Hæstiréttur íslands

Mál nr. 393/2004


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 21

 

Mánudaginn 21. mars 2005.

Nr. 393/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

X var sakfelldur fyrir þrjú nánar tilgreind kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni á árunum 1995-1997 er hún var 11-13 ára. Þóttu brotin varða við 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. X var einnig sakfelldur fyrir brot á 2. mgr. sömu lagagreinar gagnvart annarri dóttur sinni árið 2002 er stúlkan var 14 ára. Loks var X sakfelldur fyrir brot á 2. mgr. 202. gr. sömu laga  gagnvart þriðju stúlkunni er hún var 13 ára en ekki þótti sannað að hann hefði reynt að hafa við hana samræði. Þóttu brot þau sem X var sakfelldur fyrir vera alvarleg og gagnvart dætrum sínum hefði hann brotið alvarlega gegn skyldum sínum sem faðir. Með hliðsjón af alvarleika brotanna, refsiákvörðunar í svipuðum málum, sem og 77. gr. almennra hegningarlaga þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða stúlkunum miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. september 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing verði þyngd og fjárhæð skaðabóta til Y hækkuð í 1.000.000 krónur, Z í 400.000 krónur og Þ í 700.000 krónur.

Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar til nýrrar málsmeðferðar og til þrautavara að refsing verði milduð. Þá krefst hann aðallega að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar.

Skýrslutökur af brotaþolunum Z og Þ fóru fram fyrir dómara samkvæmt 74. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, með áorðnum breytingum, meðan málið var enn til rannsóknar. Það var athugavert við skýrslutöku af Z að það láðist að gæta ákvæðis 50. gr. laga nr. 19/1991 og benda henni á heimild hennar til að skorast undan vitnaframburði vegna skyldleika við ákærða. Verður að líta til þessa við sönnunarmat um ætluð brot ákærða gagnvart Þ. Fyrir liggur að hvorki saksóknari né verjandi óskuðu eftir því að framangreindir brotaþolar kæmu fyrir dóm á ný við aðalmeðferð málsins og var framburður þeirra metinn í héraði eftir myndbandsupptökum af skýrslum þeirra, sbr. 2. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991. Dómarar Hæstaréttar hafa kynnt sér þessar myndbandsupptökur.

Ákæruefnin eru rakin í héraðsdómi. Með vísun til forsendna héraðsdóms er á það fallist að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna sök ákærða um alla þrjá liði I. kafla ákæru. Brot hans samkvæmt þessum ákæruliðum eru réttilega færð til refsiákvæða í héraðsdómi. Ákæruvaldið unir héraðsdómi um sýknu ákærða af 4. ákærulið í II. kafla.  Með vísun til forsenda dómsins er hann staðfestur um sök ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða varðandi 5. lið í II. kafla ákæru og  einnig 6. lið í III. kafla hennar.

Að því er varðar 7. lið í III. kafla ákæru á það atvik að hafa gerst í framhaldi af atburðum samkvæmt 6. ákærulið. Í héraðsdómi er því lýst hvernig ákærði sofnaði út frá sjónvarpi í svefnsófa á heimili sínu milli Þ og dóttur sinnar Z. Ákærði neitar sök og segist hafa sofið í einum dúr og ekki vaknað fyrr en stúlkurnar voru komnar fram úr. Sambúðarkona ákærða vaknaði þegar hann kom heim með stúlkunum um klukkan þrjú um nóttina. Settist hún fram í stofu við hlið svefnsófans og var að leggja kapal í tölvu en fór síðan aftur inn að sofa. Áður kvaðst hún hafa spurt ákærða hvort hann væri ekki að koma að sofa og hafi hann játt því. Hún hafi 5–10 mínútum síðar komið fram og séð þá að ákærði var sofnaður í öllum fötunum í sófanum. Hafi hún látið hann vera því að hún viti af reynslu að þegar hann hafi neytt áfengis þýði ekki að koma honum á fætur fyrr en hann hafi sofið úr sér. Hún hafi síðar um nóttina verið á vappi um íbúðina þar sem hún hafi þurft að sinna syni þeirra. Z sofnaði strax og varð ekki vör við neitt. Þ er því ein um frásögn sína um afskipti ákærða af sér samkvæmt þessum ákærulið. Frásögn hennar af þeim atburðum, eins og hún birtist á myndbandinu, virðist í sjálfu sér hreinskiptin, en hafa verður í huga að samkvæmt gögnum málsins var Þ undir verulegum áfengisáhrifum þegar atburðurinn á að hafa orðið. Þá er frásögn af þessum atvikum, sem höfð er eftir henni í skýrslu 27. mars 2003 um réttarlæknisfræðilega skoðun, mótsagnakennd og styður illa aðra frásögn hennar.

Þegar framangreind sönnunaraðstaða málsins er virt í heild verður ekki talið að ákæruvaldinu hafi gegn neitun ákærða tekist að færa sönnur á sekt hans samkvæmt þessum ákærulið. Verður hann því sýknaður af þessum þætti málsins.

Brot þau sem ákærði er sakfelldur fyrir voru alvarleg. Með brotunum gegn dætrum sínum braut hann alvarlega gegn skyldum sínum sem faðir. Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann ekki áður gerst sekur um brot sem áhrif eiga að hafa á refsiákvörðun. Þegar litið er til alvarleika brotanna, refsiákvörðunar í öðrum svipuðum málum og til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um miskabætur til Y er staðfest að öðru leyti en því að dráttarvextir af dæmdri fjárhæð ákveðast frá birtingu ákæru 30. janúar 2004. Að virtum brotum ákærða gagnvart Z og Þ þykja bætur til hvorrar um sig hæfilega ákveðnar 200.000 krónur með vöxtum, svo sem í dómsorði greinir.

Rétt er að ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvörðun héraðsdóms um málsvarnarlaun er staðfest, en þóknun réttargæslumanns brotaþola í héraði þykir hæfilega ákveðin 200.000 krónur. Málsvarnarlaun og þóknun fyrir réttargæslu fyrir Hæstarétti er ákveðin í dómsorði.

                                                  Dómsorð:

       Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

         Ákærði greiði Y 700.000 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. desember 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 30. janúar 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

         Ákærði greiði Z 200.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. desember 2002 til 30. janúar 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

         Ákærði greiði Þ 200.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. mars 2003 til 30. janúar 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

         Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 600.000 krónur og skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþolanna í héraði, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur og skipaðs réttargæslumanns þeirra fyrir Hæstarétti, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 2. júlí 2004.

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 16. desember s.l. á hendur X, [kt. og heimlisfang], „fyrir eftirgreind kynferðisbrot:

I.

Gegn dóttur sinni Y, fæddri [...] 1984:

1.        Með því að hafa í eitt skipti, þegar stúlkan var 11 eða 12 ára, í sumarhúsi móður ákærða að [...], látið hana fara höndum um getnaðarlim sinn og sett hann upp í munn hennar.

2.        Með því að hafa sumarið 1996, á heimili ákærða í [...], í eitt skipti káfað á kynfærum hennar og sleikt þau.

3.        Með því að hafa um jólin 1997, þegar hún gisti ásamt ákærða hjá vinkonu hans á sveitabæ skammt fyrir utan [...], sett getnaðarlim sinn inn í kynfæri hennar.

Teljast þessi brot ákærða varða við 1. mgr. 200. gr. (svo), sbr. 8. gr. laga nr. 40, 1992 og 2. gr. laga nr. 40, 2003.

II.

Gegn dóttur sinni Z, fæddri [...] 1988:

4.        Með því að hafa sumarið 2002, á heimili ákærða að [...], þuklað á brjóstum stúlkunnar utanklæða.

5.        Með því að hafa haustið 2002, á heimili ákærða að [...], þuklað á brjóstum hennar innanklæða.

Teljast þessi brot ákærða varða við 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 8. gr. laga nr. 40, 1992.

III.

Gegn Þ, fæddri [...] 1989:

6.        Með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 22. mars 2003, að [...], þar sem ákærði var gestkomandi ásamt stúlkunni, afklætt hana að neðan og káfað á kynfærum hennar og brjóstum.

7.        Með því að hafa síðar sömu nótt og í 6. tl. greinir, á heimili ákærða að [...], gert tilraun til að hafa samræði við stúlkuna.

Brot skv. 6. tl. telst varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga 40, 1992 og 4. gr. laga nr. 40, 2003, og brot skv. 7. tl. við 1. mgr. 202. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40, 1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakröfur:

1.                    Y, [kt. og heimilisfagn], krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur kr. 2.000.000 auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 31. desember 1997 til 1. júlí 2001, en skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

2.                    Af hálfu Z, [kt. og heimilisfang], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 600.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

3.                    Af hálfu Þ, [kt. og heimilisfang], er þess er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.“

Mál þetta var þingfest 10. febrúar s.l. og hófst aðalmeðferð í málinu mánudaginn 24. maí s.l. og var henni fram haldið fimmtudaginn 27. maí s.l. og var málið dómtekið að loknum munnlegum málflutningi.  Verjandi ákærða krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákærði hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa.  Þá er krafist frávísunar á framkomnum bótakröfum og málskostnaðar að mati dómsins.  Réttargæslumaður brotaþola krafðist þess að kröfur þeirra næðu fram að ganga og henni yrði dæmd hæfileg þóknun samkvæmt framlögðum reikningi.

Málavextir.

Upphaf máls þessa má rekja til kæru Þ á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart sér aðfaranótt laugardagsins 22. mars 2003, fyrst að [...], þar sem ákærði var gestkomandi og síðar sömu nótt á heimili ákærða að [...], sbr. ákærulið III, 6. og 7. tl. Mun Þ hafa fengið leyfi móður sinnar og stjúpföður til að fara með dóttur ákærða, Z, [...] í heimsókn til ákærða og gista þar yfir helgina.  Hún kom hins vegar heim til sín á laugardeginum og mun hafa tjáð móður sinni að hún hefði fengið heimþrá.  Þ mun síðan hafa rætt við skólastjóra [...] og í framhaldi af því var henni vísað til sálfræðings hjá [...], A, en hann mun hafa vísað henni til Björns Harðarsonar, sálfræðings.  Samkvæmt skýrslu Björns mun Þ hafa tjáð honum að hún hafi farið á [...] með Z vinkonu sinni og dvalið hjá föður hennar, ákærða í máli þessu.  Hafi hún neytt áfengis og orðið mjög drukkin.  Hún hafi kastað upp og síðan verið borin inn í rúm til hvíldar.  Þar hafi ákærði komið inn og sagt henni að hvíla sig og hafi hann jafnvel sagt eitthvað um að hún væri til í eitthvað.  Hann hafi þá læst hurðinni og farið með hendurnar innan klæða hjá henni.  Hafi aðrir í samkvæminu farið að banka og haft áhyggjur af henni, en ekkert meira hafi gerst.  Síðar um nóttina hafi hún sofnað heima hjá ákærða í svefnsófa í stofunni og hafi ákærði verið að horfa á sjónvarp.  Hún hafi síðan vaknað við það að ákærði hafi verið ofan á henni í samförum.  Hún hafi ekki munað hvort hann hafi hætt þegar hún mótmælti eða ekki en greindi frá því að hún hafi ekki getað neitt enda úrvinda og máttlaus eftir áfengisneysluna.  Hafi henni liðið mjög illa daginn eftir, ekki getað horft framan í ákærða, verið mjög hrædd um að vera ólétt og komið sér í burtu.

Þ var vísað á Neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi 27. mars 2003 og í niðurstöðu Arnars Haukssonar, læknis, kemur fram að faðir vinkonu hennar hafi farið með hana inn í herbergi og svo  hafi hún beðið hann um að gera eitthvað við sig, en hún hafi ekki munað hvað en heldur að hún hafi beðið hann um að káfa á sér.  Hafi þau síðan farið heim til hans og þar hafi eitthvað svipað gerst.  Hefur læknirinn eftir Þ að henni hafi liðið mjög illa, verið dauf og leið og ekki getað einbeitt sér í námi.  Hún þykist viss um að hann hafi ekki reynt að komast inn með liminn, en hún hafi fundið að hún var alltof þröng.  Hún hafi haldið að hann hafi reynt að komast inn en ekki getað.  Við skoðun kom í ljós að meyjarhaftskantur var órofinn svo aldrei hafa verið framdar við hana fullburða samfarir. Ekkert óeðlilegt kom fram við kvenskoðun að öðru leyti.  Þ var síðan yfirheyrð í Barnahúsi 28. apríl 2003 og verður síðar greint frá þeirri skýrslutöku. 

Í framhaldi af þessum atburðum mun Z hafa óskað eftir viðtali við skólasálfræðing [...], en það mun hafa farið fram 2. apríl 2003.  Elín Elísabet Halldórsdóttir, sálfræðingur, greinir svo frá í vottorði sínu að Z hafi tjáð sér að ákærði hafi reynt að koma fram vilja sínum gagnvart vinkonu hennar, Þ.  Málinu var vísað til Björns Harðarsonar, sálfræðings og 3. apríl 2003 mættu B og Z dóttir hennar í viðtal hjá Kolbrúnu Baldursdóttur, sálfræðingi hjá [...].  Tjáði Z Kolbrúnu að ákærði hefði áreitt hana kynferðislega og nefndi að hann hefði ítrekað þuklað/káfað á brjóstum hennar innanklæða og hafi hann í öllum tilvikum verið drukkinn. Z sagði sér stafa ógn af föður sínum, sérstaklega þegar hann væri drukkinn.  Málinu var vísað til lögreglurannsóknar og gaf móðir Z skýrslu hjá lögreglunni í [...] 7. apríl 2003.  Skýrsla var tekin af Z í Barnahúsi 28. apríl 2003 og verður síðar greint frá þeirri skýrslutöku.

Þessi atvik munu hafa leitt til þess að Z hafði samband við hálfsystur sína, Y og innti hana eftir því hvort verið gæti að ákærði hefði gert henni (Y) eitthvað þegar þau bjuggu [...].  Y kvaðst hafa játað því, en fram hafi komið hjá Y að tilefni þess að Z spyrði hana að þessu væri kæra Þ á hendur ákærða.  Þetta leiddi til þess að Y sneri sér til lögreglunnar [...] 11. apríl 2003 og lagði þar fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart sér eins og nánar verður rakið hér síðar.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu vegna framangreindra sakargifta en hann neitaði alfarið sök.  Eins og að framan er rakið er ákærða gefið að sök að hafa framið kynferðisbrot gegn tveimur dætrum sínum, hálfsystrunum Y og Z, sbr. ákæruliði I og II og jafnframt gegn vinkonu Z, Þ, sbr. ákærulið III.  Verður því fjallað um ákæruatriðin í þremur köflum hér á eftir og í lok hvers kafla verður komist að niðurstöðu um sakarefnið. 

Ákæruliður I.

Vitnið Y, kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins.  Hún skoraðist ekki undan vitnisburði, en hún er dóttir ákærða eins og áður hefur komið fram.  Hún skýrði svo frá að tilefni þess að hún lagði fram kæru á hendur föður sínum fyrir kynferðisbrot gagnvart sér væri að systir hennar hefði hringt í sig og spurt hana hvort ákærði hefði misnotað hana [...].  Hefði hún neitað því í fyrstu en eftir að henni hefði verið sagt frá atvikinu með vinkonu Z hefði hún tjáð henni að ákærði hefði gert það sama við hana.  Lýsti hún því að þegar hún hafi verið 11-13 ára gömul hefði hún verið stödd í sumarbústað hjá ömmu sinni, ákærða og hálfsystkinum sínum þegar ákærði hafi káfað á henni og látið hana káfa á kynfærum sínum, en hann hafi hætt þegar brakað hafi í gólfinu.  Þá lýsti hún atviki sem átti að hafa gerst í [...] þegar ákærði bjó þar hjá vinkonu sinni.  Hafi ákærði verið undir áhrifum áfengis og hafi þau fengið að sofa þar ásamt hálfbróður vitnisins.  Hafi þau öll þrjú verið í sama rúmi og kvaðst hún hafa vaknað við það að ákærði var kominn að hlið hennar og reyndi að hafa mök við hana.  Kvað hún að þetta hafi verið vont og hafi hún því beðið hann að hætta og hafi hann gert það.  Hún kvaðst síðan hafa sofnað grátandi og þegar hún vaknaði um morguninn hafi nærbuxurnar verið í rúminu.  Þá lýsti Y öðru atviki í [...] í kofa þar sem ákærði bjó og kvað hún þau hafa legið uppi í rúmi og horft á sjónvarpið.  Hafi ákærði þá byrjað að strjúka henni um bakið, en henni hafi fundist það gott, en síðan hafi hann farið að káfa á henni og þá hafi hann káfað á kynfærum hennar.  Lýsti hún því að þetta hafi alltaf endað einhvern veginn hjá honum eins og það hafi ekki átt að enda.  Y lýsti einnig öðru atviki úti  í [...], en þá hafi ákærði búið hjá móður sinni og kvaðst hún hafa sofið á dýnu á gólfinu.  Hún kvað hann þá hafa sleikt kynfæri hennar en hún hafi þóst vera sofandi.  Hún lýsti einnig atviki sem hún kvað hafa gerst á [...], en þá hafi ákærði búið í [...] ásamt konu sem heitir C.  Kvaðst hún muna eftir því að hafa verið í sturtu og hafi ákærði káfað á henni og líka með sturtuhausnum.  Y kvað samskiptum sínum og ákærða eftir þetta hafa verið þannig háttað að það væri eins og þetta hefði aldrei gerst.  Hún kvaðst engum hafa sagt frá þessu nema kærasta sínum, D og vinkonu sinni, E u.þ.b. ári eftir síðasta atvikið, en það hafi verið um jólin 1997.

          Eftir að vitnið hafði skýrt sjálfstætt frá fyrir dómi var borin undir hana lögregluskýrsla þar sem lýst var atvikinu í sumarhúsi ömmu hennar þegar hún sagði ákærða hafa troðið typpinu upp í munn hennar.  Y kvað rétt eftir sér haft í lögregluskýrslunni.  Þá lýsti hún því nánar hvernig ákærði reyndi að stinga lim sínum inn í kynfæri hennar, sbr. ákærulið I. 3.  Lýsti hún því svo að hann hefði alla vega reynt að stinga honum inn og hann hafi náð því, en henni hafi fundist það vera vont, farið að gráta og beðið hann um að hætta.  Hún kvaðst yfirleitt hafa látið sem hún svæfi, en þetta hafi verið í eina skiptið sem hún hafi beðið hann um að hætta.

             Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að samband hans og Y dóttur hans hafi verið þokkalegt á því tímabili þegar hún var 11 til 12 ára gömul.  Hann hafi þó ekki umgengist hana reglulega en hún hafi oft dvalið hjá honum í sumarhúsinu að [...] ásamt systkinum sínum og móður ákærða.  Ákærði neitaði því að hafa snert Y með þeim hætti sem lýst er í ákærulið I.1.  Ákærði kannaðist við að hafa búið í [...] sumarið 1996 og hafi Y komið í heimsókn til hans en hann neitaði því að hafa káfað á kynfærum hennar og sleikt þau eins og honum er gefið að sök í ákærulið I.2.  Þá kannaðist ákærði við að Y hefði komið í heimsókn til hans um jólin 1997 og hafi hún dvalið hjá honum fram yfir áramót.  Ákærði kannaðist við að þau hefðu verið gestkomandi hjá vinkonu hans skammt fyrir utan [...] en neitaði því að hafa sett lim sinn inn í kynfæri Y eins og honum er gefið að sök í ákærulið I. 3.  Ákærði kvaðst á þessum tíma hafa notað áfengi og þá hafi komið fyrir að hann neytti áfengis þegar Y var hjá honum, en hann kvaðst hafa farið rólega í sakirnar þegar þannig stóð á. 

             Ákærði kvaðst hafa komið frá [...] árið 2001 eða 2002 og eftir það kvað hann samband hans við Y hafa nánast ekkert verið, þau hafi hringst á á jólum og afmælum.  Hún hafi þá ekki gefið til kynna að hún hefði neitt á móti sér og þá kvaðst hann nýlega hafa hitt hana við jarðarför sonar síns og þar hafi þau faðmast.  Hann kvað hana aldrei hafa rætt þessi sakarefni við sig og kvaðst hann engar skýringar hafa á því hvers vegna hún beri þessar sakir á hann.

             Vitnið F, móðir Y, skýrði svo frá fyrir dómi að samband ákærða við Y hafi verið óreglulegt frá því hún var 10 ára gömul og fram að fermingu, en hins vegar hafi móðir ákærða verið dugleg að hafa hana hjá sér.  Y hafi sóst eftir að fara til ákærða, þau hafi verið góðir félagar og hafi henni fundist gaman að gantast með honum.  Hún kvaðst ekki hafa vitað til að nein snurða hefði hlaupið á þráðinn fyrr en Y hafi tjáð sér fyrir ári að ákærði hefði beitt sig kynferðislegu ofbeldi.  Hún kvað Y ekki hafa lýst því í smáatriðum hvað hefði gerst, en henni hafi skilist á henni að ákærði hefði haft samræði við hana og jafnframt beðið hana að gera eitthvað við kynfæri sín.  F kvað Y hafa rætt um atvik sem átti að hafa gerst í [...] um jólin 1997.  Rifjaði hún upp að Y hefði sprengt í sér hljóðhimnuna á leiðinni heim þaðan í flugi og hafi hún kvartað yfir því um nóttina.  Kvaðst hún hafa farið með hana á spítala og þar hafi hún liðið miklar kvalir, andlegar og líkamlegar.  Kvaðst hún átta sig á því nú að það hafi ekki bara verið hljóðhimnan að kvelja hana, heldur hafi hún þurft að geta tjáð sig um eitthvað sem gerst hafi úti.  F kvað að komið hefði upp ágreiningur milli hennar og ákærða vegna fermingar Y um vorið 1998, en það ásamt öðru hafi orðið til þess að hann kom ekki frá [...] til að vera viðstaddur ferminguna og sendi  heldur ekki gjöf.  Kvaðst hún hafa haldið að Y væri fúl út í ákærða af þeim sökum og kvaðst hún nokkrum sinnum hafa hringt í ákærða og látið Y tala við hann, en hún kvaðst átta sig á því nú að hana hafi í raun ekkert langað til þess.  Hún kvaðst þó ekki hafa skynjað neina óvild hjá Y í garð föður síns eftir að hún kom heim frá [...].

             Vitnið G, maki F, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi kynnst Y þegar hann kynntist móður hennar, en Y hafi þá verið 7-8 ára, en hann hafi þó ekki kynnst henni persónulega fyrr en hann og móðir hennar fóru að halda sameiginlegt heimili 1997-8.  Hann kvað F hafa skýrt sér frá ásökunum Y gagnvart ákærða síðastliðið sumar og kvað hann þetta hafa komið sér á óvart, enda kvaðst hann hafa kynnst ákærða svolítið.  G lýsti Y þannig að hún væri indæl stelpa, róleg og yfirveguð og hefði hann ekki ástæðu til að ætla annað en að hún væri að segja satt.  Þá kvaðst hann aldrei hafa reynt hana að ósannsögli.  Hann gerði sér ekki grein fyrir því hvort einhverjar breytingar hafi orðið á líðan hennar en þegar hann hugsaði til baka kvaðst hann átta sig á því að eitthvað hafi verið að henni þegar hún kom frá ákærða, annað en það sem gerðist í fluginu.

             Vitnið D, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi kynnst Y í grunnskóla og hafi þau byrjað saman fyrir 6 árum.  Hann kvað Y hafa tjáð sér hvað ákærði hefði gert henni einhvern tíma þegar þau voru að rífast.  Kvaðst hann ekki hafa trúað henni í fyrstu, en seinna þegar hún hafi sagt honum meira frá þessu hafi hann trúað henni.  Kvað D þetta hafa verið um einu og hálfu ári eftir að þau byrjuðu saman.  Hann kvað hana aldrei hafa farið nákvæmlega út í hvað gerðist, en hún hafi talað um að eitthvað hafi gerst úti í [...] þegar þau hafi legið saman í rúmi.  Hafi henni fundist óþægilegt að tala um þetta, en eftir að systir hennar hringdi í hana hafi hún tekið þá ákvörðun að kæra.  Hann kvað líðan hennar eftir að þetta kom upp hafa verið erfiða, stundum líði henni bærilega en stundum ekki. 

             Vitnið E, vinkona Y, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði kynnst henni fyrst í 8. bekk, en þær hafi orðið vinkonur 16-17 ára gamlar. Hún lýsti þeim sem trúnaðarvinkonum og kvað hana hafa trúað sér fyrir því í gleðskap um áramótin 2000 að ákærði hefði misnotað hana en hún hefði ekki lýst því í smáatriðum en hún hefði þó sagt að hann hefði ekki farið alla leið.  Hún kvaðst hafa vitað til þess að ástæða þess að Y tók þá ákvörðun að kæra hefði  verið atvikið með systur hennar og vinkonu.

             Vitnið H, vinkona móður Y, skýrði svo frá fyrir dómi að Y og móðir hennar hefðu beðið hana að koma til sín og hafi þær tjáð henni að Y hefði orðið fyrir misnotkun af hálfu ákærða.  Hún kvaðst hafa unnið hjá Stígamótun og fannst að þær væru að leita stuðnings hjá henni um það hvað réttast væri að gera.  Hún kvaðst ekki hafa rætt við Y um það sem gerðist en hún hafi hvatt hana til að leita sér hjálpar og leita til sérfræðinga sem vissu hvernig þeir ættu að snúa sér í þessu.  Þá hafi komið fram í samtölum hennar við Y og F að Y hafi alltaf ætlað að segja frá þessu því hún hafi verið hrædd um að þetta myndi koma fyrir systur hennar, en hún hafi alltaf frestað því. 

             Vitnið Ragna Guðbrandsdóttir, félagsráðgjafi í Barnahúsi, kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sem hún gerði vegna greiningar og meðferðar á Y.  Í skýrslunni kemur fram að hún hafi verið með Y í viðtalsmeðferð á tímabilinu 24. október 2003 til 12. desember sama ár, en viðtölin hafi samtals orðið fjögur.  Í skýrslunni kemur fram að Y hafi tjáð sig um ætluð brot ákærða gegn henni og hafi það byrjað með káfi á kynfærum þegar hún hafi verið 10 ára gömul.  Hafi hún látist sofa þegar þetta gerðist.  Hún hafi lýst alvarlegasta atvikinu sen gerst hafi í [...] þannig að hún og bróðir hennar hafi sofið í rúmi ákærða og hafi ákærði komið og sofið hjá þeim.  Hefði ákærði byrjað að káfa á henni en síðan gengið lengra og haft við hana kynmök í leggöng.  Hann hefði hætt þegar hún hefði beðið  hann um það.  Ragna kannaði einkenni áfallaröskunar og þunglyndis hjá Y en þau einkenni virtust ekki vera fyrir hendi.  Henni virtist Y hafa áhyggjur af sjálfstrausti sínu og þá virtist hún eiga erfitt með að taka ákvarðanir en annað virtist ekki hrjá hana.  Taldi Ragna þessi viðbrögð Y, að ýta til hliðar eða forðast að takast á við erfiðar tilfinningar sem tengdust ætluðu ofbeldi, benda til þess að hún væri ekki tilbúin til þess að vinna í sínu máli.

Ákæruliður I, niðurstaða.

             Samkvæmt þessum ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa í þrjú skipti framið kynferðisbrot gagnvart Y dóttur sinni, í eitt skipti er stúlkan var 11 eða 12 ára gömul í sumarhúsi í [...] og í tvö skipti er hún var í heimsókn hjá honum í [...] sumarið 1996 og um jólin 1997, eins og nánar er rakið í ákæru.  Ákærði hefur alfarið neitað sök en kannast við að hafa neytt áfengis þegar Y dvaldi hjá honum.  Telja verður nægilega upplýst að Y hafi verið í umsjá ákærða í þau skipti sem hér skipta máli.  Engin vitni virðast hafa verið að þeim samskiptum ákærða og dóttur hans sem mál þetta snýst um en Y kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og lýsti atvikum á einkar trúverðugan hátt að mati dómsins.  Þá kom fram við yfirheyrslur fyrir dómi að Y hefði ári eftir síðasta atvikið greint D, kærasta sínum, frá atvikum og þá fær framburður hennar stoð í vitnisburði vinkonu hennar, E, en að hennar sögn mun Y hafa trúað henni fyrir því árið 2000 að ákærði hefði misnotað hana.  Þá kom fram hjá F, móður Y, að eftir á að hyggja hefði hún áttað sig á því að eitthvað hefði komið fyrir hana þegar hún var í [...] hjá ákærða.  Hafi sprungið í henni hljóðhimnan í flugi til landsins og hefði hún liðið miklar andlegar og líkamlegar kvalir.  Túlkaði F þetta nú á þann hátt að eitthvað hefði gerst úti sem hún hafi ekki getað tjáð sig um.  Maki F, G, studdi þetta álit konu sinnar.  Hann lýsti Y sem indælli stelpu, rólegri og yfirvegaðri og hefði hann aldrei reynt hana að ósannsögli. 

             Ákærði kannast við að samband hans og Y hafi nánast rofnað eftir að hún fór til Íslands frá [...], en hún hafi þó ekki gefið til kynna að hún hefði neitt á móti honum.  Ákærði tók fram að þau hefðu hist við jarðarför sonar síns og þá hafi hún faðmað hann og hafi þessi mál ekki borið á góma við það tækifæri.  Hann kvaðst engar skýringar hafa á því hvers vegna hún bæri þessar sakir á hann.  Þá var upplýst fyrir dómi að ákærði hefði ekki mætt í fermingu Y árið 1998 og ekki sent henni gjöf.  Í skýrslu Rögnu Guðbrandsdóttur, félagsráðgjafa í Barnahúsi, kemur fram að Y hafi tjáð sig um ætluð brot ákærða gagnvart sér.  Er sú frásögn í samræmi við það sem fram hefur komið í dóminum um þetta ákæruatriði.  Ragna fann hvorki einkenni áfallaröskunar né þunglyndis hjá Y en henni virtist hún forðast að takast á við erfiðar tilfinningar sem bendi til þess að hún sé ekki reiðubúin til að vinna í sínu máli.

             Eins og hér hefur verið rakið neitar ákærði sök í máli þessu en ekkert þykir hafa komið fram í málinu annað en framburður ákærða um að framburður Y kunni að vera rangur.  Þegar virtur er trúverðugur framburður Y, sem fær stoð í vætti annarra vitna sem komið hafa fyrir dóm í máli þessu, þykir dóminum ekki varhugavert að telja nægilega sannað þrátt fyrir neitun ákærða að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali, sbr. ákærulið I, 1.  Þykir óvissa um nákvæma tímasetningu atburðarins ekki hagga þessari niðurstöðu.  Með sömu rökum og að framan greinir ber að telja sannað að ákærði hafi framið þá háttsemi gagnvart Y og greinir í ákæruliðum I, 2 og I, 3.  Er háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæða í ákæruskjali að öðru leyti en því að fallið hefur niður tilvísun til almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæruliður II.

             Vitnið Z, gaf skýrslu í Barnahúsi 28. apríl 2003.  Í málinu liggur frammi útskrift yfirheyrslunnar og þá var yfirheyrslan tekin upp á myndband sem skoðað var í dóminum.  Z skýrði svo frá að sumarið 2002 hefði móðir hennar beðið ákærða um að passa sig á heimili hennar því hún hafi ætlað í sumarbústað.  Hún kvaðst telja að ákærði hefði verið nýbúinn á fylleríi og hafi hann ákveðið að horfa á „boxið“ inni í stofu.  Hún kvaðst hafa sofnað inni í stofu og hélt hún að kærasta ákærða væri í hennar herbergi.  Hún kvaðst hafa vaknað og fundið fyrir því að einhver var að þukla hana, kvaðst hún hafa litið snöggt upp og þá séð ákærða í sófanum við hliðina á sér og lýsti hún því hvernig hlýrabolurinn hafi færst úr stað og annað brjóstið verið komið út úr bolnum.  Hún kvað sér hafa brugðið, lagað sig til, tosað teppið upp um sig og legið áfram þar til hún vaknaði.  Hún kvaðst ekki hafa þorað að segja móður sinni frá þessu og ákærði hafi látið sem ekkert væri.  Z lýsti öðru tilviki um svipað leyti sem hafi verið á þá lund að hún hafi verið á heimili ákærða sem hafi verið í fylleríi og kærasta hans hafi passað hana.  Hún kvaðst hafa farið að sofa uppi í koju og hún kvaðst hafa verið hrædd við ákærða þegar hún heyrði hann koma, hafi hún farið út í horn, sett sængina í kringum sig þannig að ákærði myndi ekki ná til hennar.  Hann hafi farið undir sængina og byrjað að strjúka henni um höndina og í leiðinni hafi hann strokið á henni brjóstið utan klæða en hann hafi kippt hendinni burt þegar kærasta hans hafi komið inn í herbergið.  Z lýsti þriðja atvikinu þannig að hún hafi verið heima hjá ákærða haustið 2002 og hafi þau verið að horfa á spólur.  Hafi ákærði verið að skemmta sér og er hún heyrði hann koma kvaðst hún hafa snúið sér á magann og sett hendurnar þannig að hann gæti ekki snert hana.  Kvað hún ákærða hafa farið að strjúka sér um bakið og hliðarnar og hafi hann farið með hendur inn undir bolinn.

             Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi alls ekki þuklað á brjóstum Z sumarið og haustið 2002 eins og honum er gefið að sök í ákæru.  Hann kvað samskipti þeirra á þessum tíma hafa verið mjög góð, þau hafi slegist í gamni, hann hafi kitlað hana í síðuna, hún hoppað upp á bak hans og svoleiðis.  Ákærði kannaðist við að hafa fengið þau skilaboð frá móður Z, sennilega í ársbyrjun 2003 að henni fyndist hann vera að þukla á sér.  Hafi þau þá talað um að henni þætti kannski óþægilegt að hann kitlaði hana, en eftir að þetta hefði verið rætt hefði hún samt sem áður hoppað í fang sér og faðmað hann.  Ákærði kvaðst hafa tekið upp sambúð við núverandi sambýliskonu í janúar 2002 og hafi hún búið á heimilinu þegar atburðir þeir urðu sem getið er í ákærulið II.  Ákærði kvað hafa komið fyrir að hann væri drukkinn þegar Z var í heimsókn, en hann kvað sambýliskonu sína alltaf hafa verið vakandi og tekið vel á móti honum ef hann kom heim seint að kvöldlagi.

             Vitnið B, móðir Z, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði beðið ákærða að passa dóttur sína meðan hún fór í sumarbústað í janúar eða febrúar 2002 og hefði hún síðar skýrt sér frá því að ákærði hefði verið að strjúka henni um öxlina og niður brjóstið.  Hún hafi hins vegar ekki sagt sér frá þessu fyrr en eftir að atvikið með Þ vinkonu hennar hafi komið upp eins og að framan er rakið.  Hafi dóttir hennar eftir þetta skipti farið að tala um að henni fyndist óþægilegt að vera í návist ákærða en þrátt fyrir það hafi hún tvisvar farið í heimsókn til föður síns sumarið og haustið 2002.  Þegar ákærði hafi eignast barn með kærustu sinni hafi hins vegar vaknað löngun hjá Z að heimsækja þau.  Kvaðst B hafa rætt við ákærða og tjáð honum að Z langi til að koma en henni þætti óþægilegt að láta taka utan um sig og faðma sig.  Hefði ákærði sagst skilja þetta og ætlað að virða þessa ósk hennar.  Hún kvað Z hafa vitað af þessu samtali þeirra.  Hún kvað hana ekkert hafa kvartað undan ákærða eftir heimsóknir til hans sumarið og haustið 2002, það hafi hún ekki gert fyrr en eftir að Þ vinkona hennar bar sakir á ákærða.  B kvað Z líða mjög illa í dag, hún hafi reynt að skaða sig með því að skera sig í upphandlegg, á handarbak og yfir púlsinn.  Hafi hún skýrt þetta þannig að henni þætti betra að finna til í hendinni en í hjartanu.  Hún kvað henni ganga illa í skóla og þá sé félagslega hliðin henni erfið, en ástandið hafi alltaf verið þannig.  Hún virtist ekki treysta fjölskyldunni, frekar treysti hún ókunnugum og væri tilbúin að fara upp í bíl til ókunnugra, enda telji hún þá ekki hafa gert sér neitt ennþá.

             Vitnið Elín Elísabet Halldórsdóttir, sálfræðingur, kom fyrir dóm og var tilefnið bréf sem hún ritaði til Félagsþjónustunnar í [...] 9. apríl 2003, en þar skýrir hún frá viðtali sem hún átti við Z 2. apríl sama ár.  Þar skýrði hún vitninu frá atviki því er varðaði vinkonu hennar, sbr. ákærulið III.  Enn fremur kom fram í skýrslunni að Z hafi skýrt frá því að ákærði hefði komið við brjóst hennar en hún hafi ekki talið sig vissa um hvort það hafi verið raunverulegt eða leikur eða hann hafi viljað vera góður við hana og breiða yfir hana.  Í skýrslunni kom fram að þegar Z var yngri hafi borið á mikilli hræðslu hjá henni gagnvart körlum, sem helst hafi lýst sér sem vænisýki.  Þá hafi komið í ljós í frásögnum hennar að hún hafi verið á varðbergi gagnvart ákærða.  Elín kvað þó ekki hafa komið fram í viðtölum við hana að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega.  Elín skýrði svo frá fyrir dómi að Z hefði sagt frá minningum sem hún eigi um heimilisofbeldi þegar hún hafi verið þriggja og hálfs til fjögurra ára gömul.  Hafi hún stundum gengið á milli ákærða og móður sinnar til að verja hana.

             Vitnið Vigdís Erlendsdóttir, sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður Barnahúss, kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sem hún gerði vegna greiningar og meðferðar á Z.  Skýrslan er dagsett 10. mars 2003 en ljóst er að þar er um misritun að ræða og á ártalið að vera 2004.  Kemur þar fram að Z hafi farið í 12 viðtöl til Vigdísar á tímabilinu frá 13. maí 2003 fram til þess tíma er skýrslan var gerð.  Hafi komið fram í fyrsta viðtali að Z hafi alltaf verið hrædd við ákærða.  Hafi hún lýst því þegar hann kom inn í svefnherbergi þar sem hún lá í koju og fór höndum um brjóst hennar og maga.  Hafi hún reynt að vefja sænginni utan um sig og hafi hann hætt þegar sambýliskona hans kom inn.  Hafi Z sagt að henni hefði brugðið mjög þegar eldri systir hennar greindi henni frá því að ákærði hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi og jafnframt þegar hún hafi frétt að Þ vinkona hennar hefði sagst hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi hans.  Niðurstaða Vigdísar var sú að útlit og framkoma Z væri í samræmi við aldur.  Hafi viðtöl leitt í ljós ýmis einkenni og áhyggjur sem þekkt séu meðal barna og unglinga sem sætt hafi kynferðislegri áreitni af hendi nákomins ættingja.  Hafi hún getið um skapsveiflur, depurð og þrálátar hugsanir um atvikin.  Hafi hún lýst áhyggjum af því að aðrir í fjölskyldunni kynnu að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu ákærða.  Komi umræður um kynferðismál henni enn úr jafnvægi og áreiti í umhverfinu sem minni hana á atvikin valdi henni uppnámi og kvíða.  Hún sé döpur vegna þeirra afleiðinga er málið hafi haft fyrir samskipti hennar við ákærða og yngri hálfsystkini og telji að úr því verði ekki bætt.  Fyrir dómi skýrði Vigdís svo frá að hún hefði hitt Z einu sinni eftir þetta en til stæði að hún hitti hana oftar.   Væri ástæðan sú að henni liði ekki sem skyldi og nefndi hún fyrst og fremst skapsveiflur og sektarkennd.  Vigdís kvaðst ekki hafa orðið vör við vænisýki eða hræðslu Z gagnvart karlmönnum, vandamál hennar væru fyrst og fremst tengd kvíða og depurð og þá ætti hún í erfiðleikum með samskipti við jafnaldra.  Hún kvað þau einkenni sem lýst sé í skýrslu Elínar Elísabetar, sálfræðings, ekki hafa komið fram í þeim prófum sem hún hafi lagt fyrir Z.

             Vitnið I, sambýliskona ákærða, kom fyrir dóm og skoraðist ekki undan vitnisburði.  Hún kvað þau hafa byrjað saman árið 2001 og eigi þau saman dreng sem sé fæddur [...] 2002.  Hún kvað þau hafa búið að [...] sumarið og haustið 2002 og hafi Z á þeim tíma komið tvisvar eða þrisvar í heimsókn til þeirra.  Hún kvað þær ekki hafa rætt mikið saman en hún hafi mest rætt við ákærða.  I mundi eftir fyrstu heimsókn Z sem verið hafi sumarið 2002.  Hafi hún í fyrstu viljað sofa í herbergi með þeim þar sem hún þyrði ekki að sofa ein í herbergi.  Hafi hún í fyrstu sofið í sama herbergi og þau en síðar hafi henni verið búinn svefnstaður í öðru herbergi.  Í seinna skiptið hafi Z komið ásamt bræðrum sínum þá um haustið og hafi þau þá öll sofið í einni hrúgu í hornsófa. Hún lýsti samskiptum þeirra feðgina þannig að þau hafi verið mjög náin og hafi þau talað saman um alla hluti.  Þá hafi ákærði mátt faðma dóttur sína og kitla og hafi það ekki virst neitt vandamál.  I kannaðist ekki við að móðir Z hefði rætt við ákærða um snertingar þeirra. 

             Vitnið Þ skýrði svo frá við yfirheyrslu í Barnahúsi 28. apríl 2003 í tengslum við ákærulið III að Z hefði tjáð sér að ákærði hefði káfað á brjóstum hennar sumarið 2002 og hélt hún að það hefði aðeins gerst einu sinni.

Ákæruliður II, niðurstaða.

             Samkvæmt þessum ákærulið er ákærði borinn þeim sökum að hafa tvívegis árið 2002 þuklað á brjóstum dóttur sinnar, Z á heimili sínu, í fyrra skiptið um sumarið, þá utanklæða og í síðara skiptið um haustið og í það skipti innanklæða.  Í málinu kom fram að samskipti ákærða og Z hafi einkennst af snertingum, kitli, faðmlögum og strokum.  Ákærði kannaðist við að hafa fengið þau skilaboð frá móður Z, B, að stúlkunni þætti hann vera að þukla á sér og þætti henni óþægilegt þegar hann kitlaði hana.  B skýrði svo frá fyrir dómi að Z hafi hins vegar ekkert kvartað undan ákærða sumarið og haustið 2002 og það hafi hún ekki gert fyrr en Þ vinkona hennar bar sakir á ákærða.  Fram kom í vitnisburði Elínar Elísabetar, sálfræðings, að Z hafi tjáð henni að ákærði hefði komið við brjóst hennar, en hún hafi ekki talið sig vissa um hvort um raunveruleika eða leik hafi verið að ræða.  Ekki mun hafa komið fram í viðtalinu að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega.  Í skýrslutöku í Barnahúsi virtist Z ekki í neinum vafa um að ákærði hefði þuklað á sér.  Ljóst er af gögnum málsins að Z líður illa í dag og hefur hún reynt að skaða sig og tók þá þannig til orða að betra væri að finna til í hendinni en hjartanu.  Samkvæmt niðurstöðu Vigdísar Erlendsdóttur, forstöðumanns Barnahúss, leiddu viðtöl við Z í ljós ýmis einkenni sem þekkt séu meðal barna og ungmenna sem orðið hafi fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu nákomins ættingja.  Sambýliskona ákærða, I lýsti samskiptum þeirra feðgina þannig að þau hafi verið mjög náin og hafi ákærði mátt faðma dóttur sína og kitla og hafi það ekki virst neitt vandamál.  Við yfirheyrslu í Barnahúsi skýrði Þ frá því að Z hefði tjáð sér að ákærði hefði þuklað á brjóstum hennar sumarið 2002 og hélt hún að það hefði gerst einu sinni.

             Dómurinn hefur skoðað myndbandsupptöku af framburði Z í Barnahúsi og er þeirrar skoðunar að ekki sé ástæða til að efast um trúverðugleika framburðar hennar.  Ákærði neitar sök en hefur kannast við að samskipti þeirra hafi verið í formi líkamlegrar snertingar með þeim hætti að hann hafi kitlað hana, faðmað og strokið.  Eins og mál þetta er vaxið er ekki loku fyrir það skotið að hendur ákærða hafi í þessum samskiptum þeirra og í því tilviki sem í ákærulið II, 4 greinir í ógáti strokist við brjóst hennar utanklæða.  Þykir því varhugavert að telja sannað að ákærði hafi af ásetningi þuklað brjóst dóttur sinnar eins og honum er þar gefið að sök.  Verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.  Hins vegar telur dómurinn sannað eftir mat á trúverðugleika framburðar Z og í ljósi þeirrar niðurstöðu Vigdísar Erlendsdóttur að stúlkan beri þess merki að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni að ákærði hafi gerst sekur um að hafa þuklað brjóst stúlkunnar innanklæða eins og honum er gefið að sök í ákærulið II, 5.

Ákæruliður III.

             Vitnið Þ, gaf skýrslu í Barnahúsi 28. apríl 2003.  Í málinu liggur frammi útskrift yfirheyrslunnar og þá var yfirheyrslan tekin upp á myndband sem skoðað var í dóminum.  Þ skýrði svo frá að hún hafi farið ásamt Z vinkonu sinni í heimsókn til ákærða og sambýliskonu hans föstudaginn 21. mars 2003, en hann hafi þá búið á [...].  Hafi þau verið að borða þar pizzu og síðan hafi verið ákveðið að fara á bar.  Hún kvaðst hafa verið búin að drekka bjór á heimili ákærða sem hann hafi gefið henni og þá hafi hann keypt handa henni bjór á barnum sem hún kvaðst hafa drukkið.  Hafi þau eftir þetta farið í eitthvert heimahús þar sem hún hélt áfram drykkju og kvaðst hún hafa verði orðin verulega drukkin, eða á „rassgatinu“ eins og hún orðaði það.  Hún kvaðst hafa orðið verulega veik og ælt yfir sig þannig að hún hafi þurft að fá lánuð föt frá J sem þarna var stödd.  Kvaðst hún hafa skipt um föt, sennilega inni í herbergi J.  Hún segist síðan muna eftir því að ákærði hafi borið hana inn í herbergi og læst því.  Hann hafi ekki farið út úr herberginu og eitthvað verið að tala við hana og sagt henni að fara að sofa.  Hann hafi síðan klætt hana úr öllu að neðan  og reynt að setja fingur í klof hennar.  Hún taldi hann ekki hafa náð að gera það en var þó ekki viss.  Þ kvaðst muna lítið eftir þetta en næst kvaðst hún muna eftir sér þegar þau hafi verið komin heim til ákærða.  Kvaðst hún muna eftir því að hafa verið lögst undir svefnpoka og þegar hún opnaði augun kvaðst hún hafa séð ákærða fyrir framan sig að horfa á sjónvarp og kvaðst hún þá hafa farið aftur að sofa.  Þá kvaðst hún muna það næst að ákærði hafi farið að strjúka henni um fætur og jafnframt hafi hann klætt hana úr sokkunum.  Hún lýsti því þannig að hann hafi verið í klofinu á henni allt kvöldið eiginlega, alla nóttina fannst henni, hafi henni fundist það vera milljón ár.  Hún kvaðst ekki hafa þorað að gera neitt eða segja, hún hafi reynt að teygja sig yfir til Z sem hún hélt að væri steinsofandi í rúminu.  Hún sagði ákærða hafa reynt að ríða sér en hann hafi ekki komið honum inn.  Hann hafi hætt þegar kærasta hans kom fram og var að hugsa um barnið sitt, en hann hafi reynt aftur þegar hún fór aftur inn, þrisvar sinnum að því er hún hélt.  Hún kvað ákærða hafa rifið sig í klofinu og hafi blætt úr henni daginn eftir. Hún kvaðst ekki hafa séð hvort ákærði fór úr fötunum.  Hún kvaðst síðan hafa forðað sér úr rúminu og farið ásamt Z inn í hjónarúmið því kærasta ákærða hafi verið vöknuð og komin fram úr.  Hún taldi mögulegt að hún hefði sagt lækninum á neyðarmóttökunni að hún hefði beðið ákærða að ríða sér og taldi það líkt sér að segja slíkt þegar hún væri full en þá kvaðst hún láta eins og asni.  Þá útilokaði hún ekki að hún hefði sagt eitthvað slíkt við ákærða.  Hún kvað ákærða ekki hafa beðið sig um að tala ekki um þetta atvik og fannst henni að hann þættist ekki muna eftir þessu daginn eftir, hann hafi brosað til hennar, sagt hæ og góðan daginn.  Þ kvað sér líða mjög illa eftir þetta, hún fengi martraðir og dreymdi atvikið aftur og aftur.  Hún kvaðst ekkert geta lært, vera brjáluð út í allt og alla og rífast heilmikið við móður sína.  Þá fyndi hún fyrir óöryggi, gæti ekki verið ein á ferð, hlypi á undan öllum mönnum og fyndi fyrir myrkfælni.

             Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði lítið kynnst Þ áður en umrætt atvik varð, en hann kvaðst hafa staðið í þeirri trú að hún væri 14 ára.  Hann lýsti atvikum á [...] svo að Þ hafi virst ágætlega hress, hún hafi verið inni í stofu að tala við fólkið en hann hafi verið inni í eldhúsi.  Hún hafi síðan komið að borðinu og sagst þurfa að æla.  Kvaðst ákærði hafa farið með hana inn á salerni og þar hafi hún ælt á gólfið og á buxurnar sínar.  Kvaðst hann þá hafa farið með hana fram og talað við J.  Hafi hún ákveðið að lána henni buxur og kvaðst hann þá hafa farið aftur inn í eldhús.  Hann kvað Þ hafa skipt um buxur án þess að hann vissi en hann kvaðst hafa farið með hana inn í herbergi, lokað hurðinni og sagt henni að skipta um buxur.  Hann kvað Þ hafa farið úr buxunum en þá hafi hann áttað sig á því að hún var búin að skipta um buxur og því hafi hún farið í þær aftur, en ákærði kvaðst hafa verið með ælubuxurnar í höndunum án þess að átta sig á því.  Ákærða fannst eðlilegt að hann aðstoðaði Þ við þetta enda hafi hún verið þarna á hans vegum.  Hún hafi verið töluvert drukkin og hafi byrjað að lyfta upp bolnum sínum og sagt honum að káfa á brjóstunum á sér.  Kvaðst ákærði hafa tekið bolinn niður og sagt nei en þetta hafi endurtekið sig.  Ákærði mundi ekki til þess að hún hefði beðið hann um að ríða sér eða viðhaft slíkt orðbragð við hann.  Hann kvað þau hafa verið um 10-15 mínútur inni í herberginu.  Hann kvað einu sinni hafi verið bankað á hurðina og hafi hann þá sagt að þau væru að koma.  Ákærði vissi ekki hvort hurðin var læst.  Ákærði neitaði því að hafa káfað á kynfærum stúlkunnar í herberginu og þá hafi það heldur ekki gerst annars staðar í húsinu.  Ákærði kvaðst sjálfur hafa verið fullur en muna eftir öllu.  Ákærði viðurkenndi að hafa gefið Þ einn bjór.

             Ákærði kvaðst síðan hafa farið heim til sín ásamt Z dóttur sinni og Þ.  Hafi kona hans verið vakandi, en hún hafi ekki verið hrifin af því að sjá þau.  Þau hafi dregið svefnsófann fram og Þ hafi strax sofnað á honum.  Z hafi sofnað eftir smástund en ákærði kvaðst hafa setið á rúmendanum og horft á sjónvarp sem var beint á móti, en á þessum tíma hafi Íraksstríðið verið að byrja.  Hafi kona hans setið við tölvu sem var við hliðina á sjónvarpinu.  Ákærði kvaðst síðan hafa sofnað og vaknað daginn eftir eins og hann hefði legið á milli Þ og Z, en þær hafi þó verið vaknaðar og komnar fram úr.  Virtust þær glaðar og hressar, hafi þau rætt atburði næturinnar og virtist Z ekki ánægð með að Þ skyldi hafa orðið svona drukkin.  Ákærði kvaðst hafa vaknað með sæng yfir sér að hluta og þá hafi hann verið í fötunum.  Hann kvað Þ hafa fengið verkjatöflu þar sem hún sagðist vera með höfuðverk en þá hafi dóttir hans sagt að hún væri með túrverki.  Hann kvaðst hafa kvatt Þ hressilega um morguninn, sagt „bæ, bæ“ og hafi það ekki verið neitt vandamál.  Ákærði neitaði alfarið að hafa gerst sekur um athæfi það sem honum er gefið að sök í III. ákærulið.

             Vitnið K, skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði, dóttir hans og vinkona hefðu komið í heimsókn til hennar föstudagskvöldið 21. mars 2003.  Hún kvaðst vera vinnufélagi ákærða og væri ágætur samgangur á milli þeirra.  Hún kvað um lítið rými að ræða  74 m² hús, stofu og samliggjandi eldhús og kvaðst hún umrætt kvöld hafa setið nánast allt kvöldið við eldhúsborðið.  Hún kvað L son sinn hafa verið þarna, M nágranna sinn og J tengdadóttur sína.  Hún kvað ákærða hafa neytt áfengis og þá hefði hann gefið stúlkunum bjór.  Hún kvað Þ hafa komið sér skringilega fyrir sjónir og lýsti henni sem fleðulegri.  Hún mundi ekki eftir því að henni hefði orðið illt en henni hefði verið sagt frá því.  Hélt hún að Þ hefði farið inn á klósett og síðan inn í herbergi skáhallt á móti.  Hún kvaðst að vísu ekki hafa séð hana fara inn í herbergið og ekki hafa orðið þess vör að neinn bankaði á hurðina.  K kvaðst ekki hafa orðið vör við neinn samdrátt á milli ákærða og Þ og taldi hún fleðulæti hennar ekki hafa beinst að neinum sérstökum, helst þá strákunum.  Hún kvaðst ekki vita hver þreif upp æluna eftir Þ og þá kvaðst hún hafa hitt hana daginn eftir og hafi hún virst hin glaðasta.  Kvaðst hún hafa hitt hana á rúntinum með M og Zog hafi þær báðar virkað eðlilegar og fínar.  Þegar framburðarskýrsla K hjá lögreglu var borin undir hana kannaðist hún við að ákærði hefði aðstoðað Þ við að skipta um buxur og síðan hefði hann farið með hana inn í herbergi, hallað hurðinni aftur og hafi þau talað saman og verið þar í u.þ.b. 15 mínútur.

             Vitnið L, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði þekkt ákærða í tvö ár og hefði ákærði komið í heimsókn á heimili vitnisins föstudagskvöldið 21. mars 2003 ásamt dóttur sinni og vinkonu hennar.  Hann kvaðst hafa setið inni í stofu og horft á sjónvarp en ekki neytt áfengis.  Hann kvaðst hafa orðið var við að vinkona Z hafi ælt og hafi J kærasta hans lánað henni föt.  Hann kvað hana hafa lagst inn í gestaherbergi en hann kvaðst ekki hafa fylgst með því hvort einhver fór inn til hennar.  Hann kvaðst hafa orðið var við að dóttir ákærða bankaði á hurðina en hann kvaðst ekki hafa orðið var við neinn samdrátt á milli ákærða og vinkonu dóttur ákærða.  Hann kvaðst hafa hitt stúlkurnar á heimili sínu daginn eftir og hafi þær verið kátar og frekar létt yfir þeim.  Þegar skýrsla sem L gaf hjá lögreglu var borin undir hann kannaðist hann við að Þ hafi orðið veik og gubbað á salernisgólfið.   Hann hafi farið á eftir henni en snúið strax við.  Þá staðfesti vitnið að Z og ákærði hefðu aðstoðað hana og þá hefði hann séð á eftir ákærða fara inn í herbergið og loka á eftir sér.  Hafi hann verið einn með Þ í 10-15 mínútur.

             Vitnið J, skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði, dóttir hans og vinkona hennar hefðu umrætt kvöld komið á heimili kærasta hennar og hafi Þ þegar farið að sníkja áfengi.  Henni hafi síðan orðið illt og hafi ælt yfir sig alla inni á salerni.  Hún kvaðst hafa lánað henni hreinar buxur og  hefði hún skipt um í herbergi vitnisins.  Þ hafi síðan farið inn í gestaherbergi að því er henni hafi verið sagt og lagst þar fyrir.  Hún kvað hurðina hafa verið lokaða og taldi hún að ákærði væri með henni inni í herberginu.  Hún hélt að Þ hefði beðið hann um að koma og vera hjá sér því henni liði svo illa.  Þetta kvaðst hún hafa frá þeim sem voru á staðnum.  Hún hélt að þau hefðu bankað á hurðina til þess að athuga hvort allt væri ekki í lagi, en mundi það þó ekki.  Hún kvaðst hafa tekið eftir því að Þ hefði sturtað í sig áfengi og kvað hún að reynt hefði verið að halda því frá henni. 

             Vitnið I, sambýliskona ákærða, skýrði svo frá fyrir dómi að  Z dóttir ákærða og Þ hefðu komið í heimsókn umrætt föstudagskvöld í marsmánuði 2003.  Hafi þau komið heim með pizzu, borðað hana og horft á sjónvarp.  Þau hafi síðan farið um hálfellefuleytið um kvöldið í heimsókn til K og fór ákærði með þeim.  Hún kvaðst hafa orðið vör við að þau kæmu heim um þrjúleytið um nóttina og kvaðst hún hafa heyrt að ákærði var að taka svefnsófann út.  Hann hafi síðan komið inn í herbergi til hennar og rætt við hana.  Hún kvaðst hafa verið hálfsofandi en taldi hann ekki ofurölvi.  Hún kvaðst hafa heyrt hann tala við Z frammi og þegar hún fór á salernið kvaðst hún hafa séð að Þ var lögst á svefnsófann og sýndist henni hún vera sofnuð, en ákærði og Z hafi verið að tala saman inni í eldhúsi.  Stuttu síðar hafi Z einnig verið lögst í sófann og kvaðst I hafa sest í stól við hliðina á sófanum.  Ákærði hafi sest til fóta hjá stúlkunum og sagst ætla að horfa aðeins á sjónvarpið.  Hún taldi að stúlkurnar væru báðar sofnaðar en ákærði hafi sagst ætla að horfa á fréttir frá Íraksstríðinu.  Hann hafi setið þarna og verið við það að sofna þegar hún kvaðst hafa spurt hann hvort hann ætlaði ekki að koma inn í rúm og hafi hann játað því.  Hún kvaðst hafa farið aðeins fram og 5-10 mínútum síðar hafi hún komið aftur fram en þá hafi ákærði verið dottinn aftur fyrir sig í rúmið og hafi hann verið byrjaður að hrjóta.  Hún kvaðst hafa ýtt við honum en séð að það þýddi ekkert að koma honum á fætur og skýrði hún svo frá að þegar hann væri búinn að fá sér í glas og sofni vakni hann ekki aftur fyrr en eftir að hann væri búinn að fá nægan svefn.  I kvaðst eftir þetta hafa verið á vappi um íbúðina, farið tvisvar sinnum inn í herbergi til að sinna syni sínum þegar hann fór að gráta.  Hún kvaðst hafa setið frammi til kl. 6 um morguninn, en þá hafi hún farið inn í rúm og ætlað að fara að sofa en drengurinn hennar hafi þá vaknað og hafi hún þá farið með hann fram.  Þegar hún hafi verið komin inn í stofu hafi Þ verið vöknuð og hafi hún verið að tala við N son þeirra.  Þ hafi síðan vakið Z, þær hafi rætt eitthvað saman og síðan farið inn í svefnherbergi, en ákærði hafi enn verið sofandi á sama stað.  Hún lýsti því nánar hvernig ákærði lá í rúminu, hann hafi verið í  gallabuxum og bol og þegar stúlkurnar hafi verið farnar inn í svefnherbergi hafi hann enn verið í sama fatnaði.  Hún kvað hann ekki hafa fært sig ofar í rúmið og þá hafi stúlkurnar báðar snúið baki í hann.  Hann hafi verið búinn að toga aðeins af svefnpoka Þ yfir sig en hún hafi legið ofan á svefnpokanum.   Hún kvað að miðað við aðstæður hefði þurft kraftaverk miðað við það sem hún sá um nóttina til þess að ákærði hefði náð að komast upp á Þ.  Þá kvaðst hún myndu hafa tekið hönd hans í burtu hefði hún séð að hann hefði reynt að snerta hana.

             I kvað Þ hafa verið káta og hressa og hafi þær Z síðan farið inn á salerni.  Eftir að þær hefðu verið þar kvaðst hún hafa fundið blóðugt dömubindi á gólfinu og og var viss um að Þ ætti það því hún sagði Z ekki nota dömubindi.  Hún kvað Þ upphaflega hafa ætlað heim á sunnudeginum en hún hafi viljað fara heim fyrr og hafi hún gefið þá skýringu að henni væri svo illt í maganum, óglatt og vildi fara heim.  Hún kvað stúlkurnar ekki hafa rætt um það sem gerðist heima hjá K að öðru leyti en því að þær hafi verið að stela sér sopa úr öllum flöskum sem þær fundu.

             Vitnið O, skýrði svo frá fyrir dómi að hún og faðir Þ væru systrabörn og hefði Þ oft gist hjá henni, en vitnið býr á [...].  Þá kvaðst hún eiga dóttur, P, sem væri ári eldri en Þ.  Kvaðst O eftir atburðina 21. mars í fyrra hafa heyrt á tal þeirra þar sem Þ var að lýsa því fyrir P hvað hefði gerst á [...].  Þ hafi síðan hringt í vitnið og lýst atburðum fyrir henni.  Kvaðst hún hafa verið í partýi í einhverju húsi og  hefði hún orðið drukkin og hefði einhver maður gert eitthvað við sig og hafi hún ætlað að athuga hvort hún væri ófrísk.  Þá skildist henni að henni væri eitthvað illt í kynfærunum eftir þetta.  Hún kvað Þ ekki hafa lýst því í smáatriðum hvað gerðist en aðspurð hvort þetta hefði gengið alla leið hafi hún játað því.  Kvað hún Þ hafa tjáð sér að hún hefði verið inni í herbergi með þessum manni og minnti hana að hún hefði sagt að önnur stúlka hefði verið við hlið þeirra í rúminu og hefði þetta gerst meðan stúkan var þar.  Eftir að þetta mál hafi komið upp hafi verið ákveðið að Þ dveldi hjá vitninu í einhvern tíma og var hún fyrst hjá henni í nokkrar vikur í fyrrasumar. Þaðan sagði hún Þ hafa farið á [...] en í september eða október hafi hún komið aftur til dvalar hjá vitninu og verið þar þangað til í mars s.l. er hún fór til dvalar á [...], en það sé meðferðarheimili á vegum barnaverndarnefndar.  O kvað alla hafa verið sammála um að Þ þyrfti á sérfræðihjálp að halda eftir þessa atburði og þá kvaðst hún hafa heyrt umræðu um að hún hefði leiðst út í fíkniefnaneyslu.  Aðspurð hvort hún teldi að Þ væri sannsögul sagði hún það upp og ofan og segði hún ekki alltaf satt.  Þá ætti hún til að byggja miklar skýjaborgir, t.d. í tengslum við fyrirhugað nám og búsetu.

             Vitnið R, vinkona Þ, skýrði svo frá fyrir dómi að þær hafi ræðst við í síma og þá hafi Þ skýrt henni frá því að hún hafi verið að drekka með Z vinkonu sinni og hefði faðir hennar brotið gegn henni kynferðislega.  Hafi hún farið að sofa og legið á dýnu við hliðina á rúmi Z og þá hefði faðir hennar komið inn og farið að káfa á henni milli fótanna.  Síðan hafi hann fengið hana til þess að sofa hjá sér og hafi Þ talað um að hún hafi verið of full til að muna hvort hann hafi farið alveg inn.  Kvaðst R hafa hitt hana í vikunni á eftir og þá hafi hún kvartað yfir því hvað hún væri sár og aum og þá tók hún svo til orða að hún hefði „labbað rosalega asnalega“.  Þá kvaðst hún hafa farið með henni á neyðarmóttökuna sem nánasta vinkona hennar.  Hún lýsti Þ þannig að hún hefði alltaf verið uppreisnargjörn, sérstaklega gagnvart móður sinni.  Hún kvað hana hafa lent í algjöru rugli þegar hún var í 7. eða 8. bekk, hún ætti það til að drekka sig fulla og þá vissi hún til þess að hún væri farin að nota fíkniefni.

             Vitnið M, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið í heimsókn hjá L vini sínum og K móður hans og þar hefðu verið stödd ákærði, Z dóttir hans og Þ.  Hann kvaðst hafa séð að Þ hafi náð sér í einn og einn bjór.  Hann kvað hana hafa kastað upp seinna um kvöldið og hélt hann að hún hefði eftir það lagt sig inni í herbergi.  Hann kvaðst muna eftir því að dyrnar hafi verið lokaðar en hann mundi ekki eftir því að hafa bankað á hurðina og þá vissi hann ekki til þess að einhverjir hefðu farið inn í herbergið.  M kvað stúlkurnar hafa hringt í sig daginn eftir og beðið sig að keyra sig til [...] og kvaðst hann hafa gert það.  Honum virtust þær niðurdregnar og virtist Þ liggja á að komast heim til sín og hafði á orði að hana langaði ekki til að vera lengur á [...].  Sagði hann Þ hafa að skilnaði þakkað sér fyrir að banka, en hann kvaðst ekki hafa áttað sig á því hvað hún átti við.

             Vitnið Vigdís Erlendsdóttir, sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður Barnahúss, kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sem hún gerði vegna greiningar og meðferðar á Þ.  Skýrslan er dagsett 10. mars 2004 og kemur þar fram að Þ hafi sótt átta viðtöl til Vigdísar á tímabilinu frá 2. maí til 22. desember 2003 í húsnæði Barnahúss.  Í viðtölum við hana hafi hún nokkrum sinnum vikið að hinu kynferðislega ofbeldi sem hún kvaðst hafa sætt af hálfu ákærða.  Hafi viðhorf hennar til atvikanna verið fremur sveiflótt og hafi hún stundum verið ákærða reið en í annan tíma fundist hún bera fulla ábyrgð á atvikunum, m.a. vegna þess að hún hafi þegið áfengi hjá honum.  Niðurstaða Vigdísar var sú að útlit Þ væri í samræmi við aldur en framkoma fremur barnaleg.  Hún hafi um nokkurt skeið átt við hegðunarerfiðleika að etja en vandamál hennar hafi aukist í kjölfar hins ætlaða kynferðislega ofbeldis.  Hún uppfylli greiningarskilmerki fyrir áfallaröskun auk þess sem hún greindist með geðlægð sem meðhöndluð var með lyfjum.  Hafi kynferðisofbeldið valdið henni sektarkennd og kvarti hún um kvíða.  Þá óttist hún mjög að hitta ætlaðan geranda á förnum vegi.  Taldi Vigdís ástand hennar of bágborið til þes að hún gæti nýtt sér göngudeildarmeðferð og var því gert hlé á viðtölum þar til hún hefði fengið inni í langtímameðferð á vegum Barnaverndarstofu.  Fyrir dómi skýrði Vigdís svo frá að hún hefði ekki hitt Þ eftir þetta en kvaðst vita til þess að hún hafi verið lögð inn til langtímameðferðar á meðferðarheimili á [...] sem er á vegum Barnarverndarstofu, enda hefði hún ekki svarað lyfjameðferð sem skyldi.  Hún kvaðst hafa aflað sér upplýsinga um að hún hefði átt við hegðunarvanda að stríða áður en mál þetta kom upp en þeim sem þekktu hana hafi borið saman um að ástandið hefði versnað eftir það.  Vigdísi fannst Þ ekki hafa tilhneigingu til að ýkja, en hún hafi verið frekar barnaleg í framsetningu.  Vigdís kvaðst hafa skoðað myndband sem tekið var af yfirheyrslu yfir Þ fyrir dómi og fannst vera samræmi á milli þess sem þar kom fram og því sem hún tjáði henni.  Vigdísi fannst Þ bera þess merki að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, hún væri stundum ögrandi í klæðaburði og þá merkti hún áfallaröskun hjá henni sem oft sjáist hjá þolendum kynferðisofbeldis.

Ákæruliður III, niðurstaða.

             Sakargiftir gagnvart ákærða samkvæmt þessum ákærulið lúta að ætluðum kynferðisbrotum hans gagnvart Þ aðfaranótt laugardagsins 22. mars 2003, í fyrsta lagi með því að hafa afklætt stúlkuna að neðan og káfað á kynfærum hennar og brjóstum þar sem þau voru gestkomandi að [...] og síðar sömu nótt er þau voru komin á heimili ákærða að [...] að hafa reynt að hafa samfarir við stúlkuna, sbr. ákærulið III, 6 og 7.  Ákærði neitar alfarið sök en hefur viðurkennt að hafa veitt stúlkunni áfengi og farið einn með hana inn í herbergi og aðstoðað hana við að skipta um buxur sem hún hafði ælt á.  Dómurinn hefur skoðað myndbandsupptöku af framburði Þ í Barnahúsi og er það sameiginleg niðurstaða dómenda að framburður hennar sé trúverðugur en hún leynir því ekki að hún muni atburði illa sökum ölvunar sinnar.  Með framburði þeirra vitna sem voru í húsinu telst fyllilega sannað að ákærði hafi verið einn með Þ inni í lokuðu herbergi í 10-15 mínútur í því skyni að hans sögn að hjálpa henni úr útældum buxunum.  Hins vegar er upplýst í málinu að Þ hafði þá þegar verið búin að skipta um buxur og má með ólíkindum telja að ákærða hafi ekki verið það ljóst.  Þá verður ekki séð hvaða lögmæta ástæðu ákærði hafði til að dvelja allan þennan tíma í lokuðu herbergi hjá stúlkunni fáklæddri.  Ber í þessu ljósi að hafna alfarið framburði ákærða um atburðinn og leggja framburð Þ til grundvallar og ber í því sambandi að vísa til álits Vigdísar Erlendsdóttur, forstöðumanns Barnahúss.  Að mati hennar hafði Þ ekki tilhneigingu til að ýkja og þá var það niðurstaða hennar að hún bæri þess merki að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.  Samkvæmt öllu framansögðu hefur ákærði því að mati dómsins orðið sannur að sök um brot samkvæmt ákærulið III, 6 og er það rétt fært til refsiákvæða í ákæru.

             Að því er ákærulið III, 7 varðar ber að hafa í huga að það atvik gerist í beinu framhaldi af broti ákærða gagnvart Þ að [...].  Er nægilega upplýst að ákærði settist til fóta í svefnsófa þar sem Þ og Z höfðu lagst til svefns í þeim tilgangi að því er hann sagði að horfa á sjónvarpsfréttir af stríðsátökum.  Hann mun sjálfur hafa sofnað á milli þeirra þannig að hann féll í rúmið en fætur stóðu aðeins útfyrir eins og ákærði lýsti því.  Þá hefur komið fram að ákærði hafi sett hluta af svefnpoka Þ yfir sig.  Ákærði neitar sök og segist hafa sofið í einum dúr og ekki vaknað fyrr en stúlkurnar hafi verið komnar framúr.  Framburður ákærða fær stoð í framburði I, sambýliskonu hans, en hún kvaðst ekki hafa orðið vör við neitt athugavert um nóttina, en hún kvaðst hafa verið á vappi um íbúðina og farið tvisvar inn í herbergi til að sinna syni sínum.  Þá lýsti hún því að ekkert þýddi að koma ákærða á fætur þegar hann hafi neytt áfengis fyrr en hann hefði sofið úr sér.  Verður ekki hjá því komist að skoða hegðun ákærða þarna í ljósi brots hans gagnvart Þ fyrr um nóttina og þá verður að meta framburð sambýliskonu hans í ljósi tengsla þeirra.  Verður að telja sérstaklega ámælisvert af ákærða að leggjast til svefns við hlið kornungrar stúlku sem var honum að mestu ókunnug og honum hafði verið treyst fyrir.  Með vísan til þeirra raka sem rakin voru hér að framan um trúverðugleika framburðar Þ er það niðurstaða dómsins að hafna beri framburði ákærða og leggja framburð Þ til grundvallar um málsatvik, en við mat á trúverðuleika framburðar hennar er enn stuðst við það álit Vigdísar Erlendsdóttur, er áður hefur verið gerð grein fyrir, að Þ hafi ekki tilhneigingu til að ýkja og beri þess merki að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.  Telst því nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot samkvæmt ákærulið III, 7.  og er það rétt fært til refsiákvæða í ákæru.

Sakaferill, viðurlög, bætur og málskostnaður.

             Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann sektaður og sviptur ökurétti árið 2001 fyrir ölvunarakstur.  Brot ákærða gegn Y dóttur sinni og Þ sem hann hefur verið sakfelldur fyrir voru alvarleg.  Ber sérstaklega að hafa í huga að Y var einungis 11 eða 12 ára gömul þegar ákærði braut fyrst gegn henni.  Þá hefur ákærði einnig verið sakfelldur fyrir að þukla innanklæða á brjóstum annarrar dóttur sinnar, Z.  Hefur ákærði því með háttsemi sinni brotið alvarlega gegn skyldum sínum sem foreldri og uppalandi.  Þá var Þ einungis 13 ára gömul þegar ákærði braut gegn henni en hún var vinkona dóttur hans og var í heimsókn hjá honum úti á landi og hafði ákærða þannig verið treyst fyrir henni.

             Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár.

             Í ljósi þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunum eiga þær ótvíræðan rétt til miskabóta úr hendi hans, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og XX. kafla laga nr. 19/1991.  Lögð hafa verið fram gögn í málinu sem sýna fram á að brot ákærða gagnvart stúlkunum hafa valdið þeim margvíslegum sálrænum erfiðleikum.  Í bótakröfu réttargæslumanns Y er á það bent að hún hafi verið barn og í umsjá ákærða þegar hann hafi misnotað hana kynferðislega og hafi hann brugðist trausti hennar á mjög grófan hátt.  Sé erfitt að segja til um hversu mikil áhrif misnotkunin muni hafa á stúlkuna í framtíðinni en ljóst sé að brotin munu hafa mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu hennar í framtíðinni.  Í bótakröfu réttargæslumanns Z er á það bent að hún hafi verið barn og í umsjá ákærða þegar hann hafi misnotað hana kynferðislega og hafi hann brugðist trausti hennar á mjög grófan hátt.  Sé erfitt að segja til um að svo stöddu hversu mikil áhrif misnotkunin muni hafa á brotaþola í framtíðinni.  Þá hafi komið fram við skýrslutöku í Barnahúsi að Z vilji ekki láta sjást í líkama sinn og hafi sjálfstraust hennar minnkað.  Í bótakröfu réttargæslumanns Þ er á það bent að hún hafi verið barn og í heimsókn hjá ákærða þegar hann hafi misnotað hana kynferðislega og brugðist trausti hennar á mjög grófan hátt.  Sé um að ræða alvarlega kynferðislega misnotkun og gróft brot gegn persónu hennar sem komi til með að hafa mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu stúlkunnar í framtíðinni.

             Með hliðsjón af framansögðu þykja miskabætur til Y hæfilega ákveðnar 700.000 krónur, miskabætur til Z 100.000 krónur og miskabætur til Þ 400.000 krónur.  Bera bæturnar vexti eins og í dómsorði greinir en rétt þykir að miða dráttarvexti frá 10. mars s.l., en þá var liðinn mánuður frá þingfestingu málsins.

          Þrátt fyrir að ákærði hafi verið sýknaður af einum ákærulið telur dómurinn ekki ástæðu til annars en að dæma hann til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991.  Þykja málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjólfs Eyvindssonar, hdl, hæfilega ákveðin 600.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur, hdl. þykir hæfilega ákveðin 300.000 krónur.

             Sigríður Jósefsdóttir, saksóknari, flutti málið af hálfu ákæruvalds.

          Dómsuppsaga hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna anna dómenda, en sakflytjendur töldu ekki þörf á endurflutningi. Dómurinn er kveðinn upp af Hirti O. Aðalsteinssyni, héraðsdómara, sem dómsformanni og meðdómsmönnunum Hjördísi Hákonardóttur, dómstjóra og Símoni Sigvaldasyni, héraðsdómara.

DÓMSORÐ:

          Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 ár.

             Ákærði greiði Y 700.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. desember 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 10. mars 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Z 100.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. desember 2002 til 10. mars 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

             Ákærði greiði Þ 400.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. mars 2003 til 10. mars 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

             Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar, hdl., 600.000 krónur og 300.000 krónur í þóknun til Þórdísar Bjarnadóttur, skipaðs réttargæslumanns brotaþola.