Hæstiréttur íslands
Mál nr. 616/2015
Lykilorð
- Lánssamningur
- Gengistrygging
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2015. Hann krefst þess að viðurkennt verði að eftirstöðvar skuldar hans við stefnda vegna nánar tilgreinds lánssamnings við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis 6. ágúst 2004 hafi 5. júní 2014 numið 8.047.106 krónum eftir greiðslu á þeim gjalddaga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Framburður fyrrverandi útibússtjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir dómi um aðdraganda lánssamnings þess, er hér um ræðir, breytir engu um efni hans. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Efnissala G.E. Jóhannssonar hf., greiði stefnda, Hildu ehf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. júní sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Efnissölu G.E. Jóhannssonar hf., Sundagörðum 2, Reykjavík, á hendur Hildu ehf., Lágmúla 6, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 24. júní 2014.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar lánssamnings nr. 0357, milli stefnanda og Sparisjóðs Reykjavíkur og Nágrennis frá 6. ágúst 2004, hafi eftir greiðslu hinn 5. júní 2014 numið 8.047.106 krónum.
Þá er krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Málavextir eru þeir að stefnandi gerði lánssamning við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis um rammasamning sem fól í sér lántökuheimild til handa stefnanda að heildarfjárhæð 100.000.000 íslenskra króna eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðli sem Sparisjóðurinn hafði aðgang að og Seðlabankinn skráði. Samningurinn er ódagsettur, en stefnandi kveður að hann hafi verið dagsettur 6. ágúst 2004.
Með skriflegri útborgunarbeiðni, dagsettri 6. ágúst 2004, tilkynnti stefnandi að hann vildi „taka út“ fjárhæðina „ISK 100.000.000“ í fjórum tilgreindum erlendum gjaldmiðlum og var lánsfjárhæð í hverjum gjaldmiðli tilgreind. Var andvirði lánsins greitt stefnanda í kjölfarið að frádregnum kostnaði, en andvirði þess var lagt inn á tékkareikning stefnanda nr. 1151-26-000014.
Í framhaldinu barst stefnanda staðfesting á lántökunni frá sparisjóðnum, þar sem fjárhæð hverrar myntar lánsins er tilgreind auk vaxtaprósentu og kaupgengis myntanna. Jafnframt var þar tilgreind fjárhæðin í íslenskum krónum, lántökugjald og kostnaður við lánssamninginn. Lánið bar LIBOR-vexti, eins og fram kom í fyrrgreindum rammasamningi aðila.
Þrjár skilmálabreytingar voru gerðar á láninu.
Í júlí 2009 var gerð skilmálabreyting á láninu, þar sem greiðslum var frestað og áföllnum vöxtum skeytt við höfuðstól. Í skilmálabreytingunni er upphafleg lánsfjárhæð tilgreind í íslenskum krónum og jafnvirði eftirstöðva lánsins hinn 6. júlí 2009 hafi verið 140.312.128 krónur.
Í október 2010 var gerð önnur skilmálabreyting á láninu, þar sem greiðsluskilmálum var breytt. Skjalið ber fyrirsögnina „framlenging erlends lánssamnings“. Þar segir að eftirstöðvar séu að jafnvirði 133.011.221 króna, auk þess sem eftirstöðvar lánsins eru tilgreindar í fjárhæðum hinna erlendu mynta lánsins.
Í maí 2014 var þriðja skilmálabreytingin gerð, þar sem greiðsluskilmálum var breytt. Stefndi gerði fyrirvara við þá skilmálabreytingu.
Hinn 5. ágúst 2010, eftir að dómar höfðu fallið í Hæstarétti í málum nr. 92/2010 og 153/2010, sendi lögmaður stefnanda bréf til Arion banka hf., þar sem fram kom ósk um framlengingu samningsins og andmæli við gengistryggingu hans.
Hinn 31. janúar 2012 barst stefnanda endurreikningur frá stefnda, sem gerður var af Arion banka hf., en bankinn þjónustaði lánssamninginn. Þar kom fram að nýr höfuðstóll lánsins væri 103.337.540 krónur. Í endurreikningi bankans voru greiðslur vaxta og afborgana af láninu ekki sundurgreindar. Stefnandi mótmælti umræddum endurreikningi sem röngum, en á þeim tíma kveðst hann hafa greitt um 65 milljónir króna í afborganir af höfuðstól lánssamningsins. Stefndi féllst ekki á að leiðrétta umræddan útreikning.
Stefnandi greiddi samkvæmt útsendum greiðsluseðlum stefnda, þar sem krafist var greiðslu miðað við að samningurinn væri í erlendum gjaldmiðlum, sem og samningsvexti. Endurreikningurinn hafði því engin áhrif á greiðslur stefnanda, en stefnandi kveður að stefndi hafi sagt það vera vegna þess að stefnandi hafi mótmælt umræddum endurútreikningi.
Hinn 14. nóvember 2013 barst stefnanda tölvuskeyti frá starfsmanni Arion banka hf., þar sem stefnanda var sagt að stefndi ætlaði að afturkalla umræddan endurútreikning þar sem fallið hefði dómar sem bentu til þess að lánið hefði verið lögmætt frá upphafi.
Stefnandi kveðst hafa talið að stefndi hefði með endurútreikningi lánsins viðurkennt að lánssamningur aðila hefði verið í íslenskum krónum. Stefndi hafi hins vegar ekki séð ástæðu til þess að endurreikna samninginn í samræmi við dóma Hæstaréttar í svokölluðum fullnaðarkvittanamálum. Lét stefnandi því endurreikna samninginn og sendi stefnda bréf hinn 25. mars 2014, þar sem útreikningi stefnda var hafnað og skorað á stefnda að leiðrétta umræddan endurreikning. Endurreikningur stefnanda byggir á þeirri forsendu að allar afborganir á höfuðstól lánsins eru greiddar í íslenskum krónum og þær dregnar frá upphaflegum höfuðstól lánsins, enda sé um gengistryggðan samning að ræða. Vaxtagreiðslur haldi sér í samræmi við svokallaða fullnaðarkvittunardóma Hæstaréttar. Kveður stefnandi að um sé að ræða sömu útreikningsaðferð og í svokölluðum Borgarbyggðardómi.
Á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda SPRON, dagsettri 21. mars 2009, sbr. 100. gr. laga nr. 161/2002, voru allar eignir SPRON og jafnframt öll tryggingarréttindi, þ.m.t. öll veðréttindi, ábyrgðir og önnur sambærileg réttindi sem tengdust kröfum skuldara, framseld til Dróma hf. Stefndi, Hilda ehf., eignaðist kröfur Dróma hf. á hendur stefnanda, og önnur réttindi svo sem veðréttindi, við framsal hinn 31. desember 2013.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr efni lánssamnings hans við SPRON. Telur stefnandi að eftirstöðvar að loknum gjalddaga 5. júní 2014 hefðu átt að nema 8.047.106 krónum, en ekki 81.342.681 krónu, miðað við gengi Hildu ehf. á greiðslukvittun þess dags. Krafan sé háð því, að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að um gengistryggt lán sé að ræða.
Stefndi byggir á því að til þess að fallast megi á kröfu hans þurfi fyrst að skera úr um hvort lánssamningur nr. 0357 sé í íslenskum krónum, þar sem fjárhæð samningsins sé gengistryggð í andstöðu við 13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001, m.ö.o hvort um ólögmætan gengistryggðan samnings sé að ræða.
Lánssamningur aðila beri yfirskriftina „Lánssamningur“ og sé tilgreint að stefnandi sé lántaki og SPRON lánveitandi. Bendir stefnandi á að heiti samningsins bendi ekki til þess að lánssamningurinn sé í erlendri mynt. Í 1. gr. samningsins sé lánsfjárhæðin skýrlega tilgreind, ISK 100.000.000 eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðli. Engar aðrar tilgreiningar á fjárhæð samningsins komi fram í lánssamningnum sjálfum, nema tilgreining í íslenskum krónum. Vísar stefnandi til dóma Hæstaréttar, m.a. í málum nr. 603/2010, 604/2010, 155/2011, 386/2012 og 189/2013.
Í grein 5.2 í lánssamningnum segi: „Áhætta af gengissveiflum. Lántaki staðfestir að hann hafi verið upplýstur um og hann hafi fyllilega skilið að áhrif hugsanlegra gengissveiflna geti orðið þau að heildarskuld hans í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstefndur af hverju sinni getur orðið hærra en upphafleg lánsfjárhæð. Skuld lántakanda við sparisjóðinn kann þannig að að [sic] verða hærri en upphafleg lánsfjárhæð.“ Þá segi einnig í grein 5.3: „Ábyrgð lántakanda. Lántaka er ljóst og hann staðfestir að sparisjóðnum ber engin skylda til þess að upplýsa hann um hvers kyns hækkanir er kunna að verða á lánsfjárhæðinni vegna óhagstæðra gengissveiflna. Það er á ábyrgð lántakanda sjálfs að afla sér upplýsinga um hugsanleg áhrif gengissveiflna á lánið.“
Stefnandi byggir á því að framangreindar greinar samningsins nr. 5.2 og 5.3 sýni glöggt að ætlun lánveitanda og lántaka hafi verið að gengistryggja umrætt lán. Ef lánið hefði átt að vera í hinum erlendu myntum, sem hvergi komi fram, væri engin hætta á gengissveiflum, né myndi lánið geta orðið hærra en upphafleg lánsfjárhæð. Gengissveiflur myndu þannig aldrei hafa nein áhrif á lánið sjálft væri það í raun í erlendum myntum. Ákvæðið sé því tilgangslaust nema ef um gengistryggðan lánssamning sé að ræða.
Í grein 13.1.1 í lánssamningnum sé kveðið á um umsýsluþóknun, eða kostnað við lántökuna og hún sögð vera í íslenskum krónum. Ljóst sé að ef lánið hefði átt að vera í erlendum myntum hefði umsýsluþóknun átt að vera í þeim myntum einnig.
Í grein 14.1.1 í lánssamningnum komi fram að allar greiðslur sem lántaki greiði vegna samningsins séu greiddar af íslenskum reikningi stefnanda. Stefnandi hafi ávallt greitt afborganir og vexti í íslenskum krónum.
Stefnandi hafnar því að í viðauka við samninginn felist yfirlýsing um að lánssamningurinn sé í erlendum myntum, Þar sem fjárhæð hinna erlendu mynta komi þar fram. Bendir stefnandi á í þessu sambandi, að það hafi verið forveri stefnda sem samið hafi umrætt skjal. Í öðru lagi sé ljóst að viðaukinn teljist ekki til upphaflegs lánssamnings, enda sé vísað í lánssamninginn í viðaukanum. Það sé því aðeins um að ræða beiðni um útborgun, þ.e. hvert ætti að leggja fjárhæð lánssamningsins, en ekki nýjan lánssamning. Ef beiðnin er lesin og túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan sé kristaltært að um lán í íslenskum krónum sé að ræða. Þannig óski lántaki eftir því að „taka út fjárhæðina ISK 100.000.000-hinn 06 ágúst 2004“ og svo „í eftirfarandi gjaldmiðlum“ og þá komi tilgreining til erlendra mynta. Lánsfjárhæðin hafi svo verið lögð inn á íslenskan reikning lántaka. Byggir stefnandi á því að í þessu skjali komi fram að fjárhæðin 100.000.000 króna hafi verið tekin út, þ.e. lánuð, hún síðan umreiknuð í tölvu í erlendar myntir til þess að fastsetja gengistrygginguna miðað við SEK, EUR, JPY og CHF og að þessu loknu hafi fjárhæðin verið lögð inn á íslenskan krónureikning. Í raun hafi skrefin verið færri, enda hafi erlend mynt aldrei skipt um hendur og hafi fjárhæðin í raun bara verið millifærð af reikningi stefnda inn á reikning stefnanda.
Stefnandi hafi í framhaldinu fengið afhenta staðfestingu á láni hjá SPRON, dagsetta 6. ágúst 2004, en þar hafi gengistryggðu gjaldmiðlarnir verið sundurliðaðir. Í skjalinu hafi sagt að höfuðstóll hafi verið 100.000.000 íslenskra króna og lántökukostnaður hafi verið 750.000 krónur. Hafi síðan 99.248.600 krónur verið lagðar inn á íslenskan reikning stefnanda. Með þessu skjali hafi svo verið fylgiskjal nr. 7154, sem staðfest hafi lánveitinguna enn frekar. Í kredit reit kvittunarinnar hafi komið fram 100.000.000 króna. Hér hafi því verið um a ræða frekari staðfestingu á því að lánið hafi verið í íslenskum krónum. Ekki megi heldur gleyma því að í umsókn um lánið hafi fjárhæðin aðeins verið tilgreind í íslenskum krónum og myntirnar tilgreindar með hlutfallstölum.
Enn fremur byggir stefnandi á því að báðir samningsaðilar hafi efnt meginskyldur sínar með greiðslu í íslenskum krónum, sbr. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 155/2010 og 386/2012. Engu breyti þótt greiðsluseðlar kveði á um gjaldeyrisviðskipti, engin heimild hafi verið veitt fyrir slíkum gjaldeyrisviðskiptum heldur hafi stefnandi ávallt greitt samkvæmt greiðsluseðli í íslenskum krónum.
Stefnandi byggir á því að umræddur lánssamningur hafi falið í sér skuldbindingu vegna lánsfjár í íslenskum krónum og að fjárhæð lánssamningsins sé og hafi verið í íslenskum krónum bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Telur stefnandi að slík gengistrygging sé í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu og tilgang löggjafar. Í fjölmörgum dómum Hæstaréttar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu og því þurfi að endurreikna umræddan lánssamning að nýju, sem stefnandi hafi þegar gert. Þá sé skorað á stefnda að gera slíkt hið sama.
Dómkrafa stefnanda byggi á því að komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að lánssamningur aðila sé í íslenskum krónum, verði að reikna lánið að nýju miðað við vexti samkvæmt 3. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, en þó þannig að stefndi geti ekki krafið stefnanda um vexti fyrir liðna tíð. Byggir stefnandi á því að undantekningarregla kröfuréttar um fullnaðarkvittanir eigi við um lánssamning aðila, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í málum nr. 600/2011, 464/2011, 50/2013 of 430/2013. Að baki þeirri undantekningarreglu búi sjónarmið um öryggi í viðskiptum og það gæti haft í för með sér röskun á fjárhagslegri stöðu skuldara að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum fjárhæðum fyrir liðna tíð þvert á væntingar sínar.
Stefnandi byggir á því að líta verði á kvittanir lánveitanda og forvera stefnda sem fullnaðarkvittanir fyrir þá gjalddaga sem þegar hafi verið greiddir enda hafi lánveitandi móttekið greiðslu þeirra án fyrirvara. Niðurstaða ofangreindra hæstaréttarmála sé og í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 604/2007, þar sem tekist hafi verið á um gildi fullnaðarkvittana. Hafi Hæstiréttur slegið því föstu í því máli að þegar skuldari hefði greitt í góðri trú og ekki vitað eða mátt vita að greiðsla fæli ekki í sér fullnaðargreiðslu kröfu gæti kröfuhafi ekki haft uppi frekari kröfur enda hefði skuldari fengið fullnaðarkvittun. Útreikningur stefnanda taki mið af þeirri forsendu að allar afborganir af lánssamningnum, eins og þær afborganir komi fram á greiðslukvittunum, komi til frádráttar höfuðstól lánsins.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 50/2013 komi fram leiðbeinandi atriði um það til hvers beri að líta við mat á gildi fullnaðarkvittana, en þau séu í fyrsta lagi að skuldari hafi verið í góðri trú, það er hafi hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans hafi verið ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi. Í öðru lagi hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að hann réttlæti að hafna beri viðbótarkröfu og í þriðja lagi hvorum aðila standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiða til þess að vangreitt hafi verið. Í því sambandi skipti einkum máli hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími hafi liðið frá því að mistök komi fram þar til krafa er höfð uppi, hvort öðrum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssambandið sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu. Ekkert eitt þessara atriða geti ráðið úrslitum um það hvort kröfuhafi eigi rétt á viðbótargreiðslum, heldur ráði þar heildarmat á aðstæðum öllum, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari séu rökin til að víkja megi frá meginreglunni.
Stefnandi hafi alla tíð greitt af láninu í góðri trú um að hann væri að inna af hendi réttar greiðslur vaxta í samræmi við kröfur stefnda. Forveri stefnda hafi sent út greiðsluseðla í samræmi við samning aðila og stefnandi hafi greitt samkvæmt þeim. Forveri stefnda hafi tekið við greiðslum athugasemdalaust og gefið út kvittanir.
Aðstöðumunur aðila málsins sé augljós. Stefnandi sé fyrirtæki sem sérhæfi sig í innflutningi á efni til miðstöðvar- og neysluvatnslagna en lánveitandi sé stórt fjármálafyrirtæki sem sérhæfi sig í lánveitingum til fyrirtækja og neytenda og hafi haft sérþekkingu á þeim markaði.
Það standi stefnda nær að bera áhættuna af eigin mistökum enda hafi það verið forveri stefnda sem hafi samið alla skilmála samningsins einhliða og ráðið efni þeirra. Stefnandi hafi mátt treysta því að stefndi, sem sé starfsleyfisskylt fjármálafyrirtæki, færi að lögum við gerð samninga. Verði því að telja að fremur megi kenna stefnda um þau mistök sem orðið hafi við samningsgerðina, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 430/2013.
Þá hafi verið komin festa á viðskipti aðila enda hafi stefnandi greitt í samræmi við ákvæði samningsins alla tíð. Engu skipti þótt gerðar hafi verið skilmálabreytingar á samningnum en skilmálabreytingarnar hafi einungis verið til komnar vegna mikillar hækkunar á höfuðstól lánsins vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar. Skilmálabreytingarnar hafi einnig verið samþykktar af báðum aðilum og eigi ekki að hafa nein áhrif á festu samningsins. Loks verði að telja að viðbótarkarfa sú sem stefndi hafi krafið stefnanda um eftir endurútreikning hafi verið umtalsverð, hvort sem miðað sé við upphaflega fjárhæð skuldbindinganna eða greidda vexti. Verði þannig að líta til fjárhæðar viðbótarkröfu stefnda vegna gengistryggða hluta lánsins hinn 31. janúar 2012, miðað við afturkallaðan endurreikning. Á þeim tíma hafi forveri stefnda litið svo á að eftirstöðvar lánssamningsins hefðu verið 103.375.750 krónur og hafi höfuðstóllinn því „lækkað“ að mati stefnda um rúmlega 20 milljónir króna. Samkvæmt endurútreikningi stefnda, þar sem allar afborganir hafi verið dregnar frá höfuðstól lánsins nemi höfuðstóllinn á sama tíma 34.300.698 krónum, en mismunurinn og viðbótarkrafa stefnda nemi því 69.075.052 krónum, eða 69% af upphaflegum höfuðstól og u.þ.b. 250% af greiddum vöxtum þess hluta sem hafi verið 26.868.607 krónur.
Engum geti dulist að óhagræði stefnanda af viðbótargreiðslu til stefnda hafi verið verulegt. Viðbótargreiðslan að fjárhæð 69.075.052 krónur hafi augljóslega mikil áhrif á fjárhag venjulegs fyrirtækis. Þegar litið sé til allra þeirra atriða sem Hæstiréttur segi að ráði niðurstöðu um gildi fullnaðarkvittana sé ljóst að öll þessi atriði eigi við lán stefnanda. Verði því að taka tillit til þess við endurútreikning lánsins að stefnandi hafi þegar greitt vexti og verði þeir vextir ekki teknir upp og hann krafinn um greiðslu hærri vaxta fyrir þau tímabil.
Stefnandi byggir einnig á því að sömu rök eigi við hér og í dómi Hæstaréttar í máli nr. 464/2012, um að lög nr. 151/2010, gætu ekki haggað þeirri niðurstöðu um uppgjör milli aðila, þ.e. að nýir vextir yrðu lagðir við þegar greidda gjalddaga, enda væri ekki með almennum lögum unnt að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilt hafi þegar til þeirra hafi verið stofnað og af þeim greitt, sbr. 72. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Loks hafi Hæstiréttur fallist á réttmæti þeirrar aðferðar Borgarbyggðar við endurútreikning lánsins, að afborganir af höfuðstól skuldar, sem Borgarbyggð hefði innt af hendi til þess dags sem Arion banki hf. hafi miðað útreikning sinn við, kæmu að fullu til frádráttar höfuðstól lánsfjárhæðarinnar, sem hvorki bæri gengistryggingu né annars konar verðbætur, og að fjárhæð greiddra vaxta hefði engin áhrif þar á enda teldust þeir að fullu greiddir vegna þess tímabils. Hið sama gildi um endurreikning stefnanda.
Stefnandi kveður stefnda strax í upphafi hafa verið grandsaman um að umrædd gengistrygging hafi verið ólögmæt. Í frumvarpi til laga nr. 38/2001 komi sérstaklega fram að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla væru felldar niður. Í umsögn banka og verðbréfafyrirtækja, dagsettri 24. apríl 2001, um frumvarp það sem hafi orðið að lögum nr. 38/2001, hafi verið á það bent að frumvarpið gerði það að verkum að óheimilt væri að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt. Í umsögninni sé þess óskað að þetta atriði verði tekið til endurskoðunar. Að þessu sögðu sé ljóst að stefnda hafi eða hafi mátt vera kunnugt um það frá upphafi að gengistrygging lánsins hafi verið ólögmæt. Stefndi geti því ekki borið fyrir sig, ef fallist verður á að samningurinn sé bundinn ólögmætri gengistryggingu, að hann sé ósanngjarn gagnvart stefnda.
Stefnandi byggir á því að líta verði til meginreglna kröfuréttar um lok kröfuréttinda. Samkvæmt meginreglum samninga- og kröfuréttar sé gjalddagi sá tími þegar kröfuhafa sé fyrst heimilt að krefjast þess af skuldara að hann inni greiðslu sína af hendi, þ.e. standi skil á greiðslu kröfunnar, enda séu ekki til staðar neinar þær efndahindranir sem breyti skyldum aðila í því sambandi. Skuldari, þ.e. stefnandi í þessu tilfelli, hafi staðið við skyldur sínar með greiðslu afborgana af láninu athugasemdalaust og hafi greiðslukvittanir verið gefnar út án athugasemda eða fyrirvara. Samkvæmt íslenskri dómaframkvæmd hafi dómstólar margsinnis litið til þess að kröfuhafa sé óheimilt að krefja skuldara um frekari greiðslu hafi hann ekki gert fyrirvara við greiðslukvittun. Þar sem enginn slíkur fyrirvari hafi verið gerður sé stefnda óheimilt að krefjast frekari og aukinna greiðslna vegna greiðslutímabils aftur í tímann. Vísbending varðandi slíka reglu komi einnig fram í ákvæði 35. gr. laga nr. 7/1936. Stefndi geti því ekki krafið stefnanda um frekari greiðslur miðað við hina svokölluðu Seðlabankavexti eftir útgáfu síðustu kvittunar til stefnanda.
Um lagarök vísar stefnandi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, meginreglna kröfu- og samningaréttar og meginreglna neytendaréttar.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir kröfur sínar á því að lán stefnanda sé lögmætt lán í erlendri mynt. Óumdeilt sé að lán í erlendri mynt séu lögmæt hér á landi. Stefndi gerir athugasemdir við málatilbúnað og málsgrunvöll stefnanda í stefnu þar sem byggt sé á því að samningur aðila sé lánssamningur sem einn og sér sé grundvöllur kröfuréttinda stefnda á hendur stefnanda. Um sé að ræða rammasamning um lánalínu, þ.e. lántökuheimild stefnanda hjá SPRON, og hafi sá samningur markað ramma umræddrar lántökuheimildar, sbr. 1. gr. samningsins. Þar segi að samningurinn sé rammasamningur er kveði á um skilmála lántökuheimildar að „heildarfjárhæð ISK 100.000.000 eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðli sem Sparisjóðurinn hefur aðgang að og Seðlabanki Íslands skráir sem og um skilmála þeirra lána sem lántakandi getur stofnað til á grundvelli heimildar sinnar“.
Önnur ákvæði samningsins séu í samræmi við það að um rammasamning um lánalínu hafi verið að ræða. Í grein 1.1 í samningnum séu skilgreiningar, en þar komi fram að samningsbundin fjárhæð merki þá heildarfjárhæð sem lántökuheimild lántakanda takmarkist við. Lán merki þá fjárhæð, sem lántakandi skuldi Sparisjóðnum á hverjum tíma á grundvelli heimildar sinnar.
Í 2. gr. samningsins sé fjallað um skilyrði þess að lánsfjárhæðin verði greidd út, en þar segi: „Skylda sparisjóðsins til að greiða út hina samningsbundnu fjárhæð er háð því skilyrði að sparisjóðnum hafi eigi síðar en fimm virkum dögum fyrir útborgunardag lánsins borist“ tiltekin gögn, s.s. útborgunarbeiðni. Í grein 3.1 í samningnum segi að samningsbundin fjárhæð skuli vera tiltæk lántakanda í einu lagi, enda hafi Sparisjóðnum borist beiðni um útborgun (Viðauki I) fyrir kl 11 að morgni að íslenskum tíma eigi síðar en þremur bankadögum fyrir útborgunardag. Í grein 3.2 í samningnum komi fram að hafi beiðni um útborgun ekki borist fyrir 6. ágúst 2004 falli niður skylda sparisjóðsins til að greiða hina samningsbundnu fjárhæð út. Samkvæmt framangreindum ákvæðum sé ljóst að skylda SPRON til að greiða lánsfjárhæðina út hafi verið tímabundin og bundin því skilyrði að útborgunarbeiðni bærist ella félli skuldbinding SPRON niður.
Í 4. gr. samningsins sé fjallað um gjalddaga „veitts láns“ og heimildir til framlengingar. Lánið hafi verið til þriggja ára með afborgunum vaxta og 1/60 höfuðstóls fjórum sinnum á ári og lokagjalddaga. Lánið hafi borið vexti frá útborgunardegi. Samkvæmt 7. gr. hafi lánið átt að endurgreiðast í þeim gjaldmiðlum sem það hafi samanstaðið af á gjalddaga. Heimilt hafi verið að greiða inn á lánið að lágmarki 100.000 Bandaríkjadali í hvert skipti. Samkvæmt 14. gr. samningsins hafi lántaki veitti lánveitanda heimild til að skuldfæra afborganir af tilteknum reikningi lántaka sem hafi verið tékkareikningur í íslenskum krónum.
Í 13. gr. samningsins sé kveðið á um þóknanir og kostnað lántaka af gerð samningsins sem hafi verið óháður því hvort hin samningsbundna fjárhæð yrði greidd lántaka eða ekki. Hafi því verið um að ræða þóknun SPRON af rammasamningnum.
Framangreind ákvæði samningsins séu öll í samræmi við það að með samningnum hafi stefnandi fengið lántökuheimild hjá SPRON, gjarnan nefnt lánalína. Samningurinn sem slíkur sé því ekki lánssamningur í hefðbundnum skilningi. Um sé að ræða rammasamning sem hafi falið í sér skuldbindingu af hálfu SPRON til að veita stefnanda lánafyrirgreiðslu að hámarki 100 milljónir í íslenskum krónum eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðli ef stefnandi kysi að lánið yrði í erlendri mynt. Hin eiginlega lántaka hafi síðan farið fram þegar stefnandi hafi óskað eftir því að nýta sér þá heimild sem samið hafi verið um. Hver „nýting“ lánsheimildar samkvæmt rammasamningnum sé skilgreind sem sjálfstætt lán. Samkvæmt 1. gr. samningsins hafi verið gert ráð fyrir því að stefnandi gæti tekið fleiri en eitt lán á grundvelli heimildar sinnar og hafi því verið gert ráð fyrir því að til fleiri en eins sjálfstæðs láns gæti stofnast á grundvelli rammasamningsins.
Rammasamningurinn hafi því ekki að geyma skuldaviðurkenningu í íslenskum krónum eins og haldið sé fram í stefnu málsins. Rammasamningurinn geymi hvorki yfirlýsingu stefnanda um að hann standi í tiltekinni skuld við SPRON né hafi hann myndað kröfuréttindi SPRON, nú stefnda, á hendur stefnanda. Samkvæmt meginreglum kröfuréttar sé krafa lögvarin heimild aðila til þess að krefjast þess af öðrum aðila að hann geri eitthvað eða láti eitthvað ógert. Það sé augljóst skilyrði þess að samningur verði talinn lánssamningur, þannig að kröfuhafi geti byggt á honum kröfuréttindi á hendur skuldara, að hann feli í sér skuldaviðurkenningu af hálfu skuldarans. Samkvæmt meginreglum samningaréttar beri að líta til efnis samnings en ekki forms eða fyrirsagnar við túlkun hans.
Með vísan til framangreinds beri að líta til útborgunarbeiðni lánsins við úrlausn málsins. Samkvæmt 2. gr. rammasamningsins hafi skylda sparisjóðsins að greiða út hina samningsbundnu fjárhæð verið háð því skilyrði að sparisjóðnum hefði eigi síðar en fimm virkum dögum fyrir útborgunardag lánsins borist slík beiðni ella félli skuldbinding SPRON niður, sbr. 3. gr. samningsins.
Hinn 6. ágúst 2004 hafi stefnandi óskað eftir því að lánsfjárhæðin yrði greidd út. Í beiðninni segi að lántaki vilji „taka út fjárhæðina ISK 100.000.000 í eftirfarandi gjaldmiðlum: SEK: 1066.670
CHF: 446.270
JPY: 54.415.420
EUR: 347.780“
Samkvæmt beiðninni hafi þess verið óskað að lánsfjárhæðin yrði lögð inn á tékkareikning í íslenskum krónum og hafi það verið gert í kjölfarið.
Í útborgunarbeiðninni séu fjárhæðir hinna erlendu mynta tilgreindar og ráði það niðurstöðu um það í hvaða mynt lánsfjárhæðin hafi verið ákveðin. Rammasamningurinn hafi verið um lántökuheimild að heildarfjárhæð 100.000.000 króna eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðli og hafi stefnanda því verið frjálst að óska eftir láni í íslenskum krónum eða öðrum gjaldmiðlum allt að jafngildi 100 milljóna króna að því gefnu að SPRON hefði aðgang að myntinni og hún væri skráð hjá Seðlabanka Íslands.
Útborgunarbeiðnin sé því skuldaviðurkenning stefnanda í málinu þar sem hann óski með skýrum hætti eftir láni í erlendri mynt. Þar séu fjárhæðir hinna erlendu mynta lánsins skýrlega tilgreindar í sænskum krónum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum. Því hafi ekki stofnast til skuldbindingar stefnanda fyrr en með undirritun hans á útborgunarbeiðnina, enda ljóst af rammasamningnum að engin fjárkrafa hafi verið til staðar, eða kröfuréttarsamband, fyrr en útborgunarbeiðnin hafi verið útfyllt og andvirði lánsins í kjölfarið greitt stefnanda.
Ákvæði rammasamningsins séu í fullu samræmi við það að lánið sé í erlendri mynt. Í 11. gr. samningsins sé sérstakur fyrirvari vegna endurfjármögnunar sparisjóðsins þess efnis að ef sparisjóðnum bjóðist ekki endurfjármögnun á þeim kjörum sem geri honum kleift að endurlána lánsfjárhæðina í sama gjaldmiðli eða á sama vaxtagrundvelli skuli tilkynna lántaka það og bjóða honum önnur lánskjör.
Í dómum Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í málum sem varði skilsmun á lögmætum lánum í erlendri mynt og lánum í íslenskum krónum, sem bundin eru gengistryggingu með ólögmætum hætti, hafi myndast skýrar reglur um hvaða atriði ráði niðurstöðu um hvort um lögmætt erlend lán sé að ræða eða ekki. Hafi Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta lánssamnings þar sem skuldbindingunni sé lýst, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 391/2013. Í því sambandi hafi lykilþýðingu í hvaða mynt lánsfjárhæð sé ákveðin og tilgreind í skuldaskjalinu, sbr. dóm Hæstaréttar frá 23. nóvember 2011 í máli nr. 551/2011.
Af dómaframkvæmd megi draga þá skýru meginreglu að ef lánsfjárhæð er ákveðin og tilgreind í erlendri mynt í skuldaskjali sé um lögmætt erlent lán að ræða og skipti þá engu hvort vísað sé til jafnvirðis fjárhæðar í íslenskum krónum eða ekki, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 446/2013.
Önnur gögn sem liggi fyrir í málinu taki og af allan vafa um að lán stefnanda hafi verið í erlendri mynt og hafi stefnandi mátt vita að lán hans hafi verið í erlendri mynt. Framalagðar greiðslukvittanir vegna lánsins gefi glöggt til kynna að lánið hafi verið í erlendum myntum. Þannig sé þar afborgunarfjárhæð lánsins tilgreind í hverri af hinum fjórum erlendu myntum, sundurgreint í afborgun af höfuðstól og vexti. Þá sé LIBOR-vaxta getið sem og eftirstöðva höfuðstóls í hverri mynt eftir greiðslu. Í kvittununum sé svo einnig getið gjaldeyrisviðskipta, þar sem greitt hafi verið af láninu í íslenskum krónum og myntgengis getið.
Í þeim þremur viðaukum sem gerir hafi verið við rammasamninginn sé lánsfjárhæðin annaðhvort tilgreind í erlendum myntum lánsins eða jafnvirði hennar í íslenskum krónum. Með undirritun skilmálabreytinganna hafi stefnandi staðfest að lánin væru í erlendri mynt.
Stefndi hafnar því að grein 13.1.1 í rammasamningnum styðji þann málatilbúnað stefnanda að lánið sé í íslenskum krónum. Í 13. gr. samningsins sé kveðið á um þóknanir, kostnað og gjöld lántaka af samningsgerðinni. Samkvæmt greininni sé umsýsluþóknun 75 grunnpunktar eða 750.000 krónur og er þar kveðið á um að kostnaður lántaka sé óafturkræfur þótt lánið verði ekki veitt. Samkvæmt þessu sé ljóst að umsýsluþóknunin hafi verið kostnaður stefnanda við að fá lántökuheimild hjá SPRON og eðlilegt, og í samræmi við það sem tíðkist þegar samið sé um lánalínu, að kostnaðurinn taki mið af heildarfjárhæð lántökuheimildarinnar í íslenskum krónum, en eins og áður greini hafi stefnanda verið frjálst að taka lán í erlendum myntum eins og hann hafi gert.
Ákvæði í grein 5.2 í rammasamningnum um áhættu af gengissveiflum hafi þann eina tilgang að vekja athygli lántakenda á því að skuld þeirra á hverjum tíma, umreiknuð í íslenskar krónur, geti orðið hærri en upphafleg viðmiðunarfjárhæð eða jafnvirðisfjárhæð lánsins í íslenskum krónum. Þessi áhætta sé vitaskuld aðeins raunveruleg fyrir þá lántakendur sem hafi tekjur sínar í íslenskum krónum og kjósi að greiða af lánum sínum með íslenskum krónum, eins og stefnandi hafi gert. Umrætt ákvæði breyti því hins vegar ekki í hvaða mynt skuldbinding lántaka sé.
Það leiði af dómaframkvæmd Hæstaréttar að svonefndar aðalskyldur aðila, þ.e. í hvaða mynt lánsfjárhæð hafi verið greidd lánveitanda eða í hvaða mynt lánið yrði endurgreitt, hafi enga þýðingu í málum þar sem lánsfjárhæð sé tilgreind í erlendum myntum láns í skuldaskjali, sbr. einkum dóma Hæstaréttar frá 2. maí 2013 í máli nr. 715/2012 og 5. desember 2013 í máli nr. 446/2013. Hafi það því enga þýðingu fyrir úrlausn málsins þótt lánsfjárhæðin hafi verið greidd stefnanda í íslenskum krónum eða að hann hafi kosið að greiða af láninu með íslenskum krónum. Stefnanda hafi verið frjálst, eins og öðrum lántökum hjá SPRON, að fá andvirði lánsins greitt í hinum erlendu myntum lánsins eða greiða af því með erlendum gjaldeyri.
Stefndi bendir einnig á að vextir af láninu hafi verið svokallaðir LIBOR-vextir, sem óumdeilt sé að aðeins geti átt við þegar um lán í erlendri mynt sé að ræða, enda hafi LIBOR-vextir aldrei verið skráðir á íslenskar krónur.
Stefndi hafnar því að handveðsyfirlýsing hafi einhverja þýðingu fyrir úrlausn málsins, enda verði að líta til samnings aðila og annarra skuldaskjala við úrlausn þess. Hæstiréttur hafi auk þess hafnað því að veðsetningar hafi einhverja þýðingu við túlkun skuldaskjala í málum sem þessum.
Stefndi hafnar því og að endurreikningur Arion banka hf. á láninu, f.h. Dróma hf., dagsettur 31. janúar 2012, hafi einhverja þýðingu fyrir úrlausn málsins. Eins og rakið sé í stefnu hafi stefnandi hafnað endurreikningnum og því hafi samningssamband aldrei komist á milli aðila á grundvelli hans. Þá hafi stefnandi aldrei verið krafinn um greiðslur af láninu á grundvelli hans. Allir endurreikningar Dróma hf. hafi verið bundnir skilyrðum og forsendum, m.a. um að þeir væru samþykktir af viðkomandi lántökum, að undirrituð yrðu ný lánsskjöl o.s.frv. Endurreikningurinn hafi því aldrei gengið eftir, enda hafi lán stefnanda aldrei lækkað á grundvelli hans, heldur hafi stefnandi ávallt greitt af láninu eins og um erlent lán væri að ræða. Þá hafi endurreikningurinn verið afturkallaður af hálfu Dróma hf.
Stefndi gerir ekki athugasemdir við útreikning stefnanda á eftirstöðvum lánsins miðað við 5. júní 2014, fallist dómurinn á kröfur hans um að skuldbindingin sé í íslenskum krónum gengistryggð í andstöðu við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort lán sem stefnandi tók hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, SPRON, feli í sér að lánið sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þegar það er metið verður að gæta að því að ekki var um lánssamning að ræða, heldur var hann samkvæmt efni sínu um svokallaðan rammasamning. Í 1. gr. hans, þar sem kveðið er á um efni samningsins, segir að samningurinn sé rammasamningur og með honum sé kveðið á um skilmála lántökuheimildar sem Sparisjóðurinn veiti lántakanda að heildarfjárhæð 100.000.000 króna eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðli sem Sparisjóðurinn hefur aðgang að. Þá kemur þar fram að um sé að ræða heildarfjárhæð sem lántökuheimildir lántakanda takmarkist við. Hvorki var í samningnum að finna yfirlýsingu stefnanda um að hann stæði í skuld við sparisjóðinn né myndaði hann kröfuréttindi sparisjóðsins á hendur stefnanda, heldur setti samningurinn aðeins ramma um lánsviðskipti milli þeirra, m.a. með ákvæðum um útborgun hugsanlegs láns samkvæmt ósk stefnanda, endurgreiðslu þess og vexti af því, ef til þess kæmi að stefnandi léti reyna á rétt sinn til að taka lán á grundvelli samningsins. Í þessu ljósi getur það eitt út af fyrir sig ekki skipt máli að heildarumfang viðskiptanna hafi verið afmarkað í samningnum með tilgreiningu á jafngildi fjárhæðar í íslenskum krónum. Verður því að líta svo á að í raun hafi stofnast til skuldbindingar um greiðslu lánsfjár og endurgreiðslu með undirritun stefnanda á beiðni um útborgun og útborgun þess. Í þeirri beiðni er fjárhæð skuldarinnar skýrlega tilgreind í fjórum erlendum myntum. Þá voru þeir gjaldmiðlar og fjárhæð þeirra sundurliðuð á staðfestingu sparisjóðsins um lánveitinguna. Engin breyting varð á tilgreiningu skuldarinnar að þessu leyti þegar skilmálum lánssamningsins var síðar breytt, en þær skilmálabreytingar lutu ekki að breytingu á eðli skuldbindingarinnar. Verður ekki fallist á það með stefnanda að önnur ákvæði rammasamningsins séu í ósamræmi við það að lánið hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðlum, en sú niðurstaða verður hvorki ráðin af ákvæði rammasamningsins um áhættu af gengissveiflum né því að stefnandi óskaði eftir því að lánið yrði greitt út í íslenskum krónum og greiddi af láninu í íslenskum krónum. Þegar framangreint er virt verður lagt til grundvallar að stefnanda hafi verið veitt gilt lán í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum. Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Eftir þessum málsúrslitum verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Hilda ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Efnissölu G.E. Jóhannssonar hf.
Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.