Hæstiréttur íslands
Mál nr. 274/1999
Lykilorð
- Bifreið
- Slysatrygging ökumanns
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 1999. |
|
Nr. 274/1999. |
Garðar Þórðarson (Þorsteinn Júlíusson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ólafur Axelsson hrl.) |
Bifreiðir. Slysatrygging ökumanns.
G, eigandi og ökumaður vörubifreiðar, slasaðist þegar verið var að skipa hjallaefni upp á bifreið hans. Fór G út úr bifreiðinni á meðan á uppskipun stóð og hugðist lagfæra trjáspírur, sem lágu á palli vörubifreiðarinnar. Féllu þá trjáspírur á hann með þeim afleiðingum, að hann féll í sjóinn milli skips og bryggju og slasaðist á öxl og handlegg. G, sem vátryggt hafði vörubifreiðina lögboðinni ábyrgðartryggingu samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hjá vátryggingafélaginu SA, krafði félagið um bætur vegna tjóns síns. Komst héraðsdómari að þeirri niðurstöðu, að slysið hefði ekki hlotist af notkun vélknúins ökutækis í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga og því félli það utan gildissviðs vátryggingar samkvæmt 92. gr. sömu laga. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest og SA sýknað af kröfum G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 7. júlí 1999. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 14.042.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 329.400 krónum frá 2. mars 1989 til 17. maí sama ár og af 14.042.000 krónum frá þeim degi til 30. október 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 43.780 krónum, sem greiddar voru 6. júní 1989, 8.278 krónum, sem greiddar voru á árinu 1997, og 30.952 krónum, sem greiddar voru á árinu 1998. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á dómkröfum áfrýjanda.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt þykir, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 7. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Garðari Þórðarsyni kt. 230638-4979, Álfhóli 2, Húsavík, með stefnu birtri 24. október 1997.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu 14.042.000 kr. með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 329.400 kr. frá 2. mars 1989 til 17. maí 1989, af 14.042.000 kr. frá þeim degi til 30. október 1997, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádregnum 43.780 kr. sem greitt var þann 6. júní 1989. Þess er krafist að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 2. mars 1990. Þá er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti og dráttarvöxtum samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og hann verði jafnframt dæmdur til greiðslu málskostnaðar en til vara að stefnukröfur verði verulega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I
Atvik máls og ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að á árinu 1989 átti stefnandi og rak sem atvinnutæki sitt vörubifreiðina Þ-1570. Bifreið stefnanda var tryggð ábyrgðartryggingu þ.m.t. ökumannstryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Þann 2. mars 1989 var verið að skipa upp hjallaefni í Húsavíkurhöfn úr m/s Tranevaag á vörubifreið stefnanda. Trjáspírurnar voru hífðar með krana skipsins og til verksins var notaður nokkurs konar krabbi til að taka utan um spírurnar og hífa þær í land. Trjáspírurnar lágu illa á palli vörubifreiðarinnar og þurfti stefnandi að lagfæra þær svo þær féllu ekki af bifreiðinni eða rækjust í þegar ekið var frá höfninni. Til að lagfæra trjáspírurnar hafi stefnandi þurft aða fara út úr bifreið sinni og með fram henni, en þá hafi trjáspírur fallið á hann með þeim afleiðingum að hann féll í sjóinn milli skips og bryggju. Í fallinu skall öxl og hægri handleggur stefnanda utan í bryggjuna/skipið.
Stefnandi tilkynnti um slysið til Tryggingastofnunar ríkisins og til umboðsmanns stefnda á Húsavík. Bótaskyldu var neitað af hálfu stefnda. Hvorki lögreglu né vinnueftirliti var tilkynnt um slysið.
Gerð er grein fyrir slysi stefnanda og sjúkrasögu í framlögðum læknisvottorðum og örorkumötum. Í örorkumati Atla Þórs Ólasonar dags. 16. júlí 1997 er vísað til læknisvottorðs Júlíusar Gestssonar, yfirlæknis á bæklunar- og slysadeild FSA, Akureyri, dags. 8. júní 1997, þar sem kemur fram að við slysið hafi hæ. öxl stefnanda farið úr liði. Hann fékk fyrstu meðferð á Sjúkrahúsinu á Húsavík, þar sem öxlinni var komið í lið, en rtg-rannsókn sýndi að brot hafði orðið á upphandleggsbeininu upp undir liðfleti svarandi til vöðvafestu herðablaðsvöðva, sem gengur út frá herðablaði út á liðhausinn og stýrir liðkúlunni inn í liðskálina við hreyfingu um öxlina (supraspinatus). Gerð var skurðaðgerð á brotáverkanum á Akureyri 7. mars 1989. Við eftirlitsrannsóknir í mars og apríl 1989 kom í ljós að stefnandi hafði verki í öxlinni og enga stjórn á liðnum milli upphandleggs og herðablaðs svo og stirðleika í öxlinni. Hann gat sveiflað hendi upp á við að 40-50º og út frá líkamanum að 10-15º. Síðasta reglulega eftirlit var 15. júní 1989. Þá kom fram mikil rýrnun í vöðva sem gengur frá viðbeini og herðablaði niður á upphandlegg og er aðal kraftvöðvinn við hreyfingar um axlarlið. Stefnandi var síðan margsinnis til skoðunar og fór í sjúkraþjálfun í tvö meðferðartímabil. Við lokaskoðun þann 28. maí 1997 var ástand í aðalatriðum óbreytt frá þessari lýsingu. Stefnandi var metinn til 50% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins, 1991-92. Samkvæmt örorkumati Atla Þórs Ólasonar var örorka stefnanda metin 100% tímabundin frá 2. mars 1989 til 17. maí 1989 en frá þeim degi 40% varanleg örorka. Á grundvelli örorkumatsins reiknaði Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur út fjártjón stefnanda.
Samkvæmt matsgerð læknanna Sigurðar Thorlacius og Magnúsar Ólasonar dags. 9. júní 1998 var varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda af völdum slyssins þann 2. mars 1989 metin 25%.
Samkvæmt yfirmatsgerð læknanna Halldórs Jónssonar, Jónasar Hallgrímssonar og Torfa Magnússonar dags. 9. desember 1998 var varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda af völdum slyssins metin 35%.
Leitað var álits úrskurðarnefndar í vátryggingamálum um bótaskyldu stefnda. Niðurstaða nefndarinnar dags. 9. apríl 1997 var sú að bótaábyrgð væri fyrir hendi samkvæmt slysatryggingu ökumanns. Þann 22. apríl 1997 tilkynnti stefndi að hann myndi ekki hlíta úrskurði nefndarinnar og hefur stefnandi því höfðað mál þetta til úrlausnar um rétt sinn.
Í málinu er deilt um bótaskyldu og fjárkröfur.
II
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sína á þeirri málsástæðu að stefndi hafi tryggt vörubifreið stefnanda Þ-1570 lögboðinni ábyrgðartryggingu, þar með talið vegna slysa á ökumanni. Því beri stefndi hlutlæga bótaábyrgð á slysi stefnanda, sem hann varð fyrir þann 2. mars 1989, sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 88. gr. sömu laga.
Stefnandi hafi unnið sem vörubifreiðastjóri og verið ökumaður bifreiðarinnar Þ-1570 þegar slysið átti sér stað. Lestun og losun vörubifreiðar, þ.m.t. að hagræða farmi, sem stefnandi vann við þegar slysið átti sér stað, sé þáttur í notkun bifreiðarinnar og eðlilegur hluti af starfi vörubifreiðastjórans. Í 92. gr. umferðarlaga sé kveðið á um að vátryggingin skuli tryggja bætur vegna slyss, sem ökumaðurinn verði fyrir við starfa sinn. Stefnandi telur að átt sé við slys sem hljótist af notkun ökutækis í þeirri merkingu, sem lögð sé til grundvallar samkvæmt 1. mgr. 88. gr. og 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga. Stefnandi telur að bifreiðin hafi verið í hefðbundinni notkun og að stefnandi hafi slasast við starfa sinn í skilningi 92. gr. laga nr. 50/1987.
Telji stefndi að einhver atvik séu óljós um tildrög slyssins verði hann að bera halla af skorti á sönnunargögnum í ljósi afstöðu sinnar í upphafi þ.e. að hafna strax bótaskyldu, sem m.a. hafi leitt til þess að frekari rannsókn á tildrögum slyssins hafi ekki verið framkvæmd.
Kröfu sína rökstyður stefnandi á eftirfarandi hátt:
Á grundvelli örorkumats Atla Þórs Ólasonar dr. med. dags. 16. júlí 1997 hafi Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur reiknað út fjártjón stefnanda, sem hann grundvallar kröfugerð sína á.
Nánar sundurliðast krafa stefnanda þannig:
|
Vegna tímabundinnar örorku |
kr. 329.400 |
|
Vegna varanlegrar örorku |
kr. 11.993.000 |
|
Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda |
kr. 719.600 |
|
Samtals dómkrafa vegna örorku |
kr. 13.042.000 |
|
Miskabætur |
kr. 1.000.000 |
|
Samtals dómkrafa |
kr. 14.042.000 |
Allt að frádreginni greiðslu Tryggingastofnunar ríkisins þann 6. júní 1989 að fjárhæð 43.780 kr.
Stefnandi byggir kröfu sína á ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 92. sbr. 88. gr. laganna. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styður stefnandi við ákvæði laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því að leggja beri til grundvallar þá málsatvikalýsingu sem fram komi í tilkynningu tjónþola um slysið til Tryggingastofnunar ríkisins dags. 21. mars 1989. Þar segi að hann hafi farið út úr bílnum er verið var að skipa upp hjallaefni á vörubíl hans en til þess hafi verið notaður krani í skipinu. Hafi hann þá runnið til í hálku og á sama tíma hafi dottið af pallinum trjáspíra með þeim afleiðingum að hann hafi fallið í sjóinn og hlotið skaða af.
Bifreiðin Þ-1570 hafi verið tryggð lögbundinni slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hjá stefnda þegar slysið varð.
Engin skýring sé gefin á hinum langa drætti hjá stefnanda að setja fram bótakröfu. Í framlögðu örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis segir að Garðar hafi verið metinn til 50% örorku, líklega á árinu 1991-1992. Með vísan til 29. gr. laga nr. 20/1954 sé krafa stefnanda fyrnd en stefndi mun sýna fram á með mati dómkvaddra matsmanna að örorkutjón stefnda hafi allt verið komið fram fyrir löngu. Allur dráttur á að setja fram kröfu sé sérlega bagalegur í ljósi þess að atvik að slysinu virðast ekki liggja ljós fyrir. Bifreiðin hafi verið kyrrstæð þegar slysið varð og hafi stefnandi verið utan hennar. Samkvæmt lýsingu stefnanda hafi hann fallið í sjóinn vegna þess að hann hafi runnið til í hálku auk þess sem trjáspíra hafi fallið á hann af vörubílspallinum. Slysið hafi því hvorki orðið af akstri bifreiðarinnar né af sérstökum búnaði hennar sem flutningabifreiðar og hafi því ekki hlotist af vélknúnu ökutæki í notkun, sem sé skilyrði þess að tryggingin eigi við. Slys stefnanda falli því að mati stefnda utan gildissviðs vátryggingar 92. gr. umferðarlaga og beri því að taka aðalkröfu hans til greina. Stefndi vísar m.a. til H.1997:3287 og H.1940:370.
Varakrafan er byggð á því að stefndi telur örorkutjón stefnanda vera minna vegna slyssins en fram komi í örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis. Er gerður áskilnaður um að dómkvaddir verði hæfir og óvilhallir matsmenn til að staðreyna þetta.
Fjárkröfum er mótmælt að öðru leyti sem of háum. Sérstaklega er átt við bætur vegna tímabundinnar örorku, sem ekki sé studd neinum gögnum, öðrum en líkindareikningi tryggingafræðings, miskabætur séu í engu samræmi við dómvenju og ekkert tillit sé tekið til lækkunar vegna skatt- og eingreiðsluhagræðis.
IV
Niðurstaða
Fyrir dómi skýrði stefnandi svo frá um aðdraganda slyssins að hann hafi séð það í speglunum á bifreiðinni að farmurinn færi ekki rétt á bílinn, hann hafi stigið út úr bifreiðinni, gengið aftur með henni til þess að laga farminn en um um leið og hann hafi komið að hlið farmsins á bílnum þá hafi hluti farmsins hrunið út af og á stefnanda sem við það féll í sjóinn milli skips og bryggju. Eftir atvikum þykir mega leggja þessa atvikalýsingu til grundvallar aðdraganda slyssins að meginefni til, sem á sér stoð í gögnum máls.
Ökumannstrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 gildir fyrir hvern ökumann sem tækinu stjórnar. Vátryggingin skal tryggja bætur vegna slyss sem ökumaður kann að verða fyrir við starfa sinn. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar um skýringu á 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. H.1997:3287, eru skilyrði greiðsluskyldu úr þessari vátryggingu þau, að ökumaður hafi orðið fyrir slysinu við stjórnun ökutækisins, og jafnframt að slysið verði rakið til notkunar þess í skilningi 1. mgr. 88. gr. laganna.
Þegar slysið varð var verið að skipa upp hjallaefni á vörubifreið stefnanda úr skipi í Húsavíkurhöfn. Stefnandi hugðist hagræða farmi á palli bifreiðarinnar vegna þess að trjáspírurnar röðuðust þar illa. Hann var kominn út úr bifreiðinni og var að ganga með fram henni þegar slysið varð. Bifreiðin var kyrrstæð og slys stefnanda hlaust hvorki af eiginleikum bifreiðarinnar sem ökutækis né af sérstökum búnaði hennar sem vörubifreiðar. Slys stefnanda hlaust því ekki af vélknúnu ökutæki í notkun í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og fellur því utan gildissviðs vátryggingar samkvæmt 92. gr. laganna. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu, en rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Garðars Þórðarsonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.