Hæstiréttur íslands
Mál nr. 606/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Málsgrundvöllur
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 25. nóvember 2008. |
|
Nr. 606/2008. |
Jakob Adolf Traustason(sjálfur) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Kærumál. Málsgrundvöllur. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
J krafðist viðurkenningar á bótaskyldu vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir er dómstólar með ólögmætum og saknæmum hætti í nánar tilgreindum dómsmálum synjuðu kröfu hans um málskostnað. Einnig krafðist hann viðurkenningar á rétti til miskabóta af sama tilefni, auk viðurkenningar á rétti til vaxta af umræddum kröfum. Um heimild fyrir kröfum sínum vísaði J til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að þegar haft væri í huga að kröfur hans lytu einungis að viðurkenningu þess réttar sem um ræddi yrði talið að þessi grundvöllur fyrir honum væri fullnægjandi til þess að taka bæri hann til efnislegrar úrlausnar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóms að taka kröfur J til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Til vara krefst hann þess „að málinu verði aftur vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar um frávísunarkröfu“ varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar en til vara að málskostnaður falli niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í fyrri lið kröfu sinnar krefst sóknaraðili viðurkenningar á bótaskyldu varnaraðila vegna tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir við að hafa ekki fengið tildæmdan málskostnað í þeim dómsmálum sem í kröfuliðnum greinir. Einnig verði viðurkennt að hann eigi rétt til miskabóta af sama tilefni. Hann vísar um bótaábyrgð varnaraðila til þess að dómstólar hafi með saknæmum og ólögmætum hætti í nefndum dómsmálum synjað kröfum hans um málskostnað og beri varnaraðili bótaábyrgð á þessu samkvæmt almennu skaðabótareglunni og meginreglu íslensks réttar um ábyrgð vinnuveitanda á starfsmönnum, eins og komist er að orði. Um heimild til að gera viðurkenningarkröfu vísar sóknaraðili til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Hann flutti þessi dómsmál sjálfur og telur sig ekki þurfa að tiltaka tjónsfjárhæð og vísar þá til þess að ákvörðun á fjárhæð málskostnaðar í dómsmálum sé í höndum dómstóla og krafa um málskostnað yfirleitt ekki gerð með ákveðinni fjárhæð. Um lagagrundvöll fyrir kröfu um viðurkenningu á rétti til miskabóta vísar hann að auki til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þegar haft er í huga að fyrri kröfuliður lýtur aðeins að viðurkenningu þess réttar sem um ræðir verður talið að þessi grundvöllur fyrir honum sé nægilega skýrt fram settur til þess að leggja megi dóm á kröfuliðinn. Síðari liður kröfugerðar sóknaraðila lýtur að viðurkenningu á rétti til vaxta af kröfu samkvæmt fyrri kröfuliðnum. Ekki verður talið að neinir réttarfarslegir annmarkar séu á því að dæma um þessa kröfu samhliða hinni fyrri. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað fellt úr gildi. Sérstakur kostnaður málsaðila vegna ágreinings um frávísun málsins er hluti málskostnaðarkrafna þeirra sem koma til úrlausnar þegar málið verður dæmt að efni til.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfur sóknaraðila, Jakobs Adolfs Traustasonar, til efnismeðferðar.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2008.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. október sl., er höfðað með stefnu birtri 3. apríl sl.
Stefnandi er Jakob A Traustason Barónsstíg 3 Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur stefnanda eru svohljóðandi:
„Stefnandi krefst að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda fyrir þær sakir að hann fékk ekki dæmdan til sín málskostnað í héraðsdómsmáli nr. E-2869/1997 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og í kærumáli nr. 186/1998 fyrir Hæstarétti Íslands, ásamt að viðurkennt verði að stefnandi eigi jafnframt rétt til miskabóta úr hendi stefnda.
Jafnframt er krafist að í sama dómi verði viðurkennt að stefndi beri bótaskyldu á tjóni sem stefnandi hefur orðið fyrir er nemur vöxtum að því hámarki sem lög heimila, frá 15. degi eftir dómsuppkvaðningu í kærumáli nr. 186/1998 fyrir Hæstarétti Íslands og til greiðsludags, af bótafjárhæð sem stefnandi síðar fær sér dæmda á grundvelli viður-kenningardóms, þess sem mál þetta er höfðað til.”
Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru aðallega, að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Krafa stefnda um frávísun er til úrlausnar hér.
Málsókn þessi er sprottin af því að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 6. apríl 1998 var kröfum Almennu málflutningsstofunnar á hendur stefnanda í dómsmáli sem málflutningsstofan hafði höfðað á hendur honum vísað frá dómi en málskostnaður felldur niður. Stefnandi kærði úrskurð þennan til Hæstaréttar en því máli var sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti og kærumálskostnaður felldur niður.
Stefnandi kveðst byggja málsókn sína á því að saknæmar, ólögmætar athafnir og athafnaleysi dómara við málsmeðferð hlutaðeigandi héraðsdómsmáls og kærumáls hafi valdið stefnanda saknæmu tjóni með því að hann hafi fyrir þær sakir ekki fengið greiddan málkostnað úr hendi Almennu málflutningsstofunnar vegna málanna og að stefndi beri bótaábyrgð gagnvart stefnanda til jafns við tjón hans.
Stefnandi hafi verið stefndi í héraðsdómsmálinu (E-2869/1997) og hafa krafist í því málskostnaðar auk álags á málskostnað úr hendi stefnanda þess máls. Málinu hafi verið vísað frá dómi og málskostnaður látinn falla niður. Sé ólögmætt í slíku tilviki að dæma ekki málskostnað til stefnda í málinu.
Með kærumáli nr. 186/1998 til Hæstaréttar hafi verið leitað eftir að fá ákvörðun héraðsdómara hnekkt varðandi málskostnaðarþáttinn. Í kærunni hafi, ásamt með öðru, verið krafist málskostnaðar auk álags á málskostnað bæði fyrir héraði og Hæstarétti. Kærunni hafi hins vegar verið vísað frá Hæstarétti án þess að fjallað væri þar um málskostnaðarþáttinn. Ólöglegt hafi verið af Hæstarétti að taka ekki til úrlausnar kröfu kæranda um málskostnað fyrir héraði, ásamt því að dæma til kæranda málskostnað vegna kærunnar, ef fallist yrði á kærukröfu um málskostnað í héraði. Engin forsenda hafi verið til þess að vísa þeim þætti er lotið hafi að málskostnaði fyrir héraði frá Hæstarétti þó svo annað í kærunni væri talið utan kæruheimildar.
Það sé aðalreglan að sá sem höfði mál sé dæmdur til að greiða stefnda málskostnað ef máli sé vísað frá dómi. Eina undantekningin sem lög leyfa frá þessari meginreglu er í þeim tilvikum að stefndi hafi efnt þá skyldu sem hann er krafin um í máli, sbr. og m.a. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi hafi ekki getað annað farið með þau dómaraverk sem hér um ræði og hann hafi engu ráðið um að hann hafi verið seldur undir hlutaðeigandi starfsmenn stefnda, þ.e. þá dómara sem hér um ræði og að ekkert annað hafi verið í boði. Á því sé byggt að sá sem feli öðrum framkvæmd einhvers verks beri ábyrgð á því tjóni sem starfsmaðurinn valdi með saknæmum og ólögmætum hætti við framkvæmd verksins.
Jafnframt hafi skort á leiðbeiningar frá héraðsdómara og það hafi m.a. leitt til tjóns fyrir stefnanda í formi vinnu og kostnaðar af kærumálinu en stefnandi sé ólöglærður. Þá er á því byggt að framangreint eigi jafnframt við um hlutaðeigandi hæstaréttardómara að því marki sem við geti átt. Þá hafi kæranda heldur ekki af hlutaðeigandi dómurum verið leiðbeint varðandi annað sem að málsskoti og kæru laut og er hér jafnfram á því byggt.
Byggt er á varðandi allt ofangreint að stefndi beri í þeim efnum húsbóndaábyrgð til viðbótar ábyrgð á grundvelli almennu sakar- og skaðabótareglunnar, en reglan hefur m.a. verið orðuð þannig : "Sá, sem með ólögmætri og saknæmri athöfn eða athafnaleysi bakar öðrum manni tjón, skal bæta honum það tjón, sem telja má sennilega afleiðingu athafnarinnar eða athafnaleysisins." Undir þetta fellur einnig tjón sem valdið er fyrir mistök, vanrækslu eða gáleysis þegar ætlast mátti til annars.
Stefnandi heldur því jafnframt fram að hann hafi orðið fyrir ólögmætri meingerð af því sem stefnan tekur til og því eiga hann einnig rétt á miskabótum úr hendi stefnda.
Réttur til að krefjast dóms til viðurkenningar á bótaskyldu sé m.a. studdur við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Fari svo að ekki verði fallist á kröfur stefnanda eða málinu vísað frá dómi er þess krafist að stefnandi verði ekki dæmdur í greiðslu málskostnaðar.
Stefnandi kveðst höfða mál þetta á grundvelli laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og vísar einnig til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu sbr. og 70. gr. stjórnarskrár og til b liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Jafnframt sé vísað til annarra réttarheimilda og lagaraka sem við eiga. Krafa um vexti og vaxtavexti sé studd við vaxtalög nr. 25/1987, með síðari breytingum, ásamt við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um dráttarvexti sé studd við III. kafla laga nr. 25/1987 með síðari breytingum, fram til 1. júlí 2001, en eftir þann tíma við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna.
Af hálfu stefnda er vísað til þess að stefnandi geri í máli þessu kröfur um viðurkenningu á bótaskyldu sökum þess að dómar héraðsdóms og Hæstaréttar í tilteknum málum hafi ekki fallið honum í vil að því er varði málskostnað og kærumálskostnað. Þá krefst stefnandi þess einnig í fyrri lið kröfugerðar sinnar að viðurkenndur verði réttur hans til miskabóta úr hendi stefnda. Seinni liður kröfugerðar stefnanda virðist lúta að viðurkenningu á bótaskyldu er nemi vöxtum af bótafjárhæð þeirri sem síðar verði dæmt um á grundvelli þeirra úrslita sem hann væntir í þessu máli. Loks er gerð krafa um málskostnað.
Stefndi krefst frávísunar á þeim grundvelli að úrskurður og dómur sem kröfugerðin skírskotar til séu endanlegir, sbr. 112. gr. og 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eigi hér við hið sama og valdið hafi frávísun í máli sömu aðila í dómi Hæstaréttar 10. júní 2004 í málinu nr. 195/2004 milli sömu aðila.
Af augljósum ástæðum sé seinni liður í kröfum stefnanda ekki tækur til dómsálagningar, m.a. vegna 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, auk 25. og 80. gr. sömu laga.
Stefnandi hefur mótmælt kröfum stefnda um frávísun máls þessa og krefst málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Niðurstaða
Stefnandi krefst viðurkenningar á því að stefndi sé ábyrgur fyrir tjóni sem stefnandi hafi beðið vegna þess að dómari hafi ekki dæmt honum málskostnað úr hendi stefnanda í máli þar sem stefnandi hafði tekið til varna en málinu var vísað frá dómi. Enn fremur að hann hafi beðið tjón vegna þess að Hæstiréttur hafi ekki leyst úr kröfu hans um málskostnað. Jafnframt krefst stefnandi viðurkenningar á bótaskyldu á tjóni er nemi hámarksvöxtum er honum kynni að verða dæmdir frá 15. degi eftir dómsuppsögu dóms Hæstaréttar í kærumáli nr. 186/1998.
Í stefnu er ekki að finna neina lýsingu á því hvert tjón hann hafi beðið vegna þessa, heldur er einungis krafist bóta vegna tjóns án þess að frekari grein sé gerð fyrir því í hverju það felist, en af málsgögnum verður ráðið að hann hefur rekið mál sitt sjálfur.
Ekki er fyrir að fara í málinu neinum gögnum um fjártjón stefnanda og krafa um miskabætur er einnig stórlega vanreifuð. Er þetta slíkur annmarki á málatilbúnaði stefnanda að vísa ber kröfu hans um viðurkenningu skaðabótaskyldu stefnda frá dómi. Sama máli gegnir um þá kröfu stefnanda að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna hugsanlegs taps á vöxtum.
Samkvæmt framansögðu verður kröfum stefnanda í máli þessu vísað frá dómi og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Jakob A. Traustason, greiði stefnanda, 100.000 krónur í málskostnað.