aðrir kórar en Fóstbræður hafi haft slík merki undir höndum. Þó svo ákærði hafi á þessum tíma verið í mikilli lyfjaneyslu, svo sem hann sjálfur hefur borið, og að hann hefur verið sakfelldur fyrir að brjótast inn á öðrum stöðum á svipuðum tíma og stela þaðan verðmætum, þykir á skorta að fullnægjandi sönnun hafi verið færð fram um sekt ákærða samkvæmt þessum ákærulið. Verður ákærði því sýknaður af sakarefnum samkvæmt ákæruliðnum.   

                X. kafli ákæru.

                Aðfaranótt þriðjudagsins 11. september 2007 var lögreglu tilkynnt um innbrot í verslunina N að O í Reykjavík. Síðar sömu nótt voru lögreglumenn á leið um Bústaðaveg í Reykjavík er þeir veittu athygli bifreið með skráningarnúmerið G. Hafi verið ákveðið að kanna með ástand ökumanns. Í frumskýrslu kemur fram að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið C, en ákærði hafi verið farþegi í bifreiðinni. Við leit í bifreiðinni hafi fundist ýmis varningur er lögregla hafi haft ástæðu til að ætla að væru þýfi úr innbrotum. Hafi C og ákærða verið gerð grein fyrir því að þau væru handtekin í þágu rannsóknar málsins. Er ákærði hafi verið færður úr bifreiðinni og gerð á honum öryggisleit hafi hann stungið hendi í vasa og borið hana að munni. Hafi hann reynst vera með brúnan mola í munninum sem lögregla hafi haft ástæðu til að ætla að væri fíkniefni. Hafi ákærði ætlað að reyna að gleypa molann. Hafi ákærði spítt molanum út úr sér en borið að hann hafi náð að gleypa eitthvað af hassi og 10-15 e töflur í plasti. Umrætt efni hafi verið haldlagt. Ákærði og C hafi verið færð á lögreglustöð. 

                Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu síðar sama dag. Kvaðst hann við handtöku hafa reynt að gleypa hassmola, en það hafi ekki tekist. Kvaðst ákærði hafa logið að lögreglumönnum að hann hafi náð að gleypa önnur efni. Það hafi hann ekki gert. Ákærði kvaðst telja að hassmolinn væru um 15 g og hafi ákærði ætlað að selja molann. Kvaðst ákærði fá 2.500 krónur fyrir hvert gramm. Hafi ákærði ætlað að selja eitthvað af molanum. Kvaðst ákærði fjármagna fíkniefnaneyslu sína með lánum og örorkubótum. Í skýrslunni er tekið fram að niðurstöður úr efnarannsókn liggi ekki fyrir og því sé ekki unnt að bera niðurstöður rannsóknar á efni undir ákærða.  

                Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu frá 12. september 2007 reyndist haldlagt efni frá 11. september 2007 hafa verið 11,84 g af hassi.

                Fyrir dómi kvaðst ákærði neita því að hafa ætlað efnið til söludreifingar. Kvaðst hann játa vörslur á umræddu efni. Kvaðst ákærði ekki vita af hverju hann hafi lýst við lögreglurannsókn að hann hafi ætlað efnið að hluta til söludreifingar. Ákærði kvaðst hafa verið í mikilli neyslu fíkniefna á þessum tíma.

                Lögreglumaðurinn Börkur Árnason kom að rannsókn málsins og annaðist m.a. skýrslutöku af ákærða. Kvað hann ákærða hafa játað að hafa ætlað að selja að hluta til 12 g af hassi er lögregla hafi lagt hald á í fórum hans.

                Niðurstaða:

                Ákærði neitar sök. Kveðst hann játa vörslur á 11.84 g af hassi, en hann hafi ekki ætlað efnið að hluta til söludreifingar.

                Ákærði játaði greiðlega fyrir lögreglu að hafa ætlað hluta af haldlögðu efni til söludreifingar. Var ákærði það meðvitaður um einstök atriði málsins að hann vissi af nákvæmni hve þungur sá hassbútur var er hann hafði í höndum. Á þeim tíma lá ekki fyrir niðurstaða úr efnarannsókn lögreglu. Ákærði er síbrotamaður og notar fíkniefni reglulega. Í ljósi brotaferils hans verður að telja fyrir liggja að hann fjármagni fíkni­efnaneyslu sína að miklu leyti með afbrotum. Ákærði gat fyrir dóminum enga skýringu gefið á því af hverju hann hafi játað að hafa ætlað efnið að hluta til sölu­dreifingar. Í ljósi stöðu ákærða og þess að ákærði hefur sjaldnast játað hjá lögreglu sakarefni sem hann telur sig ekki hafa staðið að er það niðurstaða dómsins að leggja framburð ákærða hjá lögreglu til grundvallar niðurstöðu. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. 

             Ákærði er fæddur í nóvember 1966. Allt frá árinu 1985 á hann að baki langan og samfelldan brotaferil. Hefur hann samtals 30 sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Eru brot hans gegn hegningarlögum flest auðgunarbrot. Að því er síðustu ár varðar var ákærði 26. mars 2004 dæmdur í 2ja ára fangelsi fyrir þjófnaði og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Í dómi 3. desember sama ár var ákærða ekki gerð sérstök refsing fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. hegningarlaga. Hann var dæmdur í 60 daga fangelsi 12. október 2005 fyrir réttindaleysisakstur. Hann var dæmdur í 12 mánaða fangelsi 5. september 2006 fyrir þjófnað, fjársvik og réttindaleysisakstur. Honum var ekki gerð sérstök refsing í dómi 27. september 2006 fyrir réttindaleysisakstur. Loks var honum ekki gerð sértök refsing í dómi 29. nóvember 2006 fyrir vopnalagabrot. Ákærði er síbrotamaður, sbr. 72. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði strauk er hann var að afplána refsidóm. Framdi hann brot samkvæmt I. og II. kafla ákæru í strokinu. Nokkrum dögum eftir að hann lauk afplánun refsidómsins framdi hann önnur brot samkvæmt ákæru, uns hann var úrskurðaður í síbrotagæslu 11. september sl. Með hliðsjón af því og sakarefnum málsins, sbr. og 255. gr. laga nr. 19/1940 er refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Gæsluvarðhald ákærða frá 11. september 2007 dregst frá refsingu ákærða.

             Vátryggingarfélag Íslands hefur uppi skaðabótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð 436.015 krónur, auk vaxta. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir þjófnað samkvæmt I. kafla ákæru, en á þeim verknaði er skaðabótakrafan reist. A og B, er að þeim verknaði stóðu með ákærða, voru í dómi 11. október 2007 dæmd til að greiða þessa kröfu. Kröfu um vexti var hins vegar vísað frá dómi vegna vanreifunar. Bótakrafan byggir á óskiptri skaðabótaábyrgð þremenninganna. Með hliðsjón af því og niðurstöðu í máli nr. S-1022/2007 verður ákærði einnig dæmdur til greiðslu skaðabótanna, en ekki eru efni til að taka til greina kröfu um vexti sem vísað hefur verið frá dómi í hliðsettum dómi. 

             Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs 2,10 g af amfetamíni og 15,86 g af hassi, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

             Ekki hefur verið gerð grein fyrir sakarkostnaði. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að viðbættum virðisaukaskatti, með þeim hætti er í dómsorði greinir.

             Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Karl Ingi Vilbergsson fulltrúi lögreglu­stjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

                                D ó m s o r ð:

             Ákærði, Unnar Sigurður Hansen, sæti fangelsi í 12 mánuði. Gæsluvarðhald ákærða frá 11. september 2007 til dagsins í dag dregst frá refsingu ákærða.

             Ákærði greiði Vátryggingarfélagi Íslands 436.015 krónur í skaðabætur. 

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 2,10 g af amfetamíni og 15,86 g af hassi, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

             Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 443.414 krónur.