Hæstiréttur íslands

Mál nr. 362/1999


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000.

Nr. 362/1999.

Eva Sögaard Johannesen

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Jóni Bjarna Pálssyni og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Jakob R. Möller  hrl.)

 

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka.

E slasaðist á baki þegar bifreið í eigu J var ekið á bifreið, sem hún var farþegi í. Læknirinn S mat varanlegan miska E vegna slyssins 25% og taldi hana hafa verið veika í alls átta vikur af völdum þess, þar af tvær vikur rúmliggjandi. Örorkunefnd taldi hins vegar varanlegan miska hennar vera 15%, en með vísan til þess að E hafði ekki unnið utan heimilis um langt árabil fyrir slysið lét nefndin ekki uppi álit um varanlega örorku. V, vátryggjandi J, greiddi E bætur vegna 15% varanlegs miska og fyrir varanlega örorku samkvæmt 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá voru E greiddar þjáningabætur í samræmi við mat læknisins. E krafði J og V um frekari bætur fyrir varanlegan miska og örorku og lagði til grundvallar að varanlegur miski hennar væri 25% í samræmi við örorkumat læknisins S. Þá krafðist hún bóta fyrir tímabundið atvinnutjón á grundvelli útreiknings tryggingarfræðings og þjáningabóta miðað við að hún hefði verið veik í alls 480 daga, auk annars fjártjóns. Að virtum gögnum málsins var talið, að leggja bæri álit örorkunefndar til grundvallar við ákvörðun varanlegs miska E. Þar sem óumdeilt væri, að hún hefði fengið tjón sitt af þessum rótum bætt í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar, var þessum kröfum hennar um örorkubætur og miskabætur hafnað. Talið var, að samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993 bæri að leggja verðmæti vinnu við heimilisstörf að jöfnu við launatekjur, meðal annars við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón. Var þessi krafa hennar tekin til greina að fullu, en J og V höfðu ekki mótmælt þeim forsendum, sem E lagði til grundvallar við útreikning hennar. Ekki þótti við önnur læknisfræðileg gögn að styðjast en örorkumat læknisins S um veikindi E vegna slyssins. Þar sem hún hafði þegar fengið greiddar þjáningabætur til samræmis við örorkumatið var kröfu hennar um frekari bætur hafnað. E var ekki talin hafa leitt líkur að öðru fjártjóni vegna slyssins og var kröfum hennar þar að lútandi hafnað. Voru J og V því dæmdir sameiginlega til að greiða E bætur vegna tímabundins atvinnutjóns hennar, en sýknaðir af öðrum kröfum E.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. september 1999. Hún krefst að stefndu verði dæmdir í sameiningu til að greiða sér 1.986.683 krónur með 2% ársvöxtum af 1.245.384 krónum frá 24. desember 1994 til 12. desember 1996, en með ársvöxtum af 741.300 krónum sem hér segir: 0,5% frá 24. desember 1994 til 1. júní 1995, 0,65% frá þeim degi til 1. október 1996 og 0,9% frá þeim degi til 12. desember sama árs. Frá 12. desember 1996 krefst áfrýjandi dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.986.683 krónum til greiðsludags. Hún krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Hinn 24. desember 1994 varð árekstur tveggja bifreiða í Sandgerði. Önnur þeirra var í eigu stefnda Jóns Bjarna Pálssonar og tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Áfrýjandi var farþegi í hinni bifreiðinni og fékk við áreksturinn hnykk í bakið. Daginn eftir leitaði hún til læknis vegna óþæginda í baki, sem ágerðust í kjölfarið, en að auki færðust verkir niður í hægri fótlegg. Í janúar 1995 var tekin tölvusneiðmynd af baki áfrýjanda, sem leiddi í ljós brjósklos. Gekkst hún undir skurðaðgerð af þessum sökum 18. apríl 1996. Kveðst hún ekki hafa fengið teljandi bata af aðgerðinni.

Í örorkumati 12. október 1996, sem áfrýjandi aflaði hjá Sigurjóni Sigurðssyni bæklunarskurðlækni, var komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski hennar vegna slyssins væri 25%. Taldi læknirinn jafnframt að hún hafi verið veik í alls átta vikur af völdum slyssins, þar af tvær vikur rúmliggjandi. Að fengnu þessu mati krafði áfrýjandi hið stefnda vátryggingafélag um bætur með bréfi 12. nóvember 1996. Ekki er að sjá af gögnum málsins að þeirri kröfu hafi verið svarað. Félagið leitaði hins vegar 30. maí 1997 álits örorkunefndar um varanlega örorku og miska áfrýjanda. Í álitsgerð nefndarinnar 5. janúar 1998 var varanlegur miski áfrýjanda metinn 15%, en með vísan til þess að hún hefði ekki unnið utan heimilis um langt árabil fyrir slysið lét nefndin ekki uppi álit um varanlega örorku. Þá var og tekið fram að nefndin teldi að eftir 1. ágúst 1996 hefði áfrýjandi ekki getað vænst frekari bata af áverkum sínum svo máli skipti.

Að fengnu mati örorkunefndar gerðu áfrýjandi og stefnda vátryggingafélagið uppgjör um bætur 16. febrúar 1998. Samkvæmt því fékk áfrýjandi greiddar þjáningabætur, sem svöruðu því að hún hefði verið veik í samtals átta vikur, þar af tvær vikur rúmliggjandi, alls 52.360 krónur. Þá fékk hún 658.350 krónur í bætur vegna 15% varanlegs miska og 581.981 krónu vegna varanlegrar örorku, sem var bætt samkvæmt ákvæði 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Voru bætur því samtals 1.292.691 króna. Var tekið við greiðslu þeirrar fjárhæðar með fyrirvara um rétt áfrýjanda til bóta vegna tímabundins atvinnutjóns, svo og til þjáningabóta fyrir lengra tímabil en uppgjörið tók mið af.

Í málinu krefst áfrýjandi greiðslu bóta vegna varanlegs miska, 513.244 krónur, og varanlegrar örorku, 415.400 krónur, en í þeim efnum leggur hún til grundvallar niðurstöðuna í áðurnefndu örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar og dregur frá þær bætur, sem þegar hafa verið greiddar. Þá krefst hún bóta að fjárhæð 641.300 krónur fyrir tímabundið atvinnutjón frá slysdegi til 30. apríl 1996. Fjárhæð þessa kröfuliðar er studd við útreikning tryggingarfræðings á höfuðstólsverðmæti tímabundna tjónsins, sem tekur mið af 75% launa samkvæmt svonefndum fastlaunasamningi Iðju, félags verksmiðjufólks, fyrir starfsfólk í matvælaiðnaði. Áfrýjandi krefst jafnframt greiðslu þjáningabóta fyrir tímabilið frá slysdegi til 18. apríl 1996, sem hún telur alls 480 daga, en í þeim kröfulið er lagt til grundvallar að hún hafi verið veik allt tímabilið, þar af rúmliggjandi í fjórtán daga. Að frádregnum þjáningabótum samkvæmt fyrrnefndu uppgjöri nemur þessi liður í kröfu áfrýjanda 316.740 krónum. Loks krefst hún 100.000 króna í bætur fyrir annað fjártjón. Samkvæmt þessari sundurliðun er krafa áfrýjanda samtals 1.986.684 krónur.

Í málinu er ekki deilt um bótaskyldu stefndu.

II.

Samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga, eins og hún hljóðaði áður en breyting var gerð á henni með 5. gr. laga nr. 37/1999, gat tjónþoli eða sá, sem ber ábyrgð á tjóni, leitað álits um miskastig og örorkustig hjá örorkunefnd, sem er skipuð tveimur læknum og einum lögfræðingi. Þótt kostur hafi gefist á að afla slíks álits var ekki girt fyrir það með lögum að beita megi öðrum gögnum til sönnunar um miskastig eða örorkustig. Sé aflað slíkra gagna til viðbótar álitsgerð örorkunefndar verða dómstólar að skera úr um sönnunargildi þeirra eftir almennum reglum, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Áðurnefnds mats Sigurjóns Sigurðssonar á varanlegum miska áfrýjanda var ekki aflað með dómkvaðningu eða í samráði við stefndu. Þeir áttu ekki kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við framkvæmd matsins. Sigurjón skoðaði áfrýjanda í tengslum við gerð mats síns 10. október 1996, en sérfræðingur í endurhæfingarlækningum, sem stóð ásamt öðrum að áliti örorkunefndar, skoðaði hana 1. desember 1997. Ekki er fullt samræmi í lýsingu Sigurjóns annars vegar og örorkunefndar hins vegar á líðan áfrýjanda og bata hennar í kjölfar fyrrnefndrar skurðaðgerðar. Áfrýjandi hefur ekki hnekkt þeirri lýsingu örorkunefndar með nýrri læknisfræðilegum gögnum. Þótt fallast megi á með áfrýjanda að röksemdir fyrir niðurstöðum í mati Sigurjóns séu í nokkrum atriðum ítarlegri en í álitsgerð örorkunefndar, er rökum nefndarinnar engan veginn áfátt. Tveir sérfræðingar í læknisfræði stóðu að áliti örorkunefndar, sem sinnti með gerð þess lögákveðnu hlutverki sínu. Að virtu þessu í heild verður álit örorkunefndar lagt til grundvallar við ákvörðun varanlegrar örorku og varanlegs miska áfrýjanda. Óumdeilt er að hún hafi þegar fengið tjón sitt af þessum rótum bætt í samræmi við niðurstöðu örorkunefndar. Verður því hafnað þeim liðum í kröfu áfrýjanda, sem snúa að varanlegri örorku hennar og varanlegum miska.

III.

Í gögnum málsins kemur fram að áfrýjandi vann ekki utan heimilis frá árinu 1973 til slysdags 24. desember 1994. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur, meðal annars við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, sbr. 2. gr. laganna. Hefur þeirri skipan því verið komið á með lögum að sá, sem gegnir ekki launuðu starfi utan heimilis, teljist verða fyrir fjártjóni vegna þess eins að hann fari vegna líkamstjóns á mis við að geta sinnt heimilisstörfum, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 14. október 1999 í máli nr. 153/1999. Verður þá fjártjónið miðað við verðmæti vinnu við heimilisstörf, en engu breytir í þeim efnum að tjónþoli hafi ekki þurft að bera kostnað af því að annar leysi af hendi þá vinnu í sinn stað. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á röksemdir, sem stefndu hafa fært fyrir því að áfrýjandi eigi ekki rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón.

Sem fyrr segir hefur örorkunefnd látið uppi það álit að eftir 1. ágúst 1996 hafi áfrýjandi ekki mátt vænta frekari bata af áverkum sínum svo máli skipti. Í málinu liggur fyrir vottorð 26. apríl 1996 frá sérfræðingi í taugaskurðlækningum, sem annaðist áðurnefnda aðgerð á áfrýjanda. Samkvæmt því taldist áfrýjandi óvinnufær, jafnt til heimilisstarfa sem annarra starfa, allt frá slysdegi og þar til vottorðið var ritað. Áfrýjandi hefur eins og áður greinir reist kröfu sína að þessu leyti á því að hún hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni á tímabilinu frá slysdegi til 30. apríl 1996. Með vísan til þess, sem að framan greinir, er sú viðmiðun áfrýjanda í samræmi við ákvæði 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga.

Stefndu hafa ekki mótmælt þeim forsendum, sem áfrýjandi leggur til grundvallar við útreikning kröfu sinnar um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Samkvæmt öllu framangreindu verður krafan tekin að fullu til greina.

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga á tjónþoli tilkall til þjáningabóta fyrir tímabilið frá því að tjón varð og þar til ekki verður vænst frekari bata, en þó aðeins að því marki, sem hann telst hafa verið veikur á tímabilinu eftir læknisfræðilegu mati, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 1976 og 2002. Í málinu liggja fyrir ýmis læknisvottorð, þar sem greint er frá líðan og meðferð áfrýjanda á nánar tilteknum tímabilum. Þar er þó hvergi vikið að því berum orðum hvort hún geti talist hafa verið veik vegna meiðslanna, sem hún hlaut 24. desember 1994. Er þannig að þessu leyti ekki við önnur læknisfræðileg gögn að styðjast en fyrrnefnt örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar, þar sem hann lét í ljós það álit að áfrýjandi hafi verið veik vegna slyssins í alls átta vikur. Óumdeilt er að áfrýjandi hafi þegar fengið greiddar þjáningabætur eftir 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga fyrir þann tíma. Með því að áfrýjandi hefur ekki lagt fram viðhlítandi gögn um frekari veikindi sín verður samkvæmt þessu að hafna kröfu hennar um þjáningabætur.

V.

Áfrýjandi krefst sem áður segir bóta að fjárhæð 100.000 krónur vegna annars fjártjóns síns. Um tilkall til þessara bóta skírskotar hún til 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga.

Varðandi þennan kröfulið vísaði áfrýjandi meðal annars til þess í héraðsdómsstefnu að taka hafi þurft á leigu bifreið í tengslum við áðurnefnda skurðaðgerð á henni 18. apríl 1996. Í því sambandi lagði hún fram reikning frá bílaleigu. Sá reikningur hljóðar þó ekki á áfrýjanda. Af honum virðist mega ráða að bifreið hafi verið leigð á tímabilinu frá 17. til 20. apríl 1996 og þá alls verið ekið 457 km. Þótt áfrýjandi hafi gengist undir skurðaðgerð á því tímabili ber reikningurinn að þessu gættu ekki með sér að bifreiðin hafi verið leigð gagngert til að flytja hana á milli þáverandi heimilis hennar í Sandgerði og sjúkrahúss í Reykjavík. Verður því ekki fallist á gegn mótmælum stefndu að hún geti reist kröfu á þessum reikningi

Áfrýjandi hefur að öðru leyti ekki lagt fram gögn til stuðnings þessum lið í kröfu sinni. Þótt loku sé ekki þar með skotið fyrir að áfrýjandi geti átt rétt til bóta fyrir annað fjártjón, verður að líta til þess að samkvæmt yfirliti frá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. um tjónagreiðslur vegna slyss hennar fékk hún greiddar alls 40.447 krónur vegna lækniskostnaðar, lyfjakostnaðar og ferðakostnaðar. Í gögnum málsins kemur ekki nánar fram hvert tilefnið hafi verið fyrir þessum útgjöldum áfrýjanda í einstökum tilvikum. Hún hefur ekki leitt að því líkur að hún hafi orðið fyrir frekara fjártjóni af þessum ástæðum eða öðrum, sem fallið geta undir fyrrnefnt ákvæði 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Verður þessum kröfulið áfrýjanda því hafnað.

VI.

Samkvæmt framangreindu verða stefndu dæmdir til að greiða áfrýjanda 641.300 krónur í bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, en sýknaðir af öðrum liðum í kröfu hennar. Í kröfugerð áfrýjanda hefur ekki verið gert ráð fyrir að krafa hennar um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns beri vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga á tímabilinu frá slysdegi til þess dags, sem dráttarvextir geta fallið á kröfuna, heldur fyrrgreinda ársvexti, sem hún kveður vera samkvæmt 7. gr. vaxtalaga. Verða vextir dæmdir því til samræmis til 12. desember 1996, en þá var mánuður liðinn frá því að áfrýjandi lagði fyrir stefndu gögn um tjón sitt og krafði þá um bætur, meðal annars fyrir tímabundið atvinnutjón. Frá þeim degi ber krafan dráttarvexti, sbr. 15. gr. vaxtalaga.

Stefndu verða dæmdir til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndu, Jón Bjarni Pálsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði í sameiningu áfrýjanda, Evu Sögaard Johannesen, 641.300 krónur með 0,5% ársvöxtum frá 24. desember 1994 til 1. júní 1995, 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 1996, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 12. desember sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði í sameiningu áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 31. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Evu Sögaard Johannessen, kt. 290543-0029, Heiðarvegi 25, Keflavík gegn Jóni B. Pálssyni, kt. 051057-2289, Klapparstíg 6, Sandgerði og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 27. febrúar 1998.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða sér 1.986.683 kr. í skaðabætur auk vaxta sem hér segir:  Með 2% ársvöxtum af 1.245.384 kr. frá slysdegi þann 24.12.1994 til 12.12.1996 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.  Með vöxtum skv. 7. gr. vaxta­laga nr. 25/1987 af  741.300 kr. frá slysdegi þann 24.12.1994 til 12.12.1996, en drátt­ar­vöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist máls­kostnaðar að mati dómsins  og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi rekur ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefn­anda og tildæmdur málskostnaður að mati dómsins.  Til vara er gerð krafa um það að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

 

I

Málsatvik

Málsatvik eru þau, að stefnandi meiddist í umferðarslysi á aðfangadag 24. desember 1994.  Stefnandi var farþegi í bifreiðinni R-5157, sem bifreið stefnda Ö-8338 var ekið á.  Stefnandi var í bílbelti en fékk hnykk á bakið.  Leitaði hún lækn­is­með­ferðar daginn eftir vegna bakverkja og leiðsluverks niður í ganglim.  Röntgen­myndir sýndu engin brot.  Tekin var tölvusneiðmynd af hryggjarliðum 25. jan. '95 er sýndi slitbreytingar þar og hugsanlega lítilsháttar brjósklos.  Vegna óþæginda, sem bentu til taugaklemmu, var ákveðin bakaðgerð og hún síðan framkvæmd 18. apríl 1996.

Þrátt fyrir brjósklosaðgerðina 18. apríl 1996 var stefnandi áfram slæm af verkjum í mjóbaki og lá verkurinn bæði upp í bakið og niður í báða fætur.  Sigurjón Sigurðsson læknir mat varanlegan miska vegna afleiðinga slyssins þann 12. október 1996 og segir í niðurstöðum hans m.a.:

"Þar sem einkenni löguðust ekki leiddi þetta til aðgerðar þann 18.04.96 en þrátt fyrir það enginn bati og hún er enn með stöðuga verki í mjóbaki og verki niður í báða ganglimi ásamt tilfinningu um það að fæturnir gefi sig þannig að hún treystir þeim ekki og hún er að detta.  Vegna þessara einkenna hefur hún ekkert getað unnið að ráði síðan eftir slysið og engin breyting hefur orðið á líðan hennar nú lengi."

Niðurstaða Sigurjóns var að miskastig vegna varanlegs miska væri 25%.

Stefnandi var fimmtug að aldri á slysdegi, heimavinnandi húsmóðir síðan 1973 og átti fjögur uppkomin börn, fædd 1962, 1965 1973 og 1976.   Bjuggu tvö þau yngstu á heimilinu en eiginmaðurinn var sjómaður.  Hefur stefnandi eftir slysið átt í erfið­leik­um með að vinna sum húsverk, svo sem ræstingu, að skúra og ryksuga og fengið til þess hjálp frá dætrum sínum.  Þá hefur hún átt í erfiðleikum með sauma og prjóna­skap og að aka bifreið.  Sótti stefnandi í júní 1996 um styrk til Sandgerðisbæjar í því formi að bærinn greiddi dætrunum laun fyrir heimilishjálp en því var hafnað.

Samkvæmt mati Sigurjóns Sigurðssonar læknis, var veikindatími stefnanda af völdum slyssins talinn vera 8 vikur, þar af tvær með rúmlegu.  Hinn 5. janúar 1998 mat örorkunefnd varanlegan miska stefnanda af völdum slyssins 15% og að eftir 1. ágúst 1996 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata.

Ekki er ágreiningur um bótaskyldu í málinu.

Tjónið var gert upp á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar hinn 16. febrúar 1998 og var greiðslu fyrir tímabundið atvinnutjón hafnað.  Lögmaður stefnanda tók við upp­gjöri með fyrirvara varðandi tímabundið atvinnutjón og lengd þjáningabóta. 

Í máli þessu gerir stefnandi, auk bóta fyrir hið umdeilda atvinnutjón og þján­inga­tíma­bil, jafnframt kröfu um  frekari bætur fyrir varanlegan miska og örorku og er það byggt á grundvelli miskamats Sigurjóns Sigurðssonar læknis.  Byggir stefnandi kröfur sínar á því að mat örorkunefndar á varanlegum miska hennar eigi að víkja fyrir miska­mati Sigurjóns, veikindatímabil eigi að reiknast á grundvelli læknisvottorða en ekki mati Sigurjóns á veikindatíma og greiða eigi bætur fyrir tímabundið atvinnutjón  stefnanda sem  er heimavinnandi.  Loks er gerð sérstök krafa um áætlað annað fjártjón v/ýmiss kostnaðar af slysinu, svo sem ferða á læknisfund.      

Af hálfu stefndu er öllum kröfum stefnanda andmælt.

 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er tekið fram að ekki sé deilt um bótaskyldu stefndu, ágreiningur aðila snúist einvörðungu um fjárhæð bóta.  Stefnandi telur tjón sitt vanbætt sem nemi stefnu­fjárhæðinni.  Deilt sé um mat á varanlegum afleiðingum slyssins og ágreiningur sé um túlkun á ákvæðum skaðabótalaga hvað varðar tímabundnar afleiðingar slyssins, tíma­bundið atvinnutjón og þjáningabætur.

Stefnukröfuna sundurliðar stefnandi með eftirfarandi hætti:

1.Varanleg örorka (1.610.625-515.400-581.981)

kr.513.244

2. Varanlegur miski (1.073.750-658.350)

kr.415.400

3. Tímabundið atvinnutjón

kr.641.300

4. Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga (369.100-52.360)

 

kr.316.740

5. Annað fjártjón skv. 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga

kr.100.000

Samtals

kr.1.986.684

 

1-2 Varanleg örorka og varanlegur miski.

Í kröfugerð sinni miðar stefnandi við niðurstöðu örorkumats Sigurjóns Sigurðs­sonar frá 12. október 1996, sem getið er um að ofan.  Það mat sé vel rökstutt og byggt á þekkingu læknis með áratuga reynslu af matsstörfum.  Niðurstaða hans um 25% var­an­legan miska sé í samræmi við þau læknisfræðilegu gögn sem fyrir liggja í málinu.  Stefnandi hafi nánast verið ónýt til allra verka, með þrálátan og sársaukafullan bak­verk sem leiði niður í báða fætur.  Þá finni hún fyrir máttleysi í fótum og sé sífellt að detta vegna þess.  Úr þessum atriðum, sem verði að teljast stórvægileg fyrir heilsu og velferð stefnanda, sé lítið sem ekkert gert í áliti örorkunefndar frá 5. janúar 1998.

     Stefnandi telur að svo stórvægilegar afleiðingar hljóti að metast til fleiri miskastiga en 15%.  Álitsgerð örorkunefndar hafi ekki meira vægi heldur en mat Sigurjóns, enda sé upplýst í öðrum málum að verklag nefndarinnar sé þannig að einungis einn læknir skoði sjúkling og geri tillögu að niðurstöðu, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16.2.1998 í málinu nr. E­2627/1997, Kristján Gunnarsson gegn Vátryggingafélagi Íslands o.fl.  Hlutverk hinna nefndarmannanna geti þá aldrei orðið annað en að skrifa nafn sitt undir álitið enda ljóst að sá málafjöldi sem örorkunefnd þurfi að glíma við geri það að verkum að engin leið sé að allir nefndarmenn kynni sér hvert mál fyrir sig.

Fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku byggi á 8. gr. skaðabótalaga og sé þannig reiknuð: 150% af bótum fyrir varanlegan miska (1.073.750) séu samtals 1.610.625 kr . Frá þeirri tölu dragist 32% vegna aldurs stefnanda í samræmi við 9. gr. skaðabótalaga, þ.e. 515.400 kr. og innborgun stefnda, VÍS hf., þann 16.2.1998 að fjárhæð 581.981 kr. Niðurstaðan verði því  513.244 kr.

Fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska byggi á 4. gr. skaðabótalaga og sé þannig reiknuð: 4.000.000 x 3524/3282 = 4.295.000 x 25% = 1.073.750.  Frá þeirri fjárhæð drag­ist þær  658.350 kr. sem stefndi, VÍS hf., greiddi inn á tjónið þann 16.2.1998, og verði niður­staðan því 415.400 kr.  Vísitöluhækkanir séu eingöngu reiknaðar til nóvember 1997, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, þar sem dráttarvaxta sé krafist frá desember 1997.

3. Tímabundið atvinnutjón.

Fyrir liggi í læknisvottorðum að stefnandi var algjörlega óvinnufær frá slysdegi og til aprílloka árið 1996.  Jafnframt sé ljóst að svonefndum stöðugleika - þegar ekki sé von á frekari bata - sé ekki náð fyrr en þá.  Stefnandi teljist því óvinnufær í skiln­ingi 1. mgr. 2. gr. skaðabóta­laga allt það tímabil, eða í 16 mánuði.  Stefnandi hafi verið heimavinnandi fyrir slys og eftir slysið hafi hún hvorki getað sinnt hefð­bundn­um heimilisstörfum né hannyrðum sem hún hafði áður fengist tölu­vert við.  Eigin­maður hennar sé togarasjómaður og því löngum fjarverandi.  Heimilis­verkin hafi ekki unnið sig sjálf og stefnandi hafi þurft að leita hjálpar hjá vinum og vandamönnum á þessu tímabili.

Hið stefnda félag hafi alfarið hafnað því að greiða bætur vegna tímabundinnar óvinnu­færni án þess þó að færa fram nokkur sérstök rök í því sambandi.  Fyrir gildis­töku skaðabótalaga hafi verið venja að bæta heimavinnandi tímabundna örorku með hlið­sjón af útreikningum tryggingastærðfræðinga sem nánast undantekningarlaust hafi verið 75% af svokölluðum "Iðjutaxta".  Ekkert í skaðabótalögunum gefi til kynna að tilgangur laganna hafi verið að gera rétt þeirra sem falla í þennan flokk svo miklu verri en áður var, eins og ráða megi af afstöðu stefndu.  Þvert á móti sé í 3. mgr. 1. gr. lag­anna eftirfarandi leiðbeiningarregla:  "Verðmæti vinnu við heimilisstörf skal lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr. 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. "

Verðmæti vinnu við heimilisstörf hafi verið lagt að jöfnu við mjög lágar launa­tekjur áður og hin sérstaka tilvísun laganna í 2. gr. bendi þess að með lögunum eigi að gera rétt þeirra sem séu heimavinnandi betri en áður.

Í 8. gr. laganna séu sérstakar reglur um greiðslu bóta vegna varanlegrar örorku heima­vinnandi og þeirra sem ekki vinni fyrir tekjum.  Spyrja megi hvaða rök séu til þess að greiða bætur vegna "fjárhagstjóns" þeirra þegar það sé varanlegt, en ekki þegar það sé tímabundið.  Vegna reglunnar í 8. gr. um bætur vegna varanlegrar örorku sé augljóst, samræmisins vegna, að bætur hljóti að greiðast fyrir tímabundið atvinnu­tjón þeirra sem að einhverju leyti nýti starfstíma sinn á heimilinu.

Skaðabótalögin veiti ekki nánari leiðbeiningar um það við hvaða launatekjur verð­mæti heimilisstarfa skuli jafnað.  Hugsanlegt sé að notast við gögn kjara­rann­sókn­arnefndar um meðaltekjur tiltekinna starfhópa, en hér sé farin sú leið að gera þetta með sama hætti og verið hafi fyrir gildistöku skaðabótalaganna í júlí 1993, þ.e. að miða við fastlaunasamning Iðju.  Sam­kvæmt eldri venju miðaðist útreikningur við 75% af þeim taxta þegar ekki voru börn yngri en 18 ára á heimilinu. Jón Erlingur Þorláks­son tryggingafræðingur hafi reiknað út tjón stefnanda í samræmi við þessar for­sendur og segir í niðurstöðum hans að höfuðstólsverðmæti taps af tímabundinni ör­orku sé 641.300 kr.

4. Þjáningabætur.

Krafa um greiðslu þjáningabóta er studd við 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga.  Þar sé kveðið á um greiðslu þjáningabóta fyrir hvern þann dag sem tjónþoli sé veikur vegna slyss, allt þangað til að ekki sé frekari bata að vænta.  Við mat á því hvort tjónþoli sé veikur í skilningi ákvæðis­ins er byggt á læknisfræðilegu mati og gögnum um lækn­is­með­ferð, einkum læknisvottorðum sbr. dóm Hæstaréttar frá 22. maí 1998 í málinu nr. 311/1991, Andrés Andrésson gegn Ásmundi Ólafssyni o.fl. og 4. júní 1998 í málinu nr. 320/1997, Svavar Jón Gunnarsson gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. o.fl.

Stefnandi hafi orðið fyrir brjósklosi í baki við slysið og hafi hún verið meira eða minna óvinnufær allt þar til Sigurjón Sigurðsson læknir hafi metið örorku hennar í október 1996.  Þegar metinn sé heildarfjöldi þeirra daga sem greiða eigi þjáningabætur sé rétt að taka mið af þeim læknisvottorðum sem liggi fyrir í málinu.  Í vottorði Arnbjörns H. Arnbjörns­sonar frá 8. febrúar 1995 segi að stefnandi hafi veruleg óþæg­indi í baki og með vísan til sneiðmyndatöku þann 26. janúar s.á. sé Ijóst að brjósklos hafi orðið.  Frá slysdegi til dagsetningar þessa vottorðs líði 45 dagar.

Í vottorði sama læknis frá 12.1l. s.á. segir að stefnandi bíði skurðaðgerðar og hún sé enn óvinnufær.  Aron Björnsson hafi séð um brjósklosaðgerð stefnanda og komi fram í vottorði hans þann 26. 4. s.á. að stefnandi hafi þurft að bíða til 18. apríl s.á. eftir að­gerðinni.  Frá slysdegi (24.12.1994) til brjósklosaðgerðarinnar ( 18.4.1996) líði 480 dagar.  Á þeim tíma hljóti stefnandi að teljast veikur enda ófær til allra verka og hafi  lítið annað gert en að ganga til lækna og bíða eftir brjósklosaðgerð  Við skýringu á viður­kenndri fyrirmynd íslensku skaðabótalaganna, dönsku skaðabótalögunum, hafi veik­indahugtakið í þessu sambandi verið talið eiga við á meðan tjónþoli sé í einhvers konar meðferð vegna afleiðinga slyssins, hvort sem er hjá læknum eða í annars konar endur­hæfingu.

Jafnframt er byggt á því í þessu sambandi að þótt dómurinn komist að þeirri nið­ur­stöðu að stefnandi hafi ekki verið veikur, sé ástæða til að beita undantekningarreglu 1. mgr. 3. gr. i.f. um heimild til að ákveða greiðslu þjáningabóta þó að tjónþoli sé ekki veikur í læknisfræðilegum skilningi, sbr. t.d. U 1989, bls. 860.

Viðmiðunarfjárhæð til þjáningabóta sé 700 kr. uppreiknað miðað við breytingar á lánskjaravísitölu frá júlí 1993 til nóvembermánaðar 1997, (3524/3282*700), samtals 750 kr.  Stefnandi var rúmliggjandi í 14 daga af þeim 480 sem hún var veik og  sundurliðast krafa vegna þjáningabóta þannig:

Veikindi (750x466)

kr.349.500

Veikindi - rúmliggjandi (14x1400)

kr.19.600

Samtals

kr.369.100

Innborgað frá VÍS 16.2.98

kr.-52.360

Stefnukrafa vegna þjáningabóta

kr316. 740

 

5. Annað fjártjón.

Stefnandi hafi haft margs konar kostnað og óþægindi af slysinu sem falli undir aðra liði í bótauppgjöri.  Fjölmargar ferðir til lækna frá Sandgerði til Keflavíkur og Reykja­víkur kosti mikið fé og fyrirhöfn svo eitthvað sé nefnt.  Í eitt skipti hafi m.a. þurft að leigja bíl vegna aðgerðar.  Þá komi fram í gögnum málsins að stefnandi hafi áður saumað föt á fjölskylduna og annað til heimilisins og hafi einnig gert við föt en ekkert af þessu sé henni nú kleift vegna afleiðinga slyssins.  Vegna þess verði hún fyrir fjártjóni sem ekki sé hægt að sýna fram á með reikningum eða kvittunum.

6. Vaxtakröfur og verðlagshækkanir.

Í samræmi við 16. gr. skaðabótalaga krefst stefnandi 2% ársvaxta af bótum vegna varan­legrar örorku, varanlegs miska og þjáningabóta frá slysdegi og til 12.12.1996, samtals  1.245.384 kr. (513.244+415.400+316.740).  Dráttarvaxta í samræmi við III. kafla vaxtalaga sé svo krafist af þeirri fjárhæð þegar mánuður sé liðinn frá dag­setn­ingu kröfubréfs lögmanns stefnanda, þann 12.11.1996, sem sent hafi verið eftir að ör­orku­mat Sigurjóns Sigurðssonar hafi legið fyrir.  Bætur fyrir "annað fjártjón" og tíma­bundið atvinnutjón beri vexti skv. ákvæðum vaxtalaga nr. 25/1987 og því sé vaxta­fótur hvað þá bótaliði varði skv. 7. gr. þeirra laga frá slysdegi og til 12.12.1996.  Drátt­arvaxta sé svo krafist frá þeim degi í samræmi við III. kafla laganna.  Sú fjárhæð sem krafist sé í stefnunni vegna þessara liða sé 741.300 kr. (100.000+641.300).  Allar fjár­hæðir séu uppreiknaðar til upphafstíma dráttarvaxta skv. 15. gr. skaðabótalaga.

 

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Sýknukrafa stefndu er á því reist að með þegar greiddum skaðabótum sé umstefnt slys stefnanda að fullu bætt að lögum og ósannað að hún hafi orðið fyrir frekara tjóni.

Þá er á því byggt að stefnandi sé bundin við samningsuppgjörið um þá bótaþætti, sem ekki hafi verið gerður um fyrirvari við bótauppgjörið.

Um bótaákvörðun fari eftir skaðabótalögum nr. 50/1993 og almennum sönn­un­ar­reglum skaðabótaréttarins.  Hvílir sönnunarbyrðin á stefnanda um afleiðingar og um­fang meints tjóns af völdum slyssins.  Geri skaðabótalögin ráð fyrir því að nið­ur­staða örorkunefndar um örorku og miskastig sé lögð til grundvallar við bótaákvörðun, nema henni sé hrundið fyrir dómi.  Komi fram í greinargerð með lögunum, að markið lag­anna með stofnun örorku­nefndar sé að skapa festu og samræmi í mötum.  Verður áliti örorkunefndar því ekki vikið til hliðar fyrir það eitt, að aðrir kunni að leggja annað mat en nefndin á afleiðingar slyss.  Verði mötum örorkunefndar ekki hnekkt nema með ótvíræðri sönnun þess að álit nefndarinnar sé sýnilega rangt eða byggt á röngum eða ófullnægjandi forsendum.  Annað sé í andstöðu við tilgang skaða­bóta­lag­anna um festu og samræmi í mötunum.  Þá ráði engum úrslitum um sönnunargildi álits­gerða örorkunefndar, hvort einn eða fleiri nefndarmenn skoði tjónþolann eða eigi við hann viðtal.  Fari eftir atvikum og mati örorkunefndar hverju sinni, hvað sé nauð­syn­legt í þeim efnum.  Bendi ekkert til þess að nauðsynlegt hafi verið í þessu tilviki að fleiri en einn skoðaði stefnanda.  Megi hér til hliðsjónar benda á að læknaráð skoði aldrei tjónþola né heldur örorkumatsnefnd Dana, Arbejdskadebestyrelsen.  Sé ósannað með öllu að mat örorkunefndar á miskastigi stefnanda sé rangt.  Hins vegar sé ljóst að miska­mat Sigurjóns sé of hátt því að hann fullyrði að enginn bati hafi orðið eftir að­gerð­ina 18. apríl 1998, öfugt við það sem segir í vottorði Arnbjörns Arnbjörnssonar læknis, dags. 3.3.'97 og mati örorkunefndar.  Sé þar og haft eftir stefnanda að eftir að­gerð­ina hafi hún losnað að mestu við verkina niður í ganglim.  Beri því að leggja miska­mat örorkunefndar til grundvallar eins og gert hafi verið við bótauppgjörið 16. febrúar 1998 og sýkna stefndu af kröfum stefnanda um viðbótarbætur vegna varanlegs miska og örorku.

Þá beri einnig að sýkna stefndu af kröfum um frekari miska og örorkubætur af þeim ástæðum að ekki hafi verið gerður fyrirvari um þá bótaliði við samn­ings­upp­gjörið þann 16. febrúar 1998.  Sé stefnandi því bundinn af þeim hluta samningsins.  Bæði miskamötin hafi legið fyrir við samningsgerð og hafi stefnandi því getað gert fyrir­vara um þessa bótaliði eins og hina, ef krefja átti um frekari bætur síðar.

Þá beri að sýkna stefndu af kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnu­tjón, þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir atvinnutjóni eða út­gjöldum vegna aðstoðar við heimilisstörf vegna tímabundinnar óvinnufærni til heim­ilisstarfa.  Byggist bótaréttur í því efni á 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga.  Beri að skýra lagagreinina á þann veg að aðeins raunveruleg útgjöld séu bætt, sbr. athuga­semdir við greinina í lagafrumvarpinu og skýringar með samhljóða ákvæði í 2. gr. dönsku skaðabótalaganna.  Hafi ekki verið venja fyrir gildistöku skaðabótalaganna að bæta á annan veg tjón vegna tímabundinnar óvinnufærni til heimilisstarfa og ekki ætl­un­in við setningu skaðabótalaga að breyta þar gildandi rétti.  Eigi það bæði við um íslensku og dönsku skaðabótalögin, sem þau íslensku séu sniðin eftir.

Ekki séu heldur skilyrði til frekari þjáningabóta en bætt hafi verið með upp­gjör­inu 16. febrúar 1998, þar sem ekki sé sannaður lengri veikindatími í skilningi skaða­bóta­laga en Sigurjón Sigurðsson læknir hafi metið.  Hafði hann undir höndum við mat sitt öll læknisvottorð Arnbjörns Arnbjörnssonar læknis og hafi átt viðtal við stefn­anda og skoðaði hana 10. október 1996.  Hafði hann því allar forsendur til að geta metið veikindatímabilið réttilega.  Fái ekki staðist að stefnandi hafi verið veik í skiln­ingi skaðabótalaga allan tímann frá slysdegi til aðgerðardags 18.4. '96 eða í 480 daga eins og stefnandi heldur fram.  Hafi mati Sigurjóns á veikindatíma stefnanda ekki verið hnekkt.  Beri að sýkna stefndu af þessum kröfulið.  Til vara sé krafist lækkunar en bótakrafan sé umfram hámark samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga.  Þá standi ekki svo sérstaklega á hér að greiða beri þjáningabætur þó tjónþoli sé ekki veikur.

Loks ber að sýkna stefndu af kröfu stefnanda um bætur fyrir "annað fjártjón". Hafi stefndi þegar bætt öll útgjöld og kostnað stefnanda af völdum slyssins, sem krafist hafi verið.  Sé skilyrði réttar til bóta fyrir "annað fjártjón", að sýnt sé fram á raun­verulegt tjón og um sé að ræða útgjöld, sem erfitt sé að færa sönnur á.  Eigi það ekki við hér.  Til vara er krafist stórlækkunar á þessum kröfulið, en einu útgjöldin sem gætu átt rétt á sér sé bílkostnaður samkvæmt framlögðum reikningi, en hans hafi ekki áður verið krafist.

Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi svo og máls­kostnaði til stefnanda.

 

IV

Niðurstaða

Með samningsuppgjöri við stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., hinn 16. febrúar 1998 var tjón stefnanda vegna slyssins gert upp en þó þannig að gerður var fyrirvari varð­andi tímabundið atvinnutjón og tímalengd þjáningabóta.  Örorku- og miskabætur voru gerðar upp í samræmi við mat örorkunefndar án nokkurs fyrirvara af hálfu stefn­anda.  Var það gert þrátt fyrir mat Sigurjóns Sigurðssonar læknis um 25%  varanlegt miska­stig stefnanda.  Verður því að telja að stefnandi sé við það uppgjör bundinn að því er þá kröfuliði varðar.

Að því er varðar kröfu stefnanda um þjáningabætur samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993 þá var í greindu bótauppgjöri miðað við veikindatímabil í sam­ræmi við álit Sigurjóns Sigurðssonar læknis.  Samkvæmt því taldist stefnandi hafa verið rúmliggjandi í tvær vikur vegna afleiðinga slyssins og veik án þess að vera rúm­liggjandi í sex vikur.  Ber að leggja það til grundvallar niðurstöðu um þann kröfulið.

Að því er varðar kröfu stefnanda um tímabundið atvinnutjón þá hefur stefnandi, sem var heimavinnandi, ekki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir útgjöldum vegna að­stoðar við heimilisstörf eftir slysið.  Á hún því ekki rétt til bóta samkvæmt 2. mgr. skaða­bótalaga og verður  því  að hafna þessum kröfulið. 

Að því er varðar kröfu stefnanda um annað fjártjón vegna slyssins þá verður sá kröfu­liður ekki tekinn til greina þar sem ekki hefur verið sýnt fram á kostnað.  Gegn and­mælum stefndu verður reikningur vegna bílaleigubíls ekki tekinn til greina.Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda, en eftir at­vikum þykir rétt að málskostnaður verði felldur niður.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndu, Jón B. Pálsson og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýkn af kröf­um stefnanda, Evu Sögaard Johannessen, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.