Hæstiréttur íslands

Mál nr. 232/2000


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. október 2000.

Nr. 232/2000.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Aðalsteini Guðlaugi Aðalsteinssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                              

Líkamsárás. Miskabætur.

A var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa sparkað í höfuð E og stungið hann með hnífi í bak og brjóstkassa. Talið var sannað að A hefði brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu staðfest og A dæmdur til fangelsisrefsingar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. maí 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing, sem ákærða var ákveðin í héraðsdómi, verði þyngd, svo og að honum verði gert að greiða Einari Birni Ingvasyni 350.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. janúar 2000 til greiðsludags.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu Einars Björns Ingvasonar verði vísað frá dómi, en til vara að honum verði dæmd lægri fjárhæð en í héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Aðalsteinn Guðlaugur Aðalsteinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2000.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 4. febrúar sl. gegn ákærða Aðalsteini Aðalsteinssyni, kt. 170561-4309, Ljósheimum 14a, Reykjavík, “fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 5. október 1999 á heimili sínu að Ljósheimum 14a, íbúð 42, sparkað í enni Einars Björns Ingvasonar, kennitala 160373-3189, í forstofu íbúðarinnar og því næst, á svölum fyrir framan íbúðina, stungið Einar Björn með hnífi í bak og brjóstkassa, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut mar á miðju enni við hársvörð, grunnt stungusár neðarlega hægra megin á baki og stungusár í hægri geirvörtu er náði niður á rif og hlaust af því loftbrjóst.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Einar Björn Ingvason krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 350.000 auk dráttarvaxta frá 3. janúar 2000 til greiðsludags og þóknunar vegna réttargæslu með álögðum virðisaukaskatti, samtals kr. 49.800.”

I.

Málavextir.

Um kl. 21.30 að kvöldi þriðjudagsins 5. október sl. var lögregla kvödd að slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna tilkynningar um að Einar Björn Ingvason hefði komið þangað með tvö stungusár.  Hann var með stungusár á brjósti og hægri síðu aftanverðu.  Samkvæmt upplýsingum frá slysadeild hafði hann komið þangað um kl. 20.23.  Í frumskýrslu Stellu Mjallar Aðalsteinsdóttur lögreglumanns, sem hún hefur staðfest fyrir dómi, er haft eftir Einari að hann hafi farið um kl. 20.00 þetta kvöld með Karli Jökli Karlssyni að heimsækja ákærða á heimili hans, Ljósheima 14a íbúð.  Ákærði hafi farið að rukka sig um símareikning sem hann skuldaði honum frá síðastliðnu sumri.  Hann hafi sagt að hann gæti ekki borgað þetta strax og hafi ákærði þá brugðist hinn versti við og haft í hótunum við sig.  Hann hafi þá ákveðið að yfirgefa íbúðina þar sem ákærði hafi verið mjög æstur og farið fram í forstofu ásamt Karli.  Hann hafi verið að reima skóna sína er ákærði hafi sparkað í andlit sitt og sagst ætla að drepa hann.  Hann hafi farið út á svalir en þar hafi ákærði ráðist á sig og stungið sig með hníf, fyrst í brjóstið og svo í bak.  Karl hafi komist á milli þeirra og þeir farið á brott með leigubifreið á slysadeild. Lögreglumenn höfðu einnig tal af Karli og og bar hann á sama veg og  Einar.

Á vettvang fór einnig Svanur Elísson frá Tæknideild lögreglu og ljósmyndaði vettvang.

Lögreglumennirnir fóru frá slysadeild ásamt áhöfn tveggja annarra lögreglubifreiða að heimili ákærða og höfðu þar tal af honum.  Kom ákærði til dyra og var handtekinn kl. 22.15 og færður skömmu síðar til töku blóð- og þvagsýnis í þágu rannsóknar málsins.  Sýnin voru tekin kl. 23.02 og 23.10.  Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarstofu í lyfjafræði mældist alkóhól ekki í blóði eða þvagi.  Magn amfetamíns í þvagi var 0,7 míkróg/ml., en var ekki í mælanlegu magni í blóði.  Í niðurstöðu rannsóknarinnar segir að niðurstöðutölur staðfesti, að hlutaðeigandi hafi tekið amfetamín innan u.þ.b. 2-3 sólarhringa áður en sýnið var tekið, en hins vegar ekki verið undir áhrifum amfetamíns þegar sýnið var tekið.

Fram kemur í frumskýrslum og skýrslu tæknideildar að ákærði hafi aðspurður sagst hafa hent hníf fram af svölum á bakhlið hússins, sem er 8 hæða fjölbýlishús með 56 íbúðum, 8 íbúðum á hverri hæð.  Ákærði býr á 4. hæð, íbúð nr. 406.  Fyrir framan hana er opinn stigagangur og svalir fyrir framan íbúðirnar.  Snýr framhliðin í austur en afturhliðin og garðurinn í vestur.  Skipuleg leit var gerð að hnífnum, en hann fannst ekki þrátt fyrir ítrekaða leit.  Farið var með ákærða á ný að húsinu en hann vildi ekki fara út og benda á hvar hnífurinn gæti hafa lent, þar sem hann vildi ekki að fólk í húsinu bæri kennsl á sig í fylgd lögreglu.  Einnig höfðu lögreglumenn tal af sambýliskonu, ákærða, Helenu Kristínu, sem sagði að hún hafi verið heima ásamt börnum sínum tveimur er Einar og Karl komu í heimsókn.  Fram kemur í skýrslunni að á vegg sem snýr í austur við hlið útidyra hafi verið lítilsháttar blóðslettur.  Önnur merki um átök hafi ekki verið greinileg á vettvangi.

Tæknideild lögreglu ljósmyndaði vettvang þetta sama kvöld, meðal annars íbúð ákærða og vettvang fyrir framan útidyrahurð, en þar sést meðal annars að gengið er inn af svölum í íbúðina. Samkvæmt vettvangslýsingu Svans Elíssonar rannsóknarlögreglumanns og ljósmyndum af íbúðinni er fyrst komið inn í forstofu/gang þar sem er fatahengi.  Síðan er gengið inn í eldhús sem er á hægri hönd.  Inn af eldhúsi er stofa og stór svalahurð á vestur hlið hússins.  Sjá hafi mátt þrjá litla blóðbletti á milli eldhúsglugga og útidyrahurðar.  Ekki hafi verið unnt að sjá nein merki um átök í íbúðinni.  

Ljósmyndir voru einnig teknar daginn eftir af ákærða, sem sýndu áverka á hálsi, mar á vinstri hendi og rist, rispur á hægri handlegg og vinstri hendi, og áverkabletti á hægri síðu og neðarlega á baki fyrir neðan vinstra herðablað.  Einnig var ljósmyndaður blóðugur fatnaður, sem Einar var í umrætt sinn.

Rannsóknarlögregla var kvödd á slysadeild til að hafa tal af Einari í tilefni áverka hans. Samkvæmt frumskýrslu Gísla Kristins Skúlasonar rannsóknarlögreglumanns  hitti hann Einar þar kl. 21.45.  Var hann með umbúðir á brjóstkassa og neðarlega á baki hægra megin.  Hann var einnig með sár á enni.  Gísli hafði einnig tal af Karli Jökli Karlssyni á slysadeild, sem hafði fylgt Einari á slysadeild.  Er haft eftir Einari í þeirri skýrslu að hann hafi farið heim til ákærða, sem hafi stungið hann í bakið og síðan í brjóstkassann.  Annað sem eftir honum er haft í skýrslunni um aðdraganda þessa er í samræmi við framburð hans, sem síðar verður rakinn.  Fram kemur í skýrslu Gísla að Einar hafi sagt að þeir Karl Jökull hafi tekið einhvern leigubíl á slysadeildina.  Þá kemur þar fram að Gísli hafi haft tal af Brynhildi Eyjólfsdóttur lækni og að hennar sögn hafi stungan á brjóstkassanum farið í gegn og gert gat á annað lungað.  Hafi myndast loftrönd fyrir utan lungað. Stungan aftan á bakinu hafi verið grunn og rétt í gegnum húðina.  Gísli fór af slysadeild ásamt Karli Jökli og tók af honum skýrslu.

Tekið var bóðsýni af Einari Birni kl. 23.54 umrætt kvöld á sjúkrahúsi Reykjavíkur til alkóhóls- og lyfjarannsóknar.  Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar rannsóknastofu Háskólans í lyfja- og eiturefnafræði var hvorki alkóhól né amfetamín í mælanlegu magni í blóðinu.

Í málinu liggur frammi vottorð Gunnar Pétursson, aðstoðarlæknis skurðlækningadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur, dags. 5. október sl., en vottorðið gefur hann f.h. Tryggva B. Stefánssonar, sérfræðings á deildinni. Fram kemur í vottorðinu að Einar Björn hafi komið með félaga sínum í leigubíl og er eftir honum haft að hann hafi verið stunginn í brjóstkassa og bak í heimahúsi.  Samkvæmt vottorðinu var strax kallað úr „akutteymi” spítalans.  Segir nánar í vottorðinu: „Við skoðun strax við komu sést stungusár framan á brjóstkassa ca. 2 cm lateralt við hægri brún sternum í hæð við geirvörtur og annað stungusár hægra megin á baki í hæð við neðstu rif fyrir miðju hægri hluta baks. Er strax farið yfir almennt ástand, barki er í miðlínu og mettar hann 97%. Brjóstkassi er symmetriskur og lyftist jafnt við öndun, öndunarhljóð symmetrisk og eins beggja vegna. Öndunarhljóð eru yfir öllu lunga bilateralt. Fengið var bedside röntgen sem sýndi ekki pneumothorax. Voru sárin þá exploreruð með sondu og í sári framanvert á brjóstkassa er komið niður á rif. Sár á baki er explorerað og reynist það mjög grunnt. Er báðum sárum lokað með 4/0 Ethilon, tvö spor í hvort sár. Deyft var með Lidocain. Við komu kl. 20:25 var blóðþrýstingur 150/90, púls 140/mín, var hann stabill í lífsmörkum. Í sögu kemur fram að hann er aktivur eiturlyfjaneytandi með greindan hepatitis C. Almennt hefur hann verið hraustur. Við nánari skoðun kemur í ljós mar á enni fyrir miðju við hársvörð. Smá sár er á efri vör miðlægt. Segir hann þann sem hafi stungið sig hafi sparkað í andlit hans. Hjartahlustun er eðlileg og kviður er mjúkur og eymslalaus, góð garnahlóð. Hann er með gips á vinstri fæti, en hann er með neglt brot og á að mæta í endurmat þann 12. næstkomandi.  Var hann sendur upp í kontrol röntgenmynd fljótlega eftir komu og kom þá í ljós vægur pneumothorax hægra megin ca. 1 cm. Var hann lagður inn á gæsludeild og sett er upp infusion RA 100 ml/klst, og fyrr fékk hann Phenergan 50 mg og Librium 25 mg. Settur á Parkódín Forte 2x4 og insertio Thoradol 30 mg x3. Fer í control röntgenmynd í fyrramálið. Gæsludeild mun hafa samband strax ef ástand breytist.”

Þá hefur einnig verið lagt fram annað vottorð frá Tryggva B. Stefánssyni 14. desember 1999, en þar segir:  „Einar kom á bráðadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur kl. 20:27 þ. 05.10.1999. Hann kom með félaga sínum í leigubíl og gaf upp að hann hefði verið stunginn í brjóstkassa og í bak með hnífi í heimahúsi. Sárið framan á brjóstkassanum var 2 cm til hliðar við hægri brún brjóstbeins í hægri geirvörtu. Á baki var stungusár hægri megin á bakinu í hæð við neðstu rif fyrir miðju hægri hluta baksins. Lungnamynd sem tekin var á bráðamóttökunni var eðlileg. Sárin voru skoðuð og kom í ljós að sárið framanvert á brjóstkassa náði niður á rif en sárið á baki náði ekki gegnum undirhúðsfitu. Sár voru þá saumuð saman og sjúklingur innlagður til eftirlits. Við aðra röntgen mynd. 05.10.99 kom í ljós loftbrjóst í hægra brjóstholi með ca 1 cm loftrönd. Daginn eftir komu sýnir lungnamynd að loftröndin er horfin og hann er útskrifaður til heimilis.  Einar mætti á göngudeild Sjúkrahúss Reykjavíkur til eftirlits þ. 12.10.99. Lungnamynd þá sýndi að loftröndin var horfin en smávægilegur vökvi sást í brjóstholinu hægra megin. Sárin voru vel gróin. Áverkinn sem Einar hefur fengið með hnífstungu framan á brjóstkassa er alvarlegur áverki.  Það er ekki hægt að segja að hann sé lífshættulegur þar sem það þurfti ekki að gera neina aðgerð til að laga loftbrjóstið.  Þessi áverki hefði lagast og gróið af sjálfu sér. Áverkinn vegna hnífsstungu í bakið er minni háttar og gaf eingöngu yfirborðssár.  Það eru ekki líkur á því að hann hafi neitt framtíðarmein af áverkanum.”

II.

Einar Björn Ingvason var yfirheyrður við rannsókn málsins og meðferð þess.  Hann kvaðst hafa verið á heimili Karls Jökuls, í blokk gegnt blokk þar sem ákærði býr, og farið þaðan um kvöldmatarleytið ásamt Karli í heimsókn til ákærða.  Þeir hafi ekki farið þangað af neinu sérstöku tilefni. Einar kvaðst hafa kynnst ákærða fyrir mörgum árum, er þeir voru  báðir í fangelsi á Litla-Hrauni.  Þeir hafa lítið umgengist, en fyrir u. þ.b. ári hann hafi búið í 2-3 vikur hjá ákærða.  Þeir Karl hafi knúið dyra hjá ákærða á 4. hæð hússins.  Sambýliskona ákærða, Helena Kristín, hafi opnað dyrnar og boðið þeim inn. Þeir hafi sest inn í stofu, en ákærði var þar ásamt tveimur börnum.  Ákærði hafi farið að rukka hann um greiðslu símareiknings, frá þeim tíma er hann dvaldi hjá honum ári áður.  Ákærði hafi haldið því fram að hann skuldaði sér 15.000 krónur fyrir afnot af símanum.  Hafi ákærði af og til verið að rukka hann um þessa fjárhæð.  Við rannsókn málsins kannaðist hann ekki við að skulda ákærða þessa peninga.  Fyrir dómi sagði hann að þeir hafi ætlað að deila með sér greiðslu símareikningsins.  Þeir hafi ekki verið á eitt sáttir um það hvort hann hafi gert upp sinn hluta kostnaðarins.  Er þeir Karl komu inn hafi ákærði strax farið að rukka hann um 15.000 krónur, en hann hafi sagt ákærða að hann ætti enga peninga.  Ákærði hafi brýnt raustina og kvaðst Einar þá hafa svarað ákærða í sömu mynt og sagt honum að hann gæti ekki greitt þetta.  Ákærði hafi þá heimtað að hann myndi bjarga honum um hass eða „spítt” (amfetamín).  Við meðferð málsins sagði Einar að hann hafi aðeins nefnt hass í þessu sambandi.  Hann hafi hins vegar gefið ákærða amfetamín „í nös” nokkrum dögum áður.  Einar kvaðst hafa neitað að útvega ákærða hass.  Ákærði hafi þá sagt að hann vissi að Einar gæti „reddað þessu á krít” einhvers staðar og beðið hann um þetta.  Hann hafi neitað aftur.  Þeir hafi „talað hastarlega” við hvorn annan eða í „háum tónum” og ákærði sagt eitthvað á þessa leið:  „Ert þú með einhver hortugheit út í mig”.  Einar kvaðst hafa neitað því og sagt að hann væri að svara í sömu mynt og sagt:  „Ég kem fram við þig, eins og þú ert að koma fram við mig núna.”  Ákærði hafi þá spurt hvort þeir ættu að koma út fyrir og kvaðst Einar hafa játað því.  Um þetta atriði sagði Einar fyrir dómi að þeir Karl hafi ákveðið að fara út og þeir gengið fram í anddyri til að fara í skóna.  Hann hafi farið fram í anddyrið og beygði sig niður, klætt sig í skóna og verið að reima þá þegar ákærði hafi sparkað fyrirvaralaust í ennið á sér.  Hann hafi fengið töluvert högg og vankast við það.  Hann hafi ráfað inn í eldhús og munað eftir sér er hann var kominn út fyrir dyrnar á íbúðinni.  Hann þvertók fyrir að einhver átök eða stympingar hafi verið milli sín og ákærða inni í íbúðinni.  Hann kannaðist heldur ekki við að hann hefði farið úr jakkanum og ráðist á ákærða; hann hafi hins vegar farið út yfirhöfn eftir að hann kom inn og settist í sófann í stofunni.  Hann neitaði því að hann hefði farið úr yfirhöfninni til að slást eða að slagsmál hafi verið í aðsigi, enda hafi hann ekki hafa getu til þess að slást vegna fótbrots.  Einar sagði í lögregluyfirheyrslu að í framhaldi þess að ákærði hafi sparkað í ennið á honum í forstofunni hafi hann reist sig upp, ákærði ætt á móti sér og þeir farið að fljúgast á.  Ákærði hafi náð að snúa hann niður og lagst ofan á hann.  Í þessi hafi Helena komið og heimtað að þeir Karl færu út.  Ákærði hafi þá sleppt honum og staðið upp.  Karl og ákærði hafi svo farið út á pallinn fyrir framan útidyrnar og hann haldið á eftir þeim.  Þegar hann var kominn út á pallinn hafi Helena öskrað: „Diddi, ef þú gerir þetta, þá kemurðu ekki inn aftur.” Hún hafi svo skellt hurðinni aftur.

Einar sagði að eftir að þeir voru komir út á pallinn fyrir framan íbúðina hafi hann verið „þrælvankaður”.  Þeir ákærði hafi verið að kasta á hvorn annan orði og hafi hann þá séð glitta í hnífsblað í annarri hendi ákærða.  Kvaðst hann hafa sagt við ákærða eitthvað á þessa leið:  „Þú dregur upp hníf, ætlar þú að nota þetta á mig eða ætlar þú að stinga mig með þessu.”  Ákærði hafi játað því.  Karl Jökull hafi staðið á milli þeirra og hafi ákærði kastað honum í burtu og ráðist á sig og ýtt við sér.  Hann hafi verið í gifsi upp að hné og strax misst jafnvægið.  Á leiðinni í fallinu niður hafi hann fundið högg koma aftan á bakið á sér og í brjóstið.  Hann hafi ekki strax áttað sig á því að hann hafi verið stunginn.  Í raun hafi hann ekki gert það fyrr en á leiðinni niður í lyftunni.  

Einar kvaðst hafa verið útskrifaður af sjúkrahúsinu daginn eftir.  Hann kvaðst vera af og til með verki í brjóstinu og sagðist hafa ör eftir stungurnar.

Vitnið Guðrún Stella Gunnarsdóttir býr í íbúð nr. 406 á 4. hæð að Ljósheimum 14.  Hún kom fyrir dóminn og lýsti því að hún hafi heyrt hávaða fyrir utan  utna íbúð ákærða og litið út um glugga sem snýr að svölunum/ganginum og séð ákærða í slagsmálum eða stympingum við tvo menn.  Annar þeirra hafi verið í gifsi.  Þeir hafi ýtt hver í annan.  Mikill hávaði hafi stafað af þeim og ákærði hafi verið að reyna að ýta þeim frá sér og segja þeim að fara.  Hún hafi orðið hrædd og æst því dóttir hennar, 6 ára, hafi heyrt hávaðann.  Kvaðst vitnið því hafa opnaði hurðina og kallaði á ákærða og reynt að fá þá til að hætta.  Ákærði hafi ýtt þeim í gifsinu og við það hafi báðir mennirnir dottið.  Hún hafi ekki séð ákærða því hann hafi staðið í skoti við hurð íbúðar sinnar og ekki orðið þess vör að hann væri með hníf eða að hann hefði stungið annan manninn.  Hún kvaðst ekki hafa fylgst með stympingunum allan tímann.  Hún hafi farið aftur inn í íbúð sína og komið aftur fram þar sem látunum linnti ekki.  Guðrún Stella kvaðst síðan hafa séð menninga ganga að lyftunni.  Kvaðst hún ekki hafa séð að neitt væri að þeim.  Sá í gifsinu hafi svo snúið sér við og gengið aftur að hurð íbúðar ákærða og hrækt á hana og við svo búið hafi þeir gengið að lyftunni.   Við yfirheyrsluna fyrir dómi var vitninu bent á að haft er eftir vitninu í upplýsingaskýrslu lögreglu að hún hafi séð ákærða hrinda þeim í gifsinu út í grindverkið þannig að hann hafi dottið.  Hann hafi staðið upp, en þá hafi hún farið inn.  Hún  hafi heyrt þá eiga einhver orðaskipti og hafi hún heyrt ákærða segja:  „Ég veit hvar ég get náð í þig”, eða eitthvað í þá áttina,  Hún hafi síðan heyrt svakalegt öskur og heyrt hinn náungann segja:  „Þú er geðveikur.”  Þá hafi hún litið út um gluggann og séð hvar náungarnir tveir gengu á brott og hafi sá í gifsinu verið studdur.  Vitnið benti á að lögregla hafi rætt við hana tveimur dögum eftir atburðinn og hún þá munað þetta betur.  Staðfesti hún að hafa viðhaft þessi ummæli í viðtalinu við lögreglumanninn.

Helena Kristín Ragnarsdóttir, sambýliskona ákærða, var yfirheyrð við rannsókn málsins og fyrir dómi.  Hún kvaðst hafa verið heima ásamt ákærða með tveimur börnum þeirra er Einar Björn og Karl Jökull komu þangað í heimsókn.  Hún hafi hleypt þeimm inn.  Einar hafi viljað fara í tölvuleik.  Henni hafi fundist það dónalegt þar sem hún hafi verið að horfa á teiknimynd með börnunum og hann viljað taka myndbandið úr tækinu.  Einar hafi komið til þeirra nokkrum dögum áður og þá hafi hann og ákærði samið um að næst þegar hann kæmi myndi hann borga þeim skuld vegna ógreidds símareiknings.   Ákærði hafi á komið inn í stofuna og spurt Einar hvort hann væri búinn að fá peninga hjá Félagsmálastofnun.   Einar hafi sagt að hann ætti eftir að fá læknisvottorð vegna fótbrots og fara með til Félagsmálastofnunar.   Ákærði hafi sótt símareikning og hafi Einar sagt að hann myndi ekki greiða hann allan.  Ákærði hafi þá sagt að þeeoir ættu eftir að ræða um bílinn.  Einar hafi svarað á þá leið að þeir skyldu ræða það síðar.   Hann hafi komið nokkrum dögum áður og verið að hreykja sér yfir því að hann gæti fengið fíkniefni á krít hér og þar.  Ákærði hafi því sagt við Einar hvort hann gæti ekki reddað sér þessum fíkniefnum út á krít eins og hann hefði verið að hreykja sér af og selt þau og komið og borgað skuldina.  Þeir hafi svo farið að rífast og ákærði hafi annað hvort sagt hvort þeir ættu að koma út fyrir eða að þeir ættu að fara út.  Einar hafi tekið því þannig að ákærði væri að „bjóða honum upp í slag”.  Einar hafi rifið af sér jakkann og skilið hann eftir í sætinu og rokið upp úr sætinu með látum.  Einar hafi

S.J.F:  Eru það þá Aðalsteinn og Einar Björn?  V:  Já, og ég slít þá í sundur og ýti þeim út úr íbúðinni hverjum á fætur öðrum.  Ég auðvitað átti ekkert að ýta Aðalsteini út en ég var bara öskureið yfir því að þeir skildu vera að slást þarna allir heima hjá mér.  Svo skelli ég hurðinni á þá alla.

S.J.F:  Skelltir þú í lás?  V:  Ég gáði ekkert að því, örugglega hún er alltaf í lá svo rokið fram og sagt að hann skyldi koma með ákærða út fyrir.  Hann hafi verið ógnvekjandi á svip og í látæði og hún verið hrædd við hann.  Hún hafi þá sagt að ef þeir ætluðu að fara að slást skyldu þeir fara út og alveg niður, þeir skyldu ekki fara að slást heima hjá henni.  Þeir hafi svo allir farið fram í forstofu.  Hún hafi heyrt einhver læti frammi og farið þangað.  Ákærði og Einar hafi legið í faðmlögum á gólfinu í eldhúsinu við hlið forstofunnar og hún skilið þá , ýtt þeim öllum þremur út úr íbúðinni og skellt hurðinni á eftir þeim.  Hún hafi verið öskureið yfir því að þeir væru að slást á heimili hennar.  Hún hafi heyrt í þeim úti og heyrt voðalega hátt” í handriðinu og ákærði hafi sagt þeim að koma sér í burtu.  Hún hafi hækkað í sjónvarpinu til að hún og börnin heyrðu ekki hávaðann og hugsað hvað hún ætti að gera.  Eftir langan tíma, að henni fannst, hafi henni svo komið í hug að rétt væri að hringja á lögregluna.  Hún hafi farið út með símann í hendinni og sagst mundu hringja á lögguna.  Þá hafi Einar legið eða setið á afturendanum og Karl hafi stumrað yfir honum til að hjálpa honum að standa upp.  Þeir hafi allir verið mjög skrýtnir á svipinn.  Ákærði hafi svo komið inn í íbúðina og beðið hana að hringja ekki á lögreglu.  Hann hafi sagt að þeir hafi báðir verið að lemja sig og hún yrði að standa með sér í því að verja heimili þeirra.  Hún hafi svo litið út en þá hafi þeir Einar og Karl verið farnir.  Hún kvaðst ekki hafa séð ákærða með hníf í íbúðinni eða fyrir utan hana og ekki vitað að ákærði hafi beitt hníf í stympingunum fyrir utan íbúðina fyrr en hún frétti það síðar. 

Við yfirheyrslu lögreglu er haft eftir vitninu að ákærði hafi verið mjög fúll undanfarna daga og taldi hún það vera vegna hasskorts síðustu daga og eftirköst eftir sveppaát nokkrum dögum áður.  Sagði hún að ákærði væri einnig þunglyndur að eðlisfari.  Hún leiðrétti þennan framburð fyrir dómi og bar að hún hafi haldið að ákærði hefði etið sveppi, en það hafi verið misskilningur. 

Vitnið Karl Jökull Karlsson kom ekki fyrir dóminn, en hann er talinn búsettur í Thailandi.  Gerð var árangurslaus tilraun til að hafa upp á honum til að taka af honum skýrslu í síma við aðalmeðferð málsins.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 6. og 7. október sl.  Hann hefur skýrt svo frá að Helena Kristín hafi farið til dyra er þeir Einar Björn og Karl Jökull komu í heimsókn.  Hann hafi kynnst Einari er þeir voru báðir að taka út refsingu á Litla-Hrauni.  Þeir hafi lítið umgengist, en Einar hafi dvalið á heimili ákærða haustið 1998.  Þeir hafi átt óuppgerðar sakir vegna símareiknings sem Einar skuldaði honum á meðan hann dvaldi þar.  Einar hafi einnig skemmt bíl Helenar Kristínar, sem hann hafi fengið að láni á meðan hann dvaldi hjá þeim.  Hann hafi ekki greitt tjónið.  Kvaðst ákærði ekki hafa kært sig um að Einar kæmi með óboðinn gest með sér, en ákærði kvaðst kannast við Karl.  Þeir hafi komið inn og sest inn í stofu án þess að bera upp erindi eða yrða á hann.  Ákærði kvaðst hafa verið að teikna í stofunni.  Hann hafi ekki yrt á Einar og Karl, enda hafi framkoma þeirra verið fremur ruddaleg þar sem þeir hafi komið óboðnir og sest niður án þess að vera boðið inn í stofu.  Honum hafi fundist að Einar hafi getað beðið konu sína afsökunar á því að hann hafi skemmt bifreið hennar, en Einar hafi ekki minnst á það og beðið um að fá að fara í tölvuleik.  Ákærði kvaðst þá hafa verið nóg boðið, staðið upp og rétt Einari símareikninginn og spurt hvort hann ætlaði ekki að greiða reikninginn eða hluta hans.  Einar hafi sagt að hann ætti enga peninga og gæti því ekki greitt skuldina.  Ákærði kvaðst þá hafa sagt við Einar að fyrst hann ætti ekki peninga þá skyldi hann koma sér út úr íbúðinni.

Aðspurður um það hvort hann hefði beðið Einar um hass eða amfetamín upp í skuldina neitaði ákæri því og sagði að hann hafi sagt við Einar að honum fyndist skrýtið að hann gæti ekki borgað Helenu, þar sem hann gæti fengið eiturlyf út á krít út um allan bæ.  Einar hafi reiðst verulega þegar hann rak hann út.  Einar hafi gengið að anddyrinu og far að klæða sig í skó. Ákærði sagði við yfirheyrsluna 6. október, að viðstöddum verjanda sínum, að hann hafi þá sparkað í höfuðið á Einari þegar hann var að klæða sig í skóna og hafi Einar látið sig falla aftur á bak og lent á barnastól.  Ákærði kvaðst ekki geta útilokað að Einar hefði fallið vegna sparksins.  Þeir hafi svo tuskast eitthvað á í anddyrinu.  Einar hafi síðan staðið upp og spurt ákærða hvort að hann vildi slást úti, en Einar hafi hlaupið út fyrir dyrnar.  Helena hafi þá sagt að ef þeir ætluðu að slást þá skyldu þeir gera það úti.  Aðspurður um hvers vegna hann hafi sparkað í höfuð Einars sagði ákærði að Einar hafi lítilsvirt hann og fjölskyldu hans er hann dvaldi hjá ákærða árið áður.  Einar hafi þá verið með hörð fíkniefni á heimili hans, en á þeim tíma hafi þau Helena einungis neytt hass, og þau hafi verið því mótfallin að Einar væri með hörð efni inni á heimilinu.  Einar hafi einnig oft sýnt þeim ruddalega framkomu.  Mælirinn hafi verið fullur, hann reiðst heiftarlega og því sparkað í höfuð hans. Ákærði sagði í yfirheyrslu daginn eftir að hann hafi rokið út á ganginn/svalirnar í því skyni að fara að slást við Einar.  Karl hafi gengið að honum aftan frá og haldið taki á peysu hans.  Karl hafi sagt Einari að hætta þessari vitleysu, en Einar hafi þá slegið sig í andlitið með krepptum hnefa.  Honum hafi þá fundist að þeir Einar og Kal hafi ætlað að ráðast í sameiningu á sig.  Hann hafi því tekið vasahníf, með um 4-5 cm blaði, upp úr hægri vasa, rifið blaðið upp, haldið á hnífnum í hægri hendi, þannig að 2-3 cm blaðsins stóðu út.  Hann hafi dregið upp hnífinn í því skyni að fá þá til að fara í burtu.  Um leið og hann tók upp hnífinn hafi Karl öskrað:  „Ekki þetta, ekki þetta.”  Einar hafi ætt á móti honum, haldið honum frá með vinstri hendi og slegið hann í neðri kjálka.  Hann hafi hrint Einari frá sér og við það hafi Einar fallið á bakið á pallinn.  Einar hafi reynt að sparka í hann, en hann hafi getað var sig með vinstri hendi.  Hann hafi síðan stungið Einar í brjóstið, en ekki ætlað að meiða hann.  Eftir þetta hafi þeir Karl og Einar farið í burtu, en hann farið inn í íbúðina til Helenar.  Þegar hann var kominn inn í íbúðina haft Helena viljað hringja í lögregluna, en hann varnað því, farið út á svalir og hent hnífnum út í garð í hugsunarleysi.  Hann hafi svo verið handtekinn seinna um kvöldið.  Hann kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum vímuefna umrætt sinn, en fengið sér hass eftir atburðinn, áður en lögregla handtók hann.  Við yfirheyrslu 6. október kvaðst hann vera aumur í tám á hægra fæti, rispaður vinstra megin á baki og klóraður á hálsi eftir átökin.  Daginn eftir bætti ákærði því við fyrri framburð sinn að þeir Einar hafi tekið hvorn annan hálstaki þegar þeir voru að tuskast í forstofunni.  Helena og Karl hafi tekið hann ofan af Einari og þá hafi Einar farið út.   Karl hafi svo skotist út og ákærði á eftir honum og þá hafi Helena lokað útidyrahurðinni.

Fyrir dómi var frásögn ákærða um atburði í kjölfar rifrildis þeirra um skuld Einars nokkuð á annan veg en við rannsóknina.  Hann sagði að Einar hafi verið með skæting við sig og kvaðst ákærði þá hafa sagt að ef hann væri með einhvern kjaft skyldi hann fara út.  Örskömmu síðar hafi Einar stokkið upp, „grýtt” jakkanum af sér og ætlað í ákærða inni í íbúðinni.  Hann hafi verið mjög illur og æstur, ennþá æstari en ákærði.  Einar hafi ætt fram í forstofu og kvaðst ákærði hafa elt hann þangað og rifið í hann.  Þeir hafi reynt að slá hvorn annan, en það ekki tekist; þetta hafi verið vindhögg.  Þeir hafi svo velst um á gólfinu frammi í gangi og í anddyrinu, en Helena komið að þeim, skilið þá í sundur og komið þeim út úr íbúðinni.  Einar og Karl hafi staðið ógnandi við hurðina og ekkert fararsnið á þeim og Karl hafi slökkt útiljósið.  Hann (ákærði) hafi ekki komist inn í íbúðina aftur því hurðin hafi verið læst og verið orðinn verulega smeykur.  Hann hafi sagt þeim að koma sér í burtu en þeir hafi ekki sinnt því.  Þeir Einar hafi farið að slást og honum hafi fundist Karl vera að koma nær.  Hann hafi því staðið upp og hörfað upp að glugganum.  Þá hafi hann fundið að hann var með vasahníf, um 5-10 cm langan, sem hann hafði notað fyrr um daginn er hann var að gera við bíl sinn.  Hann hafi tekið hnífinn upp, opnað hnífsblaðið og sett fingurna yfir það.  Hafi smáhluti blaðsins staðið fram úr fingrunum.  Um leið hafi hann sagt við Einar að hann myndi pikkaþessu í hann ef þeir færu ekki.  Einar hafi bara brosað að þessu og hann hafi þá ýtt eða hrint Einari frá sér með hinni hendinni.  Einar hafi þá fallið aftur fyrir sig á bakið á grindverkið og dottið.  Taldi ákærði að þá hafa hann stokkið Einari.  Einar hafi verið hálfvegis á grúfu og kvaðst ákærði þá hafa sparkað í síðuna á honum og rispað hann með hnífnum í bakið, ekki stungið.  Ákærði bar ekki brigður á að afleiðingarnar hafi verið þær að Einar fékk grunnt sár neðarlega í bakið.  Hins vegar neitaði hann alfarið að hafa stungið Einar Björn í brjóstkassann með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru.  Einnig neitaði hann því við aðalmeðferð málsins að hann hefði sparkað í enni hans, en ákærði játaði hins vegar þennan verknað bæði við rannsókn málsins og þingfestingu þess.  Er honum var ítrekað bent á þetta misræmi í framburði sínum og spurður að hví hann hefði játað þetta fyrir lögreglu kvaðst hann minnast þess að hafa sagt að hann hefði gert þetta; hann hafi ekki verið í andlegu jafnvægi og þurft áfallahjálp.  Þetta gæti hins vegar verið rétt, þó hann minntist þess ekki að hafa gert þetta.

III.

Niðurstaða.

Ljóst er af framburði ákærða Aðalsteins, kæranda, Einars Björns, og sambýliskonu ákærða, Helenar Kristínar, að skömmu eftir að Einar kom í íbúðina ásamt Karli Jökli fóru þeir að rífast vegna ágreinings þeirra, meðal annars vegna ógreiddrar skuldar Einars við ákærða og konu hans.  Einar hefur staðfastlega haldið því fram, að eftir nokkuð orðaskak á milli þeirra hafi ákærði spurt hvort þeir ættu að koma út fyrir og hafi hann játað því, farið fram í forstofu og byrjað að reima skóna þegar ákærði réðist að honum og sparkaði í enni hans.  Framburður ákærða um það hvernig handalögmálin byrjuðu er hins vegar á reiki.  Við rannsókn málsins skýrði hann frá á sama veg og Einar um þetta atriði.  Hann kvaðst hafa rekið Einar út og viðurkenndi að hafa farið á eftir honum út í forstofu og sparkað í höfuð hans.  Fyrir dómi sagði hann hins vegar að þeir hafi byrjað að tuskast á áður en þeir komu fram í forstofu.  Helena Kristín hefur borið að handalögmálin hafi byrjað frammi við forstofuna.  Kvað hún ákærði annað hvort hafa spurt hvort þeir ættu að koma út fyrir eða sagt að þeir ættu að fara út.  Einar hafi þá rifið af sér jakkann og rokið út.  Hann hafi verið ógnvekjandi og hún hafi verið hrædd við hann.  Einar hafi skilið orð ákærða á þann veg að hann væri að „bjóða honum í slag”.  Hún hafi svo orðið þess vör að þeir voru komnir í hár saman.  Hún hafi þá farið fram í forstofuna og þeir þá legið þar „í faðmlögum”.  Í framhaldi þess hafi hún aðskilið þá og komið þeim öllum út, einum af öðrum, og skellt útihurðinni á eftir þeim.  Fram er komið að Einar fór á slysadeild í leigubíl ásamt Karli Jökli.  Kemur fram í læknisvottorði Tryggva B. Stefánssonar, sérfræðings skurðlækningadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur, að Einar hafi verið með mar á enni.  Þegar allt framangreint er virt þykir fyllilega sannað að ákærði hafi sparkað í enni Einars umrætt sinn í forstofu íbúðarinnar. 

Ákærði hefur einnig játað að hann hafi beitt hníf sem hann tók upp eftir að hann, Einar og Karl Jökull voru komir fram á ganginn fyrir utan íbúð ákærða.  Hann viðurkennir að hafa rispað Einar með hnífnum neðarlega hægra megin á baki, en neitar því að hafa stungið hann með hnífnum.  Í framangreindum læknisvottorðum Tryggva B. Stefánssonar kemur fram að á baki Einars hafi verið stungusár hægra megin á bakinu í hæð við neðstu rif fyrir miðju hægri hluta baksins, en sárið hafi verið mjög grunnt.  Sá framburður ákærða að hann hafi rispað Einar í bakið með hnífnum stenst því ekki og telst fyllilega sannað að hann hafi stungið hann í bakið en ekki rispað hann.

 Frásögn ákærða um það að hnífurinn hafi verið vasahnífur verður hins vegar að leggja til grundvallar, enda fannst hann ekki við rannsókn málsins og ekkert er fram komið um það að um stærri hníf hafi verið að ræða.  Þá verður einnig að leggja til grundvallar að ákærði hafi verið í handalögmálum við Einar eftir að hann fór með þeim Einari og Karli út úr íbúðinni, enda fær sú frásögn hans stoð í ljósmyndum sem teknar voru af honum 6. október sl. og vætti Guðrúnar Stellu Gunnarsdóttur, sem kvaðst hafa séð ákærða í stympingum við tvo menn og mikill hávaði hafi verið fyrir utan íbúð ákærða.  Verður ekkert um það fullyrt hver hafi átt upptökin, þar sem ákærði og Einar bera hvorn annan sökum um að hafa átt frumkvæðið.  Ákærði hefur hins vegar sagt að þegar hann var kominn út fyrir íbúðina hafi honum staðið stuggur af þeim Karli og Einari þegar þeir vildu ekki fara á brott. Þessi framburður hans hefur ekki verið hrakinn, enda verður ákæruvaldið að bera hallann af því að vitnið Karl kom ekki fyrir dóm við meðferð málsins og gat ekki staðfest framburð sinn við skýrslugjöf hjá lögreglu. Verður eins og hér er háttað að taka tillit til þessa framburðar ákærða.  Eins og að framan getur bar ákærði þess merki að hann hafi lent í ryskingum, en ekki var um aðra áverka að ræða en mar, rispur og áverkabletti.  Hefur ekkert fram komið í málinu sem réttlætt getur þann verknað ákærða að beita hnífi í stympingunum.  Fram kemur í framangreindum læknisvottorðum að Einar hlaut 2 cm stungusár við hægri brún brjóstbeins, í hægri geirvörtu, sem náði niður á rif og hlaust af því loftbrjóst, sem var þó skammvinnt.  Með framburði Einars, sem er í samræmi við áverka sem lýst er í læknisvottorðum, ljósmyndum af vettvangi og blóðugum fötum Einars, þykir einnig fyllilega sannað að ákærði hafi í greint sinn stungið Einar í brjóstkassa, eins og nánar er lýst í ákæru með þeim afleiðingum sem þar greinir.  Þegar litið er til þess að ákærði stakk Einar í tvígang með eggvopni og áverkinn eftir stungu í brjóst var alvarlegur, þó ekki lífshættulegur, verður verknaður hans færður undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. 

Á árunum 1979 til 1994 hlaut ákærði 15 refsidóma fyrir ýmis auðgunarbrot, nytjastuld, umferðarlagabrot, skjalafals og líkamsárásir.  Síðast hlaut hann með dómi Hæstaréttar, 8. desember 1994, 8 mánaða fangelsi fyrir nytjastuld, en með þeim dómi voru dæmdar með 60 daga eftirstöðvar reynslulausnar.  Hann hefur tvisvar áður hlotið dóm fyrir líkamsárás, árið 1985, en þá var hann dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir það brot auk fíkniefnabrots og auðgunarbrota, og í febrúar 1992, en þá var hann dæmdur í 30 daga fangelsi, einnig fyrir þjófnað.  Í bæði skiptin var brot hans fellt undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.  Brotaferill ákærða var með litlum eða engum hléum fram til byrjun ársins 1994, er hann framdi það brot, sem hann var dæmdur fyrir með dóminum 8. desember 1994. 

Ákærði hóf handalögmálin með því að sparka í enni kæranda.  Sú atlaga hans að stinga hnífi í brjósti Einars var hættulegt þar sem hann beitti eggvopni og hending gat ráðið að ekki fór verr.  Þá stakk hann Einar í tvígang, þótt stungan í bakið hafi verið grunn og hættulítil.  Varanlegt mein hlaust hins vegar ekki af atlögunni, en læknir sá er skoðaði Einar taldi áverkann hættulegan, en þó ekki lífshættulegan.  Til refsiþyngingar horfir einnig að ákærði hefur tvívegis áður gerst sekur um líkamsárás, þótt ekki sé um ítrekað brot að ræða.  Hins vegar ber við ákvörðun refsingar hans að vísa til 3. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga, eins og þeim var breytt með lögum nr. 20/1981.  Þegar allt framangreint er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. 

Kristján Stefánsson hæstaréttarlögmaður, sem tilnefndur var réttargæslumaður Einars Björns Ingvasonar við rannsókn málsins, hefur lagt fram þá bótakröfu á hendur ákærða fyrir hönd skjólstæðings síns, að ákærði greiði honum miskabætur að fjárhæð 350.000 ásamt dráttarvöxtum frá 3. janúar 2000.  Krafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Þá krefst lögmaðurinn þess að ákærði greiði þóknun sína vegna réttargæslustarfans, 40.000 krónur, auk virðisaukaskatts.  Ljóst er að kærandi varð fyrir miska, sem ákærða ber að bæta honum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga.  Þykja bæturnar hæfilega ákveðnar 200.000 krónur ásamt vöxtum, eins og í dómsorði greinir.

Ákærði er loks dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steinars Þórs Guðgeirssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur, og með vísan til 164. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 35. gr. laga nr. 35/1999, kostnað réttargæslumanns Einars Björns Ingvasonar, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, krónur 40.000.

Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Aðalsteinn Aðalsteinsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði Einari Birni Ingvasyni, kt. 160373-3189, 200.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. janúar 2000 til 11. febrúar sama ár, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steinars Þórs Guðgeirssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur, og kostnað réttargæslumanns Einars Björns Ingvasonar, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttar- lögmanns, 40.000 krónur.