Hæstiréttur íslands

Mál nr. 272/1999


Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Endurskoðandi
  • Reikningsskil
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. desember 1999.

Nr. 272/1999.

Nathan & Olsen hf.

(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.)

gegn

PricewaterhouseCoopers ehf. og

Gunnari Sigurðssyni

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Hlutafélög. Endurskoðendur. Reikningsskil. Skaðabætur.

Á árunum 1992 til 1996 dró gjaldkeri hlutafélagsins N sér fé úr sjóðum félagsins að fjárhæð rúmlega 32 milljónir króna. Gjaldkerinn faldi fjárdráttinn með færslum í bókhaldi án gildra fylgiskjala, og voru afstemmingar þær, sem hann lagði fram, falsaðar að nokkru leyti. N krafði löggilta endurskoðandann G og einkahlutafélagið P um bætur vegna þess tjóns sem N hafði orðið fyrir af þessum sökum, en N hafði keypt endurskoðunar- og sérfræðiþjónustu frá P um árabil og hafði G verið kjörinn endurskoðandi félagsins samkvæmt lögum nr. 32/1978 um hlutafélög og síðar samkvæmt lögum nr. 144/1994 um ársreikninga. Allt til ársins 1991 höfðu G og P annast gerð milliuppgjöra, auk endurskoðunar ársreiknings, en frá þeim tíma tók fjármálastjóri N við því verki. G og P höfðu áritað ársreikninga N athugasemdalaust, þótt þeir hefðu ekki fengið afstemmingar allra bókhaldsreikninga og án þess að kanna stoðgögn og fylgiskjöl óafstemmdra reikninga. Höfðu þeir aldrei tilkynnt stjórn N um þessi vanskil á afstemmingu reikninga, en rætt það óformlega á fundi með framkvæmdastjóra og fjármálastjóra félagsins. Talið var að rík skylda hefði hvílt á stjórnendum N að hafa umsjón og eftirlit með bókhaldi félagsins, sbr. 3. mgr. 52. gr. laga nr. 32/1978. Hefði sú skylda verið sérstaklega brýn þar sem sami maður gegndi bæði bókhalds- og gjaldkerastörfum, enda hefði sú skipan falið í sér augljósan veikleika gagnvart innra eftirliti. Hins vegar hefði G áritað ársreikninga N án athugasemda fjögur ár í röð þótt allar afstemmingar lægju ekki fyrir við lokafrágang þeirra. Hefði bæði endurskoðendum og fjármálastjóra og framkvæmdastjóra félagsins verið ljóst, að innra eftirlit var ekki framkvæmt sem skyldi og afstemmingar reikninga lágu ekki fyrir, ýmist við gerð milliuppgjöra eða ársreiknings, og hafði það gerst ítrekað. G og P hefði borið, sem endurskoðendum N, að sjá um, að afstemmingar allra bókhaldsreikninga lægju fyrir, áður en þeir luku endurskoðun ársreikningsins, og hefðu þeir átt að vekja athygli stjórnar N skriflega á umræddum annmörkum. Bentu atvik málsins til þess, að á hefði skort, að skyldu þeirra til að sannreyna eignastöðu félagsins hefði verið nægilega gætt. Voru G og P því að hluta til taldir eiga sök á því, að ekki komst upp um fjárdráttinn fyrr en um mitt ár 1996 og bæru þeir nokkra ábyrgð á því gagnvart N, að tjónið varð meira en þurft hefði að vera, hefðu þeir staðið öðruvísi að verki. Voru G og P dæmdir sameiginlega til að greiða N bætur sem ákveðnar voru að álitum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 7. júlí 1999. Hann krefst þess, að stefndu verði dæmdir in solidum til þess að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 25.528.062 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, 0,8% frá 16. janúar 1997 til 1. febrúar sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. júní sama ár, 1% frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. september sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9% frá þeim degi til 26. mars sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstrétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara verulegrar lækkunar á dómkröfum áfrýjanda. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og lýst er í héraðsdómi dró gjaldkeri áfrýjanda sér fé úr sjóðum fyrirtækisins á árunum 1992 til 1996 að fjárhæð rúmlega 32 milljónir króna. Gjaldkerinn greiddi til baka um 7 milljónir króna, en eftir gjaldþrot hans eru ógreiddar 25.528.062 krónur, sem áfrýjandi krefur stefndu um greiðslu á í máli þessu. Gjaldkerinn kom fjárdrættinum fyrir í fáeinum liðum efnahagsreiknings í bókhaldi fyrirtækisins en ekki rekstrarreikningi þess. Fjárhæðin hækkaði frá ári til árs, og var hún var talin hluti eigna félagsins í efnahagsreikningi allt fjárdráttartímabilið. Gjaldkerinn faldi fjárdráttinn með færslum án gildra fylgiskjala, og voru afstemmingar þær, sem hún lagði fram, falsaðar að nokkru leyti. Upp komst um fjárdráttinn, er fjármálastjóri áfrýjanda vann að gerð milliuppgjörs fyrir fyrstu sex mánuði ársins 1996, en gjaldkerinn var þá fjarverandi.

 Áfrýjandi hafði um áratuga skeið keypt endurskoðunar- og sérfræðiþjónustu af hinu stefnda félagi, og hafði stefndi Gunnar, sem er löggiltur endurskoðandi, áritað reikningsskil félagsins hin síðari ár. Stefndi Gunnar var kosinn endurskoðandi áfrýjanda á grundvelli XI. kafla laga nr. 32/1978 um hlutafélög, og eftir gildistöku laga nr. 144/1994 um ársreikninga var hann kosinn endurskoðandi af hluthöfum áfrýjanda á grundvelli VII. kafla þeirra laga. Allt til ársins 1991 önnuðust stefndu gerð milliuppgjöra, auk endurskoðunar ársreiknings. Á árinu 1991 kom til starfa hjá áfrýjanda fjármálastjóri, sem var viðskiptafræðingur að mennt. Frá þessum tíma tók fjármálastjórinn við gerð milliuppgjöra, sem stefndu höfðu áður annast.

Fram er komið í málinu, að skil gjaldkera áfrýjanda á afstemmingum voru síðbúin og þær voru aldrei tilbúnar allar á sama tíma. Afstemmingar á mikilvægum bókhaldsreikningum vantaði í langan tíma. Til dæmis vantaði afstemmingar á reikningi yfir geymsluávísanir frá 31. mars 1993 þar til brotið uppgötvaðist í ágúst 1996. Þrátt fyrir ítrekuð vanskil á afstemmingum við gerð milliuppgjöra kannaði fjármálastjórinn færslur gjaldkerans ekki sérstaklega og lét sér oft nægja munnlegar upplýsingar hans. Þá er og fram komið, að stefndu árituðu ársreikninga áfrýjanda rekstrarárin 1992 til 1995 athugasemdalaust, þótt þeir hefðu ekki fengið afstemmingar allra bókhaldsreikninga og án þess að kanna stoðgögn og fylgiskjöl óafstemmdra reikninga. Stefndu tilkynntu stjórn áfrýjanda aldrei skriflega um þessi vanskil á afstemmingu reikninga, en ræddu það óformlega á fundi með framkvæmdastjóra og fjármálastjóra félagsins.

II.

Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. laga nr. 32/1978, sbr. nú 3. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, skal félagsstjórn annast um, að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Ef framkvæmdastjóri er ráðinn, skal hann sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Rík skylda hvíldi á stjórnendum áfrýjanda að hafa umsjón og eftirlit með bókhaldi fyrirtækisins. Var sú skylda sérstaklega brýn eins og hér stóð á, þar sem sami maður gegndi bæði bókhalds- og gjaldkerastörfum, enda fól sú skipan í sér augljósan veikleika gagnvart innra eftirliti. Eins og að framan er lýst lét fjármálastjórinn það gott heita, þótt afstemmingar reikninga lægju ekki allar fyrir við gerð milliuppgjöra. Hann bar fyrir dómi, að hann hefði staðið í þeirri trú, að endurskoðandinn myndi sjá um, að allar afstemmingar lægju fyrir um hver áramót, en sagði jafnframt, að hann hefði ekki vakið athygli endurskoðendanna á því, að þær hefðu skilað sér seint og illa og stundum alls ekki. Framkvæmdastjóri áfrýjanda bar fyrir dómi, að hann hafi vitað af því, að gjaldkerinn náði ekki að skila afstemmingum eins og við átti og að svokölluðum geymslutékkum hefði fjölgað verulega.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 32/1978, sbr. nú 1. mgr. 63. gr. laga um ársreikninga, skulu endurskoðendur í samræmi við góða endurskoðunarvenju endurskoða ársreikning hlutafélags og í því sambandi kanna bókhaldsgögn félagsins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu.

Félag löggiltra endurskoðenda hefur gefið út leiðbeinandi reglur um grundvallaratriði endurskoðunar á ársreikningum hlutafélaga. Í 3. kafla þeirra reglna segir, að endurskoðanda beri að ganga úr skugga um, að sú lýsing á bókhaldskerfi og innra eftirliti, sem hann byggir mat sitt á, sé áreiðanleg. Komi í ljós veikleikar í bókhaldskerfi eða innra eftirliti beri endurskoðanda að tilkynna það félaginu. Náist ekki nægjanlegt öryggi um áreiðanleik bókhaldsins með eðlilegum endurskoðunaraðgerðum beri endurskoðanda að vekja athygli stjórnar á því bréflega og gera grein fyrir því í áritun sinni. Í 7. kafla reglnanna segir, að könnun endurskoðanda beinist að því að komast að raun um það hvort ársreikningur félags gefi glögga heildarmynd af afkomu og efnahag þess, en beinist ekki sérstaklega að því að leiða í ljós svik eða annað misferli. Við endurskoðun ársreiknings og könnun og mat á innra eftirliti beri endurskoðanda þó að hafa í huga að misferli kunni að eiga sér stað, sem geti haft þýðingu við mat á afkomu og efnahag félags. Í 7. kafla kemur einnig fram, að ársreikningur skuli gerður í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju og að stjórnendum beri einnig að sjá til þess, að félag hafi fullnægjandi bókhald og virkt innra eftirlit og eigi endurskoðandi að kanna hvort stjórnendur félags ræki þær skyldur sínar.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 67/1976 um löggilta endurskoðendur, sbr. nú 8. gr. laga nr. 18/1997 um sama efni, þýðir áritun endurskoðanda á reikningsskil, nema annað komi fram af árituninni, að reikningsskilin og bókhaldið, sem þau eru byggð á, hafi verið endurskoðuð af honum og að reikningsskilin gefi að hans mati glögga mynd af hag og afkomu aðila og að bókhaldið sé fært eftir viðurkenndum bókhaldsreglum.

Stefndi Gunnar áritaði ársreikninga áfrýjanda án athugasemda fjögur ár í röð, þótt allar afstemmingar lægju ekki fyrir við lokafrágang ársreiknings, eins og að framan getur. Í bréfum stefndu til stjórnar áfrýjanda til innfærslu í endurskoðunarbók var heldur ekki að finna neinar athugasemdir. Samkvæmt 66. gr. laga nr. 144/1994 skal skrá í sérstaka endurskoðunarbók eða færa fram skriflega á annan hátt ábendingar og athugasemdir, sem endurskoðendur eða skoðunarmenn vilja koma á framfæri við stjórn eða framkvæmdastjóra. Ekki nægir að nefna það á fundi með fjármálastjóra og framkvæmdastjóra, eins og stefndi Gunnar gerði, en hvorugur þeirra var í stjórn félagsins. Gjaldkeri áfrýjanda naut mikils trausts forráðamanna fyrirtækisins og einnig endurskoðenda þess. Þótt þeim væri ljós sú áhætta, sem fylgdi því, að sami maðurinn gegndi bæði starfi gjaldkera og bókara, voru engar ráðstafanir gerðar til þess að bæta innra eftirlit með aukinni gagnaskoðun. Virðist ljóst, að báðir aðilar hafi ofmetið það aðhald og eftirlit, sem hvor um sig taldi hinn veita gjaldkeranum. Sá starfsmaður stefnda, sem annaðist endurskoðunarvinnuna, bar fyrir dómi, að ekki hefði verið kannaður bakgrunnur þeirra reikninga, sem ekki voru skriflegar afstemmingar fyrir, en þeir hefðu talið, að þetta myndi ekki skekkja heildarmyndina á efnahag og rekstri áfrýjanda. Hann sagði, að þeir hefðu treyst fjármálastjóra áfrýjanda, milliuppgjör hans hefðu verið mjög vel unnin og hefðu ekki verið skoðuð neitt sérstaklega og menn hafi haft „tilfinningu fyrir því að allar afstemmingar lægju líka fyrir“.

IV.

Eins og að framan greinir skal félagsstjórn annast um, að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna hlutafélags. Af því leiðir, að stjórn félags ber ábyrgð á ársreikningi þess og gefur hann út. Ársreikningurinn er mynd fyrirtækisins út á við og er mikilvægt fyrir traust fyrirtækisins, að hann sýni rétta og glögga mynd af hag og afkomu þess. Athugasemdalaus áritun endurskoðanda á ársreikning felur í sér staðfestingu á þessu. Í máli því, sem hér er til úrlausnar, var bæði endurskoðendum og fjármálastjóra og framkvæmdastjóra félagsins ljóst, að innra eftirlit var ekki framkvæmt sem skyldi og afstemmingar reikninga lágu ekki alltaf fyrir, ýmist við gerð milliuppgjöra eða ársreiknings, og hafði það gerst ítrekað. Sú skylda hvíldi á framkvæmdastjóra og fjármálastjóra félagsins að kanna þetta nánar. Stefndu bar sem endurskoðendum félagsins einnig að sjá um, að afstemmingar allra bókhaldsreikninga þess lægju fyrir, áður en þeir luku endurskoðun ársreikningsins, og áttu þeir að vekja athygli stjórnar áfrýjanda skriflega á umræddum annmörkum. Benda atvik málsins til þess, að á hafi skort, að skyldu þeirra til að sannreyna eignastöðu félagsins hafi verið nægjanlega gætt.

Samkvæmt framansögðu verður ekki hjá því komist að telja stefndu eiga að hluta til sök á því, að ekki komst upp um fjárdráttinn fyrr en um mitt ár 1996, en hann hafði staðið yfir óslitið frá árinu 1992. Þykja þeir bera nokkra ábyrgð á því gagnvart félaginu sjálfu, að tjónið varð meira en þurft hefði að vera, hefðu þeir staðið öðruvísi að verki. Verða stefndu því dæmdir til að greiða áfrýjanda bætur að álitum. Með hliðsjón af 134. gr. laga nr. 2/1995 teljast þær hæfilegar 4.000.000 krónur með vöxtum svo sem í dómsorði greinir.

Stefndu greiði áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 600.000 krónur.

D ó m s o r ð :

Stefndu, PricewaterhouseCoopers ehf. og Gunnar Sigurðsson, greiði in solidum áfrýjanda, Nathan & Olsen hf., 4.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. mars 1998 til greiðsludags.

Stefndu greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 26. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Natan og Olsen hf., Vatnagörðum 20, Reykjavík, með stefnu birtri 26. febrúar 1998 in solidum á hendur Pricewater­house­­Coopers ehf. (hét við stefnubirtingu Coopers & Lybrand – Hagvangur hf.), kt. 690681-0139, Höfðabakka 9, Reykjavík, og Gunnari Sigurðssyni, löggiltum endurskoðanda, kt. 250139-4709, Vesturfold 52, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 25.528.062,00, auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, með 0,8% vöxtum frá 16. janúar 1997 til 1. febrúar s.á., með 0,9% vöxtum frá þeim degi til 1. júní s.á., með 1% vöxtum frá þeim degi til 1. ágúst s.á., með 0,9% vöxtum frá þeim degi til 1. september s.á., með 0,8% vöxtum frá þeim degi til 1. janúar 1998 og með 0,9% vöxtum frá þeim degi til 26. mars s.á., en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er krafizt, að dæmt verði, að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 26. marz 1999.

Að auki er þess krafizt, að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt reikningi eða mati dómsins.

 

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað.

 

II.

Málavextir:

Málavextir eru þeir, að við gerð milliuppgjörs í Nathan & Olsen hf. fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 1996 og afstemningar því tengdu kom í ljós misræmi í bókhaldi félagsins.  Nánari eftirgrennslan leiddi í ljós, að gjaldkeri félagsins, Sæunn Þuríður Sævarsdóttir, kt. 150864-2599, Lækjarhjalla 4, Kópavogi, hafði dregið sér fé úr sjóðum fyrirtækisins.  Málið var kært til Rannsóknarlögreglu ríkisins hinn 28. ágúst 1996.  Sæunn viðurkenndi fjárdrátt á tímabilinu apríl 1992 til júlí/ágúst 1996, án þátttöku eða vitundar annarra starfsmanna félagsins.

Rannsókn á bókhaldsgögnum stefnanda, sem framkvæmd var af starfsmönnum stefndu og stefnanda leiddi í ljós, að fjárdrátturinn á umræddu tímabilinu nam samtals kr. 32.037.325,-, sem skiptist þannig milli ára:

 

1992        kr.              5.287.411

1993        kr.              3.432.862

1994        kr.              8.429.358

1995        kr.            10.498.120

1996        kr.              4.389.574

 

Aðdragandi málsins var sá, að Natan & Olsen hafði keypt endurskoðunar- og sérfræðiþjónustu frá PricewaterhouseCoopers ehf. í nokkra áratugi og allt fram til desember 1996.  Gunnar Sigurðsson, löggiltur endurskoðandi hafði áritað reikningsskil félagsins hin síðari ár og verið ábyrgur fyrir þeirri þjónustu, sem félaginu var veitt, og hafði hann verið kjörinn endurskoðandi félagsins á grundvelli laga um hlutafélög nr. 32/1978, XI. kafla, og eftir gildistöku laga um ársreikninga nr. 144/1994 var hann kosinn á grundvelli VII. kafla þeirra laga af hluthöfum stefnanda.  Jafnframt endurskoðun ársreiknings félagsins, auk ráðgjafarstarfa, annaðist PWC einnig gerð milliuppgjöra fyrir félagið, allt til ársins 1991.  Dótturfyrirtæki PWC, Tölvumiðstöðin hf. annaðist tölvuvinnslu bókhaldsgagna stefnanda árin 1975-1985.  Frá árinu 1985 veitti PWC stefnanda ráðgjöf um skipulagningu bókhalds og innra eftirlits, auk þess að vera endurskoðendur félagsins.  Starfsmaður Tölvumiðstöðvarinnar hf. frá 1981 og framkvæmdastjóri frá 1983 var Ólafur Tryggvason, en hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur af endurskoðunarsviði árið 1982, en með námi hafði hann unnið hjá PWC á árunum 1977-1981.  Árin 1981 til 1991 vann Ólafur við bókhald og gerð milliuppgjöra og ársreikninga fyrir stefnanda undir stjórn Gunnars Sigurðssonar. 

Breyting varð á verkaskiptingu stefnanda og stefndu á árinu 1991, þegar Ólafur Tryggvason lét af störfum hjá Tölvumiðstöðinni hf. og var ráðinn fjármálastjóri hjá stefnanda.  Tók Ólafur þá við gerð milliuppgjöra og ársreikninga, sem PwC hafði áður annazt.  Starf PwC eftir þessa breytingu laut að endurskoðun á ársreikningi félagsins, auk tilfallandi ráðgjafar, sem leitað var eftir hverju sinni af félagsins hálfu.

Fram til ársins 1991 eða 1992 var gjaldkeri Nathan & Olsen hf. Garðar Fenger.  Sæunn færði bókhaldið, og starfsmaður að nafni Birna sá að mestu um afstemmingar á því.  Á árinu 1991 eða 1992 tók Sæunn að sér öll þessi verkefni.  Næsti yfirmaður hennar var fjármála­stjóri félagsins, sem jafnframt hafði yfirumsjón með bókhaldi þess.  Sæunn mun hafa notið mikils trausts, m.a. vegna þess að afi hennar hafði átt farsælt starf hjá félaginu í fjöldamörg ár, áður en Sæunn tók við, en einnig hafði hún verið formaður starfsmannafélags og var vinsæl og virk í félagslífi.

Öll árin, sem Sæunn gegndi samhliða starfi bókara og gjaldkera, voru skil hennar á afstemmingum síðbúin, og þegar gengið var eftir þeim, bar hún fyrir sig önnum vegna annarra verkefna.  Af hálfu stefnanda var ekki talin ástæða, að því er virðist vegna þess mikla trausts, sem hún naut innan félagsins, til að kanna færslur hennar sérstaklega, þrátt fyrir ítrekuð vanskil á afstemmingum, auk þess sem afstemmingar voru aldrei tilbúnar allar á sama tíma.  Þá liggur enn fremur fyrir, að ársreikningar voru áritaðir af endurskoðanda félagsins án athugasemda, þótt allar afstemmingar lægju ekki fyrir við lokafrágang ársreiknings.  

 

Stefndu sáu m.a. um endurskoðun ársreikninga stefnanda fyrir rekstrarárin 1992-1995 og fram eftir árinu 1996, er samstarfsslit urðu í kjölfar þess að fjárdrátturinn uppgötvaðist.  Fyrir árin 1992, 1993 og 1994 fylgdi svohljóðandi áritun skýrslu endurskoðenda:

 

“Við höfum endurskoðað ársreikning þennan fyrir Nathan & Olsen hf. árið 1992 (1993 og 1994).  Ársreikningurinn hefur að geyma rekstrarreikning, efnahags­reikning, sjóðstreymi, yfirlit um reiknings­skila­aðferðir, skýringar nr. 1-10 (1-11 fyrir 1993 og 1-9 fyrir 1994) og yfirlit yfir rekstur síðastliðinna 5 ára.

Endurskoðunin var framkvæmd eftir góðri endurskoðunarvenju og voru í því sambandi gerðar þær kannanir á bókhaldi og bókhaldsgögnum, sem við töldum nauðsynlegar.  Ársreikningurinn sem gerður er í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju, sýnir að okkar áliti glögga mynd af rekstri félagsins árið 1992, efnhag þess 31. desember 1992 og breytingu á handbæru fé árið 1992.”

 

Áritun endurskoðenda fyrir árið 1995 var svohljóðandi:

 

“Til stjórnenda og hluthafa Nathan & Olsen hf.

 

Við höfum endurskoðað ársreikning Nathan & Olsen hf,. fyrir árið 1995.  Ársreikningurinn hefur að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, sjóðstreymi, yfirlit um reikningsskilaaðferðir og skýringar nr. 1-9.  Ársreikningurinn er lagður fram af stjórnendum félagsins og á ábyrgð þeirra og í samræmi við lög og reglur.  Ábyrgð okkar felst í því áliti sem við látum í ljós á ársreikningum á grundvelli endurskoðunarinnar.

Endurskoðað var í samræmi við góðar endurskoðunarvenjur.  Samkvæmt því ber okkur að skipuleggja og haga endurskoðuninni þannig að nægileg vissa fáist um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka.  Endurskoðunin felur í sér athuganir á gögnum með úrtakskönnunum til að sannreyna fjárhæðir og upplýsingar sem koma fram í ársreikningnum.  Endurskoðunin felur einnig í sér athugun á þeim reikningskilaaðferðum og matsreglum sem notaðar eru við gerð ársreikningsins og mat á framsetningu hans í heild.  Við teljum að endurskoðunin sé nægjanlega traustur grunnur til að byggja álit okkar á.

Það er álit okkar að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu félagsins árið 1995, efnahag þess 31. desember 1995 og breytingu á handbræu fé árið1995, í samræmi við lög, samþykktir félagsins og góða reikningsskilavenju.  Reykjavík, 1. mars 1996. Endurskoðunarmiðstöðin Coopers & Lybrand ehf. Gunnar Sigurðsson lögg. endurskoðandi”.

 

Tilsvarandi áritanir koma fram í samstæðureikningum stefnanda fyrir sömu ár.

Í bréfum stefndu til stjórnar stefnanda fyrir árin 1995, dags. 1. marz 1996, 1994, dags. 1. marz 1995 og 1992, dags. 12. febrúar 1993, til innfærslu í endurskoðunarbók vegna þeirra ára, segir efnislega, að framkvæmd hafi verið endurskoðun á ársreikningi félagsins í samræmi við viðteknar endurskoðunarvenjur, gerð hafi verið könnun á innra eftirliti, og hafi sú endurskoðun og könnun ekki gefið tilefni til sérstakra athugasemda.

Sæunn var ákærð fyrir fjárdrátt með ákæruskjali ríkissaksóknara, dags. 18. febrúar 1997, og var dómur verið kveðinn upp í því máli hinn 13. marz sama ár.  Var hún dæmd til að sæta fangelsi í 2 ár.  Í því máli var lögð fram bótakrafa, að fjárhæð kr. 32.037.322, sem Sæunn samþykkti sem rétta.  Var hún dæmd til greiðslu á kr. 25.528.062,72, ásamt vöxtum, en þá var hún búin að greiða inn á kröfuna kr. 7.004.684.

Aðfararbeiðni var send til Sýslumannsins í Kópavogi hinn 12. maí 1997.  Aðför varð árangurslaus.  Þegar það lá fyrir, var óskað gjaldþrotaskipta á búi Sæunnar, en samkvæmt skýrslu skiptastjóra, dags 30. október 1997, fundust engar eignir í búinu. 

Þegar fyrir lá, að stefnandi fengi tjón sitt ekki bætt fremur en að framan er rakið úr búi Sæunnar, freistuðu þeir þess að semja við stefndu um bóta­greiðslur.  Þær umleitanir báru ekki árangur, en aðilar sættust á að leita óskuldbindandi álits tveggja tilkvaddra, sérfróðra, óvilhallra manna um það verkefni að greina orsakir þess, að umræddur fjárdráttarferill komst ekki fyrr upp en raun varð á.  Til þess starfa hafi voru fengnir tveir löggiltir endurskoðendur, þeir Guðlaugur Guðmundsson og Þorvarður Gunnarsson, og skiluðu þeir skýrslu um málið þann 9. febrúar 1998.  Í niðurstöðum þeirra kemur m.a. fram, að Sæunn hafi notið nær ótakmarkaðs trausts  bæði forráðamanna félagsins og endurskoðenda, að innra eftirlit félagsins hafi verið   veikt í ýmsum atriðum og ekki hafi verið hafðar í frammi nauðsynlegar aðgerðir til að bæta úr þeim veikleikum og að bæði stefnandi og stefndu hafi ofmetið það aðhald og eftirlit, sem hvor um sig taldi hinn veita Sæunni.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um bótaskyldu stefndu fyrir það tjón, sem stefnandi varð fyrir vegna fjárdráttarins.

 

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að hann hafi um árabil notið sérfræðiaðstoðar stefndu á sviði reikningshalds, og hafi þeir gegnt endurskoðunarstörfum í þágu stefnanda á umræddu tímabili.  Hafi stjórn stefnanda, jafnt sem framkvæmdastjórn, ekki haft ástæðu til annars en að treysta réttmæti árlegra bréfa og skýrslna stefndu til stjórnar félagsins um að jafnt innri sem ytri málefni stefnanda væru í góðu horfi, og hvorki væri ástæða til athugasemda eða aðgerða af þeirra hálfu í því sambandi.

Nú hafi stefndi, Gunnar Sigurðsson, aftur á móti staðfest fyrir rétti við skýrslu­töku hinn 11. mars 1997, að hann hafi lokað ársreikningum félagsins fyrir árið 1995 með athugasemdalausri áritun, enda þótt Sæunn Sævarsdóttir, sem átti að láta hann fá lykilgögn til staðfestingar réttmætis reikninganna, hefði ekki skilað afstemmingum til hans í “tæka tíð” fyrir gerð ársreikningsins 1995, eins og hann orði það í skýrslunni.

Jafnframt lýsi stefndi, Gunnar, því viðhorfi sínu til endurskoðunarstarfans, “að endurskoðun sé ekki skipulögð með það fyrir augum að koma í veg fyrir eða upplýsa misferli, þótt slíkt geti komið í ljós við endurskoðun, en það sé fyrst og fremst innra eftirlit fyrirtækis og stjórnenda þess, sem ætti að koma í veg fyrir eða að upplýsa slík tilfelli”.

Stefndu hafi verið skylt sem kosnum og ráðnum sérfræðingum á sviði reikningsskila, bæði á grundvelli laga og samninga við stefnanda, að kanna og staðreyna alla þá þætti í bókhaldi félagsins, sem hefðu komið upp um fjárdrátt Sæunnar.  Það hafi þeir aftur á móti ekki gert, og því hafi farið sem fór.

Í skýrslu endurskoðendanna frá 9. febrúar 1998 komi fram, að endurskoðendur félagsins hafi tekið eftir misfellum varðandi afstemmingar á tékkareikningum ársins 1994, en þeir hafi hvorki fylgt þeirri vitneskju eftir með gagnakönnunum né skriflegum athugasemdum við stjórnendur félagsins.  Í sömu skýrslu sé staðfest, að stefndu hafi aldrei kynnt forráðamönnum stefnanda skriflega þann veikleika, sem hann segist nú ætíð hafa gert sér grein fyrir, að hafi verið til staðar varðandi innra eftirlit hjá félaginu.  Stefndi, Gunnar, kveðist þó eitthvað hafa rætt skort á afstemmingum við yfirmenn stefnanda, gjarnan fyrir aðalfundi félagsins.  Í skýrslunni segi aftur á móti, að þeir hafi talið stefndu hafa allar afstemmingar og/eða myndu ganga eftir þeim afstemmingum við Sæunni Sævarsdóttur, sem þeir hefðu ekki undir höndum.

Í einhverjum tilvikum muni starfsmenn stefndu, sem ekki séu löggiltir til starfans, hafa unnið að endurskoðunarverkefnum stefndu, en ef ágallar verksins verði raktir til starfa þeirra, sé á því byggt, að stefndu beri húsbóndaábyrgð á störfum þeirra aðila.

Bæði hin faglega endurskoðunarvinna stefnda, Gunnars, og annarra starfsmanna hins stefnda endurskoðunarfélags og önnur þjónusta, sem þeir hafi látið í té, hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur, sem gera verði til slíkrar vinnu.  Sú vinna hafi ekki uppfyllt ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga um ársreikninga nr. 144/1994 eða ákvæði 1. mgr. 86. gr. laga nr. 32/1978 um hlutafélög.  Jafnframt liggi nú fyrir, að stefndu hafi beinlínis blekkt stjórn og hluthafa stefnanda með bréfum til stjórnarinnar um innra eftirlit félagsins og athugasemdalausum áritunum og með því hafi stefndu þverbrotið ákvæði 10. gr. laga um endurskoðendur nr. 67/1976 og 7. og 8. gr. núgildandi laga nr. 18/1997 um endurskoðendur.

Á því sé byggt, að hefðu störf þau og þjónusta, sem stefndu voru ýmist kosnir til og/eða ráðnir til, verið unnin á fullnægjandi hátt og í samræmi við grundvallaratriði endurskoðunar samkvæmt ákvæðum laga, reglugerða og samkvæmt leiðbeiningum í handbók Félags löggiltra endurskoðenda, hefði fjárdrátturinn komizt upp strax haustið 1992, eða í síðasta lagi við endurskoðun reikninga þess árs á fyrri hluta ársins 1993.   Þá hefði verið unnt að koma í veg fyrir allt það tjón, sem síðar hafi orðið, auk þess sem fyrir liggi, að greiðslugeta Sæunnar Þ. Sævarsdóttur hafi verið slík, að hún hefði getað endurgreitt það fé, sem hún hafði þá dregið sér.

Krafa stefnanda um tjónbætur sé öðrum þræði byggð á ákvæðum XVI. kafla hluta­­félagalaga nr. 32/1978, nú XV. kafla hlutafélagalaga nr. 2/1995 og almennu skaðabótareglunni, og sé á því byggt, að stefndi, Gunnar, persónulega og sem starfs­maður hins stefnda félags og sem kosinn endurskoðandi stefnanda, hafi valdið stefnanda tjóni af stórkostlegu gáleysi.  Á því sé byggt af hálfu stefnanda, að beint orsakasamband sé á milli vanrækslu stefndu og fjárhaglegs tjóns stefnanda, jafnframt því að tjónið sé bein afleiðing af vanrækslu stefndu.  Að því marki, sem við eigi, sé annars vegar byggt á húsbóndaábyrgð stefnda, Coopers & Lybrand – Hagvangs hf. (nú PricewaterhouseCoopers ehf.), á starfsmönnum félagsins við umrædda vinnu í þágu stefnanda, og hins vegar á faglegri ábyrgð stefnda, Gunnars, á heildarverkinu.

Byggt sé á solidariskri ábyrgð stefndu vegna tengsla þeirra, kosningu Gunnars og ráðningu beggja til hins umrædda verkefnis, auk undirritunar beggja undir áritanir á ársreikninga og endurskoðunarskýrslur.

Ekki hafi komizt upp um fjárdráttarferil Sæunnar fyrr en um mitt ár 1996.  Sá ferill hafi verið óslitinn frá árinu 1992, og á öllu því tímabili hafi stefndu annazt endurskoðun bókhalds og ársreikningagerð, ásamt þeim skýrslum og annarri vinnu, sem gerð hafi verið grein fyrir í stuttu máli.  Stefnandi hafi því hvorki haft möguleika né ástæðu til neinna aðgerða, fyrr en á árinu 1996.  Málið hafi verið rekið gagnvart Sæunni með eins miklum hraða og unnt var, og það sé ekki fyrr en nú, sem telja megi fyllilega ljóst, hvert fjárhagslegt tjón stefnanda raunverulega sé, auk þess sem nú liggi fyrir, að Sæunn muni ekki bæta tjónið frekar.  Á því sé byggt af hálfu stefnanda, að vanræksla stefndu á árunum 1992-1996 á skyldum sínum að lögum og samningskyldum gagnvart stefnanda um að kanna innra eftirlit stefnanda á fullnægjandi hátt og viðhafa viðeigandi rannsóknir, svo sem að framan sé rakið, allan þennan tíma, hafi leitt til þess annars vegar, að ekki komst upp um fjárdráttinn fyrr og hins vegar til hins mikla umfangs tjónsins. 

Ákvörðun um höfðun máls þessa hafi verið tekin á hluthafafundi stefnanda hinn 18. febrúar 1998.   Hún hafi verið ákveðin að því gefnu, að samkomulag hefði ekki tekizt um greiðslu tjónbóta fyrir 25. þess mánaðar.  Stefndu hafi hafnað bótagreiðslu með bréfi dags. 23. þess mánaðar.  Hafi því ekki verið komizt hjá málshöfðun.

Stefndu muni hafa vátryggt starfsemi sína fyrir tjónbótum af því tagi, sem mál þetta fjalli um, en stefnandi eigi þess ekki kost að stefna því félagi inn í mál þetta.

 

Stefnandi sundurliðar dómkröfu sína þannig:

Fjárdráttur 1992

kr.5.287.411,00

Fjárdráttur 1993

kr.3.432.862,00

Fjárdráttur 1994 

kr.8.429.358,00

Fjárdráttur 1995

kr.10.498.120,00

Fjárdráttur 1996

kr.4.389.574,00

Fjárdráttur samtals árin 1992-1996

kr.32.037.325,00

Óleiðrétt samlagningavilla

kr. 3,00

Höfuðstóll tjónbótakröfu í sakamálinu

kr.32.037.322,0

Vextir samkvæmt 7. gr. vaxtal. til 16. 1. 1997 2

kr.495.424,7

Samtals

kr.32.532.746,72

Innborganir Sæunnar samtals

kr.7.004.684,00

Bótakrafa og dómur í sakamálinu

kr. 25.528.062,00

 

Stefnandi kveðst byggja á eftirtöldum lagaákvæðum:

L. nr. 32/1978 um hlutafélög, einkum XI. kafla og XVI. kafla; l. nr. 2/1995 um hlutafélög, XV. kafla o.fl. ákvæðum; l. nr. 67/1976 um löggilta endurskoðendur, 7. og 10. gr.; l.. nr. 18/1997 um endurskoðendur, 1., 6., 7., 8., og 10. gr.; l. nr. 144/1994 um ársreikninga, VI. kafla um endurskoðun; almennum reglum skaðabóta-, kröfu- og samningaréttar.

Málskostnaðarkrafan er gerð á grundvelli 130. gr. l. nr 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.

 

Málsástæður stefndu:

Stefndu byggja kröfur sínar á eftirfarandi málsástæðum:

 

1.Ársreikningar séu gefnir út á ábyrgð stjórnar félagsins.  Stjórn beri ábyrgð á innra eftirliti.  Markmið endurskoðunar sé ekki að koma upp um misferli.

Þegar fjárdrátturinn hófst, hafi verið í gildi lög um hlutafélög nr. 32/1978, sbr, nú lög nr. 2/1995.  Í 3. mgr. 52. gr. eldri laganna, sbr. 68. gr. yngri laganna segi:

 

"Félagsstjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Ef ráðinn er framkvæmdastjóri skal hann sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti."

 

Í leiðbeinandi reglum um grundvallaratriði endurskoðunar á ársreikningum hlutafélaga (dskj. nr. 46) segi svo í greinum 4.1 og 4.2:

 

"4.1Innra eftirlit, sem á að vera til staðar í félagi og hefur þýðingu fyrir könnun endurskoðanda, felst í aðferðum og aðgerðum til

að tryggja örugga og markvissa bókhaldsskráningu

að varðveita eignir félags

að koma í veg fyrir tjón vegna mistaka eða misferlis

 

4.2 Stjórn félags ber ábyrgð á að fullnægjandi innra eftirlit sé fyrir hendi."

 

Kafli 7 í sömu reglum sé um aðgreiningu á ábyrgð endurskoðanda og stjórnenda félags.  Þar segi:

 

"7.1Stjórnendur félags bera ábyrgð á að ársreikningur sé gerður í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju. Stjórnendum ber einnig að sjá til þess að félag hafi fullnægjandi bókhald og virkt innra eftirlit. Endurskoðanda ber að kanna hvort stjórnendur félags ræki þær skyldur sem að framan greinir.

 

7.2Könnun endurskoðanda beinist að því að komast að raun um hvort ársreikningur félags gefi glögga heildarmynd af afkomu og efnahag þess, en hún beinist ekki sérstaklega að því að leiða í ljós svik eða annað misferli. Við endurskoðun ársreiknings og við könnun og mat á innra eftirliti ber endurskoðanda þó að hafa í huga að misferli kann að eiga sér stað, sem getur haft þýðingu við mat á afkomu og efnahag  félags."

 

2.Skipulag innra eftirlits hjá stefnanda hafi verið gott að mati endurskoðanda.

Lagareglan og leiðbeiningarreglurnar, sem raktar séu hér að framan, séu skýrar um, að félagsstjórn beri ábyrgð á bókhaldi félags og því, að fullnægjandi innra eftirlit sé fyrir hendi.  Þá komi skýrt fram, að könnun endurskoðanda við endurskoðun og gerð ársreiknings beinist ekki sérstaklega að því að leiða í ljós svik eða annað misferli. Slíkt beri þó að hafa í huga að því marki, sem það geti haft þýðingu við mat á afkomu og efnahag félags.  Við mat á því, hvað geti haft þýðingu í því efni, beri að líta til kafla 3 í leiðbeiningarreglunum, þar sem fram komi, að umfang endurskoðunar ráðist m.a. af  mati endurskoðandans á gæðum innra eftirlits félagsins, bókhaldskerfi þess og hæfni starfsmanna og ekki síst kafla 5, þar sem ákvörðun um framkvæmd og umfang endurskoðunar sé háð mikilvægi einstakra þátta og áhættu.

Af dskj. 45 megi ráða, að það hafi verið mat stefnda, Gunnars, að svonefnt eftirlitsumhverfi væri í góðu lagi.  Í skjalinu komi fram, að mat stefnda, Gunnars, hafi verið, að stjórnendur fyrirtækisins væru vel hæfir, og skipurit væri vel skilgreint.  Fram komi, að áreiðanleiki fjárhagsuppgjöra sé mikill og mjög vel virðist vandað til uppgjöra, sem unnin séu af fjármálastjóra.  Fjármálastjórinn hafi sérstakar vinnumöppur, þar sem hvert uppgjör fyrir sig sé varðveitt, og þar séu geymdar afstemmingar.  Þá hafi endurskoðandinn ekki vitað betur en að við gerð milliuppgjöra félagsins, sem voru þrjú á ári, hefði legið fyrir afstemming þeirra reikninga, sem Sæunn annaðist.

Á dskj. 45A sé niðurstaða af könnun stefnda, Gunnars, á innra eftirliti félagsins árið 1995.  Sambærilegar kannanir hafi verið gerðar á hverju ári.  Eins og sjáist af spurningalistanum, sé viðfangsefnið að kanna, hvort fyrir hendi séu í fyrirtækinu aðferðir og aðgerðir til að tryggja örugga og markvissa bókhaldsskráningu til að varðveita eignir félagsins og koma í veg fyrir tjón vegna mistaka eða misferlis, sbr. það sem  fram komi í grein 4.1. í leiðbeinandi reglum um endurskoðun ársreikninga hlutafélaga.  Niðurstaðan í tilviki stefnanda hafi verið sú, að þessi atriði væru í lagi.

 

Til framangreindra niðurstaðna hafi endurskoðandanum borið að líta, þegar tekin hafi verið ákvörðun um framkvæmd og umfang endurskoðunar, sbr. það sem rakið hafi verið um efni 3. kafla leiðbeiningarreglnanna.

 

3.Áritun hafi verið í samræmi við góða endurskoðunarvenju.

Áritun stefnda, Gunnars, á ársreikning félagsins hafi verið í samræmi við góða endurskoðunarvenju.  Eins og fram komi á minnisblöðunum á dskj. 41-44, hafi endurskoðandinn jafnan átt fund með stjórnendum félagsins, áður en ársreikningurinn var áritaður.  Á þessum fundum hafi verið farið yfir þau atriði, sem í ljós höfðu komið við endurskoðunarvinnuna, sem betur máttu fara, eða endurskoðandinn vildi ræða við stjórnendurna.  Minnisblöðin beri það með sér, að meðal þessara atriða hafi verið, að afstemmingar á tilteknum reikningum vantaði.  Stjórnendur félagsins kannist við að hafa móttekið þessar athugasemdir, en haldi því fram, að þær hafi ekki verið gerðar af miklum þunga.

Ársreikningur hlutafélags sé gefinn út á ábyrgð stjórnar, og ákvörðun um útgáfu hans hafi stjórnendur félagsins tekið, að fengnum athugasemdum endurskoðandans. Stefndi, Gunnar, hafi áritað reikninginn um endurskoðun, enda hafi hann talið, að reikningurinn í heild sinni gæfi glögga mynd af stöðu félagsins.  Við þetta mat hafi honum borið að líta til mikilvægisreglunnar, sem lýst er í kafla 5 í leiðbeiningarreglunum á dskj. nr. 46.  Að mati stefnda, Gunnars, hafi hugsanlegar skekkjur á þeim reikningum, sem afstemmingar vantaði á, ekki getað breytt þeirri heildarmynd, sem reikningsskilin sýndu af stöðu félagsins.  Hér beri og að hafa í huga, að mat Gunnars hafi verið, að innra eftirlit félagsins væri gott, eftirlit fjármálastjóra með störfum Sæunnar væri traust, og þá staðreynd, að hann taldi milliuppgjör félagsins byggð á afstemmdum reikningum.  Líkur á, að skekkjur á óafstemmdum reikningum hefðu áhrif á heildarniðurstöðu reikningsskilanna, hafi því verið hverfandi að mati endurskoðandans.

Í samantekt endurskoðendanna, Guðlaugs og Þorvarðar, á umfangi fjárdráttarins (dskj. nr. 29, bls. 8) megi sjá, hvert umfang fjárdráttarins var sem hlutfall af tekjum og niðurstöðu efnahagsreiknings árin 1992-1995, þ.e þau ár, sem stefndi, Gunnar, áritaði ársreikninginn um endurskoðun:

 

Ár

Hlutfall af efnahagsreikningi

Hlutfall af tekjum

1992

1,1%

0,9%

1993

1,6%

0,5%

1994

2,8%

1,0%

1995

4,1%

1,1%

 

 

Það hafi verið fyrst á árinu 1995, sem umfang fjárdráttarins var farið að nálgast þau mörk (5%) að hafa áhrif á niðurstöðu reikningsskilanna í þeim mæli, að unnt sé að halda því fram, að heildarmynd hafi tekið að raskast.  Öll árin hafi fjárdrátturinn verið mjög lágt hlutfall af tekjum félagsins.  Þegar það sé og haft í huga, að stefndi, Gunnar, hafi talið, að milliuppgjör félagsins hefðu byggzt á afstemmdum reikningum, verði honum ekki gefið að sök að hafa metið stöðuna þannig, að það raskaði ekki heildarmynd reikningsskilanna, þótt afstemmingar allra reikninga lægju ekki fyrir.

 

4.Ástæður þess að fjárdrátturinn uppgötvaðist svo seint.

Að mati stefndu séu tvær aðalástæður fyrir því, að fjárdráttur Sæunnar gat staðið svo lengi:

Önnur aðalorsökin sé sú, að Sæunn gerði allt, sem henni var unnt, til þess að leyna fjárdrættinum, m.a. með fölsun fylgiskjala.

Hin aðalorsökin sé sú, að stjórnendur fyrirtækisins hafi horft fram hjá venjulegum varúðarreglum, þegar Sæunn átti í hlut, að því er virðist vegna þess, að þeir töldu, að hún væri sérstaks trausts verð.  Fjármálastjóri fyrirtækisins hafi gert milliuppgjör félagsins árum saman, án þess að afstemmingar lægju fyrir á þeim reikningum, sem Sæunn hafði með að gera.  Stefndi, Gunnar, hafi gert stjórnendum félagsins grein fyrir því við áritun ársreiknings, að ekki lægju fyrir afstemmingar á öllum reikningum, sem Sæunn bar ábyrgð á.  Við þessu hafi ekki verið brugðizt í fyrirtækinu.  Á því beri stjórnendur þess einir ábyrgð, enda hafi þeir einir haft rétt til þess að skipa Sæunni fyrir í störfum hennar og/eða gera ráðstafanir til þess að breyta verkaskiptingu hjá félaginu, í því skyni að draga úr áhættu á misferli.  Endurskoðandi félags hafi engan slíkan afskiptarétt gagnvart starfsmönnum þess.  Að mati stefnda hafi skipulag innra eftirlits hjá félaginu verið í megindráttum gott.  Það sem brást hafi ekki verið skipulagið sem slíkt, heldur hafi framkvæmd þess misfarizt í höndum stjórnenda félagsins.

 

5.Ekkert tjón hefði orðið ef fjármálastjóri og framkvæmd innra eftirlits hefði ekki brugðizt.

Óumdeilt sé, að fjárdráttur Sæunnar uppgötvaðist með þeim hætti, að fjármálastjóri stefnanda, Ólafur Tryggvason, hafi unnið að gerð milliuppgjörs fyrir annan ársfjórðung ársins 1996.  Að hans eigin sögn (dskj. nr. 32) hafi hann ekki fengið í hendur fullnægjandi afstemmingar.  Hann hafi því yfirfarið þær afstemmingar, sem Sæunn hafði lokið, og gert sjálfur þær, sem ólokið var.  Þegar þetta var gert, hafi undanskotið komið í ljós.

Milliuppgjör hafi verið gerð af fjármálastjóra stefnanda þrisvar sinnum á ári og ársreikningur eftir lok reikningsársins.  Stefnandi hafi sjálfur annazt gerð milliupp­gjöranna og ársreikningsins, en stefndi endurskoðaði ársreikninginn.  Við gerð milliuppgjöranna hafi fjármálastjórinn hverju sinni kallað eftir afstemmingum á öllum reikningum frá Sæunni.  Fram komi í greinargerð fjármálastjórans (dskj. nr. 32, bls. 4), að Sæunn hafi iðulega svarað því til, að hún væri að vinna í afstemmingunum og hún ætti aðeins eftir að lista þær upp og honum væri óhætt að klára uppgjörið, þar sem fyrirsjáanlegt væri, að engar leiðréttingar þyrfti að gera.  Ekki geti verið vafa undirorpið, að óforsvaranlegt hafi verið af fjármálastjóranum að ljúka gerð milliuppgjöranna, án þess að ganga úr skugga um, að afstemmingarnar kæmu fram. Sérstök ástæða hafi verið til varfærni, þegar sömu viðbárur frá bókaranum/gjaldkeranum voru settar fram aftur og aftur.  Virðist blasa við, að hefði fjármálastjórinn hverju sinni beitt þeim vinnu­brögðum, sem hann notaði við gerð milliuppgjörsins fyrir 2. ársfjórðung 1996, hefði fjárdrátturinn aldrei getað staðið nema skamman tíma og tjón því ekkert orðið.  Það tilefni, sem fjármálastjórinn hafði árið 1996 til þess að yfirfara afstemmingar frá Sæunni og vinna aðrar sjálfur, hafi verið fyrir hendi allan þann tíma, sem fjárdrátturinn stóð.

 

6.Væntingabil.

Að mati stefnda beri málsókn þessi keim af því væntingabili (enska "audit expectations gap"), sem sé á milli þeirrar tryggingar, sem stjórnendur fyrirtækja telji oft, að felist í endurskoðun ársreikninga félags, og þess, sem þeir í reynd megi gera ráð fyrir.  Kjarni málsins sé sá, að endurskoðun ársreiknings feli ekki í sér tryggingu gegn misferli.  Þvert á móti sé skýrlega tekið fram í leiðbeinandi reglum um grundvallaratriði endurskoðunar á ársreikningum hlutafélaga (dskj. nr. 46, grein 7.2), að könnun endurskoðandans beinist að því að komast að raun um, að reikningurinn gefi glögga heildarmynd af afkomu og efnahag félags, en ekki sérstaklega að því að leiða í ljós svik eða annað misferli.

 

7.Mismunandi staða þegar þriðji aðili verði fyrir tjóni og þegar félagið sjálft verði fyrir tjóni.

Í máli þessu liggi fyrir, að stefndi, Gunnar, hafi vakið athygli stjórnenda félagsins á því, að honum hefðu ekki borizt afstemmingar allra þeirra reikninga, sem Sæunn annaðist, áður en ársreikningurinn var áritaður um endurskoðun.  Þessara athugasemda hafi hins vegar ekki verið getið í áritun endurskoðandans.  Við mat á þýðingu þessa verði að líta til þess, hver hafi orðið fyrir tjóni.  Reynist heildarmynd reikningsskila röng af ástæðu eins og þessari, og verði þriðji aðili fyrir tjóni af þeim völdum, eins og t.d. lánveitandi, sem láni félagi fé í trausti réttmætis reikningsskilanna, en tapi því síðar vegna gjaldþrots félagsins, þá kynni ábyrgð endurskoðandans að koma til álita, að uppfylltum almennum skilyrðum um bótaskyldu.  Allt öðru máli gegni um félagið sjálft.  Félagið sjálft hafi borið ábyrgð á störfum Sæunnar og eftirliti með þeim.  Stjórnendum þess hafi verið gerð grein fyrir því, að afstemmingar höfðu ekki borizt.  Við þessar aðstæður sé útilokað, að félagið geti gert endurskoðandann ábyrgan fyrir tjóni, sem leiddi af misferli starfsmannsins og því eftirlitsleysi, sem gerði langvarandi misferli mögulegt.

 

8.Mótmæli gegn málsástæðum stefnanda.

Mótmælt sé þeim málsástæðum, sem fram komi í stefnu, sem stefnandi telji leiða til skaðabótaskyldu stefndu.  Því sé almennt mótmælt, að háttsemi stefnda, Gunnars, og samstarfsmanna hans geti á nokkurn hátt talizt saknæm, og því séu hvorki skilyrði til beinnar skaðabótaábyrgðar né bótaskyldu á grundvelli húsbóndaábyrgðar.  Því sé sérstaklega mótmælt, að stefnda, Gunnari, "... hafi verið skylt sem kosnum og ráðnum sérfræðingi á sviði reikningsskila, bæði á grundvelli laga og samninga við stefnanda, að kanna og staðreyna alla þá þætti í bókhaldi félagsins, sem hefðu komið upp um fjárdrátt Sæunnar."  Í leiðbeiningarreglum um grundvallaratriði endurskoðunar á ársreikningum hlutafélaga, grein 7.2, komi fram, að könnun endurskoðanda beinist að því að komast að raun um, hvort ársreikningur gefi glögga heildarmynd af afkomu og efnahag félags, en beinist ekki sérstaklega að því að leiða í ljós svik eða annað misferli.  Þá sé viðurkennt, að stefndi, Gunnar, hafi gert stjórnendum félagsins grein fyrir því á fundum, að afstemmingar á tilteknum reikningum væru ekki fyrir hendi. Þótt slíkt hafi ekki verið tilkynnt skriflega, geti það ekki skipt máli, þegar fyrir liggi sönnun þess, að á annmarkann hafi verið bent.  Því sé andmælt, að fagleg endurskoðunarvinna stefndu hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur um slíka vinnu.  Þvert á móti hafi endurskoðunin verið vel unnin og gerð með kerfisbundnum hætti, samkvæmt þeim kröfum, sem gera megi til vinnu við endurskoðun ársreikninga.  Sé almennt viðurkennt, að stefndi, Gunnar, sé meðal færustu sérfræðinga á þessu sviði.  Hafa verði hugfast, að félagið sjálft hafi annazt gerð og endurskoðun milliuppgjöra og séð um gerð ársreikningsins. 

 

9.Varakrafa stefndu.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, að stefndu hafi, með saknæmum og ólögmætum hætti, átt þátt í því tjóni, sem stefnandi varð fyrir vegna fjárdráttar starfsmanns hans, þá sé þess krafizt, að bótafjárhæðin verði lækkuð verulega eða felld niður með vísan til 3. mgr. 134. gr. laga um hlutafélög, 24. gr. skaðabótalaga og reglna um eigin sök tjónþola.  Að mati stefndu sé ljóst, að tjón stefnanda eigi sér einkum tvær orsakir.  Annars vegar sé tjónið afleiðing af refsiverðri háttsemi starfsmanns stefnanda og hins vegar af því andvaraleysi stjórnenda félagsins, sem leitt hafi af takmarkalitlu trausti í garð starfsmannsins, ásamt alvarlegum skorti á eftirliti með störfum hans.  Hugsanleg sök stefndu sé svo lítil, samanborið við sök stefnanda, að leiða ætti til niðurfellingar bótaábyrgðar eða stórkostlegrar lækkunar bótafjárhæðar.

 

10.Krafa um málskostnað.

Krafa um málskostnað sé reist á 130. gr. laga um meðferð einkamála.  Vakin sé athygli á því, að stefndu hafi greitt helming kostnaðar við álitsgerð endurskoðendanna, Þorvarðar og Guðlaugs, samkvæmt reikningi á dskj. nr. 30.

 

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Ólafur Tryggvason, fjármálastjóri stefnanda, stefndi, Gunnar Sigurðsson, löggiltur endurskoðandi, Guðlaugur Guðmundsson og Þorvarður Gunnarsson, löggiltir endurskoðendur, Vilhjálmur Fenger, framkvæmda­stjóri stefnanda, og Sighvatur Halldórsson, löggiltur endurskoðandi, starfsmaður stefnda.

Það er ágreiningslaust, að umræddur fjárdráttur var falinn með því að gjaldkerinn/bókarinn, Sæunn Sævarsdóttir, ýmist falsaði afstemmingar eða skilaði þeim ekki á réttum tíma og aldrei öllum í einu, og að ársreikningar félagsins voru áritaðir án athugasemda, þótt allar afstemmingar lægju ekki fyrir. 

Í framburði Ólafs Tryggvasonar fyrir dómi kemur fram, að hann fékk ítrekað munnlegar upplýsingar frá Sæunni um afstemmingar fyrir gerð milliuppgjöra og lét það gott heita.  Af framburði hans má skilja, að hann hafi fremur litið á það sem formsatriði, að afstemmingar lægju fyrir á réttum tíma, og yfirfór hann aldrei afstemmingarnar, heldur treysti hann Sæunni fullkomlega og trúði því, að hún næði ekki að skila af sér á réttum tíma vegna mikils vinnuálags.  Hann kvaðst eingöngu hafa afstemmt bókhaldslykla á efnahagsliðum að því leyti, að hann bar saman niðurstöðu á afstemmingu við bókhaldið, þegar hann hafði skriflega afstemmingu.  Meira kvaðst hann ekki hafa gert.  Þá kvaðst hann hafa haft í huga, að endurskoðendur félagsins myndu ganga eftir því, að allar afstemmingar væru til staðar við gerð ársuppgjörs.  Hann kvaðst þó ekki hafa gert Gunnari Sigurðssyni endurskoðanda grein fyrir þessari skoðun sinni.  Einnig bar hann, að hann hefði aldrei gert Gunnari grein fyrir, að Sæunn skilaði afstemmingum almennt seint og illa og stundum alls ekki, og að við gerð milliuppgjöra hafi afstemmingar mikilvægra reikninga oft vantað.  Hann viðurkenndi enn fremur að hafa vitað af veikleika á innra eftirliti félagsins, en margítrekað aðspurður svaraði hann því aldrei hverjum hafi borið að annast þetta innra eftirlit.  Hann kvað það hins vegar ekki vera hluta af innra eftirliti að yfirfara afstemmingu.  Hann bar jafnframt, að hann hefði ekki fylgt því eftir, að Sæunn skilaði þeim afstemmingum, sem á vantaði um áramót, þar sem hann hefði verið sannfærður um, að hún hefði staðið í skilum með þær.  Hann skýrði enn fremur svo frá, að á hverju ári, skömmu fyrir aðalfund, þegar handrit af ársreikningi var tilbúið, hafi hann átt fund með framkvæmdastjóra og endurskoðanda og oftast einnig Sighvati Halldórssyni, aðstoðarmanni Gunnars, og hafi þá verið farið yfir handritið af ársreikningnum.  Kvað hann dskj. nr. 42 greinilega vera minnispunkta frá einum slíkum fundi og stafa frá Gunnari, og ekki ólíklegt að þeir punktar, sem þar komi fram, hafi verið ræddir á þessum fundi.  Alltaf hafi verið farið yfir þar til greinda liði á þessum fundum.  Þar á meðal hafi verið rætt um afstemmingar, sem vantaði.  Hann kvaðst þó aðeins muna eftir einu tilviki, þar sem minnzt var á afstemmingar frá Sæunni, sem vantaði.  Hefði verið talað um, að þær væru raunverulega bara í vinnslu og væru að berast.  Ítrekað aðspurður um þessi atriði, svaraði hann:  "Ég verð að ítreka það sem ég sagði áðan með þessar afstemmingar, sem vantaði.  Ég man eftir, að þetta var einu sinni nefnt við mig eða okkur Vilhjálm á þann hátt, sem ég lýsti áðan."  Hann skýrði einnig svo frá, að hann hefði oftar en einu sinni átt fund með Sæunni ásamt Vilhjálmi Fenger, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, um hennar starf og hvort ráða þyrfti mannesku til að létta af henni vinnuálagi, en það hafi verið sameiginleg niðurstaða, að vinnuálag hennar stafaði af "kúrfum", sem kæmu vegna kaupa á öðrum fyrirtækjum, og ekki væri þörf á aðstoð.

Vilhjálmur Fenger framkvæmdastjóri skýrði svo frá fyrir dómi, að hann minntist þess ekki, að rætt hefði verið á fundunum, sem haldnir voru með endurskoðanda og fjármálastjóra fyrir aðalfund, að afstemmingar hefði vantað frá Sæunni.  Hann kvaðst hins vegar kannast við, að það hafi vantað skriflegar afstemmingar í vinnugögn þeirra Ólafs, en hann kvaðst ekki minnast þess að hafa sagt við endurskoðendurna, Guðlaug Guðmundsson og Þorvarð Gunnarsson, að þeir (Ólafur) hafi aldrei litið á athugasemdir Gunnars Sigurðssonar við vöntun á afstemmingum sem alvarlegt vandamál, eða að Gunnar hafi stundum komið þeim á framfæri og stundum ekki.  Ítrekað aðspurður kvaðst hann hafa vitað af því, að Sæunn náði ekki að skila afstemmingunum og enn fremur hafi honum verið kunnugt um, að svokallaðir geymslutékkar hefðu aukizt verulega.

Endurskoðendurnir, Þorvarður Gunnarsson og Guðlaugur Guðmundsson, staðfestu skýrslu sína á dskj. nr. 29 sem rétta og kváðu það, sem eftir Vilhjálmi Fenger, Ólafi Tryggvasyni og Gunnari Sigurðssyni væri haft, vera byggt á persónulegum samtölum við þá.

Stefndi, Gunnar Sigurðsson, skýrði svo frá fyrir dómi, að Ólafur Tryggvason hefði gert drög að ársreikningi félagsins, og síðan hafi stefndi lokið gerð hans.  Hann kvað sér ekki hafa verið kunnugt um, að Sæunn skilaði ekki reglulega afstemmingum fyrir milliuppgjör, eftir að Ólafur Tryggvason tók við gerð þeirra.  Meðan stefndi annaðist milliuppgjörin, hafi alltaf verið gengið eftir því, að afstemmingar væru fyrir hendi, og hafi stefndi ekki vitað betur en að svo væri áfram.  Ólafur hafi starfað á endurskoðunarskrifstofu stefnda og verið mjög fær í sínu starfi og þekkt vel þær vinnureglur, sem venjulega sé farið eftir.  Hann kvaðst hafa talið, að þær afstemmingar, sem vantaði við gerð áramótauppgjörs, hafi verið einangruð tilvik, en afstemmingar við milliuppgjör, sem gerð væru þrisvar á ári, hefðu legið fyrir þá.  Þegar afstemmingar lágu ekki fyrir við áramót í þeim gögnum, sem Ólafur lét þá hafa, hafi stefndu fyrst leitað til Ólafs og beðið hann um að skila gögnunum til þeirra, en þegar það ekki bar árangur, hafi þeir leitað til Sæunnar.  Hann kvað þá hafa lokið við gerð ársreikninganna engu að síður, en það hafi byggzt á því, að raunverulega hefðu þeir verið búnir að endurskoða allan ársreikninginn, allan rekstrarreikninginn, tekjur og gjöld þar og allan efnahagsreikning, allar eignir og allar skuldir og eigið fé, nema tiltekna, fáa, afmarkaða reikninga.  Þegar svo var komið, að þessa reikninga vantaði, hafi þetta oft verið í tengslum við það, að búið var að ákveða aðalfund hjá félaginu, og stefndi hafi ekki fengið vitneskju um það fyrr en sama dag og fundur var ákveðinn.  Stefndi kvaðst hafa staðið frammi fyrir ákveðnu vandamáli í tengslum við það.  Þegar reikningurinn lá síðan fyrir í uppkasti og áritun tilbúin, þá hafi hann farið yfir þessi atriði með Vilhjálmi Fenger og Ólafi Tryggvasyni á fundi, þar sem gerð hafi verið grein fyrir því, sem vantaði.  Þeir hafi ekki getað bætt úr því á þeim tíma, þannig að það hafi verið sjálfstæð ákvörðun stefnda að árita ársreikninginn eins og hann lá fyrir, þótt vantað hafi afstemmingu á tiltölulega afmörkuðum reikningum, þ.e. þannig að ekki hafi verið líkur á því, að þetta skerti heildarmynd ársreikningsins.  Hann kvað það vera hlutverk endurskoðandans að kanna ársreikninginn og þau stoðgögn, sem þar búi að baki.  Það hafi ekki vakið grunsemdir hjá stefnda, þótt afstemmingar hafi ítrekað vantað, vegna þess að þeir hafi fengið skýringar á því þess efnis, að fyrirtækið hefði vaxið mjög mikið á þessum tíma og starfsfólki jafnframt verið fækkað í bókhaldi.  Sæunn hafi verið störfum hlaðin, en hún hafi greinilega verið mjög dugleg og afkastamikil og virzt komast upp með að skila ekki afstemmingum á réttum tíma.  Þetta hafi verið þau svör, sem þeir fengu á fundum með Vilhjálmi og Ólafi og reyndar frá Sæunni einnig.  Þegar Sighvatur hafi farið í gegnum venjulega endurskoðun í fyrirtækinu, hafi hann séð, að fyrir lágu yfirleitt afstemmingar á öllum liðum allt árið, en hins vegar komi hvergi fram, að þessar afstemmingar hafi kannski aldrei verið gerðar á sama tíma.  Hún (þ.e. Sæunn) stemmi af ákveðna reikninga yfir einn mánuð og þá þurfi bara að færa þessar fjárhæðir til á tiltölulega fáum reikningum.  Stefndi skýrði einnig svo frá, að viðbrögð þeirra Vilhjálms Fenger og Ólafs Tryggvasonar við þeim upplýsingum, að ekki hefði verið hægt að fá afstemmingar á tiltekna reikninga, hefðu alltaf verið mjög léttvæg.  Þeir hafi aldrei litið á þetta sem verulegt vandamál.  Vandamálið væri í raun tímaskortur Sæunnar.  Í umræðum hans og þeirra Vilhjálms og Ólafs hafi komið fram, að þeir síðarnefndu hefðu rætt þetta við Sæunni og boðið henni aðstoð til að leysa þessi mál, en hún afþakkað. 

 

Með hliðsjón af gögnum málsins og skýrslugjöfum aðila og vitna telur dómurinn í ljós leitt, að innra eftirliti fyrirtækisins, sem var í höndum stjórnenda þess, hafi verið  ábótavant hvað varðar umsjón og eftirlit með störfum Sæunnar.  Þó að það þekkist í fyrirtækjum, að starf bókara og gjaldkera sé á einni og sömu hendi, kallar það á aukið eftirlit með þeim starfsmanni.  Sæunn naut mikils trausts hjá stjórnendum fyrirtækisins, svo sem áður hefur verið rakið.  Þegar ítrekað kom í ljós, að hún skilaði afstemmingum seint og illa og aðeins hluta þeirra við hvert uppgjör, var ekki brugðizt við því með neinum hætti, heldur látið gott heita, að hún væri störfum hlaðin og því treyst, að ástandið myndi lagast, þegar um færi að hægjast hjá fyrirtækinu. 

Það telst og sannað, með vísan til skýrslu endurskoðendanna, Guðlaugs Guðmundssonar og Þorvarðar Gunnarssonar, svo og með hliðsjón af framburði aðila og vitna, að Vilhjálmur Fenger, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, vissi af því, að Sæunn skilaði afstemmingum ekki tímanlega, og afstemmingar nokkurra liða vantaði ítrekað við gerð ársreikninga félagsins.  Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, fara félagsstjórn og framkvæmdastjóri með stjórn félagsins.  Í 3. mgr. sömu greinar segir svo:  "Félagsstjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.  Ef ráðinn er framkvæmdastjóri skal hann sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti."  Samsvarandi ákvæði er að finna í 52. gr. eldri laga um hlutafélög nr.  32/1978.  Upplýsingar um veikleika í innra eftirliti og misbrest á skilum á afstemmingum lágu því fyrir hjá stjórn fyrirtækisins.  Endurskoðandanum, stefnda Gunnari, var ekki gert kunnugt um, að hluta afstemminga hafði vantað við milliuppgjör um árabil.  Stefndi brást þó að vissu leyti starfsskyldum sínum, þegar hann áritaði ársreikninga félagsins árin 1992, 1993, 1994 og 1995 athugasemdalaust, þótt hluta afstemminga á liðum í efnahagsreikningi vantaði ítrekað við lokafrágang ársreiknings.  Það firrir stjórnendur fyrirtækisins hins vegar ekki ábyrgð, með því að sannað þykir, svo sem að framan greinir, að þeir höfðu vitneskju um þá vankanta, sem voru á störfum Sæunnar og jafnframt, að innra eftirliti fyrirtækisins var ábótavant, en það var þeirra að sjá til þess að því yrði komið í lag.  Þrátt fyrir þessa vitneskju brugðust þeir ekki við en létu óátalið, að Sæunn kæmi með undanbrögð við hvert uppgjör. 

Samkvæmt framansögðu er ekki fallizt á, að stefndu beri ábyrgð á því tjóni, sem stefnandi varð fyrir vegna fjárdráttar gjaldkerans, og ber því að sýkna þá af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu in solidum málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 800.000.

Dóminn kváðu upp Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari, Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari og Stefán Franklín, löggiltur endurskoðandi.

 

D Ó M S O R Ð

 

Stefndu, Pricewater­house­­Coopers ehf. og Gunnar Sigurðsson, skulu vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Nathan & Olsen hf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefndu in solidum kr. 800.000 í málskostnað.