Hæstiréttur íslands

Mál nr. 369/2014


Lykilorð

  • Gengistrygging
  • Lánssamningur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 12. febrúar 2015.

Nr. 369/2014.

Hraðfrystihúsið Gunnvör hf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

Gengistrygging. Lánssamningur.

H hf. höfðaði mál á hendur L hf. og krafðist þess að viðurkennt yrði að skuldbindingar hans samkvæmt annars vegar lánssamningi við LÍ hf. og hins vegar lánssamningi D ehf. við LÍ hf. væru bundnir ólögmætri gengistryggingu. Fram kom að þegar textaskýring lánssamnings tæki ekki af skarið um hvers efnis hann væri hefði í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið litið til atriða á borð við efndir samnings og hvernig hann hefði að öðru leyti verið framkvæmdur. Að því virtu að efndir samkvæmt fyrrnefnda samningnum hefðu að verulegu leyti falist í því að erlendar myntir skiptu um hendur var talið að um hefði verið að ræða lán í erlendum myntum. Hvað síðarnefnda samninginn snerti kom fram að eftirstöðvar hans hefðu, þegar H hf. gekkst undir viðauka við samninginn, verið tilgreindar í erlendum myntum og því væri skuldbindingin í erlendum gjaldmiðlum. Var L hf. því sýknaður af kröfum H hf.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2014. Hann krefst þess að viðurkennt verði að lánssamningur 3. desember 2004 milli sín og Landsbanka Íslands hf. og lánssamningur milli Devon ehf. og sama banka 30. júní 2005 séu bundnir ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.   

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi lýtur ágreiningur aðila að því hvort fyrrgreindir lánssamningar séu um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Þess er að geta að áfrýjandi yfirtók skyldur lántaka með viðauka 29. nóvember 2005 við lánssamninginn milli Devon ehf. og Landsbanka Íslands hf.

Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og á við um þá lánssamninga sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti. Þau atriði eru rakin í hinum áfrýjaða dómi að því er varðar lánssamninginn 3. desember 2004 og með vísan til forsendna hans að því leyti verður staðfest sú niðurstaða hans að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum. Hvað snertir lánssamninginn 30. júní 2005 er þess að gæta að þegar áfrýjandi gekkst undir skuldbindingu samkvæmt honum með fyrrgreindum viðauka 29. nóvember sama ár voru eftirstöðvar lánsins tilgreindar í fjárhæð erlendra gjaldmiðla. Þegar af þeirri ástæðu verður fallist á það með héraðsdómi að það lán hafi einnig verið í erlendum gjaldmiðlum. Skiptir þá ekki máli hvernig staðið hafði verið að efndum samningsins áður en áfrýjandi gekkst undir hann með viðaukanum. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.  

 Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 8. apríl sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Hraðfrystihúsinu Gunnvör hf., Hnífsdalsbryggju, Hnífsdal, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 14. júní 2013.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði að lánasamningur nr. 0106-36-2255, dagsettur 3. desember 2004, upphaflega milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, en nú milli stefnanda og stefnda, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Þá krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að lánasamningur nr. 0106-36-3214, dagsettur 30. júní 2005, upphaflega milli Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259 og Devon ehf., kt. 610605-0600, en nú milli stefnanda og stefnda, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Enn fremur krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér málskostnað að skaðlausu. Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

II

Mál þetta varðar ágreining aðila um skuldbindingar stefnanda samkvæmt tveimur lánasamningum, sem auðkenndir eru sem lán nr. 2255 og 3214.  Greinir aðila á um hvort þeir samningar séu haldnir ólögmætri gengistryggingu.

Lánssamningur nr. 2255

Stefnandi og Landsbanki Íslands hf. gerðu með sér lánasamning 3. desember 2004, nr. 2255.  Á forsíðu lánssamningsins er tilgreint að um sé að ræða lánssamning að fjárhæð „ISK 3.000.000.000“. Í upphafsorðum meginmáls samningsins segir, að samningsaðilar geri „með sér svohljóðandi lánssamning um fjölmyntalán til 15 ára að jafnvirði kr. 3.000.000.000 – krónur þrjúþúsund milljónir 00/100 – í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR 38,6%, CHF 16,1%, JPY 13,3%, USD 32,0%“.  Síðan segir: „Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.  Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“

Í grein 1.1 segir meðal annars að lántaki lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána umsamda lánsfjárhæð.  Í grein 1.2 segir að lántaki sendi bankanum beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli lánshlutann inn á.

Samkvæmt grein 2.2 átti greiðslustaður lánsins að vera hjá Landsbanka Íslands hf.  Í framhaldinu segir: „Lántaki óskar eftir að reikningur hans nr.________ hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum.“  Í samningnum hefur ekki verið sett reikningsnúmer inn í þessa eyðu í samningsákvæðinu.

Í grein 2.3 segir meðal annars að lántaka sé heimilt að greiða lánið hraðar eða að fullu áður en að lokagjalddaga komi en það sé þó háð samþykki bankans.  Sé þessi heimild nýtt skuli „lágmarksgreiðsla nema a.m.k. jafnvirði 50 milljóna íslenskra króna hverju sinni.“

Í grein 2.5 er kveðið á um að komi til vandefnda af hálfu lántaka skuldbindi hann sig til þess að greiða bankanum, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, allan kostnað sem bankinn leggi út vegna vanefndanna.

Í grein 3.1 segir að lántaki lofi að greiða bankanum vexti sem skulu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni auk 1,30% vaxtaálags.

Í grein 4.1 er kveðið á um að sé skuldin í skilum geti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið.  Síðan segir: „Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt gengisskráning Landsbanka Íslands hf. á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna nema um annað sé sérstaklega samið.“

Í grein 7.1 er kveðið á um að standi lántaki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001.

Í grein 10.1 kemur fram að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samningsins hafi lántaki gefið út tvö tryggingarbréf.  Bæði tryggingarbréfin eru í íslenskum krónum að fjárhæð samtals 1.400.000.000 krónur.

Lán samkvæmt samningi nr. 2255 hafa var notað til þess að gera upp eldri lán stefnanda og tengdra félaga.  Stefndi kveður þau lán hafi ýmist verið í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og ekki að öllu leyti í sömu gjaldmiðlum og lán nr. 2255.  Stefnandi hafi því selt þá erlendu gjaldmiðla sem LBI hf. hafi gert aðgengilega fyrir hann fyrir íslenskar krónur.  Með þessari framkvæmd hafi ætlunin verið að nota íslensku krónuna sem nokkurs konar grunnmynt til að auðvelda útreikninga við uppgreiðslu eldri lána.  Þetta hafi verið almennt verklag hjá LBI hf. á þessum tíma þegar margar og/eða ólíkar myntir hafi verið notaðar til að greiða upp lán.  Til að stefnandi yrði ekki fyrir kostnaði af gengismun hafi sama gengi verið notað við kaup og sölu gjaldmiðils í kerfum stefnda við útgreiðslu láns nr. 2255 og við uppgreiðslu eldra láns í sama gjaldmiðli.  Þannig hafi stefnanda aldrei verið afhentar íslenskar krónur heldur hafi þær verið notaðar til þess að kaupa þær myntir sem hin eldri lán hafi verið í.  Hinir erlendu gjaldmiðlar hafi verið lagðir inn á gjald­eyris­reikninga LBI hf. og ráðstafað þaðan til þess að greiða upp eftirstöðvar lánanna.  Eftir uppgreiðslu erlendu lánanna hafi afgangur íslensku krónanna verið notaður til þess að greiða inn á lán í íslenskum krónum.  Lán nr. 2255 hafi verið notað til að gera upp eftirfarandi lán:

1.  Lán milli Landsbanka Íslands hf. og Katla ehf.

Katlar ehf. var sameinað stefnanda árið 2004.  Lán þetta var í íslenskum krónum og af kvittun vegna uppgreiðslu lánsins er ljóst að það var greitt upp í þeirri mynt með hinu nýja láni frá 3. desember 2004.

2.  Eldri erlend lán stefnanda hjá Landsbanka Íslands hf.

Þessi lán hafi verið samtals að fjárhæð um 951 milljón króna.  Ágreiningslaust er með aðilum að þau lán hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Þar sem lánin hafi ekki að öllu leyti verið í sömu gjaldmiðlum og lán nr. 2255 hafi íslenskar krónur verið notaðar til að kaupa þær erlendu myntir sem framangreind lán hafi verið í og því hafi raunveruleg gjaldeyrisviðskipti farið fram.  Stefnandi heldur því hins vegar fram að kvittanir vegna uppgreiðslu lánanna sýni að þau hafi verið greidd upp með íslenskum krónum.

3.  Lán á grundvelli viðskiptasamnings um reikningslánalínu milli Landsbanka Íslands hf. og YT ehf.

Landsbanki Íslands hf. veitti félaginu YT ehf. fjögur lán á grundvelli viðskiptasamnings um reikningslánalínu að fjárhæð 2.400.000.000 króna.  Félagið YT ehf. var sameinað stefnanda árið 2004.  Verða ákvæði og framkvæmd þessa samnings nú rakin.

Á forsíðu samningsins segir: Kr. 2.400.000.000,- Viðskiptasamningur um reikningslánalínu“.  Í upphafsorðum meginmáls samningsins segir að bankinn hafi samþykkt að veita lántaka rekstrarfjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð 2.400.000.000 króna, í þeim erlendu myntum sem bankinn eigi viðskipti með.

Í grein 2.1 segir að bankinn skuli hafa til reiðu fyrir lántaka reikningslánalínu að fjárhæð 2.400.000.000 króna en í grein 2.2 segir að innan þeirra marka sé lántaka heimilt að taka lán hjá bankanum í öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn eigi viðskipti með.

Í grein 3.1 segir að hver lánshluti sem lántaki taki innan lánsheimildar reikningslánalínunnar teljist vera sjálfstætt lán.

Í grein 4.1 segir að undirrituð lánsbeiðni frá lántaka skuli fylgja beiðni um einstaka lánshluta og skuli berast bankanum með tveggja bankadaga fyrirvara.

Í grein 4.2 segir að lánsbeiðni sé fylgiskjal A með samningnum og skuli hún skýrlega útfyllt og í henni skuli koma fram fullt nafn og kennitala lántaka, lántökudagur lánshlutans, mynt og upphæð, vaxtakjör og gjalddagi, ráðstöfunarreikningur, skuldfærslureikningur, undirskrift og staðfesting lántaka.

Í grein 4.6 segir síðan að hver lánshluti greiðist inn á reikning lántaka miðað við kaupgengi hverrar myntar hjá bankanum tveimur bankadögum fyrir útborgunardag.

Í grein 7.1 segir að afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur skuli greiða í íslenskum krónum samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.  Síðan segir að á gjalddaga sé lántaka heimilt að greiða í lántökumyntum.

Þessi reikningslánalína var afgreidd með fjórum lánum, að fjárhæð 750.000.000 króna hinn 16. janúar 2004, að fjárhæð 50.000.000 króna hinn 3. febrúar 2004, að fjárhæð 250.000.000 króna hinn 10. febrúar 2004 og að fjárhæð 250.000.000 króna hinn 19. apríl 2004.  Samkvæmt kaupnótum bankans með þessum lánum voru fjárhæðir þeirra lagðar inn á tékkareikning YT ehf. í íslenskum krónum.  Í kvittun vegna uppgreiðslu þessara lána segir að 3. desember 2004 hafi verið greiddar 1.942.023.700 krónur.

Stefndi mótmælir því að ádrættir hafi einungis verið afhentir í íslenskum krónum.  YT ehf. hafi óskað eftir láni í Bandaríkjadölum, evrum, japönskum jenum og svissneskum frönkum.  Við hvern og einn ádrátt komi fram sú fjárhæð í hinum erlendu myntum sem YT ehf. hafi dregið og að LBI hf. hafi keypt af félaginu erlent lán.  Skuldbindingar YT ehf., samkvæmt framangreindum viðskiptasamningi, hafi því án vafa verið í erlendum gjaldmiðlum.

Skilmálabreytingar voru gerðar á lánssamningi nr. 2255 með tveimur viðaukum, dagsettum 18. mars 2009 og 15. ágúst 2011.  Í báðum viðaukum er skuldbinding stefnanda tilgreind í samræmi við tilgreiningu í samningi nr. 2255.  Eftirstöðvar lánsins eru í báðum tilvikum tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum.

Stefnandi óskaði eftir myntbreytingu lánsins 30. apríl 2007 í því skyni að minnka vægi Bandaríkjadals en auka vægi japansks jens og svissnesks franka.  Stefndi kveður raunveruleg gjaldeyrisviðskipti hafa verið að baki myntbreytingunni.

Greiðsla stefnanda á afborgunum og vöxtum af láninu frá 3. desember 2004 fór fram með því að gjaldeyrisreikningur stefnanda hjá stefnda var skuldfærður.

Stefndi kveður stefnanda hafa fengið sendar tilkynningar fyrir alla gjalddaga lánsins.  Í þeim tilkynningum hafi skuldbinding stefnanda einungis verið tilgreind með fjárhæð hinna erlendu gjaldmiðla.  Vaxtagreiðslur og afborganir láns nr. 2255 hafi verið í þeim sömu gjaldmiðlum ef frá sé talinn hluti einnar afborgunar á gjalddaga 2. maí 2005.  Stefndi kveður ástæðu þessa fráviks hafi verið að ekki hafi verið næg innstæða á reikningum stefnanda í Bandaríkjadölum og japönskum jenum.  Af þeim sökum hafi stefnandi notað íslenskar krónur til að kaupa viðkomandi myntir af LBI hf. og þær myntir hafi síðan verið notaðar til að greiða það sem upp á hafi vantað.  Stefnandi hafi fengið sendar kvittanir fyrir hverri greiðslu sem aðeins hafi tilgreint skuldbindinguna í hinum erlendu gjaldmiðlum.

Lánssamningur nr. 3214

Landsbanki Íslands hf. og Devon ehf. gerðu með sér lánasamning 30. júní 2005, nr. 3214, sem Einar Valur Kristjánsson og Kristján G. Jóhannsson gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir.  Á forsíðu lánssamningsins er tilgreint að um sé að ræða lánssamning að fjárhæð „ISK 350.000.000“.  Í upphafsorðum meginmáls samningsins segir, að samningsaðilar geri „með sér svohljóðandi lánssamning um fjölmyntalán til 4 mánaða að jafnvirði kr. 350.000.000 – krónur þrjúhundruð og fimmtíu milljónir – í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR 40%, CHF 20%, JPY 20%, USD 20%“.  Síðan segir: „Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.  Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“

Í grein 1.1 segir að lántaki lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána umsamda lánsfjárhæð.  Í grein 1.2 segir að lántaki sendi bankanum beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli lánshlutann inn á.

Samkvæmt grein 2.1 skyldi lánstíminn vera 4 mánuðir og bar að endurgreiða lánið að fullu með einni afborgun, 1. nóvember 2005.  Með viðauka, dagsettum 29. nóvember 2005, var lánstímanum breytt í fimm ár með lokagjalddaga 3. desember 2010.  Lánstímanum var aftur breytt með viðauka, dagsettum 13. febrúar 2009, þannig að lokagjalddagi lánsins skyldi vera 3. ágúst 2011.

Samkvæmt grein 2.2 skyldi greiðslustaður lánsins vera hjá Landsbanka Íslands hf.  Í framhaldinu segir: „Lántaki óskar eftir að reikningur hans nr.________ hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum.“  Í samningum hefur ekki verið sett reikningsnúmer inn í þessa eyðu í samningsákvæðinu.

Í grein 2.3 segir að lántaka sé heimilt að greiða lánið hraðar eða að fullu áður en að lokagjalddaga kemur.  Sé þessi heimild nýtt skuli „lágmarksgreiðsla nema a.m.k. jafnvirði 10 milljóna íslenskra króna hverju sinni.“

Í grein 2.5 er kveðið á um að komi til vandefnda af hálfu lántaka skuldbindi hann sig til þess að greiða bankanum, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, allan kostnað sem bankinn leggi út vegna vanefndanna.

Í grein 3.1 segir að lántaki lofi að greiða bankanum vexti sem skuli vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni auk 1,30% vaxtaálags.

Í grein 5.1 er kveðið á um að standi lántaki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001.

Í útborgunarbeiðni, dagsettri 30. júní 2005, er vísað til framangreinds lánasamnings sem „lánssamnings að fjárhæð ISK 350.000.000“.  Í beiðninni óskar lántaki eftir að lánið verði greitt inn á tékkareikning hans í íslenskum krónum, nr. 0156-26-703.  Var það og gert.  Greiðsla stefnanda á afborgunum og vöxtum fór fram með því að gjaldeyrisreikningur stefnanda hjá stefnda var skuldfærður.

Stefndi kveður, að þar sem Devon ehf. hafi óskað eftir að fá lánið greitt í íslenskum krónum hafi félagið selt 1.785.031,24 evrur, 1.383.399,21 svissneska franka, 119.148.936 japönsk jen og 1.076.260,76 Bandaríkjadali, fyrir 350.000.000 íslenskra króna.  Samkvæmt kaupnótu stefnda, sem hann kveður hafa verið senda Devon ehf., er lánsfjárhæðin tilgreind í evrum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og bandarískum dollurum.

Stefnandi yfirtók allar skyldur lántaka, samkvæmt lánssamningi nr. 3214, með viðauka, dagsettum 29. nóvember 2005.  Í viðaukanum er vísað til upphaflegrar skuldbindingar með sama hætti og í upphaflegum samningi, 350.000.000 króna.  Eftirstöðvar lánsins eru tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Með viðaukanum var sjálfskuldarábyrgð þeirra Einars Vals Kristjánssonar og Kristjáns G. Jóhannssonar jafnframt felld niður.  Láninu var aftur skilmálabreytt með viðaukum 13. febrúar 2009 og 15. ágúst 2011.  Í þeim viðaukum er einnig vísað til upphaflegrar skuldbindingar með sama hætti og í upphaflegum samningi, 350.000.000 króna, í eftirtöldum myntum og hlutföllum: EUR 40%, CHF 20%, USD 20% og JPY 20%.  Eftirstöðvarnar eru hins vegar aðeins tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum.

Stefndi kveður, að bæði á meðan Devon ehf. hafi verið lántaki og eftir að stefnandi hafði tekið yfir lánið, hafi verið sendar tilkynningar fyrir alla gjalddaga lánsins.  Í þeim hafi skuldbinding lánsins einungis verið tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Vaxtagreiðslur og afborganir láns nr. 3214 hafi ávallt verið í þeim sömu gjaldmiðlum.  Þegar stefnandi, og eftir atvikum Devon ehf., hafði greitt hvern og einn gjalddaga hafi hann fengið senda kvittun fyrir greiðslunni.  Í þeim hafi skuldbinding stefnanda samkvæmt lánssamningnum einungis verið tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum.

Með ákvörðun 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og skipaði bankanum skilanefnd í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim var breytt með lögum nr. 125/2008.  Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var öllum eignum Landsbanka Íslands hf. ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280, nú Landsbankinn hf., sem er stefndi þessa máls.  Meðal þeirra eigna sem ráðstafað var til stefnda var lán stefnanda.

Í framhaldi af niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011 sendi starfsmaður stefnda tölvubréf til framkvæmdastjóra stefnanda, 16. júní 2011, og tilkynnti að bankinn væri að skoða hvort framangreind lán féllu undir fordæmisgildi dómsins.  Með bréfi, dagsettu 29. maí 2012, tilkynnti stefndi að það væri mat hans að lán stefnanda féllu ekki undir efnisatriði dómsins.  Væri sérstaklega horft til þess að afborganir og vaxtagreiðslur af lánunum hefðu að mestu verið greiddar í erlendum gjaldmiðlum.  Bankinn myndi því ekki endurreikna lánin.  Stefnandi svaraði með bréfi, dagsettu 30. janúar 2013, þar sem framangreindri afstöðu stefnda var mótmælt og tíunduð sjónarmið stefnanda um að lánin væru haldin ólögmætri gengistryggingu.  Fór stefnandi fram á að lánin yrðu endurreiknuð og að bankinn yrði við því innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins.  Stefndi hefur ekki orðið við kröfum stefnanda um endurútreikning lánsins.

Stefnandi er umsvifamikið útgerðar-, framleiðslu- og sölufyrirtæki.  Afurðir stefnanda eru að langstærstum hluta seldar á erlenda markaði og eru tekjur stefnanda því að meirihluta til í erlendum gjaldmiðlum og ársreikningur stefnanda gerður upp í evrum.  Stefndi bendir á að til þess að fá heimild til að færa ársreikning sinn í evrum þurfi félag að sýna fram á að evrur séu starfrækslugjaldmiðill fyrirtækisins, sbr. 8. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga.  Þá eru, í ársreikningi stefnanda, langtímaskuldir hans sundurliðaðar og tilgreindar í þeim erlendu gjaldmiðlum sem þær eru í.

Stefndi kveður, að þar sem lán stefnanda hafi verið í erlendum gjaldmiðlum hafi hann verið með virka áhættustjórnun fram að falli viðskiptabankanna þriggja í október 2008.  Hafi stefnandi verið með framvirka gjaldmiðla- og valréttarsamninga í þeim tilgangi að takmarka gengisáhættu.  Einnig hafi stefnandi verið með vaxtaskipta­samninga, sbr. skýring 2 – áhættustjórnun í ársreikningi félagsins fyrir árið 2008.

III

Stefnandi byggir á því að skuld hans samkvæmt áðurnefndum lánssamningum hafi verið vegna lána í íslenskum krónum, bundnum við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti.  Lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.  Samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001 sé ákvæði 14. gr. laganna ófrávíkjanleg og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki sé stoð fyrir í lögum.  Stefnandi byggir á því að ákvæði í samningum hans og stefnda um gengistryggingu hafi verið í andstöðu við þessi fyrirmæli laga nr. 38/2001 og séu því óskuldbindandi fyrir stefnanda.  Krefst stefnandi með vísan til heimildar 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 að framangreint verði viðurkennt með dómi.

Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands ráðist það, hvort skuldbinding sé í gengistryggðum íslenskum krónum og þá andstæð ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 eða í erlendum gjaldmiðlum, öðru fremur af skýringu á texta viðkomandi samnings, sem lýsi skuldbindingu lántaka.  Hafi þar skipt mestu sú fjárhæð sem beint eða óbeint sé tilgreind í viðkomandi samningi.  Dugi orðalag í samningi um skuld­bindingu ekki eitt og sér til að komast að niðurstöðu um gjaldmiðil hennar hafi Hæstiréttur Íslands talið að gæta verði að því hvernig ákvæðum samninga um efndir aðila hafi verið háttað og hvernig hafi verið staðið að efndum í raun, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 386/2012.

Lánssamningur nr. 2255

Stefnandi byggir á því að það ráðist öðru fremur af skýringu á texta lánssamningsins í hvaða gjaldmiðlum lánið hafi verið.  Stefnandi telji að texti lánssamningsins beri með sér að skuldbindingin sé í íslenskum krónum.  Þannig sé skuldbindingin einungis tilgreind í íslenskum krónum bæði á forsíðu samningsins og í aðfararorðum hans.  Í ákvæði 1.1 segi að lántaki lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána „umsamda lánsfjárhæð.“  Ljóst sé að eina lánsfjárhæðin, sem um hafi verið samið, sé í íslenskum krónum.  Fleiri ákvæði samningsins miði við það að lánið sé í íslenskum krónum, til dæmis ákvæði um uppgreiðsluheimild, sem geri ráð fyrir að lágmarksgreiðsla skuli nema a.m.k. jafnvirði 50 milljóna íslenskra króna hverju sinni.  Í öllu falli sé ljóst að sú skylda hvíli á stefnda að gefa viðhlítandi skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hafi verið miðuð við íslenskar krónur hafi lánið verið í erlendum gjaldmiðlum.

Sé gætt að því hvernig skyldur samningsaðila hafi verið efndar sé ljóst að Landsbanki Íslands hf. hafi efnt skyldu sína samkvæmt lánssamningnum með því að ráðstafa láninu til uppgreiðslu á eldri lánum.  Kvittanir fyrir þessum uppgreiðslum sýni að þær hafi verið í íslenskum krónum, enda skuldbindingin, sem greidd hafi verið upp, að stærstum hluta í íslenskum krónum.  Stefnandi telji að þessu megi jafna við að Landsbanki Íslands hf., sem stefndi leiði rétt sinn frá, hafi efnt sína skuldbindingu í íslenskum krónum.  Það sé í samræmi við ákvæði lánasamningsins um að Landsbanki Íslands hf. skyldi lána „umsamda lánsfjárhæð.“  Þá sé ljóst að miðað hafi verið við samtölu allra uppgreiddu lánanna í íslenskum krónum þegar fjárhæð lánsins hafi verið ákvörðuð.  Forsendur lántökunnar hafi því verið lántaka í íslenskum krónum.

Meðal þeirra skuldbindinga sem greiddar hafi verið upp hafi verið viðskiptasamningur um reikningslánalínu milli Landsbanka Íslands hf. og YT ehf. að fjárhæð 2.400.000.000 króna, sem stefnandi telji óumdeilt að hafi kveðið á um ólögmæta gengistryggingu.  Skyldur sínar samkvæmt þeim samningi, sem og lánasamningi milli Landsbanka Íslands hf. og Katla ehf., hafi Landsbanki Íslands hf. efnt með því að leggja íslenskar krónur inn á tékkareikning viðkomandi aðila.  Stefndi hafi því efnt stærstan hluta þeirra skuldbindinga, sem láninu frá 3. desember 2004 hafi verið ráðstafað til uppgreiðslu á, í íslenskum krónum.  Þrátt fyrir að stefnandi hafi efnt skyldu sína samkvæmt samningnum með því að gjaldeyrisreikningar hans hafi verið skuldfærðir fyrir greiðslu afborgana og vaxta telur stefnandi að það eitt ráði því ekki að lánið teljist hafa verið í erlendum gjaldmiðlum.  Í aðfararorðum lánssamningsins sér gert ráð fyrir því að stefnandi geti greitt afborganir og vexti í íslenskum krónum.  Stefnandi hafi því haft val um það hvort hann efndi skyldur sínar samkvæmt samningnum í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum.  Þetta val geti ekki haft áhrif á það í hvaða gjaldmiðli skuldbindingin teljist vera.  Þá sé til þess að líta að ákvæði um efndir lántaka samkvæmt tveimur lánasamningum, sem greiddir hafi verið upp með láninu frá 3. desember 2004, hafi gert ráð fyrir að lántaki greiddi í íslenskum krónum.  Í grein 7.1 í lánasamningi Landsbanka Íslands hf. og YT ehf. frá 14. janúar 2004 segi að „[afborganir], vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur [skuli] greiða í íslenskum krónum samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“

Með vísan til alls framangreinds telji stefnandi ljóst að lán hans hafi verið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlenda gjaldmiðla, sem óheimilt hafi verið að gera samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001.

Lánssamningur nr. 3214

Stefnandi telur að texti lánssamnings nr. 3214 beri með sér að skuldbinding samkvæmt honum sé í íslenskum krónum.  Þannig sé skuldbindingin einungis tilgreind í íslenskum krónum bæði á forsíðu samningsins og í aðfararorðum hans.  Í ákvæði 1.1 segi að lántaki lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána „umsamda lánsfjárhæð.“  Ljóst sé að eina lánsfjárhæðin, sem um hafi verið samið, sé í íslenskum krónum.  Fleiri ákvæði samningsins miði við það að lánið sé í íslenskum krónum, til dæmis ákvæði um uppgreiðsluheimild sem geri ráð fyrir að lágmarksgreiðsla nemi þá a.m.k. jafnvirði 10 milljóna íslenskra króna hverju sinni.  Í öllu falli sé ljóst að sú skylda hvíli á stefnda að gefa viðhlítandi skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hafi verið miðuð við íslenskar krónur hafi lánið verið í erlendum gjaldmiðlum.

Sé gætt að því hvernig samningsaðilar hafi efnt skyldur sínar sé ljóst að Landsbanki Íslands hf. hafi efnt skyldu sína samkvæmt lánssamningnum með því að leggja lánsfjárhæðina inn á tékkareikning lántaka, í íslenskum krónum, í samræmi við útborgunarbeiðni þess efnis.  Landsbanki Íslands hf., sem stefndi leiði rétt sinn frá, hafi því efnt skyldu sína í íslenskum krónum og hafi það verið í samræmi við ákvæði lánasamningsins.

Þrátt fyrir að lántaki og síðar stefnandi hafi efnt skyldu sína samkvæmt samningnum með því að gjaldeyrisreikningar hafi verið skuldfærðir fyrir greiðslu afborgana og vaxta telur stefnandi að það eitt ráði því ekki að lánið teljist vera í erlendri mynt.  Í aðfararorðum lánssamningsins sé gert ráð fyrir því að lántaki geti greitt afborganir og vexti í íslenskum krónum.  Lántaki hafi því haft val um það hvort hann efndi skyldur sínar samkvæmt samningnum í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum.  Þetta val geti ekki haft áhrif á það í hvaða gjaldmiðli skuldbindingin teljist vera.

Með vísan til alls framangreinds telji stefnandi ljóst að lán hans hafi verið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlenda gjaldmiðla, sem óheimilt hafi verið, samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001.

Um lagarök vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, til laga nr. 38/2001 og til meginreglna samninga- og kröfuréttar.  Stefnandi vísar jafnframt til dóma Hæstaréttar Íslands sem gengið hafa um það hvort lán séu haldin ólögmætri gengistryggingu.  Um heimild til kröfusamlags vísar stefnandi til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991.

Kröfu um málskostnað byggir stefnanda á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Lánssamningur nr. 2255

Sýknukröfu sína vegna láns nr. 2255 byggir stefndi á því, að krafan, samkvæmt lánssamningnum, sé skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga.  Lánssamningurinn og efndir samkvæmt honum, útgreiðsla lánsins og endurgreiðsla, beri með sér að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum.  Stefnanda beri að efna gerða samninga og virða skuldbindingar sínar.

Stefndi byggir á því ekki verði ráðið af texta lánssamningsins einum hvort samið hafi verið um lán í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum heldur verði einnig að líta til þess hvernig aðilar hafi efnt aðalskyldur sínar samkvæmt samningnum.  Þegar af þeirri ástæðu hafi dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011 ekki fordæmisgildi fyrir mál þetta.  Niðurstaða um það hvort umdeilt lán sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum ráðist óhjákvæmilega af ákveðnu heildarmati.  Slíkt heildarmat leiði án vafa til þess að skuldbinding stefnanda samkvæmt láni nr. 2255 teljist vera í erlendum gjaldmiðlum.  Stefndi byggir á því að texti láns­samningsins beri með sér að lánið sé í erlendum gjaldmiðlum.  Í samningnum sé kveðið á um „jafnvirði“ íslenskra króna, sem geti ekki talist vera tilgreining á skuldbindingu í íslenskum krónum.  Jafnframt vísi stefndi til þess að skuldbindingin sé í öðrum skjölum, sem séu hluti lánssamningsins og tengd lánssamningunum órjúfanlegum böndum, tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Vísar stefndi til þess að skuldbinding stefnanda hafi verið tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum um leið og þess hafi verið kostur.  Meginástæðan fyrir því að upphæð lánsins í hinum erlendu gjaldmiðlum sé ekki sett fram í lánssamningnum sjálfum, heldur hlutföll þeirra, sé sú, að gengi hinna erlendu gjaldmiðla sé stöðugt að breytast á gjaldeyrismarkaði.  Þeir gjaldmiðlar sem teknir hafi verið að láni hafi verið notaðir til að greiða upp eldri lán stefnanda sem að hluta til hafi verið í íslenskum krónum, að hluta til í þeim sömu erlendu gjaldmiðlum og lán nr. 2255 og hluta til í öðrum erlendum gjaldmiðlum.  Slíkar ráðstafanir kunni að taka nokkurn tíma og gengi viðkomandi gjaldmiðla þannig tekið umtalsverðum breytingum frá því ákvörðun um lánveitingu sé tekin af hálfu bankans og lánaskjöl útbúin, þar til lánsfjárhæð sé greidd út.

Þegar skjalagerð vegna lánsins hafi verið lokið og skilyrðum fyrir útgreiðslu þess hafi verið fullnægt hafi verið gengið frá útgreiðslu þess.  Þá fyrst hafi legið fyrir hver höfuðstóll skuldbindingarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum hafi verið og unnt að tilgreina fjárhæðir þeirra.  Hafi það verið gert í öllum skjölum tengdum láninu eftir útgreiðslu þess.  Skuldbinding stefnanda hafi einungis verið tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum í kaupnótu lánsins sem og í tilkynningum fyrir gjalddaga þess.  Sömu sögu sé að segja af kvittunum stefnanda fyrir endurgreiðslu á sérhverjum gjalddaga.

Tveir viðaukar hafi verið gerðir við lánssamninginn sem forsvarsmenn stefnanda hafi undirritað.  Í báðum viðaukunum hafi skuldbinding stefnanda einungis verið tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Sú tilgreining sé í samræmi við orðalag samningsins um að framvegis skyldi skuldin tilgreind með fjárhæð hinna erlendu gjaldmiðla eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum gjaldmiðlum.  Sé nákvæm tilgreining fjárhæða í erlendum gjaldmiðlum gerð að skilyrði fyrir því að skuldbinding verði talin í þeim gjaldmiðlum sé ljóst að umdeild skuldbindingu sé í erlendum gjaldmiðlum, a.m.k. frá og með þeim tíma þegar fyrri viðaukinn hafi verið gerður.

Það liggi því fyrir að skuldbinding stefnanda hafi í öllum skjölum, frá og með útgreiðslu lánsins, verið tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum en ekki í íslenskum krónum.  Framangreind skjöl séu tengd lánssamningnum órjúfanlegum böndum og viðaukarnir séu hluti hans.  Tilgreining á skuldbindingu stefnanda að jafnvirði íslenskra króna í hlutföllum hinna erlendu gjaldmiðla sé aðeins sett fram með þeim hætti í lánssamningnum en eftir það hafi skuldbindingin ávallt verið tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum.

Við framangreint bætist svo að stefnandi hafi sjálfur, í samskiptum sínum við LBI hf. og eftir atvikum stefnda, einnig tilgreint skuld sína samkvæmt samningnum í hinum erlendu gjaldmiðlum og þar með viðurkennt að skuldbindingin sé í þeim gjaldmiðlum.

Stefndi kveður LBI hf. hafa efnt aðalskyldu sína, samkvæmt samningnum, í erlendum gjaldmiðlum.  Lánsfjárhæð láns nr. 2255 hafi verið notuð til að greiða upp eldri lán, sem annars vegar hafi verið í íslenskum krónum og hins vegar í erlendum gjaldmiðlum.  Stefnandi hafi keypt þá erlendu gjaldmiðla, sem skuldbindingar eldri lánanna og skuldbinding YT ehf., á grundvelli viðskiptasamnings, hafi verið í, til að greiða þau upp.  Uppgreiðsla þessara eldri skuldbindinga hafi ekki verið í íslenskum krónum þótt íslenska krónan hafi verið notuð sem grunnmynt í útreikningi.  Stefnanda hafi aldrei verið afhentar íslenskar krónur heldur hafi lánin sannarlega verið gerð upp í þeim gjaldmiðlum sem þau hafi verið í.  Megi jafna þeirri framkvæmd til þess að stefnanda hafi verið afhentir erlendir gjaldmiðlar og hafi LBI hf. því án vafa efnt aðalskyldu sína, samkvæmt samningnum, í erlendum gjaldmiðlum.  Stefndi vísi jafnframt til þess að skuldbinding YT ehf., samkvæmt umræddum viðskiptasamningi, hafi verið gerð upp hjá LBI hf. í desember 2004.  Viðskiptasamningurinn hafi því ekki verið hluti af þeim eignum sem færst hafi til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 9. október 2008.  Stefndi sé þar af leiðandi ekki réttur aðili til að svara fyrir þann viðskiptasamning en mótmælir fullyrðingum stefnanda um að skuldbinding hans samkvæmt viðskiptasamningnum hafi verið í íslenskum krónum.

Stefndi byggir á því að ekki skipti máli við mat á lánssamningi nr. 2255 hvort viðskiptasamningurinn við YTehf. standist kröfur sem gerðar hafa verið af dómstólum til að lán teljist hafa verið veitt í erlendum gjaldmiðlum.  Það sem skipti máli sé hvernig láns samkvæmt samningi nr. 2255 hafi verið greitt út og líkt og áður sé rakið sýni gögn að það hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Einnig hafi verið greiddir upp lánssamningar sem aðilar séu sammála um að hafi verið vegna lána í erlendum gjaldmiðlum.  Enginn munur sé á því hvernig annars vegar þeir samningar hafi verið greiddir upp og hins vegar fyrrgreindur viðskiptasamningur.

Afgang lánsins hafi stefnandi svo notað til að greiða inn á lán Katla ehf. hjá bankanum.  Í því skyni hafi stefnandi selt hluta þeirra mynta sem hann hafi fengið með láni nr. 2255 fyrir íslenskar krónur og greitt þær inn á lánið.  Raunveruleg gjaldeyrisviðskipti hafi verið þar að baki.

Samkvæmt framansögðu leiki ekki vafi á því að við útgreiðslu á láni nr. 2255 hafi LBI hf. efnt aðalskyldu sína í erlendum gjaldmiðlum.  Þá hafi lánið, nánast undantekningarlaust, verið endurgreitt í hinum erlendu gjaldmiðlum og leiði það eitt og sér til þess að skuldbinding samkvæmt lánssamningi nr. 2255 hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Í öllu falli staðfesti sú tilhögun endurgreiðslu, með tilliti til alls framangreinds, að skuldbinding stefnanda samkvæmt samningnum hafi verið í erlendum gjaldmiðlum en ekki í íslenskum krónum.  Stefnandi hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt samningnum með afhendingu erlendra gjaldmiðla til stefnda.  Að mati stefnda sé sú niðurstaða ekki tæk að líta á skuldbindingu, sem greidd sé til baka í erlendum gjaldmiðlum, sem skuldbindingu í íslenskum krónum.

Stefndi byggir á því að í ljósi þess að báðir aðilar lánssamninganna, sem um sé deilt í þessu máli, hafi efnt aðalskyldur sínar með því að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur geti lánin ekki talist vera í íslenskum krónum.  Nægilegt væri að annar aðilanna hefði efnt aðalskyldur sína í erlendum gjaldmiðlum til að lánin teldust vera í erlendum gjaldmiðlum.

Samkvæmt ákvæði 3.1 í lánssamningunum hafi stefnandi átt að greiða stefnda breytilega vexti, jafnháa LIBOR-vöxtum, í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk vaxtaálags.  Stefnandi hafi því ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur.  Hefði svo verið, hefðu lánin borið svokallaða REIBOR-vexti og vextirnir orðið umtalsvert hærri en þeir hafi í raun verið, enda séu LIBOR-vextir ekki ákvarðaðir á íslenskar krónur.  Lánin hafi því án vafa verið í erlendum gjaldmiðlum.

Ekki verði framhjá því litið að tekjur stefnanda séu aðallega í erlendum gjaldmiðlum og að hann hafi fært lánið sem skuld í erlendum gjaldmiðlum í ársreikningi sínum.  Framangreind atriði séu til þess fallin að styrkja frekar þá ályktun sem að framan hafi verið dregin um efndir aðila á efni lánssamningsins.

Fari svo að dómurinn telji lán samkvæmt lánssamningi nr. 2255 vera í íslenskum krónum byggir stefndi á því að honum hafi verið heimilt, samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001, að víkja frá ákvæðum VI. kafla laganna, þar sem lánssamningurinn hafi sannarlega verið stefnanda til hagsbóta.  Lögin takmarki ekki til hvers verði litið við þetta mat og því verði að líta til þess hvað hafi sannarlega verið stefnanda til hagsbóta, að öllu virtu, þegar hann hafi tekið hin umþrættu lán.  Skipti þá mestu eðli og tilgangur stefnanda, tekjusamsetning hans og hvernig félagið hafi verið rekið.

Í fyrsta lagi hafi lánið verið til hagsbóta fyrir stefnanda þar sem engin veruleg áhætta hafi falist í töku þess í erlendum gjaldmiðlum.  Í þessu samhengi skipti höfuðmáli að stefnandi sé fjárhagslega sterkt fyrirtæki og eitt af stærstu útgerðarfélögunum á Íslandi og hafi nánast alfarið tekjur í erlendum gjaldmiðlum.  Þegar af þeirri ástæðu hafi stefndi enga forsendu haft til að ætla, þegar lánið hafi verið veitt, að lánveitingin kynni að reynast stefnanda óhagstæðari heldur en aðrar þær leiðir sem val hafi staðið um, þvert á móti.  Við gerð lánssamningsins hafi legið fyrir að stefnandi yrði ekki fyrir tjóni ef til gengisfalls íslensku krónunnar kæmi, meðal annars vegna þess að stefnandi hafi átt hina erlendu gjaldmiðla tiltæka á gjalddögum afborgana og vaxta og því ekki þurft að kaupa erlendar myntir á innlendum gjaldeyrismarkaði til að standa skil á láninu.  Þar sem samningsaðilar hafi gengið út frá því að stefnandi greiddi lánið til baka í hinum erlendu gjaldmiðlum en ekki íslenskum krónum hafi jafnframt legið fyrir að greiðslur af láninu tækju ekki breytingum, þar sem ekki þyrfti að kaupa gjaldmiðla á gengi hvers gjalddaga.  Afborgunin yrði alltaf sú sama.  Fyrirsjáanlega hafi sú gjaldmiðlaáhætta því ekki verið tengd láninu sem hefði verið, hefðu tekjur stefnanda verið í íslenskum krónum.

Líta verði til þeirra breytinga sem sannarlega hafi orðið á tekjum stefnanda vegna breytinga á gengi erlendra gjaldmiðla samhliða því hverjar breytingar hafi orðið á höfuðstól lánsins í íslenskum krónum, við mat á því hvað hafi verið stefnanda til hagsbóta, samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001.  Vegna tekjustreymis stefnanda í erlendum gjaldmiðlum hafi ekki falist sama áhætta í því að taka erlent lán eins og fyrir þá sem einungis njóti tekna í íslenskum krónum.  Við lántökuna hafi því óvissa um þróun höfuðstóls ekki skipt máli þar sem tekjur stefnanda myndu sveiflast í sömu átt.  Við veikingu íslensku krónunnar hafi höfuðstóll lánsins vissulega hækkað, umreiknaður í íslenskar krónur, en líka tekjur stefnanda, umreiknaðar í íslenskar krónur.  Við lántökuna lá fyrir að slíkt jafnvægi héldist milli tekna og skulda stefnanda.  Hefði hins vegar verið samið um lán í íslenskum krónum hefði fullkomið ójafnvægi verið milli tekna og lána stefnanda.  Lánssamningurinn hafi því verið til þess fallinn að draga úr áhættu og til hagsbóta fyrir stefnanda, jafnvel þótt horft sé framhjá mismun í vaxtabyrði milli lána í íslenskum krónum annars vegar og lána í erlendum gjaldmiðlum hins vegar.  Lán í erlendum gjaldmiðlum hafi því augljóslega verið til hagsbóta fyrir stefnanda.

Jafnframt hafi stefnandi um nokkurra ára skeið verið með virka áhættustjórnun sem miði að því að takmarka gjaldeyris- og vaxtaáhættu.  Hafi stefnandi í því sambandi gert afleiðusamninga við fjármálastofnanir til að verja sig.  Stefnandi hafi þannig góða þekkingu á gengis- og vaxtaáhættu milli ólíkra erlendra gjaldmiðla og hafi verið fullljóst hvað væri félaginu til hagsbóta og hvað ekki.

Einnig verði að hafa í huga að stefnanda hafi verið heimilt að myntbreyta láninu, sbr. 4. gr. samninganna.  Þá heimild hafi hann nýtt sér og lækkað vægi Bandaríkjadals á kostnað svissnesks franka og japansks jens.  Í báðum tilvikum hafi stefnandi lagað samningana að rekstri sínum, lágum vöxtum og þeim tekjum sem hann hafi mest notið af.  Í ljósi alls framangreinds sé hafið yfir allan skynsamlegan vafa að engin áhætta hafi falist í gerð lánssamninga í erlendum gjaldmiðlum fyrir stefnanda.

Í öðru lagi verði að líta til þess hvaða önnur lán hafi boðist stefnanda.  Stefndi hefði getað lánað stefnda íslenskar krónur.  Óumdeilt sé að vaxtakjör stefnanda, samkvæmt hinum umþrætta lánssamningi, hafi verið umtalsvert betri en honum hefði ella boðist.  Í því samhengi sé vísað til þess að LIBOR-vextir hafi verið umtalsvert hagstæðari fyrir varnaraðila en REIBOR-vextir á íslenskar krónur á því tímabili sem vaxtagreiðslur hafi verið inntar af hendi.  Hagstæðari vaxtakjör hafi einmitt verið ein helsta ástæða þess að stefnandi hafi viljað taka lán í erlendum gjaldmiðlum en ekki íslenskum krónum.

Í ljósi þess að stefnandi hafi greitt mun lægri vexti af láninu en hann hefði ella gert og engin veruleg áhætta hafi verið tengd lánveitingunni, liggi fyrir að láns­samningurinn hafi verið stefnanda til hagsbóta, samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001.

Lánssamningur nr. 3214

Stefndi byggir kröfu um sýknu, hvað varðar lánssamning nr. 3214, á öllum þeim sömu sjónarmiðum og lýst er að framan varðandi lánssamning nr. 2255.  Til viðbótar við framangreindar málsástæður byggir stefndi á því að skuldbinding stefnanda, samkvæmt samningi nr. 3214, sé í erlendum gjaldmiðlum á þeim grundvelli að lánsfjárhæðin hafi alltaf verið tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum, gagnvart stefnanda.  Stefnandi hafi tekið yfir skuldbindingar fyrri lántaka með undirritun viðauka, dagsettan 29. nóvember 2005.  Hafi þá verið metið hvort stefnandi gæti tekið yfir skuldbindinguna og stefnandi ákveðið að taka hana yfir eins og henni sé lýst í viðaukanum.  Jafna megi yfirtöku stefnanda á láni nr. 3214 við nýja lántöku af hans hálfu og því verði að líta til þess hvernig skuldbinding hans hafi verið tilgreind í framangreindum viðauka.  Með undirritun sinni á viðaukann hafi stefnandi samþykkt að taka yfir þá skuldbindingu sem í honum hafi verið tilgreind.  Í viðaukanum sé lánsfjárhæðin einungis tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Aldrei hafi verið vísað til skuldar stefnanda samkvæmt láni nr. 3214 í íslenskum krónum.

Þá hafi lánið borið breytilega vexti jafnháa LIBOR-vöxtum, í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni.  Stefnandi hafi því ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur enda LIBOR-vextir ekki ákvarðaðir á íslenskar krónur.  Framangreind ákvæði lánssamningsins beri ljóslega með sér að lán samkvæmt honum sé og hafi alltaf verið í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum.  Þegar af þessum ástæðum sé um lán í erlendum gjaldmiðlum að ræða sem falli utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga, og sé sú niðurstaða í samræmi við þá dóma Hæstaréttar Íslands sem hafi fallið um sambærilega lánssamninga.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 2., 13. og 14. gr. þeirra laga, sem og almennra reglna samninga- og kröfuréttar um samningsfrelsi, skuldbindingargildi loforða og efndaskyldu krafna.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

V

Í máli þessu er krafist viðurkenningar á því að tveir lánssamningar aðila séu um lán í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Byggir stefnandi á því að lán samkvæmt lánasamningunum sé í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla en slík gengistrygging sé ólögmæt, samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og þar af leiðandi ekki skuldbindandi fyrir stefnanda.

Ákvæðum umdeildra samninga er lýst hér að framan.  Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands, meðal annars í máli nr. 602/2013, gefa ákvæði sambærilegra samninga ekki skýrt til kynna hvort skuldbinding aðila sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og þarf þá að meta heildstætt, meðal annars eftir efndum aðila, hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti.

Þegar litið er til efnda aðila á skyldum sínum samkvæmt lánssamningi nr. 2255, dagsettum 3. desember 2004, er óumdeilt að útborgunarfjárhæð lánsins var ekki greidd inn á reikning stefnanda heldur ráðstafað til greiðslu á eldri lánum hans, eða tengdra aðila, hjá Landsbanka Íslands hf.  Voru þau lán ýmist í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum.  Án þess að tekin sé afstaða til þess hvort lán samkvæmt viðskiptasamningi milli Landsbanka Íslands hf. og YT ehf., dagsettum 14. janúar 2004, hafi verið í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bera kvittanir fyrir uppgreiðslu lánsins það með sér að lánið hafi verið gert upp í erlendum gjaldmiðlum.  Jafnframt leggur stefndi fram útskriftir af gjaldeyrisreikningum bankans frá desember 2004 sem sýna gjaldeyrisviðskiptin við uppgjör lánanna í kjölfar undirritunar lánssamnings nr. 2255.  Að framangreindu virtu verður að leggja til grundvallar að útborgun láns samkvæmt samningi nr. 2255 hafi að mestu leyti verið ráðstafað til greiðslu á eldri skuldbindingum stefnanda við bankann í erlendum gjaldmiðlum.  Þá er óumdeilt í málinu að gjaldeyrisreikningar stefnanda hjá bankanum voru skuldfærðir fyrir afborgunum og vöxtum af láninu, í samræmi við tilkynningar stefnda um gjalddaga.  Samkvæmt þessu verður að líta svo á að báðir samningsaðilar hafi í meginatriðum efnt skyldur sínar með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum skiptu um hendur.

Hvað varðar efndir aðila á skyldum sínum samkvæmt lánssamningi nr. 3214, dagsettum 30. júní 2005, liggur fyrir að lántaki, Devon ehf., óskaði eftir því að útborgunarfjárhæðin yrði greidd inn á tékkareikning hans hjá bankanum í íslenskum krónum, sbr. útborgunarbeiðni sem einnig er dagsett 30. júní 2005.  Samkvæmt framlögðu bankayfirliti var það og gert.  Óumdeilt er í málinu að gjaldeyrisreikningar stefnanda hjá bankanum voru skuldfærðir fyrir afborgunum og vöxtum af láninu, í samræmi við tilkynningar stefnda um gjalddaga.  Stefndi efndi því aðalskyldu sína samkvæmt samningnum með því að inna af hendi greiðslu í íslenskum krónum en stefnandi efndi aðalskyldu sína samkvæmt samningnum með því að greiða til baka í erlendum gjaldmiðlum.  Hins vegar skal litið til þess að þegar stefnandi tók yfir lán samkvæmt samningi nr. 3214, með viðauka dagsettum 29. nóvember 2005, voru eftirstöðvar lánsins einungis tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum og gefur það vísbendingu um að aðilar hafi litið svo á að skuldbindingar þeirra samkvæmt samningnum væru í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Var sami háttur hafður á í síðari viðaukum við lánssamninginn, dagsettum 13. febrúar 2009 og 15. ágúst 2011.

Að öllu framangreindu virtu er ljóst að efndir samningsaðila á aðalskyldum sínum samkvæmt hinum umdeildu samningum hafi að verulegu leyti, þó ekki öllu, falið í sér að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur.  Af dómum Hæstaréttar Íslands, meðal annars í máli nr. 66/2012, má ráða að rétturinn gerir ekki fortakslausa kröfu til þess að skuldbindingar aðila á grundvelli samninga, eins og þeirra sem deilt er um í þessu máli, séu að öllu leyti efndar með greiðslum í erlendum gjaldmiðlum til þess að lán verði talin í þeim gjaldmiðlum.  Þegar efndir á hinum umdeildu samningum eru virtar í heild sinni verður að telja að þær hafi að svo verulegu marki falist í því að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur, að leggja verði til grundvallar að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum.

Það styður framangreinda niðurstöðu að í viðaukum beggja lánssamninga, sem um er deilt, voru eftirstöðvar lánanna einungis tilgreindar í hinum erlendum gjaldmiðlum.  Þá liggur fyrir að myntbreytingarheimild í grein 4.1 í lánssamningi nr. 2255 var beitt og benda þau skjöl, sem lögð eru fram um þá breytingu, enn frekar til þess að lán samkvæmt þeim samningi hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Loks verður, með hliðsjón af niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 602/2013, ekki litið fram hjá því að stefnandi hafði tekjur sínar að mestu leyti í erlendum gjaldmiðlum, átti gjaldeyrisreikninga í umræddum gjaldmiðlum, Bandaríkjadölum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og evrum, hafði þegar skuldbindingar við bankann í erlendum gjaldmiðlum og færði hin umdeildu lán sem skuldir í erlendum gjaldmiðlum í ársreikningum sínum, sem allt gefur vísbendingu um að samningsvilji stefnanda hafi staðið til þess að umdeild lán væru í erlendum gjaldmiðlum.

Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands ræðst niðurstaða um það hvort lán séu í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum af ákveðnu heildarmati, sér í lagi séu ákvæði lánssamninga ekki skýr hvað það varðar.  Að mati dómsins leiðir slíkt heildarmat til þess að umdeild lán teljist hafa verið í erlendum gjaldmiðlum og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dæmda stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 800.000 krónur. 

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Hraðfrystihússins Gunnvarar hf.

Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.