Hæstiréttur íslands

Mál nr. 483/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Mánudaginn 24. september 2007.

Nr. 483/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Gæsluvarðhald. A liður1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 18. október 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                            

                                       Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 20. september 2007.

     Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [...], Kópavogi, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 18. október 2007, kl. 16:00.

     Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki ætlaðan innflutning á stórfelldu magni fíkniefna til Íslands. Rannsóknin beinist að miklu magni ætlaðra fíkniefna sem haldlögð hafi verið af lögreglu í dag. Fíkniefnin hafi borist til landsins frá útlöndum og nokkrir ónafngreindir aðilar verið handteknir í kjölfarið vegna málsins. Gögn lögreglu bendi til að kærði eigi verulegan þátt í skipulagningu og fjármögnun þessa fíkniefnainnflutnings.

     Kærði þyki vera undir rökstuddum grun um aðild að fíkniefnabroti. Meint aðild kærða sé talin varða skipulagningu, fjármögnun, útvegun og pökkun fíkni­efnanna erlendis. Nauðsynlegt sé að upplýsa nánar um einstaka verknaðarþætti hinna grunuðu og um meinta aðild kærða að brotinu. Kærði hafi verið yfirheyrður í dag, en um afstöðu hans til sakarefnisins og nánar um framburð hans sé vísað til framburðar­skýrslu kærða. Rannsókn málsins sé á frumstigi, það sé talið umfangsmikið og fram undan séu frekari yfirheyrslur af kærða og meintum samverkamönnum hans. Þá sé fram undan frekari gagnaöflun og gagnaúrvinnsla sem skýrt geti frekar aðdraganda brotsins og samskipti kærða við meinta samverkamenn sem kunni að tengjast málinu. Upplýsa þurfi hvar, hvenær og hvernig fíkniefnunum hafi verið komið fyrir í skútunni og hverjir hafi komið þeim fyrir. Nauðsynlegt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi, en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir sett sig í samband við hann.  Einnig geti kærði komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.

     Verið sé að rannsaka ætluð brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og megi ætla að ef þau sönnuðust, þá myndu þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Um heimild til gæsluvarðhalds vísar lögreglan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknargögnum og því sem að framan er rakið þykir kærði vera undir rökstudd­um grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti og benda gögn málsins til þess að meint aðild hans varði skipulagningu, fjármögnun, útvegun og pökkun fíkniefnanna erlendis. Má ætla að ef framangreind brot sannist, þá gætu þau varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Rannsókn málsins er á frumstigi og verður fallist á með lögreglu að brýnt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að varna því að hann geti torveldað rannsókn málsins.  Teljast skilyrði a- liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála uppfyllt og verður krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og hún er fram sett og þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

                                                  Ú R S K U R Ð A R O R Ð

     Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 18. október 2007, kl. 16.00.