Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-362

Benedikt Bogason (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
Jóni Steinari Gunnlaugssyni (Gestur Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Tjáningarfrelsi
  • Ærumeiðingar
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr., sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari, Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari og Þórunn Guðmundsdóttir lögmaður. Með beiðni 17. desember 2019 leitar Benedikt Bogason leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. nóvember sama ár í málinu nr. 532/2018: Benedikt Bogason gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Jón Steinar Gunnlaugsson leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu fimm nánar tiltekinna ummæla sem birtust í bók gagnaðila „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ og kröfu um greiðslu miskabóta. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda en felldi niður málskostnað milli aðila. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með fyrrnefndum dómi. Vísaði rétturinn meðal annars til þess að gagnrýni á störf dómstóla ættu ríkt erindi við almenning og játa yrði mönnum rúmt frelsi til tjáningar af þeim sökum. Við úrlausn á því hvort gagnaðili hefði með ummælum sínum vegið að æru leyfisbeiðanda yrði að líta til þess á hvern hátt og í hvaða samhengi þau hefðu verið sett fram. Talið var að þótt ummælin hefðu á sér mynd staðhæfinga um staðreyndir yrði að telja að gagnaðili hefði með þeim verið að fella gildisdóm með því að lýsa eigin skoðunum og ályktunum. Að þessu virtu og að því gættu að rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli nytu einnig verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi yrði að líta svo á að gagnaðili hefði með ummælum sínum ekki vegið svo að æru leyfisbeiðanda að það hefði farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsis sem lög og réttarframkvæmd hefðu mótað.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi meðal annars sökum þess að það varði mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs sem séu stjórnarskrárvarin réttindi. Það hafi sérstaka þýðingu að ummælin hafi beinst að dómstörfum leyfisbeiðanda og að gagnaðili sé fyrrverandi hæstaréttardómari og starfandi lögmaður. Leyfisbeiðandi bendir á að ekki hafi áður reynt á sambærilegt ágreiningsefni fyrir Hæstarétti og að dómur Landsréttar taki ekki nægilega mið af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, en þar hafi staða þess sem lætur ummælin falla verið talin skipta máli og jafnframt að hverjum þau beinast. Sé þess þá að gæta að heimilt sé eftir niðurlagi 2. mgr. 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu að takmarka tjáningarfrelsið í því skyni að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.

Þá telur leyfisbeiðandi að dómurinn gangi mun lengra en áður þekkist við túlkun á því hvað geti talist vera gildisdómur, auk þess sem ekki hafi verið tekin rökstudd afstaða til allra málsástæðna hans. Því sé dómurinn bersýnilega rangur að formi og efni til. Ennfremur byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði jafnframt sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda verði dómari ekki sakaður um alvarlegri glæp í starfi sínu en að misfara með vald sitt með því að dæma saklausan mann í fangelsi gegn betri vitund.

Loks telur leyfisbeiðandi að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant vegna nánar tilgreindra bréfaskipta og símtala gagnaðila við forseta Landsréttar, dómsformann málsins og skrifstofustjóra réttarins um skipun dómsins, sem hann hafi ekki verið upplýstur um. Jafnræðis hafi því ekki verið gætt með aðilum við málsmeðferðina og brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 50/2016 um að tilviljun ráði hvaða dómari fái mál til meðferðar.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um álitaefni varðandi frelsi lögmanna, og annarra sérfróðra aðila sem gegna ábyrgðarhlutverki innan réttarvörslukerfisins, til að tjá sig opinberlega um embættisverk dómara. Því getur úrlausn málsins að þessu leyti haft verulegt almennt gildi umfram úrlausnir sem áður hafa gengið. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.