Hæstiréttur íslands

Mál nr. 331/2014


Lykilorð

  • Bifreið
  • Umferðarlög
  • Slysatrygging ökumanns
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 29. janúar 2015.

Nr. 331/2014.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Jóni Þorvaldi Eysteinssyni

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

Bifreiðir. Umferðarlög. Slysatrygging ökumanns. Gjafsókn.

J höfðaði mál gegn V hf. og krafðist bóta vegna tjóns sem hann varð fyrir eftir að hafa látið fyrir berast næturlangt eða klukkutímum saman í þvingaðri líkamsstellingu í stýrishúsi vörubifreiðar, sem hann ók, eftir að bifreiðin valt á hliðina. Ekki var deilt um að tjón J væri að rekja til veru hans í bifreiðinni greint sinn en V hf. bar því hins vegar við að atburðurinn yrði hvorki rakinn til slyss við stjórn ökutækisins né notkunar þess í skilningi 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þá hefði ekki verið um eiginlegt slys að ræða. Talið var fullnægt þeim skilyrðum 2. mgr. 92. gr. um greiðslu úr slysatryggingu ökumanns að um notkun hefði verið að ræða og að J hefði verið við stjórn bifreiðarinnar greint sinn. Þá var það ekki talið skipta máli um afmörkun á því hvort um slys hefði verið að ræða hvort bifreiðin hefði oltið mjög skyndilega á hliðina eða á eitthvað lengri tíma. Í ljósi þessa og þar sem óumdeilt var að J hefði ekki átt annarra kosta völ en að bíða í bifreiðinni var talið að nægilega væri sýnt fram á orsakatengsl slyssins og þess heilsufarslega skaða sem J hefði orðið fyrir. Var krafa hans því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari, Karl Axelsson settur hæstaréttardómari og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. maí 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar greinir í héraðsdómi á mál þetta rætur að rekja til þess að 17. september 2008 ók stefndi vöruflutningabifreið með festivagn, TL-039, snemma nætur frá Patreksfirði til Suðureyrar. Í bifreiðinni voru 12 tonn af ísuðum fiski. Á leið sinni um Þernudal við þjóðveginn um Arnarfjörð mun stefndi hafa komið að djúpu úrrennsli á veginum og þurft að stöðva bifreiðina. Lýsir stefndi atvikum svo að þegar hann hafi síðan reynt að komast framhjá skarði, sem myndast hafði á veginum, hafi hægra framhjól bifreiðarinnar tekið að síga niður á vegkantinn og bíllinn spólað með þeim afleiðingum að hann sat fastur. Hafi grafist undan bifreiðinni sem í framhaldinu hafi oltið á hægri hliðina og við það hafi vatn tekið að streyma inn í stýrishús hennar. Vegna aðstæðna og mikils óveðurs hafi stefnda verið nauðugur einn sá kostur að halda sig inni í bifreiðinni og bíða aðstoðar enda verið fjarri byggð, auk þess sem stefndi hafi ekki getað hringt eftir aðstoð þar sem farsími hans hafi fallið í vatnið. Stefndi hafi vegna þessa orðið að láta fyrir berast í bifreiðinni til morguns þegar fyrst var að honum komið, að minnsta kosti fimm klukkustundum síðar.

Stefndi byggir á því að hann búi við varanlegt heilsutjón eftir að hafa látið fyrir berast á brún farþegasætis bifreiðarinnar í þvingaðri líkamsstellingu uns aðstoð barst í greint sinn. Hann hafi hlotið meiðsl á mjóbaki og mjöðmum, auk þess sem atburðurinn hafi leitt af sér töluverðar geðrænar afleiðingar. Vegna þessa leitaði hann til áfrýjanda og krafðist viðurkenningar á bótaskyldu hans, en bifreiðin sem stefndi ók greint sinn var tryggð slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hjá áfrýjanda. Með bréfi 15. febrúar 2010 hafnaði áfrýjandi hins vegar bótaskyldu með vísan til þess að líkamstjón stefnda yrði hvorki rakið til slyss við stjórn ökutækisins né notkunar þess í skilningi 88. gr. laganna.

Samkvæmt yfirlýsingum lögmanna málsaðila fyrir Hæstarétti er ekki deilt um það að metið heilsufarslegt tjón stefnda verði rakið til veru hans í stýrishúsi bifreiðarinnar í kjölfar atburðar þessa umrædda nótt. Þá er ekki um það deilt að stefndi hafi ekki átt annars úrkosta en að halda kyrru fyrir í stýrishúsi bifreiðarinnar eftir að hún fór á hliðina og þar til hjálp barst en mjög slæmt veður var umrædda nótt með mikilli rigningu og hvössum vindi.

II.

Af hálfu áfrýjanda hefur verið vísað til þess að ósamræmi sé í lýsingum stefnda á tilurð atburðarins aðfaranótt 17. september 2008 þannig að ekki beri að öllu leyti saman lýsingu í lögregluskýrslu 26. september sama ár á tildrögum þess að bifreiðin fór á hliðina og svo síðar tilkomnum lýsingum, meðal annars í stefnu til héraðsdóms og framburði stefnda fyrir dómi. Er þá til þess að líta að umrædd lögregluskýrsla var fyrst gerð níu dögum eftir atburðurinn og í henni var aðeins að finna endursögn lögreglumanns á samtali við stefnda morguninn eftir atburðinn. Verður að meta sönnunargildi lögregluskýrslunnar með hliðsjón af því.

Í málinu er óumdeilt að þegar stefndi ók umrætt sinn vörubifreiðinni með festivagni freistaði hann þess að sneiða hjá torfæru á þjóðveginum þegar hægra framhjól fór út af veginum, bíllinn festist, grafa fór undan honum og hann endaði á hægri hliðinni. Er þannig fullnægt þeim skilyrðum 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga að atburðurinn hafi orðið við notkun ökutækisins og stefndi verið við stjórn þess. Að þessu virtu hefur það ekki úrslitaþýðingu hvort bíllinn valt í framhaldinu mjög skyndilega á hliðina eða hvort að það gerðist á eitthvað lengri tíma, en fyrir dómi bar stefndi að þetta hefði gerst á 15-20 sekúndum. Um er að ræða atvik sem fellur undir afmörkun 2. mgr. 92. gr. á slysi. Að því virtu sem og að óumdeilt er að stefndi átti engra annarra úrkosta en að láta fyrir berast í bifreiðinni eftir slysið er nægilega sýnt fram á orsakatengsl þess og heilsufarslegs skaða sem stefndi varð fyrir þá um nóttina. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjanda beri að greiða stefnda bætur á grundvelli slysatryggingar ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga. Þar sem ekki er uppi tölulegur ágreiningur verður jafnframt staðfest niðurstaða dómsins um bótafjárhæð og vexti, sem og um málskostnað.

Eftir þessum úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð, en um þann málskostnað og gjafsóknarkostnað stefnda fer samkvæmt því, sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Jóns Þorvalds Eysteinssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2014.

                Mál þetta höfðaði Jón Þorvaldur Eysteinsson, kt. 010260-3889, Hraunsvegi 7, Reykjanesbæ, með stefnu birtri 7. mars 2012, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, 108 Reykjavík.  Málið var dómtekið 22. janúar sl. 

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 18.543.506 krónur með 4,5% ársvöxtum af 4.118.981 krónu frá 17. september 2008 til 17. september 2009, af 18.543.506 krónum frá þeim degi til 24. desember 2011, en með dráttar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 15.095.081 krónu frá þeim degi til 30. maí 2013, en af 18.543.506 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsókn 9. nóvember 2010.  Hefur hann lagt fram málskostnaðar­reikning að fjárhæð samtals 2.888.407 krónur. 

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.  Til vara krefst stefndi þess að kröfur verði lækkaðar verulega og máls­kostnaður felldur niður. 

                Stefnandi krefst í máli þessu bóta samkvæmt samningi um slysatryggingu öku­manns hjá stefnda vegna bifreiðarinnar TL-039, en hann hafi orðið fyrir slysi aðfaranótt 17. september 2008. 

                Aðdraganda slyssins er lýst í stefnu.  Stefnandi ók flutningabifreið frá Patreks­firði snemma þessa nótt áleiðis til Suðureyrar.  Í bifreiðinni voru um 12 tonn af ísuðum fiski.  Stefnandi kom þar að á leið sinni um Þernudal að runnið hafði úr veginum og myndast skarð.  Stöðvaði hann þar bifreiðina.  Reyndi hann að finna leið fram hjá skarðinu með því að aka upp úr hjólförunum, en þá rann undan bifreiðinni og stefnandi ...

                „fann þá strax að hægra framhjól bifreiðarinnar byrjaði að síga niður.  Hann reyndi að bakka bifreiðinni en það gekk ekki.  Bifreiðin spólaði, seig áfram út á hægri hlið og sat föst.  Vatn gróf þá undan bifreiðinni og hún lagðist skyndilega á hægri hlið þannig að vatn flæddi inn í stjórnhúsbifreiðarinnar og yfir allt farþegasætið.  Vatnið náði nánast upp á miðja framrúðu bifreiðarinnar og gekk yfir hana í hryðjum.“ 

                Stefnandi gat ekki yfirgefið bifreiðina og hafðist hann við í henni fram á næsta morgun.  Segir í stefnu að hann hafi orðið að standa á brún farþegasætisins saman­krepptur í erfiðri, óþægilegri og mjög þvingaðri líkamsstellingu.  Liðu margar klukku­stundir þar til vegfarendur komu honum til hjálpar og var honum ekið til Bíldudals. 

                Þessi lýsing er stytt lýsing þess sem tekið er upp í stefnu.  Stefndi gerði bæði í greinargerð og málflutningsræðu sinni athugasemdir við þessa málsatvikalýsingu.  Taldi hann að eðlilegra væri að byggja á lýsingu þeirri sem stefnandi gaf í skýrslu hjá lögreglu. 

                Stefnandi gaf ekki formlega framburðarskýrslu hjá lögreglu, en frásögn hans er tíunduð í frumskýrslu lögreglu, sem dagsett er 26. september 2008.  Þar segir orðrétt: 

                „Ökumaður sagði að hann hafi komið á úrrennsli úr veginum, hann hafi stoppað séð að úrrennslið hafi verið talsvert djúpt, hann hafi ætlað að fara aðeins upp úr venjulegu hjólfari og hann þá strax fundið að hægra framhjól bílsins hafi byrjað að síga niður, hann hafi stoppað strax ætlað að bakka til baka, en það ekki tekist, bíllinn hafi spólað, hann því verið fastur þarna.  ... smátt og smátt hafi vatn grafið undan bílnum og hann lagst á hliðina hægt og rólega þar til hann var kominn nánast á hliðina.  Ökumaður sagði að við það að bíllinn var kominn á hliðina hafi vatn byrjað að flæða inn í bílinn og komið upp á farþegasætið og hann hafi misst síma sinn í vatnið, því hafi hann ekki getað hringt og látið vita af sér.  Ökumaður sagði að hann hafi síðan haldið til í bílnum þar til vegfarendur ...“

                Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.  Hann kvaðst hafa verið að aka í versta veðri sem hann hafi lent í.  Bíllinn hafi fest þegar eitthvað gaf sig undan hægra hjólinu og bíllinn seig niður.  Hann hafi ekki náð að bakka út úr þessu.  Bíllinn hafi skollið á hliðina á 15-20 sekúndum.  Aðstæðurnar hafi verið skelfilegar í stjórnhúsinu.  Hann hafi fyrst ætlað að fara út, en hafi hætt við það.  Það hafi flætt mikið inn í bílinn.  Hann hafi hafst við í bílnum í um átta klukkustundir. 

                Fyrir dómi staðfesti stefnandi þá frásögn sína hjá undirmatsmönnum að hann teldi sig hafa fengið áverka á mjóbak og mjaðmir vegna þeirrar erfiðu stöðu sem hann hafi verið í þegar hann beið í bílnum. 

                Spurður um frásögn í lögregluskýrslu sagði stefnandi hana ekki rétta.  Bíllinn hafi ekki sigið hægt niður. 

                Stefnandi leitaði eftir viðurkenningu stefnda á greiðsluskyldu úr slysa­tryggingu ökumanns, en stefndi neitaði.  Lagði stefnandi málið fyrir Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.  Komst hún að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum 31. ágúst 2010 að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr slysatryggingu ökumanns.  Er þessi afstaða rökstudd með því að ekki yrði ráðið að skyndilegur utanaðkomandi atburður hafi valdið meiðslum stefnanda.  Þá yrði tjón hans ekki rakið til stjórnunar bifreiðarinnar. 

                Þessu undi stefnandi ekki og hóf undirbúning að höfðun máls þessa.  Að kröfu hans voru dómkvaddir matsmenn þann 4. mars 2011 til að meta tjón hans af völdum slyssins.  Matsgerð þeirra Sigurðar Ásgeirs Kristinssonar bæklunarskurðlæknis og Sigurðar B. Halldórssonar hæstaréttarlögmanns er dagsett 11. nóvember 2011. 

                Meginniðurstöður þeirra eru þessar: 

                Tímabundið atvinnutjón, skv. 2. gr. skaðabótalaga – ein vika

                Þjáningatími skv. 3. gr. skaðabótalaga – ein vika

                Stöðugleikatímapunktur – 17. september 2009

                Varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaga – 25 stig

                Varanleg örorka skv. 5-7. gr. skaðabótalaga – 30%

                Undir rekstri málsins krafðist stefndi yfirmats.  Yfirmatsgerð þeirra Guðmundar Péturssonar hæstaréttarlögmanns, Bjarka Sigurðar Karlssonar bæklunar­skurðlæknis og Tómasar Zoëga geðlæknis er dagsett 18. apríl 2013. 

                Rétt er að taka nokkur atriði orðrétt upp úr yfirmatsgerð: 

                Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leitar [stefnandi] fyrst til læknis vegna slyssins þann 09.01.2009 þegar hann hittir Sigurjón Sigurðsson bæklunarlækni, en segist eins og fyrr hefur komið fram hafa pantað tíma hjá lækninum í október 2008 eða tveim eða þremur vikum eftir slysið.  Þar kvartar hann yfir verkjum í vinstri mjöðm og mjóbaki og tengir það slysinu 17.09.2008.  Sigurjón sendi hann í frekari rannsóknir 14.01.2009 og komst Sigurjón að þeirri niðurstöðu að [stefnandi] hefði í slysinu hlotið tognun í mjóbaki og kramningsáverka á vinstri mjöðm. 

                Garðar Guðmundsson heila og taugaskurðlæknir skoðaði [stefnanda] 16.10.2009 og niðurstöður hans voru þær að [stefnandi] glímdi við þráláta verki neðst í mjóbaki, spjaldhrygg og báðum mjöðmum vegna slyssins 17.09.2008 og jafnframt að ástand hans væri varanlegt. 

                Að því er varðar orsakasamband milli stoðkerfiseinkenna [stefnanda] í dag og óhappsins 17.09.2008 telja yfirmatsmenn að þó svo að [stefnandi] hafi ekki leitað til læknis fyrr en tæpum fjórum mánuðum eftir slysið þá hafi hin slæma líkamsstaða matsþola í bifreiðinni nánast á hliðinni í 6-8 klst., kuldinn og vosbúðin, sem fylgdu dvölinni í bifreiðinni þarna um nóttina hafa verið til þess fallin að ýfa upp fyrri stoðkerfiseinkenni í mjöðmum og mjóbaki og orskasamband að því fyrir hendi hvað þau varðar. 

                Meginniðurstöður yfirmatsgerðar eru þær að tímabundin óvinnufærni hafi varað frá 17. til 24. september 2008 og frá 1. janúar til 17. september 2009.  Þjáninga­bótatímabil hafi verið þau sömu.  Þeir staðfesta niðurstöðu matsmanna um stöðug­leikapunkt.  Varanlegan miska telja þeir 28 stig og varanlega örorku 33%. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir málssókn sína á hendur stefnda á 92., sbr. 91. gr. umferðar­laga nr. 50/1987 og vátryggingu og skilmálum stefnda fyrir ökutækjatryggingu nr. BA10, kafla C, gr. 24 og 25.  Lögboðin slysatrygging ökumanns vegna umræddrar bifreiðar hafi verið í gildi hjá stefnda á slysdegi.  Telur stefnandi að tryggingin nái til slyssins. 

                Útreikningur skaðabótakröfu er byggður á skaðabótalögum nr. 50/1993 og niðurstöðum dómkvaddra matsmanna og yfirmatsmanna. 

                Stefnandi kveðst byggja á því að líkamstjón hans verði rakið til þess að hann var bílstjóri vöruflutningabifreiðarinnar og hafi stjórnað akstri hennar þegar hún fór út af veginum.  Tjónið hafi þannig orsakast af notkun bifreiðarinnar sem ökutækis, hraða þess og þyngd.  Hann telur ljóst að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni við stjórn vöru­bifreiðarinnar.  Það sé slys þegar vörubifreiðin sem hann stjórnaði festist og fór út af veginum með þeim afleiðingum að bifreiðin lagðist á hliðina  Líkamstjón stefnanda hafi orðið vegna þessa slyss, enda ljóst að ef bifreiðin hefði ekki lagst á hliðina, hefði stefnandi ekki orðið fyrir líkamstjóni.  Það sé beint og órjúfanlegt orsakasamband milli þess að stefnandi er ökumaður við stjórn ökutækisins og líkamstjóns hans. 

                Líkamstjón stefnanda standi í nánum tengslum við slysið, það sé afleiðing þess að vörubifreiðin leggst á hliðina, og verði ekki slitið í sundur með þeim hætti að líkamstjón hans sé eingöngu vegna slæmrar líkamsstöðu og ofkælingar án nokkurra tengsla við slysið.  Áfallastreituröskun og þunglyndi sem hrjáir stefnanda eftir slysið lúti nákvæmlega sömu röksemdum og verði ekki skilið frá slysinu.  Ástæður hvors tveggja sé sá lífsháski sem stefnandi hafi verið í um nóttina. Hvort tveggja sé bein orsök og sennileg afleiðing af slysinu.  Ef bifreiðin hefði ekki oltið á hliðina út af veginum ofan í vatnið hefði stefnandi ekki orðið fyrir því líkamlega og andlega tjóni sem hann líði fyrir í dag. 

                Stefnandi kveðst telja einsýnt að líkamstjón hans sé að rekja til notkunar vöru­bifreiðarinnar í skilningi 1. mgr. 88. gr., sbr. 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga.  Bifreiðin hafi verið í notkun þegar slysið varð. Stefnandi hafi ekið bifreiðinni þegar veg­kanturinn gaf sig og vörubifreiðin lagðist á hliðina ofan í vatn, þannig að þær aðstæður hafi orðið til sem hafi valdið líkamstjóni stefnanda.  Líkamstjón stefnanda sé því nátengt undanfarandi notkun vörubifreiðarinnar og verði ekki slitið frá henni sem einstakur atburður án tengsla við slysið sem hlaust af notkuninni.

                Tjón stefnanda verði rakið til hættueiginleika vöruflutningabifreiðarinnar sem ökutækis. Slysið þegar vöruflutningabifreiðin lagðist á hliðina hafi orðið vegna þyngdar hennar sem sé hættueiginleiki.  Léttari bifreið hefði væntanlega ekki oltið á hliðina við þær aðstæður sem þarna voru.  Þá hafi vöruflutningabifreiðin verið í eðlilegri og venjulegri notkun sem ökutæki þegar slysið varð. 

                Þá telur stefnandi að hér hafi orðið slys í skilningi slysatryggingarskilmála.  Telur hann það vera skyndilegan utanaðkomandi atburð er bifreiðin lagðist á hliðina.  Líkamstjónið sé bein afleiðing þessa skyndilega og utanaðkomandi atburðar og gerist án vilja hans. 

                Loks vísar stefnandi til 91. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og sjónarmiða að baki því ákvæði.  Vátryggingafélag geti ekki borið fyrir sig tilgreindar ábyrgðartakmarkanir ef sú háttsemi sem um ræðir hefur falið í sér viðleitni til að koma í veg fyrir tjón á mönnum eða munum og telja megi hana hafa verið réttlætanlega miðað við aðstæður.  Ákvæðið byggi á því að í neyðartilvikum sé vátryggðum heimilt að grípa til athafna sem séu andstæðar skuldbindingum hans samkvæmt vátyggingar­samningi.  Að mati stefnanda verði ákvæðið skýrt þannig að í tilvikum þar sem tjón er óumflýjanlegt til að bjarga mannslífi sé rými vátryggingafélaga til að bera fyrir sig ábyrgðartakmarkanir eða atvik sem leiða til missis bótaréttar minna en ella.  Stefnandi kveðst hafa bjargað lífi sínu með því að bregðast rétt við aðstæðum.  Með því að halda fyrir í stýrishúsinu hafi hann komið í veg fyrir mun alvarlegri afleiðingar umferðar­slyssins.  Viðbrögð hans hafi verið eðlileg og réttlætanleg og í raun þau einu mögulegu. 

                Stefndi mótmælir ekki einstökum atriðum í kröfugerð stefnanda, eins og henni hefur verið breytt eftir að yfirmatsgerð var lögð fram.  Verður krafan því ekki sundur­liðuð nákvæmlega. 

                Stefnandi krefst bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, en eins og áður segir er hann talinn hafa verið óvinnufær frá 17. til 24. september 2008 og aftur frá 1. janúar til 17.  september 2009.  Stefnandi hefur ekki uppi kröfur vegna fyrra tímabilsins, en þá naut hann launa frá vinnuveitanda sínum.  Hann kveðst hins vegar ekki hafa fengið nein laun á síðara tímabilinu og er krafa hans vegna þess samtals að fjárhæð 1.424.341 króna.  Hafa greiðslur frá Vinnumálastofnun þá verið dregnar frá. 

                Krafa um þjáningabætur samkvæmt 3., sbr. 15. gr. skaðabótalaga er vegna beggja áðurgreindra tímabila og nemur 461.070 krónum.  Er þá miðað við vísitölu í maí 2013. 

                Krafa vegna varanlegs miska, sem metinn er 28 stig í yfirmatsgerð, nemur 2.602.365 krómum. 

Loks nemur krafa vegna varanlegrar örorku 14.055.730 krónum.  Samanlagt nema þessir fjórir kröfuliðir stefnufjárhæðinni, 18.543.506 krónum. 
                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi gerir í greinargerð sinni athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda.  Bendir hann á að elsta heimildin um atvik sé lögregluskýrsla, sem byggi á frásögn stefnanda þegar eftir atburðinn, er atvik hafi verið honum fersk í minni.  Því verði að byggja niðurstöðu málsins á þeirri lýsingu málsatvika sem þar komi fram.  Í síðari frásögnum komi ný atriði til sögunnar, sem ekki eigi við rök að styðjast.  Eigi stefnandi að hafa kastast til við högg sem hafi komið þegar bifreiðin valt og hangið í öryggisbelti.  Einnig sé ótrúleg frásögn af því að bifreiðin hafi oltið skyndilega ofan í skurð fullan af vatni.  Ljóst sé af lýsingu stefnanda í lögregluskýrslu að bifreiðin hafi ekki oltið, heldur lagst hægt á hliðina.  Stefnandi hafi ekki fengið högg eða kastast til. 

                Stefndi byggir á því að sönnunarbyrði í málinu hvíli alfarið á stefnanda.  Hann verði að sanna að skilyrðum 92. gr. umferðarlaga sé fullnægt. 

                Stefndi telur að skilyrði bótaréttar séu ekki uppfyllt.  Atvikið verði ekki rakið til notkunar ökutækis, stefnandi hafi ekki verið við stjórn þess í skilningi 92. gr.  Í greinargerð mótmælti stefndi matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, en hafði þau mótmæli ekki uppi eftir að yfirmat hafði verið lagt fram. 

                Stefndi telur að hér hafi ekki orðið slys í skilningi vátryggingaréttar.  Stefndi vísar hér til 92. gr. umferðarlaga og 24. gr. skilmála sinna.  Hugtakið slys verði hér að skýra með sama hætti og gert er í vátryggingarétti.  Slys teljist vera skyndilegur utanaðkomandi atburður sem valdi meiðslum á líkama vátryggðs og gerist án vilja hans. 

                Stefndi kveðst í þessu sambandi mótmæla þeirri málsástæðu stefnanda að það að bifreiðin hafi lagst á hliðina sé skyndilegur utanaðkomandi atburður, sem hafi valdið meiðslum stefnanda.  Bifreiðin hafi ekki lagst skyndilega á hliðina, vatn hafi smám saman grafið undan henni og hún lagst á hliðina, hægt og rólega. 

                Þá telur stefndi ósannað að stefnandi hafi meiðst við það að bifreiðin lagðist á hliðina.  Ekki komi fram í lögregluskýrslu að hann hafi meiðst.  Hann hafi ekki leitað til læknis fyrr en löngu síðar.  Raunar hafi hann fengið vottorð frá heilsugæslu tveimur mánuðum síðar um að hann væri við góða heilsu, andlega og líkamlega. 

                Þá byggir stefndi á því að meiðslin verði að hafa orðið við slysið, en ekki af öðrum orsökum.  Lýsingar stefnanda bendi til þess að hann hafi fengið verk og önnur einkenni við það að þurfa að hafast við í bifreiðinni eftir að hún fór á hliðina.  Það hafi því ekki verið neitt skyndilegt og utanaðkomandi sem hafi orsakað áverka stefnanda. 

                Stefndi byggir enn fremur á því að stefnandi hafi ekki verið við stjórn bifreiðarinnar í skilningi 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga, þegar hún fór á hliðina.  Öku­maður veði í raun að stjórna bifreiðinni þegar slys verður.  Nánar verði hann að stjórna bifreið sem sé í gangi og á ferð.  Það sé ekki stjórn bifreiðar að sitja í kyrrstæðri bifreið, jafnvel þótt setið sé undir stýri.  Hann verði raunverulega að stýra bifreiðinni.  Heilsutjón stefnanda hafi ekki orðið við stjórnun bifreiðarinnar og uppfylli því ekki skilyrði til bótaréttar samkvæmt 2. mgr. 92. gr. 

                Þá telur stefndi að tjón stefnanda verði ekki rakið til notkunar ökutækis í skilningi 88. gr. umferðarlaga, sbr. 92. gr.  Til að svo sé verði slys að hafa orðið þegar bifreiðin var í notkun sem slík og rekja megi slysið til sérstakra eiginleika hennar sem ökutækis.  Þá verði tjónið hér ekki rakið til undanfarandi notkunar. 

                Stefndi telur rangt hjá stefnanda að bifreiðin hafi verið í eðlilegri og venjulegri notkun þegar hún fór á hliðina.  Þá hafi hættueiginleikar hennar sem ökutækis ekki leitt til þess að hún fór á hliðina.  Vatnsrennsli og útrennsli úr veginum hafi valdið því að bifreiðin fór hægt og rólega á hliðina. 

                Til vara krefst stefndi þess að stefnukrafa verði lækkuð.  Í greinargerð gerði hann fjölmargar athugasemdir við matsgerð.  Eftir að yfirmatsgerð var lögð fram hefur hann hætt að mótmæla matsgerðinni, en vill leggja undir mat dómsins hvora mats­gerðina skuli leggja til grundvallar. 

                Þá benti stefndi á í munnlegum málflutningi að ekki væri unnt að dæma bætur fyrir tímabundna örorku vegna sama tíma og stefnandi nyti atvinnuleysisbóta. 

                Stefndi mótmælir því að dráttarvextir reiknist fyrr en frá dómsuppsögu.  Í það minnsta verði dráttarvextir ekki reiknaðir fyrr en mánuði eftir að endanleg kröfugerð kom fram.

                Auk áður greindra lagaákvæða vísar stefndi til almennra reglna skaðabóta­réttar, einkum um sönnun og sönnunarbyrði, almennra reglna vátryggingaréttar, umferðarlaga nr. 50/1987, skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Niðurstaða

                Slysatrygging ökumanns var lögfest með 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en nokkrar breytingar voru gerðar á ákvæðinu með 2. gr. laga nr. 32/1998.  Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. skal ökumaður sem stjórnar ökutækinu tryggður sérstakri slysatryggingu.  Samkvæmt 2. mgr. skal vátryggingin tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss, sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækisins, enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis í merkingu 88. gr. laganna.  Orðalag ákvæðisins var nokkuð annað í upphaflegri gerð.  Þá sagði að það skyldi „... tryggja ökumann ... og gildir sú vátrygging fyrir hvern ökumann sem tækinu stjórnar. Vátryggingin skal tryggja bætur vegna slyss sem ökumaður kann að verða fyrir við starfa sinn ...“.  Með breytingunni sem gerð var með lögum nr. 32/1998 var orðalaginu breytt nokkuð með því að nota beint orðið slysatrygging.  Þá var bætt við tilvísun til skilyrðis 88. gr. laganna um notkun ökutækis og vátryggingarfjárhæðir hækkaðar. 

                Tilgangurinn með lögfestingu slysatryggingar ökumanns var sá að tryggja þeim sem stjórna ökutæki rétt til bóta vegna líkamstjóns, en staða þeirra var samkvæmt eldri reglum er byggðust á lausnum skaðabótaréttar, tiltölulega veik í samanburði við farþega og gangandi vegfarendur.  Tillagan um þessa gerð slysa­tryggingar kom ekki fram fyrr en við meðferð frumvarpsins í neðri deild Alþingis.  Eru athugasemdir um þetta nýmæli í nefndaráliti fábrotnar.  Í greinargerð með frum­varpi því er varð að lögum nr. 32/1998 kemur fram að með slysatryggingunni hafi ökumanni verið tryggðar bætur vegna slyss sem hann verður fyrir, jafnvel þótt hann hafi sjálfur borið ábyrgð á tjóninu.  Hafi verið að því stefnt að svipaðar reglur giltu að þessu leyti um farþega og ökumann. 

                Þegar þetta mál er dæmt eru það fyrst og fremst þrjú atriði sem verður að leysa úr.  Í fyrsta lagi hvort stefnandi hafi hlotið meiðsl sín er hann var við stjórn bif­reiðarinnar.  Í öðru lagi hvort slysið verði rakið til notkunar ökutækisins.  Loks í þriðja lagi hvort stefnandi hafi orðið fyrir slysi eins og það hugtak verður skýrt samkvæmt ákvæðinu. 

                Af aðilaskýrslu stefnanda og ummælum yfirmatsmanna verður ekki dregin önnur ályktun en sú að áverka sína hafi stefnandi hlotið vegna þess að hann var inni­lokaður í bifreiðinni við mjög erfiðar aðstæður og í slæmum stellingum í margar klukkustundir, en ekki við högg er bifreiðin valt á hliðina.  Þarf því ekki að ræða nánar um hvort bifreiðin hafi skollið niður eða lagst hægt á hliðina í vatninu. 

                Stefndi mótmælir því ekki að stefnandi hafi ekki átt aðra valkosti en að halda til í bifreiðinni þar til utanaðkomandi hjálp bærist.  Verður að líta á atvik sem eina samfellda atburðarás, frá því að bifreiðin festist og valt, en þá ók stefnandi bifreiðinni, þar til hann var kominn út úr bifreiðinni.  Þá fór hann í aðra bifreið er flutti hann til Bíldudals.  Hann hefur því hlotið meiðsl sín við stjórn bifreiðarinnar og þau verða rakin til notkunar hennar í skilningi 88. gr. umferðarlaga. 

                Hugtakið slys er ekki skýrgreint í umferðarlögum.  Lögskýringargögn veita heldur ekki skýra leiðsögn í þessu efni.  Þá er enga skýrgreiningu að finna í skilmálum stefnda fyrir ökutækjatryggingar.  Fræðimenn, t.d. Arnljótur Björnsson, hafa talið að skilja beri hugtakið hér á sama hátt og venja er í slysatryggingum, þ.e. að meiðsl hafi hlotist af skyndilegum utanaðkomandi atburði, sem gerst hafi án vilja hins slasaða.  Þó er afstaða hans um þetta ekki afdráttarlaus.  Annar valkostur er að telja að hér sé átt við líkamstjón, án tillits til þess hvort það hefur orðið með sérstökum hætti umfram það sem beint er áskilið um að viðkomandi hafi verið við stjórn ökutækis og tjónið orðið vegna notkunar þess.  Væri þá samræmi í stöðu ökumanns og farþega að þessu leyti, en til þess er skírskotað eins og áður segir í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 32/1998.  Kemur fram sá skýri löggjafarvilji að þeir sem hljóti líkams­tjón af völdum ökutækja í notkun fái bætur, hvort sem þeir eru farþegar, ökumenn, gangandi vegfarendur eða aðrir. 

                Sá litli munur, sem getur komið fram á því hvaða slys verða bætt úr almennum slysatryggingum og líkamstjón sem bætt skulu eftir reglum skaðabótaréttar, kom ekki til umræðu við lögfestingu reglna um slysatryggingu ökumanns.  Þegar litið er til framangreindra sjónarmiða um að samræma skuli stöðu ökumanna og annarra þykir verða að skýra 92. gr. umferðarlaga svo að hún taki ekki einungis til slysa í hefð­bundnum skilningi slysatrygginga, heldur einnig til líkamstjóns sem ökumaður hlýtur í starfi og leiðir af notkun ökutækisins.  Eins og áður segir er báðum þessum skilyrðum fullnægt í þessu tilviki og verður því að dæma stefnda til að greiða stefnanda bætur. 

                Stefnandi lagði fram matsgerð dómkvaddra matsmanna, en stefndi krafðist yfirmats.  Leggja verður niðurstöðu yfirmatsmanna til grundvallar í dóminum, en ekki hefur verið reynt að hnekkja henni.  Ekki er hægt að taka tillit til athugasemda stefnda um einstaka liði, en ekki er sýnt fram á að frádráttarliðir séu vantaldir í endanlegri kröfugerð stefnanda.  Verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 18.543.506 krónur. 

                Stefndi krefst þess aðallega að dráttarvextir reiknist ekki fyrr en frá dóms­uppsögu, til vara að þeir reiknist frá því að mánuður var liðinn frá því að endanleg kröfugerð kom fram. 

                Endanleg kröfugerð stefnanda, er tók mið af niðurstöðu yfirmatsgerðar, var lögð fram í dóminum 3. júní 2013 og samþykkti stefndi hækkun dómkröfunnar.  Verða dæmdir vextir og dráttarvextir eins og krafist var í stefnu til 3. júlí 2013, en samkvæmt endanlegri kröfugerð stefnanda frá þeim degi, eins og rakið er í dómsorði 

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði.  Þóknun lögmanns hans er ákveðin samkvæmt vinnuyfirliti og að viðbættum virðisaukaskatti 1.800.000 krónur.  Útlagður kostnaður nemur 806.362 krónum.  Stefndi verður dæmdur til að greiða 2.240.624 krónur í málskostnað til ríkissjóðs. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf, greiði stefnanda, Jóni Þorvaldi Eysteinssyni, 18.543.506 krónur með 4,5% ársvöxtum af 4.118.981 krónu frá 17. september 2008 til 17. september 2009, en af 15.095.081 krónu frá þeim degi til 24. desember 2011, með dráttarvöxtum af 15.095.081 krónu frá þeim degi til 3. júlí 2013, en af 18.543.506 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 2.606.362 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

                Stefndi greiði 2.240.624 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.