Hæstiréttur íslands
Mál nr. 304/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Mánudaginn 23. ágúst 1999. |
|
Nr. 304/1999. |
Þór Fannar Ólafsson (Steingrímur Þormóðsson hdl.) gegn sýslumanninum á Hvolsvelli (enginn) |
Kærumál. Fjárnám. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Þ kærði úrskurð þar sem hafnað var kröfu hans um að fellt yrði úr gildi fjárnám sem gert var hjá honum fyrir kröfum um opinber gjöld. Talið var að slíkir annmarkar væru á reifun málsins og röksemdafærslu af hendi Þ að ófært væri að taka efnislega afstöðu til krafna hans og var málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júlí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. júlí 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem varnaraðili gerði hjá honum 1. desember 1998 fyrir kröfum um opinber gjöld að fjárhæð alls 1.425.551 króna. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að umrætt fjárnám verði fellt úr gildi. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Til þrautavara krefst hann þess að fjárnáminu verði breytt þannig að það taki aðeins til lægri skattfjárhæðar og dráttarvaxta, en málskostnaður á báðum dómstigum falli þá niður.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Krafa sóknaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar er engum viðhlítandi rökum studd. Verður henni því hafnað.
II.
Í gögnum málsins er áðurgreind skattkrafa, sem varnaraðili hefur til innheimtu, sundurliðuð þannig að opinber gjöld sóknaraðila álögð 1997 og 1998 eru sögð vera samtals 414.922 krónur, búnaðargjald álagt 1998 78.962 krónur og virðisaukaskattur frá árinu 1994 646.688 krónur, en frá árinu 1998 10 krónur. Eru þetta alls 1.140.582 krónur, en við bætast dráttarvextir, samtals 273.469 krónur, og krafan því í heild 1.414.051 króna. Fjárnám varnaraðila var jafnframt gert fyrir gjaldi í ríkissjóð vegna aðfarargerðar að fjárhæð 11.500 krónur og er þannig samtala alls þessa 1.425.551 króna.
Fyrir liggur í málinu að 7. febrúar 1997 tók ríkisskattstjóri í sínar vörslur bókhaldsgögn sóknaraðila fyrir árið 1994 vegna skatteftirlits. Gerði ríkisskattstjóri 13. mars 1997 skýrslu um athugun á þessum gögnum, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi við skil á virðisaukaskatti 1994 oftalið innskatt um alls 646.688 krónur, en í reikningsskilum að öðru leyti oftalið frádráttarbæran rekstrarkostnað um að minnsta kosti 2.089.020 krónur. Var sóknaraðila tilkynnt 18. mars 1997 að ríkisskattstjóri hefði í hyggju þessu til samræmis að ákveða á ný gjöld hans vegna ársins 1994. Ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð 14. október 1997, þar sem mælt var fyrir um lækkun á gjaldfærðum rekstrarkostnaði sóknaraðila á árinu 1994 um 2.089.020 krónur, svo og á yfirfæranlegu tapi samkvæmt rekstrarreikningi fyrir það ár um sömu fjárhæð. Þá var kveðið á um lækkun innskatts á árinu 1994 um fyrrnefndar 646.688 krónur og hækkun virðisaukaskatts um sömu fjárhæð. Með bréfi 15. janúar 1998 kærði bókhaldsstofan Fannberg sf. fyrir hönd sóknaraðila þennan úrskurð til yfirskattanefndar. Hún vísaði málinu frá sér með úrskurði 15. maí 1998, þar sem kæra taldist ekki hafa komið fram í tæka tíð.
Af gögnum málsins verður ráðið að krafa um virðisaukaskatt úr hendi sóknaraðila vegna ársins 1994, sem fjárnám var meðal annars gert fyrir, eigi rætur að rekja til endurákvörðunar gjalda samkvæmt áðurnefndum úrskurði ríkisskattstjóra 14. október 1997. Að öðru leyti verður ekki annað séð en að gjöld sóknaraðila, sem fjárnám varnaraðila tók til, hafi verið ákveðin við árlega álagningu opinberra gjalda 1997 og 1998.
III.
Sóknaraðili krafðist úrlausnar Héraðsdóms Suðurlands um áðurnefnt fjárnám með tilkynningu samkvæmt 93. gr. laga nr. 90/1989, sem barst dóminum 4. desember 1998. Þar var þess eins krafist að fjárnámið yrði fellt niður, ásamt því að sóknaraðila yrði ákveðinn málskostnaður. Í tilkynningunni var krafa sóknaraðila reist á þeim málsástæðum að hann hafi ekki haft með hendi þann atvinnurekstur, sem virðisaukaskattur og búnaðargjald hafi átt rætur að rekja til, heldur fyrirtæki með heitinu Vorland ehf. Að auki hafi álagning virðisaukaskatts verið ólögmæt, því úrskurður ríkisskattstjóra 14. október 1997 hafi verið efnislega rangur. Var því lýst í tilkynningunni að þetta yrði nánar rökstutt í greinargerð í málinu. Tekið var þó fram að ágreiningur í þessum þætti málsins væri um hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að reikna sér innskatt af keyptum rekstrarvörum, en mestu munaði þar um innskatt af áburðarkaupum, sem hafi verið gerð í nafni búnaðarfélags Djúpárhrepps. Hafi einnig verið frekari ágreiningur á milli sóknaraðila og ríkisskattstjóra varðandi endurákvörðun opinberra gjalda, en um hann yrði fjallað frekar í greinargerð.
Í greinargerð sóknaraðila, sem var lögð fram á dómþingi héraðsdóms 4. mars 1999, voru gerðar sömu kröfur og í fyrrnefndri tilkynningu. Atvikum málsins var þar ekki lýst að öðru leyti en lítillega hvað varðar aðdraganda að úrskurði ríkisskattstjóra 14. október 1997, sem sóknaraðili kvað virðast vera „grundvöllur þeirrar aðfarargerðar, sem krafist er að verði felld úr gildi.“ Helstu málsástæður sóknaraðila voru sagðar vera þær að í fyrsta lagi væri fjárnám varnaraðila ólögmætt, því beiðni um gerðina, sem hafi tekið til ýmissa gjalda, hafi verið studd við greiðslustöðuyfirlit, þar sem engar skýringar væri að finna á því hvenær einstök gjöld hafi verið lögð á sóknaraðila. Í öðru lagi væri því borið við að endurákvörðun á virðisaukaskatti fengi ekki staðist, en um það væri aðallega vísað til rökstuðnings í kæru til yfirskattanefndar og bent á að áburðarkaup sóknaraðila á árinu 1994 hafi verið gerð af áðurnefndu búnaðarfélagi samkvæmt venju. Í þriðja lagi væri byggt á þeim málsástæðum, sem kæmu fram í kæru til yfirskattanefndar, en í fjórða lagi væri haldið fram að sóknaraðila væri óskylt að greiða búnaðargjald af nánar tilteknum ástæðum.
Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar er haldið fram ýmsum málsástæðum, sem ekki var hreyft í fyrrnefndum málflutningsskjölum fyrir héraðsdómi. Ekki er ástæða til að greina hér nánar frá þeim málsástæðum, enda komast þær ekki að fyrir Hæstarétti samkvæmt 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 163. gr. sömu laga, svo sem þeim var breytt með 17. gr. laga nr. 38/1994.
IV.
Fyrrnefnd málsástæða, sem sóknaraðili hélt fram í tilkynningu til héraðsdóms, um að virðisaukaskattur og búnaðargjald hafi verið ranglega lagt á hann í stað annars skattaðila, hefur hvergi verið rökstudd frekar í málatilbúnaði hans og er engum gögnum studd. Rökstuðningur sóknaraðila fyrir þeirri staðhæfingu að endurákvörðun ríkisskattstjóra á virðisaukaskatti frá árinu 1994 hafi verið efnislega röng hefur einkum beinst að því að með réttu hefði átt að heimila honum að reikna sér innskatt af áburðarkaupum, þótt reikningar fyrir þeim hafi hljóðað á búnaðarfélag Djúpárhrepps. Af fyrirliggjandi gögnum verður þó ekki annað ráðið en að þetta ágreiningsefni varði eingöngu 144.269 krónur af þeim 646.688 krónum, sem virðisaukaskattur sóknaraðila vegna ársins 1994 var hækkaður um. Er hvergi leitast við í málatilbúnaði sóknaraðila að rökstyðja af hverjum sökum endurákvörðun virðisaukaskatts geti að öðru leyti hafa verið á röngum forsendum reist, en í þeim efnum verður ekki byggt á því, sem fram kemur í kæru sóknaraðila til yfirskattanefndar, enda er hún að auki þannig úr garði gerð að engin leið er að henda reiður á þeim atriðum, sem máli gætu skipt að þessu leyti. Er enn síður unnt að taka tillit til ótilgreinda málsástæðna, sem hugsanlega mætti finna í þeirri kæru, svo sem sóknaraðili ætlast til í málatilbúnaði sínum. Eins og áður greinir hefur sóknaraðili haldið því fram í greinargerð sinni fyrir héraðsdómi að gjöldin, sem varnaraðili gerði fjárnám fyrir, hafi virst vera reist á úrskurði ríkisskattstjóra 14. október 1997. Af því, sem fyrr er rakið, er ljóst að þessi staðhæfing, sem lýtur að megingrundvelli málsins, er fjarri réttu lagi, enda er sá úrskurður óviðkomandi álagningu búnaðargjalds, svo og opinberra gjalda 1997 og 1998 og virðisaukaskatts síðarnefnda árið, sem sóknaraðili hefur hvergi hreyft athugasemdum við í málatilbúnaði sínum.
Þegar gætt er að því, sem að framan greinir, eru slíkir annmarkar af hendi sóknaraðila á reifun málsins og röksemda hans að ófært er að taka efnislega afstöðu til krafna hans. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Í hinum kærða úrskurði var ákveðið að málskostnaður í héraði félli niður. Kemur sú ákvörðun ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, enda hefur varnaraðili ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Hann hefur sem fyrr segir ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður að falla niður.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. júlí 1999.
Með bréfi dags. 3. desember 1998 skaut Þór Fannar Ólafsson, kt. 310853-5189, Háfi 2, Djúpárhreppi, til héraðsdóms aðfarargerð er varnaraðili, sýslumaðurinn á Hvolsvelli lét framkvæma hjá honum 1. sama mánaðar.
Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerð varnaraðila, nr. 31/1998/00187, verði felld niður. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu.
Varnaraðili krefst þess aðallega að ágreiningi er varðar aðfarargerð þessa verði vísað frá dómi. Til vara að gerðin standi óhögguð. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
Málið var fyrst tekið til úrskurðar 14. maí sl. Það var endurupptekið og tekið til úrskurðar á ný 21. júní.
Í aðfararbeiðni varnaraðila, sem dagsett er 29. október 1998, er krafist fjárnáms til tryggingar skuld sem sögð er nema samtals kr. 1.414.051, auk aðfarargjalds í ríkissjóð. Skuldin er sundurliðuð í höfuðstól kr. 1.140.582 og dráttarvexti reiknaða til 29. október 1998, kr. 273.469. Í beiðninni er vísað til greiðslustöðuyfirlits þar sem fram kemur að um er að ræða opinber gjöld 1997 og 1998, búnaðargjald 1998 og virðisaukaskatt 1994 (auk 10 króna árið 1998).
Fjárnám var gert 1. desember 1998. Sóknaraðili mætti sjálfur við gerðina og mótmælti framgangi hennar. Var gerðinni þrátt fyrir mótmælin fram haldið og lauk með því að gert var fjárnám í tveimur eftirvögnum, NX 162 og AR 311, en gerðin jafnramt lýst árangurslaus að hluta.
Þann 7. febrúar 1997 var bókhald sóknaraðila fyrir rekstrarárið 1994 kallað inn til embættis ríkisskattstjóra og tekið til rannsóknar. Var henni lokið með skýrslu dags. 18. mars 1997. Niðurstöður eru dregnar saman í 3. kafla þar sem segir að óverulegur munur sé á skattskyldri veltu og innsendum virðisaukaskattskýrslum, en skattskyld velta fari á milli skatttímabila. Innskattur sé oftalinn um 646.688. Frádráttarbær rekstrarkostnaður hafi verið oftalinn um kr. 2.089.020.
14. október 1997 úrskurðaði ríkisskattstjóri síðan og voru niðurstöður á sama veg og fram kom í áðurgreindri skýrslu. Var gjaldfærður rekstrarkostnaður lækkaður um kr. 2.089.020. Innskattur var lækkaður um kr. 472.386 fyrir fyrri hluta ársins 1994 og álag ákveðið kr. 94.477. Innskattur vegna síðari hluta ársins var lækkaður um kr. 174.302 og álag hækkað úr kr. 32.451 í kr. 49.881.
Ekki virðist tilefni til að gera sérstaka grein fyrir öðrum atriðum í skýrslu ríkisskattstjóra og úrskurði en ágreiningur er beinlínis gerður um. Ekki er neitt í greinargerð sóknaraðila eða þeirri greinargerð sem hann vísar til um álagningu opinberra gjalda utan staðgreiðslu 1997 og 1998. Um þennan þátt koma því aðeins til skoðunar þær almennu athugasemdir sem gerðar eru um fjárnámsgerðina og kröfugerð í aðfararbeiðni.
Það eru einkum tvö atriði varðandi innskatt sóknaraðila sem ágreiningur er um. Í skýrslu ríkisskattstjóra er gerð athugasemd við áburðarkaup og þau sögð vera í nafni Búnaðarfélags Djúpárhrepps. Telur ríkisskattstjóri að sóknaraðili geti því ekki talið virðisaukaskatt af áburðinum til innskatts hjá sér. Þá telur ríkisskattstjóri að reikingar sem gefnir voru út á einkahlutafélagið Grænmeti og ávexti skuli ekki gjaldfærðir í bókhaldi sóknaraðila. Með kæru sóknaraðila til yfirskattanefndar 15. janúar 1998 fylgdu endurnýjaðir reikningar frá Gróðurvörum ehf. og Plastprenti hf., en þá höfðu verið gefnir út kreditreikningar til einkahlutafélagsins en á ný samhljóða reikningar á nafn sóknaraðila.
Auk þessa er í kæru til yfirskattanefndar gerð athugasemd við að ríkisskattstjóri lækkar rekstrarkostnað vegna bifreiða um kr. 156.161, með þeirri skýringu að þar sé eldsneyti kallað bensín, en bifreiðin sé með dieselvél.
Í greinargerð sóknaraðila eru skýrðar málsástæður hans í fjórum liðum.
Sóknaraðili segir aðfarargerðina ólögmæta. Ekki komi fram á greiðslustöðuyfirliti hvenær hvert hinna umkröfðu gjalda hafi verið lagt á . Þá sé aðfarargerðin ekki skýr, sbr. 10. gr. aðfararlaga, þar sem ekki komi fram að um sé að ræða gjöld endurákvörðuð af ríkisskattstjóra.
Sóknaraðili segir að endurákvörðun ríkisskattstjóra standist ekki. Vísar hann til greinargerðar sem lögð var af hans hálfu til yfirskattanefndar. Tilgreinir hann sérstaklega áburðarkaup rekstrarárið 1994. Þau hafi verið gerð af Búnaðarfélagi Djúpárhrepps og hafi verið með virðisaukaskatti, sem eigi að koma til innskatts hjá sér. Kaup þessi séu gerð á venjulegan hátt.
Í þriðja lagi vísar sóknaraðili án frekari útlistunar til nefndrar greinargerðar sinnar til yfirskattanefndar.
Loks telur sóknaraðili að hann sé ekki skyldur til að greiða umkrafið búnaðargjald samkvæmt lögum nr. 84/1997. Hann sé ekki félagi í Landssambandi kartöflubænda og því ekki aðili að Bændasamtökum Íslands eða Framleiðsluráði. Því hafi ekki verið heimilt að leggja á hann þennan skatt samkvæmt innsendu skattframtali, en hann hafi ekki talið fram til skattsins. Þá séu lög þessi afturvirk þar sem gjaldið virðist tilheyra rekstararárinu 1997. Sérstaklega telur sóknaraðili að gjaldstofn búnaðargjalds sé ekki ákveðinn með löglegum hætti. Þá sé brotin á honum jafnræðisregla þar sem hann selji beint til smásala, en félagar í Landssambandi kartöflubænda selji til heildsala.
Varnaraðili krefst frávísunar í fyrsta lagi með vísan til 7. mgr. 29. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, en þar segi að áfrýjun eða deila um skattskyldu eða skatthæð fresti ekki gjalddaga eða vanskilaviðurlögum.
Í öðru lagi hafi ágreiningur um virðisaukaskatt ekki verið úrskurðaður af yfirskattanefnd, en það sé skilyrði þess að hann verði borinn undir dómstóla, sbr. 5. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988. Sóknaraðili hefði hins vegar getað fengið mál sín tekin upp að nýju innan skattakerfisins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Varnaraðili telur að skilyrðum 10. gr. aðfararlaga hafi verið fullnægt með aðfararbeiðni og greiðslustöðuyfirliti. Hafi komið skýrt fram hvaða gjöld hafi verið í vanskilum. Þá sé greiðsluáskorun sem vísað er til nægileg, en skýrt komi fram í henni að hækkanir álagningar séu þar með taldar.
Um áburðarkaup árið 1994 segir varnaraðili að kaupin hafi verið gerð af Búnaðarfélagi Djúpárhrepps. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988 skuli aðeins reiknaður innskattur sem fram komi á reikningum þeirra sem selt hafi hinum skattskylda aðila, í þessu tilviki sóknaraðila.
Varðandi búnaðargjald segir varnaraðili að um sé að ræða fyrirframgreiðslu vegna ársins 1998. Undantekningar í 2. gr. laga nr. 84/1997 taki ekki til sóknaraðila.
Loks tekur varnaraðili upp án nánari tilgreiningar sem málsástæður allt sem fram komi í skýrslu ríkisskattstjóra 18. mars 1997 og úrskurði hans 14. október sama ár.
Niðurstaða.
Skýrt er í aðfararbeiðni hvaða gjöld það eru sem krafist er lúkningar á með fjárnámi. Ekki skipta máli þau atvik sem sóknaraðili tiltekur og segir að koma hafi þurft fram í beiðni. Í beiðninni er krafist dráttarvaxta tiltekinnar fjárhæðar og auk þess áfallandi dráttarvaxta, án þess að ljóst sé frá hvaða tíma dráttarvextir séu reiknaðir. Varnaraðili benti á undir rekstri málsins að upphafstími dráttarvaxta leiddi af lögum og taldi því óþarft að tiltaka hann í beiðni. Á þetta verður að fallast eins og hér stendur á, en í greiðslustöðuyfirliti sem fylgdi aðfararbeiðni er heildarskuld sóknaraðila greind í sundur og kemur fram fjárhæð dráttarvaxta vegna hvers liðar.
Varnaraðili hefur krafist þess að kröfum varðandi virðisaukaskatt verði vísað frá dómi samkvæmt 5. mgr. 29. gr. laga um virðisaukaskatt.
Í ákvæðinu, sem síðast var breytt með lögum nr. 30/1992, segir: „Ágreining um skattskyldu og skatthæð má bera undir dómstóla, enda hafi áður verið um hann úrskurðað af yfirskattanefnd. Það skal þó gert innan sex mánaða “ Ákvæðið er nokkuð breytt frá því sem var í lögum um virðisaukaskatt er þau voru fyrst sett árið 1988. Þá hljóðaði ákvæðið svo að ágreining þennan mætti bera undir dómstóla, en það skyldi gert innan sex mánaða frá því að ríkisskattanefnd úrskurðaði.
Í greinargerð með 12. gr. laga nr. 119/1989, sem breytti 29. gr. laga um virðisaukaskatt er ekki vikið sérstaklega að breytingu á 5. mgr. Þó var lagt til að ákvæðið yrði orðað eins og það hljóðar nú, þó þannig að þá var ríkisskattanefnd starfandi, en yfirskattanefnd hafði ekki verið stofnuð. Um ákvæðið hefur verið fjallað einu sinni fyrir Hæstarétti. Var það í dómi 1998-829. Ákvæðinu var þar beitt eftir orðanna hljóðan.
Sóknaraðili skaut málinu of seint til yfirskattanefndar. Nefndin vísaði kæru hans frá með úrskurði 15. maí 1998. Því hefur nefndin ekki úrskurðað um efnisatriði í ágreiningi þeim sem hér er uppi. Sóknaraðila kunna að standa opnar leiðir til að fá mál sitt tekið upp til meðferðar að nýju innan skattkerfisins, sbr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Ekki verður leyst úr því hér fyrir dómi hvort þessi leið sé fær. Þar til á það hefur reynt leiða almennar reglur ekki til þess að skylt sé að fjalla um kröfur hans efnislega fyrir dómi. Verður því ekki fjallað um kröfu hans er lýtur að innheimtu virðisaukaskatts og ber því í samræmi við 6. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 að staðfesta fjárnámsgerðina um þennan þátt.
Um búnaðargjald færir sóknaraðili fram í fyrsta lagi þá málsástæðu að brotið sé gegn jafnræðisreglu. Þetta skýrir sóknaraðili ekki með öðru en því að hann selji beint til smásala, en að aðrir selji til heildsala.
Búnaðargjaldið er lagt á samkvæmt lögum nr. 84/1997. Lögin afmarka með tilvísun til atvinnuvegaflokkunar Hagstofu Íslands hverjir séu gjaldskyldir. Atvinnuvegaflokkun þessi var birt í B-deild Stjórnartíðanda, nr. 620, 23. nóvember 1994. Það felur ekki í sér mismunun að miða við veltu án tillits til þess hvort selt er til heildsala eða smásala. Ekki er neitt í lögunum sem leiðir til að gjaldið skuli einungis lagt á félaga í tilteknum félögum. Verður því að hafna mótmælum sóknaraðila við álagningu gjalds þessa.
Álagning búnaðargjalds er ekki afturvirk, þó við ákvörðun fyrirframgreiðslu hafi verið miðað við veltu fyrra árs, áður en lögin tóku gildi. Gögn liggja ekki frammi um hver endanleg álagning hafi verið og hún hefur ekki verið dregin í efa af sóknaraðila.
Samkvæmt framansögðu verður í samræmi við reglu 7. mgr. 29. gr. laga um virðisaukaskatt að staðfesta fjárnámsgerðina um annað en dráttarvexti. Rétt er eins og hér stendur á að fella málskostnað niður.
Um rekstur þessa máls er rétt að taka fram að hann dróst mjög á langinn þar sem lögmaður sóknaraðila lýsti sig ekki reiðubúinn að leggja fram greinargerð við upphaf málsmeðferðar þar sem gögn væru honum ekki tiltæk. Ekki þótti fært á því stigi að vísa málinu frá dómi, þó ekki hafi virst sem dráttur þessi væri með öllu afsakanlegur. Er greinargerðir beggja aðila voru komnar fram varð vegna anna að láta nokkurn tíma líða fram til aðalmeðferðar. Er málið hafði loks verið tekið til úrskurðar reyndist tími dómara mjög knappur vegna fjölmargra annarra viðfangsefna hér við dóminn. Var málið endurupptekið og tekið til úrskurðar á ný eins og áður greinir þann 21. fyrra mánaðar.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Framangreind fjárnámsgerð er staðfest. Málskostnaður fellur niður.