Hæstiréttur íslands
Mál nr. 298/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
|
|
Mánudaginn 29. ágúst 2005: |
|
Nr. 298/2005. |
K(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn M(enginn) |
Kærumál. Börn.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að óheimilt væri að fara með barn málsaðila úr landi meðan forræðismál milli þeirra væri til meðferðar fyrir dóminum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2005, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að óheimilt væri að fara með barn hans og sóknaraðila úr landi að óloknu forsjármáli sem rekið er fyrir héraðsdómi milli þeirra. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdóms verði hrundið þannig að hafnað verði kröfu varnaraðila um að kveðið verði á um að óheimilt sé að fara með barn málsaðila úr landi meðan forsjármál þeirra sé til meðferðar hjá dómstólum. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2005.
Sóknaraðili er M. Varnaraðili er K. Fyrir héraðsdómi er til meðferðar forsjármál milli sömu aðila [...], þar sem deilt er um forsjá sonarins A. Sóknaraðili krefst þess nú að kveðið verði svo á í úrskurði samkvæmt 4. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 að ekki megi fara með drenginn úr landi á meðan forsjármálinu er ólokið. Jafnframt er krafist málskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að synjað verði um farbannskröfuna og að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað.
I.
Varnaraðili, sem er fædd og uppalin í Z, kynntist sóknaraðila vorið 1999 er hún var að vinna á Íslandi. Í framhaldi flutti hún til Íslands ásamt B syni sínum, fæddum 1991 og hóf sambúð með sóknaraðila. Þau gengu í hjónaband í ágúst 1999 og eignuðust soninn A í september 2000. Upp úr sambúðinni slitnaði í október 2003 og í framhaldi höfðaði sóknaraðili mál til heimtu forsjár sonarins. Því máli lauk með dómsátt 19. mars 2004, á þá leið að aðilar færu með sameiginlega forsjá drengsins, sem skyldi búa hjá hvoru foreldri á víxl, eina viku í senn, en eiga lögheimili hjá sóknaraðila. Áður höfðu aðilar fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Hinn 31. ágúst 2004 höfðaði varnaraðili nýtt forsjármál á hendur sóknaraðila [...]. Í því máli er deilt um forsjá sonarins, umgengnisrétt og meðlag. Sú deila, líkt og hin fyrri, er harðvítug. Með dómi Hæstaréttar 11. janúar 2005 í máli réttarins nr. 517/2004 var staðfest sú ákvörðun héraðsdóms að varnaraðili færi ein með forsjá drengsins þar til endanleg niðurstaða fengist í forsjármálinu. Jafnframt var kveðið á um inntak umgengnisréttar sóknaraðila og drengsins á þessu tímabili. Í þinghaldi 3. mars 2005 var dómkvaddur matsmaður til að skoða og meta forsjárhæfi aðila og tengsl þeirra við soninn. Matsgerð var lögð fram 19. maí og bíður forsjármálið nú aðalmeðferðar fyrir fjölskipuðum dómi 25. ágúst næst komandi.
II.
Sóknaraðili byggir farbannskröfuna á því að upplýst sé að varnaraðili hyggist fara með son þeirra til Z innan skamms, án þess að hún hafi látið uppi hvenær það verði. Af því tilefni hafi hún sótt um nýtt vegabréf fyrir A og sagt fyrra vegabréf hans vera glatað, þrátt fyrir að hafa vitað að það væri í vörslum héraðsdóms samkvæmt samkomulagi í dómsátt aðila 19. mars 2004. Áform sín um utanlandsferð drengsins hafi varnaraðili ekki kynnt sóknaraðila, heldur hafi þær upplýsingar fyrst borist lögmanni hans í þinghaldi 8. júní síðastliðinn. Í ljósi þessara aðstæðna og hinnar harðvítugu forsjárdeilu, sem og þess að varnaraðili er útlendingur, sem býr í leiguhúsnæði hér á landi og hafi lítil eða engin tengsl við land og þjóð og því bindi hana ekkert við Ísland annað en yfirstandandi forsjárdeila, telur sóknaraðili að rík hætta sé á því að hún muni ekki koma aftur til landsins fái hún að fara með son þeirra úr landi. Beri því dómara að úrskurða að ekki megi fara með drenginn úr landi á meðan forsjármálinu er ólokið, sbr. 4. mgr. 35. gr. barnalaga.
III.
Varnaraðili mótmælir málatilbúnaði sóknaraðila og fullyrðir að hún ætli eingöngu að fara með syni sína tvo í fjögurra vikna sumarleyfisferð til Z, meðal annars í því skyni að greiða fyrir umgengni [...] föður við eldri drenginn. Ráðgert sé að sonur aðila byrji í nýjum leikskóla 2. ágúst og verði þau komin heim fyrir þann tíma eða 31. júlí. Varnaraðili bendir á að hún sé með skriflegan, ótímabundinn húsaleigusamning og sé fastráðin starfsmaður hjá [...]. Þar sé hún í leyfi frá vinnu frá 1. júlí til 2. ágúst. Hún sé íslenskur ríkisborgari og eigi hér vini og félaga og hafi alls engin áform um að flytja af landi brott. Í Z hafi hún að engu að hverfa, hún eigi þar fáa og aðeins fjarskylda ættingja á lífi og hafi þar hvorki húsaskjól né atvinnu. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á nein líkindi þess að hún hyggist ekki snúa til baka til síns heima, en flugfarmiðar hennar og barnanna sýni hið gagnstæða. Því séu engar lagalegar forsendur fyrir því að meina syni aðila að ferðast til útlanda og beri því að synja um farbannskröfuna.
IV.
Í 34. gr. barnalaga eru fyrirmæli þess efnis að dómari skeri úr ágreiningi foreldra um forsjá barna, sem og um meðlag og inntak umgengnisréttar, sé þess krafist í stefnu eða greinargerð. Í 35. gr. laganna eru heimildir fyrir dómara til að úrskurða um forsjá til bráðabirgða og um önnur bráðabirgðaúrræði, sem nauðsynleg kunna að þykja til að tryggja eðlilegan framgang forsjármáls, með tilliti til hagsmuna viðkomandi barns. Hagsmunir þess skulu ávallt hafðir að leiðarljósi og skipta hagsmunir foreldra, sem aðilar deilumáls, litlu sem engu máli í samanburði. Í bráðabirgðaúrskurði sem þessum er engin afstaða tekin til forsjárhæfis viðkomandi foreldra. Gögn málsins, ekki síst framlögð matsgerð, bera með sér að báðum foreldrum þykir fjarska vænt um A og vilja honum aðeins hið besta, þótt þau greini á um veigamikil atriði varðandi forsjá og fleira. Samkvæmt sömu gögnum er drengurinn og sýnilega tengdur báðum foreldrum jákvæðum tilfinningaböndum.
Við mat á því hvort verða eigi við kröfu sóknaraðila vegast aðallega á tvennir ólíkir hagsmunir. Annars vegar eru það hagsmunir móður að geta ferðast til Z með drenginn í ætlað sumarleyfi og hins vegar hagsmunir föður eða öllu heldur ótti um að drengurinn muni ekki snúa til baka. Sem fyrr segir setur dómurinn hagsmuni barnsins á oddinn, það er að tryggja því eðlilega og réttláta dómsmeðferð hér á landi um fyrirkomulag forsjár þess, en framtíð barnsins mun að miklu leyti ráðast af niðurstöðu dóms í málinu. Forsjárdeilan er afar hörð og bera gögn málsins með sér að aðilar geta ekki átt eðlileg og friðsamleg samskipti sín á milli um hagsmuni sonarins. Aðalmeðferð hefur verið ákveðin 25. ágúst næst komandi. Í málinu liggur fyrir að varnaraðili sótti nýlega um vegabréf fyrir drenginn og virðist þá hafa sagt ósatt frá um afdrif eldra vegabréfs, sem hún sagði glatað. Óumdeilt er að sóknaraðili hafði enga vitneskju um væntanlega utanlandsferð fyrr en dómari upplýsti um hana í þinghaldi 8. júní. Samkvæmt upplýsingum frá varnaraðila voru flugfarseðlar þó keyptir 18. janúar síðastliðinn. Varnaraðili staðhæfir að hún hyggist snúa til baka með soninn 31. júlí, í samræmi við flugáætlun, en segist ekki vilja upplýsa hvenær þau mæðgin haldi af landi brott, af ótta við aðgerðir sóknaraðila.
Af hálfu beggja aðila er vísað til hæstaréttardóms 3. febrúar 2000 í máli réttarins nr. 34/2000, með ólíkum skilningi á þýðingu og fordæmisgildi dómsins fyrir úrslit þessa máls. Í því máli var vígstaðan að mörgu leyti ólík atvikum þessa máls. Þar voru báðir aðilar íslenskir, með engin sifja- og vinatengsl við fólk í öðrum löndum. Í því máli var ekki upplýst að annar aðilinn hyggðist fara af landi brott með barn aðila og átti sá er hlut átti að máli fasteign hér á landi. Í þessu máli er atvikum einnig öfugt farið að þessu leyti. Héraðsdómur í fyrra málinu byggði synjunarúrskurð sinn á því að ekki léki rökstuddur grunur á því að viðkomandi foreldri hyggðist flytja með barnið úr landi og að yfirlýsingu þess um hið gagnstæða hefði ekki verið hnekkt. Hæstiréttur byggði staðfestingardóm sinn á þeirri ákvörðun héraðsdómara hins vegar á því að fyrir hendi þyrfti að vera tilefni til að ætla að tilraun yrði gerð til að flytja barnið úr landi þannig að meðferð forsjármálsins eða fullnusta dóms um forsjá yrði torvelduð. Sóknaraðili í því máli hefði ekki rennt stoðum undir þær fullyrðingar sínar.
Dómurinn lítur svo á að ekki þurfi að vera fyrir hendi “rökstuddur grunur” um að varnaraðili snúi ekki til baka fái hún að fara með son aðila til Z, heldur nægi að sóknaraðili sýni fram á að raunveruleg hætta sé á því að svo kunni að fara. Óumdeilt er að varnaraðili sótti nýlega um nýtt vegabréf fyrir son aðila og sagði, ranglega, fyrra vegabréf vera glatað. Þótt varnaraðili sé íslenskur ríkisborgari þá liggja rætur hennar í Z. Ekki er upplýst um að hún eigi neinar eignir hér á landi og virðist fátt binda hana við Ísland annað en sonur aðila og örugg atvinna. Forsjárdeila aðila er óvenju hörð. Hún hefur nú staðið yfir nær óslitið í tæp tvö ár og stendur varnaraðila, að eigin sögn, verulegur stuggur af sóknaraðila. Sonur aðila hefur óneitanlega verið bitbein hinnar hörðu deilu og er slíkt ástand ólíðandi fyrir hvert barn. Telur dómurinn því nauðsynlegt að barnið fái án tafar efnislega úrlausn sinna brýnustu hagsmuna, svo að friður, eða í það minnsta festa, megi komast á um daglega velferð þess. Með hliðsjón af þessum hagsmunum barnsins og öðru því, sem að framan er rakið, ekki síst hinni harðvítugu forsjárdeilu, telur dómurinn að nægilegt tilefni sé til að ætla að varnaraðili muni ekki snúa til baka með drenginn, fái hún nú að fara með hann úr landi. Með slíkri ályktun er varnaraðila þó alls ekki borið á brýn óheiðarlegur tilgangur með væntanlegri utanlandsferð. Dómurinn lítur hins vegar svo á að hagsmunir barnsins af réttlátri dómsmeðferð vegi hér einfaldlega mun þyngra en hagsmunir móður af því að ferðast með drenginn til útlanda á meðan forsjármálið er ekki til lykta leitt. Með hliðsjón af þessum hagsmunum barnsins er því fallist á kröfu sóknaraðila um farbann eins og hún er sett fram.
Með hliðsjón af ákvæðum 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri þessa máls. Lögmaður varnaraðila kaus að setja farbannskröfuna fram í sjálfstæðu máli í stað þess að leggja slíka kröfu fram í aðalmálinu, en þar hefur varnaraðili gjafsóknarleyfi. Kemur því ekki til álita að ákvarða henni gjafsóknarkostnað í málinu, en þess ber engu að síður að gæta að samkvæmt 4. mgr. 35. gr. barnalaga er ráðgert að kröfur um bráðabirgðaúrræði geti risið undir rekstri forsjármáls. Endanleg afstaða til kostnaðar varnaraðila í þessum þætti forsjármálsins verður því tekin við úrlausn forsjármálsins.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Bannað er að fara með A, son sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, úr landi að óloknu forsjármáli nr. [...] milli sömu aðila.
Málskostnaður fellur niður.