Hæstiréttur íslands

Mál nr. 339/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 19

 

Föstudaginn 19. júlí 2002.

Nr. 339/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Guðjón Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(Guðmundur Óli Björgvinsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00 föstudaginn 26. júlí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2002

Ár 2002, miðvikudaginn 17. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigurði T. Magnússyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. júlí 2002 klukkan 16.00.

Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að þann 11. þ.m. hafi K, kt. […], verið úrskurðuð í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 til 19. þ.m. vegna rökstudds gruns um að hún tengdist mörgum innbrotum í heimahús undanfarinn mánuð. Þann 10. júlí sl. hafi lögreglan lagt hald á marga muni í vörslum K og hafi margir þeirra muna verið tengdir innbrotum í heimahús. Hún hafi játað aðild að hluta þeirra innbrota sem hún sé grunuð um að eiga aðild að.

Lögreglan kveður henni hafa borist upplýsingar um tengsl kærða við innbrot í Reykjavík undanfarið, meðal annars innbrot sem K sé grunuð um að eiga aðild að. Í framhaldi af heimild til leitar á heimili kærða að […], Reykjavík,  samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í gær hafi lögreglan lagt hald á fjölda muna sem hún hafi grun um vegna fjölda og samsetningar að séu þýfi. Ekki hafi unnist tími til að kanna hvort munir þessir stafi frá þeim innbrotum sem lögreglan rannsaki nú en ljóst sé að einn hlutur tengist innbroti sem framið hafi verið í Reykjavík þann 26. júní sl.

Af hálfu lögreglu er því haldið fram að rökstuddur grunur sé um aðild kærða að þjófnuðum. Ætlað þýfi hafi fundist á heimili hans. Þá hafi K borið að hafa framið fjölda innbrota með kærða og að undirlagi hans. Kanna þurfi hvort munir, sem fundist hafi á heimili kærða, stafi frá innbrotum. Lögreglan kveður rannsókn máls þessa vera á frumstigi. Fundist hafi í bifreið barnsmóður kærða magnari sem hún kveði kærða eiga en fyrir liggi að magnarinn sé þýfi úr innbroti. Þá geti kærði ekki gert trúverðuga grein fyrir munum sem fundist hafi á heimili hans og grunur leiki á að stafi frá innbrotum. Eftir sé að kanna hvort fleiri hlutir tengist mörgum innbrotum, sem framin hafi verið í heimahúsum í Reykjavík undanfarið. Yfirheyra þurfi kærða, barnsmóður hans og mann sem hann segi að hafi selt honum umrædda hátalara. Telja verði að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan þýfi og hafa áhrif á vitni og samseka gangi hann laus.

Kærði kveðst ekki kannast við K en kannist við stúlku sem kölluð sé [...] og útilokar ekki að það geti verið umrædd K. Hann vilji hins vegar ekki hafa samband við hana lengur. Hann neitar alfarið að hafa framið þjófnaði einn eða með umræddri K. Hann kveður umrædda muni, sem fundist hafi á heimili hans, mest megnis vera hátalara. Hann safni hátölurum og hafi keypt þá í góðri trú um að þeir væru ekki þýfi, aðallega hjá sama manni í Kolaportinu.

   Verjandi heldur því fram að hvorki sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök né að fyrir hendi séu nægjanlegir rannsóknarhagsmunir til að hneppa kærða í gæsluvarðhald. Óljóst sé hvert sakarefnið sé og rökstuðningur lögreglu fyrir kröfunni knappur. Ekki sé tilgreint hvaða munir geti verið þýfi og í raun ekki ljóst að neinn hlutanna sé það. Grunur lögreglu sé einnig reistur á framburði sakamanns, sem þegar hafi játað á sig innbrot, og fái ekki stoð í neinum öðrum rannsóknargögnum. Hann kveður ekki hafa verið sýnt fram á að kærði geti spillt rannsókninni með því að hafa áhrif á meðseka eða vitni. Barnsmóðir hans hafi þegar verið yfirheyrð og sömuleiðis K. Kærði sé tilbúinn að gefa ítarlega skýrslu hjá lögreglu vegna málsins.

Kærði neitar sakargiftum og kannast ekki við aðild að innbrotum. Framburður stúlku, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi, um aðild kærða að fjölda innbrota og aðrar upplýsingar, sem lögreglu hafa borist, veita sterkan grun um að kærði tengist fjölmörgum innbrotum á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Magnari, sem fannst í bifreið barnsmóður hans og hún kveður vera eign kærða en reyndist vera þýfi, styður þann grun. Auk þess fundust ýmsir munir við húsleit á heimili kærða, þ.á m. sjónvarpstæki, kassagítar, rafmagnsgítar, gítarmagnara, fimm fjarstýringar, sjö hátalarasett, 3 hljómflutningstækjasamstæður, 12 straumbreyta og lítil ferðasjónvarpstæki, sem lögregla ætlar að sé þýfi og kærði hefur ekki gert trúverðuga grein fyrir. Með vísan til framangreinds verður að fallast á með lögreglu að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að aðild kærða að framangreindum innbrotum.

Kærði fékkst ekki til að gefa skýrslu fyrir lögreglu um meint brot en við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar bauðst hann til að gefa slíka skýrslu. Eftir er að rannsaka hvort umræddir munir sem fundust á heimili kærða séu þýfi. Þá á eftir að staðreyna framburð kærða um kaup hans á umræddum hátölurum.

Með hliðsjón af framangreindu og því að rannsókn málsins er á byrjunarstigi hvað kærða varðar og hætta á því að kærði geti torveldað rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna með því að hafa samband við aðra sem kunna að tengjast meintum brotum og hafa áhrif á framburð þeirra og mögulegra vitna, þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vera fyrir hendi og ber að taka til greina kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og hún er fram sett.

Úrskurðarorð:

   Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. júlí 2002 kl. 16.00.

 

Sigurður T. Magnússon.