Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-137
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lax- og silungsveiði
- Samningur
- Efndabætur
- Vanefnd
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 17. nóvember 2022 leitar Lax-á ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. sama mánaðar í máli nr. 256/2021: Veiðifélag Blöndu og Svartár gegn Lax-á ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur annars vegar að kröfu gagnaðila um bætur úr hendi leyfisbeiðanda vegna vanefnda hans á að sleppa tilteknum fjölda gönguseiða samkvæmt leigusamningi aðila og hins vegar að kröfu um greiðslu kostnaðar vegna þrifa og viðhalds á veiðihúsum í kjölfar þess að síðasta leigusamningi aðila lauk á árinu 2019.
4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila. Með dómi Landsréttar var fallist á kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um bætur vegna vanefnda á að sleppa gönguseiðum í samræmi við leigusamning aðila og honum gert að greiða gagnaðila 20.475.500 krónur. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sýknu af kröfu vegna þrifa, viðhalds og útlagðs kostnaðar við úttekt. Landsréttur vísaði til þess að samkvæmt samkomulagi aðila um uppgjör hefði leyfisbeiðanda verið skylt að afhenda gönguseiði á árunum 2014 til 2016 nema samkomulag lægi fyrir um annað. Leyfisbeiðandi hefði lýst því yfir að hann myndi ekki sleppa þeim seiðum sem út af hefðu staðið. Væri honum samkvæmt samningi aðila skylt að bæta gagnaðila þá vanefnd með því að greiða honum bætur sem næmu markaðsvirði seiðanna. Taldi Landsréttur sannað að leyfisbeiðandi hefði vanefnt að sleppa 132.100 gönguseiðum. Þá var gagnaðili talinn hafa fært fram fullnægjandi sönnur fyrir því að markaðsverð hvers gönguseiðis hefði á þeim tíma verið 125 krónur, sem svarar til 155 króna að meðtöldum virðisaukaskatti.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en málið varði uppgjör á löngu viðvarandi samningssambandi sem reglulega hafi verið endurnýjað með nýjum samningum. Í málinu reyni á hvort hver einstakur samningur marki sjálfstæð réttindi eða hvort líta beri á alla samningana sem eina heild þannig að íþyngjandi févítisákvæði, sem einungis hafi verið tekið upp í fjórða samningi af sex, gildi áfram um ókomna tíð. Auk þess hafi úrlausn um málsástæður leyfisbeiðanda um að krafa gagnaðila sé fyrnd eða niður fallin fyrir tómlæti verulega almenna þýðingu. Þá hafi málið jafnframt verulegt almennt gildi um gagnkvæma tillitsskyldu aðila í löngum viðvarandi viðskiptum en leyfisbeiðandi telur að gagnaðila hafi vegna tillitsskyldna við hann borið að taka skýrlega fram ef hann hefði viljað að févítisákvæðið gilti áfram. Hann telur enn fremur að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína þegar virt sé fjárhæð kröfu gagnaðila. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar kunni að vera bersýnilega rangur þar sem hann en ekki gagnaðili hafi verið látinn bera hallann af því að févítisákvæði fjórða samnings aðila var ekki fellt niður berum orðum í samkomulagi um uppgjör eða síðustu tveimur samningum aðila.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.