Hæstiréttur íslands

Mál nr. 100/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skýrslugjöf
  • Vitni


                                     

Fimmtudaginn 13. febrúar 2014.

Nr. 100/2014.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(Óskar Sigurðsson hrl.)

(Jónína Guðmundsdóttir hdl. réttargæslumaður)

Kærumál. Skýrslugjöf. Vitni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að víkja úr þinghaldi þegar brotaþoli gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. febrúar 2014, þar sem varnaraðila var gert skylt að víkja úr þinghaldi þegar brotaþoli, A, gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Brotaþoli krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt læknisvottorð 7. febrúar 2014 þar sem fram kemur að brotaþoli sé haldin miklum kvíða og streitueinkennum er rekja megi til andlegs álags vegna ítrekaðs ofbeldis og hótana af hálfu ákærða og einsýnt sé að það myndi verða henni mjög þungbært og íþyngjandi að þurfa að bera vitni í dómsal að honum viðstöddum. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurðar er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. febrúar 2014.

                Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 13. október 2013 á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...].

„fyrir líkamsárás, húsbrot og eignaspjöll

með því að hafa að morgni sunnudagsins 2. desember 2012, að [...], veist að X, kt. [...], fyrrverandi sambýliskonu og barnsmóður sinni, og slegið í höfuð hennar.

og [sic.] aftur með því að hafa síðar sama dag, ruðst heimildarlaust og í óleyfi inn í íbúð í fjölbýlishúsinu að [...], með því að brjóta gler í útidyrahurð, og veist þar að A, tekið hana hálstaki og slegið undir höku hennar,

allt með þeim afleiðingum að A hlaut mar á hægri handlegg, bláma á hægri upphandlegg, hrufl og yfirborðssár á hægri upphandlegg, mar og sár á vinstri upphandlegg og framhandlegg, yfirborðssár framanvert á hálsi, mar og bólgu á enni ofan við vinstra auga og eymsli víða um líkamann.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr., 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa

Í málinu gerir Jónína Guðmundsdóttir hdl. kröfu f.h. brotaþola um að ákærði [sic.] verði með dómi gert að greiða samtals kr. 623.075 í skaðabætur, með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 2. desember 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar.“

Mál þetta var þingfest 31. október 2013 og var aðalmeðferð málsins fyrirhuguð í dag, en frestað samkvæmt beiðni allra málflytjenda. Ákærði hefur ekki komið fyrir dóminn vegna lögmætra forfalla, en skipaður verjandi hans, Óskar Sigurðsson hrl., hefur upplýst að ákærði hyggist neita sök og hafna einkaréttarkröfu.

Af hálfu brotaþola hefur þess verið krafist að ákærða verði vikið úr þingsal meðan hún gefur skýrslu við aðalmeðferð málsins og hefur sækjandinn tekið undir þá kröfu. Ákærði hefur krafist þess að kröfu brotaþola um þetta verði hafnað. Hann kveðst ekki sætta sig við að fylgjast með skýrslugjöf brotaþola úr hliðarherbergi. Var krafan tekin til úrskurðar í dag eftir að málflytjendur höfðu tjáð sig um hana.

Brotaþoli byggir kröfu sína á 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 og bendir á að það yrði henni afar þungbært að gefa skýrslu að ákærða viðstöddum. Málið hafi tekið mikið á hana. Þá vísar brotaþoli til þess að ákærði hafi ítrekað orðið uppvís að ofbeldi gagnvart henni og með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum 24. janúar 2014 í málinu nr. R-2/2014 hafi verið staðfest ákvörðun lögreglustjórans á Selfossi frá 17. janúar 2014 um að ákærði sæti nálgunarbanni gagnvart henni í eitt ár frá 17. janúar 2014, en þetta hafi verið vegna ofbeldis ákærða gagnvart brotaþola þann 16. janúar 2014. Þá bendir brotaþoli jafnframt á eldra nálgunarbann sem ákærði hafi verið látinn sæta í 2 mánuði í beinu framhaldi af þeim atvikum sem lýst er í ákæru í þessu máli. Þá vísar brotaþoli til framlagðra gagna um að ákærði hafi haft við hana samband, bæði beint og með milliliðum, eftir að honum var birt hin síðari ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann. Þá vísar brotaþoli til þess að hún hafi fyrir nokkrum dögum lagt fram kæru á hendur ákærða fyrir að birta á internetinu nektar- og kynlífsmyndir af henni, en lögregla hefur lagt hald á tölvu ákærða vegna rannsóknar á því.

Ákærði vísar til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 máli sínu til stuðnings. Ákærði byggir á því að það sé meginregla laga að ákærði njóti réttlátrar málmeðferðar og hluti af því sé réttur hans til að vera viðstaddur þinghöld í máli gegn honum. Allar undantekningar frá þeirri reglu verði að skýra þröngt og verulega ríkar ástæður verði að standa til þess að vikið sé frá þeirri reglu. Skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 til að ákærði víki úr þinghaldi séu ekki uppfyllt.

Forsendur og niðurstaða

Að mati dómsins ber hér að hafa í huga mikilvægi þess að vitni skýri satt og rétt frá og dragi ekkert undan, sem og ekki síður meginreglu laga um rétt ákærðs manns til að vera viðstaddur öll þinghöld í sakamáli sem rekið er gegn honum.

Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari að kröfu ákæranda eða vitnis ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan það gefur skýrslu telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess.

Það er mat dómsins að sú staðreynd ein og sér að ákærði sætir nálgunarbanni geri það ekki að verkum að honum sé óheimilt að vera viðstaddur þinghald í málinu þegar brotaþoli gefur skýrslu sína, enda á ákærður maður rétt á því samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 og verður almennt ekki talið að nálgunarbann upphefji þann rétt. Þá kemur ekki fram í úrskurði héraðsdóms um nálgunarbann að ákærða sé óheimilt að vera viðstaddur þinghaldið.

Í báðum framangreindum úrskurðum dómsins um nálgunarbann ákærða kemur fram að ákærði hafi gengist við því að hafa beitt brotaþola tilteknu ofbeldi sem þar er nánar lýst. Í rannsóknargögnum lögreglu sem lögð hafa verið fyrir réttinn kannast ákærði við að hafa sett sig í samband við brotaþola með sms sendingum eftir að honum var birt ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann þann 17. janúar sl. Er innan við mánuður liðinn frá þeim atburðum sem leiddu til þess að hið seinna nálgunarbann var lagt á ákærða. Í niðurstöðum úrskurðar um nálgunarbann frá 24. janúar sl. var af hálfu dómsins fallist á það með lögreglustjóra að ákærði væri undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn brotaþola og að hætta væri á að hann héldi því áfram. Kemur fram í lögregluskýrslu af brotaþola 23. janúar sl. að hún sé óttaslegin og óttist mjög um öryggi sitt.

Brotaþoli er barnsmóðir og fyrrverandi sambýliskona ákærða, en honum er m.a. gefið að sök að hafa í tvígang veist að brotaþola með ofbeldi eins og nánar er lýst í ákæru.

Ekki hafa verið lögð fyrir dóminn sérfræðileg gögn um andlegt ástand brotaþola til stuðnings kröfunni.

Að virtu sambandi ákærða og brotaþola, sem eru fyrrverandi sambýlisfólk og eiga saman barn, þeim sökum sem ákærði er borinn, sem og því nálgunarbanni sem ákærði nú sætir vegna mjög nýlegra atvika, sem og öðru ofangreindu, þykir hafa verið sýnt nægilega fram á það að nærvera ákærða við skýrslugjöf geti bæði orðið brotaþola sérstaklega íþyngjandi og haft áhrif á framburð hennar. Eins og atvikum er háttað verður það ekki talin frágangssök í þessu efni að ekki hafi verið lögð fyrir réttinn sérfræðileg gögn um andlegt ástand brotaþola.

Er það því álit dómsins að uppfyllt séu þau lagaskilyrði sem að framan eru rakin og verður því fallist á að ákærði skuli víkja úr þinghaldi meðan brotaþoli gefur skýrslu í máli þessu. Þess verður gætt að ákærði geti fylgst með skýrslutökunni um leið og hún fer fram og að lagðar verði fyrir brotaþola þær spurningar sem ákærði óskar, sbr. 3. mgr. áðurnefndrar lagagreinar.

 Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Ákærði, X, skal víkja úr þinghaldi þegar brotaþoli, A, gefur skýrslu við aðalmeðferð.